Hæstiréttur íslands

Mál nr. 371/2017

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum (Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri)
gegn
X (Kristján Óskar Ásvaldsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem L var heimiluð rannsókn á efnisinnihaldi tveggja nánar tilgreindra farsíma í eigu X.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og  Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 6. júní 2017, þar sem sóknaraðila var heimiluð rannsókn á efnisinnihaldi tveggja nánar tilgreindra farsíma í eigu varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 6. júní 2017.

I

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur með kröfu, sem dagsett er og móttekin í dag, 6. júní, krafist þess að lögreglustjóranum á Vestfjörðum verði með úrskurði veitt heimild til að rannsaka efnisinnihald tveggja farsíma X, kennitala [...], annars vegar Sony síma (munur nr. [...]) og hins vegar Samsung ( munur nr. [...]).

Af hálfu kærðu er kröfu lögreglustjóra mótmælt.

II

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að kærða X handtekin 30. maí sl. við lögreglustöðina á Ísafirði eftir að lögregla fann við líkamsleit á henni um eitt gramm af hvítu efni, sem kærða segir vera kókaín. Í kjölfarið var framkvæmd húsleit í herbergi sem hún og unnusti hennar A, hafði afnot af að [...] á [...] og var þar lagt hald á nokkurt magn sterkra fíkniefna. Við frekari leit í húsnæðinu að [...] fannst um 20 grömm af hvítu efni, sem kærða segir vera amfetamín og eign hennar, þá fannst í ruslatunnu fyrir utan húsnæðið um 70 grömm af maríhúana og um 80 grömm af hvítu efni, sem lögregla ætlar að sé amfetamín. Í skýrslutöku hjá lögreglu hefur kærða viðurkennt að eiga hluta af hinum haldlögðu efnum. Um miðnætti daginn eftir var kærða handtekin í bifreiðinni [...] við [...] með um 70 grömm af maríhúana, sem hún framvísaði og viðurkenndi að eiga. B, húsráðandi að [...], kannaðist, í skýrslutöku hjá lögreglu, ekki við að eiga umrædd efni, heldur taldi þau vera á vegum A og kærðu. Í ljósi ofangreinds hefur lögregla rökstuddan grun um að kærða hafi brotið gegn fíkniefnalöggjöfinni og í ljósi þess magns fíkniefna og hvernig búið var um þau er það jafnframt grunur lögreglu að kærða hafi haft efnin til söludreifingar.

Í þágu rannsóknar málsins lagði lögregla hald á tvo farsíma kærðu og ætla má að þeir kunni að innihalda upplýsingar sem hafa sönnunargildi í málinu. Það er því afar brýnt að lögreglu verði fengin heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við kröfu í því skyni að afla sönnunargagna um hið ætlaða brot.

Kærða hefur í skýrslutökum hjá lögreglu neitað að veita lögreglu aðgang að innihaldi símanna.

Um heimild til rannsóknaraðgerðarinnar er vísað til framangreinds, framlagðra gagna og 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. gr. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

III

                Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið, og að gögnum málsins virtum, þykir vera fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst sek um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni sem sætt getur ákæru, en brot gegn þeim lögum geta varðað fangelsi. Við rannsókn raftækja kunna að finnast gögn sem hafa sönnunargildi um atvik. Þykja því rannsóknarhagsmunir vera hér í húfi. Með lögjöfnun frá 1. mgr. 70. gr. laga nr. 88/2008 og með vísan til 1. mgr. 84. gr. sömu laga og þess sem hér að framan hefur verið rakið er fallist á kröfu lögreglustjóra.

                Úrskurð þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Lögreglunni á Vestfjörðum er heimilað að rannsaka efnisinnihald tveggja farsíma kærðu, X, kennitala [...], annars vegar Sony síma (munur nr. [...]) og hins vegar Samsung ( munur nr. [...]).