Hæstiréttur íslands

Mál nr. 654/2007


Lykilorð

  • Skuldamál


                                     

Fimmtudaginn 2. október 2008.

Nr. 654/2007.

Stólpavík ehf.

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

gegn

Sigurði Einarssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Skuldamál.

Talið var að útgáfa SE á skuldabréfi til S hefði verið fullnaðargreiðsla SE vegna  kaupa hans á hlut S í tilgreindu fyrirtæki.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2007. Hann krefst þess nú að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. október 2001 til 6. apríl 2007 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 5.515.800 krónur 12. júní 2005. Að auki krefst hann „vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga sem leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi gerir ekki lengur athugasemd um aðild áfrýjanda að málinu. Óumdeilt er að í október 2001 greiddi áfrýjandi 6.000.000 krónur fyrir hlutafé í félaginu Sport-tæki ehf. Á grundvelli þessa fjárframlags sat fulltrúi áfrýjanda í stjórn þess. Þá er óumdeilt að 17. maí 2005 gaf stefndi út skuldabréf til áfrýjanda að fjárhæð 6.000.000 krónur sem áfrýjandi framseldi síðan til banka 12. júní sama ár og fékk greiddar 5.515.800 krónur fyrir. Eftir það var áfrýjandi ekki lengur eigandi að félaginu og fór fulltrúi hans úr stjórn þess.

Gegn andmælum stefnda hefur annað ekki verið í ljós leitt en að með útgáfu skuldabréfsins hafi stefndi keypt hlutafé áfrýjanda í félaginu og hefur áfrýjandi ekki leitt líkur að því að stefnda hafi borið að inna af hendi frekari greiðslur til hans vegna þess. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

            Héraðsdómur skal vera óraskaður.

            Áfrýjandi, Stólpavík ehf., greiði stefnda, Sigurði Einarssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                               

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 6. desember 2007.

                Mál þetta, sem dómtekið var 8. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 10. maí s.l.

                Stefnandi er Stólpavík ehf., kt. 450146-0139, Erluási 46, Hafnarfirði.

                Stefndi er Sigurður Einarsson, kt. 280962-2799, Borgarhrauni 28, Hveragerði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 6.000.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. október 2001 til greiðsludags að frádreginni innborgun 12. júní 2005 að fjárhæð 5.515.800 krónur. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga sem leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti og dráttarvaxta frá og með 6. apríl 2007 samkvæmt III. kafla laganna.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

                Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins að meðtöldum virðisaukaskatti.

               

Málavextir.

                Stefnandi lýsir málsatvikum svo að 12. október 2001 hafi stefnandi afhent stefnda 6.000.000 krónur sem hlutafjárframlag stefnanda inn í félagið Sport-Tæki ehf., en það sé félag í eigu stefnda sem stofnað hafi verið 25. október sama ár.  Hafi stefndi síðar óskað eftir því að í stað þess að fjárhæðin yrði hlutafjárframlag inn í Sport-Tæki ehf., yrði frekar talið að um persónulegt lán til stefnda væri að ræða.  Stefndi hafi afhent stefnanda skuldabréf 12. júní 2005 að fjárhæð 5.515.800 krónur (svo) sem innborgun inn á skuld stefnda við stefnanda.  Segist stefnandi hafa samþykkt ósk stefnda um að litið yrði á skuldina sem persónulegt lán til stefnda eins og fram komi í tölvupósti stefnanda til endurskoðanda stefnda dags. 27.október 2005.  Stefndi segist hafa gert margítrekaðar tilraunir til að innheimta skuldina en án árangurs, síðast 6. mars s.l.  Með bréfi dags. 15. mars s.l. hafi stefndi mótmælt kröfu stefnanda til greiðslu vaxta af kröfunni og kvað stefnandi það í fyrsta skipti sem slík mótmæli hafi komið fram.  Þá komi einnig fram í bréfinu að stefndi hafi litið svo á að með útgáfu skuldabréfsins 12. júní 2005 hafi hann greitt skuld sína við stefnanda að fullu.

                Stefndi lýsir atvikum svo að Ketill Helgason hafi vegna fyrirtækisins Phoenix Seafood Co. lagt 6.000.000 króna á árinu 2001 í fyrirtæki stefnda, Sport-Tæki ehf., en aldrei hafi verið gengið formlega frá hlutafjárkaupum., en talað hafi verið um að um hlutafjárframlag væri að ræða.  Á árinu 2004 hafi Helgi Már Reynisson komið inn í stjórn Sport-Tækja ehf. sem fulltrúi Phoenix Seafood Co. og einhvern tíma um sama leyti eða síðar hafi Ketill tjáð stefnda að Helgi Már væri tekinn við hagsmunagæslu og stefndi ætti að snúa sér til hans vegna allra mála tengdu félaginu og hlutafjáreigninni.  Ekki hafi verið tilkynnt formlega að stefnandi væri aðili málsins.  Á árinu 2005 hafi samist svo um við Helga Má að hlutafjárframlaginu yrði breytt í 6.000.000 króna skuldabréf og hafi það verið gefið út til stefnda að beiðni Helga Más.  Hafi ástæður þess að skuldabréfið var ekki hærra verið þær að hlutabréf í Sport-Tækjum ehf. höfðu frekar lækkað í verði en hækkað á tímabilinu og þá höfðu brugðist loforð Ketils um aukin viðskipti frá Kína til Sport-Tækja ehf.  Einnig hafi Sport-Tæki ehf. haft verulegan kostnað af viðskiptum við Poenix Seafood Co. og stefnanda.  Hafi þar mestu munað um greiðslu leigu af húsnæði að Lynghálsi 4 í Reykjavík sem Sport-Tæki ehf. hafi tekið á leigu fyrir Ketil/Phoenix og alls ekki notað, enda hafi Sport-Tæki ehf. verið með starfsemi í Hveragerði á sama tíma.  Þá hafi Sport-Tæki ehf. greitt ýmsa reikninga og vantað hafi tæpar 2.000.000 króna frá Katli/Phoenix til að jöfnuður næðist.  Stefndi hafi séð um alls kyns snúninga fyrir Phoenix og stefnanda og m.a. lánað verulegar fjárhæðir til stefnanda í formi tollkrítar hjá Tollstjóranum í Reykjavík.  Stefndi heldur því fram að við útgáfu skuldabréfsins hafi það verið trú stefnda að allar  hugsanlegar kröfur um vexti væru fallnar niður með hliðsjón af framangreindu.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki mótmælt tilvist, efni og upphaflegri fjárhæð kröfu stefnanda.  Þá hafi ekki verið ágreiningur milli aðila um að krafan skyldi bera vexti þegar til hennar stofnaðist.  Stefndi hafi fyrst mótmælt vaxtakröfu stefnanda í bréfi dags. 15. mars 2007 og hafi það komið stefnanda í opna skjöldu.  Tómlæti stefnda gagnvart kröfu stefnanda gefi til kynna að stefndi hafi talið sig þurfa að greiða vexti af kröfunni, enda beri tölvupóstsamskipti stefnanda við endurskoðanda stefnda með sér að stefndi hafi litið svo á að um lán til hans hafi verið að ræða.

                Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.  Um vaxtakröfu er vísað til 3. og 4. gr. laga nr. 38/2001, en í 3. gr. laganna komi fram sú meginregla að almenna vexti skuli því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum.  Stefnandi byggir á því að það sé löng og rótgróin venja að vexti skuli greiða af lánum.  Þá er á því byggt að meginregla 3. gr. laganna sé ekki án undantekninga því almennt sé talið og viðurkennt að greiða beri vexti af peningakröfu, þótt ekki hafi verið um það samið, ef lánveiting hefur verið til alllangs tíma og lánsfjárhæð ekki verið smávægileg.  Samkvæmt 4. gr laganna, skal, ef greiða ber vexti samkvæmt 3. gr. en vaxtafótur ekki tiltekinn, greiða vexti sem séu jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á almennum, óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna.  Þar sem aðilar hafi ekki samið um vaxtafót fari um vexti samkvæmt 4. gr. laganna.

                Stefnandi vísar til III. kafla framangreindra laga um dráttarvaxta- og vaxtavaxtakröfu, en lögmaður stefnanda hafi sent stefnda innheimtubréf 6. mars 2007.

Stefndi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

                 Stefndi rökstyður sýknukröfu sína með því að hann skuldi stefnanda ekki neitt.  Þótt í ljós væri leitt að stefnandi hefði með löglegu framsali fengið kröfu Phoenix framselda þá sé fyrirvaralaus móttaka skuldabréfsins skuldbindandi fyrir stefnanda sem uppgjör hlutafjárframlagsins.  Það segi sig sjálft að aðilar hafi ekki skilið eftir nokkur hundruð þúsund krónur eftir að gengið hefði verið frá skuldinni með útgáfu skuldabréfs og hafi stefnandi ekkert til marks um að skuldabréfið hafi verið innborgun á skuldina.  Þá hafi stefndi ekki skuldbundið sig til að bera einhver afföll af skuldabréfinu.

                Þá byggir stefndi á því að kröfur stefnanda og málsgrundvöllur séu afar óljós og hann leggi engin gögn fram sem sanni fullyrðingar sem fram komi í stefnu.  Stefnandi lýsi málsatvikum ranglega og telji sig vera viðsemjanda upphaflega.  Málsástæður hans séu mjög óljósar, hann byggi á því annað veifið að krafan sé skuldaviðurkenning frá árinu 2001 sem eigi að bera vexti frá þeim tíma en einnig að 12. júní 2005 hafi hlutafjárframlaginu verið breytt í lán.  Hann rökstyðji ekki hvora málsástæðuna fyrir sig og byggi rétt sinn í raun á tveimur munnlegum samningum sem hann geti hvorugan sannað eða gert líklegan.  Öll gögn bendi hins vegar til þess að viðskiptum stefnda og Phoenix, síðar stefnanda, hafi verið lokið með útgáfu skuldabréfsins.

                Stefndi segist hafa staðið í skilum með greiðslur af skuldabréfinu ásamt vöxtum frá útgáfudegi og hafi hugmyndum um eldri vexti verið hafnað vegna útgjalda sem stefndi hafi haft.  Fyrirspurnir frá stefnanda til endurskoðanda stefnda um uppgjör segi ekkert um greiðsluskyldu stefnda.

                Sé einhver lögmæt krafa til um vexti af skuldinni þá vanti öll gögn um hana, framsal til stefnanda, áskoranir til stefnda, fyrirvara við móttöku greiðslu o.s.frv.  Þá skorti alla heimild til töku almennra vaxta, hvað þá dráttarvaxta af skuldinni.  Samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/2001 sé aðalreglan sú að almenna vexti skuli aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum.  Stefnandi geti ekki sýnt fram á að þessi skilyrði séu til staðar.  Ef samið hafi verið um greiðslu á hlutafjárframlagi á árinu 2005 þannig að því verði breytt í skuldaviðurkenningu sé útilokað að krefjast dráttarvaxta fram að þeim tíma nema það standi skýrlega í samningi að gjalddagi sé tiltekinn, sbr. 5. gr. sömu laga.  Sama eigi við um dráttarvexti eftir að samningur komst á um breytingu á hlutafjárframlagi í skuld, sem gerð hafi verið upp með skuldabréfi.

                Fari svo að talið verði að stefndi skuldi stefnanda fé er þess krafist að aðeins verði dæmdir dráttarvextir mánuði eftir að stefnandi sannanlega krafðist greiðslu, þ.e. frá 6. apríl 2007, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.  Þá ber stefndi fyrir sig fyrningu eldri vaxta en 4 ára, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

                Verði litið svo á að stefnandi eigi einhverja réttmæta kröfu á hendur stefnda, krefst stefndi skuldajafnaðar þannig að útgjöld þau sem stefndi og Sport-Tæki ehf. inntu af hendi í þágu Phoenix Seafood Co. og síðar stefnanda, komi á móti kröfum þeim er stefnandi kveðst nú eiga réttindi til.

 

Niðurstaða.

                Ekki er um það deilt í máli þessu að á árinu 2001 voru lagðar 6.000.000 króna sem hlutafé í fyrirtæki stefnda, Sport-Tæki ehf. en aðilar deila um það hver lagði þessa fjármuni fram.  Stefnandi heldur því fram að hann hafi sjálfur afhent stefnda fjármunina en stefndi mótmælir því og kveður Ketil Helgason vegna fyrirtækisins Phoenix Seafood Co. hafa lagt umrædda fjármuni inn í fyrirtæki stefnda.  Engin gögn hafa verið lögð fram um þessi viðskipti.  Aðilar virðast sammála um að þeir hafi samið um það á árinu 2005 að hlutafjárframlaginu yrði breytt í skuldabréf og í því skyni mun stefndi hafa þann 12. júní sama ár gefið út 6.000.000 króna skuldabréf til stefnda.  Stefnandi segist hafa framselt bréfið og fengið fyrir það 5.515.800 krónur en engin gögn hafa verið lögð fram um framangreind viðskipti. 

                Auðunn Guðjónsson, löggiltur endurskoðandi, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi aðstoðað stefnda við gerð ársreiknings og framtals frá árinu 2004.  Honum skildist að um viðskipti með hlutabréf í Sport-Tækjum hafi verið að ræða, þannig að stefndi hafi verið að kaupa hlutabréf af öðrum aðila.  Hann gat ekki borið um samkomulag forsvarsmanns stefnanda, Helga Más Reynissonar, og stefnda í upphafi en síðar hafi orðið að samkomulagi milli þeirra að litið væri á umræddar greiðslur sem lán en ekki hlutafé en honum skildist að aldrei hefði verið gengið frá skráningu hlutarins í hluthafaskrá.  Auðunn kvað aðila hafa komist að samkomulagi um að stefndi endurgreiddi framlag stefnanda með útgáfu 6.000.000 króna skuldabréfs.  Hann kvaðst engin gögn hafa séð um upphaflegu greiðsluna.  Hann kvað skuldabréfið ekki hafa verið fært í bókhald Sport-Tækja og hann kvaðst ekki hafa komið að uppgjöri aðila vegna skuldabréfsins.  Hann kvað Helga Má hafa haft samband við sig þar sem hann hafi litið svo á að ekki væri um endanlegt uppgjör að ræða og hafi hann stungið upp á því að hann vaxtareiknaði skuldina.  Vitnið kvaðst hafa haft samband við stefnda sem hafi tjáð honum að hann liti svo á að um endanlegt uppgjör hefði verið að ræða og þyrfti því ekki að vaxtareikna.

                  Samkvæmt því sem fram er komið í málinu sættust aðilar á að gera upp tiltekið hlutafjárframlag með útgáfu skuldabréfs til stefnda.  Er óumdeilt að fjárhæð skuldabréfsins er sú sama og nam hinu upphaflega hlutafjárframlagi.  Einu gögnin sem stefnandi hefur lagt fram og telur styðja kröfu sína eru tölvupóstsamskipti hans við endurskoðanda stefnda frá 27. október 2005 til 24. ágúst 2006.  Samkvæmt hugmyndum stefnanda um uppgjör, sem hann viðraði við endurskoðandann, nam skuld stefnda 12. júní 2005, eða við útgáfu skuldabréfsins, tæpum fimm milljónum króna.  Stefnda mun hafa verið sent innheimtubréf 6. mars s.l. og svaraði hann því 15. mars s.l. og mótmælti þá kröfu stefnanda.

                Það er meginregla að almenna vexti skuli því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.  Í málinu gerir stefnandi kröfu um greiðslu á 6.000.000 krónum auk tiltekinna vaxta af þeirri fjárhæð frá 12. október 2001 til greiðsludags að frádreginni innborgun 12. júní 2005 að fjárhæð 5.515.800 krónur.  Stefnandi framseldi skuldabréfið og hlaut honum að hafa verið ljóst að afföll yrðu af því.  Má telja með miklum ólíkindum að stefnandi hafi ekki gert ráðstafanir til þess að tryggja sér sönnun þess efnis að þrátt fyrir útgáfu skuldabréfins væri skuld stefnda eftir það um fimm milljónir króna.  Það stóð stefnanda næst að tryggja sér slíka sönnun og verður hann að bera hallann af því að hafa látið það undir höfuð leggjast.  Stefnandi hefur engin gögn lagt fram sem gefa til kynna að stefndi hafi skuldbundið sig til að bera þessi afföll eða greiða vexti eins og stefnandi hefur nú krafist.  Að mati dómsins hefur stefnanda því á engan hátt tekist að sanna að framangreint uppgjör hafi ekki falið í sér endanlegt uppgjör milli aðila og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

                Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                                Stefndi, Sigurður Einarsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Stólpavíkur ehf. í máli þessu.

                                Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.