Hæstiréttur íslands

Mál nr. 494/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vextir
  • Kröfugerð
  • Gjafsókn
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. maí 2005.

Nr. 494/2004.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Auði Sigríði Kristinsdóttur

(Kristinn Ólafsson hrl.)

 

Skaðabætur. Vextir. Gjafsókn. Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

A voru í opinberu máli dæmdar tilteknar bætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum vegna líkamsárásar sem hún varð fyrir. Gerði hún kröfu um greiðslu bótanna til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995. Viðurkenndi nefndin að A ætti rétt á greiðslu höfuðstóls bótanna frá Í ásamt almennum vöxtum en hafnaði því að A ætti kröfu á hendur Í varðandi dæmda dráttarvexti. Krafðist A í málinu annars vegar að framangreind ákvörðun nefndarinnar yrði felld úr gildi og hins vegar að Í yrði dæmt til greiðslu kröfunnar ásamt dæmdum dráttarvöxtum. Talið var að ekki yrði leyst úr fjárkröfu A án þess að taka afstöðu til þess hvort ákvörðun bótanefndar væri bindandi gagnvart henni og hefði hún því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr þeirri kröfu  sérstaklega og var kröfunni vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Um fjárkröfuna var talið að það væri meginregla að bætur sem ríkið greiddi á grundvelli laga nr. 69/1995 væru í samræmi við niðurstöðu dóms sem dæmdi brotamann bótaskyldan og væri sú meginregla orðuð í 1. mgr. 11. gr. laganna. Þegar litið var til orðalags nefndrar lagagreinar, lögskýringargagna og þess að ákvörðun um dráttarvexti er hluti af efnisdómi var talið að Í væri skylt að greiða hina umkröfðu dráttarvexti og var fjárkrafa A því tekin  til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefndu verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

I.

Í stefnu til héraðsdóms krafðist stefnda þess að felld yrði úr gildi ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota í máli nr. 103/2002 og að áfrýjandi yrði dæmdur til að greiða sér 433.300 krónur með almennum vöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí sama ár og samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 7. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. síðarnefndu laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 496.955 krónum sem áfrýjandi greiddi stefndu 7. apríl 2003. Héraðsdómur féllst á kröfu stefndu og dæmdi vexti og dráttarvexti í samræmi við framangreint orðalag kröfugerðar hennar. Stefnda krefst samkvæmt framansögðu staðfestingar á þeim dómi. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var framangreind kröfugerð stefndu skýrð svo að með almennum vöxtum samkvæmt lögum nr. 25/1987 væri átt við vexti samkvæmt 7. gr. þeirra, en með almennum vöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 væri átt við vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. þeirra.

Fjárkrafa stefndu er reist á þeim rökum að ákvörðun bótanefndar í framangreindu máli sé ekki bindandi gagnvart henni. Verður ekki leyst úr fjárkröfunni án þess að taka afstöðu til  þeirra raka. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi hagsmuni af því að lögum að fá jafnframt sérstaklega leyst úr kröfunni um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi kröfu stefndu um að fyrrgreind ákvörðun bótanefndar verði felld úr gildi.

II.

Stefndu voru með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2002 dæmdar 433.300 krónur í bætur úr hendi manns sem með dóminum var meðal annars  sakfelldur fyrir líkamsárás gegn henni. Var hann dæmdur til að greiða stefndu nánar tilgreinda vexti af þessari fjárhæð til 7. janúar 2002, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Var þessi niðurstaða um skaðabætur staðfest með dómi Hæstaréttar 27. febrúar 2003 í máli nr. 536/2002, en hvorugur málsaðila gerði kröfu um endurskoðun héraðsdóms um þann þátt málsins. Stefnda mun með bréfi 22. október 2002 hafa farið þess á leit við bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 að skaðabætur þær sem dómfellda var með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur gert að greiða henni yrðu greiddar úr ríkissjóði og hlaut málið númerið 103/2002 í málaskrá nefndarinnar. Nefndin varð við beiðni stefndu með ákvörðun 10. mars 2003 en ákvað þó að höfuðstóll tildæmdra bóta skyldi ekki bera dráttarvexti, heldur vexti samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí sama ár og samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Greiddi áfrýjandi stefndu í samræmi við það 496.955 krónur 7. apríl 2003. Stefnda fór þess á leit 27. maí 2003 að nefndin endurskoðaði afstöðu sína þar sem hún ætti kröfu á greiðslu dráttarvaxta af höfuðstól bótanna frá 7. janúar 2002 til samræmis við það sem ákveðið var með fyrrgreindum dómi. Nefndin hafnaði því 16. júlí 2003.

 Samkvæmt lögum nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður þolendum afbrota bætur vegna tjóns er af afbroti leiðir að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem síðar varð að lögum nr. 69/1995, segir að dómur um bætur frá tjónvaldi verði almennt bindandi fyrir bótanefnd og að samkvæmt frumvarpinu gildi sú meginregla að samræmi sé milli kröfu tjónþola á hendur brotamanni og kröfu gagnvart ríkissjóði. Þá segir í athugasemdunum að þegar dómur hafi gengið um bótakröfuna sé almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöðu hans. Þessi meginregla er þannig orðuð í 1. mgr 11. gr. laganna að þegar bótakröfu hefur verið ráðið til lykta með dómi, skuli greiða bætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dómi. Í lok málsgreinarinnar er þó um frávik frá þessu vísað til ákvæða 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr 10 gr. laganna. Lýtur engin þeirra undantekninga sem þar er vísað til að tildæmdum dráttarvöxtum, en af 2. mgr. 7. gr. sést að gert er ráð fyrir því að greiðsluskylda ríkissjóðs taki meðal annars til vaxta.

 Þegar litið er til orðalags 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995, framangreindra lögskýringargagna og þess að ákvörðun dóms um vexti af tildæmdum höfuðstól, þar með taldir dráttarvextir, er hluti af efnisdómi verður að telja að áfrýjanda sé skylt að  greiða stefndu dráttavexti af margnefndum höfuðstól skaðabótanna í samræmi við dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2002 í máli nr. 536/2002. Niðurstaða héraðsdóms um fjárkröfu stefndu verður því staðfest með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Kröfu stefndu, Auðar Sigríðar Kristinsdóttur, um að felld verði úr gildi ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 í máli nr. 103/2002, er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu 433.300 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí sama ár og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 7. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum  496.955 krónum sem greiddar voru 7. apríl 2003.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2004.

Stefnandi málsins er Auður Sigríður Kristinsdóttir, [kt.], Eiðistorgi 15, Seltjarnarnesi, en stefndi er íslenska ríkið, Reykjavík. Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 16. desember 2003. Það var þingfest hér í dómi 18. sama mánaðar. Mætt var af hálfu stefnda við þingfestingu málsins.

Málið var dómtekið 5. maí sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Dómkröfur stefnanda eru þær, að felld verði úr gildi ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 í máli nr. 103/2002 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 433.300 krónur, auk almennra vaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí s.á. en samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til 7. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 496.955 kr., sem stefndi greiddi stefnanda 7. apríl 2003.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti af málskostnaði.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og  að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.

Til vara krefst stefndi lækkunar á stefnukröfu og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Málavextir.

Málavextir eru þeir, að stefnandi varð fyrir líkamsárás hinn 28. apríl 2001. Henni voru dæmdar bætur í Héraðsdómi Reykjavíkur með dómi uppkveðnum 17. október 2002. Í dómsorði segir svo, að því er varðar bótakröfu stefnanda: Ákærði skal greiða Y 433.300 krónur auk almennra vaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til 7. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi  til greiðsludags.

Fram kemur í gögnum málsins, að stefnandi leitaði eftir bótum hjá bótanefnd, sem starfar samkvæmt lögum nr. 69/1995 (eftirleiðis bótanefnd), með bréfi dags. 22. október 2002. Bréf þetta hefur ekki verið lagt fram í dóminum.  Bótanefnd tilkynnti stefnanda með bréfi, dags. 20. desember s.á., að nefndin hefði ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknar hennar, þar til dómur Hæstaréttar lægi fyrir um kröfu hennar, en ríkissaksóknari hafði áfrýjað dómi héraðsdóms til Hæstaréttar 27. nóvember s.á. Ekki var gerð krafa af hálfu sakbornings um endurskoðun Hæstaréttar á tildæmdum skaða­bótum stefnanda.

Hæstiréttur felldi dóm í málinu 27. febrúar 2003. Þar er niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur staðfest. Í dómsorði Hæstaréttar segir svo: Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og skaðabætur skulu vera óröskuð. Hinn 10. mars s.á. ákvað bótanefnd stefnanda skaðabætur í samræmi við tildæmda fjárhæð með svohljóðandi ákvörð­unarorðum: Ríkissjóður greiði Auði Sigríði Kristinsdóttur, kt. 011062-3859, 433.300 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí sama árs, en vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Bótanefnd hafnaði kröfu stefnanda um dráttarvexti með svofelldum rökum: Um vexti fer svo sem í ákvörðunarorði greinir. Skal í því sambandi tekið fram að af hálfu bótanefndar er litið svo á, að í skyldu ríkissjóðs til greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995 felist ekki skylda til greiðslu dráttarvaxta af ákvörðuðum bótum. Er þessi afstaða nefndarinnar aðallega á því byggð, að ekki sé fyrir að fara vanskilum af hálfu ríkissjóðs á greiðslu bóta fram til þess tíma er ákvörðun bótanefndar í máli liggur fyrir. Eignast tjónþoli að þessu leyti ekki þá kröfu á hendur ríkissjóði sem tjónvaldi yrði gert að greiða honum.

Lögmaður stefnanda ritaði bótanefnd bréf, dags. 27. maí 2003, og fór fram á endurákvörðun nefndarinnar og gerði kröfu til þess, að ákvörðun hennar um synjun um greiðslu dráttarvaxta yrði tekin til endurskoðunar. Bótanefnd hafnaði þessu erindi stefnanda með bréfi, dags. 16. júlí s.á. Í bréfinu kemur fram, að nefndin hafi frá því hún tók fyrst til starfa litið svo á, að í skyldu ríkissjóðs til greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995 felist ekki skylda til greiðslu dráttarvaxta af ákvörðuðum bótum.   Um þessa túlkun má eflaust deila og hún hefur áður sætt athugasemdum. Hins vegar hefur nefndin ekki séð ástæðu til að breyta þessari túlkun sinni.  Vísaði nefndin til fyrri rökstuðnings síns í máli stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að ákvörðun bótanefndar um að hafna greiðslu dráttar­vaxta fari í bága við lög nr. 69/1995 (eftirleiðis bótalög), einkum 11. gr. hennar. Þar segi, að greiða skuli bætur með þeirri fjárhæð, sem ákveðin sé í dómi, þegar bótakröfu hafi verið ráðið til lykta með þeim hætti. Þar sé einnig lýst þeim afmörkuðu tilvikum, þar sem skyldan til greiðslu bóta samkvæmt dómi sé undanþæg.  Ekki sé þar að finna heimild til þess að víkja frá dómi, að því er varði tildæmda vexti, eins og bótanefnd hafi gert. Sú ákvörðun að fara ekki eftir niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti að því er snerti tildæmdar bætur, hljóti því að fara í bága við ákvæði 11 gr. tilvitnaðra laga. Einnig sé ljóst, að það sé í valdi bótanefndar að ákveða, hvenær hún taki mál fyrir og leiði til lykta.  Dráttur á ákvörðun nefndarinnar leiði til þess, að ríkissjóður hagnist á kostnað tjónþola við núverandi afstöðu nefndarinnar um greiðslu dráttar­vaxta. Í þessu máli hafi bótanefnd tekið þá ákvörðun að fresta afgreiðslu málsins, þar til Hæstiréttur hefði fellt sinn dóm yfir tjónvaldi. Sú frestun hafi verið með öllu ástæðulaus. Legið hafi fyrir,  að bótaákvörðun héraðsdóms myndi ekki koma til endurskoðunar í Hæstarétti, þar sem þeim þætti málins hefði ekki verið áfrýjað. Stefndi hljóti a.m.k. að bera ábyrgð á þeim greiðsludrætti, sem þessi ákvörðun bótanefndar hafi haft í för með sér.  Einnig beri að horfa til þess,  að bótanefndin hafi ekki tekið ákvörðun í máli stefnanda fyrr en 10. mars 2003 og krafan ekki verið greidd fyrr en 7. apríl s.á.

Stefnandi vekur einnig athygli á því, að stefndi eignist, skv. 19. gr. bótalaga, dómkröfu hennar á hendur tjónþola við greiðslu á grundvelli ákvörðunar bótanefndar, og geti þannig krafið dómþola um dráttarvexti, sem hann hafi áður neitað stefnanda um.  Slíkt samræmist ekki tilgangi laganna. Því sé ljóst, að stefnda beri að greiða stefnanda umkrafða dráttarvexti.

Stefnandi vísar til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 (eml.) til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni, einkum 130. gr. laganna, en byggir á ákvæðum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 að því er varðar kröfu hans um virðisaukaskattsálag á tildæmdan málskostnað. Að öðru leyti byggir stefnandi á ákvæðum fyrrnefndra laga nr. 69/1995, einkum 1.,2.,3., og 11. gr. þeirra.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi styður sýknukröfu sína þeim rökum, að ákvörðun bótanefndar hafi verið rétt og lögmæt og því bresti skilyrði fyrir því að hún verði felld úr gildi, eins og stefnandi geri kröfu til.  Í ákvörðuninni komi fram, að stefndi hafi greitt stefnanda tildæmdar skaðabætur, auk vaxta og verðbóta til greiðsludags, samkvæmt bótalögunum. Í þeim lögum sé ekki tekið fram að greiða skuli dráttarvexti og því séu ekki skilyrði til greiðslu þeirra. Lögin séu sérlög og undantekning frá þeirri meginreglu, að tjónþoli skuli sækja tjónvald um bætur. Beri því að túlka þau þröngt.

Stefndi bendir á, að dráttarvextir séu skaðabætur eða ígildi þeirra, að áliti fræði­mannsins Viðars Más Matthíassonar, sem skuldara beri að greiða, eftir að vanefndir hafi orðið af hans hálfu á greiðslu skuldar. (grein í 1. tbl. Úlfljóts frá 1996, bls. 11). Fráleitt sé að færa það tilvik, sem hér sé til umfjöllunar, undir þessa skilgreiningu, að mati stefnda, enda sé ekki um vanskil að ræða. Þá sé ljóst, að tjónþoli geti eftir sem áður innheimt áfallna dráttarvexti úr hendi tjónvalds, enda eignist stefndi ekki þann hluta kröfunnar, heldur aðeins þá fjárhæð, sem tjónþola sé greidd samkvæmt ákvörðun bótanefndar.

Stefndi vísar til þess, að bótalögin feli bótanefnd umtalsvert ákvörðunarvald um ákvörðun bóta. Nefndin hafi tekið þá ákvörðun í máli stefnanda sem og öllum öðrum, að ríkissjóði beri að greiða vexti og verðtryggingu samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, eða samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þegar hún eigi við, fyrir sama tímabil og dráttarvaxtakrafan nái til. Þannig hafi nefndin leitast við að verðtryggja höfuðstól þeirra bóta, sem tjónþoli eigi rétt á.

Stefndi bendir á, að aðeins hafi liðið 11 dagar frá dómi Hæstaréttar, þar til bótanefnd tók ákvörðun í máli stefnanda og greiðsla á grundvelli hennar hafi verið innan eðlilega marka.

Þá vísar stefndi til þess, að ýmsar undantekningarreglur sé að finna í bóta­lögunum, auk annarra takmarkana á greiðsluskyldu ríkissjóðs, sem skýra beri þröngt.

Þá vekur stefndi athygli á því, í tilefni af þeim ummælum stefnanda í stefnu, að bótaþætti málsins hafi ekki verið áfrýjað, að stefnandi hafi fengið sérstaka tilkynningu frá bótanefnd, þar sem henni hafi verið tilkynnt um þá ákvörðun að fresta afgreiðslu málsins, þar til Hæstaréttardómur lægi fyrir. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert af því tilefni.  Frestun bótanefndar hafi verið lögmæt í alla staði, svo og verklag hennar og ákvarðanir.

Af öllum framangreindum ástæðum beri að sýkna stefnda.

Stefndi vísar til 130. gr. eml. til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.

Stefndi byggir varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og málsástæðum og aðalkröfu og áður er lýst. 

Niðurstaða.

Ágreiningur málsaðila lýtur að því, eins og að framan er rakið, hvort bótanefnd sé skylt að greiða stefnanda dráttarvexti í samræmi við ákvörðun dóms þar að lútandi.

Í 11. gr. bótalaga segir, að greiða skuli bætur, þegar bótakröfu hefur verið ráðið til lykta með dómi með þeirri fjárhæð, sem dómurinn ákvað, sbr. þó ákvæði 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr.  Í 2. mgr. 7. gr. eru hámarksbætur, sem ríkissjóði er skylt að greiða, takmarkaðar og nema misháum fjárhæðum eftir eðli tjóns. Þar segir svo: Af dæmdum eða ákvörðuðum bótum að vöxtum meðtöldum, greiðir ríkissjóður ekki hærri fjárhæð en: Síðan er hámarksfjárhæðum lýst. Hámarksbætur vegna líkamstjóns, eins og því er stefnandi varð fyrir, nema 2.500.000 kr. að meðtöldum vöxtum.

Ljóst er af tilvitnuðu orðalagi 2. mgr. 7. gr. bótalaga, að stefnda ber að greiða vexti til viðbótar þeirri fjárhæð, sem dómur hefur ákveðið allt þar til tilgreindu bótahámarki er náð. Bótanefnd hefur viðurkennt að greiða beri vexti til viðbótar tildæmdri fjárhæð, en tekið þá afstöðu að beita ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, áður 1. mgr. 7. gr. laga nr. 25/1987, við vaxtaákvörðun sína. Sú afstaða er af hálfu bótanefndar studd þeim rökum, að ekki sé um greiðsludrátt eða vanskil að ræða af hálfu ríkissjóðs á greiðslu bóta fram til þess tíma er ákvörðun bótanefndar liggi fyrir í hverju einstöku máli.

Dómurinn fellst á þessa röksemd bótanefndar, en telur þá afstöðu enga þýðingu hafa fyrir úrslit málsins, enda snýr greiðsludrátturinn ekki að ríkissjóði heldur að tjónvaldi, eins og greinir í niðurstöðu þess dóms, sem stefnandi byggir á.

Samkvæmt 7. gr. bótalaga ber stefnda að greiða vexti til viðbótar tildæmdri bótafjárhæð, eins og áður er lýst.

Dómurinn lítur svo á, að ákvörðun dóms um vexti sé hluti tildæmdra skaðabóta og falli undir efnisúrlausn viðkomandi máls. Slík ákvörðun verður ekki slitin úr tengslum við ákvörðun um bótafjárhæð, fyrst löggjafinn hefur á annað borð gert ráð fyrir greiðslu vaxta til viðbótar tildæmdum skaðabótum.

Því verður að telja, að bótanefnd sé bundin af niðurstöðu dóms um vexti og dráttarvexti, nema viðkomandi tilvik falli undir þau undanþáguákvæði, sem lýst er í 11. gr. bótalaga, en þau þykja ekki eiga við í máli því sem hér er til meðferðar.

Niðurstaða málsins er því sú, að fallist er á kröfur stefnanda á hendur stefnda, eins og nánar er lýst í dómsorði.

Þessi úrslit málsins leiða til þess, að stefndi dæmist til að greiða stefnanda 187.500 krónur í málskostnað, með vísan til 1. tl. 130. gr. eml. Við ákvörðun máls­kostnaðar er tekið tillit til skyldu lögmanns stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af tildæmdum málskostnaði.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð.

Felld er úr gildi ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 í máli nr. 103/2002.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Auði Sigríði Kristinsdóttur, 433.300 krónur, auk almennra vaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí s.á. en samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til 7. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 496.955 kr., sem stefndi greiddi stefnanda 7. apríl 2003.

Stefndi greiði stefnanda 187.500 krónur í málskostnað.