Hæstiréttur íslands

Mál nr. 747/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem móttekin var í héraðsdómi 4. nóvember 2016 og barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag.  Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. nóvember 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.  

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ekki eru efni til þess, sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008, að fallast á varakröfu varnaraðila þess efnis að honum verði gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun meðan á gæsluvarðhaldi stendur enda ber í varðhaldinu að veita honum fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2016.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. nóvember 2016, kl. 16:00.

                Krafan er reist á c lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                Meint brot kærða er talið varða við 155. gr., 244. gr., 245. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk umferðarlaga nr. 50/1987 og laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

                Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að kærða verði gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun á meðan á gæslu stendur.

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan rannsaki nú og hafi til meðferðar neðangreind mál er varði kærða en í þessum málum sé kærði undir rökstuddum grun og í öðrum tilvikum undir sterkum grun um brot gegn almennum hegningarlögum sem og sérrefsilögum.

Mál nr. 007-2016-[...].

Þann 1. nóvember 2016 hafi kærði verið handtekinn rétt um kl. 14 grunaður um að hafa stolið vörum úr  [...] að verðmæti kr. 182.499. Starfsmenn verslunarinnar hófu eftirför eftir kærða úr versluninni og kölluðu til lögreglu. Þeir afhentu einnig lögreglu poka og bakpoka sem kærða hafði misst á hlaupum og í þeim voru vörur úr [...]. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki vita hvort hann hafi stolið vörunum og hvort þetta væri hann væri á myndum úr versluninni.

Mál nr. 007-2016-[...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna þjófnaður í verslun [...] við [...] í Reykjavík þann 13. október sl. Upptökur eru til af þjófnaðnum úr versluninni og mun kærði sjást stela ýmsum vörum, samtals að verðmæti kr. 196.955. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki vita hvort hann hafi stolið vörunum og hvort þetta væri hann væri á myndum úr versluninni.

Mál nr. 007-2016- [...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna gripdeildar á ýmsum vörum samtals að verðmæti kr. 126.868 aðfaranótt 21. september sl. í þjónustustöð [...] við [...] í [...]. Í kæru kemur fram að kærði hafi verið að verki og upptökur eru af honum ásamt myndum við brotið. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki vita hvort hann hafi stolið vörunum og hvort þetta væri hann væri á myndum úr versluninni.

Mál nr. 007-2016-[...]

Þann 12. september sl. hafi lögregla verið kölluð til vegna þjófnaðar kærða í ýmsum verslunum í [...] í [...]. Kærði viðurkenndi fyrir lögreglu að hafa stolið fatnaði í verslunum [...] og [...] og vörum í versluninni [...].

Mál nr. 007-2016-[...]

Þann 11. september sl. hafi kærði verið handtekinn eftir að hafa tekið sjónvarp og stolið ýmsum vörum úr verslun [...] við [...] í [...]. Starfsmaður búðarinnar elti kærða og kom að lögreglumaður á frívakt sem hafði afskipti af kærða og sjónvarpið var afhent starfsmanninum. Við handtöku kærða voru á honum ýmsir munir sem lögreglu grunar að sé þýfi auk fíkniefna. Upptökur og myndir úr versluninni sýna kærða athafna sig í versluninni og ganga út með vörur. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði fyrst vera saklaus en kvaðst svo ekki muna eftir atvikum og rengja ekki ef myndir sýna hann stela munum. Hann kvaðst vera í slæmu ástandi vegna læknalyfja sökum veikinda og neyslu fíkniefna.

Mál nr. 007-2016-[...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna þjófnaður og gripdeildar í verslun [...] við [...] í [...] þann 30. ágúst sl. Upptökur eru til af þjófnaðnum úr versluninni og mun kærði sjást þar stela ýmsum vörum og ganga út með ógreiddar vörur, samtals að verðmæti kr. 152.980. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki vita hvort hann hafi stolið vörunum og hvort þetta væri hann væri á myndum úr versluninni.

Mál nr. 007-2016-[...]

Þann 29. ágúst sl. hafi lögregla verið kölluð til vegna þjófnaðar kærða úr verslun [...] í [...] í [...]. Öryggisverðir voru með kærða í tökum þegar lögreglu bar að og þeir ásamt starfsmönnum verslunarinnar upplýstu að kærði hafi stolið [...]. Á honum fannst einnig amfetamín. Kærði sjáist á myndum og upptökum úr versluninni stela [...] að verðmæti kr. 5.299. Við skýrslutöku lögreglu játaði kærði sök og kvaðst hafa neytt Rivotril, fíkniefna og áfengis.

Mál nr. 007-2016- [...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna gripdeildar og þjófnaðar þann 29. ágúst sl. úr verslun [...] við [...] í [...]. Starfsmenn verslunarinnar höfðu afskipti af kærða í versluninni eftir að hafa orðið þess varir að hann hefði stungið [...] í poka og reyndu að stöðva hann. Einnig sést brotið á upptökum og ljósmyndum frá versluninni. Kærði hljóp þá út úr versluninni með [...] að verðmæti kr. 5.990. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki muna eftir þessu og sæi ekki hvort þetta væri hann á myndum frá versluninni.

Mál nr. 007-2016- [...]

Þann 15. ágúst sl. hafi verið tilkynnt um nytjastuld á bifreið og síðar fölsun á skjölum um eigandaskipti á bifreiðinni. Kærði var handtekinn eftir að lögreglan stöðvaði akstur hans á bifreiðinni. Kærði er sviptur ökurétti og var einnig undir áhrifum ávana- og fíkniefna við aksturinn. Við skýrslutöku lögreglu viðurkenndi kærði að hafa notað bifreiðina heimildarlaust eftir að hann skilaði ekki bifreiðinni til eiganda hennar og falsað skjöl í því skyni að skipta um nafn eiganda bifreiðarinnar hjá Samgöngustofu.

Mál nr. 007-2016- [...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna gripdeildar og þjófnaðar þann 3. ágúst sl. úr verslun [...] við [...] í [...]. Starfsmenn verslunarinnar höfðu afskipti af kærða í versluninni eftir að hafa orðið þess varir að hann hefði stungið [...] inn á sig og reyndu að ræða við hann. Einnig sést brotið á upptökum og ljósmyndum frá versluninni. Kærði hljóp þá út úr versluninni með [...] að verðmæti kr. 3.799.  Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki muna eftir þessu en þekkti sig á mynd.

Mál nr. 007-2016-[...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna þjófnaðar þann 21. júlí sl. úr verslun [...] við [...] í [...]. Þar sjáist kærði á myndum og upptökum úr versluninni stela [...] að verðmæti kr. 8.799. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki vita hvort hann hafi stolið og hvort þetta væri hann væri á myndum úr versluninni.

Mál nr. 007-2016-[...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna þjófnaðar þann 18. júlí sl. úr verslun [...] við [...] í [...]. Samkvæmt kæru sýna upptökur úr versluninni kærða stela [...] að verðmæti kr. 3.759 og kærði þekkist á mynd. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki muna eftir þessu en þekkti sig á mynd.

Mál nr. 007-2016- [...]

Kæra hafi borist lögreglu vegna þjófnaðar þann 14. júlí sl. úr verslun [...] við  [...] í [...]. Samkvæmt kæru sýna upptökur úr versluninni kærða stela [...] að verðmæti kr. 8.258. Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði ekki vita hvort hann hafi stolið [...] og neitaði að svara hvort hann þekkti sig á mynd.

Þá sé einnig til meðferðar hjá lögreglu mál nr. 007-2016-[...] frá 29. maí sl. þar sem kærði er sakaður um valdstjórnarbrot með því að hafa hótað lögreglumanni. Einnig var kærði færður til blóðsýnatöku vegna gruns um aksturs undir áhrifum og í honum mældist bæði fíkniefna og áfengi í blóði. Kærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og neitaði fyrir að hafa ekið bifreiðinni, kvaðst ekki muna hvort hann hafi hótað lögreglumanni en kvaðst örugglega hafa gert það.

Kærða eigi þó nokkurn og stöðugan sakarferil frá árinu 2010 fyrir auðgunarbrot, umferðarlagabrot og ýmis önnur hegningar- og sérrefsilagabrot. Nú síðast hafi hann hlotið 10 mánaða fangelsi þar af hafi verið frestað fullnustu 9 mánaða með sérskilyrðum með dómi Héraðsdóms Reykjaness þann 22. febrúar 2016 og þar áður 8 mánaða fangelsi með dómi Hæstaréttar þann 17. desember 2015. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi kærði afplánað fyrrgreinda dóma á viðeigandi stofnun vegna ástands hans. Fyrir Héraðsdómi Reykjaness sé einnig rekið mál gegn kærða fyrir umferðarlagabrot nr. S-[...]/2016 (lögreglumál nr. 316-2016-[...]) og standi meðferð þess enn yfir.

Í ljósi ofangreindra mála, fjölda brota og sakarferils kærða þyki að mati lögreglu ljóst að hann hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Lögregla telur einnig ljóst að hann hafi með brotum sínum rofið skilorð dóms síns frá 22. febrúar sl. nr. S-[...]/2015, bæði með nýjum brotum auk neyslu ávana- og fíkniefna og áfengis. Að auki telur lögregla víst að kærði muni hljóta óskilorðsbundið fangelsi vegna brota þeirra sem að baki kröfunni standa. Vísast þá til fjölda brota kærða á tiltölulega skömmum tíma, skilorðsrofs hans og ítrekun brotanna. Með vísan til framangreinds telur lögreglan því yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæta dómsmeðferð.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Rökstuddur grunur er komin fram um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að ætla megi að enn sé hætta á að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Því er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði  c liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/ 2008 séu uppfyllt. Kærði gerir þá varakröfu að hann verði vistaður á viðeigandi stofnun vegna andlegra veikinda sinna. Gögn hafa verið lögð fram í málinu sem staðfesta veikindi kærða. Ekki er unnt að taka þessa kröfu kærðu til greina en fangelsismálayfirvöld munu hins vegar gera viðeigandi ráðstafanir í þessu sambandi, sbr. 22. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði en ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. nóvember 2016, kl. 16:00.