Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Mánudaginn 14

 

Mánudaginn 14. júlí 2003.

Nr. 243/2003.

AFA JCDecaux Ísland ehf.

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

Íslenska skófélaginu ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem Í ehf. var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli, sem félagið hafði lagt fyrir dóm til að fá leyst úr ágreiningsatriðum varðandi fjárnám, sem A ehf. hafði fengið gert hjá því.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Haraldur Henrysson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2003, þar sem varnaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 100.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli, sem hann hefur lagt fyrir dóm til að fá leyst úr ágreiningsatriðum varðandi fjárnám, sem sóknaraðili fékk gert hjá honum 28. mars 2003. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði hækkuð í 300.000 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Trygging sú, sem varnaraðila var gert að setja með hinum kærða úrskurði, tekur aðeins til meðferðar máls hans á hendur sóknaraðila fyrir héraðsdómi. Að því virtu verður ekki fallist á þær röksemdir, sem sóknaraðili hefur fært fyrir kröfu sinni fyrir Hæstarétti. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að frestur varnaraðila, Íslenska skófélagsins ehf., til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila, AFA JCDecaux Ísland ehf., skal vera tvær vikur frá uppsögu þessa dóms.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2003.

Sóknaraðili í máli þessu er Íslenska skófélagið ehf., kt. 620598-2249, Fiskislóð 75, Reykjavík, en varnaraðili AFA JCDecaux Íslandi ehf., kt. 570498-2669.

Sóknaraðili hefur krafist þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, 28. mars 2003, um að svipta sóknaraðila vörslum eigna, sem varnaraðili fékk tekið fjárnám í hjá sóknaraðila sama dag, verði felld úr gildi. Varnaraðili hefur hins vegar krafist þess að þessi ákvörðun sýslumannsins verði staðfest.

Á dómþingi 3. þ.m. var lögð fram greinargerð af hálfu varnaraðila í málinu. Þar er m.a. greint frá því að varnaraðili krefjist þess að sóknaraðili leggi fram málskostnaðartryggingu vegna málsóknar sinnar gegn varnaraðila þar sem fyrir liggi hjá Héraðsdómi Reykjavíkur kröfur um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu sóknaraðila var kröfu varnaraðila um málskostnaðar-tryggingu mótmælt. Ágreiningur aðila um málskostnaðartryggingu var þá tekinn til úrskurðar.

                Fyrir liggur hjá Héraðsdómi Reykjavíkur að Landsbanki Íslands hf. o.fl. hafa krafist þess á grundvelli fjárnámsgerðar án árangurs hjá sóknaraðila að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá liggur fyrir að ekki var sótt þing af hálfu sóknaraðila er krafa um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir 28. maí sl. þrátt fyrir lögmæta kvaðningu. Málið var því tekið til úrskurðar sama dag.

                Samkvæmt framangreindu má telja líkur á því að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Þykir hún hæfilega ákveðin 100.000 kr. Skal hún sett með peningum eða bankaábyrgð og héraðsdómi afhent skilríki fyrir tryggingunni innan tveggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Sóknaraðila, Íslenska skófélaginu ehf., er skylt að setja málskostnaðar-tryggingu að fjárhæð 100.000 kr. Ber að setja trygginguna með peningum eða bankaábyrgð innan tveggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar.