Hæstiréttur íslands
Mál nr. 387/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 10. júní 2015. |
|
Nr. 387/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júní 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað fangelsisrefsingu eftir 226. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júní nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að klukkan 01:42 í nótt hafi lögreglu borist tilkynning um hávaða sem komið hafi frá íbúð á [...]. hæð til vinstri við [...] í Reykjavík. Tilkynnandi kvaðst hafa heyrt mikil öskur koma frá íbúðinni og kvenmannsrödd veina og biðja einhvern um að hætta, auk þess sem það hafi heyrst „dynkir“ líkt og verið væri að kýla einhvern. Tilkynnandi upplýsti lögreglu jafnframt um að hengilás hefði verið settur á hurð íbúðarinnar að utanverðu fyrir um viku síðan.
Lögregla hafi því næst farið að íbúðinni og öskur hafi heyrst í karlmanni og hafi það verið mat lögreglu að greina mætti mikla heift í öskrum viðkomandi. Í kjölfarið hafi svo heyrst vein í konu sem beðið hafi viðkomandi griðar. Á þeirri stundu hafi lögreglumenn gert grein fyrir sér og hættu þá öskrin, en um leið hafi verið kveikt á tónlist og hún spiluð hátt. Húsráðandi hafi ekki sinnt skipunum lögreglu um að opna hurðinni fyrr en honum hafi verið tjáð að hurðinni yrði sparkað upp og hafi þá brotaþoli, A, komið út. Brotaþoli hafi verið sjáanlega í miklu uppnámi, grátið og skolfið. X, kærði, hafi verið hvergi sjáanlegur og ekki komið strax þó á hann hafi verið kallað. Hann hafi að lokum fram komið, hafi hann þá verið löðrandi sveittur, ber að ofan og sýnilega verið undir áhrifum fíkniefna, ör og iðandi. Kærði hafi ekki hlýtt skipunum lögreglu fyrst um sinn og hafi þurft að ógna honum með piparúða og kylfu til að fá hann til að fara að fyrirmælum lögreglu sem hann svo hafi gert.
Á vettvangi hafi það verið mat lögreglu að kærði hafi verið að reyna, með ógnandi tón, að fá brotaþola til að upplýsa lögreglu að ekkert hefði gengið á. Brotaþoli hafi hins vegar upplýst lögreglumenn á vettvangi um að kærði hefði haldið henni nauðugri í íbúð sinni sl. 3 sólarhringa og beitt hana ofbeldi, en brotaþoli hafi sýnt lögreglu áverka á líkama sínum. Brotaþoli hafi lýst því að hún og kærði hefði verið í sambandi um nokkurra mánaða skeið en byggju þó ekki saman. Brotaþoli hefði farið að heimili kærða fyrir þremur dögum af fúsum og frjálsum vilja en hann hefði þá haldið henni þar þangað til í nótt og m.a. tekið af henni síma og lykla, lamið hana og tekið hálstaki þangað til hún missti meðvitund. Lýsti brotaþoli því jafnframt að kærði hefði verið „kynferðislega ógeðslegur“ og beitt sig kynferðislegu ofbeldi.
Kærði neiti sök og segi frásögn brotaþola vera uppspuna.
Læknir sem tekið hafi á móti brotaþola sagði hana greinilega hafa orðið fyrir ofbeldi, en hún hafi verið marin á andliti og víða um líkamann.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um kynferðisbrot, líkamsárás og frelsissviptingu sem varðað geti fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og ljóst sé að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en m.a. þurfi að taka ítarlegar skýrslur af kærða, brotaþola og vitnum, auk þess sem rannsaka þarfi vettvang og önnur sönnunargögn ítarlega og eftir atvikum bera undir kærða. Hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna.
Ætlað brot telst varða við 1. mgr. 194. gr., 217. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Dómurinn lítur svo á að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um það að kærði hafi framið brot gegn við 1. mgr. 194. gr., 217. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir er að taka skýrslur af honum, brotaþola og vitnum og rannsaka þarf vettvang og önnur sönnunargögn. Telja verður að hætta sé á því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna.
Verður því að telja að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi. Ber að taka kröfu lögreglustjórans um það til greina og ákveða að varðhaldið vari til mánudagsins 15. júní nk. kl. 16 og að kærði sæti einangrun meðan á varðhaldsvistinni stendur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júní nk. kl. 16. Lögreglu er rétt að láta kærða sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.