Hæstiréttur íslands

Mál nr. 401/2006


Lykilorð

  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2007.

Nr. 401/2006.

Kristrún Sigurfinnsdóttir og

Sigurfinnur Vilmundarson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

 Einari Gunnarssyni

(Reynir Karlsson hrl.)

og gagnsök

 

Fasteign. Eignarréttur. Hefð. Sératkvæði.

E krafðist þess að eignarréttur hans að sumarhúsalóð úr jörðinni Efsta-Dal 1, yrði staðfestur. Reisti hann kröfu sína aðallega á því að hann hefði fengið umrædda lóð til eignar sem endurgjald fyrir vinnu, sem hann innti af hendi í þágu þáverandi bónda á jörðinni á árunum 1964-66. Til vara að hann hefði eignast lóðina fyrir hefð. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að enda þótt líkindi væru fyrir því að E hefði fengið lóðina til eignar væri ekki talið að hann hefði fært að því nægar sannanir. Hins vegar lægi fyrir í málinu að umrædd lóð hefði verið girt skömmu eftir að E fékk umráð hennar og hefði hann því haft afnot hennar í fullan hefðartíma. Ekki var talið að K og S hefði tekist sönnun um að lóðin hefði verið seld á leigu og stóð því ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, því ekki í vegi að hefð hefði unnist. Var því fallist á kröfu E og eignarréttur hans að umræddri lóð staðfestur.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2006. Þau krefjast þess að hafnað verði kröfu gagnáfrýjanda um að staðfestur verði eignarréttur hans að sumarhúsalóð úr jörðinni Efsta-Dal 1, Bláskógabyggð, með landsnúmeri 167736. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 2. október 2006. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Gagnáfrýjandi krefst þess að staðfestur verði eignarréttur sinn að 4.644 m² lóð úr landi Efsta-Dals 1, Bláskógabyggð. Kröfu sína reisir hann aðallega á því að hann hafi á árunum 1964 til 1966 unnið að endurbótum á íbúðarhúsi á bænum að beiðni Vilmundar  Indriðasonar bónda og samið um það við Vilmund að hann fengi umrædda lóð til eignar sem endurgjald fyrir þá vinnu. Vilmundur lést í ágúst 1999 og er aðaláfrýjandinn Kristrún ekkja hans en aðaláfrýjandinn Sigurfinnur sonur hans. Óumdeilt er að gagnáfrýjandi vann á þessum tíma að endurbótum á íbúðarhúsinu. Einnig er óumdeilt að hann fékk umráð umræddrar lóðar sem endurgjald fyrir þá vinnu sína og að Vilmundur heitinn girti lóðina. Aðaláfrýjendur halda því hins vegar fram að enda þótt ráðagerðir hafi í fyrstu verið um annað hafi á endanum verið samið um að lóðin yrði leigulóð og að endurgjald fyrir vinnu gagnáfrýjanda skyldi samsvara leigugjaldi fyrir hana í 25 ár. Ekki er ágreiningur um að gagnáfrýjandi hefur aldrei verið krafinn um leigugjald fyrir lóðina. Á húsbyggingarskýrslu, sem var fylgiskjal með skattframtali gagnáfrýjanda 1967, er tekið fram að hann hafi 1966 keypt lóð úr landi Efsta-Dals af Vilmundi Indriðasyni fyrir 10.000 krónur. Þá liggur fyrir að Friðgeir Sörlason húsasmíðameistari vann á svipuðum tíma að viðhaldi á íbúðarhúsinu í Efsta-Dal 1. Bar hann fyrir héraðsdómi að hann hafi samið við Vilmund heitinn um að fá lóð undir sumarbústað sem endurgjald fyrir þá vinnu, en var ekki gengið formlega frá afsali fyrir þeirri lóð fyrr en 1985. Enda þó að líkindi séu á grundvelli framanritaðs fyrir því að gagnáfrýjandi hafi fengið lóðina til eignar 1966 verður ekki talið að hann hafi fært að því nægar sönnur.

II.

  Til vara reisir gagnáfrýjandi kröfu sína á því að hann hafi eignast lóðina fyrir hefð. Eins og að framan er rakið er ekki ágreiningur um að Vilmundur heitinn girti umrædda lóð skömmu eftir að gagnáfrýjandi fékk umráð hennar og hefur hann því haft umráð yfir lóðinni fullan hefðartíma og þau umráð hafa útilokað aðra frá afnotum hennar Aðaláfrýjendur halda því fram að samið hafi verið um að gagnáfrýjandi fengi lóðina á leigu. Því til stuðnings vísa þau til skýrslna þriggja vitna fyrir héraðsdómi. Ekkert þeirra var vitni að samningsgerð um lóðina og öll byggðu þau það álit sitt að um leiguland væri að ræða á almennum ummælum Vilmundar heitins í þá átt. Verður ekki talið að með þessum skýrslum hafi aðaláfrýjendum tekist sönnun um að lóðin hafi verið seld á leigu. Ekki verður sú sönnun heldur reist á skráningu lóðarinnar í fasteignamat 1967, enda með öllu óupplýst hvað lá til grundvallar þeirri skráningu. Að auki er í ljós leitt að sams konar skráning sama dag á lóð þeirri sem kom í hlut Friðgeirs Sörlasonar var röng. Þar sem aðaláfrýjendum hefur þannig ekki tekist að leiða að því líkur að gagnáfrýjandi hafi fengið lóðina á leigu eða með öðrum hætti skuldbundið sig beint eða óbeint til að skila henni aftur stendur 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð því ekki í vegi að hefð geti unnist. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Aðaláfrýjendur verða dæmd til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjendur, Kristrún Sigurfinnsdóttir og Sigurfinnur Vilmundarson, greiði gagnáfrýjanda, Einari Gunnarssyni, sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

       Málsatvik eru rakin í atkvæði meirihluta dómara. Aðaláfrýjendur viðurkenna að í upphafi verið ráðgert að lóðin yrði fengin gagnáfrýjanda til eignar sem endurgjald fyrir vinnu hans. Síðar hafi forsendur breyst þar sem sumarbústaðurinn var ekki byggður á upphaflega fyrirhuguðum stað. Aðaláfrýjendur hafa ekki gegn mótmælum gagnáfrýjanda fært sönnur fyrir þessari staðhæfingu sinni. Með skírskotun til þeirra raka sem fram koma í I. kafla dómsins tel ég nægar sönnur fram komnar fyrir því að lóðin hafi verið seld til eignar 1966. Með þessum rökum er ég sammála dómsorði.

 

 

             Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. apríl 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 21. mars 2005.

Stefnandi er Einar Gunnarsson, kt. 201032-2459, Fiskakvísl 28, Reykjavík.

Stefndu eru Kristrún Sigurfinnsdóttir, kt. 030119-3639, Efsta-Dal, Bláskógabyggð og Sigurfinnur Vilmundason, kt. 100547-2959, sama stað.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að staðfestur verið með dómi eignarréttur stefnanda að 4.644 m² lóð með landnúmer 167736 úr landi Efsta-Dals 1, Bláskógabyggð, eins og lóðin er afmörkuð með hnitasetningu Loftmynda ehf. á dskj. nr. 9 og að sumarhúsi á lóðinni með fastanúmerið 220-6158.  Til vara er þess krafist að staðfestur verði með dómi ótímabundinn afnotaréttur stefnanda að ofangreindri lóð.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, bæði aðal- og varakröfu, þó þannig að viðurkenndur er óumdeildur eignarréttur stefnanda að sumarhúsi með fastanúmerið 220-6158, er nú stendur án lóðarréttinda á lóð úr landi Efsta-Dals 1, lnr. 167736.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Málavextir.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi unnið að endurbótum á íbúðarhúsinu í Efsta-Dal 1 á árunum 1964 og 1965 að beiðni Vilmundar Indriðasonar, bónda þar, en hann mun nú vera látinn.  Hafi stefnandi unnið að málun og glerísetningu og sem endurgjald fyrir verkið segist stefnandi hafa fengið tæplega 0,5 hektara lóð úr landinu við suðvesturmörk jarðarinnar.  Segir stefnandi þá Vilmund heitin hafa mælt út fyrir lóðinni, stefnandi hafi útvegað efni í girðingu umhverfis lóðina en Vilmundur heitinn séð um girðingarvinnuna.  Friðgeir Sörlason, húsasmíðameistari, sem einnig hafi unnið að endurbótunum, hafi einnig fengið lóð úr landinu sem endurgjald fyrir vinnu sína.  Stefnandi segist ávallt hafa greitt öll gjöld af lóðinni, svo sem fasteignagjöld og þá komi fram í húsbyggingarskýrslu fyrir árið 1966, sem fylgt hafi skattframtali stefnanda fyrir árið 1967, að hann hafi keypt lóðina af Vilmundi fyrir 10.000 krónur.

Stefnandi segir þá Vilmund heitin aldrei hafa gengið formlega frá sölunni á lóðinni en eftir lát Vilmundar hafi hann óskað eftir lóðarsamningi, en þá verið boðinn lóðarleigusamningur þar sem gert hafi verið ráð fyrir árlegum greiðslum af lóðinni.  Hafi sáttatilraunir reynst árangurslausar og því óhjákvæmilegt fyrir stefnanda að höfða mál þetta þar sem hann skorti þinglýsta eignarheimild fyrir lóðinni.  Samkvæmt þinglýsingarvottorði sé ekkja Vilmundar heitins, stefnda Kristrún, þinglýstur eigandi jarðarinnar og sitji hún í óskiptu búi eftir lát eiginmanns síns.  Þá sé stefndi Sigurfinnur þinglýstur eigandi að íbúðarhúsinu í Efsta-Dal 1.

Stefndu lýsa málsatvikum svo að upphaflega hafi staðið til að stefnandi fengi lóð til afnota við mörk jarðarinnar á móti jörðinni Laugardalshólum, þar sem Friðgeir Sörlason fékk síðar lóð. Hafi stefnandi ætlað að flytja gamalt hús á lóðina, en þegar til kom hafi ekki gengið að flytja húsið þangað og hafi það dagað uppi talsvert neðar en upphaflega hafi staðið til.  Hafi forsendur breyst við þetta og þá verið rætt um að reisa húsið þar sem það er nú.  Þar sem nýi bústaðurinn var reistur langt frá landamerkjum jarðarinnar hafi aldrei komið annað til tals en að lóðin yrði leigulóð, en Friðgeir Sörlason hafi fengið afsal fyrir sinni lóð sem stóð út við merki við Laugardalshóla.  Stefndu segja að litið hafi verið svo á að vinna stefnanda í þágu Vilmundar heitins og konu hans hafi átt að fara upp í leigugreiðslur til 25 ára.  Hafi Vilmundur girt lóðina og aðstoðað stefnanda á ýmsan hátt við uppbyggingu á bústaðnum en aldrei hafi farið fram nákvæmt uppgjör á milli þeirra.

Stefndu benda á að skýrt komi fram í mati fasteignamatsnefndar Árnessýslu árið 1967 að lóðin sé leigulóð í eigu Vilmundar og sé stefnandi skráður leigutaki. Þessi skráning hafi síðar skolast til og sé lóðareigandi nú ekki rétt skráður hjá Fasteignamati ríkisins.  Stefndu halda því fram að dregist hafi að ganga frá formlegum leigusamningi milli aðila, en fyrir um 15 árum hafi stefnandi og Elín Sörladóttir rætt málin við Vilmund heitin og hafi þá glöggt komið fram sá skilningur hans að lóðin væri leigulóð.  Þá hafi Gunnar Vilmundarson nefnt það við stefnanda einhverjum árum síðar að lóðin væri leigulóð og ganga þyrfti frá leigusamningi.  Stefndu halda því fram að það hafi fyrst hinn 23. maí 2004 komið fram hjá stefnanda að hann teldi sig eiga lóðina.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hann hafi fengið lóðina sem endurgjald fyrir vinnu sína í þágu þáverandi eiganda jarðarinnar.  Hafi hann eignast lóðina með samningi við Vilmund heitin sem dánarbú hans sé bundið af í samræmi við meginreglur samningaréttar um skuldbindingargildi loforða.  Hafi þeir Vilmundur heitinn mælt lóðina út saman, hann hafi útvegað efni í girðinguna en Vilmundur heitinn hafi girt hana.  Í beinu framhaldi af því hafi stefnandi hafið smíði á sumarhúsi á lóðinni svo sem fram komi í húsbyggingarskýrslu, en þar komi fram að hann hafi keypt lóðina af Vilmundi heitnum á 10.000 krónur.  Hann hafi alla tíð greitt skatta og gjöld af lóðinni og hvorki fyrr né síðar hafi hann verið krafinn um greiðslu fyrir afnot af henni.  Allt leiði þetta til þess að yfirgnæfandi líkur séu til þess að hann eigi beinan eignarrétt að lóðinni þótt hann skorti formlega heimild fyrir eignarrétti sínum.

Verði litið svo á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi eignast lóðina með samningi, byggir stefnandi á því að hann hafi eignast lóðina fyrir hefð, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905.   Hann hafi haft óslitið eignarhald á lóðinni um tæplega 40 ára skeið og allt frá árinu 1966 komið fram sem eigandi lóðarinnar og greitt af henni skatta og gjöld.  Hafi stefndu alltaf komið þannig fram gagnvart stefnanda að hann væri eigandi lóðarinnar, hún hafi í upphafi verið sérstaklega afmörkuð í kringum bústað stefnanda og hafi stefndu hvorki fyrr né síðar innheimt hjá honum leigu fyrir afnot af lóðinni.  Hafi stefndu þannig sýnt tómlæti sem þau verði að bera hallann af.

Varakrafa stefnanda um afnotarétt af lóðinni er byggð á 7. gr. laga nr. 46/1905.  Hann hafi haft afnot af lóðinni og hafi hann ekki unnið fullkomna eignarhefð á henni, hafi hann að minnsta kosti unnið ótímabundinn afnotarétt af henni.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1919.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja sýknukröfu í aðalkröfu einkum á því að stefndu og forverar þeirra hafi hvorki gefið né selt umrædda lóð til stefnanda.  Lóðin tilheyri því jörðinni enn að grunni til og því greiði stefndu fasteignagjöld af umræddri spildu sem og öðru landi jarðarinnar.  Séu stefndu þinglýstir eigendur jarðarinnar og byggja á því að sá sem hafi athugasemdalausa eignarheimild fyrir fasteign sé réttur eigandi hennar.  Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrðina fyrir því.  Stefndu mótmæla því sem ósönnuðu að stefnandi hafi fengið spilduna fyrir kaup.  Enginn samningur um slík kaup liggi fyrir og ekkert kaupverð hafi verið móttekið.  Hljóti stefnanda að vera kunnugt um að kaup á fasteignum í sveitum séu háð samþykki sveitarstjórnar og seinna jarðarnefndar.  Séu aðilaskipti á slíkum eignum því formbundin.  Stefndu hafna í því ljósi kröfu á grundvelli löggernings, enda hafi enginn slíkur verið gerður og hann því ekki til.

Stefndu byggja á því að eignarréttarkrafa stefnanda sem byggist á hefð standist ekki þegar grannt sé skoðað.  Ljóst sé af gögnum frá fasteignamatsnefnd frá árinu 1967 að lóðin sé leigulóð.  Komi þetta fram í opinberum gögnum og hafi það ekki verið hrakið af hálfu stefnanda að hann hafi verið með lóðina til afnota frá árinu 1966.  Réttur stefnanda til spildunnar sé því afnotaréttur og því standi 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga eignarhefð í vegi.  Það eitt að stefnandi haldi því fram að spildan hafi verið seld honum útloki að hann geti unnið hefð á henni.  Þar með sé honum ljóst að spildan hafi verið í eigu landeigenda og eignatilfærslan eigi því að hafa gerst á grundvelli löggernings.  Það geti stefnandi hins vegar ekki sannað og því ljóst að spildan tilheyri enn jörðinni og sé því eign stefndu.  Standi huglæg afstaða stefnanda því einnig í vegi að hann hafi hefðað spilduna, sbr. 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga.

Stefndu krefjast sýknu af varakröfu á sömu forsendum og aðalkröfu. Krafan styðjist hvorki við samninga né lög.  Leigusamningar séu í eðli sínu tímabundnir og því ætíð uppsegjanlegir með eðlilegum fyrirvara.  Því er mótmælt að stefnandi hafi unnið ótímabundinn afnotarétt án endurgjalds.  Lóðin hafi ekki verið látin á erfðafestu, sbr. áðurnefnt skjal frá fasteignamatsnefnd.  Hafi leigusamningur sá, er aðilar gerðu í upphafi, verið löngu útrunninn og því ljóst að hús stefnanda sé lóðarréttindalaust í dag.  Geri stefnandi sér þetta ljóst, enda hafi hann leitað eftir að fá samning um lóðina.

Stefndu telja að hinn munnlegi afnotasamningur, er fyrst var gerður, hafi runnið út 1990 og í síðasta lagi við andlát Vilmundar heitins árið 1999, en hann og stefnandi hafi verið persónulegir vinir og hafi afnotin byggst á sambandi þeirra.  Hafi þessu sambandi ekki verið hróflað á meðan báðir lifðu.  Hins vegar hafi stefnanda verið vel kunnugt um að landið var eign Vilmundar og afnot stefnanda tímabundin og því ljóst að gera þurfti nýjan samning um lóðina ef hún yrði nýtt áfram sem sumarbústaðaland og samningar tækjust um það.  Standi 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga því afnotahefð einnig í vegi.  Sé afnotaréttur talinn hefðast á 40 árum, sbr. 8. gr. hefðarlaga.  Hafi afnotahefð ekki verið fullnuð þegar mál þetta var þingfest og leiði það einnig til sýknu.

Stefndu vísa um lagarök til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.  Þá er vísað til hefðarlaga nr. 46/1905, einkum 2.-4. gr. og jarðalaga, einkum nr. 65/1976 og forvera þeirra laga, auk landskiptalaga nr. 46/1941.  Þá er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar og 25. og 26. gr. þinglýsingalaga og laga nr. 41/1919 um landamerki.    

Niðurstaða.

Óumdeilt er í máli þessu að stefnandi vann að endurbótum á íbúðarhúsnæðinu í Efsta-Dal 1 á árunum 1964 og 1965.  Ágreiningur aðila snýst um það hvernig líta skuli á endurgjald stefnanda fyrir vinnu sína.  Stefnandi heldur því fram að hann hafi fengið til eignar tæplega hálfan hektara úr landinu þar sem hann reisti sumarbústað sinn sem þar stendur enn.  Stefndu halda því hins vegar fram að stefnandi hafi einungis fengið lóðina til afnota og hafi verið litið svo á að vinna hans við íbúðarhúsið jafngilti leigugreiðslum til 25 ára.  Ekki hefur komið fram í málinu að stefnandi hafi verið krafinn um leigugreiðslur að þessum tíma liðnum og enginn skriflegur leigusamningur virðist hafa verið gerður.  Óumdeilt er að upphaflega hafi staðið til að lóð stefnanda yrði út við mörk jarðarinnar við Laugardalshóla  og verður að skilja málatilbúnað stefndu svo að hefði bústaður stefnanda verið reistur þar, hefði komið til álita að selja honum lóðina.  Þá er upplýst í málinu að Friðgeir Sörlason fékk lóð við merki jarðarinnar við Laugardalshóla sem endurgjald fyrir vinnu sína og fékk hann afsal fyrir  lóðinni árið 1985 eftir að hann leitaði eftir því við Valdimar heitin.  Friðgeir skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi gert ráð fyrir að hið sama hefði átt að gilda um lóð stefnanda, en hann kvað þetta þó ekkert hafa verið rætt.

 Ekki hefur verið upplýst um ástæður þess að stefnandi reisti bústað sinn á núverandi stað en ekki hefur verið sýnt fram á að Valdimar heitinn hafi nokkru sinni gefið stefnanda í skyn að hann væri ósáttur við þann stað sem endanlega varð fyrir valinu.  Ljóst er að stefnandi hugðist flytja gamlan bústað á þann stað sem áður hafði verið ákveðinn en sá bústaður komst ekki alla leið og dagaði uppi rétt fyrir neðan hina umdeildu lóð.   Virðist ekkert hafa verið því til fyrirstöðu, þrátt fyrir þetta, að stefnandi reisti bústað sinn á upphaflega ákveðnum stað.  Þá er ljóst að Valdimar heitinn girti hina umdeildu lóð, engar athugasemdir voru gerðar við bústað þann sem stefnandi reisti og engin gögn liggja fyrir um að stefnandi hafi verið krafinn um leigugreiðslur fyrir afnot lóðarinnar meðan Valdimar heitinn var á lífi.   Þegar litið er til þess endurgjalds sem Friðgeir Sörlason fékk fyrir vinnu sína í þágu eigenda Efsta-Dals 1, benda líkur til þess að hið sama hefði átt að gilda um stefnanda og hefur ekki verið sýnt fram á að sú staðreynd að bústaður stefnanda var reistur á öðrum stað en upphaflega var ákveðinn breyti neinu í þessu sambandi.  Dómarinn hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi og samkvæmt gögnum málsins er hin umdeilda lóð um 220 metra frá mörkum jarðanna Efsta-Dals 1 og Laugardalshóla.  Verður því ekki séð að hin umdeilda lóð sé þannig staðsett í landi stefndu að af því stafi sérstakt óhagræði fyrir þau.  Stefndu halda því fram að endurgjald stefnanda fyrir vinnu sína hafi jafngilt leigugreiðslum til 25 ára og með hliðsjón af öllu framansögðu er það mat dómsins að þau beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni.  Þegar litið er til þess að enginn leigusamningur virðist hafa verið gerður og stefnandi var ekki krafinn um leigugreiðslur að þessum tíma liðnum er ósannað að stefnanda hafi verið leigð hin umdeilda lóð til afnota.  Verður niðurstaðan því sú að stefnandi hafi eignast hina umdeildu lóð sem endurgjald fyrir vinnu sína í þágu eigenda Efsta-Dals 1 á árunum 1964 og 1965.  Af hálfu stefndu hefur eignarréttur stefnanda að sumarhúsi á lóðinni verið viðurkenndur og ekki er ágreiningur um afmörkun lóðarinnar.  Verður aðalkrafa stefnanda því tekin til greina, en eftir atvikum þykir mega ákveða að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Staðfestur er eignarréttur stefnanda, Einars Gunnarssonar, að 4.644 m² lóð með landnúmer 167736 úr landi Efsta-Dals 1, Bláskógabyggð, eign stefndu, Kristrúnar Sigurfinnsdóttur og Sigurfinns Valdimarssonar, eins og lóðin er afmörkuð með hnitasetningu Loftmynda ehf. á dskj. nr. 9 og að sumarhúsi á lóðinni með fastanúmerið 220-6158.

Málskostnaður fellur niður.