Hæstiréttur íslands

Mál nr. 550/2011


Lykilorð

  • Samningur
  • Uppgjör
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 26. apríl 2012.

Nr. 550/2011.

Byggingafélag námsmanna ses.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Þverási ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

Samningur. Uppgjör. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.

Þ ehf. höfðaði mál gegn B ses. og krafðist greiðslu tveggja reikninga vegna byggingaframkvæmda. Meðan á framkvæmdum stóð hafði B ses. lýst því yfir að hún  teldi sig ekki bundna af þeim samningum sem Þ ehf. taldi vera í gildi milli aðila. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í kjölfar orðsendinga aðila hefði verið orðið ljóst að ekki yrði af frekari vinnu Þ ehf. við verkið í þágu B ses. Þá hefði fjárhagslegt uppgjör milli aðila hlotið að hafa átt að taka mið af því hvað unnið hefði verið af verkinu og samningum sem teldust hafa verið í gildi um það. Þar sem dómkrafa Þ ehf. var ekki byggð á slíku uppgjöri, auk þess sem hún var að hluta til vanreifuð, var henni vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. október 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi sendi áfrýjanda símskeyti 17. apríl 2008 þar sem tilkynnt var að stefndi myndi „hætta allri vinnu við byggingar í Einholti/Þverholti í dagslok 18. apríl 2008, nema útistandandi reikningar verði greiddir og fram komi yfirlýsing frá BN um að það muni efna samninga sína við Þverás ehf. um verkið.“ Áfrýjandi svaraði símskeytinu með bréfi 18. apríl 2008. Þar var meðal annars tekið fram að áfrýjandi teldi sig ekki bundinn af þeim samningum sem stefndi teldi vera í gildi um uppbyggingu á svæðinu. Ekki yrðu gefnar yfirlýsingar af því tagi sem stefndi hefði óskað eftir. Var í bréfinu óskað eftir „að aðilar ræði nú þegar skil á verkinu og þá bæði hvað varðar stöðu framkvæmda og fjárhagslegt uppgjör, án tillits til þess ágreinings sem uppi er um réttarstöðu aðila samkvæmt samningunum.“

Eftir að málsaðilar höfðu skipst á þessum orðsendingum var orðið ljóst að ekki yrði af frekari vinnu stefnda við umrætt verk í þágu áfrýjanda. Við svo búið hlaut fjárhagslegt uppgjör milli aðila að taka mið af því hvað unnið hefði verið af samningsverkinu og hvernig gera bæri upp samkvæmt samningum sem í gildi teldust hafa verið um verkið, þó að aðilar deildu raunar einnig um hvernig þeim væri háttað. Í stað þess að byggja kröfu á hendur áfrýjanda á sjónarmiðum um þetta kaus stefndi að krefja hann um greiðslu tveggja reikninga sem út höfðu verið gefnir 18. mars 2008 og voru að hluta en þó ekki að öllu leyti byggðir á samningi 12. apríl 2006 um gjalddaga á greiðslum frá áfrýjanda. Var þar annars vegar um að ræða reikning að fjárhæð 98.027.590 krónur sem sagður var vera fyrir 13,9% af hönnunarþætti samningsins, án þess að með fylgdu skýringar á hvernig það hlutfall væri fundið. Hins vegar var reikningur að fjárhæð 32.138.206 krónur sem var sagður fela í sér innágreiðslu á uppbyggingarhluta samnings aðila. Samtals nam dómkrafa stefnda sem tekin var til greina í hinum áfrýjaða dómi þannig 130.165.796 krónum.

Talið verður að krafa stefnda á hendur áfrýjanda hafi ekki verið reist á þeim sjónarmiðum sem gilda eiga um uppgjör milli aðila vegna þess verks sem um ræðir í málinu. Þá er krafan að hluta til vanreifuð þar sem ekki er að öllu leyti gerð grein fyrir forsendum hennar. Samkvæmt þessu verður kröfu stefnda vísað frá héraðsdómi og stefnda með vísan til 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Þverás ehf., greiði áfrýjanda, Byggingafélagi námsmanna ses., samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. júní sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Þverási ehf., Brúnastöðum 73, Reykjavík á hendur Byggingafélagi námsmanna ses., Háteigsvegi 7, Reykjavík með stefnu áritaðri um birtingu 15. júní 2009.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, verði dæmt til að greiða stefnanda 130.165.796  krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 130.165.796 krónum frá 25. mars 2008 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar. 

Dómkröfur stefnda eru þær að stefnda verði sýknað af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefnda þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar.  Í báðum tilvikum gerir stefnda kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.

II

Málavextir eru þeir að samstarf aðila hófst á árinu 2001.  Forveri stefnda, Byggingafélag námsmanna, var þá að láta byggja fyrir sig námsmannaíbúðir að Háteigsvegi 33, Reykjavík.  Byggingaraðilinn varð gjaldþrota og samdi þá Byggingafélag námsmanna við fyrirsvarsmann stefnanda um að ganga inn í verkið og ljúka því.  Eftir þetta hefur fyrirsvarsmaður stefnanda byggt fyrir stefnda og forvera þess, námsmannaíbúðir á Háteigsvegi 31, Reykjavík, Naustabryggju 9 og 11, Reykjavík, Kristnibraut 91 og 93, Reykjavík, Laugarbraut 1 og 5 Laugarvatni og Skipholti 50 e og f, Reykjavík, auk íbúða við Klausturstíg og Kapellustíg í Hafnarfirði og Bjarkarvelli 5, Hafnarfirði.

Á árinu 2004 keypti stefnandi fasteignina Þverholt 15, Reykjavík, sem var gamalt prentsmiðjuhús og bauð síðan Byggingafélagi námsmanna fasteignina til kaups og var gengið frá kaup- og verksamningi, dagsettum 5. janúar 2005, um uppbyggingu á nemendaíbúðum á lóðinni.  Fljótlega kom fram ósk frá Byggingafélagi námsmanna um að einnig yrði reynt að kaupa fasteignina Þverholt 15a, Reykjavík.  Stefnandi kveðst hafa farið í það að reyna að fá fasteignina Þverholt 15a, Reykjavík, keypta.  Það hafi tekið alllangan tíma, en tekist að  lokum.  Í framhaldi af því gerðu aðilar með sér kaup- og verksamning, dagsettan 13. apríl 2005, um byggingu á átta hæða fjöleignahúsi með 62 íbúðum á lóðunum nr. 15 og 15a við Þverholt sem kom í stað samningsins frá 5. janúar 2005.

Stefnandi kveður að enn hafi Byggingafélag námsmanna viljað byggja stærra og hafi niðurstaðan orðið sú að stefnandi hafi farið í viðræður um kaup á lóðunum Þverholti 17, Þverholti 19, Þverholti 19-21, Einholti 6 og Einholti 8, Reykjavík, sem voru í eigu Mænis fasteigna ehf.  Samningar tókust og stofnaði Mænir fasteignir ehf. einkahlutafélagið Nýholt ehf., um eignirnar og seldi stefnanda félagið.  Stefnandi seldi svo Byggingafélagi námsmanna Nýholt ehf. hinn 20. mars 2006 á sama verði og hann hafði keypt það af Mæni fasteignum ehf.

Sama dag var undirritaður samningur á milli stefnanda og Nýholts ehf., sem þá var komið í eigu Byggingafélags námsmanna, um niðurrif og uppbyggingu á byggingareitnum Einholti 6 og 8 og Þverholti 17–21, Reykjavík.  Samningur þessi var saminn af og er vottaður af lögmanni Byggingafélags námsmanna, Garðari  G. Gíslasyni hdl. 

Stefndi tók svo ákvörðun um að slíta Nýholti ehf. og hinn 12. apríl 2006 var gerður nánast samhljóða samningur um niðurrif og uppbyggingu á byggingareitnum Einholti 6 og 8 og Þverholti 17–21, Reykjavík milli stefnanda og Byggingafélags námsmanna, sem kom í stað samningsins frá 20. mars 2006.  Sá samningur var saminn af þáverandi lögmanni Byggingafélags námsmanna, Sjöfn Kristjánsdóttur hdl og vottaður af Sigurði Guðmundssyni og Regínu Þorvaldsdóttur sem bæði voru starfsmenn Byggingafélags námsmanna.  Þar var samið um að skipta verkinu í fimm hluta eftir húsnúmerum, Einholt 6, Einholt 8, Þverholt 17, Þverholt 19 og Þverholt 19-21.  Heildarverði var svo þar að auki skipt í þrjá hluta, niðurrifshluta, hönnunarhluta og uppbyggingarhluta.  Greiðslum innan hvers hluta var svo skipt í tvær til tíu greiðslur.  Upphafsgreiðsla í uppbyggingarhluta var 1% af heildarverði.  Var það gert að kröfu Byggingafélags námsmanna.

Enn á ný vildi Byggingafélag námsmanna byggja meira og stærra og fól stefnanda nú að reyna að komast yfir lóðina Háteigsveg 7, Reykjavík.  Í framhaldi af því stóð til að gera heildarsamning milli stefnanda og Byggingafélags námsmanna um niðurrif og uppbyggingu námsmannaíbúða á byggingareitum Þverholti 15, Þverholti 15a, samningur, dagsettur 13. apríl 2005, Þverholti 17, Þverholti 19, Þverholti 19-21, Einholti 6 og Einholti 8, samningur, dagsettur 12. apríl 2006

Hinn 8. desember 2006 var stefnandi kominn með samþykkt kauptilboð í Háteigsveg 7, Reykjavík og í framhaldi af því var gengið frá kaupum á lóðinni, sem undirritað er af allri stjórn Byggingafélags námsmanna.

Það dróst að gengið yrði frá heildarsamningnum m.a. vegna þess að stefndi yfirtók öll réttindi og skyldur Byggingafélags námsmanna gagnvart stefnanda.  Frá þessum heildasamningi hefur raunar aldrei verið gengið.  Stefnandi kveður að þar sem hann hafði unnið fyrir stefnda og þar áður Byggingafélag námsmanna í fjölda ára og byggt flestar þær íbúðir, er stefndi er með í útleigu, hafi á þessum tíma ríkt fullkomið traust á milli aðila.  Ekki hafi því skipti höfuðmáli þótt endanlegur heildarsamningur væri ógerður, þegar í fyrri samningum hafði verið samið um einingaverð, afhendingarástand og önnur þau atriði er skiptu máli.  Endanlegt heildarverð hafi því eingöngu ráðist af því byggingarmagni, sem leyft yrði að byggja á Einholts/Þverholts-reitum.

Hinn 19. janúar 2007, eftir að lóðin Háteigsvegur 7, Reykjavík hafði verið keypt, gerði stefnandi með vitund og vilja stefnda „Hönnunarsamning um alhönnun á BN-campus“.  Samningurinn var gerður við Arkís ehf. og var um að ræða fullhönnun á fullbúnum stúdentaíbúðum, auk sameignar, og á fullbúnum söluíbúðum fyrir almennan markað, auk sameignar, á lóðunum Þverholti 15, Þverholti 15a, Þverholti 17-19, Einholti 6-8 og Háteigsvegi 7.  Sama dag undirrituðu Byggingafélag námsmanna og Arkís ehf. „Samkomulag um tilhögun kostnaðarhlutfalls um brunahönnun og öryggis- og aðgangsstýringarkerfis vegna BN-Campus“.

Arkís ehf. hófst svo handa fyrir Byggingafélag námsmanna við að teikna nýtt deiliskipulag á byggingareitnum sem auglýst var í B-deild stjórnartíðinda hinn 29. nóvember 2007 og samþykkt í febrúar 2008.

Jafnframt hófst Arkís ehf. handa við hönnun íbúðanna og lágu frumdrög fyrir 30. maí 2007.

Stefnandi girti af allt byggingarsvæðið vorið 2007 og hóf hinn 4. maí 2007 niðurrif þeirra húsa sem á reitnum voru.  Uppgröftur grunns hófst hinn 3. janúar 2008 með fyrstu sprengingu.

Í desember 2007 var stefnandi boðaður á fund og þar beðinn að undirrita „Yfirlýsingu og viðauka“.  Aðilar voru þó sammála um, samkvæmt því skjali, að „verktaki, Þverás ehf., héldi fram með samningsverkefni sín, eins og þau stæðu þá, þ.e. jarðvinnuþátt og alhönnun.

Hinn 23. desember 2007 barst stefnanda í pósti „Afsögn verktaka“ , þar sem stefnandi átti að segja sig frá samningi við Nýholt, dagsettum 20. mars 2006.  Stefnandi kveður þann samning ekki hafa verið í gildi því nýr hafi verið gerður við Byggingafélag námsmanna hinn 12. apríl 2006.  Í febrúar 2008 barst stefnanda „Samkomulag“.

Stefnda greiddi alla reikninga sem stefnandi sendi og á fundum stýrihóps, sem myndaður hafði verið um verkið, komu aldrei fram athugasemdir.  Það var fyrst í mars 2008 þegar stefnandi sendi reikninga þá sem mál þetta er höfðað til greiðslu á, að reikningarnir voru ekki greiddir, heldur barst stefnanda bréf, sem undirritað er af stjórn stefnda.  Þar segir: „Við athugun á málinu hafa komið í ljós atvik sem leiða til þess að Byggingafélagið telur sig ekki skuldbundið af umræddum löggerningi eins og hann virðist liggja fyrir“.  Enn og aftur er vísað í samning stefnanda við Nýholt ehf., en ekki samning stefnda við Byggingafélag námsmanna, en stefnda tók yfir öll réttindi og skyldur Byggingafélags námsmanna.  Lögmaður stefnanda mótmælti samdægurs þessu bréfi stefnda með símskeyti.   Fyrirsvarsmaður stefnanda og lögmaður stefnanda áttu fund með stefnda 10. apríl 2008, en stefnandi kveður engar skýringar hafa komið fram á þeim fundi, um það hvers vegna stefnda teldi sig ekki bundið af samningum aðila.   Ekki hafi heldur komið fram neinar skýringar í bréfi sem framkvæmdastjóri stefnda hafi sent að fundinum loknum, en boðað var að nánari grein yrði gerð fyrir afstöðu stefnda innan nokkurra daga.  Stefnandi kveður þá að „nánari grein“ fyrir afstöðu stefnda hafi aldrei verið gerð.

Að undangenginni áskorun sendi lögmaður stefnanda símskeyti, dagsett 17. apríl 2008, þar sem því var lýst yfir að stefnandi myndi stöðva framkvæmdir sínar á Einholts/Þverholts-reit nema útistandandi reikningar yrðu greiddir.  Því bréfi var svarað af tveimur lögmönnum, Jóhannesi Karli Sveinssyni hrl. og Birni Þorra Viktorssyni hrl. 

Stefnandi kveður að þegar hann hafi orðið að stöðva verkið vegna vanefnda stefnda hafi niðurrifshluta verið lokið og búið að grafa fyrir fjórum af fimm hlutum verksins.   Stefnandi hafi þó aðeins gefið út reikninga vegna tveggja hluta, 13.567.152 krónur x 2.  Ekki hafi verið gefinn út reikningur vegna hinna tveggja sem lokið var.

Samningsaðili stefnanda við verkframkvæmdina að Einholti-Þverholti var fyrirrennari stefnda, Byggingafélag námsmanna.  Félagið var í raun almennt félag en uppbygging þess var í samræmi við sjálfseignarstofnanir, t.a.m. kom fram í 1. gr. samþykkta þess að félagið væri sjálfseignarstofnun. Í byrjun árs 2007 var svo hið stefnda félag sett á laggirnar sem sjálfseignarstofnun og tók það yfir réttindi og skyldur Byggingafélags námsmanna.

Stjórn Byggingafélags námsmanna var annars vegar skipuð af BÍSN, tveir stjórnarmenn, og hins vegar þremur mönnum kjörnum á aðalfundi.  Að öðru leyti gilti um stjórnskipan félagsins eins og almennt tíðkast um stjórnir fyrirtækja.  Í samþykktum félagsins var ekki gert ráð fyrir framkvæmdastjóra.  Samþykktirnar og svokölluð „lög“ félagsins voru samþykkt á fulltrúafundi þann 27. apríl 2004 og giltu þar til stefnda var stofnað og yfirtók rekstur Byggingafélags námsmanna.  

Stefnda kveður samningsgerð vegna framkvæmdanna að Einholts/Þverholts-reitnum mega rekja allt til 5. janúar 2005.  Þá hafi verið gerður samningur sem undirritaður var af stjórn Byggingafélags námsmanna á fyrsta stjórnarfundi ársins 2005.  Þar kom fram að undirritaður sé samningur að fjárhæð 478.000.000 krónur.  Á næstu stjórnarfundum var framkvæmdin rædd og á 5. fundi ársins kom fram að nýr kaupsamningur væri til meðferðar vegna Þverholts 15 og 15 a að fjárhæð 784.700.000 krónur.  Ekkert hafi annað komið fram en að um væri að ræða kaup og verksamning, þannig að Byggingafélag námsamanna fengi fullbúnar fasteignir fyrir samningsfjárhæðina. Gangur undirbúningsvinnu fyrir framkvæmdirnar hafi svo verið ræddur lauslega á næstu fundum.

Á stjórnarfundi hinn 1. febrúar 2005 hafi verið kynntar nýjar hugmyndir fyrir stjórn Byggingafélags námsamanna.  Þessar hugmyndir hafi verið lagðar fram af Friðriki Guðmundssyni, framkvæmdastjóra félagsins, Þórhalla Einarssyni, fyrirsvarsmanni stefnanda, og Benedikt Magnússyni, stjórnarformanni Byggingafélags námsmanna.  Á fundinum hafi líka komið fram að líklega gæti Þórhalli keypt lóðirnar Einholt 6 og 8 og Þverholt 17, 19 og 21 og selt Byggingafélaginu fullbúnar íbúðir á 285.000 kr./m2.  Þar með talið lóðarverð.  Fram hafi komið að Ofnasmiðjan væri líka til í að selja Háteigsveg 7, en verðið væri of hátt, um 100.000 krónur á hvern byggjanlegan m2.  Á fundinum hafi verið lögð fram kynningargögn frá formanni Byggingafélags námsmanna.  Samkvæmt kynningargögnunum hafi verið gert ráð fyrir 21.050 m2 brúttó flatarmáli og kaupverði 5.999.250.000 krónur.  Með öðrum orðum hafi stjórninni verið kynnt að heildarverð fullbúinna fasteigna, um 21 þúsund fermetra, væri tæpir 6 milljarðar, sem sé um 285 þúsund krónur á hvern fermetra.

Á næsta stjórnarfundi nr. 3, hinn 15. febrúar 2006, hafi komið fram að þáverandi eigandi lóðanna að Einholti og Þverholti hafi gert sölugagntilboð að fjárhæð 2,2 milljarðar, og hafi þá enn verið talað um heildarkostnað að fjárhæð 5,9 milljarðar.  Jafnframt hafi komið fram að til að verktakinn yrði sáttur yrði hann að fá 300.000 krónur fyrir hvern fermetra.  Eins og dæmið hafi verið borið undir stjórn hafi því heildarkostnaður verið á bilinu 285–300 þúsund kr./m2 með öllu og áætlaður heildarkostnaður með öllu sé 7.440.000.000 króna, þar með talinn vaxtakostnaður, lántökukostnaður o.fl.

Samkvæmt 4. stjórnarfundargerð, dagsettri 1. mars 2006, komi fram að stjórn Byggingafélags námsmanna hafi samþykkt að gera kaupsamning við Þórhalla, fyrirsvarsmann stefnanda, um uppkaup, niðurrif og uppbyggingu stúdentagarða, söluíbúða og atvinnuhúsnæðis á byggingareitnum Einholt/Þverholt, u.þ.b. 21.050 m2 að fjárhæð 6.990.000.000 króna.  Stefnda kveður að með því hafi væntanlega verið að koma til móts við stefnanda vegna hærra kaupverðs lóða en gert hafi verið ráð fyrir áður.  Á þessum forsendum hafi stjórn Byggingafélags námsmanna gefið framkvæmdastjóra umboð til að undirrita öll nauðsynleg skjöl  og samninga er varði fjárfestingu á tilteknum eignum, Þverholti 17, 19 og 19-21 og Einholti 6 og 8.  Á fundinum hafi verið lagðir fram útreikningar að framkvæmdunum að fjárhæð 6.990.000.000 króna.  Einnig hafi verið lagður fram tölvupóstur frá 21. febrúar 2006 þar sem Landsbanki staðfesti að hann væri tilbúinn að fjármagna framkvæmdirnar og í upphafi verði tekið 2,2 milljarða króna tryggingabréf sem þinglýsa skuli á alla eignarhluta.

Hinn 20. mars 2006 hafi verið undirritaðir þrír samningar.  Þessir samningar hafi aldrei verið kynntir í stjórn og þaðan af síður samþykktir formlega á stjórnarfundi.  Á stjórnarfundum komi fram að Sjöfn Kristjánsdóttir hdl. lögmaður félagsins væri að aðstoða Byggingafélagið við samningsgerð.  Sá samningur sem Sjöfn hafi talið að ætti að nota sé á dskj. nr. 44., eins og fram komi í minnisblaði hennar, dagsettu 6. febrúar 2008.

Á 5. stjórnarfundi, hinn 29. mars 2006 hafi það verið kynnt að gerður hafi verið samningur um uppkaup á byggingareit en ekki hafi verið greint frá fjárhæð þess samnings.  Þá kom fram að unnið væri að gerð framkvæmdarsamnings.  Stefnda kveður stjórnina hafa staðið í þeirri trú að tiltekið kaupsamningsverð yrði dregið frá 6,9 milljarða króna samningsverðinu miðað við fyrri kynningu.

Hinn 3. apríl 2006 hafi Landsbankinn gefið út fjármögnunaryfirlýsingu um að hann muni fjármagna heildarkostnað verksins í samræmi við áætlun Byggingafélagsins, að fjárhæð 7.440.000.000 króna.  Samkvæmt yfirlýsingunni hafi verið miðað við 25.550 m2 og því hafi Þverholt 15 og 15a verið hluti af kostnaðaráætluninni. Þá hafi, samkvæmt fjármögnunaryfirlýsingunni einnig verið gert ráð fyrir öllum öðrum kostnaði, s.s. aukaverkum, opinberum gjöldum, vaxta- og lántökukostnaði o.fl.

Stefnda kveður að á 8. stjórnarfundi 28. júní 2006 hafi fyrst komið fram að Byggingafélag námsmanna hafi keypt Nýholt af Þverási, en samkvæmt stefnu málsins eigi það að hafa gerst hinn 20. mars 2006, en samkvæmt gögnum málsins hafi Þórhalli Einarsson verið stjórnarmaður frá 22. mars 2006 til 28. júní 2006.

Á 14. stjórnarfundi hinn 13. desember 2006 hafi komið fram að búið væri að samþykkja kauptilboð Byggingafélags námsmanna í Háteigsveg 7 að fjárhæð 340.000.000 króna.

Á vormánuðum 2007 hafi verið unnið að breytingu Byggingafélags námsmanna yfir í Byggingafélag námsmanna ses., sem er stefnda.  Samþykktir hins nýja félags hafi verið samþykktar hinn 28. febrúar 2007.

Á 7. stjórnarfundi hinn 30. maí 2007 hafi síðan meintur heildarsamningur verið kynntur fyrir stjórn þar sem búið hafi verið að bæta við Háteigsvegi 7.  Á fundinum hafi komið fram að endanlegt verð sé áætlað um það bil 11,5 milljarðar, framkvæmdarkostnaður sé áætlaður 9 milljarðar og lóðakaup 2,5 milljarðar.  Stjórnarmenn hafi ákveðið að samþykkja ekki þennan samning enda hafi hann verið kominn langt út fyrir það sem þeir hafi talið eðlilegt og þeim hafi verið tilkynnt.  Engu að síður hafi samningurinn verið kynntur þannig að lóðaverðið hafi greinilega átt að vera innifalið í verði framkvæmdanna.

Á 8. stjórnarfundi hinn 6. júní 2007 hafi stjórnarmenn óskað eftir því að fengnir yrðu óháðir aðilar til að meta eðlilegan framkvæmdarkostnað.

Á 13. stjórnarfundi hinn 14. nóvember 2007 komi fram að nær allir stjórnarmenn auk framkvæmdarstjóra hafi skilið málið þannig frá upphafi að lóðaverð væri hluti af umsaminni fjárhæð, þ.e.a.s. 300 þús. kr./m2.

Stefnda kveður að á þessum tíma hafi stjórnarmenn verið farið að gruna að ekki væri allt með felldu. Þeir hafi talið ljóst, miðað við þann samning sem lagður hafi verið fram sem heildarsamningur, að verið væri að semja um óeðlilega hátt verð við stefnanda.  Í kjölfarið hafi komið upp fleiri málefni um tengingu og samskipti stjórnarformannsins Benedikts Magnússonar, stefnanda Þórhalla Einarssonar, stjórnarmannsins Stefáns Álfssonar og framkvæmdarstjórans Friðriks Guðmundssonar.  Í kjölfarið hafi umræddir menn hætt störfum fyrir félagið og stefnandi hætt framkvæmdum að Einholti-Þverholti.

Stefnda kveður að vegna þessara aðstæðna hafi eftirstandandi stjórnarmenn óskað eftir því við VSÓ -ráðgjöf að stofan gerði kostnaðaráætlun fyrir þær framkvæmdir sem unnið hafi verið að á byggingareitnum.  Aðalsteinn Sigurþórsson hafi gert minnisblað, dagsett 8. janúar 2008. Aðalsteinn hafi gert ráð fyrir 19.307m2 í íbúðir og 13.589 m2 í bílakjallara og geymslur, samtals 32.896 m2.  Sá samningur sem reikningar málsins séu grundvallaðir á geri ráð fyrir 25.355 m2 heildarmagni en 21.050 m2 ef ekki sé miðað við að Þverholt 15 og 15a sé innifalið. Samkvæmt útreikningum Aðalsteins nemi eðlilegur kostnaður við framkvæmdirnar 6.280.042.492 krónum miðað við byggingarvísitölu í janúar 2008, 377,9 stig.  Ef sú fjárhæð sé reiknuð til byggingarvísitölu aprílmánaðar 2006, þegar sá samningur sem reikningar málsins byggi á var gerður, nemi fjárhæðin 5.415.892.692 krónum.  Í samningnum frá 12. apríl 2006 sé samningsfjárhæðin 7.980.677.787 krónur.   Stefndi kveður að hér muni því rúmum 2,5 milljörðum á því sem eðlilegt geti talist og því verði sem samningur hljóði upp á þrátt fyrir að mun meira byggingamagn sé innifalið í lægri tölunni.  Í hvorugu tilvikinu sé lóðaverðið innifalið.  Hér muni svo miklu að það sé nánast fjarstæðukennt.

Stefnda kveður að ef tekið sé mið af fermetraverði gefi Aðalsteinn upp að eðlilegt verð sé 232.800 kr./m2 fyrir íbúðir og 120.800 kr./m2 fyrir bílakjallara.  Ef þær tölur séu reiknaðar til þess tíma er meintur samningur hafi verið gerður nemi þær 200.766 kr./m2 fyrir íbúðir og 104.177 kr./m2 fyrir bílakjallara.  Samningsverðið sé hins vegar 300.000 kr./m2 fyrir íbúðir og 150.000 kr./m2 fyrir bílakjallara í þeim skjölum sem stefnandi virðist byggja málsókn sína á.  Í báðum tilvikum sé samningsverð um 50% hærra en eðlilegt geti talist, að mati stefnda.  Stefnda tekur fram að samkvæmt fylgiskjali samnings sé greiðsluflæði verksins miðað út frá samningsfjárhæðinni 7.980.677.787 krónum.  Þegar lagt sé mat á það hvort stefnda hafi ofgreitt fyrir þær framkvæmdir sem þegar séu unnar þurfi því að miða við samningsfjárhæðina þrátt fyrir að fermetraverðið hafi átt að vera endanlegt viðmið við lokauppgjör.

Í viðræðum um uppgjör fyrir þær framkvæmdir sem unnar hafi verið hafi stefnandi sent stefnda excel skjal.  Þar komi fram að heildarkostnaður stefnanda vegna verksins nemi 401.050.710 krónum.  Skjalið sundurliði kostnaðinn að ákveðnu marki.  Af þessu tilefni hafi áðurnefndur Aðalsteinn verið fenginn til að meta ákveðna liði, þ.e. kostnað við girðingar og jarðvinnu/sprengingar.  Að hans mati geti útreikningur stefnanda á girðingarkostnaði ekki staðist.  Hins vegar hafi Aðalsteinn talið rúmmetraverð fyrir jarðvinnu vera a.m.k. tvöfalt of hátt.

Í málinu liggja frammi tvær matsgerðir, dagsettar 12. maí 2010 og 26. maí 2010, auk viðauka við matsgerð, sem dagsett er 9. október 2010 og matsgerð vegna viðbótarspurninga, dagsett 25. október 2010.

III

Í máli þessu krefst stefnandi greiðslu á tveimur reikningum.  Aldrei hafi komið fram athugasemdir við fjárhæð reikninganna eða að þeir væru ekki gerðir í samræmi við og á grundvelli samninga aðila.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að á milli hans og stefnda hafi verið í gildi löglegir og venjulegir verksamningar um hönnun, niðurrif, grunngröft og uppbyggingu nemendaíbúða á svokölluðum Einholts/Þverholts-reit í Reykjavík.  Fyrri samningurinn, dagsettur 13. apríl 2005 sé undirritaður af allri stjórn Byggingafélags námsmanna, nú stefnda, en til undirritunar síðari samningsins, dagsetts 12. apríl 2006, hafi Friðrik Guðmundsson framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna, haft umboð, dagsett 6. mars 2006, sem undirritað sé af allri stjórn Byggingafélags námsmanna.  Útilokað sé því að stefndi telji sig óbundinn af samningum aðila vegna ágalla á undirskrift þeirra.

Stefnandi hafi ávallt hagað allri vinnu sinni í samræmi við samninga aðila og haldið stefnda upplýstu um framgang verksins á öllum stigum eins og sjá megi af fundargerðum Stýrihópsins, sem skipaður hafi verið fulltrúum stefnanda, stefnda og Arkís ehf.  Þá hafi þáverandi lögmaður stefnda, Sjöfn Kristjánsdóttir hdl. haft alla fundargerð Stýrihópsins frá fundi nr. 22 hinn 30. október 2007.  Á Stýrihópsfundi nr. 28 hinn 8. janúar 2008 láti stefnda bóka sérstaklega: „Samningur stendur samt óbreyttur og hönnun á að ganga skv. verkáætlun“.

Þá hafi verkið, eða að minnsta kosti hugmyndin að verkinu verið í gangi frá því fyrsti samningur hafi verið undirritaður 5. janúar 2005, eða í vel rúm þrjú ár þar til bréfið, dagsett 25. mars 2008 hafi verið sent.  Á þeim tíma sé ekki mögulegt annað en stefnda hafi náð að fullkynna sér verkið, kostnaðinn og annað því tengt. 

Stefnda sé einnig gjörkunnugt verkinu í gegnum samninga sína við teiknistofuna Arkís ehf., en það félag hafi t.d. unnið fyrir stefnda að gerð breytts deiliskipulags, þannig að byggja megi tilskilinn fjölda nemendaíbúða á Einholts/Þverholts-reitnum.  Auk þess hafi stefnda sjálft gert sjálfstæða samninga um verkið.

Loks hafi stefnda greitt athugasemdalaust alla reikninga vegna verksins alveg fram í mars 2008.

Stefnandi hafi staðið við allar sínar skuldbindingar samkvæmt samningum aðila og því heimili engin atvik stefnda að lýsa sig fyrirvaralaust óbundið af þeim og stöðva greiðslur til stefnanda. 

Upphaflegur verksamningur hafi verið við Byggingafélag námsmanna, Laugavegi 66-68, Reykjavík, en það félag hafi verið lagt niður 2007 og afskráð 30. janúar 2008  og hafi Byggingafélag námsmanna ses, stefnda, tekið við öllum réttindum þess og skyldum, samkvæmt samningnum. 

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45. og 51. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup.  Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. 

Kröfur um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

IV

Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þeir reikningar sem stefnandi leggi fram séu óljósir og geti ekki verið grundvöllur dómkröfu einir og sér.  Stefnda hafi þegar greitt 673.133.609 krónur fyrir verkframkvæmdina og telji sig þar með vera búið að greiða meira en sanngjarnt endurgjald fyrir þá vinnu sem framkvæmd hafi verið af hálfu stefnanda.

Stefnandi sýni hvorki né rökstyðji í stefnu hvers vegna hann eigi rétt á frekara endurgjaldi. Krafa hans sé því ósönnuð.

Þá telji stefnda sig ekki bundið af þeim samningi sem stefnandi virðist leggja til grundvallar kröfu sinni.  Umboðsskortur framkvæmdarstjóra Byggingafélags námsmanna liggi fyrir og leiði hann til þess að meintur samningur/ar aðila sé/u óskuldbindandi fyrir stefnda. Þá sé meintur samningur bersýnilega ósanngjarn.  Þar sem að meintur samningur sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda byggir félagið á því að því beri að greiða sanngjarnt endurgjald fyrir þá verkframkvæmd sem stefnandi sannanlega hafi unnið fyrir stefnda.

Stefnandi byggi dómkröfu sína á tveimur reikningum, öðrum að fjárhæð 98.027.590 krónur en hinum að fjárhæð 32.138.206 krónur.  Hvorugur reikningurinn sé sundurliðaður utan þess að aðgreint sé hverjar verðbætur séu.  Þá fylgi hvorugum reikningnum nánari útlistun á verkstöðu framkvæmdarinnar.

Stefnda sé þannig ómögulegt að gera sér grein fyrir því á hvaða forsendum tilteknir útreikningar séu gerðir.  Þá sé stefnda enn síður mögulegt að gera sér grein fyrir því hvort verið sé að reikningsfæra verkstöðu í samræmi við meinta samningsgerð aðila og þá heildarstöðu framkvæmdarinnar.  Sé verið að reikningsfæra  í samræmi við meintan samning aðila sé ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti hlutfall framvindu sé fengið út.

Sama sé reyndar að segja um alla þá reikninga sem stefnandi hafi gefið út á stefnda, stefnda sé ómögulegt að gera sér grein fyrir því á hvaða forsendum þeir séu byggðir og því ekki hægt að taka efnislega afstöðu til þess hvort stefnda hafi greitt í samræmi við meinta samninga við stefnanda.

Stefnandi hafi því ekki gert grein fyrir því að það endurgjald sem stefnda hafi þegar innt af hendi vegna verkframkvæmdarinnar sé lægra en verðmæti verkframkvæmdar stefnanda.  Ekki sé hægt að færa sönnunarbyrði yfir á gagnaðila með því einu að gefa út reikninga.  Beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Kröfugerð stefnanda snúist um endurgjald fyrir verkframkvæmd á svæðinu.  Stefnda geri þá kröfu að verkframkvæmdin verði gerð upp eftir verðmæti vinnuframlags stefnanda, eftir atvikum í samræmi við skýrslu dómkvadds matsmanns.

Stefnda telur sig annars vegar vera óbundið af meintum samningi og hins vegar að framlagðir reikningar teljist ekki fullnægjandi grundvöllur undir greiðsluskyldu.  Stefnda byggir því á þeirri meginreglu kröfuréttar sem fram komi í 45. gr. l. nr. 50/2000 um að ef kaup séu gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skuli kaupandi greiða fyrir söluhlut gangverð sem sé á sams konar hlutum.  Stefnda hafi látið áætla réttmætan kostnað og boðist til að greiða hann.  Sýknukrafa stefnda byggi á því að samkvæmt skýrslum Aðalsteins Sigurþórssonar hafi stefnda þegar greitt fyrir verðmæti verkframkvæmdarinnar.

Stefnda hafi nú þegar greitt 673.133.609 krónur vegna verkframkvæmdarinnar sjálfrar  auk 2,2, milljarða fyrir kaup á lóðunum Þverholti 17 og 19-21 og Einholti 6 og 8.

Stefnda telur sig því þegar vera búið að greiða stefnanda mun hærri fjárhæðir en því beri skylda til og hafnar því kröfu um frekar greiðslur.  Jafnframt áskilji stefnda sér rétt til að endurkrefja stefnanda um þá fjármuni sem stefnda kunni að hafa ofgreitt, í öðru máli síðar.

Samkvæmt gögnum málsins hafi Þórhalli Einarsson verið stjórnarmaður frá 22. mars 2006 til 28. júní 2006.  Hann hafi hins vegar ekki verið kosinn af eigendum félagsins, þ.e. Byggingafélagi námsmanna. Kosning hans hafi því verið ógild.

Kaupin á byggingarreitnum hafi, samkvæmt samningi 20. mars 2006, farið fram með þeim hætti að Byggingafélag námsmanna keypti allt hlutaféð í Nýholti ehf. af stefnanda. Friðrik Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Byggingafélags námsmanna hafi síðan gert samninginn f.h. Nýholts ehf. eins og samningurinn beri með sér.

Í fyrsta lagi hafði Friðrik hvorki haft umboð stjórnar Byggingafélags námsmanna til að gera samninginn með þessu efni, né hafi hann haft nokkra heimild til að skuldbinda félagið.  Í öðru lagi hafi stjórn Byggingafélags námsmanna aldrei getað gert samning fyrir hönd Nýholts þar sem aðrir aðilar hafi verið skráðir í stjórn.  Þessi samningur geti í raun aldrei, eðli málsins samkvæmt, verið bindandi, hvorki fyrir Nýholt né Byggingafélag námsmanna, en í kjölfarið hafi Nýholt ehf. verið lagt niður og hafi stefnda tekið við réttindum þess og skyldum.

Stefnda hafnar alfarið greiðsluskyldu samkvæmt hinum meinta gerningi sem dagsettur er hinn 12. apríl 2006.  Stefnda byggir á því að framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna hafi, við gerð samninganna, í fyrsta lagi ekki haft umboð til að skuldbinda félagið, og í öðru lagi hafi hann ekki haft heimild til að semja um þær fjárhæðir sem samningurinn hljóði upp á.  Í báðum tilvikum hafi forsvarsmaður stefnanda haft vitneskju um það eða mátti hafa um það vitneskju.  Í þriðja lagi byggir stefnda á því að meintur samningur sé bersýnilega ósanngjarn fyrir stefnda.

Undir hinn meinta samning hafi einungis Friðrik Guðmundsson, framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna, ritað á þeim tíma.  Engar almennar reglur séu til um heimildir framkvæmdarstjóra til að skuldbinda almenn félög.  Þær reglur sem gildi séu fyrst og fremst þær reglur sem félagið setji sér sjálft.

Engin heimild sé  í samþykktum eða ,,lögum“ Byggingarfélags námsmanna til handa framkvæmdastjóra til að skuldbinda félagið út á við, enda gengi það gegn 11. gr. samþykktanna og 19. gr. ,,laganna“ um að stjórnin geri slíkt en þar komi fram að stjórnin bindi félagið út á við.

Engin heimild til þess verður leidd af ólögfestum reglum um almenn félög.  Í umræddum samþykktum byggingafélagsins sem í gildi hafi verið við samningsgerð og þann 4. apríl 2006 komi fram að félagið sé sjálfseignarstofnun.  Stefnda sé nú, í lítið breyttri mynd, skráð sjálfseignarstofnun sem stundi atvinnurekstur.  Stjórn byggingafélagsins hafi verið kosin á fulltrúafundi.  Uppbyggingu skipulags félagsins svipi bæði til sjálfseignarstofnanna og hlutafélaga.  Þegar þeim reglum sem félagið setji sér sjálft sleppi, verði því að miða við reglur um félög með sambærilega uppbyggingu.

Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 33/1999 og 2. mgr. 68. gr. l. nr. 2/1995 komi fram að framkvæmdastjóri hafi ekki heimild til að fara út fyrir daglegan rekstur nema með sérstakri heimild frá stjórninni.

Samkvæmt öllu ofansögðu sé ljóst að framkvæmdastjóri stefnda hafi ekki haft heimild til að skuldbinda félagið án þess að eitthvað sérstakt kæmi til.  Jafnframt sé fullyrt að fyrirsvarsmanni stefnanda hafi verið eða mátti vera það ljóst.

Í meintum samningi standi stafirnir „e.u. undir undirskrift framkvæmdastjórans. Væntanlega sé þar verið að vísa til dskj. nr. 6, sem beri yfirskriftina „Umboð.  Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að umboðið til framkvæmdastjóra fari í bága við lög nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir, lög nr. 2/1995, um hlutafélög og samþykktir félagsins.

Umboð það sem framkvæmdastjóra stefnda hafi verið veitt með ákvörðun stjórnar hinn 6. mars 2006 sé ekki bundið neinum takmörkunum varðandi tilteknar eignir.  Í því komi fram að framkvæmdastjóranum sé veitt fullt og ótakmarkað umboð félagsins til að undirrita öll nauðsynleg skjöl og samninga er varði tilteknar eignir.  Umboðið sé þannig ekki bundið neinum fjárhæðum.  Umboðið geri ekki kröfu um að framkvæmdastjóri upplýsi stjórn um þá gerninga sem hann geri í nafni félagsins.  Af því leiði að framkvæmdarstjórinn gæti í skjóli þessa almenna umboðs gert samninga sem séu þvert á alla stefnu og skilyrði sem stjórnin hafi þegar sett, eins og raun beri vitni.

Byggir stefnda sérstaklega á því að í 11. gr. samþykkta og 19. gr. „laga“ Byggingafélags námsmanna sem samþykktar hafi verið á fulltrúafundi félagsins 27. apríl 2004 segi:

,,Stjórn félagsins skuldbindur það út á við og er undirskrift meirihluta stjórnarmanna nauðsynleg til þess. Sé um meiriháttar og óvenjulegar skuldbindingar að ræða, skal stjórn félagsins leita staðfestingar þeirra aðila sem skipa eða kjósa í stjórn þess. Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins.“

Samþykktir Byggingafélagsins veiti stjórn ekki heimild til að gefa framkvæmdarstjóra umboð á borð við það umboð sem veitt hafi verið 6. apríl 2006.

Í 71. gr. laga nr. 2/1995 og 24. gr. laga nr. 33/1999 komi fram að mikilvæga ákvörðun í félögum megi ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið.  Þau skilyrði hafi ekki verið uppfyllt við gerð meints gernings, eins og sjá megi á fundargerðum stjórnar.  Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 33/1999 og 2. mgr. 68. gr. l. nr. 2/1995 komi, eins og áður segi, fram að framkvæmdastjóri hafi ekki heimild til að fara út fyrir daglegan rekstur nema með sérstakri heimild frá stjórninni.

Stjórnin hafi því samkvæmt lögum og samþykktum æðsta vald í málefnum félagsins á milli funda með aðildarfélögum.  Hlutverk stjórnarinnar sé að móta stefnu félagsins, taka mikilvægar ákvarðanir, tryggja að eftirlit sé með starfsemi félagsins þar með talið við gerð milljarða króna samninga.  Lögum samkvæmt hvíli ríkar skyldur á stjórnarmönnum að viðlagðri ábyrgð og verði þeir því að rækja starf sitt persónulega og geti ekki framselt það nema í mjög takmörkuðum mæli og skýrlega afmarkað.

Þessi ákvæði girði fyrir heimild til að veita framkvæmdastjóra ótakmarkað umboð á þann hátt að hann geti samið fyrir hönd félagsins um milljarða króna breytingar án vitneskju eða samþykkis stjórnar.  Með réttu ber stjórninni að taka slíkar ákvarðanir.

Stjórn félagsins geti því ekki, samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laga, framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir án tillits til þess hvort þær séu óvenjulegar eða mikils háttar.  Af þessum sökum samrýmist umboðið ekki áður nefndum lagaákvæðum.

Aukin útgjöld upp á milljarða króna sé mikils háttar ákvörðun sem ekki verði tekin án beins atbeina stjórnar.  Verði því að telja að um umboðsskort hafi verið að ræða sem leiði til þess að samningur teljist óskuldbindandi.

Stefnda heldur því fram, að það liggi ljóst fyrir að stjórnin hafi veitt framkvæmdastjóra umboð miðað við ákveðnar forsendur og miðað hafi verið við ákveðnar fjárhæðir.  Líti dómurinn svo á að umboðið sé gilt samkvæmt efni sínu verði engu að síður að líta til þess að umboðið hafi þá verið takmarkað.  Umboðið takmarkist þá við þau skilyrði sem fram hafi komið á stjórnarfundi og ákvörðun stjórnar um umboðsveitingu hafi legið því til grundvallar. Meirihluti stjórnarmanna hafi ekki haft hugmynd um að til stæði að gera samninga með þeim hætti sem raunin hafi orðið.  Umræddur samningur hafi því ekki verið gerður með vitund eða vilja stjórnar og enn síður formlega á stjórnarfundi eins og eðlilegt sé þegar staðið sé að samningsgerð.  Umræddur samningur gangi því gegn veittu umboði og bindi því hvorki hendur Byggingafélags námsmanna né stefnda.

Þar sem samningarnir hafi ekki verið gerðir samkvæmt gildu umboði geti þeir hvorki verið skuldbindandi fyrir Byggingafélag námsmanna né stefnda.  Vísi stefnda því til meginreglunnar um að greiða skuli sanngjarnt endurgjald fyrir verkframkvæmdina.

Eftir atvikum gildi sömu rök um samninginn, dagsettan 20. mars 2006, byggi málatilbúnaður stefnanda á honum.

Stefnandi og Byggingafélag námsmanna hafi átt í viðskiptum um talsvert skeið.  Til að mynda hafi aðilar gert með sér samning sem liggi frammi í málinu á dómskjali nr. 4.  Þar hafi öll stjórn stefnda ritað undir tiltekinn samning.  Stefnanda hafi verið ljóst að um gríðarlega mikla framkvæmd hafi verið að ræða sem hefði mikil áhrif á stöðu mála hjá stefnda.

Stefnanda hafi verið í lófa lagið að kynna sér samþykktir Byggingafélags námsmanna. Þá hafi hann haft öll tök á því að ráðfæra sig við stjórn félagsins.

Þar sem að umboð, dagsett 6. apríl 2006, sé ótakmarkað hafi stefnandi mátt vita að það hefði ekki gildi samkvæmt orðanna hljóðan.  Stefnanda hafi því borið að hlutast til um þau takmörk sem umboðinu hafi verið gefið.  Samkvæmt fundargerðum stjórnar hafi það verið bundið við 6,9 milljarða að meðtöldu lóðaverði.  Megi því telja öruggt að stefnandi hafi verið eða mátt vera grandsamur um umboðsskort framkvæmdastjórans við gerð hins meinta samnings. Skýringarlausir samningar upp á milljarða hækkun á áður umsömdum einingaverði geti ekki orðið bindandi fyrir stefnda nema eitthvað sérstakt komi til.

Fulltrúi stefnanda hafi haft ríkar ástæður til að kanna eða spyrjast fyrir um heimild viðsemjenda sinna til samningsgerðarinnar. Það hafi hann ekki gert.

Enn fremur ber stefnda það fyrir sig að það hafi verið ósanngjarnt, með vísan til 36. gr. l. nr. 77/1936, að hækka samningsverð um 2,2 milljarða án þess að nokkur ástæða hafi legið fyrir. Því beri að víkja samningnum til hliðar að því marki sem nauðsynlegt sé til að ákvarða endurgjald sem sé í samræmi við markaðsverð og það sem Byggingafélag námsmanna hafi í raun talið sig vera að semja um.

Stefnda byggir kröfu sína um lækkun á sömu málsástæðum og sýknukröfu. Telji dómur ekki tilefni til þess að sýkna stefnda að fullu vísar stefnda til þess að reikningar málsins séu óeðlilega háir miðað við þá verkframkvæmd sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda.  Þá séu reikningar málsins ekkert rökstuddir og verði stefnandi að bera hallann af þeim óljósa málatilbúnaði.

Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Þó svo að einhver greiðsluskylda verði lögð á stefnda sé óvissan í málinu mikil.  Rétt sé að stefnda verði ekki dæmt til greiðslu dráttarvaxta fyrr en við uppkvaðningu dóms.

Um lagarök vísar stefnda til almennra reglna kröfu-, samninga- og félagaréttar.

Kröfu um málskostnað byggir stefnda á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

V

Eins og að framan greinir er ágreiningur með aðilum um hvort stefnda beri að greiða stefnanda umstefnda reikninga vegna byggingu nemendagarða að Þverholti 15, 15a, 17 og 19-21 og Einholti 6-8, í Reykjavík.  Framkvæmdir á byggingareitnum voru stöðvaðar þegar uppgröftur var langt kominn. 

Stefnandi byggir kröfur sínar á samningi er gerður var milli Byggingafélags námsmanna og stefnanda hinn 12. apríl 2006. 

Stefnda byggir á því að stjórn Byggingafélags námsmanna hafi ekki verið heimilt að veita framkvæmdastjóra félagsins umboð til að gera samninginn og að samningurinn hafi ekki verið gerður eins og stjórn Byggingafélags námsmanna hafi gert ráð fyrir.  Samningur hafi verið gerður við stefnanda um framkvæmdirnar með áætluðum framkvæmdarkostnaði að fjárhæð 7.980.677.787 krónur í stað 6,9 milljarða.  Þá komi fram að kaupverð lóðanna að fjárhæð 2,2 milljarðar sé undanskilið, en sérstakur samningur hafi verið gerður um kaup þeirra.  Það sé einnig þvert á skilning og hugmyndir stjórnar Byggingafélagsins.  Skeiki því um 3,2 milljarða á þessum viðskiptum frá því sem stjórn Byggingafélagsins hafi verið gerð grein fyrir.

Stefnda kveðst þegar hafa greitt stefnanda 673.133.609 krónur vegna verkframkvæmdanna við Einholt/Þverholt.  Af þeim hluta séu 267.306.000 krónur vegna kaup- og verksamnings um Þverholt 15 og 15a.  Einnig hafi Byggingafélag námsmanna greitt 2,2 milljarða vegna lóðakaupa við Einholt/Þverholt.  Þá byggir stefnda á því að verksamningarnir vegna framkvæmdanna hafi verið langt yfir raunverulegu verðmati.

Í framlagðri matsgerð dómkvadds matsmanns kemur m.a. fram í niðurstöðu hans um mat á sanngjörnu endurgjaldi fyrir vinnu á Þverholts/Einholts-reitnum, að hann telji það vera 277.719.156 krónur auk verðbóta og ótilgreindrar upphæðar vegna undirbúnings framkvæmda t.d. fundasetur v/ uppkaupa fasteigna, skipulags/hönnunar o.þ.h.  Telur matsmaður að búið sé að reikningsfæra 729.299.837 krónur og búið sé að greiða alla reikninga að undanskildum reikningum nr. 24 og 25.

Óumdeilt er að framkvæmdir á umræddum byggingareit hófust vorið 2007 og hinn 4. maí 2007 hófst niðurrif þeirra húsa sem á reitnum voru.  Uppgröftur grunns hófst 3. janúar 2008.  Þá liggur fyrir að stefnda hefur þegar greitt fyrir kaupin á byggingaréttinum á svæðinu og greiddi alla þá reikninga í samræmi við framvindu verksins fram að því að umstefndir reikningar voru innheimtir í mars 2008.   Umstefndir reikningar eru í samræmi við samning aðila frá 12. apríl 2006, en samkvæmt þeim samningi skyldi greiða í samræmi við framgang verksins.  Þá er það mat dómsins að óyggjandi sé að gröftur og sprenging klappar, þ.e. vinna í grunni sé hluti af uppbyggingu á svæðinu.

Eins og að framan greinir var umdeildur samningur undirritaður af framkvæmdastjóra Byggingafélags námsmanna fyrir hönd stefnda, samkvæmt framlögðu umboði undirrituðu af allri stjórn félagsins.  Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2011, var komist að því að stefnda heyri undir gildissvið laga nr. 33/1999 samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þeirra laga.  Í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur fram að stjórn sjálfseignarstofnunar sem stundi atvinnurekstur fari með málefni hennar og skuli annast um að skipulag hennar og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.  Sé framkvæmdastjóri ráðinn fari stjórn og framkvæmdastjóri með stjórn stofnunarinnar.  Stjórn sjálfseignarstofnunar kemur fram fyrir hönd hennar og ritar firma hennar, nema annað sé sérstaklega ákveðið, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.  Samkvæmt þessum lagaákvæðum var það á valdsviði stjórnar að taka þær ákvarðanir sem umræddur samningur fjallar um.  Fyrir liggur að samningur sem fyrirhugað var að gera við stefnanda var tekinn til umfjöllunar á stjórnarfundum stefnda, og liggur m.a. fyrir ótakmarkað umboð til handa framkvæmdastjóra stefnda til þess að undirrita samning er varðar fjárfestingu félagsins á umræddum eignum.  Hins vegar liggur fyrir samningur um byggingareitinn Þverholt 15 og 15a milli aðila undirritaður skömmu áður af stjórn stefnda.  Einnig liggur fyrir að á stjórnarfundi 1. mars 2006, eða nokkrum dögum áður en umboð var undirritað, samþykkti stjórn stefnda uppkaup á byggingareitnum og framkvæmdakostnað fyrir 6.990.000.000 krónur.  Samkvæmt framlögðum fundagerðum stjórnar stefnda kemur fram að stjórnin fjallaði tvívegis um og samþykkti uppkaupskostnað vegna framkvæmdanna. Af fundargerðunum má ráða að stjórnin telji að uppkaupskostnaður sé hluti af samningsfjárhæðinni.  Umræddur samningur gerir ekki ráð fyrir því að innifalið í heildarfjárhæð hans sé kostnaður vegna uppkaupa.  Með því að stjórn stefnda veitti framkvæmdastjóra stefnda fullt og ótakmarkað umboð til þess að gera samning við stefnanda um þær eignir sem samningurinn fjallar um og umboðið er undirritað af allri stjórninni, er samningurinn gildur eins og stjórnin hefði sjálf undirritað hann.  Skiptir þá ekki máli um gildi umboðsins gagnvart stefnda umfjöllun stjórnarmanna á stjórnarfundum um væntanlega samningsgerð.   Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að stjórn stefnda hafði um langt skeið vitað af samningnum og var stefnanda m.a. greiddir reikningar á grundvelli hans, enda hófust framkvæmdir í þágu stefnda á svæðinu vorið 2007.  Einnig er til þess að líta að samkvæmt framlögðum matsgerðum kemst hinn dómkvaddi matsmaður að þeirri niðurstöðu um hvað teljist sanngjarnt endurgjald fyrir þá vinnu sem unnin var í þágu stefnda, að umstefndir reikningar séu bæði sanngjarnir og í samræmi við samning sem gerður var um framkvæmdirnar, og jafnvel innan þeirra marka sem hæfilegt geti talist.  Með málssókn þessari er stefnandi einungis að krefja stefnda um greiðslu fyrir verk sem sannanlega voru unnin í þágu stefnda og af því sem fram er komið að ósk þess og ekki hefur verið greitt fyrir.  Þegar allt framangreint er virt verður því fallist á að stefnda beri að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð og engar forsendur til að víkja samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga.  Verður krafa stefnanda því tekin til greina eins og hún er fram sett, enda í samræmi við fyrrgreindan samning aðila.  

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 2.500.000 króna.

Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, og Freyr Jóhannesson tæknifræðingur og Ragnar Ingimarsson verkfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Byggingafélag námsmanna ses., greiði stefnanda, Þverási ehf., 130.165.796  krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 25. mars 2008 til greiðsludags.           

Stefnda greiði stefnanda 2.500.000 króna í málskostnað.