Hæstiréttur íslands
Mál nr. 559/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Þriðjudaginn 26. ágúst 2014. |
|
Nr. 559/2014. |
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
L krafðist þess fyrir
héraðsdómi að X yrði gert að sæta farbanni vegna rannsóknar á ætlaðri
refsiverðri háttsemi hans hér á landi. Vísaði L í því sambandi til þess að X
væri með lögheimili erlendis og að hætta væri á að hann færi af landi brott. Í
úrskurði héraðsdóms var fallist á að ætla mætti að X reyndi að komast úr landi
eða leynast og að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála væri þar með fullnægt. Á hinn bóginn taldi héraðsdómur ekki
þörf á að X sætti farbanni, meðal annars með vísan til þess að ekki lægi annað
fyrir en að hann kæmi aftur til landsins þótt hann færi utan vegna vinnu
sinnar. Var X gert að setja tryggingu fyrir því að hann mætti til skýrslugjafar
hjá lögreglu innan þess tíma sem krafan um farbann gilti og honum bönnuð
brottför af landinu þar til slík trygging yrði sett. Í dómi Hæstaréttar, sem
felldi hinn kærða úrskurð úr gildi, kom fram að fyrir lægi rökstuddur grunur um
að X hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi sem varðað gæti
fangelsisrefsingu, auk þess sem hann væri á reynslulausn vegna dóms sem hann
hefði hlotið árið 2010. Því væri fyrir hendi hætta á að X reyndi að komast úr
landi til að koma sér undan rannsókn eða fullnustu refsingar yrði honum ekki
meinuð för af landi brott. Var honum því gert að sæta farbanni.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. ágúst 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni þar til hann setti tryggingu að fjárhæð 4.000.000 krónur „fyrir því að hann mæti hjá lögreglu samkvæmt boðun vegna rannsóknar“ á ætlaðri refsiverðri háttsemi hans. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að fyrrgreind trygging verði lækkuð.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta farbanni til þriðjudagsins 16. september 2014 klukkan 16. Með vísan til 4. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 4. mgr. 195. gr. laganna, verður krafa sóknaraðila tekin til úrlausnar fyrir Hæstarétti þótt hann hafi ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti, sbr. dóm Hæstaréttar 30. apríl 2010 í máli nr. 259/2010.
Varnaraðili er íslenskur ríkisborgari en með lögheimili í [...] og starfar þar. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði leikur rökstuddur grunur á því að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem lýst er refsiverð í 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðað getur allt að tveggja ára fangelsi. Ennfremur að varnaraðili hafi með dómi Hæstaréttar [...] í máli nr. [...] verið dæmdur í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn 202. gr. almennra hegningarlaga og hafi honum 7. desember 2012 verið veitt reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar samkvæmt dóminum.
Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laganna fyrir hendi megi í stað þess að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald banna honum brottför af landinu. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 95. gr. verður sakborningur úrskurðaður í gæsluvarðhald ef fram er kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Með skírskotun til þess sem að framan greinir er fallist á með sóknaraðila að hætta sé á að varnaraðili muni reyna að komast úr landi til að koma sér undan rannsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki meinuð för af landi brott. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta farbanni á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðila,
X, er bönnuð brottför af landinu allt til þriðjudagsins 16. september 2014
klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. ágúst 2014.
Með
erindi sem barst dómnum í dag hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafist þess
að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að varnaraðila, X, kt.
[...], með lögheimili í [...], verði gert að sæta farbanni allt til
þriðjudagsins 16. september 2014, kl. 16:00.
Varnaraðili
hefur mótmælt kröfu sóknaraðila. Krefst varnaraðili þess aðallega að kröfunni
verði hafnað, en til vara að hann verði látinn sæta vægara úrræði með því að
honum verði gert að setja tryggingu skv. 101. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála.
I
Í
kröfu lögreglustjóra kemur fram að 1. ágúst sl. hafi tollgæslan á
Keflavíkurflugvelli haft afskipti af varnaraðila við komu hans til landsins.
Hafi tollgæslan haft grun um að varnaraðili hefði í vörslum sínum barnaklám.
Við leit í farangri varnaraðila hafi fundist vísbendingar um slíkt og hafi
lögregla því verið kölluð til. Lögregla hafi í kjölfarið haldlagt tvær Samsung-tölvur og sex minnislykla.
Lögreglustjóri
segir rannsókn á hinum haldlögðu munum í fullum gangi. Við skoðun á annarri Samsung-tölvunni hafi komið í ljós um 36.000 ljósmyndir sem
sýni unga drengi nakta og á kynferðislegan hátt. Einnig hafi rannsókn leitt í
ljós að varnaraðili hafi vistað á tölvum sínum og minniskubbum kvikmyndaskrár,
sem síðan hafi verið eytt af tölvunum. Það sé hald lögreglu að
kvikmyndaskrárnar hafi innihaldið kynferðisbrot gegn börnum. Lúti rannsókn
lögreglu meðal annars að því að endurheimta kvikmyndaskrárnar. Rannsókn á
tölvugögnum varnaraðila sé ekki lokið en vænta megi endanlegrar niðurstöðu á
næstu vikum.
Af
hálfu lögreglustjóra er jafnframt til þess vísað að varnaraðili hafi [...]
verið dæmdur í Hæstarétti Íslands í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir
kynferðisbrot gegn ungum dreng. Brot varnaraðila hafi varðað við 1. og 3. mgr.
202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Honum hafi verið veitt
reynslulausn 7. desember 2012 í tvö ár á eftirstöðum refsingar samkvæmt dómnum,
samtals 420 dögum. Varnaraðili sé samkvæmt þessu á reynslulausn fyrir
kynferðisbrot gegn barni.
Lögreglustjóri
áréttar að rannsókn málsins sé á frumstigi. Varnaraðili hafi fyrst verið yfirheyrður
vegna málsins fyrr í dag. Samkvæmt áðursögðu eigi eftir að ljúka rannsókn á
hinum haldlögðu munum en á þeim sé mikið magn af myndefni. Lögreglustjóri segir
brot þau sem varnaraðili sé grunaður um mjög alvarleg. Rökstuddur grunur sé um
að hann hafi brotið gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nánar
tiltekið 210. gr. a. Meint brot varnaraðila varði allt að tveggja ára fangelsi.
Af
hálfu lögreglustjóra er einnig til þess vísað að varnaraðili sé íslenskur
ríkisborgari, en búsettur og með lögheimili í [...] þar sem hann starfi sem [...].
Varnaraðili hafi því takmörkuð tengsl við landið að mati lögreglu. Í ljósi þess
og alvarleika þeirra brota sem varnaraðila séu gefin að sök, telji
lögreglustjóri hættu á að varnaraðili muni reyna að komast úr landi eða
leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu
refsingar, verði honum ekki gert að sæta farbanni meðan á rannsókn málsins
standi. Af þessum sökum telji lögreglustjóri að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95.
gr., sbr. 100. gr., laga um meðferð sakamála um farbann sé fullnægt í málinu.
Enn
fremur er af hálfu lögreglustjóra til þess vísað að rannsókn málsins sé á
frumstigi. Að því gættu sé mikilvægt að fallist verði á hina framlögðu kröfu
þannig að viðvera varnaraðila hér á landi sé tryggð.
Með
vísan til alls framangreinds, b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1., 2. og 3. mgr.
100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og 210. gr. a. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, telji lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess
að varnaraðila verði gert að sæta farbanni á meðan rannsókn málsins stendur,
allt til þriðjudagsins 16. september 2014, kl. 16:00.
II
Samkvæmt framlögðum rannsóknargögnum er
varnaraðili undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.
Fyrir liggur að hann á ekki skráð lögheimili hér á landi. Þá upplýsti
varnaraðili við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann starfi ekki hér á landi heldur
í [...]. Enn fremur hefur varnaraðili greint lögreglu frá því að hann eigi
pantað flug til [...] í fyrramálið. Að þessu virtu þykir mega fallast á það með
lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast
ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því
fullnægt í málinu.
Við
úrlausn málsins þykir verða að horfa til þess að aðilar nákomnir varnaraðila
eru búsettir hér á landi, m.a. börn hans. Ekki liggur annað fyrir en ástæða
utanfarar varnaraðila nú sé atvinna hans ytra samkvæmt áðursögðu, en
varnaraðili mun eiga bókað flug aftur til landsins um miðjan næsta mánuð að
vinnutörn lokinni. Einnig er staðreynd að krafa lögreglustjóra er ekki gerð með
vísan til rannsóknarhagsmuna. Þá verður ekki framhjá því litið að umrædda muni
haldlagði lögregla 1. ágúst sl., eða fyrir nærri þremur vikum síðan, og hefur
varnaraðili dvalið á landinu síðan.
Samkvæmt
101. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur dómari ákveðið, séu
skilyrði gæsluvarðhalds skv. b-lið 1. mgr. 95. gr. laganna fyrir hendi, að
sakborningur haldi frelsi sínu gegn því að hann setji tryggingu. Þessi heimild
nær einnig til tilvika þar sem til greina kemur að sakborningur sæti farbanni
samkvæmt 100. gr. sömu laga.
Samkvæmt
öllu framangreindu verður ekki fallist á að varnaraðili þurfi að sæta farbanni.
Eins og málið liggur fyrir verður honum, sbr. 101. gr. laga nr. 88/2008, þess í
stað gert að setja tryggingu fyrir því að hann mæti til skýrslugjafar hjá
lögreglu innan þess tíma sem lögreglustjóri hefur gert kröfu um að farbann
gildi. Varnaraðila verður þó bönnuð brottför af landinu allt þar til slík
trygging, sem í úrskurðarorði greinir, hefur verið sett.
Úrskurð þennan kveður upp
Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð.
Varnaraðili,
X, kt. [...], skal setja tryggingu að fjárhæð
4.000.000 króna fyrir því að hann mæti hjá lögreglu samkvæmt boðun vegna
rannsóknar málsins fram til þriðjudagsins 16. september 2014, kl. 16:00. Þangað
til tryggingin er sett er honum bönnuð brottför af landinu.