Hæstiréttur íslands
Mál nr. 489/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Ráðgefandi álit
- EFTA-dómstóllinn
|
|
Þriðjudaginn 8. október 2013. |
|
Nr. 489/2013. |
Íslandsbanki hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Gunnari V. Engilbertssyni (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.
G bar undir dómstóla lögmæti fjárnáms sem gert var í eignarhluta hans í fasteign hans fyrir kröfu Í hf. á grundvelli skuldabréfs. Deila aðila laut einkum að lögmæti verðtryggingarákvæðis í skuldabréfinu, en fjárhæð þess var bundin vísitölu neysluverðs samkvæmt heimildum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Höfðu mótmæli G við fyrirtekt fjárnámsgerðarinnar verið reist á því að verðtryggingarákvæði skuldbréfsins væri ólögmætt og í andstöðu við 36. gr. og 36. gr. a. til c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. tilskipun ráðsins nr. 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að tilskipun 93/13/EBE hefði verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og að með lögum nr. 14/1995, sem sett hefðu verið til að leiða ákvæði tilskipunar í íslenskan rétt, hefði fjórum greinum verið bætt við lög nr. 7/1936, nánar tiltekið 36. gr. a. til d. Að því virtu svo og atvikum málsins og málatilbúnaði G var talið nægjanlega fram komið að ákvæði tilskipunar 93/13/EBE gætu haft þýðingu þegar leyst væri úr kröfum G á hendur Í hf. og þar með á úrslit málsins. Samkvæmt því og þar sem ekki væri fullt samræmi milli tilskipunar 93/13/EBE og ákvæða laga nr. 7/1936 og með vísan til laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið var fallist á kröfu G um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum um skýringu á tilskipuninni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2013 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði er lúta að skýringu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili tók á árunum 2005 og 2007 lán hjá Glitni banka hf. til kaupa á fasteign að Lækjargötu 4 í Reykjavík. Af því tilefni gaf hann út þrjú skuldabréf, hið fyrsta 12. október 2005 að fjárhæð 18.400.000 krónur, annað sama dag að fjárhæð 4.600.000 krónur og hið þriðja 2. maí 2007 að fjárhæð 4.400.000 krónur. Til tryggingar endurgreiðslu lánanna gaf varnaraðili út tvö tryggingarbréf, hið fyrra 17. október 2005 til tryggingar skuld að fjárhæð 24.150.000 krónur, og hið seinna 2. maí 2007 til tryggingar skuld að fjárhæð 3.800.000 krónur, með veði í fyrrgreindri fasteign. Í skuldabréfunum kom fram að fjárhæðir þær sem teknar voru að láni skyldu breytast í réttu hlutfalli við breytingar á skráðri grunnvísitölu neysluverðs. Í tryggingarbréfunum munu hafa verið ákvæði um verðtryggingu og eru fyrirmæli um þetta í bréfinu frá 2. maí 2007 nánar rakin í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 eru þessi skuldabréf og tryggingarbréf nú í eigu sóknaraðila.
Í málinu deila aðilar um lögmæti verðtryggingarákvæðis í skuldabréfinu frá 2. maí 2007 en í fyrirsögn þess sagði að það væri bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði. Í framhaldinu kom fram nafn útgefanda skuldabréfsins, fjöldi afborgana og mánuðir milli þeirra, lánstími, vextir, gjalddagi fyrstu afborgunar, upphafstími vaxtaútreiknings, lánaflokkur og inn á hvaða reikning láninu skyldi ráðstafað. Þá sagði í þar til gerðum reit að grunnvísitala væri 267,1 stig. Í 1. gr. skuldabréfsins var svofellt ákvæði: „Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu samkvæmt ofanskráðu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli síðari gjalddaga. Skal höfuðstóll skuldarinnar breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er verðbótum bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan er deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga, sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga, sem er í það sinn.“ Með skuldabréfinu fylgdi greiðsluáætlun sem var undirrituð af varnaraðila og fulltrúa sóknaraðila sama dag og skuldabréfið sjálft. Hún tilgreindi alla 180 gjalddaga skuldabréfsins og hverjar yrðu eftirstöðvar skuldarinnar hverju sinni, heildargreiðslu á hverjum gjalddaga og hvernig hún sundurliðaðist í afborganir, vexti og kostnað. Þá var í greiðsluáætluninni svofellt ákvæði: „Athugið að áætlun þessi er byggð á núgildandi vísitölu og þeim vöxtum og verðskrám sem í gildi eru í Glitni banka hf. við gerð áætlunarinnar. Þeir þættir geta tekið breytingum í samræmi við ákvæði lánssamningsins. Ef lánsfjárhæð er breytileg og/eða lánstími óákveðinn er áætlunin byggð í dæmaskyni eingöngu á tilteknum upphæðum og eins árs lánstíma.“
Í skuldabréfinu 2. maí 2007 var ákvæði um heimild til að gjaldfella alla skuldina fyrirvaralaust við vanskil á greiðslu afborgana, vaxta og verðbóta. Þar sagði einnig að þegar skuldin væri í gjalddaga fallin mætti gera fjárnám til fullnustu hennar án undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Fram er komið að varnaraðili mun frá miðju ári 2009 ekkert hafa greitt af fyrrgreindu skuldabréfi. Að kröfu sóknaraðila gerði sýslumaðurinn í Reykjavík 13. ágúst 2012 fjárnám í eignarhluta varnaraðila í fasteigninni að Lækjargötu 4 í Reykjavík á grundvelli fyrrgreindrar aðfararheimildar í skuldabréfinu. Við fjárnámið mótmælti varnaraðili framgangi gerðarinnar. Mótmælin voru á því reist að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins væri ólögmætt og í andstöðu við 36. gr. og 36. gr. a. til c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. tilskipun ráðsins 93/13/EBE. Sýslumaður féllst ekki á mótmæli varnaraðila og að ábendingu sóknaraðila var gert fjárnám í fyrrgreindri fasteign.
Varnaraðili bar ákvörðun sýslumanns um aðfarargerðina undir héraðsdómara samkvæmt heimild í 92. gr. laga nr. 90/1989 og samþykkti sóknaraðili að það yrði gert þó svo að frestur til þess samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar væri liðinn. Krafðist varnaraðili þess að gerðin yrði felld úr gildi og bar því við sem fyrr að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins væri óskuldbindandi samkvæmt 36. gr. og 36. gr. a. til c. laga nr. 7/1936 og þar sem stærstur hluti fjárnámskröfunnar væri vegna verðtryggingarinnar væri enginn grundvöllur fyrir fjárnáminu eins og það hefði farið fram. Við fyrirtekt málsins í héraðsdómi 8. maí 2013 lagði varnaraðili fram bókun þar sem hann krafðist þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau atriði sem nánar eru rakin í hinum kærða úrskurði og hann telur varða skýringu á tilskipun 93/13/EBE en sóknaraðili andmælti kröfunni. Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og spurningar til þess dómstóls orðaðar á þann hátt sem í úrskurðinum greinir.
II
Verðtrygging sparifjár og lánsfjár var fyrst heimiluð með lögum nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl. og hafa ákvæði um það efni verið í lögum síðan. Í VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eru reglur þær sem nú gilda um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og eru ákvæði kaflans ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna. Ákvæði VI. kafla laganna gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar, sbr. 1. málslið 1. mgr. 13. gr. laganna. Í 2. og 3. málslið sömu málsgreinar kemur fram að með verðtryggingu sé í þessum kafla laganna átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og að um heimildir til verðtryggingar fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum er um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Gildir sú vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.
Í 15. gr. laga nr. 38/2001 kemur fram að Seðlabanki Íslands geti að fengnu samþykki ráðherra ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána og að vextir af þeim skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Þá setur seðlabankinn nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Loks segir í 16. gr. laganna að þegar skuldbindingum með ákvæðum um verðtryggingu er þinglýst skuli þess gætt að verðtryggingarinnar sé getið í þinglýsingabókum og skulu þær koma fram á vottorðum þinglýsingarstjóra um efni þinglýsingabóka. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs skal Hagstofa Íslands reikna og birta vísitölu sem sýnir breytingar á verðlagi einkaneyslu. Vísitalan nefnist vísitala neysluverðs og skal hún reist á grunni sem hagstofan ákveður samkvæmt niðurstöðum neyslukönnunar. Í 3. gr. laganna segir að vísitala neysluverðs skuli reiknuð í mánuði hverjum miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð. Heimilt er að safna verðupplýsingum yfir lengra tímabil ef verðlag vöru breytist ört. Ef ekki er unnt að miða við samtímaupplýsingar um verðlag eða verðbreytingar, eða sé það ekki talið eiga við, er hagstofunni heimilt að miða við meðaltal mánaðar eða mánaða eftir því sem við á. Vísitalan skal svo sem kostur er miðast við meðalverðlag í landinu. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 12/1995 getur ráðherra með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
Með lögum nr. 14/1995 var fjórum greinum bætt við lög nr. 7/1936, það er 36. gr. a. til d. og eru þau innleiðing á ákvæðum fyrrgreindrar tilskipunar 93/13/EBE í íslenskan rétt. Í 1. mgr. 36. gr. a. laga nr. 7/1936 segir að ákvæði 36. gr. a. til d. gildi um samninga, meðal annars samningsskilmála sem ekki hefur verið samið sérstaklega um, enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d. Samkvæmt 36. gr. c. sömu laga gildir 36. gr. þeirra um samninga samkvæmt 1. mgr. 36. gr. a. með þeim breytingum þó sem leiðir af 2. og 3. mgr. 36. gr. c. Í 1. mgr. 36. gr. laganna segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Hið sama á við um aðra löggerninga. Að endingu segir í 40. gr. a. sömu laga: „Ráðherra er heimilt á grundvelli EES-tilskipunar 93/13/EBE um ósanngjarna samningsskilmála að kveða nánar á með reglugerð um framkvæmd ákvæða laga þessara um ósanngjarna samningsskilmála.“ Slík reglugerð hefur ekki verið sett.
III
Eins og áður greinir eru kröfur varnaraðila í málinu á því reistar að samkvæmt 36. gr., sbr. 36. gr. a. til d. laga nr. 7/1936, beri að víkja verðtryggingarákvæði skuldabréfsins 2. maí 2007 til hliðar, en ákvæði þess haldi gildi sínu að öðru leyti. Síðastgreind lagaákvæði beri samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið að skýra til samræmis við tilskipun 93/13/EBE þar sem þau séu innleiðing á ákvæðum hennar í íslenskan rétt. Verðtryggingarákvæðið falli undir 1. gr. viðauka tilskipunarinnar og þar sem ekki hafi verið um það samið sérstaklega í skilningi 1. mgr. 3. gr. hennar sé það óréttmætt og óskuldbindandi fyrir varnaraðila, sbr. 36. gr. a. laga nr. 7/1936. Þá hafi greiðsluáætlun sú sem varnaraðili fékk við útgáfu skuldabréfsins enga raunhæfa mynd geta gefið af því hvernig höfuðstóll skuldarinnar og afborganir myndu þróast á lánstímanum og því hafi aðferðin við útreikning verðtryggingarinnar ekki verið útskýrð rækilega í samningi aðila í skilningi d. liðar 2. gr. viðauka við tilskipunina. Leiði þetta einnig til þess að verðtryggingarákvæðið sé óréttmætt í skilningi 1. mgr. 3. gr. hennar. Af þessu leiði samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar að ógilda beri verðtryggingarákvæðið. Fyrirmæli 36. gr. laga nr. 7/1936 séu á hinn bóginn ekki fullnægjandi til slíks því þar sé eingöngu mælt fyrir um heimild til ógildingar en ekki skyldu eins og tilskipunin mæli þó skýrt fyrir um. Þar sem 36. gr. a. til d. laga nr. 7/1936 séu innleiðing á tilskipun 93/13/EBE og verulegur vafi sé um hvernig skýra beri ákvæði hennar sé nauðsynlegt, áður en málinu verði ráðið til lykta, að afla álits EFTA-dómstólsins um þau atriði sem nánar greini í kröfu varnaraðila og varði sakarefni málsins.
Sóknaraðili hafnar því að víkja beri verðtryggingarákvæðinu til hliðar, enda sé verðtrygging heimil lögum samkvæmt og lánveitingin að öllu leyti í samræmi við lög. Tilskipun 93/13/EBE hafi verið tekin upp í landsrétt en hið sama gildi ekki um viðauka hennar, sem hafi því ekki gildi að íslenskum lögum. Þá sé ekki unnt að víkja til hliðar fyrirmælum skuldabréfsins um verðtryggingu án þess að raska við öðrum ákvæðum þess. Auk þeirra sjónarmiða sem nánar eru rakin í hinum kærða úrskurði eru andmæli sóknaraðila við því að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því reist í fyrsta lagi að svar við þeim spurningum, sem héraðsdómur hafi fallist á að leita ráðgefandi álits um, geti ekki breytt niðurstöðu málsins. Í öðru lagi eru andmælin á því reist að það álitaefni sem um sé deilt í málinu varði skýringu og beitingu landsréttar og því eigi ekki að leita álits EFTA-dómstólsins um það atriði. Í þriðja lagi hafi það ekki þýðingu í málinu hvort reglur landsréttar stangist á við efni tilskipana því íslenskum dómstólum beri að dæma eftir íslenskum lögum. Í fjórða lagi byggir sóknaraðili á því að þær spurningar sem héraðsdómur hafi fallist á að leita ráðgefandi álits um séu óljósar og ómarkvissar. Þá bendir sóknaraðili að auki á að ýmis efnisatriði í spurningunum varði í raun alls ekki beitingu 36. gr. laga nr. 7/1936 heldur aðrar íslenskar réttarheimildir.
IV
Fyrir héraðsdómi krefst varnaraðili þess sem fyrr segir að fellt verði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði að kröfu sóknaraðila 13. ágúst 2012 í eignarhluta varnaraðila í fasteigninni að Lækjargötu 4 í Reykjavík. Krafa varnaraðila er á því reist að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins 2. maí 2007 sé í andstöðu við ákvæði 36. gr. og 36. gr. a. til d. laga nr. 7/1936, eins og þau beri að skýra með hliðsjón af tilskipun 93/13/EBE, og því ólögmætt og skuldbindi hann ekki.
Tilskipun 93/13/EBE var tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/1994 og tók gildi gagnvart Íslandi 1. júlí 1994. Með lögum nr. 14/1995, sem sett voru til að leiða ákvæði tilskipunarinnar í íslenskan rétt, var fjórum greinum bætt við lög nr. 7/1936, 36. gr. a., 36. gr. b., 36. gr. c. og 36. gr. d. Fram kemur í lögskýringargögnum að markmið frumvarps þess sem varð að lögum nr. 14/1995 sé fyrst og fremst að tryggja framkvæmd þeirra ákvæða tilskipunar 93/13/EBE sem séu einkaréttarlegs eðlis en tilskipunin miði að því að koma í veg fyrir röskun á samkeppni og veita neytendum vernd. Þá segir einnig í lögskýringargögnum að 36. gr. laga nr. 7/1936 muni samkvæmt 4. gr. frumvarpsins gilda um samninga á grundvelli fyrrgreindrar tilskipunar með vissum breytingum sem lagðar séu til í frumvarpinu. Þegar framangreint er virt í ljósi atvika málsins sem áður hafa verið rakin, málsástæðna varnaraðila og kröfugerðar hans á hendur sóknaraðila er nægjanlega fram komið að ákvæði tilskipunar 93/13/EBE geti haft þýðingu þegar leyst er úr kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila og þar með á úrslit málsins. Samkvæmt þessu og þar sem ekki er fullt samræmi milli tilskipunar 93/13/EBE og ákvæða laga nr. 7/1936 er með vísan til laga nr. 21/1994 fallist á með héraðsdómi að rétt sé að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um skýringu á ákvæðum hennar en spurningum til þess dómstóls ber að haga á þann veg sem nánar greinir í dómsorði.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Leita skal ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimilar að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrirfram ákveðinni vísitölu?
2. Ef svarið við fyrstu spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af láni sem tekið er til fjármögnunar fasteignakaupa sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í öðru lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrirfram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar?
3. Ef svarið við annarri spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í þriðja lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?
4. Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d. liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni?
5. Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 4. júlí 2013.
Mál þetta var þingfest 18. janúar sl. Sóknaraðili er Gunnar V. Engilbertsson, Lækjargötu 4, Reykjavík en varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá 13. ágúst 2012 um fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavík, fastanr. 200-2691. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá 13. ágúst 2012 um fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavík, fastanr. 200-2691. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Í þinghaldi í þessu máli 8. maí sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á tilskipun Ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Orðrétt er þar farið fram á að leitað verði álits á eftirfarandi spurningum:
,,Ber að skýra gerð þá sem er að finna í tl. 7a í viðauka XIX við Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (tilskipun Ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála i neytendasamningum), á þann veg:
A. að landsréttur megi almennt fela i sér að skilmálar fasteignaláns frá veitanda til neytanda, þar sem:
· Segir: „Skuldin endurgreiðst með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana, jafngreiðslulán, að viðbættum verðbótum á hverja greiðslu samkvæmt vísitölu neysluverðs“;
· Segir: „Skuldin er bundin vísitölu neysluverðs samkvæmt framanskráðu og breytist í samræmi við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu bréfs þess til gildandi vísitölu á gjalddaga;
· Grunnvísitala er tilgreind;
· Ekkert er frekar fjallað um eða gerð grein fyrir tilvísaðri vísitölu neysluverðs, svo sem á hvaða grunni hún byggir, hvernig hún er samansett, hvernig hún breytist, hvenær eða af hvaða ástæðum, o.s.frv.;
· Grunnur vísitölunnar byggist á upplýsingum um neyslu úr rannsókn á útgjöldum heimilanna;
· Allar verðbreytingar á þeim vörum sem kannaðar eru, þ.m.t. breytingar sem stafa af sköttum og öðrum opinberum gjöldum, hafa áhrif á vísitöluna;
· Fylgst er með verði á viðamiklu úrtaki af vörum í hverjum mánuði og breyting þess ræður breytingum á vístölunni;
· Vísitala hvers mánaðar miðast almennt við verðlag í að um það bil vikutíma um miðjan mánuð, nema ef verðlag vöru breytist ört, en þá er heimilt að safna verðupplýsingum yfir lengri tíma;
· Heimilt er að miða vísitölu hvers mánaðar við meðaltal mánaðar eða mánaða eftir því sem við á, ef ekki er unnt að miða við samtímaupplýsingar um verðlag eða verðbreytingar eða sé það ekki talið eiga við.
· Skipt er um grunn vísitölunnar árlega
Séu bindandi fyrir neytanda?
B. Ef svarið við A er neikvætt, að landsréttur megi fela í sér að fasteignalánasamningi sem geymir slík ákvæði sem eru óbindandi fyrir neytanda, verði vikið til hliðar að öðru leyti, þrátt fyrir að hann geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hinna óbindandi ákvæða?
C. ...“
Í þinghaldinu mótmælti varnaraðili þessari kröfu.
Munnlegur málflutningur fór fram 27. maí sl. um þá kröfu sóknaraðila að aflað verði ráðgjafandi álits EFTA-dómstólsins. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans, að öðru leyti en því að lögmaður hans féll frá spurningu C. Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila verði hafnað.
Málavextir
Beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins snertir ágreining milli aðila málsins um það hvort skýra beri 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 36. gr. a d sömu laga, til samræmis við tilskipun Ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, á þann veg að víkja beri til hliðar ákvæði um verðtryggingu í skuldabréfi sem sóknaraðili gaf út til varnaraðila 2. maí 2007.
Umrætt skuldabréf er auðkennt nr. 510-74-981043 og ber yfirskriftina ,,Skuldabréf bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði“. Sóknaraðili viðurkennir þar að skulda Glitni banka hf. 4,4 milljónir króna sem skal endurgreiða með 180 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. júní 2007. Vextir eru 5,00% og reiknast frá kaupdegi. Í reitinn ,,Grunnvísitala“ er ritað 267,1.
Í 1. gr. er svohljóðandi ákvæði: ,,Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu samkvæmt ofanskráðu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli síðari gjalddaga. Skal höfuðstóll skuldarinnar breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er verðbótum bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan er deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga, sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga, sem er í það sinn.“
Sama dag, 2. maí 2007, gaf sóknaraðili út tryggingarbréf með yfirskriftinni ,,Tryggingarbréf allsherjarveð, með vísitölu neysluverðs Fasteignaveð“, þar sem sóknaraðili setti Glitni banka hf. að veði með 2. veðrétti og uppfærslurétti fasteignina Lækjargötu 4, fastanúmer 200-2691, til tryggingar greiðslu á öllum skuldum sínum við bankann, þar með talið höfuðstól, verðbætur, gengismun, dráttarvexti, innheimtukostnað og annan kostnað, samtals allt að fjárhæð 3,8 milljónir króna, og var tekið fram að sú fjárhæð skyldi ,,bundin vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 268,7 og breytast í sömu hlutföllum og vísitalan en þó aldrei miðast við lægri vísitölu en grunnvísitölu þessa ...“.
Áður mun sóknaraðili hafa gefið út tvö skuldabréf til varnaraðila 12. október 2005, annað að fjárhæð 18,4 milljónir króna en hitt að fjárhæð 4,6 milljónir króna. Þá mun sóknaraðili hafa gefið út tryggingarbréf, allsherjarveð, bundið vísitölu neysluverðs, til varnaraðila 17. október 2005 til tryggingar skuld að fjárhæð 24,15 milljónir króna.
Varnaraðili tók við réttindum Glitnis banka hf. vegna hins umdeilda skuldabréfs á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008.
Óumdeilt er að síðan um mitt ár 2009 hefur sóknaraðili ekki greitt af umræddu láni. Hinn 15. mars 2010 undirritaði sóknaraðili skilmálabreytingu skuldabréfsins. Þar kemur fram að 1. ágúst 2009 hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið 4.823.784 krónur og hafi skuldabréfið þá verið í fullum skilum. 153 gjalddagar séu ógreiddir af láninu. Samkvæmt beiðni sóknaraðila skuli eftirstöðvar lánsins, auk verðbóta og vaxta, endurgreiðast með 153 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. mars 2011. Vextir sem falli á skuldina á tímabilinu 1. ágúst 2009 til 1. febrúar 2011 skuli leggjast við verðbættan höfuðstól skuldabréfsins, í fyrsta sinn 1. desember 2010 og síðast 1. febrúar 2011. Vextir reiknist af nýjum höfuðstól frá þeim degi fram að fyrsta nýja gjalddaga og framvegis í samræmi við skilmála skuldabréfsins. Síðan er tekið fram að vextir og vísitala reiknist frá 1. ágúst 2009.
Að kröfu varnaraðila gerði Sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám hjá sóknaraðila 13. ágúst 2012 í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavik, fastanr. 200-2691.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila í þessum þætti málsins
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 36. gr. a til d, eins og þær greinar séu réttilega skýrðar til samræmis við tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, beri að víkja til hliðar verðtryggingarákvæðum þess skuldabréfs sem fjárnámið byggir á. Stór hluti fjárnámskröfunnar sé til kominn vegna umræddra verðtryggingarákvæða og því sé enginn grundvöllur fyrir fjárnáminu.
Tilskipun 93/13/EBE hafi orðið hluti af EES-samningnum með ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/1994 og sé hana að finna í lið 7a. í XIX. viðauka við samninginn. Tilskipunin hafi tekið gildi gagnvart Íslandi 1. júlí 1994. Tilskipun 93/13/EBE hafi verið innleidd í íslensk lög með lögum nr. 14/1995 sem bættu fjórum nýjum greinum við lögin, þ.e. greinum 36 a til d.
Í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið segi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Enn fremur sé það viðurkennd lögskýringarregla að skýra eigi íslensk lög í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar Íslands. Sóknaraðili telur því að skýra skuli ákvæði 1aga nr. 14/1995 og 36. gr. og 36. gr. a til d til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.
Sóknaraðili byggir á því að þrátt fyrir að í orðalagi 36. gr., sbr. 36. gr. a til d laga nr. 7/1936 felist aðeins heimild til að víkja ósanngjörnum samningum til hliðar, þá felist í ákvæði 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar að dómstólum sé skylt að víkja til hliðar óréttmætum samningum og samningsskilmálum ef framangreind lagaákvæði eru réttilega skýrð til samræmis við tilskipun 93/13/EBE.
Sóknaraðili heldur því fram að ákvæði um verðtryggingu í umræddu skuldabréfi sé óréttmætt í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE. Ákvæðið falli undir 1. lið 1. gr. viðauka við tilskipunina enda staðfesti d-liður 2. gr. viðaukans að vísitölubinding falli undir þann lið. Hins vegar eigi undanþága d-liðar 2. gr. viðaukans ekki við, þar sem aðferðin við útreikning verðbreytinga sé ekki útskýrð rækilega í umræddu skuldabréfi í skilningi ákvæðisins. Honum hafi því verið alls ókleift að gera sér í hugarlund hvernig vísitalan gæti þróast á lánstímanum. Þá hafi greiðsluáætlun sú sem hann fékk við útgáfu skuldabréfsins enga raunhæfa mynd geta gefið af því hvernig höfuðstóll skuldarinnar og afborganir af því myndu þróast. Skuldabréfið geti hins vegar að öðru leyti haldið gildi sinu án ákvæðis um verðtryggingu.
Verði ekki talið að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins falli undir 1. lið eða aðra liði 1. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE, byggir sóknaraðili á því að verðtryggingarákvæðið í skuldabréfinu sé engu að siður óréttmætt samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar sem slíkri, sbr. 1. mgr. 4. gr. hennar.
Sóknaraðili telur að íslenska þýðingin á d-lið 2. mgr. viðaukans sé röng og of þröng. Í ensku útgáfunni sé talað um að aðferðin sem breyti verðum sé rækilega útskýrð. D-liður 2. mgr. viðaukans hafi það efni sem hinn upprunalegi enski texti tilskipunarinnar, sem virðist í samræmi við ákvæði upprunalegu textanna á hinum ESB tungumálunum, og skuli lagður til grundvallar.
Við munnlegan flutning þessa þáttar málsins vísaði lögmaður sóknaraðila til þess að nauðsynlegt væri að fá álit EFTA-dómstólsins um túlkun tilskipunar 93/13/EBE, sbr. lög nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Íslenskir dómstólar kanni þrjú atriði: Í fyrsta lagi hvort skýring skipti máli fyrir úrlausn máls. Í öðru lagi hvort staðreyndir séu nægilega skýrar. Í þriðja lagi hvort vafi sé um túlkun gerðar sem gerð hafi verið að hluta EES-samningsins. Sóknaraðili byggir á því að þessi skilyrði séu uppfyllt. Ákvæði 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 væru matskennd og sett sérstaklega til innleiðingar á umræddri tilskipun. Ekki hafi reynt á túlkun umræddrar tilskipunar fyrir EFTA-dómstólnum eða Evrópudómstólnum. Ráðgefandi áliti sé ætlað að skýra reglur EES-réttar. Veiti lög svigrúm til túlkunar sé efni til að afla ráðgefandi álits. Málsatvik þessa máls séu skýr og spurningarnar snúist um hrein lögfræðileg atriði. Spurningar séu settar fram með sama hætti og áður í sambærilegum málum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 497/1999.
Málsástæður og lagarök varnaraðila í þessum þætti málsins
Varnaraðili byggir á því að tilskipun 93/13/EBE sé svokölluð lágmarkstilskipun. Þau ákvæði tilskipunarinnar, sem sóknaraðili vísi til, hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 14/1995. Innleiðingin hafi í meginatriðum falist í því að 36. gr. a-d var bætt við lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varnaraðili vísar um innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt til 7. gr. EES-samningsins, en þar sé kveðið á um það að ríkin skuli taka þær gerðir upp í landsrétt sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ríkjunum sé hins vegar falið val um efni og form innleiðingarinnar. Í því felist að ríkin séu skuldbundin til að haga löggjöf sinni þannig að markmiðum tilskipunarinnar verði náð, en þeim sé fengið sjálfdæmi um val á formi og aðferð. Engin haldbær rök hafi komið fram um það að tilskipunin sé ekki réttilega innleidd. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 14/1995 segi að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu um margt víðtækari en ákvæði tilskipunarinnar og veiti neytendum í raun meiri rétt en kveðið sé á um í tilskipuninni.
Sóknaraðili haldi því fram að ákvæði um verðtryggingu í hinu umdeilda skuldabréfi sé óréttmætt í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. l. lið 1. mgr. og d-lið 2. mgr. viðauka við tilskipunina.
Varnaraðili hafnar því að útreikningur verðbreytinga hafi ekki verið útskýrður nægilega rækilega í samningi aðila. Þar komi skýrt fram að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu, sem komi skilmerkilega fram í skjalinu. Þá verði að líta til þess að verðtrygging hafi ekki sérstaklega verið sett saman fyrir þennan samning, enda heimili íslensk lög aðeins verðtryggingu lánsfjár ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Vísitala neysluverðs sé reist á grunni sem Hagstofan ákveði í samræmi við niðurstöður neyslukönnunar á grundvelli fyrirmæla í lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs. Ákvæði l. liðar 1. mgr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE miðist við samninga þar sem aðilar semji sérstaklega um fyrirkomulag verðtryggingar.
Viðauki við umrædda tilskipun sé til leiðbeiningar og ekki tæmandi. Ljóst sé af 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar að skráin leggi ekki fastákveðnar skyldur í þessu sambandi á aðildarríki EES-samningsins. Tilgreind dæmi þurfi þannig ekki alltaf að vera ósanngjörn og skilmálar, sem séu ekki tilgreindir, geti talist ósanngjarnir. Ekki felist í ákvæðum tilskipunarinnar nokkur skylda til að lögfesta skrána. Fram komi í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 14/1995 að norrænir sérfræðingar hafi talið dæmin að ýmsu leyti óskýr og mjög almennt orðuð og að í raun væri varhugavert að lögfesta þau. Því hafi ekki þótt ástæða til lögfestingar á viðaukanum hér á landi. Sóknaraðili geti því ekki byggt kröfur sínar á umræddum viðauka, enda sé hann aðeins til leiðbeiningar og hafi ekkert sjálfstætt gildi.
Nokkrar breytingar hafi verið gerðar á þýðingu tilskipunarinnar eftir að hún var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB. Nýrri þýðing sé birt sem fylgiskjal I með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 14/1995.
Við munnlegan flutning þessa þáttar málsins sagði lögmaður varnaraðila að spurningar sóknaraðila væru óljósar og ómarkvissar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 63/2009. Spurningarnar væru einnig þýðingarlausar. Þau lagaákvæði sem reyndi á í málinu væru skýr. Niðurstaða þessa máls myndi ráðast af túlkun ákvæða laga nr. 7/1936. Spurningar sóknaraðila snerust um samræmi landsréttar við EES-rétt. Svör EFTA-dómstólsins myndu ekki breyta niðurstöðu málsins og því væri engin þörf á áliti dómstólsins, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 10/2013, 77/2013 og 306/2013. Röng innleiðing EES-gerða í landsrétt leiði ekki til þess að litið verði fram hjá lögum, en tilskipanir hafi ekki bein réttaráhrif, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 79/2010, 401/2012 og 10/2013.
Niðurstaða
Sóknaraðili hefur krafist úrlausnar dómsins um aðfarargerð, sem fram fór 13. ágúst 2012 sem lauk með því að gert var fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavik, fastanr. 200-2691, fyrir kröfu varnaraðila, að höfuðstól 5.476.943 krónur.
Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 36. gr. a til d, eins og þær greinar séu skýrðar til samræmis við tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, beri að víkja til hliðar verðtryggingarákvæðum þess skuldabréfs sem fjárnámið byggir á. Ákvæði um verðtryggingu í hinu umdeilda skuldabréfi sé óréttmætt í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. l. lið 1. mgr. og d-lið 2. mgr. viðauka við tilskipunina. Varnaraðili byggir á því að tilskipunin hafi verið réttilega innleidd í íslenskan rétt og að ákvæði skuldabréfsins um verðtryggingu brjóti ekki gegn ofangreindum ákvæðum tilskipunarinnar.
Þær spurningar sem sóknaraðili óskar eftir að leitað verði ráðgefandi álits á eru raktar hér að framan. Fyrri spurning sóknaraðila lýtur að því hvort skýra beri tilskipun 93/13/EBE á þann veg að landsréttur megi almennt fela í sér að nánar tilteknir skilmálar fasteignaláns séu bindandi fyrir neytanda. Síðari spurningin snýst um það, ef svarið við fyrri spurningunni er neikvætt, hvort landsréttur megi fela í sér að fasteignalánasamningi sem geymir ákvæði sem eru óbindandi fyrir neytanda verði vikið til hliðar að öðru leyti, þrátt fyrir að hann geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hinna óbindandi ákvæða.
Það leiðir af 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagsvæðið að ekki skal leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins nema þörf sé á því við úrlausn á máli að taka afstöðu til skýringar á EES-samningnum, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem þar er getið. Ber því aðeins að leita slíks álits ef ætla má að túlkun tiltekinna ákvæða EES-samningsins eða viðkomandi gerða Evrópusambandsins geti að einhverju eða öllu leyti breytt niðurstöðu í því ágreiningsmáli sem til meðferðar er. Þegar afstaða er tekin til beiðni um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er því óhjákvæmilegt að dómari taki að einhverju leyti afstöðu til þess hvaða þýðingu röksemdir aðila um beitingu EES-samningsins eigi að hafa, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 16. febrúar 2012 í máli nr. 77/2012 og 10. maí 2013 í máli 306/2013. Telji dómari að niðurstaða þess ágreinings sem um ræðir ráðist af réttarreglum landsréttar, sem séu svo afdráttarlausar að álit EFTA-dómstólsins um túlkun EES-réttar geti ekki haft áhrif á beitingu þeirra í málinu, er engin þörf á að slíks álits sé aflað, sbr. dóm Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013.
Ákvæði 36. gr. a til d laga nr. 7/1936 voru lögfest með lögum nr. 14/1995 um breytingu á lögum nr. 7/1936. Samkvæmt 1. mgr. fyrstnefnda ákvæðisins gilda ákvæði 36. gr. a til d um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda. Er ekki deilt um að svo háttar til í þessu máli. Fram kemur í 1. mgr. 36. gr. c að ákvæði 36. gr. laganna gildi um samninga samkvæmt 1. mgr. 36. gr. a, með þeim breytingum sem leiði af 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Í 36. gr. segir að víkja megi samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Við þetta mat skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. c skal við mat á ósanngirni samnings líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., að öðru leyti en því að ekki skal taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag. Í 3. mgr. sömu greinar segir að samningur teljist ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Sé slíkum skilmála vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
Í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 14/1995 kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé fyrst og fremst að tryggja framkvæmd þeirra ákvæða tilskipunar 93/13/EBE sem séu einkaréttarlegs eðlis, sbr. 3. til 6. gr. hennar. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins segir m.a. að regla 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar sé tekin upp í fyrirhugaða 3. mgr. 36. gr. Í 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, eins og hún var birt á íslensku í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, segir að samningsskilmáli, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega, teljist óréttmætur ef hann, þrátt fyrir skilyrðið um ,,góða trú“, veldur umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns. Í almennum athugasemdum við frumvarpið segir að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á þýðingu tilskipunarinnar eins og hún birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, bók 6. Þannig hafi hugtakinu „óréttmætir samningsskilmálar“ verið breytt í „ósanngjarnir samningsskilmálar“ þar eð það þykir betra og í samræmi við íslenska laga- og dómahefð, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Í staðinn fyrir „góða trú“, sem þýðir að einhver viti ekki eða megi ekki vita eitthvað samkvæmt íslenskri lagahefð, er notuð þýðingin „góðir viðskiptahættir“ sem er réttara í tilvikum þeim sem hér um ræðir.
Ekki verður annað ráðið af áður tilvitnuðum ummælum í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 14/1995 en að með lögfestingu 3. mgr. 36. gr. c hafi staðið til að taka ákvæði 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar upp í íslenskan rétt. Eins og fyrrnefnd reifun ber með sér eru 36. gr. og 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 matskennd ákvæði sem fela í sér að dómstólum er falið vald til þess að meta hverju sinni hvort samningur sé ósanngjarn eða ekki.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Verður að fallast á það með sóknaraðila að skýring tilskipunar 93/13/EBE geti haft áhrif á skýringu 36. gr. og 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 og þar með á niðurstöðu þessa máls. Verður því fallist á að leita álits EFTA-dómstólsins á þeim atriðum sem fram koma í fyrri spurningu sóknaraðila, eins og greinir í úrskurðarorði.
Í seinni spurningu sóknaraðila er spurt um, ef svarið við fyrri spurningunni er neikvætt, hvort landsréttur megi fela í sér að fasteignalánasamningi sem geymir ákvæði sem eru óbindandi fyrir neytanda verði vikið til hliðar að öðru leyti, þrátt fyrir að hann geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hinna óbindandi ákvæða. Ekki er útskýrt nánar að hvaða öðru leyti landsréttur megi fela í sér að slíkum samningi sé vikið til hliðar, né er vísað til lagaákvæða í íslenskum rétti sem sóknaraðili telur að leiði til slíkrar niðurstöðu. Verður að fallast á það með varnaraðila að þessi spurning sé of óljós og ómarkviss til að hægt sé að leita álits EFTA-dómstólsins á því sem þar er spurt um.
Málskostnaðar var ekki krafist í þessum þætti málsins.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi atriði:
Samræmist það tilskipun ráðsins 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum að skilmálar fasteignaláns frá veitanda til neytanda, þar sem:
· Segir: „Skuldin endurgreiðst með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana, jafngreiðslulán, að viðbættum verðbótum á hverja greiðslu samkvæmt vísitölu neysluverðs“;
· Segir: „Skuldin er bundin vísitölu neysluverðs samkvæmt framanskráðu og breytist í samræmi við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu bréfs þess til gildandi vísitölu á gjalddaga;
· Grunnvísitala er tilgreind;
· Ekkert er frekar fjallað um eða gerð grein fyrir tilvísaðri vísitölu neysluverðs, svo sem á hvaða grunni hún byggir, hvernig hún er samansett, hvernig hún breytist, hvenær eða af hvaða ástæðum, o.s.frv.;
· Grunnur vísitölunnar byggist á upplýsingum um neyslu úr rannsókn á útgjöldum heimilanna;
· Allar verðbreytingar á þeim vörum sem kannaðar eru, þ.m.t. breytingar sem stafa af sköttum og öðrum opinberum gjöldum, hafa áhrif á vísitöluna;
· Fylgst er með verði á viðamiklu úrtaki af vörum í hverjum mánuði og breyting þess ræður breytingum á vístölunni;
· Vísitala hvers mánaðar miðast almennt við verðlag í að um það bil vikutíma um miðjan mánuð, nema ef verðlag vöru breytist ört, en þá er heimilt að safna verðupplýsingum yfir lengri tíma;
· Heimilt er að miða vísitölu hvers mánaðar við meðaltal mánaðar eða mánaða eftir því sem við á, ef ekki er unnt að miða við samtímaupplýsingar um verðlag eða verðbreytingar eða sé það ekki talið eiga við;
· Skipt er um grunn vísitölunnar árlega;
séu bindandi fyrir neytanda?