Hæstiréttur íslands
Mál nr. 128/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræðissvipting
|
|
Mánudaginn 23. mars 2009. |
|
Nr. 128/2009. |
A(Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Sveitarfélaginu Árborg(Ragnheiður Thorlacius, framkvæmdastjóri) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræðissvipting.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 2009, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði frá úrskurðardegi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að hann verði sviptur sjálfræði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með héraðsdómi að skilyrði séu til að svipta sóknaraðila sjálfræði tímabundið í sex mánuði frá 5. mars 2009 með heimild í a. lið 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr., lögræðislaga.
Ákvörðun héraðsdóms um málskostnað skipaðs verjanda sóknaraðila í héraði verður staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðili, A, er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá 5. mars 2009.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms er staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 2008.
Mál þetta var þingfest 17. febrúar sl. og tekið til úrskurðar 3. mars sl. um kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili er Félagsþjónusta Sveitarfélagsins Árborgar, kt. 650598-2029, Austurvegi 2, Selfossi. Varnaraðili er A, kt. [...], heimilisfang [...].
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði.
Verjandi varnaraðila, Óskar Sigurðsson hrl., gerir þá kröfu að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá gerir hann kröfu um þóknun sér til handa og að hún verði greidd úr ríkissjóði.
Málsatvik.
Með bréfi dagsettu 16. febrúar sl. fór sóknaraðili þess á leit við Héraðsdóm Suðurlands að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði á þann hátt sem að ofan greinir.
Í kjölfar beiðni þessarar var varnaraðila skipaður verjandi, Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður. Beiðnin var lögð fram á dómþingi þann 17. febrúar sl.
Í gögnum málsins kemur fram að þann 8. febrúar sl. hafi varnaraðili verið vistaður á geðdeild LSH, deild 33C. Þann 10. febrúar sl. staðfesti dóms- og kirkjumálaráðuneytið beiðni um að varnaraðili yrði vistaður nauðungarvistun á sjúkrahúsi á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Þann sama dag fór varnaraðili fram á við Héraðsdóm Suðurlands að nauðungarvistunin yrði ógild og var þeirri kröfu hafnað með úrskurði þann 18. febrúar sl. Með beiðni sóknaraðila til dómsins um sjálfræðissviptingu þann 16. febrúar sl. framlengdist vistun varnaraðila með vísan til 2. mgr. 29. gr. lögræðislaga og hefur hann verið vistaður á deild 33C á Landspítala Háskólasjúkrahúsi frá 8. febrúar sl.
Fyrir liggur vottorð B geðlæknis á deild 33C á Landspítalanum, þar sem varnaraðili dvelur, dags. 25. febrúar 2009.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Í beiðni sóknaraðila, kemur fram að varnaraðili hafi um langt skeið átt við ýmiskonar erfiðleika að stríða og grunur hafi verið um geðræna erfiðleika. Varnaraðili hafi verið erfiður sem barn og hafi verið stopult á lyfjum þar sem erfiðlega hafi gengið að gefa honum þau. Í grunnskóla hafi hann verið órór og átt erfitt með að sitja kyrr og námið reynst honum mjög erfitt. Á grunnskólaaldri hafi hann verið greindur með athyglisbrest og ofvirkni (ADHS), mótþróaþrjóskuröskun auk sértækra námsörðugleika, þ,m.t. lesblindu. Sjö ára gamall hafi hann þrisvar sinnum reynt sjálfsvíg og í kjölfari þess hafi hann verið lagður inn á Barna- og unglingageðdeild. Að loknu grunnskólanámi hafi varnaraðili átt erfitt og oft liðið mjög illa. Hann hafi átt erfitt með svefn og erfitt eð að halda athygli við vinnu og unnið stopult. Undanfarið ár hafi varnaraðila reynst sérstaklega erfitt að koma daglegu lífi í réttar skorður, m.a. gleymi hann að þrífa sig og í kringum sig sem og að borða. Hann hafi verið mjög mótfallinn lyfjatöku og komið hafi tímabil þar sem han hafi alfarið neitað að taka lyf. Varnaraðili hafi átt mjög erfitt með að skipuleggja sig og séu fjármál hans í óreiðu. Þá eigi hann við miklar skapsveiflur að stríða sem og áráttu- og þrjáhyggjuhegðun. Á sama tíma hafi hann neytt áfengis í óhóflegu magni og grunsemdir séu um fíkniefnaneyslu. Þá hafi varnaraðili margsinnis hótað fjölskyldu sinni, sérstaklega móður, um að taka eigið líf. Sóknaraðili hafi frá haustinu 2006 ítrekað reynt að fá varnaraðila lagðan á geðdeild án árangurs vegna erfiðleika hans og sjálfsvígshugsana. Þá kemur fram að ástand varnaraila hafi versnað til muna um síðustu jól. Hann hafi þá haft í hótunum við fjölskyldu sína um að taka eigið líf og sýndi einnig mikla árásarhneigð. Hafi varnaraðili komið á heimili móður sinnar í byrjun janúar sl., í ástandi sem hafi jaðrað við sturlunarástand, þar sem hann hafi talað m.a. um að KGB væri á eftir honum og hann þyrfti því að komast burtu. Hafi í framhaldi verið beðið um nauðungarvistun á honum í 21. dag, frá 6. janúar til 27. janúar sl. Á þeim tíma hafi náðst ákveðinn árangur, varnaraðili verið rólegri enda hafi hann fengið reglulega lyf og það verið mat lækna að árangur væri að nást. Varnaraðili hafi samþykkt að fara á endurhæfingardeild Landspítalans á Kleppi en á meðan hann hafi beðið eftir plássi átti hann að vera innritaður á deild 33C, mæta til lyfjatöku og sofa þar en það hafi ekki gengið eftir. Varnaraðili hafi hvorki sinnt ráðleggingum fagaðila né tekið lyf eftir að nauðungarvistun lauk þann 27. janúar sl. Þann 8. febrúar sl., hafi varnaraðili sturlast á heimili ömmu sinnar í Reykjavík og sýnt mikla árásarhneigð. Hann hafi brotið hluti, hótað fólki og talað um að taka líf sitt. hann hafi veri mjög ör, uppspenntur og hættulegur sjálfum sér og öðrum. Að mati sérfræðinga á geðdeildinni hafi varnaraðila ekki verið treystandi til að ráða sínum persónulegu högum og verið hættulegur sjálfum sér og jafnvel örðum. Í dag sé varnaraðili mjög veikur og geri sér enga grein fyrir veikindum sínum. Sóknaraðili byggir kröfu sína á a-lið 4. gr., 1. tl. 5. gr. og d-lið 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst verjandi varnaraðila þóknunar og að hún verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili byggir á því að vandi hans sé eingöngu félagslegur. Engin geðsjúkdómur hafi verið sannreyndur né liggi nokkur greining fyrir. Þá hafi geðrofseinkenni gengið hratt til baka og hann sé tilbúinn að sinna sprautu-og lyfjameðferð og vinna í samráði við lækna.
Varnaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum og kvað stöðu sína vera mun betri en áður og hann vera í betra jafnvægi. Hann taki töflur núna daglega en væri að fara í sprautumeðferð. Kvaðst hann vera sáttur við þá meðferð sem hann hafi fengið. Kvaðs hann hafa áttað sig á því að hann ætti við geðraskanir að stríða en hann væri nú kominn á gott ról. Kvað hann, að búið væri að ræða um að hann færi á Klepp en hann kvaðst ekki vera viss hvort hann myndi sofa þar, hann ætlaði að leigja sér húsnæði með frænda sínum. Aðspurður kvaðst hann hafa verið veikur tímabundið sem fólst í því að hann bullaði bara. Aðspurður um enduhæfingu á Kleppspítala kvaðst hann ekki telja sig þurfa á því að halda og hann treysti sér til að sjá um sig sjálfur út í lífinu. Varnaraðili kvaðst vera tilbúinn til að taka lyfin sín áfram og að fara eftir leiðbeiningum lækna. Aðspurður um framtíðina kvaðst varnaraðili muni fara á örorkubætur en hann hefði einnig velt fyrir sér að fara í nám, sérstaklega kvikmyndaskólann.Varnaraðili kvaðst lítil samskipti hafa haft við móður sína upp á síðkastið en hann ætti í ágætu sambandi við föður sinn.
Niðurstaða.
Samkvæmt d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er sóknaraðili réttur aðili málsins.
B geðlæknir á deild 33C, geðdeild Landspítalans, gaf út læknisvottorð þann 25. febrúar sl. Kemur þar fram að varnaraðili hafi lagst inn á deild 33C þann 3. janúar sl. með veruleg geðrofseinkenni. Segir svo í vottorðinu: „Þá bar mikið á miklum hugsanatruflunum. Tal var samhengislítið og hann átti erfitt með að skilja það sem að sagt var við hann. Átti erfitt með að mynda fullmótaðar setningar. Hugsanatruflanir þannig verulega. Einnig bar nokkuð mikið á aðsóknarranghugmyndum og einnig mjög líklegt að um ofskynjanir hafi verið að ræða og þá raddir. Geðslag var óstöðugt. Mikill skortur á innsæi og raunar ekkert innsæi í ástand sitt þá. Vildi ekki vera á deildinni og var því nauðungarvistaður. Var hér um greinileg veruleg geðrofseinkenni að ræða og lá ljóst fyrir að A þyrfti á áframhaldandi meðferð að halda. Var settur á lyfjameðferð og þá geðrofslyf. Svaraði þessum lyfjum fljótlega og róaðist mjög fljótlega en áfram mjög lítið innsæi og ósáttur við innlögn. Það bar nokkuð á geðrofseinkennum áfram í ca. 2 vikur eftir að lyfjameðferð var hafin en þá létu þessi geðrofseinkenni nokkuð vel undan en eftir stóð samt sem áður mjög lítið innsæi í ástand sitt og að um neinn sjúkdóm væri að ræða..... Virðist sem að veikindaeinkenni A hafi farið mjög vaxandi núna sl. haust. Hann leitaði töluvert á göngudeild geðdeildar hér á LSH sl. sumar. Var það aðallega vegna þunglyndiseinkenna. Var þá jafnvel með sjálfsvígshugsanir og til er nóta frá göngudeild frá því í nóv. 2008 þar sem að móðir hans hringdi og var hrædd um A. Hafði hann þá reynt að herða trefil að hálsi sínum og var með sjálfsvígstal. Hafði verið settur á þunglyndislyf sl. sumar á göngudeild geðdeildar og tekið þau í einhvern tíma og virtist hafa eitthvað hjálpað en þó skorti mjög á meðferðarheldni og tók þannig ekki lyf sín eins lengi og reglulega og hann átti að gera. Virðist sem að geðrofseinkenni hafi síðan farið mjög vaxandi sl. haust. Sem fyrr segir þá virðist A svara lyfjameðferð nokkuð vel. Geðrofseinkenni láta nokkuð fljótt undan. Hann róast og virðist líða betur. Núna hefur verið hafin meðferð með forðasprautulyfi sem að gefið er í vöðva á 2. vikna fresti. ....Þetta forðasprautulyf á að gefa á 2.vikna fresti í vöðva. Hann hefur samþykkt þessa lyfjameðferð nú. Mjög mikilvægt er að svona lyfjameðferð haldi áfram. Blóðrannsóknir hafa verið gerðar svo og tekin sneiðmynd af heila og einnig farið í heilalínurit. Þessar rannsóknir hafa verið eðlilegar og ekki getað bent á neinar líkamlegar orsakið veikindanna. Til stendur að gera frekari rannsóknir.... Vonast er til að innsæi A muni aukast og hann muni sjá að hann þarfnast áframhaldandi meðferðar og þá bæði lyfjameðferðar og einnig annarrar meðferðar. Horft er til endurhæfingardeildar Kleppsspítala með þetta í huga. A hefur samþykkt það að þiggja slíka meðferð en þó er hans innsæi áfram mjög lítið. Hafði samþykkt slíka meðferð í fyrri legu en hugur fylgdi síðan alls ekki máli.... Mjög nauðsynlegt að þessi drengur haldist á lyfjameðferð til þess að halda einkennum niðri. Eins og fyrr segir hafa einnig sótt á A þunglyndiseinkenni og þá með sjálfsvígshusunum. Ekki er hægt að útiloka að ef að meðferð fellur niður að þá geti slík einkenni aukist á ný. Auk þess hefur A ekki haft neina getu til þess að stunda vinnu eða nám eða raunar hugsað um eðlilegar daglegar venjur og erindi sbr. að ofan.....Verulegar líkur á því að hann nái töluverðum bata og meiri hæfni til þess að takast á við hið daglega líf og betri líðan með þeirri meðferð sem í boði er. Eins og fram hefur komið er hér um að ræða alvarleg veikindi og þarfnast A áframhaldandi meðferðar, bæði í formi lyfjameðferðar og annarrar meðferðar og viðtæks stuðnings á ýmsum sviðum. Þar sem sjúkdómsinnsæi hans og meðferðarheldni er enn mjög lítil sýnist manni að áframhaldandi sjálfræðissvipting sé nauðsynleg til að tryggja megi þessa meðferð en jafnframt vonast til þess að innsæi hans aukist og meðferðarheldni og hann fari að vinna betur með sínum meðferðaraðilum.“
B, kt. [...], sérfræðingur á geðdeild LSH, 33C, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti það sem kemur fram í vottorði hans. Aðspurður kvað hann varnaraðila vera nú að klára sína aðra nauðungarvistun. Væri hann núna meðfærilegri en hans innsæi í sjúkdóminn og nauðsyn á meðferð væri mjög sveiflukennt. Varnaraðili hafi ekki áður viljað þiggja endurhæfingameðferð sem honum hafi verið boðið og því þurfi að vinna með hann á annan hátt. Varnaraðili sé nú með geðrofseinkenni en endanleg sjúkdómsgreining liggi ekki fyrir. Hugsanlega væri um geðklofa að ræða en fleiri sálfræðipróf þyrfti að gera á varnaraðila til að fá það staðfest. Þó væri um mikið geðrofseinkenni að ræða hjá varnaraðila og því um takmarkaða getu hans til að sjá um sig sjálfur. Detti lyfjameðferðin niður gætu geðrofseinkennin orðið áberandi á ný og myndi þá skerða getu hans enn frekar. Nú væri varnaraðili kominn á forðasprautur, hann hafi fengið eina sprautu og taki þær í raun þrjár vikur að virka til að taka yfir töflulyfjagjöf. Næstu sprautu ætti varnaraðili að fá 7. mars og ekki fyrr en eftir það geti forðasprauturnar tekið við af lyfjum í töfluformi. Erfitt sé að segja fyrir um hvort varnaraðili muni nú, losni hann út af deildinni, halda sjálfur áfram að fá lyf eða forðasprautur. Varnaraðili hafi leitað á göngudeild sl. sumar og þá ekki fylgt eftir lyfjagjöf eða ráðleggingum. Varnaraðili telji að ekki sé um nein veikindi að ræða. Nú væru vonir bundnar við það að innsæi hans aukist í sjúkdóminn. Forðasprautur séu gefnar á tveggja vikna fresti og hætti varnaraðili að fá lyfin sé hætta á að ástand varnaraðila fari í sama farið og þegar hann sætti fyrst nauðungarvistun í janúar sl., þ.e. að hann verði með ofsóknarhugmyndir og lítil raunveruleikatengs. Aðspurður um það hvort tímabundin sjálfræðissvipting myndi gagnast varnaraðila, taldi B að það myndi gagnast honum, sérstaklega ef varnaraðili sýndi samstarfsvilja og innsæi hans og meðferðarheldi aukast. Innsæi varnaraðila hafi verið sveiflukennt. Fyrir þremur til fjórum dögum hafi varnaraðili ekki verið á því að fá forðasprautur en fyrir tveimur dögum hafi hann verið tilbúinn til þess. Aðspurður kvað B varnaraðila hafa takmarkaða getu til að geta séð sér farborða fái hann ekki þá meðferð sem honum sé nauðsynleg m.a. þar sem virkni sjúkdóms hans hafi aukist undanfarið. Aðspurður kvað B sjúkdómsgreiningu ekki vera endanlega en hugsanlega sé um geðklofa að ræða en lengri tími þurfi að líða til að hægt sé að ákvarða slíka greiningu. Kvað hann varnaraðila hafa verið mjög veikan þegar hann kom fyrst í innlögn og vonast væri til að hann gæti séð þokkalega um sig, verði hann áfram á lyfjagjöf þar sem hann svari lyfjagjöf tiltölulega vel. Aðspurður um nauðsyn þess að sjálfræðissvipta varnaraðila kvaðst B vera hræddur um að varnaraðili myndi ekki skila sér í lyfjagjöf og í viðtöl en það hafi verið ferli hans fram til þessa. Varnaraðili hafi t.d. ekki tekið vel í þann möguleika að fá aðstoð heim til sín til að sinna sprautugjöf. Hætta sé á að sjúkdómur varnaraðila þróist í alvarlegan geðsjúkdóm, hætti hann meðferð. Aðspurður kvað B að hætti varnaraðili núna í meðferð yrði um lítinn bata að ræða en fengi hann meðferð næstu sex mánuði ykjust líkurnar á meðferðarheldni og staða varnaraðila yrði betri í ákveðinn tíma en hætti hann í meðferð þá myndi hann lenda í sama farinu aftur.
Óumdeilt er í málinu að varnaraðili hefur tvisvar á þessu ári sætt nauðungarvistun á geðdeild Landspítalans vegna geðraskana. Í læknisvottorði B, geðlækni kemur fram að varnaraðili hafi verið nauðungarvistaður í tuttugu og einn dag frá 3. janúar sl., og þá verið lagður inn vegna mikilla geðrofseinkenna. Eftir að sú nauðungarvistun rann út hafi varnaraðili talað um að fara í áframhaldandi meðferð og þá endurhæfingarmeðferð í framhaldi af innlögninni en ekki staðið við það. Hann hefði því aftur verið nauðungarvistaður í tuttugu og einn dag þann 8. febrúar sl. og hafi hann þá verið með veruleg geðrofseinkenni. Hafi hann talað samhengislítið og átt erfitt með að skilja þar sem sagt var við hann. Hann hafi átt erfitt með að mynda fullmótaðar setningar og hugsanatruflanir verið verulegar. Einnig hafi borið nokkuð á aðsóknarranghugmyndum og einnig mjög líklegt að um ofskynjarnir hafi verið að ræða. Varnaraðili lýsti því fyrir dóminum að hann væri tilbúinn að vera á lyfjum vegna sjúkdóms síns. Ekki var að heyra á varnaraðila að hann hefði mikið innsæi í sjúkdóm sinn þrátt fyrir að hann lýsti sig viljugan til að sinna lyfjagjöf. Bæði það að hann var ekki tilbúinn til að fá aðstoð með lyfjagjöf heima fyrir svo og að hann taldi sig ekki þurfa á enduhæfingu á Kleppspítala að halda bendir sterklega til þess að varnaraðili hafi lítið sem ekkert innsæi í sjúkdóm sinn. Þar af leiðandi eru líkurnar meiri en minni að hann muni ekki sækja þá meðferð sem honum er nauðsynleg til að ná þeim bata sem kostur er, hafi hann frjálsar hendur með það. Það styðja einnig fyrri inngrip lækna í sjúkdóm varnaraðila en hann hefur þá ekki mætt til eftirlits, í viðtöl eða til að sinna lyfjameðferð. Þá hefur B geðlæknir staðfest að varnaraðili eigi við miklar geðraskanir að stríða sem ekki verður haldið niðri nema með langtíma lyfjagjöf en vonir séu bundnar við það að fái varnaraðili langtíma lyfjameðferð, náist meiri meðferðarheldni hjá honum með auknum árangri og meiri líkum á að hann geti fótað sig sjálfur úti í lífinu. Væri áframhaldandi sjálfræðissvipting nauðsynleg til að tryggja megi meðferð.
Sóknaraðili krefst sjálfræðissviptingar ótímabundið en við fyrirtöku málsins var kröfunni breytt þannig að sjálfræðissviptingar var krafist í sex mánuði. Í 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir að svipta megi mann lögræði sínu tímabundið ef ótímabundin svipting þyki ekki nauðsynleg. Tímabundin lögræðissvipting skuli þó ekki ákveðin skemur en sex mánuði í senn. Samkvæmt framburði B geðlæknis, er vonast til að á þeim tíma verði hægt að ná þeim tökum á veikindum varnaraðila að innsæi hans aukist og hann verði tilbúnari þá til að vinna með læknum til að ná tökum á veikindum sínum.
Sjálfræði manna eru grundvallarmannréttindi og því ber að gera strangar kröfur við ákvörðun um sviptingu þeirra réttinda. Þó verður sú skerðing sem felst í sjálfræðissviptingu að vera þannig að hún tryggi þeim sem verða fyrir henni, þann árangur sem vænst er að náist með aðgerðum í hverju tilviki. Í þessu tilfelli er markmið sviptingarinnar að hjálpa varnaraðila að fá viðeigandi meðferð við alvarlegum veikindum, sem hann hefur neitar að viðurkenna, svo hann geti í framtíðinni notið þeirra lífsgæða sem hann nú fer á mis við. Að öllu þessu virtu verður að telja nægjanlega fram komið að varnaraðili sé haldin slíkum geðröskunum að skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga séu uppfyllt og rétt sé að svipta varnaraðila sjálfræði eins og segir í úrskurðarorði. Engu breytir þar um þó ekki liggi fyrir greining á því hvers konar geðsjúkdóm varnaraðili á við að stríða.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Óskars Sigurðssonar, hæstaréttarlögmanns, úr ríkissjóði, en hún þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur, til handa hvoru um sig.
Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
A, kt. [...], [...], er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá úrskurðardegi.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Óskars Sigurðssonar, hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.