Hæstiréttur íslands
Mál nr. 112/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 27. febrúar 2007. |
|
Nr. 112/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 4. apríl 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. febrúar 2007 var varnaraðila gert að sæta fangelsi í 15 mánuði fyrir fjölda hegningarlaga- og umferðarlagabrota, en frá refsivistinni skyldi dragast gæsluvarðhald hans frá 14. til 16. ágúst og frá 21. september til 10. nóvember 2006. Dómurinn var birtur varnaraðila 26. febrúar 2007 og tók hann sér áfrýjunarfrest, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Er dómurinn því ekki fullnustuhæfur.
Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, kt. [...], Reykjanesbæ, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 4. apríl 2007, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið handtekinn aðfaranótt 12. janúar sl. vegna aðildar að innbroti. Í framhaldi af handtöku hafi kærða verið gert að sæta síbrotagæsluvarðhaldi til dagsins í dag, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 16. s.m. í máli nr. 34/2007. Með ákæru embættisins þann 22. þ.m. hafi málum kærða verið vísað til dómsmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt ákærunni sé kærða gefið eftirfarandi að sök:
M. 007-2007-1018:
Tveir þjófnaðir. Sá fyrri með því að hafa fimmtudaginn 4. janúar sl. brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...]í Kópavogi og stolið þaðan ýmsum rafmagnstækjum. Sá síðari með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 5. s.m. í félagi með öðrum manni brotist inn í iðnaðarhúsnæði að [...] í Hafnarfirði og stolið þaðan ýmsum munum að verðmæti um kr. 700.000. Kærði greindi frá því við yfirheyrslu hjá lögreglu 6. s.m. að hann hafi farið með tveimur mönnum að [...] og aðstoðað þá við að taka þaðan heimabíókerfi. Kærði neitaði aðild að innbrotinu að [...].
M. 010-2006-46886:
Nytjastuldur á bifreið aðfaranótt miðvikudagsins 20. september 2006 með því að hafa tekið bifreiðina [...]í heimildarleysi þar sem hún stóð við hús nr. [...] við [...] í Reykjavík og ekið henni víðsvegar um götur Reykjavíkur án ökuréttinda að bifreiðastæði við [...]þar sem lögregla hafði afskipti af honum.
M. 010-2006-61110:
Þjófnaður aðfaranótt laugardagsins 2. desember sl. brotist inn í prentsmiðjuna A við [...] í Reykjavík og stolið þaðan fartölvu að verðmæti kr. 110.375. Lagt var hald á upptöku úr eftirlitsmyndavél sem sýnir kærða ásamt öðrum manni á vettvangi í umrætt skipti. Við yfirheyrslu 24. desember sl. játaði kærði brotið.
M. 036-2006-14443:
Húsbrot aðfaranótt mánudagsins 11. desember sl. með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn í bílskúr að [...] í Hafnarfirði. Kærði greindi frá því við yfirheyrslu síðar sama dag að hann hefði farið inn í bílskúrinn í því skyni að hlýja sér.
M. 010-2006-64753:
Tilraun til þjófnaðar aðfaranótt sunnudagsins 24. desember sl. í auðgunarskyni brotist inn í bensínafgreiðslu B við [...] í Reykjavík en kærði var handtekinn á vettvangi. Lögregla lagði hald á upptöku úr eftirlitsmyndavél sem sýnir kærða ásamt öðrum manni brjótast inn á bensínstöðina. Á vettvangi greindi kærði frá því að hann hefði brotist inn til að ná sér í matvæli. Við yfirheyrslu síðar sama dag neitaði kærði að tjá sig um málið.
M. 036-2006-14726:
Gripdeild aðfaranótt þriðjudagsins 19. desember sl. á bensínafgreiðslu C við [...] í Hafnarfirði dælt 43,8 lítrum af eldsneyti á bifreiðina [...], að verðmæti kr. 4.936, og ekið á brott án þess að greiða fyrir bensínið. Kærði viðurkenndi við yfirheyrslu þann 21. s.m. að hafa stolið bensíninu.
M. 007-2007-02181:
Þjófnaðir þriðjudaginn 9. janúar sl. með því að hafa brotist inn í þrjú sumarhús í [...] og stolið þaðan ýmsum munum. Lögregla handtók kærða daginn eftir á bifreið og fannst þýfi við leit í bifreiðinni sem rakið var til innbrotanna. Kærði játaði við yfirheyrslu 20. þ.m. að hafa brotist inn í þrjú sumarhús í [...]. Framburður kærða er í nokkru samræmi við framburð samferðakonu kærða í bifreiðinni, D, kt. [...], sem hún gaf eftir handtöku þann 10. f.m.
M. 007-2007-02609:
Þjófnaður aðfaranótt föstudagsins 12. janúar sl. með því að hafa brotist inn í hárgreiðslustofuna E við [...] í Kópavogi og stolið sjóðsvél að verðmæti kr. 58.000 sem hafði auk þess að geyma skiptimynt að fjárhæð kr. 24.682. Kærði játaði við yfirheyrslu síðar sama dag að hafa brotist inn og stolið sjóðsvélinni.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2006, í máli nr. S-670/2006, hafi kærði verið dæmdur til 9 mánaða fangelsisrefsingar fyrir rán, þar af 6 mánuði skilorðsbundið í 2 ár. Kærði hafi lokið afplánun dómsins 29. nóvember sl. Brotaferill kærða hafi hafist að nýju fljótlega að lokinni afplánun og sé ljóst að um sé að ræða endurtekin og einbeitt skilorðsrof. Með vísan til framangreinds ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sætir dómsmeðferð.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærða var með úrskurði héraðsdóms 12. janúar sl. gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til dagsins í dag. Var sá úrskurður staðfestur í dómi Hæstaréttar Íslands 16. janúar sl. í málinu nr. 34/2007. Hefur ekkert fram komið sem breytir því að skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli ákvæðisins séu fyrir hendi. Fyrir liggur að ákæra í málum kærða hefur verið send héraðsdómi. Í samræmi við þær áherslur er dómstólar hafa nú lagt á mikilvægi þess að strax séu tekin til meðferðar mál þar sem ákærði situr í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er ljóst að mál kærða verða þegar tekin til meðferðar hér fyrir dóminum. Má þess vegna reikna með að máli hans verði lokið á næstunni. Í ljósi þessa verður fallist á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir kærða á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1940 og þykir ekki ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en lögreglustjóri fer fram á.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 4. apríl 2007, kl. 16:00.