Hæstiréttur íslands
Mál nr. 621/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Miðvikudaginn 4. nóvember 2009. |
|
Nr. 621/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann. Gæsluvarðhald.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/200. Með vísan til 1. mgr. 100. gr. sömu laga var X í stað gæsluvarðhalds gert að sæta farbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 22. desember 2009 kl. 17. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að þessu slepptu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en í hinum kærða úrskurði.
Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var varnaraðili í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. júlí 2009 sakfelldur fyrir að hafa 21. maí 2009 framið nauðgunarbrot sem talið var varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Með bréfi sem barst ríkissaksóknara 15. júlí 2009 óskaði varnaraðili áfrýjunar dómsins í því skyni að fá honum hnekkt, eins og það er orðað. Ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu 16. júlí 2009. Þegar héraðsdómurinn gekk sætti varnaraðili gæsluvarðhaldi. Hafði það frá 29. maí 2009 verið reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með úrskurði 7. ágúst 2009 var gæsluvarðhaldið framlengt „þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 30. október 2009, kl. 16:00.“
Fram hafa verið lögð gögn sem sýna að ríkissaksóknari óskaði strax 16. júlí 2009 eftir dómsgerðum í máli varnaraðila í samræmi við 1. mgr. 202. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir liggur að gögnin hafa ekki borist ríkissaksóknara þó að hálfur fjórði mánuður sé liðinn frá því óskað var eftir þeim. Engin haldbær skýring er komin fram á þessum drætti. Þetta hefur meðal annars þau áhrif að málið er ekki komið á dagskrá Hæstaréttar fyrir munnlegan málflutning, sbr. 2. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008. Fram hefur komið í dómum Hæstaréttar að heimild 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, og samsvarandi ákvæðis eldri laga, til að beita gæsluvarðhaldi sé undir því komin að ekki verði óhæfilegur dráttur á meðferð máls. Sá dráttur sem orðinn er á afgreiðslu dómsgerða í máli varnaraðila er óhæfilegur, þegar höfð er hliðsjón af því að hann sætir gæsluvarðhaldi. Verður því ekki hjá því komist að fella hinn kærða úrskurð úr gildi. Með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður varnaraðila í stað gæsluvarðhalds bönnuð för frá Íslandi þann tíma sem hinn kærði úrskurður tekur til.
Dómsorð:
Varnaraðila X er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 22. desember 2009 klukkan 17.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2009.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að héraðsdómur úrskurði, með vísan til 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 22. desember 2009, kl. 17:00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 10. júlí 2009 í máli nr. S-687/2009 hafi X verið sakfelldur fyrir nauðgun, sbr. 194. gr. almennra hegningarlaga, og gert að sæta fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.
Ofangreindum dómi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu útgefinni 16. júlí sl. og hafi ríkissaksóknari óskað eftir dómsgerðum málsins frá Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi dags. s.d. Þau gögn hafi ekki borist og hafi því ekki verið unnt að útbúa ágrip til Hæstaréttar og málið sé af þeim sökum ekki komið á dagskrá hjá réttinum.
Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 23. maí s.l. og hafi hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, frá 29. maí. Að mati ákæruvaldsins krefjist almannahagsmunir þess að maður sem sakfelldur hafi verið fyrir gróft nauðgunarbrot líkt og dómfelldi, sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum.
Með vísan til framangreinds og tilvitnaðra lagaákvæða sé þess krafist að framangreind gæsluvarðhaldskrafa nái fram að ganga.
Með vísan til þess að dómfelldi hefur hlotið þungan fangelsisdóm fyrir brot á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og fram hefur komið þykir rétt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti þrátt fyrir að áfrýjun þess hafi dregist. Nauðsynlegt er með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 3. mgr. 97. gr. sömu laga, að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 22. desember 2009, kl. 17:00.