Hæstiréttur íslands

Mál nr. 680/2012


Lykilorð

  • Lögmaður
  • Samningur
  • Kröfuréttur
  • Orsakatengsl


                                     

Fimmtudaginn 18. apríl 2013.

Nr. 680/2012.

Óðinn Elísson

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

Styrktar- og sjúkrasjóði VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Lögmaður. Samningur. Kröfuréttur. Orsakatengsl.

S veitti J, umbjóðanda Ó, fjárstuðning vegna líkamstjóns sem hann hlaut í umferðarslysi. Í samkomulagi sem gert var milli S, J og lögmannsstofunnar F ehf., sem Ó var eigandi að og í fyrirsvari fyrir, skuldbatt J sig til að endurgreiða S fengi hann greiddar skaðabætur vegna líkamstjónsins. Þá tók F ehf. að sér samkvæmt samkomulaginu að afla upplýsinga um það hversu mikið S hefði greitt J og skila þeirri fjárhæð til sjóðsins þegar F ehf. fengi í hendur skaðabótagreiðslur vegna slyssins. F ehf. tók við greiðslu skaðabóta f.h. J og voru bæturnar greiddar áfram til hans án þess að gætt hefði verið að því að skila S greiðslu á grundvelli samkomulagsins. S höfðaði mál og krafði Ó um skaðabætur vegna þess tjóns sem sjóðurinn taldi sig hafa orðið fyrir vegna vanefndar Ó á samkomulaginu, en áður hafði sjóðurinn fellt niður kröfu sína á hendur J. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að kröfu S væri réttilega beint að Ó sem og að Ó hefði sýnt af sér saknæma háttsemi er hann vanefndi þá skyldu sem á honum hvíldi samkvæmt samkomulaginu. Með vísan til meginreglna kröfuréttar taldi Hæstiréttur hins vegar að krafa S á hendur Ó hefði fallið niður þegar S felldi einhliða niður kröfu sína á hendur J, en ósannað var að J hefði ekki getað greitt kröfuna á þeim tíma. Hin saknæma háttsemi Ó hefði því ekki leitt til tjóns fyrir S heldur sú ákvörðun S að fella einhliða niður kröfuna. Með vísan til þessa væru því ekki orsakatengsl milli hinnar saknæmu háttsemi Ó og tjóns S. Var Ó sýknaður af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. nóvember 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í héraðsdómi veitti Jón Kristinn Marteinsson áfrýjanda umboð 8. janúar 2008 til þess að gæta hagsmuna sinna vegna líkamstjóns sem Jón Kristinn hlaut í umferðarslysi 28. febrúar 2007. Jón Kristinn var félagsmaður í VM Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Vegna líkamstjónsins varð hann óvinnufær og óskaði eftir fjárstuðningi frá stefnda. Af því tilefni var gert skriflegt samkomulag 15. janúar 2008 milli Jóns Kristins, stefnda og Fulltingis ehf., lögmannsstofu, sem áfrýjandi er meðeigandi að og í fyrirsvari fyrir. Samkvæmt samkomulaginu skuldbatt Jón Kristinn sig til þess að endurgreiða þær greiðslur sem hann fengi frá stefnda vegna slyssins að því tilskildu að hann fengi greiddar skaðabætur vegna líkamstjónsins. Þá sagði í samkomulaginu: ,,Þar sem greiðslur skaðabótanna ganga til Fulltingis ehf., sem rekur skaðabótamálið fyrir hönd Jóns Marteinssonar, þá skuldbindur lögmannsstofan sig til að kalla eftir upplýsingum um fjárhæð greiðslna úr [stefnda] til Jóns og skila þeirri fjárhæð strax til sjóðsins, þegar Fulltingi ehf. fær í hendur skaðabótagreiðslurnar vegna umferðarslyssins.“ Stefndi greiddi Jóni Kristni 1.175.000 krónur 18. janúar 2008 og tók samkomulagið til þeirrar greiðslu.

Fulltingi ehf. tók 18. apríl 2008 á móti uppgjöri á skaðabótum, vöxtum og kostnaði úr hendi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að fjárhæð 4.591.258 krónur vegna Jóns Kristins. Óumdeilt er að bæturnar voru greiddar áfram til hans, án þess að gætt væri að því að skila til stefnda þeirri greiðslu, sem framangreint samkomulag tók til, 1.175.000 krónum, og stefndi krefst í málinu.

Fallist er á með héraðsdómi að ósannað sé að stefnda hafi verið um það kunnugt að allar bæturnar hefðu verið greiddar Jóni Kristni þegar í apríl 2008 fyrr en um tveimur árum síðar. Þá er, með vísan til forsendna héraðsdóms, fallist á að kröfu stefnda sé réttilega beint að áfrýjanda í málinu, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt er fallist á að áfrýjandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi er hann vanefndi þá skyldu, sem á honum hvíldi samkvæmt samkomulaginu, um að ganga úr skugga um að greitt hefði verið til stefnda þegar eftir að hann hafði móttekið skaðabæturnar fyrir hönd Jóns Kristins og skila því sem ógreitt var.

Stefndi tók einhliða þá ákvörðun að fella niður kröfu sína á hendur Jóni Kristni að beiðni hans og ritaði stefndi undir yfirlýsingu 21. janúar 2011 þess efnis. Í henni segir einnig: ,,[Stefndi] hefur ekki enn tekið ákvörðun um framhald málsins gagnvart lögmannsstofunni, vegna samningsbrots lögmanns hennar.“ Fyrirsvarsmaður stefnda upplýsti í skýrslu fyrir dómi, að það hefði verið að frumkvæði stefnda sem krafan var felld niður. Hann kvað það ekki þeirra að ganga hart fram gegn Jóni Kristni í innheimtu kröfunnar, en Jón Kristinn hefði verið atvinnulaus og ýmis atriði valdið því að félagsleg staða hans hefði verið bág. Engin athugun fór af hálfu stefnda fram á greiðslugetu Jóns Kristins af þessu tilefni og ósannað er að hann hafi ekki verið fær um greiðslu kröfunnar þegar hún var felld niður.

Með samkomulaginu 15. janúar 2008 skuldbatt Jón Kristinn sig til þess að endurgreiða þá greiðslu, sem hann fengi frá stefnda vegna líkamstjónsins er hann hlaut í umferðarslysinu. Túlka verður samkomulagið svo að um hafi verið að ræða lánssamning og áfrýjandi hafi skuldbundið sig til að greiða lánið af bótunum þegar þær bærust lögmannsstofu hans. Þegar stefndi felldi einhliða niður kröfu sína á hendur Jóni Kristni var lokið kröfuréttindum þeim, sem stefndi átti á hendur honum vegna greiðslu til hans að fjárhæð 1.175.000 krónur. Til samræmis við meginreglur kröfuréttar féll þá einnig niður krafa stefnda á hendur áfrýjanda á grundvelli fyrrgreindrar skuldbindingar hans.

Þegar stefndi felldi einhliða niður kröfu sína á hendur Jóni Kristni tók hann á sig tjónið sem af því leiddi. Það var ekki á hans færi að hafa síðar uppi kröfu um skaðabætur vegna samningsbrots áfrýjanda. Sem fyrr greinir er ósannað að Jón Kristinn hefði ekki getað greitt kröfuna á þeim tíma sem hún var felld niður. Hin saknæma háttsemi áfrýjanda, sem fólst í broti hans á samningsskyldum sínum, leiddi því ekki til tjóns fyrir stefnda, heldur sú ákvörðun hans að fella einhliða niður kröfuna. Samkvæmt þessu skortir það skilyrði skaðabótaábyrgðar áfrýjanda að orsakatengsl séu milli hinnar saknæmu háttsemi hans og tjóns stefnda. Samkvæmt því verður að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda.

Eftir atvikum málsins verður hvorum málsaðila gert að bera sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Óðinn Elísson, er sýkn af kröfu stefnda, Styrktar- og sjúkrasjóðs VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 15. október sl., er höfðað 3. janúar 2012 af Styrktar- og sjúkrasjóði VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Stórhöfða 25 í Reykjavík, gegn Óðni Elíssyni, Klörustöðum í Mosfellsbæ.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að geriða sér 1.175.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti.

Upphaflega krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 16. maí sl.

II.

Málavextir eru þeir að Jón Kristinn Marteinsson vélvirkjameistari, sem var félagsmaður í Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, varð fyrir umferðarslysi 28. febrúar 2007. Í framhaldi af því leitaði hann til stefnda og óskaði eftir því að hann tæki að sér innheimtu bóta vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut í slysinu.

Í byrjun árs 2008 mun Jón hafa farið fram á fjárhagsaðstoð frá stefnanda vegna tekjuskerðingar af völdum slyssins. Af þessu tilefni var undirritað samkomulag, dags. 15. janúar 2008, milli stefnanda, Jóns og lögmannsstofunnar Fulltingis ehf., en stefndi, sem er framkvæmdastjóri og einn eigenda lögmannsstofunnar, undirritaði samkomulagið fyrir hennar hönd. Í samkomulaginu segir eftirfarandi: „Komi til greiðslu Húsasmiðjunnar hf. eða Tryggingamiðstöðvarinnar á skaðabótum til Jóns Marteinssonar vegna líkamstjóns hans af völdum umferðarslyss þann 28. febrúar 2007, þá skuldbindur Jón sig til að endurgreiða styrktar- og sjúkrasjóðnum þær greiðslur, sem hann hefur fengið greiddar úr sjóðnum vegna þessa slyss. / Þar sem greiðslur skaðabótanna ganga til Fulltingis hf., sem rekur skaðabótamálið fyrir hönd Jóns Marteinssonar, þá skuldbindur lögmannsstofan sig til að kalla eftir upplýsingum um fjárhæð greiðslna úr styrktar og sjúkrasjóðnum til Jóns og skila þeirri fjárhæð strax til sjóðsins, þegar Fulltingi ehf. fær í hendur skaðabótagreiðslurnar vegna umferðarslyssins.“ Samkvæmt útprenti úr netbanka lagði stefnandi 1.175.000 krónur inn á reikning Jóns 18. janúar 2008.

Hinn 18. apríl 2008 greiddi Tryggingamiðstöðin út skaðabætur vegna slyssins, samtals 4.591.258 krónur, og tók Fulltingi ehf. við bótagreiðslunni. Hvorki stefndi, lögmannsstofan né Jón stóðu skil á þeim 1.175.000 krónum sem Jón hafði fengið greiddar frá stefnanda.

Lögmaður stefnanda ritaði Jóni bréf, dags. 6. apríl 2010, þar sem fram kom að ætla yrði að uppgjör skaðabóta vegna umferðarslyssins hefði farið fram og þess óskað að fyrrgreind fjárhæð yrði endurgreidd. Ef uppgjör hefði af einhverjum ástæðum ekki farið fram var í bréfinu óskað eftir því að haft yrði samband við stefnanda til að upplýsa um framgang málsins. Í júlí sama ár freistaði stefnandi þess án árangurs að fá upplýsingar frá Tryggingamiðstöðinni um hvort og hvenær bótauppgjör hefði farið fram.

Stefnandi lagði fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna yfir vinnubrögðum stefnda 7. október 2010. Nefndin lauk umfjöllun um málið með úrskurði 23. maí 2011. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að þau vinnubrögð stefnda væru aðfinnsluverð, að sjá ekki til þess að staðið yrði við samkomulagið um að skila stefnanda fé af þeim skaðabótum sem lögmannstofa hans hafði til innheimtu.

Með yfirlýsingu 21. janúar 2011, sem undirrituð er af formanni VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, var því lýst yfir að félagið hefði fallist á beiðni Jóns um að skuld hans við það yrði felld niður vegna bágrar fjárhagsstöðu hans. Tekið var fram í yfirlýsingunni að félagið hefði ekki enn tekið ákvörðun um framhald málsins gagnvart lögmannsstofunni Fulltingi ehf.

Með bréfi 29. september 2011 krafði stefnandi stefnda um skaðabætur með skírskotun til ofangreindra lögskipta. Þeirri kröfu var hafnað með tölvuskeyti lögmanns stefnda 15. nóvember 2011.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því þríhliða samkomulagi sem gert var 15. janúar 2008 og rakið er í kafla II. Stefnandi kveðst hafa lánað félagsmanni sínum, Jóni Marteinssyni, 1.175.000 krónur, sem stefndi hafi átt að sjá um að standa skil á til stefnanda þegar skaðabætur vegna umferðarslyssins yrðu greiddar út. Það hafi stefndi ekki gert heldur greitt bæturnar beint til Jóns án vitundar stefnanda þvert á skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu.

Stefnandi tekur fram að engum fyrirspurnum sínum um stöðu málsins hafi verið sinnt af hálfu stefnda og beiðni sinni um upplýsingar um bótagreiðslu frá viðkomandi tryggingafélagi, um hvort og hvenær bætur hefðu verið greiddar, hafi verið hafnað. Því sé upphafstími dráttarvaxtakröfu stefnanda áætlaður, en gerður fyrirvari um réttari upphafstíma til eða frá að fengnum upplýsingum frá stefnda.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi kvartað yfir vinnubrögðum stefnda til úrskurðarnefndar lögmannafélagsins og hún komist að þeirri niðurstöðu að þau væru aðfinnsluverð. Stefnandi vitnar sérstaklega til niðurstöðukafla úrskurðarins þar sem fram komi að samkvæmt 18. gr. lögmannalaga beri lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim sé trúað fyrir. Fyrir liggi að stefndi hafi tekið að sér að kalla eftir upplýsingum um fjárhæð greiðslna úr styrktar- og sjúkrasjóðnum til Jóns og skila þeirri fjárhæð til sjóðsins þegar Fulltingi ehf. hefði fengið í hendur skaðabótagreiðslurnar vegna umferðarslyssins. Þá vitnar stefnandi til þess að í úrskurðinum segi að ekki þyki skipta máli fyrir starfsskyldur kærða að hann hafi skrifað undir samkomulagið fyrir hönd þess hlutafélags sem hann hafði stofnað um rekstur lögmannsstofunnar.

Stefnandi kveður úrskurðarnefndina ekki hafa fjallað um fjárskiptagrundvöllinn í málinu, enda ekki farið fram á það. Á þann þátt sé látið reyna í þessu dómsmáli.

Stefnandi kveðst byggja skaðabótakröfu sína á hendur stefnda á því að hann hafi ekki staðið við hið þríhliða samkomulag. Stefndi hefði a.m.k. getað látið stefnanda vita strax að búið væri að greiða honum skaðabæturnar og hann síðan greitt Jóni þær í framhaldinu. Þá hefði stefnandi átt möguleika á því að fá Jón sjálfan til að standa skil á þeirri fjárhæð sem stefnandi hafði lánað honum. Þegar stefnanda hafi orðið ljóst, löngu síðar, að búið væri að greiða Jóni skaðabæturnar beint hafi stefnandi fyrst farið að beita sér í málinu. Þá hafi komið í ljós að Jón væri ekki borgunarmaður fyrir einu né neinu. Það hafi endað með því að skuld hans hafi verið gefin eftir, enda ekki hlutverk stéttarfélags að gera félagsmenn sína gjaldþrota, jafnvel þótt þeir skuldi því peninga.

Stefnandi vísar til samkomulags aðila og þeirra skuldbindinga, sem stefndi hafi tekið sér á herðar við gerð samningsins, þ.e að samninga skuli halda. Stefnandi kveðst hafa verið í góðri trú um að treysta mætti stefnda sem lögmanni til að standa við gerðan samning og skila andvirði lánsins til stefnanda. Það hafi algerlega brugðist. Engu breyti þótt stefnandi hafi neyðst til að gefa eftir kröfuna um endurgreiðslu frá Jóni Marteinssyni sjálfum, enda hafi hann verið orðinn ógjaldfær að mati stefnanda þegar hann hafi fyrst getað beint kröfu sinni að honum. Það leysi stefnda ekki undan skuldbindingargildi undirskriftar hans, þótt kröfu verði ekki lengur beint að Jóni Marteinssyni. Eftir standi skaðabótaábyrgð hins stefnda lögmanns vegna samningsbrota hans og saknæms athafnaleysis gagnvart stefnanda.

Í tilefni af röksemdum stefnda fyrir því að krafa stefnanda hafi fallið niður, þegar krafa á hendur Jóni hafi verið felld niður, tekur stefnandi fram að krafa hans byggist ekki á reglum kröfuréttar, heldur á reglum skaðabótaréttar innan samninga. Saknæmt aðgerðarleysi stefnda, sem hafi farið gegn skuldbindingu hans samkvæmt samningi, hafi valdið því að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagstjóni, sem nemi andvirði lánsins, 1.175.000 krónum, ásamt vaxtatapi. Þetta fjártjón vilji stefnandi nú fá bætt úr hendi stefnda, sem skaðabætur innan samninga, þ.e. efndabætur. Stefndi beri fulla, persónulega ábyrgð á því að lán stefnanda hafi ekki verið endurgreitt. Engu breyti um skaðabótaábyrgð stefnda þótt skuld Jóns Marteinssonar hafi verið gefin eftir. Hér gildi grundvallarreglan um efndabætur innan samninga, að sá sem beri ábyrgð á tjóni á hagsmunum annars manns, eigi að inna af hendi peningagreiðslu sem nægi til að rétta hlut tjónþola og gera þennan samningsaðila eins settan fjárhagslega eins og tjónið hefði aldrei orðið. Þá verði að hafa í huga að stefndi sé lögmaður á sérhæfðu sviði. Því eigi viðskiptamenn hans og viðsemjendur að geta treyst því að vinnubrögð hans séu með þeim vandaða og ábyrga hætti sem krefjast megi af starfandi lögmanni.

Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á almennum reglum um skaðabætur innan samninga, almennu sakarreglunni, reglu skaðabótaréttar um „dolus/culpa in contractu“, einnig á grundvallarreglu samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og samninga, að samninga skuli halda (pacta sunt servanda) og meginreglna samningaréttar um forsendur skaðabóta innan samninga. Stefnandi vísar til 18. gr. og 3. mgr. 19. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 38. gr. siðareglna lögmanna. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. í III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi vísar enn fremur til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 um þann þátt kröfu sinnar.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að rauði þráðurinn í málatilbúnaði stefnanda sé að hann hafi skuldbundið sig samkvæmt fyrirliggjandi samkomulagi til að endurgreiða stefnanda þær upphæðir sem Jón Marteinsson hafi fengið greiddar úr sjóðnum. Það sé alrangt. Aðilar samkomulagsins séu þrír, stefnandi, Jón Marteinsson og lögmannsstofan Fulltingi ehf. Stefndi leggur áherslu á að einungis aðilar samkomulagsins geti borið ábyrgð á grundvelli þess. Að sama skapi verði efni þess einvörðungu skuldbindandi fyrir þá og þeir einir geti orðið bundnir af dómsúrlausn vegna réttágreinings sem rekinn sé um skuldbindingargildi þess. Eina aðkoma stefnda að málinu hafi verið sem fyrirsvarsmaður Fulltingis ehf.

Stefndi byggir á því að lögpersónan Fulltingi ehf. hafi verið aðili að því samkomulagi sem um ræði. Stefndi eigi hins vegar ekki beina aðild að því. Því sé alveg útilokað að hann geti orðið persónulega skuldbundinn samkvæmt efni þess. Þar sem stefndi geti ekki borið skyldur samkvæmt samkomulaginu, geti hann aldrei talist brotlegur í skilningi þess. Af framansögðu leiði að dómkröfum sé ranglega beint að stefnda í málinu. Stefndi eigi því ekki aðild að málinu varnarmegin. Þar sem um aðildarskort sé að ræða verði að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

Til viðbótar byggir stefndi á því að með öllu sé ósannað að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni í skilningi sakarreglunnar. Þar sem skilyrði reglunnar séu ekki uppfyllt í málinu beri að sýkna hann af öllum dómkröfum stefnanda.

Stefndi kveður skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda grundvallast á almennum reglum um skaðabætur innan samninga, þ.e. almennu sakarreglunni. Til að bótaskylda stofnist á grundvelli reglunnar þurfi öll skilyrði hennar að vera uppfyllt. Þannig verði tjónþoli að sýna fram á að hegðun hafi verið saknæm, auk þess sem sýna þurfi fram á orsakasamhengi milli hinnar saknæmu háttsemi og tjónsins. Þá verði tjónþoli einnig að færa sönnur á tjónið, umfang þess og eðli.

Stefndi vísar til þess að í samkomulaginu frá 15. janúar 2008 hafi Jón skuldbundið sig til að endurgreiða stefnanda þær greiðslur, sem hann hafi fengi greiddar úr sjóðnum, kæmi til greiðslu skaðabóta til hans. Í bréfi, dags. 18. apríl 2008, hafi Tryggingamiðstöðin lýst því yfir að hún hefði greitt inn á reikning lögmannstofunnar Fulltingis ehf. skaðabætur til Jóns vegna þess líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir í umferðarslysinu. Í bréfi, dags. 7. maí sama ár, hafi Jón staðfest móttöku greiðslu bótanna inn á reikning sinn. Þrátt fyrir að skilyrði samkomulags um greiðslu skaðabóta hafi gengið eftir, hafi Jón ákveðið að efna ekki sinn hluta samkomulagsins, þ.e. að endurgreiða stefnanda þá upphæð sem hann hafði fengið greidda úr sjóðnum. Með öðrum orðum hafi Jón vanefnt greiðsluskyldu samkvæmt samkomulaginu. Í kjölfarið hafi stofnast einhliða kröfuréttindi stefnanda á hendur Jóni. Í stað þess, að hefja lögformlegar aðgerðir í því skyni að innheimta skuldina á hendur Jóni, hafi stefnandi ákveðið að leysa hann undan greiðsluskyldu og fella skuldina niður. Staðan nú sé líkust því, í kröfu- og samningsréttarlegum skilningi, að aldrei hafi verið til skuldarinnar stofnað. Jafnframt sé alveg ljóst að allar skuldbindingar, hverju nafni sem þær kunni að nefnast, og eigi rætur að rekja til lögskipta Jóns og stefnanda, séu fallnar niður. Af öllu framansögðu telur stefndi ekki óvarlegt að slá því föstu að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni, þaðan af síður að stefndi hafi valdið honum tjóninu. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um niðurfellingu skulda og lausn undan greiðslu- og efndaskyldu. Þá sé vísað til meginreglna skaðabótaréttar, einkum almennu sakarreglunnar. Um málskostnað vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. Krafa stefnda um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé enn fremur byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV.

Með samkomulaginu 15. janúar 2008 skuldbatt stefndi lögmannsstofuna Fulltingi ehf. til að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð, sem stefnandi ætlaði að greiða Jóni Marteinssyni, þegar skaðabætur, sem lögmannsstofan hafði til innheimtu fyrir Jón, fengjust greiddar. Enginn ágreiningur er um að ekki var við þetta staðið, heldur voru skaðabætur Jóns, sem Tryggingamiðstöðin greiddi inn á reikning lögmannsstofunnar 18. apríl 2008, samtals 4.591.258 krónur, greiddar tjónþola beint. Snýst ágreiningur aðila um það hvort stefnda verði gert að bæta stefnanda það tjón sem hann telur hafa hlotist af þessari vanefnd á samningsskyldu lögmannsstofunnar.

Til stuðnings því að stefndi beri persónulega skaðabótaábyrgð á þessari vanefnd vísar stefnandi til 18. gr. og 3. mgr. 19. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í fyrrnefnda ákvæðinu er sú skylda lögð á lögmenn að rækja í hvívetna af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Í síðarnefnda ákvæðinu er kveðið á um að lögmönnum sé heimilt að stofna félag um rekstur sinn í því formi sem þeir kjósa sjálfir, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Þar segir síðan að slík takmörkun breyti ekki því að lögmaður beri alltaf óskerta ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans baki öðrum með störfum sínum. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/1998 kemur fram að rekstur lögmannsstofu með takmarkaðri ábyrgð breyti engu um persónulega ábyrgð lögmanns sem unnið hafi eða vanrækt það lögmannsstarf sem gefi tilefni til kröfugerðar á hendur honum. Þannig gæti viðskiptamaður krafist fullnustu í eignum hans og eignum viðkomandi félags, en ekki í persónulegum eignum annarra sem eiga félagið eða vinna hjá því.

Í málinu liggur fyrir að Jón Marteinsson veitti stefnda sem lögmanni fullt, skriflegt umboð til að gæta hagsmuna sinna við heimtu skaðabóta vegna umferðarslyss sem hann lenti í 28. febrúar 2007. Í umboðinu kemur fram að það nái til sérhverra ráðstafana til að gæta réttar hans, þar á meðal að taka við skjölum, greiðslum eða öðrum verðmætum og kvitta fyrir. Í tengslum við þessa hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda síns, undirritaði stefndi fyrrgreint samkomulag og skuldbatt lögmannsstofu sína á þann hátt sem að framan greinir. Stefndi er eigandi lögmannsstofunnar og framkvæmdastjóri og bar honum að tryggja að unnt væri að standa við það loforð sem þar var gefið, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Með vísan til fyrrgreindrar 3. mgr. 19. gr. sömu laga verður að líta svo á að stefnandi geti beint skaðabótakröfu sinni að stefnda persónulega. Af þessum sökum verður að hafna þeirri mótbáru stefnda að kröfunni sé ranglega beint að honum.

Samkomulagið frá 15. janúar 2008 mælti afdráttarlaust fyrir um að Jóni bæri að greiða til baka þá fjármuni sem hann fékk frá stefnanda, þegar skaðabæturnar yrðu gerðar upp, sem og um skyldu lögmannsstofunnar til að hafa milligöngu um þá endurgreiðslu. Þar er í engu getið um ætlaða kröfu Jóns á hendur stefnanda um greiðslu dagpeninga vegna slyssins, sem hann vísaði til í skýrslu sinni fyrir dómi. Á grundvelli samkomulagsins bar stefnda að sjá til þess að stefnufjárhæðin yrði greidd stefnanda, þegar skaðabæturnar bárust lögmannstofunni 18. apríl 2008, óháð ætlaðri kröfu Jóns á hendur stefnanda. Mátti stefnda vera ljóst að með því að vanrækja þá skyldu væri hagsmunum stefnanda, er fólust í efndum á samkomulaginu, stefnt í hættu. Verður að virða þá vanrækslu stefnda til sakar samkvæmt 25. gr. laga nr. 77/1998.

Í stefnu er fullyrt að stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um bótauppgjörið við Jón 18. apríl 2008 fyrr en um það bil tveimur árum síðar. Engar athugasemdir komu fram við þá lýsingu af hálfu stefnda í greinargerð. Jón bar eftir sem áður fyrir dómi að þegar eftir greiðslu bótanna í apríl 2008 hafi hann látið starfsmenn stefnanda vita og þeir tekið afrit af kvittun fyrir greiðslu þeirra. Sú fullyrðing fær ekki stoð í gögnum málsins eða framburði annarra vitna. Gögn málsins gefa til kynna að fyrirsvarsmaður stefnanda, Guðmundur Ragnarsson, hafi ekki vitað af uppgjörinu fyrr en á árinu 2010. Eins og málið liggur fyrir dóminum verður að ganga út frá því að stefnanda hafi verið ókunnugt um greiðslu bótanna til Jóns fyrr en um það bil tveimur árum eftir að þær voru inntar af hendi.

Fullyrt er af hálfu stefnanda að niðurfelling á endurgreiðslukröfu stefnanda á hendur Jóni hafi byggst á bágri fjárhagsstöðu og aðstæðum hans að öðru leyti, eins og segir í yfirlýsingunni frá 21. janúar 2011. Jón bar sjálfur fyrir dómi, að þegar hann hafi fengið bréf frá lögmanni stefnanda 6. apríl 2010, þar sem farið hafi verið fram á greiðslu skuldarinnar, hafi hann ekki verið borgunarmaður fyrir henni. Hafi hann skýrt Guðmundi Ragnarssyni frá því, en þá voru tæp tvö ár liðin frá því hann hafði fengið skaðabæturnar greiddar. Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um fjárhagsstöðu Jóns sem varpað gætu ljósi á mögulegan árangur af frekari innheimtutilraunum stefnanda á hendur honum. Eins og atvikum er háttað telur dómurinn að stefndi verði að bera hallann af því. Af þessum sökum ber að leggja til grundvallar að tjón stefnanda, sem hlaust af vanrækslu stefnda, sé fram komið. Skaðabótakrafa á hendur stefnda, sem á þessu byggist, er sjálfstæð krafa sem féll ekki niður við það að stefnandi lýsti því yfir 21. janúar 2011 að endurgreiðslukrafan á hendur Jóni hefði verið felld niður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður á það fallist að stefnda beri að greiða stefnanda skaðabætur, sem nema þeirri fjárhæð, sem stefndi átti að sjá til að staðin yrðu skil á til stefnanda af skaðabótum Jóns Marteinssonar, en aldrei bárust stefnanda. Nemur sú fjárhæð stefnukröfunni, 1.175.000 krónum. Í stefnu er krafist dráttarvaxta frá 1. mars 2009 og verður við það miðað, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til þess að sérstakur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Óðinn Elísson, greiði stefnanda, Styrktar- og sjúkrasjóði VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, 1.175.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæðinni frá 1. mars 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.