Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2005
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Brunatrygging
- Virðisaukaskattur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 28. apríl 2005. |
|
Nr. 34/2005. |
Guðmundur Óli Ingimundarson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Brunatrygging. Virðisaukaskattur. Gjafsókn.
Húseign í eigu G brann í desember 2002 en hún var tryggð lögboðinni brunatryggingu hjá V. G rak virðisaukaskattsskylda starfsemi og taldi V að við útreikning bótafjárhæðar ætti að taka mið af heimildum G til að færa virðisaukaskatt af kostnaði vegna endurbyggingar hússins til innskatts. Greiddi V bætur í samræmi við þennan skilning, en G krafðist fullra bóta í samræmi við vátryggingarfjárhæð. Vátryggingarsamningur aðila var talinn kveða á um greiðslu tiltekinna bóta til handa G samkvæmt brunabótamati og í vátryggingarskilmálum væri ekki kveðið á um að uppgjöri tjóns skyldi hagað með mismunandi hætti eftir því hvort hinn vátryggði ræki virðisaukaskattskylda starfsemi og iðgjöld einstakra vátryggingartaka tækju ekki mið af slíkum mismunandi uppgjörsreglum. Voru því ekki talin efni til að víkja frá samningi aðila á grundvelli sjónarmiða um óréttmæta auðgun samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954, en reglur laga um skattskil til ríkisins þóttu ekki sjálfstætt veita slíka heimild. Krafa G var því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. janúar 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.557.838 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2003 til greiðsludags, að frádregnum 39.437 krónum sem hann fékk greiddar 15. febrúar 2005. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum og að gjafsóknarlaun, sem honum voru dæmd í héraði verði hækkuð.
Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í héraðsdómi brann kælihús í eigu áfrýjanda í desember 2002. Var húsið tryggt lögboðinni brunatryggingu hjá stefnda. Aðilar eru sammála um að kælihúsið hafi verið vátryggt undir verði þannig að ákvæði 40. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga eigi við um uppgjör bóta, auk þess sem grunnur hússins, er næmi 15% af heildarverðmæti þess, teldist heill og skuli því ekki bæta. Áfrýjandi rekur virðisaukaskattskylda starfsemi og mun geta talið virðisaukaskatt af kostnaði við endurbyggingu hússins til innskatts, sbr. ákvæði 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stendur deila aðila um hvort stefndi geti við uppgjör bóta dregið frá væntanlegan innskatt áfrýjanda.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 20/1954 er aðilum vátryggingarsamnings frjálst að semja um efni hans. Meðal annars er almennt heimilt með ákvæði í samningi að takmarka þá áhættu og bætur sem vátryggjandi ábyrgist. Vátryggingarsamningur aðila kvað á um greiðslu tiltekinna bóta til handa áfrýjanda samkvæmt brunabótamati. Í vátryggingarskilmálum var hins vegar ekki kveðið á um að uppgjöri tjóns skyldi hagað með mismunandi hætti eftir því hvort hinn vátryggði rekur virðisaukaskattskylda starfsemi og ekki munu iðgjöld einstakra vátryggingartaka hjá stefnda heldur hafa tekið mið af þessu. Í skilmálum um uppgjör tjóns var einungis að finna ákvæði í samræmi við 3. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sem kveður á um skyldu til lagfæringar eða endurbyggingar húss og um heimild til að veita undanþágu frá byggingarskyldu ýmist með eða án 15% frádráttar frá bótafjárhæð. Samkvæmt framanrituðu eru ekki efni til að víkja frá samningi aðila um uppgjör tjóns á grundvelli sjónarmiða stefnda um óréttmæta auðgun áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954, en reglur laga um skattskil til ríkisins veita stefnda heldur ekki sjálfstætt slíka heimild. Með því að ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila verður fallist á kröfu áfrýjanda.
Áfrýjanda var veitt gjafsókn í málinu bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Verður gjafsóknarkostnaður hans á báðum dómstigum ákveðinn í einu lagi, svo sem greinir í dómsorði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Verður hann ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Guðmundi Óla Ingimundarsyni, 1.557.838 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2001 til greiðsludags, allt að frádregnum 39.437 krónum sem greiddust 15. febrúar 2005.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 400.000 krónur.
Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2005.
Mál þetta var höfðað 19. janúar 2004 og var dómtekið 11. nóvember sl. Málið var flutt að nýju í dag og dómtekið.
Stefnandi er Guðmundur Óli Ingimundarsonar, Leyni, Bláaskógabyggð.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
Þess er krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.557.838 krónur auk vanskilavaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. nóvember 2003 til greiðsludags.
Krafist er gjafsóknarkostnaðar úr ríkissjóði og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á 39.437 krónum og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir
Málavextir eru þeir að í desember 2002 brunnu mannvirki í eigu stefnanda á jörðinni Leynum 2, Bláskógabyggð. Meðal mannvirkja sem brunnu var kælihús sem tryggt var lögboðinni brunatryggingu hjá stefnda. Miðaðist vátryggingafjárhæð við brunabótamat eignarinnar sem var á tjónsdegi 9.077.000 krónur.
Eftir skoðun tjónamatsmanns varð ljóst að eignin væri undirtryggð, þ.e. að verðmæti hennar væri meira en sem næmi brunabótamati. Er það ágreiningslaust með aðilum að eignin hafi verið undirtryggð og að ákvæði 40. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga eigi við um uppgjörið. Jafnframt voru aðilar sammála um að grunnur byggingarinnar teldist heill og bættist því ekki, en verðmæti hans taldist vera 15% af heildarverðmæti hins tryggða. Þá eru aðilar sammála um að eignin skuli bætast hlutfallslega þannig að þau verðmæti sem fóru forgörðum bætist hlutfallslega miðað við vátryggingarfjárhæðir. Í samræmi við þetta eru aðilar þannig sammála um að bæta eigi tjónið sem nemur 85% af vátryggingarverðmæti.
Stefndi leit svo á að þar sem um virðisaukaskattskylda starfsemi væri að ræða gæti stefnandi nýtt sér ákvæði 15. og 16. gr. 50/1988 og talið virðisaukaskatt af kostnaði við endurbyggingu eignarinnar til innskatts. Dró stefndi því frá bótafjárhæð væntanlegan innskatt stefnanda. Lýtur ágreiningur málsins fyrst og fremst að heimild stefnda til þess.
Stefndi fellst á með stefnanda að miða beri við brunabótamat eignarinnar á tjónsdegi, 9.077.000 krónur, og telur að bætur beri að reikna með eftirfarandi hætti:
Brunabótamat 9.077.000 kr. X 85% 7.715.450 kr.
Frádr. innskattur 7.715.450 X 19,68% 1.518.401 kr.
Bætur til greiðslu 6.197.049 kr.
Þegar greitt 6.157.612 kr.
Ógreitt 39.437 kr.
Kveðst stefndi ætla að standa stefnanda skil á þeirri fjárhæð.
Stefndi telur hins vegar að við uppgjör tjónsins beri ekki að draga frá uppgjörsfjárhæð væntanlegan innskatt stefnanda og sundurliðar stefnufjárhæð þannig:
Vátryggingarverðmæti 9.077.000 kr. x 85% = 7.715.450 kr.
Bótakrafa skv. útreikningi stefnanda 7.715.450 kr.
Greiddar bætur af stefnda. -6.157.612 kr.
Mismunur 1.557.838 kr.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi keypt vátryggingu ákveðinnar fjárhæðar og að það loforð beri að efna. Uppgjör stefnda eigi sér hvergi stoð í ákvæðum laga um vátryggingarsamninga eða í skilmálum tryggingarinnar. Eina ákvæðið sem til álita komi sé 39. gr. laga um vátryggingarsamninga. Í henni felist að enginn eigi að hagnast á tjónsatburði. Í þessu tilfelli sé engum slíkum hagnaði fyrir að fara og tæmi þessi grein lækkunarheimildir stefnda í þessu samhengi.
Vátryggingarfjárhæðin sé umsamin og samninga beri að halda. Hafi stefndi viljað hafa annan hátt á hafi honum borið að áskilja sér það sérstaklega enda væru slík ákvæði sérstök, sérkennileg og óvenjuleg, enda sé ekkert mið tekið af þessu sjónarmiði við ákvörðun iðgjalds. Stefndi hafi greitt iðgjaldið miðað við umsamdar forsendur og beri að túlka vátryggingarsamninginn í samræmi við það.
Stefnandi bendir á í þessu sambandi að stefndi innheimti sama gjald af mannvirkjum óháð virðisaukaskattskyldu þess sem kaupi trygginguna. Einnig að ef uppgjörsaðferð stefnda stæðist þá myndi hann aldrei þurfa að greiða nema 80% af vátryggingarfjárhæð. Skipti þá ekki máli hvort eign sé undirtryggð eður ei. Þ.e.a.s. í þeim tilvikum þegar um virðisaukaskattskyldan aðila sé að ræða.
Máli sínu til enn frekari stuðnings bendir stefnandi á að nýting innskatts feli í sér 10 ára kvöð á eigninni og gæti komið til greiðslu hans fyrr eða síðar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Stefnandi tekur fram að þótt vátryggingarfjárhæð taki mið af brunabótamati þá sé það aukaatriði. Aðalatriðið sé að menn geri með sér samning um ákveðna fjárhæð og hann beri að halda.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.
Málsástæður stefnda og lagarök
Krafa stefnda um sýknu byggir á þeirri meginreglu vátryggingaréttar að vátryggingartaki skuli fá raunverulegt tjón sitt bætt, að teknu tilliti til vátryggingarsamnings. Engin eigi að geta hagnast á tjónsatburði. Byggi reglan á 35. - 39. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Í reglunni um greiðslu rauntjóns felist m.a. að eigi tjónþoli rétt til endurgreiðslu skatts eða geti nýtt sér tjónskostnað til skattfrádráttar beri að lækka bætur sem því nemi. Þá er jafnframt á því byggt að þar sem eign stefnanda hafi verið undirtryggð í skilningi 40. gr. laga um vátryggingarsamninga beri stefnanda einvörðungu hlutfallslega reiknaðar bætur samkvæmt framangreindu.
Samkvæmt 15. og. 16. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt geti virðisaukaskattskyldur aðili sem verði fyrir tjóni á rekstrarfjármunum talið virðisaukaskatt vegna endurnýjunar, viðgerðar o.þ.h. til innskatts eftir almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts. Ef um bótaskylt tjón sé að ræða, leiði þessi regla því til þess að hugsanleg bótafjárhæð miðist við kostnað tjónþola án virðisaukaskatts. Megi um þetta m.a. vísa til minnisblaðs ríkisskattstjóra frá 17. janúar 1990 og ákvarðandi bréfs ríkisskattstjóra dags. 23.05.2002, G-Ákv. 03-1007. Sé skýrt tekið fram í þessum leiðbeiningum ríkisskattstjóra að þetta gildi óháð því hvort hinn virðisaukaskattskyldi aðili, tjónþoli, beri tjónið sjálfur eða fái það bætt að fullu eða hluta af tjónvaldi eða vátryggingarfélagi. Sé þessi regla jafnframt í samræmi við ákvæði 37. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Ljóst sé að stefnandi hafi getað nýtt sér sem innskatt virðisaukaskatt af kostnaði við endurnýjun kælihússins sem brann. Í samræmi við ofangreindar reglur hafi stefnda því borið að draga virðisaukaskatt frá greiddum bótum.
Í tilviki stefnanda hátti svo til að eign hans hafi verið undirtryggð þar sem brunabótamat eignarinnar hafi verið lægra en raunvirði hússins með tilliti til byggingarkostnaðar, gerðar, aldurs og ástands. Um greiðslu bóta í slíkum tilvikum fari samkvæmt 40. gr. laga um vátryggingarsamninga, sbr. og 6. gr. vátryggingaskilmála og sé ábyrgð stefnda þá hlutfallsleg miðað við þann mun sem sé á vátryggingarfjárhæð og verðmæti hins tryggða. Sú regla breyti í engu því hvernig haga beri frádrætti virðisaukaskatts frá greiddum bótum. Hlutfall virðisaukaskattsins sé ætíð það sama og fjárhæð frádráttarins því einfaldlega hlutfallslega lægri sé eign undirtryggð. Til skýringar þessu megi taka eftirfarandi dæmi:
Raunverulegt verðmæti eignarinnar sem brann hafi verið 18.154.000 krónur eða tvisvar sinnum meira en brunabótamat á tjónsdegi. Verðmæti grunns, sem taldist heill, nemi 15% af heildarverðmæti hússins. Tjónið sé því 18.154.000 krónur X 85% = 15.430.900 krónur. Frá greiddum bótum beri að draga virðisaukaskatt, sem tjónþoli nýti sem innskatt, 3.036.801 króna (15.430.900 X 19,68%). Bætur til greiðslu miðað við ofangreint verðmæti eignarinnar ættu því að nema 12.394.099 krónum (15.430.900 - 3.036.801). Eignin haf ekki verið tryggð nema sem nam helmingi ímyndaðs raunverðmætis (18.154.000 krónur) og því greiðist samkvæmt 40. gr. vátryggingarsamningalaga einvörðungu helmingur bóta. Sú fjárhæð væri því 6.197.049 krónur (12.394.099X50%).
Eins og sjáist sé fjárhæðin sem fáist með hlutfallsreikningi samkvæmt 40. gr. vátryggingarsamningalaga sú sama og stefndi hafi fallist á. Beri því augljóslega að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Sú regla að draga eigi væntanlegan innskatt frá tjónabótum, hvort sem eign sé undirvátryggð eða ekki, leiði auk þess eðli málsins samkvæmt af ákvæðum 35. gr. - 39. gr. laga um vátryggingarsamninga. Myndi önnur niðurstaða leiða til þess að tjónþolar gætu hagnast á undirvátryggingu. Aðilar með virðisaukaskattskyldan rekstur gætu þannig undirtryggt eign sína sem næmi hlutfalli virðisaukaskatts, en engu að síður fengið fullar bætur kæmi til tjóns. Breyti útreikningsgrundvöllur iðgjalds þar engu um.
Af hálfu stefnanda sé á því byggt að vátryggingarfjárhæðin sé umsamin og samninga beri að halda. Því beri stefnda að greiða stefnanda vátryggingarfjárhæðina að fullu, að frádregnu verðmæti grunns hússins, án tillits til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Sé röksemdarfærslu þessari alfarið hafnað. Vátryggingarsamning aðila beri að sjálfsögðu að túlka í samræmi við reglur vátryggingaréttar og ákvæði laga um vátryggingarsamninga. Séu áhrif þessara reglna á útreikning bóta til stefnda rakin hér að framan. Samkvæmt reglu þessari ættu því allir þeir er tryggja eign sína réttu verði rétt til greiðslu óskertrar vátryggingarfjárhæðar við tjón, óháð því hvort um virðisaukaskattskyldan aðila sé að ræða eða ekki. Leiddi það þá til þess að virðisaukaskattskyldir aðilar myndu hagnast verulega á tjóni.
Þá er því alfarið hafnað að ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1987 takmarki rétt stefnda til frádráttar virðisaukaskatts er stefnandi getur nýtt sér sem innskatt. Eins og þegar hafi verið rakið liggi fyrir skýrar leiðbeiningar ríkisskattstjóra um heimild þessa og framkvæmd hennar. Þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi í huga að breyta nýtingu fasteignarinnar, enda sé eignin sérhönnuð sem kælihús.
Um lagarök vísist til meginreglna skaðabótaréttar, laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 og laga nr. 50/1987 um virðisaukaskatt. Krafa um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Samkvæmt vátryggingarskilmálum stefnda um brunatryggingar húseigna gilda lög nr. 20/1954 um vátryggingasamninga ef eigi leiðir annað af skilmálum félagsins eða öðrum ákvæðum vátryggingarsamnings.
Aðilar málsins eru nú sammála um að við uppgjör bóta vegna tjóns stefnanda beri að miða við brunabótamat eignarinnar á tjónsdegi, 9.077.000 krónur.
Lýtur því eini ágreiningur málsaðila að því hvort við ákvörðun tjóns og uppgjör bóta sé stefnda heimilt að draga frá bótafjárhæð virðisaukaskatt vegna endurnýjunar eignarinnar, sem stefnandi getur væntanlega nýtt sér sem innskatt.
Samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga er það meginregla að tjónþoli eigi rétt á að fá raunverulegt tjón sitt bætt. Er ekki ráð fyrir því gert að tjónþoli geti hagnast á tjónsatburði. Segir í 39. gr. laga um vátryggingarsamninga að enda þótt umsamið sé á annan veg sé félaginu óskylt að greiða hærri bætur en með þarf til þess að bæta tjón það, sem orðið hefur.
Telja verður óumdeilt í málinu að samkvæmt 15. og. 16. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt geti virðisaukaskattskyldur aðili sem verður fyrir tjóni á rekstrarfjármunum talið virðisaukaskatt vegna endurnýjunar, viðgerðar o.þ.h. til innskatts eftir almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts. Er það í samræmi við dómskjal nr. 15 í máli þessu sem eru minnisatriði um virðisaukaskatt og vátryggingar er embætti ríkisskattstjóra sendi til Sambands íslenskra tryggingafélaga í janúar 1990, en þar segir jafnframt að af frádráttarheimildinni leiði að hugsanleg bótafjárhæð miðist við kostnað án virðisaukaskatt. Kemur þetta sjónarmið einnig fram í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra sem lagt hefur verið fram í málinu. Er þar ekki gerður greinarmunur á því hvort bætur koma frá tjónvaldi eða vátryggingafélagi.
Enda þótt stefnandi hafi keypt vátryggingu ákveðinnar fjárhæðar hjá stefnda þykir ljóst af 39 gr. laga um vátryggingasamninga, að stefnda ber, þrátt fyrir það, einungis að bæta stefnanda raunverulegt tjón hans.
Af því sem fram hefur komið í málinu er stefnda rétt að draga frá tjónabótum til stefnanda þann virðisaukaskatt sem stefnandi getur, samkvæmt skattalögum, nýtt sér sem innskatt.
Stefndi hefur krafist sýknu í málinu gegn greiðslu á 39.437 krónum. Ber því, samkvæmt framansögðu, að taka þá kröfu til greina þannig að stefnda verður gert að greiða stefnanda þá fjárhæð, en hafna ber kröfu stefnanda um frekari bótagreiðslur, þar sem sýnt þykir fram á að hann hafi með þeirri greiðslu fengið raunverulegt tjón sitt bætt.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila greiði sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Guðmundi Óla Ingimundarsyni, 39.437 krónur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. málsflutningsþóknun lögmanns hans, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.