Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-57
Lykilorð
- Áfrýjunarstefna
- Fjárdráttur
- Aflaheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 5. febrúar 2020 leitar Sigurður Freyr Árnason eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. desember 2019 í málinu nr. 18/2019: Ákæruvaldið gegn Sigurði Frey Árnasyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Leyfisbeiðandi var sakfelldur í Landsrétti fyrir brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa dregið sér og tilgreindu fyrirtæki endurgjald leigu og sölu ákveðins magns krókaflahlutdeildar í þorski. Var leyfisbeiðanda gert að sæta fangelsi í átján mánuði skilorðsbundið í tvö ár. Var héraðsdómur því staðfestur um refsingu ákærða þótt hann hafi verið sýknaður af hluta þeirra ákæruatriða sem sakfellt var fyrir í héraðsdómi.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann meðal annars til þess að það hafi verulega almenna þýðingu að fá endurskoðun á framangreindum dómi Landsréttar í ljósi þess að ákærði var verktaki með skriflegan verksamning um að annast leigu, kaup og sölu á kvóta, auk þess sem málið eigi sér ekki fordæmi í íslenskri réttarsögu. Þá hafi ýmsir annmarkar verið bæði á rannsókn málsins og á ákærunni sem leiddu til þess að heimfærsla til refsiákvæða hafi ekki verið rétt.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.