Hæstiréttur íslands

Mál nr. 98/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að varnaraðila verði gert að halda sér á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars 2016 klukkan 16.                                                                                                                     

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars nk. kl. 16:00.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að klukkan 15:50 föstudaginn 5. febrúar sl. hafi mætt á lögreglustöðina [...], A, kt. [...],og tilkynnt að hún hefði fyrr um daginn orðið fyrir árás og frelsissviptingu af hálfu kærða, X, sem sé sambýlismaður hennar, á heimili þeirra að [...].

Í skýrslutöku hafi A lýst því að hún væri búin að vera í sambúð með kærða um nokkurra mánaða skeið. Hann hafi beitt hana miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi bróðurpartinn af þeim tíma eða frá því í október en þá hafi komið upp annað mál sem tilkynnt hafi verið til lögreglu. ( Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]). Hann hafi slegið hana, sparkað í hana m.a. í höfuð hennar, hárreitt hana, kýlt í síðuna á henni af og til á þessu tímabili eða fram til dagsins í dag. Hafi hann framkvæmt þetta þannig að ekki sæist á henni. Kvað hún börn sín oft hafa orðið vitni að ofbeldinu. Kvað hún hann síðustu daga hafa vænt hana um að vera í liði með mönnum sem væru að leita að honum. Þegar einn af mönnunum hafi mætti heim til hennar að leita að kærða hafi hún hringt í kærða og látið hann ræða við manninn. Kvaðst hún kærða hafa orðið mjög reiðan vegna þess og vænt hana um að vera í sambandi við umrædda menn og hafi hann í kjölfarið krafist þess að fá aðgang að fésbókarsíðu hennar sem hún hafi orðið við. Kærði hafi jafnframt haldið því fram að hann hafi séð nektarmyndir af henni á netinu en það ætti sér enga stoð. Um hádegisbilið föstudaginn 5. febrúar hafi hann byrjað að hafa í líflátshótunum við hana og ráðist á hana. Kvað hún hann hafa kýlt hana með hnefanum í síðuna og höfuðið mörgum sinnum og í eitt skiptið hafi jaxl brotnað. Síðan hafi hann sparkað í síðuna og lappirnar þar sem hún hafi legið á gólfinu. Hann hafi síðan sagt henni að setjast á stól en í hvert skipti sem hún hafi sest hafi hann sparkað í stólinn þannig að hún féll í gólfið. Hann hafi öskrað á hana að hún ætti að setjast þegar hann segði henni að setjast. Í eitt skiptið sem hún gerði tilraun til þess að flýja út úr íbúðinni hafi hann náð henni áður en hún komst út og haldið ofbeldinu áfram. Hafi hann sagt henni að ef hún reyndi að flýja myndi hún hafa enn verra af. Hann hafi svo haldið áfram að kýla hana í andlitið og höfuðið auk þess að rífa mikið í  hárið á henni. Hún kvaðst svo hafa náð að komast út úr íbúðinni en hann hefði þá náð henni á pallinum fyrir framan og gert sig líklegan til þess að kasta henni fram af svölunum þar. Hann hafi síðan dregið hana á hárinu aftur inn í íbúðina hent henni á bekk í forstofunni og kýlt hana. Hann hafi síðan sagt henni að setjast í sófann og segja sannleikann annars myndi hann brjóta myndaramma á höfðinu á henni. Þá hafi hann hótað að setja stóra eldhúspönnu í gegnum höfuðið á henni ef hún hlýddi honum ekki.

Hann hafi síðan skipað henni að fara í sturtu því hann gæti ekki farið með henni út svona útlítandi og að hún ætti að gera síg fína. Þá hafi hann sagt henni að falsa umboð til þess að hægt væri að sækja bifreið sem skráð er á föður hans  á lögreglustöðina í [...]. Kærði hafi síðan farið út meðan hún hafi verið í sturtu að skipta um dekk á bifreiðinni hennar en þegar hann hafi komið aftur  inn hafi hann orðið brjálaður þar sem hún hafi ekki verið búin að gera umboðið. Hann hafi einnig verið mjög æstur yfir því að vinkona hennar, B, sem hafi átt að skutla þeim að ná í startkapla væri ekki komin og hafi endalaust verið að biðja hana að hringja í hana. Kærði hafi síðan sagt að A yrði að spyrja B hvort hún gæti skutlað henni [...] með falsaða umboðið til þess að sækja bílinn fyrir hann. Þarna kvaðst A hafa séð flóttaleið. B hafi ekki tekið vel í það að skutla henni en  hún hafi náð að gera henni grein fyrir alvarleika málsins og hún þá fallist á það. Áður en B hafi komið hafi kærði farið með hana inn í herbergi þar sem hann vildi fá sönnun fyrir því að framangreind nektarmynd á netinu væri ekki af henni. Hafi hann skipað henni að  girða niður um sig og vildi skoða hvort rassinn á henni væri eins og á stelpunni á myndinni.  Hann hafi tekið myndir af rassi hennar og kynfærum og vildi meina að þetta væri eins. Hún hafi sagt við hann að það væri ekki rétt þar sem hún  hafi rifnað við fæðingu sonar síns. Hann hafi þá skoðað kynfæri henni með vasaljósi sem henni hafi fundist svo óþægilegt að hún fór að gráta. Hann hafi síðan beðið hana að hafa við sig við munnmök en hún bent honum á að hann hafi brotið í henni jaxl og henni væri mjög illt í munninum vegna þess og í hálsi eftir hálstak. Honum hafi verið alveg sama um það, ýtt henni niður og neytt hana til  að framkvæma munnmök gegn vilja sínum. Hún hafi reynt að fá hann ofan af því að stunda kynlíf en það hafi ekki gengið. Vegna þess hve illt henni hafi verið í munninum hafi hún beðið hann að klára með „hefðbundnum kynmökum“.  Aðspurð sagðist hún ekki hafa viljað neitt kynlíf en af tvennu illu við þessar aðstæður hafi hún frekar viljað hefðbundið kynlíf en munnmök. Hann hafi hins vegar heimtað að klára með endaþarmsmökum og hún gefið eftir með það til þess að losna úr aðstæðunum. Eftir þetta hafi hann skipað henni að fara í sturtu. Kvaðst hún hafa reynt að halda ró sinni þangað til B kæmi og hún kæmist undan kærða. Kvað hún kærða hafa haldið sér inn í íbúðinni og beitt sig framangreindu ofbeldi frá hádegi til rúmlega þrjú þegar B kom. Kvað hún [...] ára son sinn hafa orðið vitni að ofbeldinu og grátið allan tímann.

Vitnið B hafi borið í skýrslutöku hjá lögreglu að A hefði hringt í hana um tíuleytið föstudaginn 5. febrúar 2016. Hún hafi beðið B um að hjálpa sér að fá start á bílinn. Kvaðst hún hafa ekki getað sinnt þessu strax þar sem hún þurfti að gera annað. Kvaðst hún svo hafa fengið smáskilaboð frá A kl. 14.07 þar sem A bað hana um að koma eins fljótt og hún gæti heim til hennar að [...]. Kvaðst hún hafa brugðist strax við þar sem hún þekkti ástandið á heimlinu en skv. vitninu hafði A ítrekað orðið fyrir ofbeldi af hálfu kærða. Er hún hafi komið að heimilinu hafi A og kærði komið strax út að bílnum hennar. A hafi haldið á [...] árs syni sínum og hafi komið honum strax fyrir í bílstól í bíl hennar. Hafi hún tekið það sem vott um að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir A. Kærði hafi beðið hana um að skrifa sem vottur undir umboð til þess að mega sækja bíl hans á lögreglustöðina [...]. Fram hafi komið hjá vitninu að um falsað umboð væri að ræða þar sem kærði hefði verið búinn að skrifa nafn föður síns á umboðið.

B kvað að þau hefðu öll farið í bílinn til hennar og hún hefði ekið kærða á smurstöð í [...] þar sem hann hafi fengið lánaða startkapla. Þau hafi svo farið tilbaka þar sem kærði hefði yfirgefið bílinn en hafði áður fengið loforð hjá þeim að þær myndu sækja bílinn á lögreglustöðina [...].

B kvaðst strax hafa áttað sig strax á að eitthvað mikið gengi á þar sem ástand A hafi verið hrikalegt. Hún hafi svo ekið að að [...]lauginni þar sem A hafi sagt henni frá því að kærði hefði kýlt hana í aðra kinnina, þar sem hún hélt á syni sínum. Höggið hafi verið svo fast að jaxl í munni hennar brotnaði. Hann hafi svo tuskað hana til með höggum og spörkum og látið hana setjast á stól og sparkað stólnum undan henni.

B hafi sagt að A hefði einnig sagt að kærði hefði ásakað hana um að hafa sett nektarmynd af sjálfi sér á netið, sem hún hafði neitað. A hafi sýnt henni umrædda mynd af síma sínum. Myndin hafi verið af nakinni konu. Myndin hafði verið tekin aftan á konuna þannig að rass, kynfæri og bak konunnar blöstu við. A hafi sagt að kærði hefði skipað henni að fara úr fötunum, stilla sér upp í sömu stöðu og konan á myndinni og tekið myndir af henni þannig á síma hennar. A hafi svo sagt frá því að kærði hafi þvingað hana til munnmaka þrátt fyrir að hún hefði mótmælt og meðal annars sagt að hún gæti þetta ekki þar sem hann væri nýbúinn að brjóta jaxl í munni hennar. Aðspurð sagði B að A hefði verið marin og með sár á enninu. Hún hafi jafnframt verið öll lemstruð, bæði í síðunni og á hendinni.

B kvað hún hafi svo ekið A beint á lögreglustöðina [...]. Hún hafi sjálf tekið að sér son A og kvað hún barnið hefði sagt henni að kærði hefði slegið hann og og verið að lemja mömmu hans.

A hafi farið í skoðun neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Skv. vottorði þaðan lýsti hún atburðum þar á sama hátt og hún hefur gert í skýrslutöku hjá lögreglu. Í vottorði komi fram að hún sé með mar á höfði, bæði enni og hársverði og brotinn jaxl í efri góm vinstra megin. Þá sé hún með eymsli víða um líkamann sem samsvari lýsingum um barsmíðar.

Við rannsókn lögreglu á vettvangi að [...] hafi A bent lögreglu á hvar brot úr tönn sem kærði hafði slegið úr henni væri að finna. A hafði sett brotið á hillu í eldhúsinu. Meðal gagna málsins sé mynd úr síma A sem tekin hafi verið síðastliðinn föstudag kl. 12:29 og sýnir rass og læri og hendi sem er að glenna sundur rasskinnarnar. Þá var önnur mynd í símanum sem hafði verið send í hann þann 4. febrúar sl. kl. 20:42. Sú mynd  hafi sýnt beran kvenmann að aftan þannig að sást í rass, kynfæri og bakhluta.

Kærði hafi neitað sök í skýrslutökum. Í fyrri skýrslu kvað hann að einhverjir menn væru á eftir honum, aðallega vegna mála er tengjast fíkniefnum. Kvaðst hann hafa frétt að mennirnir hefðu komið heim til hans og A að leita að honum. Kvað hann þá hafi komið er hann var að tala við A í síma aðfaranótt síðastliðins föstudags og hefði A þá afhent þeim símann og þeir rifið kjaft við hann. Kvað hann A hefði látið menn lemja sig nokkrum sinnum vegna þess að hún væri afbrýðisöm og héldi oft að hann væri að halda fram hjá henni. Kvaðst hann hafa ætlað að ræða um þess menn við A síðastliðin föstudag en bara í góðu. Kvaðst hann hafa spurt A út í mennina en hún hefði þá farið mikla vörn og byrjaði að öskra á hann. Kærði sagði að A hafi orðið mjög æst og ráðist á hann þar sem hann sat í sófa inn í stofu. Að sögn kærða var sonur A á milli þeirra þegar hún réðst á hann. Kærði sagði lögreglu að hann hafi náði að halda A frá sér en hafi síðan tekið hana og hent henni af sér með þeim afleiðingum að hún lenti á dyrakarminum á herberginu þeirra. Eftir þetta hafi hún ætlað að hlaupa út en hlaupið á útidyrahurðina.

Eftir þetta kvað hann þau hafa farið inn í herbergi og reynt að ræða málin í rólegheitum. Kærði kvað að A hafi farið að gráta en tók fram að það hefðu ekki sést neinir áverkar á henni þegar þau komu inn í herbergið fyrir utan smá kúlu á höfði eftir hún hljóp á útidyrahurðina. Eftir smá stund hafi þau ákveðið að leggjast í rúmið og talað þar saman og í framhaldi af því stundað kynlíf. Kærði kvað að kynlífið hafi verið með hennar samþykki. Kærði kvað að hann hefði farið í sturtu eftir kynlífið og einnig A. Stuttu seinna hafi B vinkona A komið og skutlað kærða á N1 til að útvega startkapla. Því næst hafi B, A og sonur A farið og hann hafi svo reynt að ná í A í síma en án árangurs.

Aðspurður um hvort A hefði meitt sig þegar hann henti henni þannig að hún lenti á dyrakarmi svaraði kærði því játandi. Hann hann ekki getað lýst því nánar en sagði að hún hefði öskrað eitthvað. Aðspurður um hvort þau hafi rætt um nektarmynd sem hann sá á netinu kvað hann það hafa verið umræðuefni þeirra aðfaranótt síðastliðins föstudags. Kvað hann A næstum hafa haldið að myndin væri af henni. Kærði hafi alfarið hafnað lýsingum A á atburðum og tók fram að tönnin sem hafi brotnað hafi verið ónýt fyrir.

Í síðari skýrslutöku af honum hélt hann sig við fyrri framburð. Er framangreind mynd úr síma A hafi verið borin undir hann þá hafi hann neitað að hafa tekið hana en viðurkennir að hann hafi verið einn heima með A er myndin hafi verið tekin ásamt ungum syni hennar.

Lögregla hafi annað mál til rannsóknar þar sem kærði sé undir sterkum grun um að hafa ráðist á A, mál lögreglu nr. 007-2015-[...]. Þann 29. október sl. var lögregla kölluð að heimili kærða og A þar sem tilkynnt var um átök þar og að konan væri komin með hamar í hendi til þess að verja sig. Á vettvangi hafi A borið að kærði hefði ráðist á sig, rifið í hár hennar, haldið henni og kýlt hana nokkrum sinnum í andlitið. Kvaðst hún hafa reynt að klóra og slá frá sér til að losna en síðan náð í hamar til þess að verja sig gegn kærða. Vitni sem statt hafi verið á vettvangi kvaðst hafa vaknað við að A kallaði á hjálp. Vitnið hefði svo komið að þar sem kærði hélt A niðri á hárinu og A hefði verið með hamar í hendi.  Í skýrslu lögreglu sé tekið fram að blóðblettir hafi verið á gólfinu í íbúðinni og að A hafi verið með skurð sem blæddi mikið úr á hægri hlið höfuðs í hársverðinum auk þess að vera áberandi marin og bólgin á nefi og enni. Kærði hafi verið blóðugur á báðum höndum og klóraður á hálsi og aftan við eyra.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. febrúar sl.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda er kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi og er þess eðlis að almannahagsmunir krefjast gæsluvarðhalds. Telja verði að umrætt brot sé í eðli sínu svo svívirðilegt að gangi kærði frjáls ferða sinna myndi það valda hneykslan í samfélaginu og særa mjög réttarvitund almennings.

Rannsókn málsins sé á lokastigi. Beðið sé eftir skýrslum tæknideildar vegna málsins. Verði málið sent embætti héraðssaksóknara eins fljótt og unnt sé.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

          Með vísan til þess sem rakið er í greinargerð sóknaraðila og fram kemur í rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir sterkum grun um að hafa svipt sambúðarkonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi þannig að það geti varðað við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga. Þau brot sem kærði er undir sterkum grun um að hafa framið varða meira en 10 ára fangelsi. Þá er á það fallist að brot þessi séu þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og í úrskurðarorði greinir.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...] , skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars nk. kl. 16:00.