Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2003
Lykilorð
- Hlutafélag
- Hlutafé
- Verðbréfafyrirtæki
- Sérálit
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2003. |
|
Nr. 184/2003. |
Kaupgarður hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn MP Verðbréfum hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl. Halldór H. Backman hdl.) |
Hlutafélag. Hlutafé. Verðbréfafyrirtæki. Sérálit.
Í málinu deildu aðilar um gildi áskriftarloforðs K hf. við almennt hlutafjárútboð, sem MP hf. annaðist fyrir MPB hf., til aukningar á hlutafé félagsins. Starfsemi félagsins fólst í að festa fé í lyfja- líftækni- og erfðafyrirtækjum. Í útboðslýsingu kom meðal annars fram að stærsta eign MPB hf. væri eignarhlutur í bandaríska félaginu BS Inc., en það félag ætti nokkurn fjölda einkaleyfa. Útboðsgengi var ákveðið 1,5 og kom fram í útboðslýsingu að vitað væri um viðskipti með bréf félagsins á verulega hærra gengi. Byggði K hf. einkum á því í málinu að síðastnefnd fullyrðing stæðist ekki og að MP hf. hafi þvert á móti verið kunnugt um viðskipti með bréfin á lægra verði á útboðstímanum. Einnig hafi verið ofmælt um einkaleyfaeign BS Inc. Talið var að ekkert hefði komið fram í málinu sem styddi fullyrðingar í útboðslýsingu um sölu hlutabréfa á verulega hærra gengi en 1,5 en K hf. hefði hins vegar ekki fært sönnur á að hlutabréf í félaginu hefðu verið seld undir útboðsgengi á útboðstímanum. Var talið að röng lýsing á einkaleyfaeign BS Inc. í útboðslýsingu yrði að skoðast í því ljósi að K. hf. hefði ekki verið að kaupa hlut í því félagi. Meta yrði útboðslýsinguna heildstætt, enda hefði þar verið skýrlega varað við þeirri áhættu sem fælist í fjárfestingu af þessu tagi og sérstaklega tekið fram að tapsáhætta væri mikil. Í tilboði K hf. hefði komið fram að tilboðsgjafi hefði kynnt sér rækilega öll útboðsgögn og að hann gerði sér sérstaka grein fyrir þeim áhættuþáttum sem fylgdu fjárfestingunni. Var kröfu K hf. um sýknu því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2003 og krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
MP BIO hf. var stofnað í janúar 2000 í þeim tilgangi að festa fé í lyfja-, líftækni- og erfðatæknifyrirtækjum og eiga hlutabréf í þeim, en hlutafé í félaginu var 10.000.000 krónur. Á hluthafafundi 14. febrúar sama ár var meðal annars ákveðið að veita stjórn félagsins heimild til að gefa út nýja hluti þannig að hlutafé yrði allt að tveimur milljörðum króna að nafnvirði. Á sama fundi var samþykkt að auka hlutaféð um 990 milljón krónur að hámarki að nafnverði og skyldu hlutirnir seldir á genginu 1,0. Hlutafjárútboðinu lauk 25. febrúar og seldist allt þetta hlutafé. Varð hlutafé félagsins þar með einn milljarður króna. Ráðist var í fjárfestingar að loknu hlutafjárútboði, en stærst þeirra voru kaup á hlutafé í erlenda fyrirtækinu BioStratum Inc.
Í október 2000 var samþykkt á stjórnarfundi í MP BIO hf. að hækka hlutafé um allt að 250 milljón krónur til viðbótar. Jafnframt var ákveðið að hið nýja hlutafé yrði boðið út á genginu 1,5. Stefndi hafði umsjón með útboði hlutafjárins. Gerð var ýtarleg útboðs- og skráningarlýsing, þar sem finna mátti upplýsingar samkvæmt þágildandi lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti og reglugerð nr. 434/1999 um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll. Lýsing þessi var afhent Verðbréfaþingi Íslands hf., sem gerði ekki athugasemdir vegna hennar.
Áfrýjandi gerðist 12. desember 2000 áskrifandi nýrra hluta með því að fylla út sérstakt áskriftarblað og skila því til stefnda. Hann skrifaði sig fyrir hlutum að nafnverði 500.000 krónur á genginu 1,5 og skuldbatt sig þannig til að greiða 750.000 krónur eigi síðar en 20. desember 2000. Í skjalinu var yfirlýsing um að tilboðsgjafi hefði kynnt sér rækilega öll gögn sem fylgdu útboðinu og að hann gerði sér sérstaka grein fyrir þeim áhættuþáttum, sem fylgdu fjárfestingunni, svo og að um bindandi tilboð væri að ræða. Í kjölfar tilboðs áfrýjanda var honum sendur greiðsluseðill frá Reiknistofu bankanna, sem póstlagður var 14. desember 2000. Ágreiningslaust er að hann tók við greiðsluseðlinum fyrir gjalddaga.
Fram er komið að byrjað var að skrá viðskipti með hlutabréf í MP BIO hf. hjá Verðbréfaþingi Íslands hf., nú Kauphöll Íslands, að loknu síðastnefndu útboði, og að gengi þeirra hafi fyrstu dagana eftir skráningu verið næstum það sama og í útboðinu. Síðan lækkaði það nokkuð en hækkaði aftur og náði útboðsgengi 9. mars 2001 og hækkaði enn fram til 15. sama mánaðar en lækkaði þá aftur.
II.
Í héraðsdómi er greint frá þeim málsástæðum, sem áfrýjandi ber fram fyrir kröfu sinni um sýknu í málinu. Fyrir Hæstarétti hefur hann einkum haldið fram þremur málsástæðum: Í fyrsta lagi að áðurnefnd útboðslýsing hafi verið verulega gölluð, þar sem í henni hafi verið söluhvetjandi yfirlýsingar í tengslum við skýringar á því hvernig útboðsgengi hafi verið ákveðið. Í öðru lagi að stefnda hafi mátt vera kunnugt um viðskipti með hlutabréf í MP BIO hf. á útboðstímanum, sem hafi verið á lægra gengi en útboðsgenginu 1,5, en af þeim sökum hefði honum borið að gera viðauka við útboðslýsingu, þar sem upplýsingum um þetta hefði verið komið á framfæri. Í þriðja lagi að rangar upplýsingar hafi verið í útboðslýsingunni um eign BioStratum Inc. á einkaleyfum, en þetta ásamt forsendum fyrir útboðsgenginu hafi verið ákvörðunarástæður áfrýjanda fyrir áskrift sinni að hlutafénu.
Eins og greinir í héraðsdómi sagði í útboðslýsingu að stjórn MP BIO hf. hafi ákveðið útboðsgengið 1,5 á fundi 26. október 2000 með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um söluverð bréfa í félaginu frá stofnun þess. Sagði ennfremur að „upplýsingar eru um sölu á verulega hærra gengi en 1,5.“ Svo sem áður er fram komið voru viðskipti með hlutabréf í félaginu ekki skráð á verðbréfaþingi fyrr en eftir að hlutafjárútboði þessu var lokið. Verður því að ætla að upplýsingar hafi ekki verið auðfengnar um markaðsverð hlutabréfanna fyrir þennan tíma, en með þessu ákvæði útboðslýsingarinnar var þó látið í ljós að stjórn félagsins hafi að minnsta kosti að einhverju marki haft handbærar slíkar upplýsingar. Stefndi hefur ekki lagt fram í málinu gögn um þetta og enn síður um þá staðhæfingu í útboðslýsingu að hlutabréf hafi verið seld á verulega hærra gengi en 1,5. Til þess verður á hinn bóginn að líta að áfrýjandi tók sjálfur ákvörðun um þátttöku í hlutafjárútboðinu og hafði í því efni við ýtarlega útboðslýsingu að styðjast, sem skoða varð í heild. Þar var meðal annars skýrlega varað við áhættunni í fjárfestingu af þessu tagi og sérstaklega tekið fram að tapsáhætta væri mikil, auk þess sem lýst var í nokkru máli á hvaða hátt MP BIO hf. hafi varið fé sínu til kaupa á hlutabréfum í öðrum tilgreindum félögum, sem nánari upplýsingar voru um. Þar komu einnig fram upplýsingar um áðurnefnt hlutafjárútboð í febrúar 2000, bæði umfang þess og að gengi hlutabréfanna hafi þá verið 1,0. Gat áfrýjandi ekki í þessu ljósi gert sér réttmætar væntingar um að gangverð hlutabréfa í félaginu gæti almennt verið hærra en útboðsgengið á þeim tíma, sem hann skrifaði sig fyrir hlutabréfum, en ætla verður að honum hefði og verið fært að afla einhverra upplýsinga hjá fjármálafyrirtækjum um þetta efni. Þótt staðhæfing í útboðslýsingu um að upplýsingar lægju fyrir um sölu á verulega hærra gengi en 1,5 hafi hvorki verið sönnuð í máli þessu né hafi hún á nokkurn hátt átt þar heima, verður ekki horft framhjá því að áfrýjandi gat ekki að virtu öllu framangreindu gefið sér réttilega þá forsendu fyrir áskrift sinni að af henni gæti fengist skjótur hagnaður. Af þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í málinu um gangverð hlutabréfa í félaginu á útboðstímabilinu, verður ekki ráðið að það hafi vikið svo frá útboðsgenginu að efni hefðu verið til að gera viðauka við útboðslýsingu, svo sem áfrýjandi heldur fram. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á þær málsástæður áfrýjanda, sem hér um ræðir.
Áfrýjandi byggir sem áður segir jafnframt á því að upplýsingar um eign BioStratum Inc. á einkaleyfum í útboðslýsingunni hafi reynst rangar. Í útboðslýsingunni var kafli um fjárfestingarstefnu og fjárfestingar MP BIO hf. Þar kom fram að hér væri um að ræða eignarhaldsfélag, sem hefði að markmiði að fjárfesta einkum í fyrirtækjum þar sem fremstu vísindamenn Íslands á sviði líffræði, læknisfræði og skyldra greina kæmu við sögu. Jafnframt að fjárfesta áfram í félagi við aðra fagfjárfesta á þessu sviði, innlenda sem erlenda. Þar var jafnframt lýst eignasamsetningu félagsins, eins og hún þá var og áætluð að útboði loknu. Þar kom fram að stærsta eign félagsins, hlutabréf í BioStratum Inc. að andvirði 786 milljón krónur, teldist 61% af heildareignum þess, en væri áætluð 47,6% að loknu útboði og fyrirhuguðum fjárfestingum. Þegar upplýsingar um eignir og starfsemi BioStratum Inc. í útboðslýsingunni eru virtar ber að hafa hugfast að áfrýjandi var ekki að gera tilboð í hlutabréf í því félagi, heldur í MP BIO hf., sem átti þar framangreindan hlut. Verður jafnframt að skoða notkun orðanna einkaleyfi og nytjaleyfi BioStratum Inc. í útboðslýsingu stefnda í ljósi fyrirvaranna, sem þar komu fram í heild. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður krafa áfrýjanda um sýknu ekki tekin til greina á þessum grunni.
Grunnregla samningaréttarins er að samninga skuli halda. Áfrýjandi gerði bindandi tilboð og skuldbatt sig til að greiða stefnda 750.000 krónur eigi síðar en 20. desember 2000. Í skjalinu var yfirlýsing um að tilboðsgjafi hefði kynnt sér rækilega öll gögn sem fylgdu útboðinu og að hann gerði sér sérstaka grein fyrir þeim áhættuþáttum sem fylgdu fjárfestingunni. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms eru ekki rök til að taka kröfu áfrýjanda um sýknu til greina. Verður héraðsdómur því staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Gunnlaugur Claessen telur að málskostnaður fyrir Hæstarétti eigi að falla niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kaupgarður hf., greiði stefnda, MP Verðbréfum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2003.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 7. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af MP Verðbréfum hf., kt. 540599-2469, Skipholti 50d, Reykjavík, með stefnu birtri 12. september 2001 á hendur Kaupgarði hf., kt. 641073-0169, Rauðarárstíg 37, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 750.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt gildandi vaxtalögum á hverjum tíma frá 20.12.00 til greiðsludags. Þess er krafizt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 20.12.01, en síðan árlega þann dag. Þá er krafizt málskostaðar að skaðlausu að mati réttarins.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
II.
Málavextir:
Þann 21.01.2000 var hlutafélagið MP BIO stofnað og félaginu settar samþykktir. Hlutafé þess var í upphafi kr. 10.000.000, en á hluthafafundi þann 14.02.2000 var 4. gr. samþykkta félagsins breytt, m.a. þannig, að stjórn félagsins var heimilað að gefa út nýja hluti í félaginu, þannig að hlutafé yrði allt að kr. 2.000.000.000. Tilkynning þess efnis var send Hlutafélagaskrá með bréfi, dags. 15. febrúar 2000. Einn stærsti eigandi félagsins er MP Verðbréf hf., stefnandi þessa máls, og nemur eignarhluti hans í MP BIO hf. 11,28%.
Stefnandi kveður hafa verið samþykkt á stjórnarfundi í MP Bio hf., sem haldinn var þann 13. júlí 2000, að hefja undirbúning að hlutafjáraukningu þessari í samræmi við framangreindar samþykktir. Þann 26. október hafi síðan verið samþykkt svohljóðandi tillaga um hlutafjárhækkun í félaginu:
"Stjórn MP Bio hf. samþykkir samkvæmt heimild í 4. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins að hækka hlutafé þess um allt að 250.000.000. Hlutirnir skulu seldir á genginu 1,5. Forgangsréttur hefst þann 23. nóvember 2000 kl. 9.00 og lýkur 7. desember 2000 kl. 19.00. Almenn áskrift hefst þann 11. desember 2000 og lýkur 12. desember 2000 kl. 19.00. Greiðslur skulu inntar af hendi eigi síðar en 20. desember 2000 kl. 19.00. Hlutirnir öðlast réttindi í félaginu þegar þeir hafa verið greiddir. Hlutirnir skulu vera í A-flokki hlutabréfa og njóta þeir sömu réttinda og hlutir í B-flokki nema að því leyti að hlutum í B-flokki, sem er stofnfé félagsins að nafnverði kr. 10.000.000 fylgir alltaf 30% af atkvæðarétti í félaginu en 70% fylgja A-flokki. Engar hömlur eru á sölu hluta í félaginu. Stjórn félagsins er heimilt að lækka áskriftir aðila eða hafna þeim. Heildarhlutafé félagsins verður að útboði loknu allt að kr. 1.250.000.000. Áætlaður kostnaður við hækkunina er allt að 2,9% af seldu hlutafé, þar með 0,5% stimpilgjöld af hlutabréfum."
Útboð hlutafjárins fór fram í tveimur hlutum, annars vegar til forgangsréttarhafa, og var útboðstími til kl. 19.00 þann 07.12.2000, og hins vegar í almennri áskrift frá þeim tíma til kl. 19.00 þann 12. desember 2000. Var útboðslýsingin unnin af hálfu MP Verðbréfa hf. Stefnandi kveður öllum þeim, sem gerzt höfðu áskrifendur að hlutafé, hafa verið sendir gíróseðlar með tilheyrandi fjárhæðum að liðnum þremur dögum frá því að útboði lauk.
Stefndi skráði sig fyrir hlutum í MP BIO hf. í almenna hluta útboðsins. Hann kveður, að við skoðun útboðslýsingarinnar eftir tilboðsgerð hafi komið í ljós, að hún hafi verið röng í mörgum veigamiklum atriðum. Eru athugasemdir stefnda eftirfarandi:
Í tilkynningu til Hlutafélagaskrár, dags. 18. desember 2000, hafi stjórn MP BIO hf. upplýst, að á hluthafafundi, sem haldinn hafi verið þann 9. nóvember 200, hafi, auk áður tilkynntra breytinga á samþykktum félagsins, verið "...samþykkt hækkun hlutafjár í A flokki hluta í félaginu um allt að 250.000.000 kr..." Í fundarboði, dags. 30. október 2000, til hluthafa í MP BIO hf. sé hins vegar ekki að finna tillögu á dagskrá fundarins um að hækka skuli hlutafé, svo sem áskilið sé í 2. mgr. 33 gr. l. nr. 2/1995, hfl., sbr. 88. gr. s.l. Á dskj. nr. 11, sem séu tillögur til breytinga á samþykktum, sem lagðar hafi verið fyrir hluthafafund 9. nóvember 2000, komi fram í 3. gr., að ætlunin sé að hækka hlutafé í kr. 1.250.000.000. Á hluthafafundinum hinn 9. nóvember 2000 hafi tillaga um hlutafjárhækkun síðan verið lögð fram og samþykkt breyting á 1. mgr. 4. gr. samþykktanna um, að "... hlutafé félagsins er kr. 1.250.000,- einn milljarður tvöhundruð og fimmtíu milljónir króna ..." sbr. dskj. 12. Athyglisvert sé, að tillagan sé ekki um hækkun um kr. 250.000.000, eins og kveðið sé á um í tilkynningu stjórnar stefnanda frá 18. desember 2000, heldur sé tillagan og samþykkt hennar um, að hlutaféð skuli fastsett í kr. 1.250.000.000. Ekki sé að sjá, að fullnægt hafi verið ákvæði 2. mgr. 33. gr. l. nr. 2/1995 um, að gerð hafi verið grein fyrir reikningum síðasta reikningsárs með áritunum um afgreiðslu aðalfundar og endurskoðunarskýrslu, ellegar að stjórn félagsins hafi gefið skýrslu um þau atriði, sem verulegu máli skipti um fjárhagslega stöðu félagsins, svo og þær breytingar eftir að reikningar voru gerðir, ellegar að umsögn endurskoðenda hafi legið fyrir um fyrrgreindra skýrslu stjórnar, eins og áskilið sé, sbr. 2. mgr. 33. gr. laga 2/1995.
Þremur dögum síðar, þann 12. nóvember 2000, hafi hins vegar verið gefin út útboðslýsing samkvæmt ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti og kauphallarviðskipti, sem varði hins vegar aðrar lögskyldur en hækkun hlutafjár í hlutafélagi. Meðal gagna í útboðslýsingu séu samþykktir MP BIO, þar sem fram komi, að hlutafé félagsins sé 1.250.000.000. Þrátt fyrir samþykkt um, að hlutafé væri kr. 1.250.000.000, sé ljóst, samkvæmt síðari gögnum, að þær kr. 250.000.000, sem hafi þurft til að ákveða að hlutaféð væri 1.250.000.000 í stað 1.000.000.000, hefðu aldrei verið greiddar inn til félagsins. Hinn 18. desember 2000 hafi stjórn stefnanda sent nýjar samþykktir inn til Hlutafélagaskrár, sbr. dskj. 17, þar sem hlutafé sé sagt vera kr. 1.171.908.109, eða tæplega kr. 80.000.000 lægri en greindi í útboðslýsingunni. Sé þar um lækkun að ræða frá áður samþykktu hlutafé í félaginu. Ekki sé því samræmi milli samþykktar fundarins 9. nóvember 2000, eintaks af samþykktum í útboðslýsingu og svo skráðs hlutafjár í Hlutafélagaskrá. Þann 21.12.2000, sbr. dskj. nr. 10, hafi lögmaður MP BIO sent inn tilkynningu um, að kr. 194.844.477 hefðu greiðzt af því hlutafé, sem boðið var út. Samkvæmt dskj. nr. 15, sem innihaldi þær samþykktir, sem sendar hafi verið Hagstofu þann 17.11.2000, sé hlutafé sagt vera kr. 1.000.000 (sic í grg.). Að teknu tilliti til nýs hlutafjár, kr. 194.844.477 hefði heildarhlutafé átt að skrást 1.194.844.477 en ekki 1.171.908.109 eins og óskað hafi verið eftir í bréfi MP BIO, sem fylgdi dskj. nr. 10 til Hagstofu.
Í nóvember 2000, eftir útgáfu útboðslýsingar þann 12. nóvember, hafi MP BIO auglýst eftir áskrift að nýjum hlutum í félaginu. Hafi stefndi skráð sig fyrir hlutum að nafnvirði kr. 500.000 á sérstakt áskriftarblað, sbr. dskj. nr. 3, og hafi útboðsgengið verið 1,5 og söluverð samtals kr. 750.000. Samkvæmt áskriftarblaðinu skyldi greiða fyrir kl. 19.00 þann 20. desember 2000. Hafi fyrirvari verið gerður af hálfu félagsins um að lækka eða að hafna tilboðinu. Hafi stefndi því álitið, að hann myndi fá tilkynningu frá MP BIO um, að tilboði hans yrði tekið, breyttu eða óbreyttu, eða því hafnað. Stefndi hafi hinsvegar aldrei fengið tilkynningu frá MP BIO um, að tilboðið hefði verið samþykkt. Þegar tilgreindur greiðsludagur leið, án þess að samþykki við tilboðinu hefði borizt frá félaginu, hafi stefndi álitið, að stjórn MP BIO hefði hafnað áskriftartilboði stefnda, sbr. ákvæði þess efnis í tilboðsblaðinu, og ekki yrði af samningi. Hafi hann gert ráðstafanir til að fjárfesta í öðrum hlutabréfum, enda hafi skipt máli að fjárfesta fyrir áramótin 2000/2001 af skattalegum ástæðum.
Hinn 19. eða 20. janúar 2001 hafi stefnda borizt innheimtubréf frá lögmanni stefnanda, MP Verðbréfa hf., sem dagsett sé 17 janúar 2001, sbr. dskj. nr. 4, þar sem stefnandi sé að innheimta áskriftartilboðið, og sé kröfueigandi sagður vera MP Verðbréf hf. Í bréfinu segi, að krafan sé tilkomin vegna "... tilboðs yðar í hlutafé í MP BIO hf. kr. 500.000, á genginu 1,5 eða 750.000, sem samþykkt hafi verið þann 12. desember 2000 ..." Stefndi kannist ekki við að hafa fengið samþykki tilboðsins, eins og áður segi, og hafi hann strax mótmælt við lögmann stefnanda. Hafi síðan ekkert heyrzt af málinu, fyrr en með stefnu til héraðsdóms.
Eftir tilboðsgerðina hafi stefnda orðið ljóst, að tengsl MP BIO hf. við eigendur og stjórnendur MP Verðbréfa hf. séu veruleg og kunni að fela í sér hagsmunaárekstra, en stofnendur MP BIO hf. séu MP Verðbréf hf., Margeir Pétursson ehf. og Margeir Pétursson persónulega, auk Alrúnar ehf., sem sé í eigu Ágústs Sindra Karlssonar fyrrverandi stjórnarformanns, en núverandi stjórnarmanns MP Verðbréfa hf.
Við skoðun málsins hafi komið í ljós, að ekki hafi verið staðið rétt að skráningu hlutafjár í MP BIO, að efast mætti um, að hlutlæg viðskiptasjónarmið hafi ráðið verðlagningu hlutafjárins í ljósi hagsmunatengsla stjórnenda stefnanda og MP BIO. Sé ljóst, að enginn markaður sé með langstærstan hluta þeirra verðbréfa, sem MP BIO eigi, þ.e í BioStratum Inc. Hafi verið bersýnilegt, að fjárfestingastefna félagsins hafi litazt af sérstökum hagsmunum, sem varði tengsl MP BIO og MP Verðbréfa hf., en MP Verðbréf hafi einnig annazt hlutafjárútboð fyrir BioStratum, sbr. dskj. nr. 23. Að auki telji stefndi, að komið hafi í ljós, að fullyrðingar í útboðslýsingu um einkaleyfi og einkaleyfisumsóknir BioStratum Inc. séu beinlínis rangar, sem geri að verkum, að stefndi sé algerlega óbundinn af áskriftinni, þegar af þeirri ástæðu.
Framkvæmdastjóri stefnda, Ólafur Torfason, hafði samband við stefnanda strax að loknu útboði og óskaði eftir að verða leystur undan skuldbindingu sinni á þeirri forsendu, að verðið væri of hátt. Þeirri málaleitan hans var hafnað. Greinir aðila nú á um greiðsluskyldu stefnda.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi gert bindandi tilboð í hlutabréf MP BIO hf. að nafnvirði kr. 500.000 á því gengi, sem útboðið sagði til um, þ.e. 1,5, eða kr. 750.000. Jafnframt hafi því verið lýst yfir, að stefndi hefði kynnt sér öll gögn vegna útboðsins og gerði sér fulla grein fyrir áhættuþáttum vegna fjárfestingar í MP BIO hf. Stefndi hafi ekki fengizt til að standa við tilboð, sitt þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þar um, og sé málshöfðun því nauðsynleg.
Aðild stefnanda sé byggð á því, að stefnandi málsins, MP Verðbréf hf., sé verðbréfafyrirtæki, sem hafi haft umsjón með útboði hlutafjár og skráningu hluta MP BIO hf. og annast innheimtu ógreidds hlutafjár.
Stefnandi vísar er til almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga og almennra reglna samningalaga, sbr. I. kafla l. nr. 7/1936.
Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda:
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á eftirgreindu:
1. Ekki verði annað séð samkvæmt gögnum frá MP BIO, en að áskrift stefnda sé grundvölluð á hækkun á hlutafé, sem ákveðin hafi verið með ólögmætum hætti á hluthafafundi þann 9. nóvember 2000. Hafi ekki verið hirt um, af hálfu stjórnar MP BIO, að boða til fundarins með lögmætum hætti, sbr. 2. mgr. 33. gr., sbr. 88. gr. l. nr. 2/1995. Hafi því verið ólöglegt að taka tillöguna til meðferðar á fundinum, sbr. 89. gr., sbr. 33. gr. hfl. Stefndi dragi í efa, að þessu skilyrði hafi verið fullnægt, úr því að ekki hafi verið boðað með lögboðnum hætti til þess fundar, sem fjalla skyldi um hækkun hlutafjár í MP BIO.
2. Þá styðji stefndi kröfu sína um sýknu þeim rökum, að ekki sé samræmi á milli samþykktar hluthafafundar um, að hlutafé sé 1.250.000.000 og tilkynningar stjórnar MP BIO til Hlutafélagaskrár. En þrátt fyrir samþykkt hluthafafundar þann 9. nóvember 2000 um, að hlutafé væri kr. 1.250.000.000, hafi stjórnin tilkynnt, að hlutafé félagsins næmi aðeins kr. 1.171.908.109, sbr. dskj. nr. 17. Ákvæði 2. gr. samþykkta MP BIO um hlutafé, sem sendar hafi verið inn til Hlutafélagaskrár, séu því bersýnilega aðrar en samþykktar hafi verið á fundinum 9. nóvember 2000 og greindar séu í útboðslýsingu. Ekki verði séð, að stjórnin hafi mátt, á sitt eindæmi, breyta 2. gr. samþykktanna um fjárhæð hlutafjárins, sbr. ákvæði samþykkta um lækkun hlutafjár, sbr. og VII. kafli hfl. Sé sú aðgerð stjórnar MP BIO, að því er virðist af gögnum málsins, ólögmæt.
3. Þá sé byggt á því, að áskriftarblað á dskj. nr. 3 uppfylli ekki ákvæði 38. gr. laga hfl., en þar segi, að "... Áskrift nýrra hluta skal gerð á áskriftarskrá sem félagsstjórn undirritar. Í áskriftarskrá skal greina ákvörðun hluthafafundar um hækkun hlutafjárins. Við áskrift skal leggja fram samþykktir félagsins og gögn þau er greinir í 2. mgr. 33. gr..." Augljóst sé af dskj. nr. 3, að það sé ekki undirritað af félagsstjórn MP BIO, og því sé þetta formskilyrði hfl. ekki uppfyllt.
4. Þá sé byggt á því, að áskriftin sé ekki í samræmi við ákvæði 39. gr., sbr. 10. gr. hfl. Í áskriftarblaðinu segi, að stjórn félagsins sé heimilt að lækka áskriftina eða hafna henni, og sé því um að ræða fyrirvara af hálfu stjórnar MP BIO. Beri því samkvæmt 39. gr. að beita reglum 10. gr. hfl. Þar segi, að félagið geti ekki borið fyrir sig áskrift um hlutakaup, ef eigi hafi verið gætt þargreindra reglna. Þá sé ljóst, samkvæmt 11. gr. hfl., sbr. og 38. gr., að áskrift beri að samþykkja, nema annað sé ákveðið. Af fyrirvara í áskriftarblaði um, að MP BIO megi lækka eða hafna áskrift, sbr. og ákvæði 11. gr., leiði, að MP BIO hafi orðið að samþykkja áskriftina, svo hún öðlaðist gildi. Stefnda hafi aldrei verið tilkynnt um samþykki áskriftarinnar.
5. Auk 11. gr. hfl. hafi félaginu borið, skv. ákvæðum laga nr. 7 /1936, að tilkynna stefnda án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en á gjalddaga samkvæmt tilboðinu, þann 20. desember 2000, að félagið samþykkti áskrift stefnda. Ekkert slíkt samþykki hafi verið sent stefnda fyrir gjalddaga, og sé hann því óbundinn af tilboði sínu þegar af þeim ástæðum. Sú staðhæfing, að tilboðið hafi verið samþykkt, sé í ósamræmi við t.a.m. dskj. nr. 25, þar sem segi í frétt Morgunblaðsins 19.12.2000, að selzt hafi kr. 171.908.109 í útboðinu. Sú fjárhæð hafi öll verið inngreidd, sbr. dskj. nr. 17 og dskj. nr. 10. Megi af þessum gögnum ráða, að MP BIO og stefnandi hafi litið svo á, að ekki væri annað hlutafé selt, en það sem hafi verið að fullu greitt.
6. Útboðslýsing MP BIO sé röng í veigamiklum grundvallaratriðum. Í útboðslýsingunni á dskj. nr. 8 segi, að hlutir í BioStratum nemi 61% af heildareign MP BIO. Segi m.a. á bls. 13 í dskj. nr. 8: "...BioStratum Inc., á nú 23 útgefin einkaleyfi og u.þ.b. 30 einkaleyfisumsóknir frá félaginu bíða afgreiðslu. Félagið vinnur að þróun lyfja við alvarlegum og útbreiddum sjúkdómum og meðferðar á þeim..." Sé því lýst nánar í dskj. nr. 8, að BioStratum sé nýsköpunarfyrirtæki og eigi framtíð sína helst undir því að geta selt lyf og aðra framleiðslu, sem byggi á hugverkaréttindum félagsins. Segi á bls. 22 m.a., að "... Framtíð fyrirtækisins byggir á einkaleyfisvernd hugverkaréttinda og vernd á öðrum trúnaðarupplýsingum ..." Þegar endurskoðunarskýrsla KPMG í USA um BioStratum í viðauka útboðslýsingarinnar sé skoðuð, veki athygli, að engin grein sé gerð fyrir einkaleyfaeign félagsins. Hins vegar sé því lýst undir tl. (7) “Licensing agreements", bls. V31, að BioStratum hafi gert ýmsa nytjaleyfissamninga við háskóla og aðrar rannsóknarstofnanir, og nýti félagið þannig ýmsa tækni, sem aðrir eigi hugverkaréttindin að. Séu gjaldfærðir 52.500 bandaríkjadalir vegna nytjaleyfisgjalda á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000, en aðeins 8.511 dalir vegna "patent protection fees" eða einkaleyfisgjalda.
Þar sem ósamræmi sé, að mati stefnda, annarsvegar á sögðum, útgefnum einkaleyfum (23 talsins) til BioStratum Inc. og einkaleyfaumsóknum (30 talsins) þess og hinsvegar lágs kostnaðar við öflun og vernd einkaleyfisréttinda í skýrslu endurskoðenda BioStratum, hafi lögmaður stefnda leitað til tveggja skrifstofa einkaleyfislögmanna í Bandaríkjunum, þar sem BioStratum sé skráð, og óskað liðsinnis þeirra við fá upplýsingar um skráð einkaleyfi til félagsins og einkaleyfisumsóknir. Niðurstaða hinna erlendu lögmanna sé sú, sbr. dskj. nr. 28 og 29, að engin einkaleyfi séu útgefin í USA til BioStratum Inc., og engar umsóknir séu inniliggjandi. Hinsvegar hafi leitin leitt í ljós, að 12 einkaleyfi hafi verið gefin út til BioStratum AB í Svíþjóð sbr. nánar dskj. nr. 28.
Á grundvelli þessa sé ranglega fullyrt í útboðslýsingu, að BioStratum Inc. sé eigandi að 23 einkaleyfum og með 30 einkaleyfisumsóknir inniliggjandi. Sé um að ræða svo verulegan ágalla á útboðslýsingu MP BIO, að stefndi sé algerlega óbundinn af áskrift sinni, þegar af þessari ástæðu.
7. Þá haldi stefndi því fram, að áskriftargengi útboðsins hafi verið allt of hátt, órökstutt og fullyrðingar stjórnar um, að hlutabréf félagsins hafi verið seld á miklu hærra gengi, séu rangar og til þess fallnar að blekkja væntanlega áskrifendur. Hafi þeir mátt ætla, að áskriftarverðið hafi verið lægra en efni stóðu til og því verulegir hagnaðarmöguleikar fólgnir í kaupum í útboðinu. Stefndi hafi hins vegar heimildir fyrir því, að hluthafar í MP BIO hafi verið að falbjóða hluti sína undir áskriftarverðinu á sama tíma og útboðið fór fram. Jafnframt hafi mátt kaupa sömu verðbréf og myndi safn MP BIO á mun lægra gengi en 1,5 á sama tíma, eða sem næst genginu l. Að stærstum hluta (87%) sé eign MP BIO fólgin í óskráðum verðbréfum, sem engin virk viðskipti séu með, og sé verðmyndun þeirra óvís og í reynd óútreiknanleg. Á engan hátt sé gerð grein fyrir í útboðslýsingu, hvernig áskriftargengið sé ákveðið, og hafi útboðslýsingin verið gölluð að þessu leyti, þar sem stefnda hafi verið ómögulegt að sjá, hvort áskriftarverðið hafi verið ásættanlegt eður ei.
8. Þá byggi stefndi á því, að ranglega hafi verið staðið að gerð útboðslýsingar og útboðsferlinu, þar sem MP verðbréf hf. hafi ekki mátt, sökum tengsla sinna við MP BIO hf., annast um umsjón með almennu útboði á hlutabréfum í MP BIO hf. Af þeim gögnum og upplýsingum, sem stefndi hafi um viðskipti og tengsl MP BIO hf. og MP Verðbréfa hf., sé ljóst, að fjárhagslegir hagsmunir MP Verðbréfa hf. í rekstri MP BIO hf. séu verulegir, sbr. að MP Verðbréf hf. séu stærsti eigandi MP BIO hf. Fari þessi nánu fjárhagslegu tengsl í bága við grunnreglur íslenzkra laga um verðbréfaviðskipti, sbr. t.d. l. nr. 10/1993 um verðbréfasjóði. MP BIO hf. sé í eðli sínu verðbréfasjóður, þó hann sýsli ekki með hlutdeildarskírteini. Í l. nr. 10/1993 sé aðgreint á milli stjórnar verðbréfasjóðs, vörzlufélags og rekstrarfélags í því skyni að tryggja hlutlægni í viðskiptum með verðbréf, sem boðin séu almenningi til kaups. Sömu grunnsjónarmið beri að hafa í heiðri við rekstur verðbréfasjóðs, sem gefi út hlutabréf gegn fé frá almenningi. Telji stefndi, að viðskiptin milli MP Verðbréfa hf. og MP BIO hf. um þau hlutabréf, sem myndi eign MP BIO hf., kunni að vera óeðlileg, og að hlutabréfin kunni að hafa verið keypt allt of dýru verði, með þeim afleiðingum, að seljandi, MP Verðbréf, hafi fengið umtalsverðan söluhagnað á kostnað MP BIO hf. Þá megi benda á, að samkvæmt samþykktum MP BIO sé MP Verðbréfum og eigendum þess fyrirtækis tryggð, með eignaraðild að B flokki, 30% atkvæðaréttar í félaginu, þó að eignarhaldið nemi aðeins 10.000.000, eða innan við 1% af heildarhlutafé félagsins, og sé sú staðreynd nægjanleg sönnun þess, að MP Verðbréf uppfylli ekki grundvallareglur kauphallar- og verðbréfaviðskiptalaga um hlutleysi umsjónaraðila útboðs. Auk þessa megi nefna, að endurskoðandi MP BIO sé einnig endurskoðandi MP Verðbréfa.
Í þessu sambandi sé bent á, að MP Verðbréf sé "verðbréfafyrirtæki" skv. 7. gr., sbr. 2. gr. l. 13/1996. Samkvæmt 10. gr. laganna sé slíkum fyrirtækjum óheimilt að annast aðra starfsemi en greini í 8. gr. laganna. Stofnun og rekstur hlutabréfasjóða eins og MP BIO sé ekki á starfssviði MP Verðbréfa samkvæmt l. nr. 13/1996. Í 28. gr. s.l. sé kveðið á um, að almennt útboð verðbréfa skuli fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja samkvæmt 8. gr., eða annarra, sem hafi lagaheimild til þess, sbr. og 3. gr. rgl. nr. 477/2001. Sé það gert til að tryggja hlutlægni og hlutleysi við gerð skráningar og útboðsgagna. Um þetta megi enn fremur vísa til 3. mgr. 18. gr. rgl. 434/1999 um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll, sbr. og reglur um aðild að Verðbréfaþingi Íslands, 3. gr. 5. tl., siðareglur VÞÍ nr. 5, frá l. júlí 1999, 8. gr., varðandi hagsmunaárekstra og misnotkun aðstöðu, svo og leiðbeiningarreglur Fjármálaeftirlitsins um efni reglna fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
9. Þá byggi stefndi á, að um MP BIO gildi lög um verðbréfasjóði nr. 10/1993, enda sé tilgangur félagsins að fjárfesta í lyfja-, líftækni- og erfðatæknifyrirtækjum og eignarhaldi hlutabréfa og að bjóða hlutabréf í sjálfu sér til almennings. Að mati stefnda falli starfsemi MP BIO undir ákvæði l. nr. 10/1993 um verðbréfasjóði, sem séu fyrirtæki, sem falli undir eftirgreint:
a. [að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum eignum samkvæmt 27. gr. á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu og]
b. gefa út hlutdeildarskírteini til þeirra, sem fái félaginu fé til ávöxtunar og innleysa þau að kröfu eigenda af eignum félagsins.
Að mati stefnda gildi 1. tl. 1. gr. l. nr. 10/1993 um MP BIO, enda leiti það til almennings um fé til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum eignum. MP BIO hafi ekki starfsleyfi samkvæmt 2. gr. l. nr. 10/1993. Þá sé félagið ekki rekið samkvæmt fyrirmælum laganna varðandi vörzlur eigna, umsjón með rekstri eða stjórnun fjárfestinga. Félaginu sé því óheimilt að leita til almennings með þeim hætti, sem gert hafi verið í hinu umþrætta útboði félagsins.
10. Þá byggi stefndi á því, að forsvarsmaður stefnda, sem gerði MP BIO áskriftartilboðið, sé ólöglærður og ókunnugur lögum og reglum á sviði verðbréfaviðskipta. Hafi hann ekki kynnt sér útboðsgögnin rækilega, en talið, í ljósi þess, að löggilt verðbréfafyrirtæki hafi annazt útboðið og hlutabréf MP BIO skyldi skrá á Verðbréfaþingi Íslands, að hér væri staðið eðlilega að málum. Sé þess krafizt, ef ekki verði fallizt á framangreindar málsástæður til sýknu, að samningnum um kaupin á hlutabréfum í MP BIO verði vikið til hliðar með vísan til 36. gr. l. nr. 7/1936 með síðari breytingum.
Með vísan til ofangreinds sé það mat stefnda, að hann sé óbundinn af áskriftartilboði sínu og sé krafizt sýknu af þeim ástæðum.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Fyrir dóminum gáfu skýrslu Sigurður Valtýsson framkvæmdastjóri stefnanda og Ólafur Torfason framkvæmdastjóri stefnda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á tilboði stefnda í hlutabréfin. Stefndi hefur mótmælt kröfunni og borið fyrir sig ýmsar málsástæður. Verður nú fjallað um þær, hverja fyrir sig.
1. Stefndi kveður ákvörðun um hækkun á hlutafé 9. nóvember 2000 hafa verið ólögmæta vegna ólögmætrar fundarboðunar, sbr. 2. mgr. 33. gr., sbr. 88. gr. l. nr. 2/1995. Vísar stefndi í dskj. nr. 10, sem hann kveður vera fundarboð, dags. 30. október 2000. Dómskjal nr. 10 er dags. 21. desember 2000 og er tilkynning til hlutafélagaskrár. Er ekki að finna í skjölum málsins fundarboðun þá, sem stefndi vísar til, og liggur ekkert fyrir um, hvernig að þeirri fundarboðun var staðið. Eru staðhæfingar stefnda, sem að þeirri fundarboðun lúta, ósannaðar.
2. Stefndi kveður ósamræmi milli samþykktar hluthafafundar um fjárhæð hlutafjár og tilkynningar stjórnar MP BIOs til Hlutafélagaskrár.
Á dskj. nr. 11 liggja fyrir tillögur til breytinga á samþykktum MP BIO hf. frá stofnfundi þess 21. janúar 2000 og hluthafafundi 14. febrúar s.á., sem lagðar skyldu fyrir hluthafafund 9. nóvember 2000. Þá liggur fyrir á dskj. nr. 12 uppkast að samþykktum fyrir félagið, eins og þær muni hljóða, ef hluthafafundur 9. nóvember 2000 samþykki fram lagðar breytingatillögur. Í báðum þessum skjölum segir í 4. gr., að hlutafé félagsins sé kr. 1.250.000.000. Ekkert liggur fyrir um, að tillögur þessar hafi verið samþykktar í þessu formi. Á dskj. nr. 15 liggja hins vegar fyrir í staðfestu ljósriti frá Hagstofu Íslands samþykktir fyrir MP BIO hf. frá stofnfundi félagsins 21. janúar 2000 með breytingum á hluthafafundum þann 14. febrúar og 9. nóvember s.á., þar sem segir í 1. mgr. 4. gr., að hlutafé félagsins sé kr. 1.000.000.000. Þá er í 4. mgr. sömu greinar ákvæði, sem veitir stjórn félagsins heimild til að gefa út nýja hluti í félaginu, þannig að hlutafé þess verði allt að kr. 2.000.000.000 að nafnverði. Stendur heimildin til 1. febrúar 2005. Hlutafé félagsins samkvæmt tilkynningu stjórnar félagsins til Hagstofu Íslands á dskj. nr. 17 er því innan þess ramma sem samþykktir félagsins heimila.
3-4. Stefndi byggir á því, að áskriftarblaðið uppfylli ekki ákvæði 38. gr. hfl. og að áskriftin sé ekki í samræmi við ákvæði 39. gr., sbr. 10. gr. hfl.
Í 1. mgr. 38. gr. hlf. segir, að áskrift nýrra hluta skuli gerð á áskriftarskrá, sem félagsstjórn undirriti. Ekki verður talið, að þetta ákvæði eigi einungis við um stofnun hlutafélaga, svo sem skilja mátti á málflutningsræðu lögmanns stefnanda. Áskriftarblað það, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, er óundirritað af hálfu stefnanda. Í 39. gr. hfl. segir, að fari áskrift ekki eftir reglum 38. gr. eða hún sé gerð með fyrirvara, skuli beita reglum 10. gr. laganna. Í 1. mgr. 10. gr. segir, að áskrift skuli gerð í stofnsamningi eða á sérstaka áskriftarskrá. Skuli gögn skv. 6. gr. laganna fylgja áskriftarskrá. Félagið geti ekki borið fyrir sig áskrift um hlutakaup, ef eigi hafi verið gætt “framangreindra reglna”, svo fremi að sá, er áskriftina gerði, mótmæli því við hlutafélagaskrá, áður en félagið er skrásett, að áskriftin sé bindandi. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins, að stefnandi hafi borið við framangreindum athugasemdum um að ranglega hafi verið staðið að áskrift, fyrr en í greinargerð sinni í máli þessu, og koma þær málsástæður þegar af þeim sökum ekki til álita.
5. Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi ekki tilkynnt stefnda án ástæðulauss dráttar, að félagið samþykkti áskrift hans, svo sem honum hafi borið skv. l. 7/1936. Stefnandi vísar einnig í 11. gr. hfl., um að þar sem fyrirvari hafi verið í áskriftarblaði hafi stefnandi orðið að samþykkja áskriftina, til að hún öðlaðist gildi.
Fyrirsvarsmaður stefnda, Ólafur Torfason, bar fyrir dóminum, að honum hefði borizt gíróseðill um greiðslu hlutafjárins og hann hafi reiknað með að stefnandi hefði tekið tilboðinu, þeir hefðu varla sent gíróseðil, hefði tilboðinu ekki verið tekið. Þegar af þessum sökum mátti stefndi vita, að stefnandi hafði samþykkt áskrift hans og þykir gíróseðillinn nægileg tilkynning til hans. Er ekki fallizt á, að frétt, sem stefndi vísar til, úr Morgunblaðinu, leiði til annarrar niðurstöðu.
6. Útboðslýsing MP BIO röng í veigamiklum grundvallaratriðum:
Í útboðslýsingu á dskj. nr. 8 segir m.a., svo sem stefndi rekur í greinargerð sinni, að BioStratum Inc., sem er stór hluti af heildareign MP BIO, eigi 23 útgefin einkaleyfi og u.þ.b. 30 einkaleyfisumsóknir frá félaginu bíði afgreiðslu. Ágreiningslaust er hins vegar, að þarna sé ekki rétt með farið, heldur eigi félagið 9 einkaleyfi og 7 bíði afgreiðslu, sbr. minnispunkta BioStratum á dskj. nr. 55, bls. 14. Aðspurður um misræmi þetta, svaraði Sigurður Valtýsson því til, að þýðingin í útboðslýsingu hefði mátt vera betri, en það breyti engu um rétt BioStratum til þess að nytja þessi einkaleyfi og að þeir hafi fullan framsalsrétt á þeim.
Stefndi leitaði til Fjármálaeftirlitsins með beiðni um skoðun þess á lögmæti eftirtalinna þriggja atriði í umdeildri útboðs- og skráningarlýsingu MP Verðbréfa:
a) Sannleiksgildi yfirlýsingar í gögnunum um einkaleyfaeign BIO Stratum, Inc.
b) Hvort verðlagning í útboðinu á hlutum í MP BIO hf. hafi verið eðlileg og hvort efni yfirlýsingar stjórnar MP BIO í útboðs- og skráningarlýsingu um viðskipti með hlutabréf í MP BIO hafi verið rétt og í samræmi við lög og venjubundna viðskiptahætti við útboð verðbréfa.
c) Viðskipti MP Verðbréfa og MP BIO hf. með hlutabréf í BioStratum Inc. í tengslum við milligöngu MP Verðbréfa um sölu á hlutum í BioStratum Inc. í febrúar 2000, svo og hvort um óeðlileg viðskipti hafi verið að ræða milli félaganna að öðru leyti.
Svar Fjármálaeftirlitsins, sem dags. er 22. október, er á dskj. nr. 56. Í svari við 1. lið fyrirspurnar stefnda er m.a. vísað í áreiðanleikakönnun, sem gerð var fyrir MP Verðbréf og MP BIO hf. vegna fjárfestinga í BioStratum Inc., en sú könnun liggur fyrir í máli þessu, að svo miklu leyti, sem hún snertir deiluefni aðila. Í umfjöllun eftirlitsins um þennan lið segir svo m.a.:
Hafa verður í huga að nytjaleyfasamningar (e. leasing) fela oft í sér mjög víðtæk réttindi, svo ekki er hægt að fullyrða, að meintar rangfærslur í útboðslýsingu um einkaleyfaeign BioStratum Inc. séu til þess fallnar að breyta forsendum fjárfestis sem kaupir jafn áhættusöm hlutabréf og hlutabréf MP BIO hf.
Í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins varðandi þennan lið segir síðan:
Af framangreindum upplýsingum verður ráðið, að mati Fjármálaeftirlitsins, að upplýsingar um einkaleyfaeign BioStratum Inc. séu að hluta til ónákvæmar eða rangar þar sem sagt er að BioStratum Inc. eigi 23 útgefin einkaleyfi og 30 einkaleyfaumsóknir frá félaginu bíði afgreiðslu. Meta þarf þó heildstætt þau áhrif sem ætla mætti að tilgreindar upplýsingar hafi haft á fjárfestingarákvörðun fjárfesta. Til að mynda verður að meta áhrif yfirlýsingar í kafla um áhættu á blaðsíðu 22 í útboðslýsingu MP BIO hf. þar eru settir mikilvægir fyrirvarar við afkomugrundvöll BioStratum Inc. og áherzla lögð á hve áhættusöm fjárfesting í BioStratum Inc. er. Meðal annars er vikið að óvissuþáttum er varða einkaleyfi.
Samkvæmt framansögðu má fallast á með stefnda, að lýsing á einkaleyfaeign BioStratum Inc. í útboðslýsingu er röng, en hins vegar má fallast á þá niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins, að meta verði þýðingu þess með hliðsjón af því, hvaða áhrif það hafði á ákvörðunarástæðu stefna, þegar hann skráði sig fyrir kaupum á hlutabréfunum.
Ekki liggur fyrir staðfesting í máli þessu á því, hversu víðtæk réttindi felast í nytjaleyfasamningunum, sem BioStratum Inc. hefur samkvæmt útboðsgögnum. Af hálfu stefnanda er fullyrt að þau séu nánast þau sömu og einkaleyfaeign. Í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins segir hins vegar, svo sem fyrr er rakið, að þeir geti falið í sér víðtæk réttindi.
Ólafur Torfason skýrði svo frá fyrir dómi, að honum hefði þótt MP BIO spennandi fjárfestingarkostur, félagið hefði verið að fjárfesta í félögum, sem voru í greinum, sem lúta að líftækni og erfðafræði og fleiru, og útboðslýsingin hefði ekki verið slæm. Það í henni, sem gerði það að verkum, að hann ákvað að fjárfesta í fyrirtækinu, hafi verið t.d. í hvaða “geira” þetta var, auk þess sem gengið hafi verið alveg þokkalegt miðað við útboðslýsingu. Ákvörðunarástæða hans hefði m.a. verið sú, að þetta hefði verið góður fjárfestingarkostur, auk þess sem verkefnin hefðu höfðað til hans, en þeir hefðu verið í “þessum nýrnadæmum”, sem hafi höfðað til hans, þar sem hann sé nýrnasjúklingur. Það sem hafi valdið því, að hann vildi losna undan áskriftarloforði sínu, hafi verið orðrómur um lægra gengi en útboðsgengið, 1,2 eða 1,3, að hann minnti. Því hafi hann haft samband við MP Verðbréf og óskað eftir að losna undan loforðinu, og hafi hann gefið upp þær ástæður að verðið væri of hátt, en einnig, að þarna væru sömu aðilar beggja vegna borðs, bæði hjá MP Verðbréfum og MP BIO, bæði framkvæmdastjóri og aðrir, og hann hafi ekki áttað sig á því, þegar hann gerði tilboðið, að þetta væru sömu aðilarnir. Framkvæmdastjórinn var ítrekað spurður um það af lögmanni sínum, hverjar hefðu verið ákvörðunarástæður fyrir áskrift hans að hlutabréfunum.
Spurning lögmanns stefnda:
“Er rétt skilið að þessi verðlagning og svo þessi einkaleyfaeign og einkaleyfaumsagnir hafi verið ákvörðunarástæður fyrir því að þú ákvaðst að fjárfesta í þessu félagi öðru fremur, er það rétt skilið hjá mér?
Svar: “Já, náttúrlega, þetta var góður grunnur til að byggja á”.
Spurning lögmannsins:
“En voru þetta þínar ákvörðunarástæður?”
Svar: “Já og náttúrlega, að taka inn, þetta var svona, alla vega leit þannig út að þetta væri góður fjárfestingarkostur, bæði peningalega og ...”
Af svörum framkvæmdastjóra stefnda við framangreindum spurningum verður ekki ráðið, að form einkaleyfa í BioStratum Inc., þ.e. hvort um einkaleyfaeign eða nytjaleyfi hafi verið að ræða, hafi verið honum ofarlega í huga, þegar hann ákvað að skrifa sig fyrir kaupum á hlutabréfunum, þrátt fyrir að spurningarnar hafi verið settar þannig fram, að verið væri að knýja fram ákveðin svör. Benda önnur svör framkvæmdastjórans miklu fremur til þess, að það hafi verið starfssvið fyrirtækisins MP BIO hf. sem og gengi hlutabréfanna, sem hafi haft mótandi áhrif á þessa ákvörðun hans. Þykja því þegar af þeim sökum ekki efni til að leysa hann undan skuldbindingum sínum á þeim grundvelli, að tilgreining á einkaleyfaeign BioStratum Inc. hafi verið ónákvæm eða röng í útboðsgögnum. Í þessu sambandi er einnig óhjákvæmilegt að líta til þess, að yfirlýsingar um áhættu á bls. 22 í útboðslýsingu, sem nefnt er í skýrslu Fjármálaeftirlitsins, sýnist ekki hafa haft nein áhrif á ákvarðanatöku stefnda, þótt þar megi finna atriði, sem bendi til mun meiri áhættu en leiði af mun á einkaleyfaeign og leyfi til að nytja einkaleyfi.
7. Stefndi heldur því fram, að fullyrðingar stjórnar um að hlutabréf félagsins hafi verið seld á miklu hærra gengi, séu rangar og til þess fallnar að blekkja væntanlega áskrifendur. Þá kveðst stefndi hafa heimildir fyrir því, að hluthafar í MP BIO hafi verið að falbjóða hluti sína undir áskriftarverði á sama tíma og útboðið fór fram. Jafnframt hafi mátt kaupa sömu verðbréf og myndi safn MP BIO á mun lægra gengi en 1,5 á sama tíma, eða sem næst genginu 1.
Stefndi hefur engin haldbær rök fært fyrir þessum síðargreindum staðhæfingum sínum.
Á bls. 8 í útboðslýsingu segir svo um gengi hlutabréfanna:
Hlutabréfin eru boðin til sölu á genginu 1,5. Það gengi er meðal annars ákvarðað af stjórn félagsins þann 26. október með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um söluverð bréfa í félaginu frá stofnun. Upplýsingar eru um sölu á verulega hærra gengi en 1,5.
Framkvæmdastjóri stefnanda bar fyrir dómi, að gengið 1,5 hafi verið fundið af stjórn MP BIOs í samráði við MP Verðbréf, þannig að verðlagningin hafi verið tekin af undirliggjandi eignum félagsins á þeim tíma, þegar gengið var ákveðið, og séu það fyrirliggjandi upplýsingar um sölu eins og t.d. í BioStratum Inc. á verði, sem réttlæti þetta gengi. Varðandi þróunina á genginu eftir það sé erfiðara um vik, því þá hafi félagið verið óskráð og menn verið að styðjast við þau viðskipti, sem hafi verið innan dyra á MP BIO. Félagið hafi verið skráð 8. desember á Viðskiptaþinginu og þá hafi viðskiptagengið verið 1,4 og viðskipti þennan sama dag verið allt upp í 1,49. Þann 29. desember, sem var lokadagur þess árs í Kauphöllinni, hafi viðskiptagengið verið frá 1,45 niður í 1,4. Frá upphafi árs 2001 hafi gengið rokkað úr 1,4 allt niður í 1 í marz. Síðan hafi gengið tekið við sér og verið stöðugt í 1,4 og yfir og hafi farið upp í 1,55/1,56 í marz og hafi verið umtalsverð viðskipti á genginu yfir 1,5. Þessi viðskipti séu öll skráð í Kauphöll Íslands. Síðan fari gengið hratt niður og kvaðst framkvæmdastjórinn telja, að það hefði fyrst og fremst verið vegna þess að Decode-eign félagsins orsakaði fall frá skráningu, auk þess sem um megi kenna almennri stöðu á líftæknimarkaði, sem félagið sé mjög háð. Framkvæmdastjórinn neitaði því einnig aðspurður, að MP Verðbréf hefðu selt einhver bréf á þessu tímabili. Nánar aðspurður út í gengi hlutabréfanna og yfirlýsingu á bls. 8 í útboðslýsingu, svaraði framkvæmdastjórinn því svo, að upplýsingar um hærra gengi séu m.a. um að Kaupþing hafi keypt f.h. sinna viðskiptavina bréf á genginu 2,5 og allt upp í 3. Þá séu upplýsingar um viðskiptavini MP Verðbréfa á genginu 1,6-1,8 mjög skömmu fyrir ákvörðun útboðslýsingar. Hann kvaðst ekki hafa staðfestar upplýsingar um lægra gengi en 1,5 áður en útboðslýsing var gefin út.
Samkvæmt framansögðu liggur ekkert fyrir um, að gengi hlutabréfanna hafi verið óeðlilega hátt metið við útboðið, miðað við þær forsendur sem fyrir lágu, og hefur stefndi ekki fært fram nein haldbær rök fyrir þessum fullyrðingum sínum. Hins vegar sýnist vera um óhagstæða markaðsþróun að ræða, fljótlega eftir útboðið, sem leiddi til þess, að bréfin hröpuðu í verði.
8. Ranglega staðið að gerð útboðslýsingar og útboðsferlinu.
Tengsl MP Verðbréfa og MP BIO koma skýrt fram í útboðslýsingu og er ekki fallizt á, að stefndi geti leyst sig undan áskriftarloforði sínu með vísan til þeirra. Þá er ekki fallizt á, að tengslin séu þess eðlis, að útboðið verði ógilt af þeim sökum. Er þessum rökum stefnda því hafnað.
9. Skortur MP BIO hf. á starfsleyfi:
Ekki er fallizt á þau rök stefnda, sem hann færir fram til sýknu samkvæmt þessum lið.
10. Stefndi byggir á því, að fyrirsvarsmaður hans, Ólafur Torfason, sem undirritaði áskriftartilboðið, sé ólöglærður og ókunnugur lögum og reglum á sviði verðbréfaviðskipta. Hann hafi ekki kynnt sér útboðsgögnin rækilega en treyst því, að eðlilega væri staðið að málum.
Stefndi getur ekki borið fyrir sig, að hafa ekki kynnt sér útboðsgögnin nægilega, þótt hann sé ólöglærður. Í áskriftarblaði er m.a. sérstaklega tekið fram, að viðkomandi hafi kynnt sér ítarlega öll gögn, sem útboðinu fylgja, og geri sér fulla grein fyrir áhættuþáttum, sem fram koma í sölulýsingu. Þá skýrði fyrirsvarsmaður stefnda svo frá fyrir dómi, að hann sé með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, hann sé framkvæmdastjóri Kaupgarðs og að auki í stjórn tveggja hótela í Reykjavík, auk þess sem hann stýri tímabundið daglegum rekstri á öðru þeirra, þ.e. Grand Hóteli, og tók sérstaklega fram, að hann væri enginn rati í viðskiptum, þótt hann hefði ekki verið mikið í hlutabréfamarkaði.
Með hliðsjón af starfs- og stjórnunarferli stefnda er ekki fallizt á, að hann geti byggt sýknukröfu sína á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Með vísan til alls framangreinds ber að taka kröfur stefnanda til greina, eins og þær eru fram settar. Eftir atvikum þykir þó rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Kaupgarður hf., greiði stefnanda, MP Verðbréfum hf., kr. 750.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt l. nr. 25/1987 frá 20. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt l. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.