Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/2008


Lykilorð

  • Umferðarlagabrot
  • Kröfugerð
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Svipting ökuréttar


                                     

Fimmtudaginn 30. október 2008.

Nr. 226/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Einari Helga Zoëga

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Umferðarlagabrot. Kröfugerð. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Svipting ökuréttar.

 

E var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu ólögmætra ávana- og fíkniefna og fyrir að hafa haft í fórum sínum 0,31 gramm af hassi. Í dómi héraðsdóms var E dæmdur í 30 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt. Í kröfugerð ákæruvaldsins til Hæstaréttar kom fram að E skyldi einungis sæta sektum fyrir brot sitt. Við flutning málsins var upplýst að kröfugerðin hefði markast af misskilningi um að við ákvörðun refsingar hefði ekki átt að líta til sektargerðar sem E hefði gengist undir árið 2000. Með vísan til 2. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1991 var talið að ákæruvaldið væri bundið af málatilbúnaði sínum í greinargerð. E var því dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 180.000 krónur og sviptur ökurétti ævilangt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði krefst nú að honum verði einungis gerð sektarrefsing og ökuréttarsviptingu verði markaður ákveðinn tími.   

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærði þar sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir að hafa ekið bifreið 16. júní 2007 ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu ólögmætra ávana- og fíkniefna og fyrir að hafa haft í fórum sínum 0,31 gramm af hassi. Háttsemi ákærða var heimfærð til 1. mgr. 45. gr. a., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Við fyrirtöku málsins játaði ákærði sök og var farið með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt.

II

Í áfrýjunarstefnu kemur fram að málinu sé áfrýjað að ósk ákærða með vísan til a., b., c. og d. liða 147. gr. laga nr. 19/1991. Í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti kom hins vegar fram að einungis væri krafist mildunar á refsingu og að ökuréttarsviptingu yrði markaður ákveðinn tími. Væri það gert á þeim grunni að ákærði hefði ekki fundið til áhrifa fíkniefna við akstur umrætt sinn. Lágt gildi efna, sem fundist hafi við mælingar í blóði ákærða, hafi ekki skert hæfni hans til aksturs og sakarefni hefði vart leitt til saksóknar fyrir gildistöku 45. gr. a. umferðarlaga með lögum nr. 66/2006. Vísað var um það til tölvubréfs Jakobs Kristinssonar dósents til verjanda 25. júní 2008 þar sem fram kemur að styrkur hvers efnis um sig, sem mældist í blóði ákærða, hafi verið minni en svo „að hægt sé að fullyrða að það hafi skert hæfni ökumanns til aksturs bifreiðar að því marki, sem líklegt er að 0,5 prómill af alkóhóli hefðu gert.“ Þá liggi engar rannsóknir fyrir um samverkun þeirra efna sem fundust í blóði ákærða og því sé ekkert hægt að segja um heildaráhrif þeirra. Ákærði kvaðst hins vegar ekki vefengja niðurstöður matsgerðar nefnds Jakobs og  Guðlaugar Þórsdóttur læknis, sem raktar eru í hinum áfrýjaða dómi, um magn fíkniefna í blóði og þvagi. Í matsgerð var niðurstaða sú að ákærði hafi talist óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, þegar sýnin voru tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, má enginn stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði eftir lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Mælist ávana- og fíkniefni samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins í blóði eða þvagi ökumanns telst hann vera undir áhrifum slíkra efna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með þessu hefur löggjafinn ákveðið að litið skuli svo á að þannig sé komið fyrir ökumanni, sem um ræðir í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga óháð mati eftir öðrum forsendum á því hvort hann sé í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ekki er á valdi dómstóla að hreyfa við þessari ákvörðun löggjafans, sbr. hér einnig dóma Hæstaréttar 31. janúar 2008 í máli nr. 490/2007 og 19. júní 2008 í máli nr. 260/2008. Verður því ekki fallist á málsvörn ákærða er að þessu lýtur.

III

Af hálfu ákæruvalds var málinu áfrýjað „til staðfestingar á sakfellingu samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og til sviptingar ökuréttar“, eins og segir í áfrýjunarstefnu. Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar segir síðan að þess sé krafist „að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, ákvörðuð refsing og dæmdur til að sæta ökuréttarsviptingu.“ Til skýringar á þessari dómkröfu var í greinargerðinni tilgreint það mat ákæruvalds að brot ákærða kynnu að varða sektum. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu ákæruvalds að kröfugerð þess samkvæmt áfrýjunarstefnu og greinargerð hefði borið að skilja svo að ákærði skyldi einungis sæta sektum fyrir brot sitt. Sú kröfugerð hefði hins vegar markast af þeim ranga skilningi við ritun greinargerðar að við ákvörðun refsingar bæri ekki að líta til sektargerðar sem ákærði gekkst undir hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 14. apríl 2000. Væru þessi mistök nú leiðrétt og hafa bæri það í huga þegar endanleg kröfugerð ákæruvalds væri metin. Krafist væri staðfestingar á ákvörðun refsingar samkvæmt hinum áfrýjaða dómi.

Við meðferð opinberra mála verða ekki dæmdar aðrar kröfur á hendur ákærða en þær sem ákæruvald gerir, en samkvæmt c. lið 1. mgr. 153. gr. laga nr. 19/1991 skal í áfrýjunarstefnu tilgreina nákvæmlega í hverju skyni áfrýjað sé. Af eðli máls leiðir, að ákæruvaldið getur fallið frá eða dregið úr kröfum sem áður hafa verið gerðar og verða þá ekki aðrar kröfur dæmdar en þær sem eftir standa. Samkvæmt 2. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1991 skal í greinargerð málsaðila fyrir Hæstarétt meðal annars koma fram hvers hann krefjist fyrir réttinum, hvort hann felli sig við lýsingu málsatvika í héraðsdómi og röksemdir fyrir niðurstöðu, athugasemdir við málatilbúnað gagnaðila ef þeirra er þörf og hvort hann hyggist leggja fram ný gögn fyrir Hæstarétt. Tilgangur framangreindra lagaákvæða er að tryggja að málatilbúnaður aðila sé eins skýr og kostur er og að þeim sé unnt að átta sig á málatilbúnaði gagnaðilans. Er sérstaklega mikilvægt að málatilbúnaður ákæruvalds sé svo skýr að tryggt sé að ákærði hafi tækifæri til að undirbúa vörn sína með fullnægjandi hætti. Með hliðsjón af tilgangi ofangreinds lagaákvæðis verður talið að ákæruvaldið sé bundið af málatilbúnaði sínum í greinargerð fyrir Hæstarétti.

Eins og áður greinir var ákærði með hinum áfrýjaða dómi dæmdur til lágmarksfangelsisvistar samkvæmt 1. mgr. 34. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að ákæruvaldið krefjist mildunar refsingar frá því sem dæmt var í héraði. Samkvæmt því verður ákærði einungis dæmdur til greiðslu sektar, 180.000 krónur, sem honum ber að greiða innan fjögurra vikna en sæta ella vararefsingu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Sakarferill ákærða er rakinn í héraðsdómi og verður niðurstaða dómsins staðfest um ökuréttarsviptingu samkvæmt 3. mgr. 101. gr. og 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. og 71. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Samkvæmt framansögðu er hafnað málflutningi ákærða fyrir kröfu hans um mildun refsingar Sú ákvörðun ræðst af málflutningi ákæruvalds fyrir réttinum. Með vísan til þess verður ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ákæruvalds, þar með talinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Einar Helgi Zoëga, greiði 180.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 258.698 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. febrúar 2007.

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn í Borgarnesi með ákæru 26. nóvember 2007 á hendur ákærða, Einari Helga Zoega, kt. 131276-4359, Tjarnarstíg 6 á Seltjarnarnesi. Málið var dómtekið 22. janúar 2008.

   Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir umferðarlagabrot og brot á lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, en ákærða er gefið að sök „að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. júní 2007, ekið bifreiðinni MY-116, ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu ávana- og fíkniefna sem bönnuð er skv. lögum um ávana- og fíkniefni eða reglugerðum skv. þeim (magn amfetamíns í blóði 55 ng/ml, magn kókaíns í blóði 20 ng/ml magn tetrahýdrókannabínóls í blóði 0,9, í þvagi fundust einnig metamfetamín og MDMA), eftir Vesturlandsvegi frá Reykjavík áleiðis til Akureyrar, þar til á vegkafla á Borgarbraut við Sandvík, Borgarbyggð, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn, og með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. júní 2007, haft í fórum sínum 0,31 grömm af hassi sem fundust undir öskubakka í bifreiðinni MY-116 við leit lögreglu sem fram fór eftir að Einar Helgi var handtekinn vegna fíkniefnaakstursins.

Telst þetta varða við 1. mgr. 45. gr. a., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, nr. 233/2001, sbr.  reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga.“

Í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 16. júlí 2007 kemur fram að amfetamín, metamfetamín, MDMA, kókaín og kannabínóíðar hafi fundist í þvagi ákærða. Í blóði hans hafi mælst amfetamín 55 ng/ml, kókaín 20 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,9 ng/ml. Metamfetamín og MDMA hafi ekki verið í mælanlegu magni í blóði. Fram kemur að amfetamín, metamfetamín, MDMA og kókaín séu ávana- og fíkniefni með örvandi verkun á miðtaugakerfið. Heimilt sé að nota amfetamín sem lyf. Amfetamín geti komið fyrir sem umbrotsefni metamfetamíns. Tetrahýdrókannabínól sé hið virka efni í kannabis. Amfetamín, metamfetamín, MDMA, kókaín og tetrahýdrókannabínól séu í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil séu á íslensku forráðasvæði. Ökumaður teljist því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóðsýni hafi verið tekið, sbr. 45. gr. a. umferðarlaga.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði hefur tvisvar sinnum gengist undir viðurlög með lögreglustjórasátt, annars vegar 13. apríl 1998 vegna fíkniefnabrots og hins vegar 14. apríl 2000 vegna brots gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun 1. apríl 2003 vegna brots gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Með broti sínu nú hefur ákærði í þriðja sinn gerst sekur um akstur undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna.

Refsing ákærða þykir að brotum hans virtum hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi.

Þá þykir rétt, svo sem krafist er í ákæru og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála skal dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ákærði dæmist því til að greiða 194.509 krónur vegna töku blóð- og þvagsýnis og öflunar matsgerðar og þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar, héraðsdómslögmanns, er hæfilega þykir ákveðin 55.776 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Samtals verður ákærða því gert að greiða 250.285 krónur í sakarkostnað.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Einar Helgi Zoéga, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er svipur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði í sakarkostnað 250.285 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar, héraðsdómslögmanns, 55.776 krónur.