Hæstiréttur íslands

Mál nr. 505/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                         

Þriðjudaginn 24. ágúst 2010.

Nr. 505/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. ágúst 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó ekki lengur en til föstudagsins 22. október 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. ágúst 2010.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að dómfellda, X, kt. [...], verði á grundvelli 2. mgr. 95. gr., sbr.  3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 22. október 2010 kl. 16:00.

Í greinargerð Ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara dags. 2. júlí 2010 hafi dómfelldi ásamt fjórum öðrum mönnum verið dómfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot fyrir að hafa flutt til landsins 1.594,43 g af kókaíni eins og nánar sé lýst í meðfylgjandi ákæru og sé háttsemi dómfellda talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að 12 árum. Dómfellda hafi einnig verið gefið að sök peningaþvætti með því að hafa aflað sér ávinnings að fjárhæð 4.675.370 króna og skartgripa að verðmæti 2.000.000 króna með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-500/2010 sem kveðinn var upp 23. júlí sl. hafi dómfelldi verið sakfelldur og dæmdur til að sæta fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Með yfirlýsingu dags. 11. ágúst sl.  hafi hann lýst yfir áfrýjun dómsins til Hæstaréttar. Frumgögn málsins hafi borist ríkissaksóknara og verði  ágrip í málinu sent Hæstarétti á næstu dögum.

Dómfelldi hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 16. apríl sl.

Með vísan til 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og á grundvelli dóms þyki nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands og endanlegur dómur fellur í máli hans. Til stuðnings kröfunni er auk ofangreinds vísað til dómvenju

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-500/2010, sem upp var kveðinn 23. júlí 2010, var X sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001, svo og fyrir brot gegn 1., 2. og 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Var dómfelldi dæmdur til að sæta fangelsisrefsingu í 4 ár og 6 mánuði. Fullnægt er skilyrðum 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfu Ríkissaksóknara og verður hún því tekin til greina eins og hún er sett fram. Ekki eru efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Dómfelldi X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 22. október 2010 kl. 16:00.