Hæstiréttur íslands
Mál nr. 560/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
- Aðild
- Lögvarðir hagsmunir
|
|
Þriðjudaginn 30. september 2014. |
|
Nr. 560/2014.
|
Sýslumaðurinn á Selfossi (Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður) gegn Vegagerðinni (Gunnar Gunnarsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing. Aðild. Lögvarðir hagsmunir.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þinglýsingarstjóra (Þ) um frávísun málsins, en fallist á kröfu V um að fella úr gildi ákvörðun Þ um að vísa frá þinglýsingu samningi með fylgigögnum og afsali vegna kaupa V á tiltekinni landspildu og lagt fyrir Þ að þinglýsa skjölunum. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem dómur um kröfur Þ var ekki talin fela í sér úrlausn um tiltekin réttindi sem hann hefði lögvarða hagsmuni af að fá skorið úr um, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Skipti þá ekki máli þótt nauðsynlegt hefði verið í héraði að haga aðild í málinu þannig að Þ væri þar til varnar enda engum öðrum til að dreifa.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. ágúst 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. júlí 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um frávísun málsins, felld úr gildi ákvörðun sóknaraðila 14. maí 2014 og lagt fyrir hann að þinglýsa „samningi með fylgigögnum og afsali [varnaraðila] við landeigendur Öxnalækjarlands, Hveragerði (landnr. 171613) dags. 23. október 2013.“ Um kæruheimild er vísað til 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að framangreind ákvörðun sín verði staðfest. Þá krefst hann „málskostnaðar“.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Vegna breikkunar hringvegarins gerðu varnaraðili og Jón Einar Eyjólfsson, Benedikt Eyjólfsson og Sesselja Auður Eyjólfsdóttir með sér samning og afsal 23. október 2013 um kaup þess fyrstnefnda á spildu úr Öxnalækjarlandi í Hveragerði, landnúmer 171613. Um afmörkun spildunnar var í 1. grein samningsins og afsalsins vísað til tveggja uppdrátta er fylgdu. Varnaraðili óskaði eftir því við sóknaraðila 22. nóvember 2013 að samningnum og afsalinu ásamt fylgigögnum yrði þinglýst. Með vísan til f. liðar 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga vísaði sóknaraðili, sem þinglýsingarstjóri, sbr. 1. gr. sömu laga, áðurgreindum skjölum frá dagbók 14. maí 2014 á þeim grundvelli að efni þeirra væri ekki nægilega skýrt þar sem ekki væri ótvírætt við hvaða eign skjal ætti. Þá hefðu jafnframt verið gerðar breytingar á „báðum skjölunum“ sem ekki yrði séð að hefðu verið samþykktar af öllum hlutaðeigandi aðilum. Í samræmi við 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga tilkynnti varnaraðili sóknaraðila um þá ákvörðun sína að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir Héraðsdóm Suðurlands sem vísaði kröfu sóknaraðila frá dómi með úrskurði 30. júní 2014 á þeim grundvelli að krafan fullnægði ekki skilyrðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með bréfi til Héraðsdóms Suðurlands 30. júní 2014 bar varnaraðili ákvörðun sóknaraðila aftur undir héraðsdóm og krafðist þess að ákvörðunin yrði dæmd ógild og sóknaraðila gert að þinglýsa áðurgreindum samningi og afsali ásamt fylgigögnum. Í hinum kærða úrskurði var fallist á kröfur varnaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga hefur hver sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta heimild til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Um kæru til Hæstaréttar fer eftir almennum reglum um kæru í einkamáli, sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar, og af því leiðir að sá sem kærir úrskurð héraðsdómara í þinglýsingarmáli þarf að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Dómur um kröfur sóknaraðila felur ekki í sér úrlausn um tiltekin réttindi sem hann hefur lögvarða hagsmuni af að fá skorið úr um, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Skiptir þá ekki máli þótt nauðsynlegt hafi verið í héraði að haga aðild í málinu þannig að sóknaraðili væri þar til varnar enda engum öðrum til að dreifa. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Eftir atvikum þykir rétt að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. júlí 2014.
Mál þetta barst dóminum þann 3. júlí 2014 með bréfi sóknaraðila, dagsettu 30. júní 2014.
Sóknaraðili er Vegagerðin, kt. [...], Borgartúni 5-7, Reykjavík.
Varnaraðili er sýslumaðurinn á Selfossi.
Dómkröfur sóknaraðila eru:
1. Að ákvörðun þinglýsingarstjóra sýslumannsembættisins á Selfossi dags. 14. maí 2014 um að vísa frá þinglýsingu skjali nr. 433-X-4197/2013, samningi með fylgigögnum og afsali sóknaraðila við landeigendur Öxnalækjarlands, Hveragerði (landnr. 171613) dags. 23. október 2013,verði dæmd ógild.
2. Að þinglýsingarstjóra sýslumannsembættisins á Selfossi verði gert að þinglýsa skjali nr. 433-X-4197/2013, samningi með fylgigögnum og afsali sóknaraðila við landeigendur Öxnalækjarlands, Hveragerði (landnr. 171613) dags. 23. október 2013 , sbr. II. kafli þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
3. Að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru:
1. að máli þessu verði vísað frá dómi
2. komi til þess að málið hljóti efnislega umfjöllun er þess krafist að ákvörðun varnaraðila dags. 14. maí 2014 um að vísa frá þinglýsingu skjali nr. 433-X-004197/2013 verði staðfest með dómi
3. að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað að mati dómsins.
Málið var þingfest þann 7. júlí 2014 og óskaði þá varnaraðili eftir fresti til að leggja fram greinargerð og var hún lögð fram í þinghaldi 12. júlí 2014 og var málið tekið til úrskurðar að því loknu. Dómari og aðilar töldu ekki efni til þess að fram færi munnlegur málflutningur í málinu.
Málavextir.
Með bréfi, dags. 22. nóvember 2013, sendi sóknaraðili varnaraðila til þinglýsingar samning og afsal, dags. 23. október 2013. Um er að ræða samning og afsal vegna kaupa sóknaraðila á landspildu úr jörðinni Öxnalækjarlandi, Hveragerði, landnúmer lands 171613, ásamt fylgigögnum og umboði, sem liggur frammi í málinu. Samningur þessi var gerður milli sóknaraðila og landeigenda Öxnalækjarlands, þ.e. Jóns Einars Eyjólfssonar, kt. [...], Benedikts Eyjólfssonar, kt. [...] og Sesselju Auðar Eyjólfsdóttur, kt. [...]. Samningurinn er undirritaður af landeiganda Jóni Einari Eyjólfssyni sem jafnframt hafði umboð hinna landeigendanna til annast samnings- og afsalsgerð, og fylgir umboðið með og hefur verið lagt fram í málinu, en jafnframt var samningurinn undirritaður af Eyþóru Hjartardóttur hdl., lögmanni sóknaraðila. Samkvæmt efni sínu var samningurinn undirritaður í Barcelona.
Hjá varnaraðila hlaut samningurinn skjalnúmerið 433-X-4197/2013 og umboðið skjalnúmerið 433-X-4198/2013, en samkvæmt upplýsingum varnaraðila barst bréfið þann 11. desember 2013. Varnaraðili hafði samband við sóknaraðila þann 28. nóvember 2013 með tölvupósti þar sem óskað var eftir að landnúmer hins nýja vegsvæðis sem stofnað var yrði fært inn á umboð sem fylgdi með samningnum. Kveður sóknaraðili að starfsmaður hans hafi mætt á skrifstofu varnaraðila og skráð upplýsingarnar inn á umboðið þann 4. desember 2013, en jafnframt er sama landnúmer skráð á samninginn. Í framhaldi óskaði með tölvupósti eftir að greitt yrði fyrir þinglýsinguna og kveður sóknaraðili að það hafi verið gert tveimur dögum síðar.
Í framhaldinu kveður sóknaraðili að fimm mánuðir hafi liðið án þess að nokkrar athugasemdir hafi verið færðar fram um efni eða form samningsins. Kveðst sóknaraðili hafa gert ítrekaðar tilraunir til að fá upplýsingar um stöðu mála bæði í gegnum tölvupóst og síma hvort umræddur samningur væri ekki enn í fórum varnaraðila og hvort búið væri að þinglýsa samningnum, en t0ölvupóstar hafa verið lagðir fram um þetta.
Með bréfi, dags. 14. maí 2014, tilkynnti varnaraðili sóknaraðila um þá ákvörðun að vísa umræddum skjölum frá þinglýsingu. Í bréfinu segir að við þinglýsingu skjalanna verði að byggja á reglum þinglýsingalaga nr. 39/1978. Er vísað til f. liðar 2. mgr. 6. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og tekið fram að við skoðun á skjali nr. 433-X-4197, þ.e. samningnum, hafi komið í ljós að efni skjalsins sé ekki nægilega skýrt, enda ekki ótvírætt við hvaða eign skjalið eigi. Jafnframt hafi breytingar verið gerðar á báðum skjölunum sem ekki væri séð að gerðar hefðu verið með samþykki aðila.
Þann 16. maí 2014 óskaði sóknaraðili bréflega eftir því að fá rökstuðning fyrir því að hvaða leyti umræddur samningur væri óskýr og hvaða formannmarkar væru á honum. Var því svarað með símtölum og tölvupóstum.
Með bréfi, dags. 6. júní 2014, tilkynnti sóknaraðili varnaraðila að sóknaraðili hefði ákveðið að bera framangreinda úrlausn þinglýsingarstjóra undir Héraðsdóm Suðurlands á grundvelli 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 og gera kröfu um að hin kærða ákvörðun um frávísun yrði felld úr gildi og þinglýsingarstjóra yrði gert að þinglýsa umræddum samningi og afsali ásamt fylgigögnum, sbr. II. kafla þinglýsingalaga.
Með bréfi sóknaraðila, dags. 23. júní sl., sem barst Héraðsdómi Suðurlands degi síðar, var framangreind frávísun þinglýsingarstjóra borin undir dóminn, en með úrskurði dómsins þann 30. júní sl., var kröfunni vísað frá dómi þar sem krafa sóknaraðila væri svo óljós og óákveðin að ekki væri unnt að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í niðurstöðu úrskurðar í málinu, ef efnisleg skilyrði væru til að fallast á kröfuna. Var það mat dómsins að krafan uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum a, b, c og d lið. Var málinu vísað frá dómi exofficio án þess að það væri tekið fyrir á dómþingi.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður að varnaraðila hafi verið óheimilt að vísa umræddum samningi frá þinglýsingu. Sóknaraðili telur að samningurinn sem um ræðir sé skýr um það hvaða land sé verið að festa kaup á og séu uppdrættirnir fylgiskjöl með samningnum sem sýni nákvæmlega legu vegspildunnar. Uppdrátturinn afmarki fasteignina með hnitum svo ekki fari á milli mála um hvaða eign sé að ræða. Uppdrættir séu jafnframt áritaðir af aðilum samningsins. Um sé að ræða dæmigerðan samning sóknaraðila við landeigendur vegna kaupa á spildu undir lagningu vegsvæðis þar sem samningur um kaup á spildu vísi til nánari upplýsinga um staðsetningu hnita í fylgiskjali samnings. Sé skjalið því ekki haldið þeim annmörkum sem vísað er til í f. lið 2. mgr. 6. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
Sóknaraðili kveður það verklag að rita nýtt landnúmer hinnar afsöluðu spildu inn á samning sóknaraðila við landeiganda vera í samræmi við venjubundna og athugasemdalausa framkvæmd. Áritun á skjal án samþykkis beggja aðila sé ekki meðal þeirra atriða sem valdið geti frávísun skjals skv. f.-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 39/1978. Hið nýja landnúmer hinnar keyptu spildu, sem ritað er inn á samninginn eftir undirritun samningsaðila, sé einungis auðkenni á hinni afsöluðu spildu sem úthlutað hafi verið af Fasteignaskrá eftir að samningur og afsal var undirritaður svo sem venja hafi verið. Landnúmer hinnar afsöluðu spildu liggi ekki fyrir við undirritun samnings. Samhliða sé gengið frá samningi og afsali og samþykki landeiganda á því að spildan sé stofnuð, en fyrr sé ekki hægt að úthluta henni númeri í fasteignaskrá. Númer hinnar afsöluðu spildu í Fasteignaskrá auðkenni þannig spildu sem afmörkuð hafi verið á hnitsettum uppdrætti og afsalað af þinglýstum eiganda með samningi þeirra á milli. Í samningi þeim er mál þetta varðar hafi verið stofnað nýtt landnúmer fyrir þá spildu er sóknaraðili hafi keypt af landeigendum Öxnalækjarlands, Hveragerði, landnr. 161713. Hið nýja landnúmer, sem stofnað hafi verið um spilduna,hafi verið landnúmerið 221780.
Sóknaraðili byggir á því að sú athöfn að færa hið nýja landnúmer spildunnar inn í samninginn og umboðið feli því ekki í sér breytingu á efni samningsins né valdi sú innfærsla því að efni samnings verði á einhvern hátt óskýrt eða óljóst. Einungis sé um að ræða upplýsingar um hvaða númer auðkenni hina afsöluðu spildu sem skýrlega sé afmörkuð á hnitsettum uppdrætti.
Það verklag að árita landnúmer spildu á skjal byggi á áralangri framkvæmd sem hvorki varnaraðili né önnur embætti sýslumanna hafi hreyft við. Hafi fjölda sambærilegra skjala verið þinglýst athugasemdalaust á undanförnum árum. Vísar sóknaraðili máli sínu til stuðnings til þinglýsts samnings sóknaraðila við landeigendur Bræðratungu í Bláskógabyggð, sem fram hefur verið lagður í málinu, en sá samningur hafi heyrt undir umdæmi varnaraðila og verið þinglýst en fyrir liggi að upplýsingar um nýtt landnúmer hafi verið skráðar inn á samninginn án þess að skjalið bæri með sér að það hafi verið gert með samþykki aðila. Sé samningurinn eitt fjölda dæma um að talið hafi verið heimilt að hafa þennan háttinn á.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
A. krafa um frávísun málsins
a. Varnaraðili kveður ekki heimilt að taka kröfu sóknaraðila nú til dómsmeðferðar þar sem kærufrestur vegna fyrri úrskurðar, þ.e. frá 30. júní sl. í málinu T-1/2014, sé ekki liðinn en hann sæti kæru til Hæstaréttar áður en tvær vikur eru liðnar frá uppsögn hans sbr. 5. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Megi í þessu samhengi vísa til dóms Hæstaréttar 13. júní 2006 í máli nr. 307/2006 er varði ágreining um nauðungarsölu. Í því máli hafi sóknaraðili borið ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm en ekki mætt við fyrirhugaða þingfestingu og málið því verið fellt niður. Sóknaraðili hafi freistað þess að fá kröfu sína tekna fyrir á ný. Að mati dómsins hafi ekki verið talið að lagaheimild hafi staðið til þess að verða við nýju erindi sóknaraðila til héraðsdóms.
b. Fallist hins vegar dómurinn nú á að heimilt sé fyrir sóknaraðila að fá kröfu sína tekna fyrir í nýju máli, þrátt fyrir að kærufrestur sem tiltekinn er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 sé enn í gildi í máli T-1/2014 um sama ágreiningsefnið, sé ljóst að skilyrði laganna til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm séu ekki uppfyllt sbr. c. lið.
c. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 sé frestur til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm fjórar vikur. Ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans hafi verið viðstaddur úrlausn reiknist upphafstími frestsins frá því tímamarki, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðmaður hans fékk vitneskju um hana.
Sóknaraðila hafi borist bréf varnaraðila, dags. 14. maí sl., um að umrætt skjal hafi ekki verið tækt til þinglýsingar. Í framhaldi af því hafi sóknaraðili sent bréf til varnaraðila dags. 16. maí sl. þar sem óskað hafi verið eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun varnaraðila. Sé því ljóst að sóknaraðili hafi haft vitneskju um úrlausn þinglýsingarstjóra á því tímamarki. Þann 30. júní sl. hafi sóknaraðili krafist þess að úrlausn þinglýsingarstjóra yrði borin undir Héraðsdóm Suðurlands. Sú krafa hafi komið fram 45 dögum eftir að sóknaraðili hafi haft vitneskju um úrlausn þinglýsingarstjóra og því óumdeilt að úrlausn þinglýsingarstjóra hafi ekki verið borin undir dóm innan lögmælts fjögurra vikna frests samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
Auk þess hafi varnaraðila ekki borist skrifleg tilkynning frá sóknaraðila þess efnis að sóknaraðili hygðist bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm Suðurlands í máli T-2/2014 eins og skilyrði 3. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 gera ráð fyrir. Aðeins hafi borist tilkynning um þinghald og ákvörðun sóknaraðila um að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir dóm frá Héraðsdómi Suðurlands dags. 4 júlí sl., en við mat á því hvort úrlausn þinglýsingarstjóra hafi verið borin undir héraðsdóm innan réttra tímamarka skipti ekki máli hvenær héraðsdómari tók við málsgögnum heldur hitt hvenær þinglýsingarstjóri tók við tilkynningunni sbr. H. 9. desember 1992 í máli nr. 425/1992.
Af öllu ofangreindu virtu sé því óumdeilt að úrlausn þinglýsingarstjóra hafi ekki verið borin undir dóm innan lögmælts fjögurra vikna frests samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 ásamt því að skilyrði 3. mgr. 3. gr. laganna um að sá sem vilji bera úrlausn um þinglýsingu undir dóm skuli afhenda þinglýsingarstjóra skriflega tilkynningu hafi ekki verið uppfyllt.
B. skjal nr. 433-X-004197/2013
a. Varnaraðili kveður raunverulegan áreiðanleika vera bundinn við þinglýsingarbækur og þurfi skjal því að fullnægja ýmsum skilyrðum svo því verði þinglýst. Eins og fram komi í bréfi þinglýsingarstjóra dags. 14. maí 2014 sé skjali nr. 433-X-004197/2013 vísað frá þinglýsingardagbók þar sem efni skjalsins sé ekki nógu skýrt. Þá sé nýtt fastanúmer ritað á skjalið sem ekki verði séð að gert hafi verið með samþykki aðila. Hafi skjalinu því verið vísað frá þinglýsingardagbók með vísan til f. liðar 2. mgr. 6. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
Nauðsynlegt sé fyrir kaupendur fasteigna og lausafjár að geta gengið úr skugga um að efni þinglýsingarbóka sé rétt. Megi því ætla að það rýri verulega áreiðanleika þinglýsingabóka ef aðili samnings geti eftir undirritun samnings breytt skjali án þess að allir aðilar samnings staðfesti þá breytingu. Varnaraðili hafi enga sönnun fyrir því hvort sú breyting sem um ræðir hafi verið gerð fyrir eða eftir undirritun skjals nr. 433-X-004197/2013 enda engin leið fyrir þinglýsingarstjóra að meta það. Því sé nauðsynlegt að aðilar samnings riti stafina sína við breytingu svo hægt sé að staðfesta að sú breyting hafi verið gerð með samþykki allra aðila. Þessu til stuðnings megi vísa til dóms Hæstaréttar 6. mars 1997 í máli nr. 219/1996, þar sem Hæstiréttur hafi talið ósannað að aðili hafi verið með í ráðum við gerð breytinga á skuldabréfi og hann því ekki verið bundinn af því sem breytingin hafi beinst að.
b. Skjalinu hafi einnig verið vísað frá þinglýsingardagbók þar sem efni skjalsins sé ekki nógu skýrt. Augljóst sé að skjali verði ekki þinglýst, nema vitað sé um hvaða eign er að ræða. Meginsjónarmið hljóti því að vera það, að skjalið sjálft beri með sér efni sitt, alveg óháð skýringum þinglýsingarbeiðanda. Vísað hafi verið til tveggja landnúmera, annars vegar 171613 og hinsvegar 221780. Því sé óljóst við hvaða eign skjalið eigi. Hafi skjalinu því verið vísað frá þinglýsingardagbók með vísan til f. liðar 2. mgr. 6. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
c. Að auki bendir varnaraðili á að skjal nr. 433-X-004197/2013 virðist hafa verið útbúið í Barcelona, en það veki upp miklar grunsemdir um skjalagerðina í heild sinni þar sem það þyki afar ótrúverðugt að landeigendur, starfsmaður sóknaraðila ásamt tveimur vitundarvottum hafi verið staddir í Barcelona þegar undirritun skjalsins hafi átt að eiga sér stað enda sé varnaraðila ekki kunnugt um að sóknaraðili sé með útibú í Barcelona, eða hitt, að starfsmaður sóknaraðila hafi verið með stimpilinn með sér í fríinu.
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar varnaraðili til ákvæða þinglýsingarlaga, einkum 3. mgr. 3. gr., 5. mgr. 3. gr. og f. liðar. 2. mgr. 6. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
Forsendur og niðurstaða.
Varnaraðili gerir þá kröfu að máli þessu verði vísað frá dómi. Byggir varnaraðili þá kröfu sína annars vegar á því að þegar sóknaraðili sendi kröfu sína til héraðsdóms hafi ekki verið liðinn kærufrestur vegna úrskurðar í málinu nr. T-1/2014, en hins vegar að 4 vikna frestur til að skjóta frávísun þinglýsingarstjóra til héraðsdóms hafi verið liðinn. Hefur varnaraðili vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 307/2006 máli sínu til stuðnings. Það er álit dómsins að ekki sé um að tefla sambærileg mál. Hér er um það að ræða að kröfu sóknaraðila var vísað frá í fyrra skiptið en í hinum tilvitnaða dómi varð útivist af hálfu sóknaraðila. Þá er til þess að líta að skv. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 verður dóms ekki krafist um þær kröfur sem eru gerðar í máli sem þingfest hefur verið, í öðru máli. Ef dóms er krafist þannig um kröfu í öðru máli skal vísa henni frá dómi. Hér háttar hins vegar þannig til að hinu fyrra máli var lokið með frávísunarúrskurði héraðsdóms 30. júní sl. Þó svo að kærufrestur vegna þess úrskurðar hafi ekki verið liðinn þegar sóknaraðili sendi erindi sitt til héraðsdóms þann sama dag, þ.e. 30. júní sl., þá liggur ekkert fyrir um að sóknaraðili hafi tekið sér kærufrest, en með því að leggja málið á ný fyrir dóminn verður að líta svo á að sóknaraðili hafi unað frávísunarúrskurðinum. Í annan stað vísar varnaraðili til þess að 4 vikna frestur til að bera frávísun þinglýsingarstjóra undir dóm hafi verið liðinn. Á þetta verður ekki fallist, en fyrir liggur að hin umdeilda ákvörðun var kynnt sóknaraðila með bréfi varnaraðila 11. maí 2014 og var varnaraðila kynnt með bréfi sóknaraðila 6. júní 2014 að ákvörðunin yrði borin undir héraðsdóm skv. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en tímamarkið þegar gögn málsins berast dóminum er ekki það sem sker úr um hvort málshöfðunarskilyrði þessu er fullnægt, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 425/1992.
Þessu til viðbótar vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki á ný tilkynnt varnaraðila að ákvörðunin væri borin undir héraðsdóm að gengnum frávísunarúrskurði héraðsdóms 30. júní 2014. Það er álit dómsins að nægileg hafi verið tilkynning sóknaraðila til varnaraðila 6. júní 2014 og að ekki hafi verið þörf nýrrar tilkynningar, enda mátti varnaraðila vera ljóst að sóknaraðili sætti sig ekki við ákvörðun varnaraðila um að vísa skjölunum frá þinglýsingu, en jafnframt er til þess að líta að gögn málsins höfðu þá þegar öll verið afhent sóknaraðila.
Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi.
Varnaraðili byggir ákvörðun sína um að vísa téðum skjölum frá þinglýsingu á f lið 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en í henni kemur það fram að vísa skuli skjali frá þinglýsingu ef „ekki er ótvírætt við hvaða eign skjal á, hvaða aðila skjal varðar eða hvert efni þess er að öðru leyti“. Vísar varnaraðili til þess að efni samningsins sé ekki nógu skýrt og getur þess að nýtt fastanúmer hafi verið ritað á skjalið án þess að séð verði að samþykki allra hafi legið fyrir um það. Hafi þannig skjalinu verið breytt eftir á án þess að fyrir liggi að það hafi verið með samþykki allra. Vísar varnaraðili að þessu leyti til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 219/1996. Þá kveður varnaraðili óljóst við hvaða eign sé átt þar sem vísað sé til tveggja landnúmera.
Í samningi/afsali, sem er skjal nr. 433-X-004197/2013, er vísað til fylgiskjala með samningnum, sem fylgja með honum til þinglýsingarstjóra, þar sem greinilega kemur fram með hnitsetningu um hvaða land er að tefla. Getur það ekki farið á milli mála.
Getur það að mati dómsins ekki valdið ruglingi þótt á samninginn, sem og á umboðið, sé handfært annað landnúmer. Ber hér að nefna það að sóknaraðili hefur gert grein fyrir því að ástæða þess að nýtt landnúmer var handfært á umboðið sé sú að varnaraðili hafi kallað eftir því og hefur varnaraðili ekki borið á móti því. Það er álit dómsins að samningnum hafi ekki verið breytt efnislega þrátt fyrir að nýtt landnúmer hafi verið handfært á hann, en landið var það sama fyrir og eftir. Hefur sóknaraðili gert grein fyrir því að nýtt landnúmer hinnar afsöluðu spildu liggi ekki fyrir við samningsgerðina. Það er jafnframt álit dómsins að tilvísun varnaraðila til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 219/1996 eigi hér ekki við þar sem tilvikin eru ólík, m.a. að því leyti að í téðu dómsmáli var skjali breytt efnislega. Meginatriðið er að mati dómsins það, að ekki fer milli mála hvaða landspildu verið er að þinglýsa réttindum yfir.
Þá hefur varnaraðili vísað til þess að umrætt skjal virðist hafa verið útbúið í Barcelona, en varnaraðili hefur uppi efasemdir um að starfsmaður sóknaraðila og/eða vottar hafi verið þar staddir. Ekki er þetta meðal þeirra atriða sem varnaraðili vísaði til þá er hann vísaði skjalinu frá þinglýsingu, enda er þetta ekki meðal þeirra atriða sem getur í f lið 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá verður heldur ekki séð að þetta geti fallið undir g lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. laganna, enda skortir ekki á undirritun útgefenda eða vitundarvotta.
Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að ekki hafi verið skilyrði til að vísa téðu skjali frá þinglýsingu og ber að fallast á kröfur sóknaraðila í málinu.
Rétt er að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 150.000.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu varnaraðila, sýslumannsins á Selfossi, um frávísun er hafnað.
Ákvörðun þinglýsingarstjóra sýslumannsembættisins á Selfossi dags. 14. maí 2014 um að vísa frá þinglýsingu skjali nr. 433-X-4197/2013, samningi með fylgigögnum og afsali sóknaraðila, Vegagerðarinnar, við landeigendur Öxnalækjarlands, Hveragerði (landnr. 171613) dags. 23. október 2013, er ógild.
Varnaraðila er gert að þinglýsa skjali nr. 433-X-4197/2013, samningi með fylgigögnum og afsali sóknaraðila við landeigendur Öxnalækjarlands, Hveragerði (landnr. 171613) dags. 23. október 2013.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 150.000 í málskostnað.