Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2004


Lykilorð

  • Fasteignaskattur
  • Stjórnarskrá
  • Jafnræði


Fimmtudaginn 23

 

 

Fimmtudaginn 23. september 2004.

Nr. 112/2004.

Jóhannes Kristjánsson

(Helgi Jóhannesson  hrl.

Lárentsínus Kristjánsson hdl.)

gegn

Mýrdalshreppi

(Karl Axelsson hrl.

Steinar Þór Guðgeirsson hdl.)

 

Fasteignaskattur. Stjórnarskrá. Jafnræði.

Málið varðaði álagningarstofn fasteignaskatts og hélt J því fram, að skattlagningarheimild 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, eins og ákvæðið var á þeim tíma sem málið tók til, bryti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í dóminum segir að fasteignaskattur hafi upphaflega verið lagður á eigendur fasteigna til þess að standa straum af kostnaði sveitarfélags sem af fasteignum leiðir. Kostnaður sveitarfélags af eign lúti öðrum lögmálum en markaðsverð fasteigna og því þurfi kostnaður sveitarfélags af fasteign utan höfuðborgarsvæðisins ekki að vera minni en höfuðborgarinnar af sambærilegri fasteign. J hafi greitt fasteignaskatt af eigum sínum í samræmi við 3. gr. laga nr. 4/1995, svo sem aðrir fasteignareigendur í sama sveitarfélagi. Álagningarstofn fasteignaskatts hafi farið að lögum, sbr. 40. gr. stjórnarskrár, og var sá sami fyrir alla fasteignareigendur óháð legu eignar. Var því ekki fallist á að umdeild skattlagningarheimild hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár og var M sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. mars 2004. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 1.015.882 krónur með vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995 af 95.625 krónum frá 31. desember 1996 til 31. desember 1997, af 239.676 krónum frá þeim degi til 31. desember 1998, af 595.942 krónum frá þeim degi til 31. desember 1999 og af 1.015.882 krónum frá þeim degi til 26. júní 2000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Mál þetta varðar álagningarstofn fasteignaskatts og greinir aðila á um, hvort skattlagningarheimild 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, eins og ákvæðið var á þeim tíma sem mál þetta tekur til, sé í samræmi við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Við ákvörðun gjaldstofns til álagningar fasteignaskatts er löggjafinn ekki bundinn af því að gjaldstofninn svari til markaðsverðs fasteigna, enda sé við þá ákvörðun gætt lögmætra sjónarmiða, þar á meðal um jafnræði og meðalhóf.

Fasteignaskattur rennur til sveitarfélaga og var samkvæmt lögskýringargögnum upphaflega lagður á eigendur fasteigna til þess að standa straum af kostnaði sveitarfélags sem af fasteignum leiðir. Stofn til álagningar skattsins á hús og mannvirki var á þeim tíma, sem hér um ræðir, að undanskildum sumarhúsum og útihúsum í sveitum, afskrifað endurstofnverð þeirra margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Ákvæðinu hefur nú verið breytt með lögum nr. 144/2000.

Áfrýjandi heldur því fram að umdeildur álagningarstofn eigi rót sína að rekja til laga nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga. Með þeim lögum hafi sveitarstjórnum utan höfðuborgarsvæðisins verið veitt heimild til að reikna fasteignaskatt af ímynduðu verðmæti fasteigna. Á höfuðborgarsvæðinu hafi skattstofninn hins vegar átt að vera fasteignamat eigna. Ákvæði 3. gr. laga nr. 4/1995 hafi verið samhljóða 3. gr. laga nr. 91/1989 að þessu leyti. Fyrir setningu síðarnefndu laganna hafi fasteignaskattur allra eigna verið reiknaður af fasteignamati óháð því hvar fasteignin var niðurkomin.

Alkunnugt er að verð fasteigna fer að nokkru eftir legu þeirra og það hefur áhrif á fasteignamatið með nokkrum hætti. Kostnaður sveitarfélags af eign lýtur öðrum lögmálum. Utan höfuðborgarsvæðisins þarf kostnaður sveitarfélags af fasteign ekki að vera minni en höfuðborgarinnar af sambærilegri fasteign. Það geta því legið almennar og málefnalegar ástæður til þess að löggjöf dragi úr áhrifum legu fasteignar á fasteignaskatt.

Áfrýjandi greiddi fasteignaskatt af eigum sínum að Höfðabrekku í Mýrdalshreppi í samræmi við 3. gr. laga nr. 4/1995, svo sem aðrir fasteignareigendur í  sveitarfélaginu. Hann stóð í sömu sporum og þeir. Álagningarstofn fasteignaskatts fór að lögum, sbr. 40. gr. stjórnarskrár, og var sá sami fyrir alla fasteignareigendur óháð legu eignar. Verður því ekki fallist á að skattlagningarheimild 3. gr. laga nr. 4/1995 hafi brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ber af þessum sökum að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um annað en málskostnað.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsóms Suðurlands 18. desember 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. nóvember 2003, er höfðað 10. desember 2002.

Stefnandi er Jóhannes Kristjánsson, Höfðabrekku, Mýrdalshreppi.

Stefndi er Mýrdalshreppur, Mýrarbraut 13, Vík í Mýrdal.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda 1.015.882 krónur með vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995, af 95.625 krónum frá 31. desember 1996, en af 239.676 krónum frá þeim degi til 31. desember 1997, en af  595.942 krónum frá þeim degi til 31. desember 1998, en af 1.015.882 krónum frá þeim degi til 26. júní 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. ákvæði III. kafla eldri vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól dómkröfunnar á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn  31. desember 2000, síðan árlega þann dag. Auk þess krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndi krefst sýknu  af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi féll frá kröfu um frávísun en ekki þeim sem hann taldi að leitt gætu til frávísunar málsins ex officio.

 

Málavextir

                Stefnandi stundaði um árabil hefðbundinn búskap á jörð sinni Höfðabrekku í Mýrdalshreppi og greiddi fasteignaskatt samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 af fasteignum sínum. Samkvæmt II. kafla laganna eins og þau voru á þeim tíma sem mál þetta tekur til, var álagningarstofn fasteignaskatts hús og mannvirki að undanteknum sumarhúsum og útihúsum í sveitum, afskrifað endurstofnverð fasteignanna sjálfra, margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Álagningarstofn húsa og mannvirkja var því sá sami um land allt. Stefnandi greiddi fasteignaskatt samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, en í því ákvæði var kveðið á um að fasteignaskattur samkvæmt II. kafla laganna skyldi vera allt að ½ % af álagningarstofni íbúða og íbúðarhúsa ásamt lóðarréttindum, erfðafestulöndum og jarðeignum sem ekki væru nytjaðar til annars en landbúnaðar, útihúsa og mannvirkja á bújörðum sem tengd væru landbúnaði og sumarbústöðum ásamt lóðarleiguréttindum. Eftir að stefnandi sneri sér að ferðaþjónustu og sagði skilið við hefðbundinn búrekstur árið 1998 jukust skattgreiðslur hans verulega þar sem fasteignirnar voru ekki lengur nýttar til hefðbundins búrekstrar, og innheimti stefndi fasteignaskatt af stefnanda samkvæmt ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna um tekjustofna sveitarfélaga. Það ákvæði kvað á um að skattar á aðrar fasteignir en þær sem að ofan greinir skyldi vera 1,32% af áðurnefndum álagningarstofni.

                Stefnandi taldi álagningu þessa ólögmæta þar sem miðað hefði verið við of háan gjaldstofn við útreikning fasteignaskatts og hefði því stefnandi ofgreitt stefnda fasteignaskatt frá árinu 1996 til 1999 að fjárhæð 1.015.882 krónur. Stefnandi sendi stefnda bréf þar sem krafist var endurgreiðslu þess fjár. Stefndi hafnaði endurgreiðslu og höfðaði þá stefnandi mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Með úrskurði dómsins 27. apríl 2001 var málinu vísað frá dómi að kröfu stefnda, þar sem kæruleiðir samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga með síðari breytingum hefðu ekki verið tæmdar. Stefnandi lagði ágreining aðila fyrir Fasteignamat ríkisins sem vísaði kröfum stefnanda frá með úrskurði 5. október 2001. Þann úrskurð kærði stefnandi til Yfirfasteignamatsnefndar sem úrskurðaði 18. september 2002 um að fasteignir stefnanda væru gjaldskyldar samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 Í stefnu er þess krafist að stefnda verði auk ofangreinds gert að endurgreiða stefnda ofgreiddan og ólögmætan fasteignaskatt  að fjárhæð 674.965 krónur, þar sem fasteignir þær sem hann nýtir fyrir ferðaþjónustu falli í hærri gjaldflokk en annað atvinnuhúsnæði. Frá þessari kröfu féll stefnandi fyrir aðalmeðferð málsins.

Snýst ágreiningur málsins því einungis um hvort sú framkvæmd skattálagningar sem að ofan er lýst og fram kemur í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995,  eins og þau voru á þeim tíma er mál þetta tekur til, standist jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi telur skattlagningarheimild þá sem gjaldtaka stefnda byggði á, þ.e. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafa brotið í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Því beri stefnda að endurgreiða stefnanda hinn ofgreidda fasteignaskatt ásamt vöxtum með vísan til 1. og 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

                Stefnandi kveður grundvöll hinnar umdeildu skattheimtu verða rakinn til gildistöku laga um tekjustofna sveitarfélaga árið 1989, en þá hafi sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins verið veitt heimild til þess að reikna fasteignaskatta af ímynduðu verðmæti fasteigna. Utan höfuðborgarsvæðisins hafi skattstofninn verið fasteignamat viðkomandi eignar margfaldaður upp til þess sem vera myndi, væri eignin staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt eldri lögum hafi því verðmætamat fasteignar í Reykjavík verið skattsofn en utan Reykjavíkur hafi skatturinn verið reiknaður af margföldu raunverulegu verðmæti.

                Stefnandi telur ofangreinda framkvæmd álagningar ekki standast jafnræðisreglu 65. gr.stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, þ.e. að miða skattheimtu af fasteignum í einu sveitarfélagi við verðmæti fasteignar samkvæmt fasteignamati, en í öðru við margfalt raunverulegt verðmæti fasteignar. Jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sé ætlað að tryggja að allir þegnar landsins standi jafnir frammi fyrir lögunum. Telur stefnandi mismunun felast í því að álagningarstofn sá sem skattlagningarheimild 3. gr. laganna um tekjustofna sveitarfélaganna kveði á um, geri ráð fyrir að viðhaft sé mismunandi mat á verðmæti fasteigna, og þar með fjárhæð fasteignaskattsins, eftir staðsetningu þeirra á landinu, þannig að fasteignaeigendur í Reykjavík greiði fasteignaskatt til samræmis við raunverulegt verðmæti fasteigna sinna, en fasteignaeigendur utan Reykjavíkur greiði fasteignaskatt af margföldu raunverulegu verðmæti eigna sinna.

                Á grundvelli hinnar ólögmætu skattlagningarheimildar 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafi stefnandi ofgreitt 1.105.882 krónur.

                Stefnda beri samkvæmt ofangreindu að endurgreiða stefnanda hinn ólögmæta og ofgreidda fasteignaskatt samkvæmt 1. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi kveður að í lögum um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna nr. 69/1937 hafi verið kveðið á um heimild  til að leggja árlega á fasteignaskatt að ákveðnu hámarki, breytilegan eftir þeim mannvirkjum og fasteignarréttindum sem um hafi verið að ræða, sbr. 1. gr. laganna. Í 2. gr. laganna hafi verið kveðið á um að skatturinn skyldi lagður á eftir fasteignamati en samkvæmt 3. gr. hafi verið heimilað að hafa skattinn mismunandi á hinum ýmsu tegundum lóða, eftir því til hvers eignirnar væru notaðar og af húseignum mismunandi eftir verðmæti þeirra, miðað við fasteignamatsverð og íbúðafjölda. Þá hafi í 7. gr. laganna verið kveðið á um að ef lagður væri á skattur sem næmi helmingi eða meira af því hámarki sem mælt væri fyrir um í 1. gr., skyldi sveitarfélagið annast sótthreinsun, sorphreinsun og salernishreinsun, en um vatnsskatt, holræsagjald, gangstéttargjald og brunatryggingar skyldi fara eftir öðrum gildandi ákvæðum. Í athugasemdum með 7. gr. frumvarps þess sem síðar hafi orðið að ofangreindum lögum nr 69/1937, sagði að í þeim tilvikum sem einstök bæjarfélög hefðu fengið heimild til þess að leggja á sérstakan fasteignaskatt hefði það oftast verið skilyrði að bæjarfélagið tæki í staðinn að sér að annast ýmis verk, svo sem hreinsun reykháfa, sorphreinsun, salernishreinsun og fleira. Væri sú leið því farin að fyrirskipa að slík störf tækju sveitarfélögin að sér án endurgjalds frá greiðendum skattsins ef skatturinn næði helmingi hins leyfða hámarks.

                Með lögum nr. 29/1952 hafi sveitarstjórnum verið heimilað að innheimta með álagi fasteignaskatta til sveitarsjóða. Sveitarstjórnum hafi verið heimilt að fengnu samþykki ráðherra að innheimta með allt að 400% álagi, alla skatta og önnur gjöld sem miðuð væru við gildandi fasteignamat og aukamat og rynnu í sveitarsjóð að vatnsskatti undanskildum.  Í greinargerð með frumvarpi til laganna hafi komið fram að kostnaður við allt það sem skattinum hafi verið ætlað að standa undir, hefði tífaldast síðasta áratug.

                Með lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 69/1962 hafi eftir sem áður verið kveðið á um að fasteignaskattur skyldi miðast við fasteignamatsverð, breytilegt þó eftir gerð eigna, en skattprósentan hafi þó verið fastákveðin.

                Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 8/1972 hafi skatturinn verið tvískiptur, sbr. 3. gr. laganna, ½ % af fasteignamati íbúða og íbúðarhúsa ásamt lóðarréttindum, erfðafestulandi og jarðeignum, sem ekki væru nýttar til annars en landbúnaðar, útihúsa og mannvirkja á bújörðum, sem tengd væru landbúnaði. Hins vegar skyldi skattur vera 1% af öllum öðrum fasteignum. Þá var gert ráð fyrir heimild til handa sveitarstjórn til þess að innheimta álag á skattinn allt að 50%.

                Breyting hafi svo orðið á með lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 91/1989, en þau lög hafi verið endurútgefin ári síðar sem lög nr. 90/1990. Í 3. gr. laganna hafi verið kveðið á um sams konar tvískiptingu og í eldri lögum, en sú breyting þó gerð að skattlagning hafi verið heimiluð allt að ½ % í lægri flokki, en allt að 1% í hærri flokki. Meginbreyting hafi þó varðað ákvörðun álagningarstofns, en samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna skyldi stofn til álagningar skattsins á hús og mannvirki vera afskrifað endurstofnverð þeirra, margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík, samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Stofn til álagningar fasteignaskatts á aðrar fasteignir skyldi vera fasteignamat þeirra. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að ofangreindum lögum kemur fram að fasteignamat sé mismunandi milli sveitarfélaga og að gengið sé út frá því að fasteignaskattur sé gjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélags, en ekki eignarskattur.  Þá segir í athugasemdum að í frumvarpinu sé að finna nýmæli um jöfnun aðstöðu sveitarfélaga vegna mismunandi fasteignamats þannig að fasteignir verði svipaður skattstofn í hvaða sveitarfélagi sem þær eru staðsettar. Einnig að með þeirri aðferð við álagningu fasteignaskatts sem lögð sé til með frumvarpinu, vinnist einkum tvennt: ,,Öll sveitarfélög fá svipaða möguleika til skattlagningar sams konar fasteigna og álagningarprósentur sveitarfélaganna verður hægt að bera saman”.

                Lögum um tekjustofna sveitarfélaga hafi verið breytt með lögum nr. 144/2000 og hafi þýðingarmestu breytingarnar verið þær að reiknireglan samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna hafi verið felld brott og sé stofn til álagningar fasteignaskatts nú undantekningarlaust fasteignamat viðkomandi eignar.

                Stefndi kveður að innheimta fasteignaskatts fari fram samhliða annarri sambærilegri gjaldtöku sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 2. gr.laga nr. 4/1995, en önnur sérstök fasteignagjöld sem stefndi innheimti séu sorpgjald, lóðarleiga, vatnsgjald og holræsagjald. Hafi álagningarstofn vatnsgjalds á þessum tíma raunar verið sá sami og fasteignaskatts, samkvæmt 7. gr. laga nr. 81/1991, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995. Stefndi innheimti ekki önnur sérstök þjónustugjöld svo sem gatnagerðargjöld o.fl., svo sem tíðkist á hinn bóginn víða annars staðar, en ráðstafi til slíkra framkvæmda og annarrar tekjum sem innheimtar séu sem fasteignaskattur.

                Stefndi kveður að efni séu til vísa málinu frá, en hefur fallið frá kröfu sinni um það. Hann heldur þó fast við málsástæður þær sem hann reisti frávísunarkröfu sína á. Hann telur að verði fallist á að skattlagningarheimild samkvæmt 3. gr. laga nr. 4/1995 svo sem hún hafi verið fyrir breytingu með l. nr. 144/2000 sé ekki stjórnskipulega gild, verði krafa af því tilefni ekki byggð á ákvæðum laga nr. 29/1995 sem fjalli um endurgreiðslu fjár, skatta og gjalda. Meint kröfugerð stefnanda verði ekki undir neinum kringumstæðum studd tilvísun til þeirra laga. Enga aðra útlistun sé að finna á grundvelli kröfugerðar stefnanda sem þess utan sé þá ranglega beint að stefnda, sem hafi borið að fara að lögum. Þá kveður stefndi kröfugerð og málatilbúnað óglöggan og vanreifaðan í fleiri atriðum.

                Fallist dómurinn ekki á að vísa málinu frá ex officio byggir stefndi á því að ljóst megi vera af þeim sögulegu forsendum sem raktar hafi verið, að fasteignaskattur hafi frá fyrstu tíð verið hugsaður sem endurgjald/þjónustugjald í víðtækri merkingu, tilkominn vegna þess margvíslega kostnaðar sem sveitarfélagið stofni til vegna þjónustu við fasteignaeigendur sem og íbúa sveitarfélagsins almennt. Sá kostnaður haldist ekki í hendur við markaðsvirði fasteigna frá einum stað til annars. Þvert á móti megi halda því fram að kostnaður sveitarfélags af því að þjónusta fasteignaeigendur sé til muna hærri í hinum smærri og fámennari byggðarlögum en til dæmis í Reykjavík þótt fasteignaverð sé mun hærra á höfuðborgarsvæðinu. Þótt löggjafinn hafi snemma tekið þá stefnu að heimila sveitarfélögunum að innheimta þennan kostnað í formi fasteignaskatts, sem í grunninn hafi tekið mið af fasteignamati viðkomandi eignar, sé það allt að einu svo að á hverjum tíma hafi löggjafinn heimilað einstökum sveitarfélögum að bregðast við sérstökum aðstæðum af þessum toga, til dæmis með því að framselja sveitarstjórnum heimild til sérstakrar álagningar, allt að 400% ofan á skattinn, eins og hann hafi þá verið reiknaður samkvæmt fasteignamati viðkomandi eignar. Þennan vanda hafi verið reynt að nálgast með nokkuð nýjum hætti þegar regla sú sem 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1989 hafi verið lögtekin. Markmiðið hafi verið að greiddur yrði sambærilegur fasteignaskattur af sambærilegum eignum, óháð því hvar á landinu þær væru. Af hinu sögulega samhengi megi enn fremur ráða að framan af hafi sveitarfélögunum verið settur stóllinn fyrir dyrnar varðandi innheimtu sérstakra gjalda vegna einstakra þjónustuþátta umfram fasteignaskattinn. Það hafi að nokkru breyst og nú innheimti sveitarfélögin auk fasteignaskatts einstök gjöld vegna nokkurra afmarkaðra þjónustuþátta en í heild kallist þessi álagning fasteignagjöld sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995. Tilhögun þessarar skattlagningar sé þannig í grundvallaratriðum frábrugðin álagningu og tilhögun eignaskatts, þar sem menn njóti til dæmis skattfríðinda að ákveðnum eignamörkum, öfugt við það sem gildi um fasteignaskattinn. Jafnframt verði að hafa í huga aðgreiningu í skatta og opinber gjöld í víðtækari merkingu. Með sköttum sé alla jafna átt við skatta til ríkissjóðs, sérstaklega þá sem ekki sé ætlað að vera endurgjald fyrir þjónustu. Opinber gjöld í víðtækari merkingu taki hins vegar til þeirra gjalda sem sveitarfélögin innheimti af borgurum sínum eða geri þeim að greiða í einni eða annarri mynd, svo og gjöld til ríkissjóðs, sveitarfélaga og opinberra stofnana sem endurgjald eða þjónusta sé látin í té fyrir.

                Stefndi byggir á því að fasteignagjöld sveitarfélaga, þar með talinn fasteignaskattur, falli utan skattahugtaksins í hinni hefðbundnu þrengri merkingu.

                Með vísan til framangreinds er því sérstaklega mótmælt að hin umdeilda tilhögun til ákvörðunar skattstofns brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár. Markmiðið sé að ná eðlilegu jafnræði í innheimtu tekna vegna kostnaðar sveitarfélaganna af þjónustu við fasteignir, fasteignaeigendur og aðra íbúa sveitarfélagsins, án tillits til markaðsverðs eignanna, sem segi ekkert til um þann kostnað sem sveitarfélagið hafi rekstri þeirra. Stefndi bendir á að þótt markaðsvirði fasteigna ráðist að nokkru af landfræðilegri staðsetningu þeirra, gildi ekki það sama um til að mynda byggingarkostnað, viðhaldskostnað, orkukaup og fleira, sem falli til án tillits til markaðsverðs og staðsetningar. Ekki sé því um brot á neinu jafnræði að ræða með fyrrnefndri tilhögun 2. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, enda fái þeir fasteignaeigendur sem eins er ástatt um að lögum sömu meðferð hvað þetta varði.

                Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið og fasteignaskattur metinn sem skattur í þrengsta skilningi, byggir stefndi á því að umdeild skattlagning sé byggð á málefnalegum grundvelli og brjóti ekki í bága við jafnræðissjónarmið. Ljóst sé að reglan hafi tekið með sambærilegum hætti til allra fasteignaeigenda í þeim sveitarfélögum þar sem markaðsvirði fasteigna hafi verið lægra en fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu. Þá liggi fyrir að á alla fasteignaeigendur í Mýrdalshreppi hafi hin umþrættu gjöld verið lögð eftir sama mælikvarða. Skattlagning þessi rúmist innan þeirra marka sem 65. gr. stjórnarskrár setji. Enn fremur sé því svo háttað að löng hefð sé fyrir því að við skattlagningu sé heimilað að nokkru málefnaleg mismunun.

                Verði fallist á kröfugerð stefnanda beri þó að lækka dómkröfur hans, þar sem kröfur vegna áranna 1996, 1997 og 1998 séu fyrndar, sbr. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

 

Niðurstaða

Þótt fallast megi á með stefnda að málsgrundvöllur stefnanda sé ekki eins skýr og æskilegt væri, eru ekki nægilegar ástæður til að vísa því sjálfkrafa frá dómi.

                Stefnandi hefur í málinu beint kröfu sinni um endurgreiðslu ofgreidds fjár að stefnda, Mýrdalshreppi. Þar sem slíkum kröfum ber að beina að þeim sem hefur móttekið  þá fjármuni sem krafist er endurgreiðslu á, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1995, er kröfum réttilega beint að stefnda.

Mál þetta snýst um álagningarstofn fasteignaskatts og hvort sú skattlagningarheimild, sem kveðið var á um í 3. gr. laga nr. 4/1995 eins og ákvæðið var á þeim tíma sem mál þetta tekur til, standist jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Af frumvarpi því er varð að lögum nr. 69/1937 um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna má ráða að fasteignaskattur hafi verið innheimtur til að standa straum af veittri þjónustu. Þannig verður ráðið af lögskýringargögnum allt frá setningu ofangreindra laga að fasteignaskatti hefur verið ætlað að standa straum af  kostnaði sem beinlínis mátti rekja til fasteignanna, svo sem útgjöldum vegna hreinsunar reykháfa áður fyrr og sorphreinsunar. Fasteignaskattur var því lagður á eigendur fasteigna sem gjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélags, eins og kemur fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt framangreindu lýtur fasteignaskattur fremur lögmálum gjalds sem veitt er fyrir tiltekna opinbera þjónustu en lögmálum skatta. Sú þjónusta er sveitarfélagi utan höfuðborgarsvæðisins jafn kostnaðarsöm og innan þess. Getur markaðsverð fasteigna því ekki verið hentugur mælikvarði á útgjöld sveitarfélaga vegna fasteignanna. Það er því mat dómsins að fasteignaskattur sá sem um er deilt í málinu, hafi verið lagður á í því lögmæta augnamiði að standa straum af útgjöldum sveitarfélaga vegna fasteigna, óháð því hvar á landinu þær væru, og að til grundvallar álagningu hans hafi því legið almennar, málefnalegar ástæður.

 Óumdeilt er að stefnandi greiddi fasteignaskatt af fasteignum sínum að Höfðabrekku í samræmi við reglu  3. gr. laga nr. 4/1995, eins og öllum þeim sem áttu fasteignir á þeim tíma sem mál þetta tekur til, var gert að greiða. Stefnandi var því í sömu stöðu og allir aðrir fasteignaeigendur á landinu. Ekki var því um að ræða að stefnanda væri sérstaklega gert að greiða gjöld sem ekki væru lögð á aðra í sömu stöðu og hann. Samkvæmt ofangreindu er ekki fallist á að skattlagningarheimild sú er fólst í 3. gr. laga nr. 4/1995 hafi brotið í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og er kröfum stefnanda hafnað.

Í ljósi þessara úrslita og með vísan til 1.mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnandi stefnda 450.000 krónur í málskostnað.

Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Mýrdalshreppur, er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhannesar Kristjánssonar.

Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.