Hæstiréttur íslands

Mál nr. 290/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 12. maí 2011.

Nr. 290/2011.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. maí 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2011.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að X , kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. maí 2011 kl. 16.00.

Kærða krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjórans verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að honum hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær, 9. maí 2011, um að kærða hafi verið stöðvuð á tollhliði vegna gruns um að hafa fíkniefni innvortis. Við sneiðmyndatöku hafi komið í ljós að kærða hafi haft aðskotahluti innvortis, nánar tiltekið tvær pakkningar í endaþarmi.

Samkvæmt niðurstöðum tæknideildar lögreglustjórans á Suðurnesjum virðist sem að í pakkningunum hafi verið 92,20 g af meintu kókaíni. Vísist nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Verið sé að rannsaka aðdraganda að ferð kærðu til landsins og tengsl kærðu við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Telji lögreglan að þau fíkniefni sem kærða hafi komið með til landsins bendi til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi hennar kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærða verði beitt þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hana, af hendi samverkamanna hennar, gangi hún laus, á meðan rannsókn málsins sé á frumstigi hjá lögreglu.

Þess sé krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. maí 2011 kl. 16:00.

Með vísan til framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglu að kærða sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni, sem varðað geti fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og með vísan til b. liðar 1. mgr. 99. gr. laganna fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða sæti einangrun á meðan hún sætir gæsluvarðhaldi.

Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. maí 2011 kl. 16.00.

Kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.