Hæstiréttur íslands
Mál nr. 319/2014
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Fyrning
- Gjafsókn
Bifreiðar. Líkamstjón. Skaðabætur. Fyrning. Gjafsókn.
B höfðaði 7. nóvember 2012 skaðabótamál á hendur A og ábyrgðartryggjandanum V hf. vegna líkamstjóns sem hún taldi mega rekja til umferðarslyss 24. maí 2006. Talið var að gögn málsins bæru með sér að orsakatengsl væru milli þess líkamstjóns sem B krefðist bóta fyrir og umferðarslyssins. Þá var talið að krafa B hefði við málshöfðun ekki verið fallin niður fyrir fyrningu eftir ákvæðum 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem mælti fyrir um fjögurra ára fyrningarfrest, enda veittu gögn málsins, einkum sérfræðilegt álit tveggja manna sem staðfest var fyrir héraðsdómi, sterka vísbendingu um að áverkar B hefðu verið þess eðlis að hún hefði ekki fyrr en á árinu 2010 getað gert sér grein fyrir að hún hefði hlotið þau varanlegu mein af slysinu sem um ræddi. Var V hf. og A óskipt gert að greiða B skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 12. maí 2014. Þau krefjast sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar úr hennar hendi í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að gögn málsins beri með sér að orsakatengsl séu milli þess líkamstjóns er stefnda krefst bóta fyrir og umferðarslyssins 24. maí 2006.
Aðila greinir á um hvort krafa stefndu hafi fallið niður vegna reglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um fjögurra ára fyrningarfrest. Við úrlausn þess hvenær stefnda fékk vitneskju um kröfu sína annars vegar og hvenær hún átti þess fyrst kost á að leita fullnustu hennar hins vegar verður ekki eingöngu litið til huglægrar afstöðu hennar, en bæði skilyrðin þurfa að vera fyrir hendi til að fjögurra ára fyrningarfresturinn hefjist, sbr. dóma Hæstaréttar 29. janúar 2009 í máli nr. 71/2008 og 2. apríl 2009 í máli nr. 418/2008. Eins og fram kemur í síðargreindum dómi ræðst upphaf þessa fyrningarfrests þó ekki af því hvenær heilsufar tjónþola var orðið stöðugt, enda er það tímamark ákveðið afturvirkt út frá læknisfræðilegu mati á bata hans.
Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin helstu atriði í þeim læknisfræðilegu gögnum sem varða stefndu, þar á meðal læknisvottorð C heimilislæknis 3. ágúst 2012. Í því vottorði kom meðal annars fram að fyrstu samskipti hans við stefndu vegna slyssins 24. maí 2006 hafi verið 10. júlí sama ár. Hann hafi þá ávísað til stefndu bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum. Stefnda hafi svo ekki kvartað við sig um bakverk fyrr en 3. febrúar 2010, en í framhaldi af því hafi hann sent hana til sjúkraþjálfara. Þá er í héraðsdómi rakið sérfræðilegt álit tveggja manna 27. september 2012 samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með þeirri niðurstöðu að stefnda hafi ekki fyrr en í febrúar 2010 mátt gera sér grein fyrir varanlegum einkennum vegna umferðarslyssins. Annar hinna sérfróðu manna er látinn, en hinn, D sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum, gaf skýrslu fyrir dómi. Við þá skýrslugjöf áréttaði vitnið ítrekað framangreinda niðurstöðu álitsins, meðal annars með vísan til þess að breytingar á högum stefndu hafi kallað á meðferð sjúkraþjálfara samkvæmt læknisráði í byrjun árs 2010. Út frá einkennum stefndu hafi hún ekki fyrr en um líkt leyti mátt átta sig á varanleika áverka sinna. Veita gögn málsins, einkum hið sérfræðilega álit sem hefur eins og áður greinir verið staðfest fyrir dómi, sterka vísbendingu um að áverkar stefndu hafi verið þess eðlis að hún hafi ekki fyrr en á árinu 2010 getað gert sér grein fyrir að hún hafi hlotið þau varanlegu mein af slysinu sem um ræðir. Að þessu sérstaklega gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður talið að atvik séu með þeim hætti að við höfðun málsins hafi krafa stefndu ekki verið fallin niður fyrir fyrningu eftir ákvæðum 99. gr. umferðarlaga.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað stefndu fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 700.000 krónur.
Áfrýjendur, Vátryggingafélag Íslands hf. og A, greiði sameiginlega 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2014.
Mál þetta sem dómtekið var 3. febrúar sl. var höfðað 7. nóvember 2012 af hálfu B […] á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík og A, […], til greiðslu skaðabóta, vaxta og málskostnaðar.
Endanleg dómkrafa stefnanda er að stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og A, verði dæmd óskipt (in solidum) til að greiða stefnanda 4.998.280 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 24. maí 2006 til 28. október 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðaryfirliti.
Dómkröfur stefndu eru aðallega þær að stefndu verði sýknuð af kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr stefnanda hendi að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Þann 24. maí 2006 var stefnandi, sem þá var 23 ára, ökumaður bifreiðarinnar […], sem tryggð var hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Varð hún fyrir því að ekið var aftan á bifreiðina, þegar hún var kyrrstæð á rauðu ljósi, á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Bifreiðin […], sem ekið var á bifreiðina sem stefnandi ók, var á tjónsdegi í eigu stefndu A og tryggð hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.
Stefnandi leitaði tveimur dögum síðar, þann 26. maí 2006, á slysadeild Landspítalans vegna verkja í baki og hnakka og var greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg og tognun og ofreynslu á brjósthrygg. Hún fékk ávísað bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum og var heimilislækni hennar, C, á það bent í læknabréfi slysadeildar, að rétt væri að hún fengi sjúkraþjálfun eftir tvær til þrjár vikur ef einkenni væru enn til staðar. Fór stefnandi heim að skoðun lokinni og var eftirlit í höndum heimilislæknis eftir þörfum. Stefnandi hafði símasamband við heimilislækni sinn 10. júlí 2006 og fékk þá ávísað meiri bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum.
Stefnandi var að ljúka námi þegar óhappið varð en hóf síðar störf við […]. Hún fór til heimilislæknis í mars 2007 en var að öðru leyti aðeins í símasambandi við hann. Stefnandi leitaði ekki til annarra lækna vegna áverkanna, en fór til heimilislæknisins 3. febrúar 2010. Skráði hann þá að koman væri vegna bakverkjarins, sem komið hefði í kjölfar bílslyssins og truflaði svefn, þannig að hún þyrfti að komast í sjúkraþjálfun. Í beiðni heimilislæknisins til sjúkraþjálfara kemur fram að stefnandi hafi lent í aftanákeyrslu í maí 2006. Þá ætlunin að færi í sjúkraþjálfun en af því gat ekki orðið. Nú er farið að há henni með verkjum og stirðleika í hálsi og herðum og niður brjósthrygg. Stefnandi fór í sjúkraþjálfun í alls sjö skipti frá 8. til 25. febrúar 2010 og var niðurstaða um árangur meðferðar sú að hann væri viðunandi, minni spenna og eymsli í baki. Stefnandi leitaði í kjölfarið til lögmanns sem sendi hana til skoðunar bæklunarlækna og taugalæknis.
Samkvæmt læknisvottorði E bæklunarskurðlæknis dagsettu 9. maí 2012 er stefnandi greind með tognun á hálshrygg, lendhrygg og brjósthrygg. Haft er eftir stefnanda að um aftanákeyrslu hafi verið að ræða á litlum hraða. Verkur hafi verið í mjóbaki sem sé enn til staðar. Stefnandi vinni sem […] í fullu starfi og hafi gert frá 2007. Stefnandi kvarti yfir verkjum við áreynslu og svefntruflunum vegna verkja í baki og hálsi, hún eigi erfitt með að skúra og ryksuga en hafi verið hraust fyrir slysið. Er niðurstaða E sú að ekki megi búast við frekari bata og að einkennin séu komin til að vera.
Samkvæmt læknisvottorði F bæklunarskurðlæknis, dagsettu 18. júní 2012, varð stefnandi fyrir varanlegu líkamstjóni í slysinu. Annars vegar mjög vægri tognun á hálsi sem hún sé einkennalaus vegna í dag. Hins vegar sé um að ræða tognun í baki sem síðan hafi háð henni. Telur F að ekki hafi verið um neinn bata að ræða í bakinu lengi og ekki sé að búast við frekari bata úr þessu. Telur F tímabært að meta afleiðingarnar.
Samkvæmt læknisvottorði G heila- og taugaskurðlæknis dagsettu 17. júlí 2012 hefur stefnandi allt frá slysinu glímt við viðvarandi verki sem herji á brjóstbak og lendhrygg. Er það niðurstaða G að stefnandi hefði fengið tognun í hrygg við aftanákeyrslu 2006 og hafi haft viðvarandi einkenni neðst í brjósthrygg og lendhrygg. Óþægindin séu álagsbundin og sjúkraþjálfun og nudd hafi litlu skilað. Stefnanda finnist einkennin hafa versnað síðustu misseri. Álagsbundnir verkir neðst í brjóstbaki og lendhrygg séu afleiðingar slyssins og varðandi framtíðarhorfur sé nú, sex árum eftir slysið, ekki að vænta neins bata.
Samkvæmt læknisvottorði C heimilislæknis 3. ágúst 2012 er ekki getið um nein stoðkerfiseinkenni í sjúkraskrá stefnanda fyrir slysið.
Þann 16. ágúst 2012 fór lögmaður stefnanda þess á leit að H, lögfræðingur og sérfræðingur í líkamstjónarétti, og D, læknir og sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum mætu líkamstjón hennar. Þeir þættir sem óskað var mats á eru: Tímabil tímabundins atvinnutjóns, þjáningabætur, varanlegur miski, varanleg örorka og stöðugleikatímapunktur. Þá var spurt hvaða læknisfræðilegum áverkum, andlegum og líkamlegum, hún hafi orðið fyrir í tjónsatburðinum. Hvað miska varði var bæði spurt um læknisfræðilegar afleiðingar og afleiðingar m.t.t. þeirra erfiðleika sem líkamstjónið hafi í daglegu lífi. Einnig var spurt hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar líkamstjónsins og hvenær tjónþoli hafi fyrst fengið vitneskju um kröfu sína og fyrst átt þess kost að leita fullnustu hennar.
Matsgerð þeirra lá fyrir 27. september 2012. Töldu matsmenn stefnanda hafa tognað í háls- og brjósthrygg í slysinu. Engin sérstök meðferð hafi átt sér stað og engin sé fyrirhuguð. Segja matsmenn að almennt séð verði að gera ráð fyrir því að fyrst hafi verið tímabært leggja hlutlægt mat á eðli líkamstjónsins vegna afleiðinga umferðarslyssins, hvað tjónþola varði og aðra tjónþola sem verði fyrir sama líkamstjóni og ekki búi við fyrra heilsufar sem máli skipti, þegar um eitt ár sé liðið frá tjónsatburði, eða þann 24. maí 2007. Sé þá horft til tognunareinkenna.
Matsmenn töldu að ekki væri að vænta frekari bata á heilsufari þegar þrír mánuðir voru liðnir frá slysinu (stöðugleikadagur), þ.e. 24. ágúst 2006. Af framlögðum gögnum sé ekki að sjá að neinn bati sem skipt hafi máli hafi náðst eftir það. Ekki var talið að um neitt tímabundið atvinnutjón hefði verið að ræða eða rétt til bóta fyrir þjáningar. Varanlegur miski var talinn 7 stig.
Matsmenn töldu rétt að meta varanlega örorku að álitum og var hún metin 7%. Í umfjöllun matsmanna um þennan lið kemur fram að stefnandi hafi frá slysinu ákveðin einkenni í hálsi og brjóstbaki sem trufli daglegt líf, m.a. í starfi sem […]. Virðist einkum auka- og yfirvinna vera henni erfið sem og sumarvinna þegar hún sé í fríi frá aðalstarfi, en ekki sé um að ræða fjarveru úr vinnu vegna einkennanna.
Niðurstaða matsmanna um það hvenær þeir teldu að stefnandi hefði fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar var, að það hefði verið á árinu 2010, eftir að sjúkraþjálfun hafi verið reynd með takmörkuðum árangri í lok febrúar 2010. Um þá niðurstöðu vísa matsmenn til þess að stefnandi hefði vonast til að einkennin myndu ganga til baka með tímanum og því hafi eina meðferðin verið að taka verkja- og bólgueyðandi lyf. Það hafi svo verið vegna aukins álags í vinnu og minni endurhæfingar á sama tíma sem einkenni í baki hafi aukist og þá hafi hún leitað sjúkraþjálfunar. Nefna matsmenn einnig sem rök fyrir þessari niðurstöðu að stefnandi hafi verið 23 ára á tjónsdegi og hafi ekki áður lent í slysum.
Lögmaður stefnanda gerði kröfu á hendur stefnda VÍS, þann 28. september 2012 sem hafnað var með bréfi 23. október 2012 þar sem krafan var talin fyrnd á grundvelli fyrningareglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndu telja upphaf fjögurra ára fyrningarfrests ákvæðisins vera við árslok 2007, þar sem tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins í maí 2007.
Stefnandi telur að hún hafi fyrst fengið vitneskju um tjón sitt, það er varanlega áverka eftir slysið, árið 2012, eftir að hafa farið til bæklunarlækna og taugalæknis. Í fyrsta lagi hafi hún fengið þessa vitneskju árið 2010, innan fjögurra ára fyrir málshöfðun. Aðilar deila því um það hvort krafan sé fyrnd eða ekki, en auk þess hafna stefndu kröfum stefnanda með vísun til þess að orsakatengsl líkamstjóns og slyssins séu ósönnuð.
Stefnandi kom fyrir dóm og gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá bar annar matsmanna, D læknir, vitni í síma við aðalmeðferðina.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggi dómkröfu sína á bótakafla umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 88. gr., 90. gr. og 97. gr. laganna. Stefnandi byggi fjárhæð dómkröfu sinnar á matsgerð H og D og almennum reglum skaðabótaréttar, sem og ákvæðum skaðabótalaga, nr. 50/1993.
Samkvæmt matsgerðinni sé miski stefnanda metinn til 7 stiga og varanleg örorka hennar 7%. Krafa um skaðabætur sé sundurliðuð á eftirfarandi hátt.
Varanlegur miski sé þannig metinn samkvæmt framlögðu sérfræðimati:
Einkenni í brjósthrygg 5 stig
Einkenni í hálsi 2 stig
Samtals 7 stig
Varanleg örorka samkvæmt framlögðu sérfræðimati:
Matsmennirnir H og D telji varanlega örorku stefnanda vegna afleiðinga umferðarslyssins 24. maí 2006 rétt metna að álitum 7%.
Í stefnu var gerð dómkrafa um bótafjárhæðina 5.264.299 krónur, en samtala einstakra kröfuliða í tölulegri útlistun í stefnu er 5.327.299 krónur. Í greinargerð stefndu var útreikningi dómkröfu stefnanda mótmælt og talið að lækka bæri fjárhæð hennar um a.m.k. 266.019 krónur. Lögmaður stefnanda féllst á kröfu stefndu um lækkun dómkröfunnar um þessa fjárhæð og lýsti því yfir við málflutning að endanleg dómkrafa stefnanda væri að fjárhæð 4.998.280 krónur.
Stefnandi bendi á að hún hafi fyrir 3. febrúar 2010 vissulega fundið fyrir einkennum í hálsi og baki, en hafi lifað í þeirri von að þeir áverkar myndu ganga til baka með tímanum. Stefnandi hafi getað haldið verkjunum bæði í hálsi og baki í skefjum með verkjalyfjum, hreyfingu og líkamsrækt. Af þeim sökum hafi stefnandi talið að áverkarnir myndu ganga til baka og að varanlegt tjón væri ekki fyrir hendi. Það sé svo ekki fyrr en vorið 2012 sem stefnandi hafi leitað til bæklunar- og taugalækna. Samkvæmt matsgerð H og D miði matsmenn við að stefnandi hafi ekki getað gert sér grein fyrir varanlegum afleiðingum umferðarslyssins 24. maí 2006 fyrr en eftir 25. febrúar 2010, eftir að hafa reynt sjúkraþjálfun með takmörkuðum árangri. Þann dag hafi stefnandi öðlast vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Stefnandi hafi haft samband við heimilislækni sinn vegna umferðarslyssins þann 10. júlí 2006, en þá hafi heimilislæknirinn ekki gefið stefnanda fyrirmæli um sérhæfða meðferð. Sé því ekki hægt að fallast á það með stefndu að miða beri við daginn sem stefnandi hafi leitað til heimilislæknis vegna áverka sinna í kjölfar umferðarslyssins. Stefnandi hafi vonast eftir og talið, að þau einkenni sem hún hafi fundið fyrir strax í kjölfar umferðarslyssins 24. maí 2006, myndu ganga til baka með tíð og tíma. Stefnandi hafi því ekki farið í neina sérstaka meðferð vegna einkenna sinna fyrr en í febrúar 2010. Þá hafi stefnandi fundið fyrir auknum einkennum, sökum aukins álags í vinnu og minni endurhæfingar. Heimilislæknir stefnanda hafi þá vísað henni í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Beri því að miða við það að stefnandi hafi fyrst áttað sig á því að hún ætti kröfu vegna varanlegs líkamstjóns 25. febrúar 2010 og miða fyrningarfrest kröfu hennar við þann dag. Slíkt sé mat sérfræðimatsmanna sem báðir hafi mikla reynslu af mati á líkamstjónum.
Stefnandi byggi kröfu sína enn fremur á því, að ganga megi lengra í röksemdafærslu og halda því fram að hún hafi ekki átt þess kost að leita kröfu sinnar, fyrr en hún hafi fengið álit E bæklunarskurðlæknis og F bæklunarlæknis um að hún hefði hlotið varanlegt mein í umferðarslysinu 24. maí 2006, sem hafi ekki verið fyrr en sumarið 2012.
Byggi stefnandi einnig á því að útilokað sé í þessu máli, samkvæmt eðli máls og meginreglum laga, að miða upphaf fyrningarfrest samkvæmt 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga við stöðugleikadag samkvæmt skaðabótalögum, þar sem ljóst sé að enginn tjónþoli sendi tryggingafélagi sínu kröfur sínar um bætur eftir svo skamman tíma frá slysi, heldur verði að miða við hvenær stefnandi hafi fyrst fengið vitneskju um að um varanlega áverka væri að ræða og hún hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Það hafi ekki verið fyrr en í fyrsta lagi sumarið 2012, þegar stefnandi hafi leitað til bæklunarlækna, ellegar í ársbyrjun 2010, þegar henni hafi verið vísað í sjúkraþjálfun. Byggi stefnandi á því, að orðalag 99. gr. umferðarlaga á þessa leið fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, sé í samræmi við kröfugerð hennar í málinu og að með engu móti sé hægt að miða við stöðugleikadag, sem ákvarðaður hafi verið 24. ágúst 2006, aftur í tímann.
Þá verði einnig að miða við, að hún hafi ekki verið nema 23 ára við slysið og ekki farin að reyna til ýtrasta á sinn líkamlega styrk við vinnu. Tryggingafélög hafi í slíkum tilvikum beðið um að áverkar verði ekki metnir fyrr en nokkuð sé liðið frá tjónsatburði, sérstaklega þegar um unga tjónþola sé að ræða. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnist bótakröfur á hendur þeim sem ábyrgð beri og vátryggingafélagi á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fái vitneskju um kröfu sína og eigi þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Fyrningarfrestur bótakröfu vegna líkamstjóns byrji ekki að líða, fyrr en tjónþoli geri sér grein fyrir því að áverkar eftir slys séu varanlegir, en þá eigi tjónþoli þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar sbr. 99. gr. umferðarlaga. Þetta sjónarmið komi fram í hrd. nr. 615/2007, hrd. nr. 661/2007, hrd. nr. 259/2008 og hrd. nr. 536/2008. Samkvæmt þessum hæstaréttardómum sé miðað við það hvenær sérfræðingur, annaðhvort í bæklunarskurðlækningum eða taugalækningum, greini varanlegan áverka. Stefnandi telji að samkvæmt framansögðu hafi fyrningarfrestur kröfu hennar hafist í maí 2012 eða í júní 2012. Að öðrum kosti verði miðað við almennan fyrningarfrest kröfu, sem fram komi í 99. gr. umferðarlaga, það er að krafan fyrnist á 10 árum frá tjónsdegi.
Samkvæmt greinargerð með ákvæði 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, miðist upphaf fyrningarfrests skaðabótakrafna um líkamstjón utan samninga við þann dag, er tjónþoli fái nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt. Með þessu ákvæði hafi fyrri fyrningarlögum verið breytt, en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda hafi verið miðað við þann tímapunkt er krafan hafi orðið gjaldkræf. Í greinargerð með ákvæði 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, segi að fyrir komi að tjón eða umfang tjóns komi ekki í ljós fyrr en síðar. Af þeim sökum sé opnuð heimild fyrir því að miða fyrningarfrest skaðabótakrafna utan samninga fyrir líkamstjón við þann tíma, er umfang tjóns verði tjónþola ljóst. Um sé að ræða almennar reglur um fyrningu samkvæmt kröfurétti, sem séu í samræmi við ákvæði 99. gr. umferðarlaga og framangreinda hæstaréttardóma. Í þessu máli verði umfang tjóns ekki ljóst fyrr en í fyrsta lagi þegar stefnandi hafi hafið sérhæfða meðferð vegna einkenna í kjölfar umferðarslyssins 24. maí 2006 með sjúkraþjálfun 25. febrúar 2010, en að öðrum kosti þegar stefnandi hafi leitað álits bæklunarlækna sumarið 2012. Beri að miða fyrningarfrest kröfu stefnanda við annan þessara tveggja daga.
Stefnandi vísi til þeirra lagareglna sem að framan séu raktar og til almennra reglna skaðabótaréttar og ákvæða skaðabótalaga, nr. 50/1993, með síðari breytingum. Þá sérstaklega 1. – 7. gr. skaðabótalaga um bótakröfu stefnanda og til 10. gr. skaðabótalaga varðandi sérfræðimatið sem hann byggi kröfur sínar á. Þá vísi stefnandi til bótakafla umferðarlaga. Stefnandi vísi þannig til 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og 90. gr. sömu laga um bótarétt sinn, og til 99. gr. umferðarlaga varðandi upphaf fyrningarfrests bótakröfu sinnar. Stefnandi vísi að auki til ákvæðis 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, og greinargerðar með því ákvæði um upphaf fyrningarfrests bótakröfunnar. Krafa stefnanda um vexti sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga og 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað sé reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu bendi á að um sönnun í málinu fari eftir almennum sönnunarreglum skaðabótaréttar og af þeim leiði að sönnunarbyrðin sé hjá stefnanda um að hafa orðið fyrir því tjóni sem stefnukrafan hljóði um. Nái það bæði til þess að sanna meiðsl vegna umferðaróhappsins, að orsakatengsl séu á milli þess og einkenna í dag, sem og um umfang hins meinta tjóns. Stefnandi verði því að færa sönnur á þær kröfur sem hún haldi fram og þau rök sem hún telji vera fyrir þeim. Takist slík sönnun ekki komi ekki til bótaábyrgðar stefndu í málinu.
Stefndu byggi sýknukröfu sína á því, að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir því tjóni sem bóta sé krafist vegna, enda sé ekki fyrir að fara neinum orsakatengslum á milli þeirra meintu áverka sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir og umrædds atviks. Matsgerðinni sé mótmælt sem sönnun á slíkum orsakatengslum.
Af málsgögnum sé ljóst að stefnandi hafi hvorki leitað lækna né læknismeðferða vegna einkenna fyrr en löngu eftir umferðaróhappið og því sé ósannað að tengsl séu þar á milli. Eina koma stefnanda til læknis vegna umferðaróhappsins hafi verið á slysadeild tveimur dögum síðar þar sem hún hafi verið greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg. Hafi henni verið leiðbeint um sjúkraþjálfun ef verkir löguðust ekki. Ekki hafi verið um frekari læknisheimsóknir að ræða og ósannað sé að símtal stefnanda við heilsugæslu um einum og hálfum mánuði síðar tengist atvikinu, enda sé þar ekki getið um slíkt eða ráðlagðar frekari verkjameðferðir.
Það sé svo ekki fyrr en tæpum fjórum árum síðar að stefnandi fari í sjúkraþjálfun (febrúar 2010) og svo rúmlega tveimur árum eftir það að hún leiti til læknis (maí 2012). Stefndu telji ósannað og í raun mjög ólíklegt að samhengi sé á milli þessa og umferðaróhappsins, enda sé það ólíklegt í ljósi þess að svo langur tími hafi liðið á milli.
Stefndu bendi á að verkir eins og þeir sem stefnandi lýsi séu alls ekki sértækir heldur almennir og geti stafað af ýmsum ástæðum öðrum en umferðaróhappi. Það þurfi ekki að hafa komið til sérstakra atvika í lífi stefnanda til að slík einkenni geri vart við sig auk þess sem hvers konar önnur atvik en umferðaróhapp hefðu getað leitt til þess að einkenni sem þessi kæmu fram. Það sé því ósannað með öllu að þau einkenni sem stefnandi kvarti yfir í dag séu afleiðing af þeim tognunaráverka sem hún hafi hlotið við umferðaróhappið, enda eðli slíkra tognunaráverka að þeir gangi til baka og séu ekki varanlegir. Skortur á sönnun um orsakatengsl sé því augljóslega fyrir hendi.
Stefndu telji einnig ósannað og í raun mjög ólíklegt að stefnandi hafi getað orðið fyrir varanlegum áverka við að lenda í slíku minni háttar umferðaróhappi eins og því sem málið snúist um. Þegar um slíkt sé að ræða megi ganga út frá því að þeir kraftar sem virkað hafi á stefnanda hafi verið afar litlir og þar með séu hverfandi líkur á því að varanlegt líkamstjón, líkt því sem stefnandi lýsi í stefnu og byggi kröfur sínar á, hljótist af óhappinu.
Stefndu áskilji sér rétt til þess undir rekstri málsins að óska dómkvaðningar matsmanna til að meta hraða bifreiða aðila við umferðaróhappið, þá krafta sem virkuðu á líkama stefnanda og aðra þætti sem varði líkur á því að umstefnt líkamstjón geti verið afleiðing umferðaróhappsins sem málið snúist um, auk afleiðinga óhappsins ef einhverjar eru.
Ekkert varð af frekari gagnaöflun af hálfu stefndu við rekstur málsins.
Sýknukrafa stefndu sé byggð á því, verði ekki fallist á framangreint, að umstefnd bótakrafa stefnanda á hendur stefndu hafi, áður en mál þetta var höfðað, fallið niður fyrir fyrningu samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Bótakrafa stefnanda sé reist á bótareglum umferðarlaga nr. 50/1987. Óumdeilt sé því að um fyrningu kröfunnar fari eftir ákvæðum 99. gr. laganna. Um sé að ræða sérreglu sem gildi um fyrningu skaðabótakrafna sem eigi rætur í XIII. kafla (fébótakafla) laganna og eigi því almennar reglur um fyrningu kröfuréttinda samkvæmt fyrningarlögum ekki við. Umfjöllun í stefnu um fyrningarreglur laga nr. 150/2007 eigi ekki við í þessu máli.
Í 99. gr. umferðarlaga segi að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi hafi fengið vitneskju um kröfu sína og eigi þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfurnar fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatviki. Í þessu felist að fjögurra ára fresturinn sé virkur og gildi innan tíu ára frestsins og verði tjónþoli að leita réttar síns innan fjögurra ára frestsins annars fyrnist krafan þó að tíu árin séu ekki liðin.
Tvö skilyrði séu sett vegna fjögurra ára fyrningartímans, annars vegar verði tjónþoli að hafa vitneskju um kröfuna og hins vegar verði sá tími að hafa runnið upp að hann eigi þess fyrst kost að leita fullnustu kröfunnar.
Stefndu mótmæli því sem stefnandi byggi á, að miða beri upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins við það þegar hún hafi farið í sjúkraþjálfun í febrúar 2010, og telja stefndu niðurstöðu matsmanna um það vera ranga. Því síður sé hægt að miða við það, sem stefnandi byggi einnig á, að viðmiðunartími sé þegar hún hafi fyrst farið til bæklunarlæknis á árinu 2012.
Stefndu telji að beita beri hlutlægum mælikvarða á það hvenær tjónþoli teljist hafa fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Ekki beri að miða við það hvenær tjónþoli láti verða af því að leita læknis eða afla matsgerðar um afleiðingar slyssins, eins og stefnandi vilji miða við. Ef svo væri, réði stefnandi því sjálf hvenær fyrningarfresturinn hæfist. Í því sambandi sé vakin athygli á því að fyrningarákvæði 99. gr. séu ekki sett í þágu tjónþola (kröfuhafa) heldur í þágu bótagreiðanda og almannahagsmuna.
Stefndu telji það því ekki skipta máli við mat á upphafi fyrningarfrestsins, hvenær stefnandi hafi loksins ákveðið að hefjast handa við að leita bótar meina sinna með því að fara í sjúkraþjálfun, leita til sérfræðinga eða afla matsgerðar og krefjast bóta, eins og stefnandi miði við í málinu, heldur hvenær þess hafi fyrst verið kostur fyrir hana að gera eitthvað af framantöldu.
Í þeim læknisfræðilegum gögnum sem liggi fyrir í málinu komi fram að megineinkenni sem stefnandi sé talin hafa eftir óhappið sé bakverkur. Segi til að mynda í vottorði F að aðalvandamál hennar sé bakið þar sem hún hafi haft verki frá því hún hafi lent í slysinu. Sama komi fram í vottorði G en þar segi að stefnandi hafi glímt við viðvarandi verki frá slysinu. Í matsgerð sé haft eftir stefnanda að hún geri sér ekki grein fyrir því hvenær verkir í mjóbaki hafi byrjað, en telji það hafa verið sumarið eftir slysið, þ.e. sumarið 2006. Þar staðfesti stefnandi einnig að hún hefði ekkert lagast af einkennum í langan tíma, heldur hafi hún haldið að þau myndu ganga til baka.
Ljóst megi því vera að bakverkur, sem sé megineinkenni sem stefnandi telji stafa af óhappinu og megingrundvöllur að niðurstöðu matsmanna, hafi að sögn stefnanda verið til staðar hjá henni í það minnsta frá því um mitt ár 2006. Það hafi því engar nýjar og/eða auknar afleiðingar verið sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi loksins ákveðið að fara í sjúkraþjálfun. Beri málsgögn, og þá einkum matsgerðin, þetta greinilega með sér. Komi þar fram að stefnandi hafi haldið einkennum frá baki niðri með verkjalyfjum og hreyfingu. Það hafi svo verið meira álag í vinnu og minni tími til að sinna endurhæfingu, auk breytinga á vinnuaðstöðu, sem hafi valdið því að hún hafi fundið meira fyrir verkjunum en áður og þá ákveðið að fara í sjúkraþjálfun.
Megi vera ljóst að hér sé á engan hátt um að ræða ný og/eða aukin meiðsl eða einkenni vegna óhappsins heldur nákvæmlega það sama og stefnandi segi hafa háð sér allt frá því óhappið hafi orðið, eða í það minnsta frá því um sumarið 2006. Þó að stefnandi hafi síðar fundið meira fyrir verkjunum, af því að hún hafi ekki lengur sinnt því sem hafi haldið þeim niðri, þýði það ekki að eitthvað annað og meira hafi komið fram sem ekki hafi verið til staðar áður.
Stefndu bendi á að matsmenn meti það sem svo að ekki hafi verið að vænta frekari bata þegar þrír mánuðir hafi verið frá óhappinu, í ágúst 2006, enda sé ekki að sjá að eftir það hafi verið um að ræða neinn bata sem skipti máli. Einnig að matsmenn telji að tímabært hafi verið að meta afleiðingar þegar ár hafi verið liðið frá slysi, eða í maí 2007. Stefndu vísi á bug hugleiðingum matsmanna um að þrátt fyrir þetta hafi stefnandi ekki mátt gera sér grein fyrir varanlegum afleiðingum fyrr en næstum þremur árum síðar, eða í febrúar 2010. Stefndu telji að hér séu matsmenn í raun í andstöðu við niðurstöður sínar um stöðugleika og tímamark þegar tímabært hefði verið að meta afleiðingar.
Málsgögn séu hins vegar skýr um það að í raun og veru hafi engar breytingar sem máli skipta orðið á einkennum sem stefnandi telji stafa af óhappinu, frá því skömmu eftir að það hafi orðið (sumarið 2006) og þar til stefnandi hafi loks látið verða af því að fara í sjúkraþjálfun og leita til sérfræðinga. Engar haldbærar skýringar hafi heldur komið fram á því af hverju stefnandi hafi beðið svo lengi með að kanna rétt sinn. Það að verkir hefðu orðið verri vegna aukins álags í vinnu og breytinga á vinnuaðstöðu þýði ekki að um aukin og/eða ný einkenni sé að ræða sem réttlæti þennan drátt á því að stefnandi kannaði stöðu sína.
Stefndu telji ljóst af öllu framangreindu að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir kröfu sinni og átt þess fyrst kost að láta staðreyna hana og leita fullnustu hennar á þeim tíma sem matsmenn telji að tímabært hafi verið að meta afleiðingar óhappsins, í maí 2007. Fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafi því byrjað að líða um áramótin 2007/2008 og lokið í árslok 2011. Krafan hafi því verið löngu fyrnd þegar mál þetta hafi verið höfðað.
Stefndu hafni því að þeir dómar sem stefnandi vísi til hafi fordæmisgildi í þessu máli um að miða beri upphaf fyrningarfrestsins við síðara tímamark, enda málsatvik í þeim ekki sambærileg. Benda megi á að ekki hafi legið fyrir mat á því hvenær tímabært hafi verið að meta afleiðingar (H 615/2007 og 661/2007) og hafi því orðið að nota annað viðmið. Hér liggi hins vegar fyrir mat á þessu tímamarki. Í hrd. nr. 536/2008 hafi verið um að ræða afleiðingar af tveimur slysum og skipt hafi máli að tjónþoli þar hafi ekki mátt gera sér grein fyrir hvaða afleiðingar hafi verið vegna hvors slyss. Orðalag í hrd. nr. 259/2008 bendi eindregið til þess, að niðurstaðan miðist við atvik eins og þau hafi verið í því máli eingöngu, og að niðurstaðan geti verið önnur þar sem atvik séu með öðrum hætti eins, eins og í þessu máli.
Stefndu mótmæli niðurstöðum matsgerðar og telji þær of háar og stefnukröfur þar með sömuleiðis. Stefnufjárhæð sé tölulega mótmælt sem of hárri og útreikningur hennar talinn rangur.
Af hálfu stefnanda var fallist á andmæli stefndu við útreikning stefnukröfunnar og tekur endanleg dómkrafa stefnanda, sem greint er frá í kafla um dómkröfur hér að framan, mið af kröfu stefndu um lækkun stefnukröfu um 266.019 krónur.
Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt. Eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi, eða a.m.k. ekki frá fyrri tíma en mánuði frá því krafa hafi fyrst verið sett fram, 28. október 2012 (fyrsta kröfubréf dags. 28. sept. 2012).
Stefndu vísi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar, umferðarlaga, nr. 50/1987, og laga um meðferð einkamála og sé málskostnaðarkrafan byggð á 129. og 130 gr. þeirra laga.
Niðurstaða
Stefndu krefjast sýknu, annars vegar á þeim grundvelli að ósannað sé að orsakatengsl séu milli meiðsla stefnanda og umferðaróhappsins og hins vegar halda stefndu því fram að bótakrafa stefnanda á hendur stefndu hafi fallið niður fyrir fyrningu áður en mál þetta var höfðað. Ekki er ágreiningur um bótaábyrgð stefndu á afleiðingum umferðaróhappsins.
Upplýst er og viðurkennt af hálfu stefndu að tveimur dögum eftir áreksturinn var stefnandi greind með áverka sem raktir verða til slyssins. Líta verður til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um heilsufar og sjúkrasögu stefnanda og þess að ekkert hefur komið fram í málinu er bendi til þess að þau einkenni er stefnandi glímir við í dag verði rakin til annars en umferðarslyssins í maí 2006. Verður með hliðsjón af því að telja stefnanda hafa fært sönnur að því að orsakatengsl séu milli líkamstjóns þess, sem hún hlaut í umferðarslysinu 24. maí 2006 og þeirra varanlegu einkenna sem hún býr nú við og hafa verið metin til 7 miskastiga og 7% varanlegrar örorku.
Í 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er mælt fyrir um að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Jafnframt er kveðið á um að kröfurnar fyrnist í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Samkvæmt þessu hefst hinn lögmælti fjögurra ára fyrningartími við lok þess almanaksárs er tjónþoli telst hafa fengið vitneskju um kröfuna, hafi hann þá átt þess kost að leita fullnustu hennar. Bæði skilyrðin þurfa að vera fyrir hendi til þess að reglunni um fjögurra ára fyrningartíma verði beitt, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 71/2008 og nr. 418/2008. Talið verður að til hins síðarnefnda skilyrðis heyri að tjónþola hafi mátt vera orðið ljóst umfang þess líkamstjóns sem bóta er krafist fyrir, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 378/2009.
Í matsgerð læknis og lögfræðings frá 27. september 2012 kemur fram að tímabært hefði verið að meta afleiðingar tjónsins ári eftir slysið, þann 24. maí 2007. Taka matsmenn fram að almennt séð verði að gera ráð fyrir því að fyrst sé tímabært að meta afleiðingar, hvað varði tjónþola og aðra tjónþola sem verði fyrir sama líkamstjóni og búi ekki við fyrra heilsufar sem skipti máli, þegar um eitt ár sé liðið frá tjónsatburði. Þá taka matsmenn í þessu sambandi fram að þetta breyti því ekki að tjónþoli virðist ekki hafa gert sér grein fyrir varanlegum afleiðingum slyssins fyrr en nokkru síðar eða eftir 25. febrúar 2010. Þá taka matsmenn enn fremur í þessu sambandi sérstaklega fram að stöðugleikadagur breyti því ekki heldur, en matsmenn ákváðu að 24. ágúst 2006 væri stöðugleikadagur. Upphaf fyrningarfrests ræðst ekki af því hvenær heilsufar stefnanda var orðið stöðugt, enda var sá dagur ákveðinn afturvirkt út frá læknisfræðilegu mati á bata, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 418/2008.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að í matsgerðinni felist innbyrðis ósamræmi að því leyti að umrætt ákvæði umferðarlaga hafi verið túlkað þannig, að í þeim tilvikum sem staðreynt hafi verið hvenær tímabært hafi verið að leggja mat á afleiðingar slyss, þá hafi í dómaframkvæmd verið litið svo á að tjónþola hafi á þeim tíma mátt vera ljósar afleiðingar þess og hafi átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Af hálfu stefndu var við málflutning einkum vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 661/2010 um þetta atriði. Í því máli sem stefndu vísa til hafði matsmaður verið sérstaklega um það spurður hvenær hann teldi tjónþola hafa gert sér grein fyrir því að líkamstjón væri varanlegt eftir slys og svar hans var að það hefði verið sama ár og matsmenn töldu tímabært að leggja mat á varanlegar afleiðingar slyss, en það tímamark leiddi til þeirrar niðurstöðu Hæstaréttar að krafan væri fyrnd. Að því leyti eru aðstæður aðrar í máli þessu, þar sem matsmenn hafa svarað sérstakri matsspurningu um sambærilegt atriði með allt öðrum hætti. Með fyrrnefndum skýringum matsmanna í máli þessu við niðurstöðu sína um tímamarkið þegar meta hefði mátt afleiðingar slyssins, þ.e. um að niðurstaða þeirra sé almenn og breyti engu um mat þeirra á því hvenær stefnandi hafi gert sér grein fyrir því að afleiðingarnar væru varanlegar, þykir málsástæðu stefndu um að innbyrðis ósamræmi sé í matsgerðinni að þessu leyti hafa verið hrundið.
Efasemdir stefndu um sönnunargildi fyrirliggjandi matsgerðar verður að skoða í því ljósi að stefndu áttu þess kost að hnekkja henni, með því að óska eftir mati örorkunefndar, dómkvaðningu matsmanna eða með öðrum hætti, en það hafa stefndu ekki gert. Verður matsgerðin því lögð til grundvallar við úrlausn málsins.
Matsgerðin var við aðalmeðferð málsins staðfest, um annað en lögfræðileg atriði, af hálfu læknisins sem vann að henni, en löglærði matsmaðurinn er nú látinn. Upplýsti læknirinn sérstaklega fyrir dóminum á hverju matsmenn byggðu álit sitt um það hvenær þeir töldu stefnanda hafa gert sér grein fyrir því að afleiðingar slyssins yrðu varanlegar. Á því var byggt að stefnandi hefði ekki verið með mikil einkenni fyrr en meira fór að reyna á hana. Hún hafi verið send í sjúkraþjálfun og það hafi verið skoðun matsmanna að þegar árangurinn var ljós þá hefði hún átt að vera farin að gera sér grein fyrir því að einkennin væru varanleg. Læknirinn kvað ekki unnt að svara því með vissu hvort stefnandi hefði mátt gera sér grein fyrir varanleika meiðslanna fyrir þann tíma. Þá niðurstöðu að tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins eftir eitt ár kvað læknirinn byggða á því að oftast vildi læknir sjá fólk eftir eitt ár, því þá ættu afleiðingar að vera komnar fram, en hjá stefnanda hafi ekki reynt svo á þessa tognuðu líkamshluta þetta ár. Það hafi því ekki verið fyrr en seinna sem hafi farið að reyna á þetta hjá henni. Fyrir 2010 hefðu öll einkenni verið komin fram og stefnandi hafi gert sér grein fyrir því að einkennin væru afleiðingar slyssins. Algengt væri að fólk teldi að svona áverkar löguðust og sem betur fer gerðist það oftast við tognanir, en því miður ekki alltaf. Þá tók læknirinn fram að þegar sjúkraþjálfun bar ekki árangur á árinu 2010 hafi stefnandi hlotið að gera sér grein fyrir því að afleiðingar slyssins yrðu varanlegar þannig að hún sæti uppi með þær fyrir lífstíð.
Framburður stefnanda fyrir dóminum var á sömu lund um þetta atriði. Hún bar að hún hefði vonast til að einkennin myndu lagast og hefði ekki gert sér grein fyrir því, að hún hefði hlotið varanlega örorku við slysið, fyrr en eftir að einkennin versnuðu og sjúkraþjálfun hafði verið reynd árangurslaust á árinu 2010. Framburður stefnanda var trúverðugur og þykir ljóst að ástæður þess að hún leitaði sér ekki lækninga fyrr en árið 2010, heldur leitaðist við að halda einkennum í skefjum með töku verkjalyfja, voru væntingar hennar um að meiðslin myndu ganga til baka. Þegar það gekk ekki eftir var sjúkraþjálfun reynd, eins og ráðlagt hafði verið, en án árangurs.
Þótt matsmenn hafi ákveðið afturvirkt, að tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins í maí 2007, þá gat stefnanda ekki, samkvæmt fyrirliggjandi atvikum, verið það ljóst á þeim tíma að hún fengi ekki frekari bata. Að þessu virtu verður að telja að stefnanda hafi fyrst mátt vera ljóst á árinu 2010 að hún hefði hlotið varanlegt mein af slysinu og átti hún þar með kost á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Niðurstaða dómsins um þetta tímamark á sér stoð í dómum Hæstaréttar í málunum nr. 615/2007, nr. 661/2007 og nr. 378/2009.
Hinn fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hefur því ekki byrjað að líða fyrr en í árslok 2010. Málið var höfðað 7. nóvember 2012 og var fyrning því rofin innan þess fyrningarfrests sem ákveðinn er í lagagreininni. Krafa stefnanda er því ekki fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt henni. Stefnandi trúði því lengi vel að afleiðingar slyssins gengju til baka og heilsufar hennar myndi batna. Þó að nokkuð langur tími hafi liðið þar til annað kom í ljós verður ekki talið að um tómlæti af hennar hálfu hafi verið að ræða. Í ljósi alls framangreinds ber því að fallast á að stefndu beri að greiða stefnanda skaðabætur vegna afleiðinga umferðarslyss hennar þann 24. maí 2006.
Stefnandi byggir kröfur sínar á framlagðri matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, um afleiðingar slyssins. Stefnandi hefur fallist á þá tölulegu lækkun stefnukröfunnar, sem stefndu gerðu kröfu um í greinargerð og verður endanleg dómkrafa stefnanda um fjárhæð skaðabóta því tekin til greina. Stefnandi krefst vaxta á kröfu sína frá tjónsdegi, en þann dag telst krafan hafa stofnast. Fallist er á það með stefndu að vextir eldri en fjögurra ára frá málshöfðunardegi séu fyrndir samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem vísað er til í stefnu, tóku gildi 1. janúar 2008, en þau lög gilda einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku þeirra. Fallist er á kröfu stefnanda um dráttarvexti frá þeim degi er mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs. Verður stefndu gert að greiða stefnanda vexti og dráttarvexti, með vísun til 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993 og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, þannig: Frá 7. nóvember 2008 dæmast 4,5% ársvextir af 4.998.280 krónum til 28. október 2012, en frá þeim degi dæmast dráttarvextir af sömu fjárhæð til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefndu, með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 890.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013.
D Ó M S O R Ð
Stefndu Vátryggingafélag Íslands hf. og A greiði stefnanda óskipt 4.998.280 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. nóvember 2008 til 28. október 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 890.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.