Hæstiréttur íslands
Mál nr. 38/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Ákæra
- Ásetningur
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2014. |
|
Nr. 38/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Guðmundsson hrl.) |
Líkamsárás. Ákæra. Ásetningur.
X var ákærður fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa veist að þáverandi eiginkonu sinni, A, slegið hana í vinstri handlegg og hrint henni þannig að hún féll á eldhúsinnréttingu. Var X sýknaður í héraðsdómi með vísan til þess að gegn neitun hans hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að hann hefði viðhaft þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að niðurstaða héraðsdóms hefði fyrst og fremst verið reist á mati á framburði X og A um atvik umrætt sinn. Þótt framburður þeirra beggja hefði verið nokkuð á reiki hjá lögreglu og fyrir dómi hefðu ekki verið færð að því nægjanleg rök af hálfu ákæruvaldsins að fallast bæri á ómerkingu héraðsdóms á grundvelli 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu X.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. október 2013. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök, og dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara, komi til sakfellingar, að refsing verði sú vægasta sem lög leyfa.
Samkvæmt ákæru er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 29. apríl 2012 á heimili hans og þáverandi eiginkonu hans, A, veist að henni, „slegið hana í vinstri handlegg og hrint henni þannig að hún féll á eldhúsinnréttingu“ með nánar greindum afleiðingum. Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Það er skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt því ákvæði að sá, sem borinn er sökum, hafi haft ásetning til að ráðast á þann, sem talinn er hafa orðið fyrir árás, og valda honum líkamstjóni, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður maður því aðeins sakfelldur fyrir slíkan verknað að ákæruvaldið hafi fært fullnægjandi sönnur að því að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem að framan er lýst, enda hafi hennar verið getið í ákæru, svo sem áskilið er í 1. mgr. 180. gr. sömu laga.
Sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna ákærða af þeirri háttsemi, sem hann er ákærður fyrir, er fyrst og fremst reist á mati héraðsdómara á framburði ákærða og fyrrverandi eiginkonu hans er ein gátu borið af eigin raun um það sem gerðist umrætt sinn. Þótt framburður þeirra beggja hjá lögreglu og fyrir dómi hafi verið nokkuð á reiki hafa af hálfu ákæruvaldsins ekki verið færð að því nægjanleg rök að fallast beri á ómerkingu héraðsdóms á grundvelli 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.
Að framansögðu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjunarkostnaður málsins skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, fyrir Hæstarétti, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. október 2013.
Mál þetta, sem þingfest var þann 27. júní 2013 og dómtekið þann 16. september sama ár, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 30. maí 2013, á hendur X, kt. [...], [...]; „fyrir líkamsárás með því að hafa aðfararnótt [sic] sunnudagsins 29. apríl 2012 á sameiginlegu heimili hans og þáverandi eiginkonu hans að [...] í [...], veist að þáverandi eiginkonu sinni A, kt. [...], slegið hana í vinstri handlegg og hrint henni þannig að hún féll á eldhúsinnréttingu, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og eymsli á vinstri handlegg og yfir svæði efst við rassaskoru [sic] sem liggur frá miðlínu og út á báðar rasskinnar.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa A, en krafan er svohljóðandi:
„Einkaréttarkrafa:
Í málinu gerir Jónína Guðmundsdóttir hdl. kröfu f.h. brotaþola að ákærða verði með dómi gert að greiða brotaþola bætur að fjárhæð kr. 500.000, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. apríl 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Verði tjónþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að kærði verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar tjónþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.“
Mál þetta var þingfest þann 27. júní 2013. Ákærði mætti fyrir dóm og var Gísli Kr. Björnsson héraðsdómslögmaður skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði neitaði sök og hafnaði bótakröfu. Málinu var frestað til 13. ágúst sl., en þann dag mætti verjandi ákærða og lagði fram greinargerð. Með vísan til 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, boðaði dómari til þinghalds fimmtudaginn 12. september sl., til að gefa aðilum og bótakrefjanda kost á að tjá sig áður en dómari tæki ákvörðun um hvort einkaréttarkrafan yrði skilin frá öðrum þáttum málsins og vikið til meðferðar fyrir dómi í sérstöku einkamáli. Að loknum athugasemdum framangreindra ákvað dómari að víkja einkaréttarkröfu brotaþola til meðferðar fyrir dómi í sérstöku einkamáli.
Málið var næst tekið fyrir þann 12. september sl., þegar aðalmeðferð málsins fór fram. Þann dag gaf ákærði skýrslu fyrir dómi og sjö af þeim átta vitnum sem boðuð voru til skýrslutöku. Þar sem eitt vitni var statt erlendis var aðalmeðferð málsins frestað til 16. september sl. Þann dag gaf umrætt vitni skýrslu fyrir dómi og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.
Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum ákæruatriðum, en til vara vægustu refsingar sem lög frekast leyfa.
Málsatvik
Mánudaginn 30. apríl 2012 kom A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina á [...] og tilkynnti að hún hefði orðið fyrir líkamsárás á heimili sínu aðfaranótt sunnudagsins 29. apríl það sama ár, af hálfu, þáverandi eiginmanns hennar, ákærða í máli þessu. Í framhaldi af því var tekin lögregluskýrsla af brotaþola. Fyrir liggur að ætlaður brotavettvangur var ekki rannsakaður.
Nauðsyn ber til að rekja framburð brotaþola hjá lögreglu um atvik í eldhúsi á heimili þeirra umrædda nótt en dómari málsins hefur kynnt sér hljóðupptöku af skýrslutökunni sem liggur frammi í málinu. Brotaþoli kvaðst hafa vaknað kl. 03.30 við það að ákærði kom heim dauðadrukkinn. Ákærði hafi hleypt hundunum út og hún farið fram í eldhús, sest við eldhúsborðið og þá hafi þessar hrindingar byrjað eins og brotaþoli orðaði það. Meðan hún sat í eldhúskróknum hefði ákærði dansað fyrir framan hana og úthúðað henni og lagt á það áherslur „og slær alltaf svona til mín“. Ákærði hefði síðan farið fram en komið aftur inn í eldhúsið og þá slegið brotaþola í vinstri upphandlegg. Þá hefði hún lent á eldhúsinnréttingu og fengið við það mar efst á rass og upphandlegg. Aðspurð hvort hún hafi fallið við umræddar hrindingar sagði brotaþoli að svo hefði ekki verið. Ákærði hefði kýlt hana mörg högg í vinstri upphandlegg með krepptum hnefa og einnig hafi högg lent á bringu hennar. Brotaþoli kvað ákærða líklega hafa hrint henni 20 sinnum. Brotaþoli sagði orðrétt „það er ekki beint eins og að hann sé að, heldur meira eins og hann sé að kúga mig, heldur en hann ætli að...virkilega að meiða mig, ef ég á að vera sanngjörn og segja alveg satt þá, hann kýlir mig ekki eins og hann ætli að rota mig.“ Þessa nótt hefði ákærði sagt henni að hann vildi skilnað og viljað að hún skrifaði undir samkomulag þeirra í milli um skilnaðarkjör. Svona hefði það svo gengið þar til kl. 05.30 þegar ákærði hefði farið að sofa og hún þá hlaupið út og farið að heimili sonar síns.
Brotaþoli setti fram kröfu um nálgunarbann og lauk þeim þætti málsins með úrskurði Héraðsdóms [...] þann [...] 2012 sem staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á [...] um að ákærða væri skylt að yfirgefa heimili sitt og sæta jafnframt nálgunarbanni í sex mánuði frá og með [...] 2012. Í framangreindum úrskurði segir orðrétt um framburð ákærða þegar málið var tekið fyrir þann [...] 2012 í Héraðsdómi [...]: „Við fyrirtöku málsins kannaðist varnaraðili við að honum og eiginkonu hans hefði lent saman umrætt sinn, en hann hafi verið drukkinn. Kannaðist varnaraðili við að hafa gripið í upphandlegg brotaþola, en kannaðist ekki við að hafa veist að henni með ofbeldi á annan hátt. Þá kvað varnaraðili brotaþola hafa verið sitjandi á stól á meðan. Ekki kvaðst varnaraðili kunna skýringar á þeim áverkum sem lýst er í framangreindu læknisvottorði. Varnaraðili kvaðst vera heilsuveill og hefði hann ekki líkamlega burði til þess sem á hann væri borið.“
Lögregluskýrsla var tekin af ákærða vegna þessa máls þann 21. maí 2012 að viðstöddum verjanda ákærða og daginn eftir af tveimur vitnum og hefur dómari málsins kynnt sér hljóðupptöku af skýrslutökunni sem liggur frammi í málinu. Umrædda nótt kvaðst ákærði hafa komið heim um kl. 3:30. Hann hefði hleypt hundunum út og hefði brotaþoli setið í borðkróknum í eldhúsinu þegar hann kom aftur inn. Síðan segir ákærði orðrétt „Ég var dauðadrukkinn og lét illa, sló að ég hélt eða greip mjög fast í framhandlegg hennar en ekki upphandlegg...“ Annað kvaðst ákærði ekki hafa gert á hlut brotaþola sem setið hafi allan tímann í borðkróknum. Ákærði kvaðst ekki geta útskýrt áverka á brotaþola samkvæmt áverkavottorði. Framangreindur texti úr úrskurði Héraðsdóms [...] frá [...] 2012 í brottvikningar- og nálgunarbannsmálinu var borinn undir ákærða. Þegar ákærði var inntur eftir því hvort þar hafi verið rétt haft eftir honum sagði ákærði „ já, mér heyrist það.“
Meðal gagna málsins er læknisvottorð frá Heilbrigðisstofnun [...], varðandi brotaþola sem leitaði til B læknis þann 30. apríl 2012. Fram kemur í vottorðinu að brotaþoli hafi leitað á vaktina umræddan dag vegna áverka sem hún hafi fengið af völdum eiginmanns síns aðfaranótt 29. apríl sl. Síðan segir orðrétt: „Við skoðun sést eftirfarandi: Er með marbletti á vi. upphandlegg utanverðum á nokkuð mörgum stöðum og er það aumt, líka aftanverðum upphandleggnum. Eymsli talsverð ofan við vi. brjóst en ekki mar og ekki að sjá bólgu. Mar, bólga og talsverð eymsli yfir svæði efst við rassaskoru [sic] sem liggur frá miðlínu og út á báðar rasskinnar. Ekki önnur sýnileg áverkamerki eða áþreyfanleg [sic]. Henni líður greinilega illa andlega.“
Undir meðferð málsins fyrir dómi lagði verjandi ákærða fram læknisvottorð C læknis á heilsugæslunni [...] og tölvupóst frá D kírópraktor, þar sem gerð er grein fyrir heilsufari ákærða. Kemur fram í vottorði C að ákærði sé með sjúkdóma í stoðkerfi, brjósklos í mjóbaki og hálshrygg. Í tölvupósti D kemur fram að hann hafi veitt ákærða meðferð vegna verkja í baki á tímabilinu frá 29. mars til 2. maí 2012.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst hafa komið á heimili sitt um klukkan hálf fjögur umrædda nótt, mjög drukkinn og undir áhrifum verkjalyfja sem hann hefði tekið á þessum tíma vegna kvilla í baki og hálsi. Nánar aðspurður kvað hann ástand sitt hafa verið nokkuð gott þegar heim kom en fyrr um kvöldið hefði hann verið mjög dapur. Ákærði kvaðst hafa byrjað á því að hleypa hundum þeirra hjóna út í garð um svalahurð í stofunni. Að því loknu hefði hann farið inn í eldhús þar sem brotaþoli hefði setið inni í eldhúskróknum og tók ákærði ítrekað fram að þar hefði brotaþoli setið allan tímann, þ.e. alveg þar til ákærði fór að sofa. Þau hafi rifist og viðurkenndi ákærði að hafa gripið oft þéttingsfast um fram- eða upphandlegg brotaþola til að leggja áherslu á orð sín, líklega í 15-20 skipti. Tilgangur með þessu hafi verið að fá brotaþola til að samþykkja það sem ákærði hefði farið fram á við hana. Tók ákærði fram að svona nokkuð leiði óhjákvæmilega til þess að högg komi á handlegg og staðfesti ákærði að þeir áverkar sem lýst sé í læknisvottorði samrýmdust háttsemi þeirri sem hann lýsti hér að framan. Ákærði hafnaði því alfarið að brotaþoli hafi fengið aðra þá áverka sem lýst er í læknisvottorði af hans völdum og neitaði ítrekað að hafa hrint eða ýtt brotaþola eins og lýst er í ákæru enda hefði brotaþoli setið allan tímann í borðkróknum. Rifrildi þeirra hefði lokið með því að ákærði hefði óskað eftir skilnaði og kvaðst hann hafa gert brotaþola tilboð í framhaldi af því. Aðspurður um hvað þeim hefði farið á milli kvað ákærði brotaþola hafa svarað fyrir sig eins og venjulega og hefðu þau rifist heiftarlega en þessu hefði lokið þegar hann fór að sofa um klukkan 04.30. Ákærði tók fram að í millitíðinni hefði hann farið út í bifreið að leita að símanum sínum og hafi það tekið 10-12 mínútur. Ákærði kvað þrennar útgöngudyr vera á húsinu og því hefði verið auðvelt fyrir brotaþola að yfirgefa heimilið meðan hann fór út í bifreið. Þá vísaði ákærði því á bug að brotaþoli hafi verið óttaslegin og ítrekaði að hún hefði getað farið burtu, ákærði hefði ekki staðið í vegi fyrir því.
Aðspurður um afleiðingar sjúkdóms sem hann hefur verið greindur með, þ.e. [...], kvaðst ákærði vera að hluta til hreyfihamlaður og eiga erfitt með að halda á hlutum í vinstri hendi. Þá lýsti ákærði því að undir líkamlegu álagi fengi hann aðsvif eða svima og sé kastið slæmt þá fylgi því mikil uppköst. Hann lýsti því að heilsu sinnar vegna hefði hann á umræddum tíma ekki getað veist að brotaþola með þeim hætti sem í ákæru greinir.
Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, kvaðst hafa vaknað þegar ákærði, sem hefði verið mjög drukkinn, hafi komið inn að rúmi hennar, látið mjög illa og rekið hana úr rúminu. Brotaþoli kvaðst hafa farið fram og þá hefði ákærði verið að hleypa hundunum út. Ákærði hefði látið mjög ófriðlega og viðhaft ljótt orðbragð. Brotaþoli kvaðst hafa farið að vaskinum í eldhúsinu en ákærði þá hrint henni með báðum höndum þannig að hún lenti með neðsta hluta baksins framan á eldavélinni. Síðan hafi hann í raun hrint henni fyrir horn og hún þá sest við eldhúsborðið. Brotaþoli kvaðst hafa setið í sæti sínu í borðkróknum en ákærði haldið áfram að öskra á hana og ítrekað, 20-40 sinnum, slegið hana með krepptum hnefa í upphandlegginn en einu sinni gripið um upphandlegginn. Ákærði hefði á þessum tíma staðið hinum megin við eldhúsborðið og „látið hana reglulega hafa“ það eins og brotaþoli orðaði það. Nánar lýsti brotaþoli því þannig að ákærði hefði lagt áherslu á niðrandi orð í hennar garð með því að kýla hana og hefðu höggin lent á upphandlegg hennar. Einnig hefði ákærði hrint henni þannig að hún lenti með herðablaðið á tréverki í eldhúsinu. Einhvern tíma á meðan á þessu stóð hefði hann farið út í bifreið að leita að símanum sínum. Ákærði hefði viljað skilnað og gert henni grein fyrir skilnaðarkjörum. Þessu hefði síðan lokið með því að ákærði hefði farið inn að sofa í þeirri trú að hún myndi samþykkja tiltekin samningskjör. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög hrædd og samþykkt allt sem ákærði hefði sagt. Stuttu síðar kvaðst vitnið hafa hlaupið út og m.a. komið við í skrúðgarðinum við ráðhúsið, dottið til hugar að fara á vinnustað sinn, en síðan ákveðið að fara að heimili sonar síns, en þá hefði klukkan verið langt gengin í sex um morguninn. Vitnið tók fram að atlaga ákærða gegn henni hefði staðið yfir í um tvo tíma.
Verjandi ákærða bar undir brotaþola eftirfarandi svar hennar við spurningu lögreglu um hvort hún hefði verið hrædd umrædda nótt. „Ég er farin að vera það“. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög hrædd við ákærða umrædda nótt, enda hefði hann áður lagt hendur á hana, en þá ódrukkinn. Aðspurð af hverju hún hafi ekki farið fyrr út úr húsinu, kvaðst brotaþoli hafa fundist hún innikróuð þar sem hún sat inni í horni í eldhúsinu í um tvo tíma með ákærða yfir sér sem hefði barið í borðið, margoft slegið hana, sett hnéð upp á læri hennar og tekið hana hálstaki.
Vitnið E, sonur brotaþola, kvaðst umrædda nótt, einhvern tímann á milli klukkan 5 og 7 vaknað við að móðir hans barði upp á hjá vitninu og unnustu þess. Móðir hans hefði verið mjög hrædd og kvaðst vitnið aldrei hafa séð hana svona hrædda. Hún hefði greint þeim frá því að hafa vaknað við ákærða blindfullan og öskrandi. Brotaþoli hefði lýst því að ákærði hefði ýtt henni utan í eldavélina og slegið eða kýlt hana í vinstri handlegg og öxl. Þá greindi vitnið frá því að brotaþoli hefði ekki þorað að hringja þó svo síminn hefði verið um einum til tveimur metrum frá henni. Vitnið minnti að brotaþoli hefði greint frá því að ákærði hefði á einhverjum tímapunkti farið út í bifreið sína. Aðspurt hvort vitnið hafi séð áverka á brotaþola kvaðst hann hafa séð bólgu á vinstri upphandlegg og neðst á baki. Þegar vitnið var spurt af hverju það hefði ekki greint frá því í skýrslutöku hjá lögreglu á hvorri hendinni brotaþoli hefði verið með áverka, kvaðst vitnið hafa spurt brotaþola um þetta atriði deginum fyrir aðalmeðferð.
Vitnið F, unnusta sonar brotaþola, lýsti aðkomu brotaþola á heimili hennar með svipuðum hætti og vitnið E. Vitnið kvaðst hafa farið til dyra. Brotaþoli, sem hafi verið í sjokki, hefði komið inn og átt erfitt með að greina frá því sem komið hafi fyrir og verið mjög hrædd. Brotaþoli hefði greint frá því að hafa vaknað þegar ákærði kom heim um nóttina. Þau hefðu rifist, eða ákærði rifist við brotaþola, og einnig hefði ákærði margoft kýlt hana í upphandlegg og ýtt henni utan í eldavélina. Undir vitnið var borinn framburður hennar hjá lögreglu þar sem hún greindi frá því að brotaþoli hefði sagt að ákærði hefði ýtt fast í handlegg brotaþola, en ekki kýlt. Vitnið tók fram að brotaþoli hefði sagt vitninu að ákærði hefði ýtt í handlegg brotaþola, bæði með flötum lófa og krepptum hnefa, og einnig gripið í handlegg brotaþola. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér að frá því að hún, þ.e. brotaþoli, hefði velt því fyrir sér hvort hún ætti að yfirgefa heimili sitt og síðan ákveðið að fara.
Vitnið G, sonur ákærða, gaf skýrslu í gegnum síma. Kvaðst vitnið ekkert vita um samskipti föður hans og brotaþola annað en að á milli þeirra hefði allt farið í háaloft.
Vitnið D, kírópraktor, gaf skýrslu í gegnum síma, en vitnið staðfesti að hafa haft ákærða í meðferð fyrri hluta ársins 2012. Vitnið staðfesti efni tölvupósts frá 11. september 2013 um heilsufar ákærða og meðferð. Aðspurður hvort menn með samskonar kvilla og afleidd einkenni og ákærði gætu hlaupið tók vitnið fram að erfitt sé að segja til um slíkt, en auðvitað geti truflun á [...] haft áhrif. Vitnið var spurt hvort ákærði hefði á umræddum tíma verið líkamlega fær um að slá annan mann, grípa einhvern föstu taki, kýla eða hrinda. Svaraði vitnið því til að hann hefði ekki séð að líkamlegt ástand ákærða hefði komið í veg fyrir það.
Vitnið C, heilsugæslulæknir staðfesti læknisvottorð um ákærða, dags. 11. september sl., í skýrslutöku í gegnum síma.
Vitnið H, rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa tekið á móti brotaþola þegar hún kom á lögreglustöðina og tekið skýrslu af henni og fleiri vitnum. Vitnið taldi sig hafa stjórnað rannsókn málsins en vitnið minnti að vettvangur hefði ekki verið rannsakaður. Þá minnti vitnið að hafa séð mar á handlegg brotaþola við skýrslutökuna.
Vitnið B, heilsugæslulæknir, gaf skýrslu í gegnum síma og staðfesti læknisvottorð sitt. Vitnið kvað brotaþola hafa verið nokkuð mikið niðri fyrir þegar hún kom til hans á vaktina. Varðandi ákverka aftan á baki við rassskoru kvað vitnið að þarna hefði orðið einhverskonar högg þannig að blætt hefði undir húð og vöðva. Um hefði verið að ræða bólgu og blæðingu. Líklega hefði högg komið beint á miðlínu, þ.e. er spjaldhrygg, en hugsanlega einnig til hliðar. Þó geti verið að blæðing hafi leitað til hliðar út frá höggi. Vitnið taldi líklegt að ákverkar þessir samræmdust frásögn brotaþola um að henni hefði verið hrint á eldhúsinnréttingu. Sérstaklega aðspurður kvað vitnið áverka sem þessa einnig geta komið til eftir annars konar högg eða fall og tók vitnið fram að hann gæti ekki, á grundvelli skoðunar, fullyrt um á hvers konar flöt brotaþoli hefði fallið eða lent. Vitnið kvaðst ekki muna eftir áverkunum og ekki geta greint frá því hve stórir marblettirnir hefðu verið.
Varðandi áverka á vinstri upphandlegg kvað vitnið þá hafa verið dreifða og að mati vitnisins hefðu þeir ekki komið nema eftir endurtekin högg eða klípingar. Sérstaklega aðspurður hvort áverkarnir hefðu getað verið eftir mörg grip um upphandlegg sagði vitnið að svo hefði getað verið, þ.e. eftir þéttingsföst grip. Fram kom hjá vitninu að slíkir áverkar hefðu líka getað komið við að slegið hefði verið á handlegginn. Vitnið taldi ólíklegt að högg framan á upphandlegg hefði haft í för með sér marblett innanvert á handlegg enda þurfi högg að koma beint á flöt til að framkalla mar. Vitnið kvað brotaþola hafa komið til sín rétt fyrir klukkan sex þann 29. apríl 2012. Vitnið kvaðst minna að áverkar á handlegg og baki hafi verið jafn gamlir og miðað við lýsingu í vottorði hafi þeir í hæsta lagi verið tveggja daga gamlir.
Niðurstaða.
Ákærða er gefið að sök að hafa veist að þáverandi eiginkonu sinni, brotaþola í máli þessu, slegið hana í vinstri handlegg og hrint henni þannig að hún féll á eldhúsinnréttingu. Málatilbúnaður ákæruvaldsins fyrir dómi byggðist á því að ákverkar á vinstri handlegg brotaþola hefðu komið við það að ákærði hefði slegið brotaþola í handlegginn, en áverkar á bakhluta við það að ákærði hefði hrint brotaþola þannig að hún féll á eldhúsinnréttingu og var vörn ákærða ekki áfátt að þessu leyti.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður í fyrsta lagi fjallað um þá ætluðu háttsemi ákærða að hann hafi hrint brotaþola þannig að hún féll á eldhúsinnréttingu með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og eymsli á svæði efst við rassskoru sem liggur frá miðlínu og út á báðar rasskinnar.
Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um atvik umrædda nótt. Samkvæmt framburði þeirra liggur fyrir að þau voru bæði stödd í eldhúsi á heimili þeirra umrædda nótt, en þau greinir hins vegar talsvert á um atburðarásina í umrætt sinn. Í skýrslutöku fyrir dómi neitaði ákærði því alfarið að hafa hrint brotaþola þannig að hún hafi fallið á eldhúsinnréttingu og tók ákærði ítrekað fram að brotaþoli hefði allan tímann setið við eldhúsborðið. Er sá framburður hans í samræmi við framburð hans við fyrirtöku brottvikningar- og nálgunarbanns málsins fyrir dómi þann [...] 2012 þegar ákærði tjáði sig fyrst um þær sakir sem á hann eru bornar í máli þessu og framburð hans hjá lögreglu þann 21. maí 2012.
Brotaþoli lýsti atvikum með talsvert öðrum hætti fyrir dómi. Hún kvað ákærða hafa hrint henni með báðum höndum þar sem hún hefði staðið við vaskinn með þeim afleiðingum að hún hefði lent með neðsta hluta baksins framan á eldavélinni. Ákærði hefði og hrint henni þannig að hún hefði lent með herðablaðið á tréverki í eldhúsinu. Þá hefði ákærði hrint henni fyrir horn og hún þá sest við eldhúsborðið.
Framburður brotaþola hjá lögreglu, sem rakinn var hér að framan, var nokkuð á annan veg en fyrir dómi. Hjá lögreglu lýsti brotaþoli því að hún hefði farið fram í eldhús og sest við eldhúsborðið og þá hafi þessar hrindingar byrjað, eins og brotaþoli orðaði það. Þá lýsti brotaþoli því að ákærði hefði farið fram en þegar hann hefði komið aftur inn í eldhúsið hefði hann slegið brotaþola í vinstri upphandlegg og þá hefði hún lent á eldhúsinnréttingu og fengið við það mar efst á rass og upphandlegg. Kvað brotaþoli ákærða líklega hafa hrint sér 20 sinnum.
Fyrir dómi gat vitnið B ekki fullyrt á hvers konar flöt brotaþoli hefði fallið eða lent, en taldi að áverkar á svæði efst við rassskoru gætu samræmst frásögn brotaþola um að henni hefði verið hrint á eldhúsinnréttingu. Vitnið tók einnig fram að áverkar sem þessir hefðu einnig getað komið eftir annars konar högg eða fall. Vitnið minnti að áverkar á handlegg og baki hafi verið jafn gamlir og miðað við lýsingu í vottorðinu hafi þeir í hæsta lagi verið tveggja daga gamlir.
Í öðru lagi verður fjallað um þá ætluðu háttsemi ákærða að hann hafi slegið brotaþola í vinstri handlegg með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og eymsli.
Vörn ákærða byggðist m.a. á því að þótt ákærði hefði viðurkennt fyrir dómi að hafa gripið líklega 15-20 sinnum þéttingsfast um fram- eða upphandlegg brotaþola fæli það ekki í sér að ákærði hefði játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, þ.e. að hafa slegið brotaþola í vinstri handlegg með þar til greindum afleiðingum. Þá byggðist vörn ákærða á því að hann hafi ekki gripið í handlegg brotaþola í þeim tilgangi að vinna henni mein, heldur eingöngu í þeim tilgangi að leggja áherslu á orð sín og fá brotaþola til að samþykkja það sem hann hefði farið fram á við brotaþola meðan á rifrildi þeirra í umrætt sinn stóð. Með vísan til þess taldi ákærði að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna ásetning til frumverknaðar sem sé refsiskilyrði 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940.
Ákærði lýsti atvikum við eldhúsborðið þannig fyrir dómi að hann hafi gripið, líklega 15-20 sinnum þéttingsfast um fram- eða upphandlegg brotaþola til að leggja áherslu á orð sín. Tók ákærði fram að slíkt leiddi óhjákvæmilega til þess að högg komi á handlegg og staðfesti ákærði að áverkar á handlegg, eins og þeim sé lýst í áverkavottorði, samrýmdust framangreindri háttsemi hans. Við fyrirtöku málsins í brottvikningar- og nálgunarbannsmálinu þann [...] 2012 kvaðst ákærði hafa gripið í upphandlegg brotaþola. Í yfirheyrslu hjá lögreglu þann 21. maí 2012 sagði ákærði orðrétt. „Ég var dauðadrukkinn og lét illa, sló að ég hélt eða greip mjög fast í framhandlegg hennar en ekki upphandlegg...“
Framburður brotaþola fyrir dómi var á þann veg að ákærði hefði 20-40 sinnum slegið hana með krepptum hnefa í upphandlegginn og einu sinni gripið um handlegginn. Framburður brotaþola hjá lögreglu var nokkuð á annan veg en þá lýsti brotaþoli atvikum með þeim hætti að meðan hún hefði setið í eldhúskróknum hefði ákærði dansað fyrir framan hana og úthúðað henni, lagt á það áherslur og „slær alltaf svona til mín“, án þess að gera nánari grein fyrir við hvað hún ætti. Ákærði hefði síðan farið fram en komið aftur inn í eldhúsið og þá slegið brotaþola í vinstri upphandlegg. Þá hefði hún lent á eldhúsinnréttingu og fengið við það mar efst á rass og upphandlegg. Síðar í yfirheyrslunni kom fram hjá brotaþola að ákærði hefði kýlt hana mörg högg í vinstri upphaldlegg með krepptum hnefa. Einnig kom fram hjá brotaþola að það hefði ekki verið beint eins og ákærði hefði ætlað að meiða hana, frekar svona eins og hann hefði verið að leggja áherslu á orð sín, eins og brotaþoli orðaði það.
Vitnið B læknir sagði áverka á vinstri upphandlegg brotaþola hafa verið dreifða og taldi vitnið þau hafa verið eftir endurtekin högg eða klípingar. Áverkarnir hefðu samræmst því að slegið hefði verið á upphandlegginn eða gripið þéttingsfast um hann. Hins vegar taldi vitnið ólíklegt að högg framan á upphandlegg hefði haft í för með sér marblett innanvert á handlegg enda þurfi högg að koma beint á flöt til að framkalla mar.
Við mat á trúverðugleika brotaþola verður ekki fram hjá því litið að nokkuð ber á milli framburðar hennar um atvik máls hjá lögreglu og fyrir dómi, auk þess sem brotaþoli greindi frá því fyrir dómi að ákærði hefði sett hnéð upp á læri hennar og tekið hana hálstaki, en þess gat hún ekki þegar hún var yfirheyrð hjá lögreglu tæpum tveimur sólarhringum eftir atburð þann sem mál þetta fjallar um. Þá er í framlögðu áverkavottorði tekið fram að brotaþoli hafi hvorki borið aðra sýnilega eða áþreifanlega áverka en áverka á vinstri upphandlegg, eymsli ofan við vinstra brjóst og mar, bólgu og talsverð eymsli á svæði við rassskoru. Framburður ákærða hefur hins vegar verið stöðugur frá upphafi að því undanskildu að í yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist ákærði hafa slegið eða gripið í framhandlegg brotaþola.
Samkvæmt 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, hvílir sönnunarbyrði um atvik sem telja má sakborningi í óhag á ákæruvaldinu. Gerð er sú krafa að komin sé fram í máli nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um hvert það atriði sem varðar sekt sakbornings. Fallist er á það með ákærða, að þó hann hafi viðurkennt að hafa gripið ítrekað þéttingsfast um handlegg brotaþola, sé það ekki nægilegt til þess að hann verði sakfelldur fyrir líkamsárás, eins og háttseminni er lýst í ákæru. Þá gætir talsverðs ósamræmis í framburði brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu, bæði um það með hvaða hætti ákærði eigi að hafa slegið hana í handlegginn og hvernig hún hafi fengið umrædda áverka á handlegg. Með vísan til framangreindra lagaákvæða og alls þess sem rakið er hér að framan, hefur ákæruvaldinu að mati dómsins, gegn neitun ákærða, hvorki tekist að sanna að ákærði hafi hrint brotaþola þannig að hún féll á eldhúsinnréttingu né að ákærði hafi slegið brotaþola í vinstri handlegg. Verður ákærði því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Með vísan til niðurstöðu málsins, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður allur sakarkostnaður í máli þessu felldur á ríkissjóð, þ.e. útlagður sakarkostnaður vegna læknisvottorðs samkvæmt yfirliti, 11.176 krónur, og 552.200 króna málsvarnarlaun verjanda ákærða, Gísla Kr. Björnssonar héraðsdómslögmanns, að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna starfa verjanda á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 80/2008, greiðist einnig úr ríkissjóði þóknun vegna vinnu réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi og fyrir dómi, Gríms Hergeirssonar hdl., 310.612 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Margrét Harpa Garðarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á Selfossi, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, X, er sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður, 11.176 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla Kr. Björnssonar héraðsdómslögmanns, 552.200 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns, Gríms Hergeirssonar héraðsdómslögmanns, 310.612 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.