Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2004


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. maí 2004.

Nr. 31/2004.

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

K

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

M og K deildu um forsjá þriggja dætra sinna, fæddra 1995, 1997 og 2002. Talið var að báðir aðilar væru hæfir til að fara með forsjá dætranna, þótt áherslur þeirra í uppeldi virtust nokkuð mismunandi. Af gögnum málsins þótti ljóst að dæturnar stæðu vel að vígi þrátt fyrir áraun af völdum sambúðarslita foreldranna og togstreitu þeirra. Með hliðsjón af áliti þeirra tveggja sálfræðinga, sem komu að málinu, og öðrum gögnum þess varð ekki séð, að nokkurt tilefni væri til að hagga því mati héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að það væri stúlkunum fyrir bestu að búa áfram hjá móður sinni. Á það yrði hins vegar að leggja áherslu að stúlkurnar fengju notið eðlilegrar umgengni við föður sinn og báðir foreldrar kostuðu kapps um að láta ekki ágreining sín í milli bitna á þeim.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Héraðsdómi var áfrýjað 21. janúar 2004. Áfrýjandi krefst þess aðallega, að sér verði dæmd forsjá þriggja dætra málsaðila, þeirra H, f. 1995, L, f. 1997, og D, f. 2002. Til vara krefst áfrýjandi forsjár tveggja eldri stúlknanna. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Ekki er ágreiningur um málavexti, svo að máli skipti, og er þeim lýst í héraðsdómi. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný gögn og er þeirra á meðal álitsgerð Odda Erlingssonar sálfræðings, sem dómkvaddur var í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. mars 2004 að beiðni áfrýjanda til að athuga og gefa álit á stöðu dætra málsaðila í félagslegu tilliti og afstöðu tveggja hinna eldri til framtíðarbúsetu þeirra. Á matsfundi með lögmönnum aðila 25. mars 2004 óskaði áfrýjandi breytinga á framsetningu matsbeiðninnar og laut athugunin að eftirfarandi þáttum: 1) Tengslum dætranna við félaga og vini í grennd við heimili móður annars vegar og föður hins vegar, 2) afstöðu dætranna til framtíðarbúsetu þeirra og 3) líðan dætranna nú í nýjum skóla og á heimili móður og föður. Eldri dæturnar komu tvisvar til matsmanns á stofu hvor með sínu foreldri og ræddu einslega við hann.

Í niðurstöðukafla álitsgerðar sálfræðingsins, sem dagsett er 3. maí 2004, er gerð grein fyrir því, að stúlkurnar hafi báðar eignast nýja vini í [...]skóla, sem þær leiki sér einnig við utan skólans. Eldri systirin sakni gömlu vinkvennanna úr [...]skóla en réttlæti minna samband við þær með því, að hún hafi eignast nýjar vinkonur. Báðar haldi systurnar sambandi við gömlu vinkonurnar, þegar þær séu í umgengni hjá föður. Sú eldri segi með nokkuð afgerandi hætti, að hún vilji hvorki breyta núverandi fyrirkomulagi á búsetu né umgengni við föður og segi þannig óbeint, hvar hún vilji búa. Afstaða hinnar yngri um búsetu sé skýrari, en hún vilji búa hjá móður sinni og engu breyta í umgengni við föður. Eldri systirin sé mjög ánægð með nýja skólann og sérstaklega kennarann, henni líði þar mjög vel og gangi vel að læra. Þeirri yngri líki einnig mjög vel við skólann, bæði kennara og nemendur, og vilji vera áfram í honum. Báðar systurnar séu ánægðar hjá móður sinni og líði þar vel. Tengslin við föður séu þeim báðum mikilvæg og þær vilji engu breyta. Þeim líði oftast vel hjá honum, en virðist frekar sakna móður sinnar þegar þær séu hjá honum en hans þegar þær séu hjá henni. Samband systranna við báða foreldra bendi til innilegra og sterkra tengsla, en ætla megi, að tengsl við móður séu sterkari en við föður. Þær vilji vera með báðum foreldrum sínum, en finnist báðum þær tilheyra móður sinni meira en föður. Þá séu þær mjög samrýndar og hafi stuðning hvor af annarri.

Fram er komið, að báðir aðilar eru hæfir til að fara með forsjá dætra sinna, þótt áherslur þeirra í uppeldi virðist nokkuð mismunandi. Af gögnum málsins er ljóst, að dæturnar standa vel að vígi þrátt fyrir áraun af völdum sambúðarslita foreldranna og togstreitu þeirra. Það var niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að það væri stúlkunum fyrir bestu að búa áfram hjá móður sinni, sem hefur annast þær og helgað þeim starfskrafta sína frá fæðingu þeirra. Með hliðsjón af áliti þeirra tveggja sálfræðinga, sem að málinu hafa komið, og öðrum gögnum þess verður ekki séð, að nokkurt tilefni sé til að hagga þessu mati héraðsdóms. Á það verður hins vegar að leggja áherslu, að stúlkurnar fái notið eðlilegrar umgengni við föður sinn og báðir foreldrar kosti kapps um að láta ekki ágreining sín í milli bitna á þeim.

Samkvæmt þessu og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2003.

I

          Mál þetta var höfðað  31. janúar sl. og dómtekið 21. október sl.

          Stefnandi er K,  [...], Reykjavík.

          Stefndi er M, [...], Reykjavík.

 

          Stefnandi krefst þess að henni verði dæmd forsjá barna aðila, H, kt. [...], L, kt. [...] og D, kt. [...] til 18 ára aldurs þeirra.   Þá er krafist máls­­kostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

          Stefndi krefst þess aðallega að honum verði dæmd forsjá framangreindra barna til 18 ára aldurs þeirra en til vara að honum verði dæmd forsjá dætranna, H og L. 

 

II

          Aðilar málsins bjuggu saman í óvígðri sambúð frá árinu 1994 til mánaðamóta nóvember-desember 2002.  Sambúðin var skráð í þjóðskrá 20. nóvember 1995.  Í upp­hafi munu aðilar hafa búið í Reykjavík en fluttu fljótlega til X og bjuggu þar fram í febrúar 1999 er þau fluttu aftur til Reykjavíkur og bjuggu þar til loka sam­búð­ar­tím­ans.  Á meðan sambúðin stóð fæddust þeim framangreindar þrjár dætur en fyrir átti stefn­­andi son sem fæddur er 1987. 

          Af hálfu stefnanda er svo skýrt frá málavöxtum að sambúðin hafi verið henni erfið.  Stefndi hafi starfað sem sjómaður þar til haustið 2002 og lítið verið heima.  Stefn­­andi hafi hins vegar verið mikið ein heima og gætt bús og barna enda hafi það verið hennar aðalstarf að annast húsmóðurstörfin.  Stefnandi kveður stefnda oft hafa lagt hendur á sig og einnig beitt sig andlegu ofbeldi.  Þá hafi hann komið illa fram við son sinn á allan hátt. 

          Stefnandi kveðst hafa óskað eftir aðstoð félagsmálayfirvalda í X í september 1998 við að slíta sambúðinni við stefnda.  Stefnanda hafi verið veitt aðstoð til að komast í Kvennaathvarfið í Reykjavík þar sem hún hafi dvalið í nokkra daga en síðan flutt ásamt börnunum á heimili foreldra hennar í Reykjavík.  Stefnandi kveður stefnda hafa verið mjög ósáttan við sambúðarslitin og lagt hart að henni að hætta við þau.  Hafi hann lofað bót og betrun og að lokum hafi stefnandi fallist á að taka upp sam­­búð að nýju og í febrúar 1999 hafi þau hafið sambúðina aftur í Reykjavík.

          Stefnandi kveður ástandið á heimilinu ekkert hafa lagast eftir að þau fluttu suður og stefndi hafi haldið áfram uppteknum hætti.  Haustið 2002 hafi komið til harkalegra átaka á milli þeirra og í framhaldi hafi komið til afskipta lögreglu og barna­vernd­ar­yfir­valda.  Í kjölfarið kveðst stefnandi hafa ákveðið að slíta sambúðinni endanlega og vildi hún að stefndi flytti af heimilinu en þegar hann neitaði því kveðst stefnandi hafa neyðst til að fara með börnin til foreldra sinna þar sem hún hefur búið síðan.  Þetta var 4. desember 2002 og daginn eftir fór stefnandi til sýslumanns og tilkynnti um sam­búð­ar­slitin.  Jafnframt krafðist hún þess að fá forsjá barna aðila en því hefur stefndi hafnað og er sá ágreiningur til úrlausnar í málinu.

 

          Af hálfu stefnda eru gerðar þær athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda að þótt hann hafi stundað sjómennsku nær allan sambúðartíma aðila hafi hann alla tíð verið mikið heima og sinnt börnunum vel.  Fyrstu árin hafi hann stundað nær ein­vörð­ungu dagróðra og þá hafi verið landlegur um helgar og í slæmum veðrum.  Eftir að hann hætti því og fór að fara í vikutúra hafi hann verið löng tímabil á milli heima.  Haustið 2002 sökk skipið, sem stefndi var skipstjóri á, og hefur hann síðan unnið við fyrir­­tæki fjölskyldunnar.  Þá kveður stefndi mjög ofmælt í fullyrðingum stefnanda  um of­­beldi af hans hálfu.  Þvert á móti kveður hann stefnanda hafa haft frumkvæði að miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi gagnvart sér.  

          Af hálfu stefnda er því haldið fram að átökin haustið 2002 hafi fullt eins verið stefn­anda að kenna en aðilar hafi engu að síður ákveðið að reyna að jafna þessi mál og halda áfram sambúðinni.  Margt hafi verið á döfinni hjá fjölskyldunni á þessum tíma, m.a. voru þau að leita sér að stærra húsnæði og voru búin að fara í greiðslumat þess vegna.  Af hálfu stefnda er því haldið fram að þetta bendi vart til þess að stefnandi hafi á þessum tíma verið búin að ákveða að slíta sambúðinni.  Þegar svo til þess kom að stefn­andi hafi ákveðið að fara af heimilinu með börnin kveðst stefndi hafa boðist til þess að fara sjálfur.  Stefnandi gæti haft húsið og búið þar með börnunum en það hafi ekki verið við það komandi við hana.  Hafi engu skipt þótt stefndi hafi lagt hart að stefnanda að hugsa málið og taka engar ákvarðanir í skyndi. 

 

          Af gögnum málsins má ráða að margt hefur gengið á í samskiptum aðila eftir að þau slitu sambúð sinni og hafa þau deilt um nánast allt sem um verður deilt, þar á meðal um umgengni við börn þeirra.   Svo fór að sýslumaður kvað upp úrskurð um um­­gengnina 8. maí sl. og hefur hún verið í föstum skorðum síðan.  Dæturnar búa hjá móður sinni í Breiðholtshverfi og sækja þar skóla, þ.e. þær eldri.  En aðra hvora viku eru þær hjá föður sínum í Grafarvogi frá fimmtudegi til þriðjudags.  Við aðalmeðferð kom fram að samkomulag aðila er með þeim hætti að stefndi sækir ekki dæturnar á heimili stefnanda heldur skiptast þau á þeim á “hlutlausum stað”.

 

III

          Stefnandi byggir kröfu sína á því að börnunum sé fyrir bestu að hún fái forsjá þeirra.  Ennfremur byggir hún á því að vilji eldri telpnanna sé sá að vera hjá henni. 

          Stefnandi bendir á að hún hafi að langmestu leyti séð um uppeldi og umönnun barn­­anna frá fæðingu þeirra og fram á þennan dag.   Starfs síns vegna hafi stefndi verið langdvölum að heiman og því hafi foreldrahlutverkið að mestu leyti lent á stefn­anda, bæði inni á heimilunum og eins gagnvart stofnunum þjóðfélagsins.  Börnin hafi vanist því að hún sé ávallt til staðar og því séu tengslin milli hennar og barnanna afar sterk. Hlutur stefnda sé aftur á móti mun minni og einnig telur stefnandi að eldri börn­un­um stafi nokkur stuggur af honum vegna þess ofbeldis sem hann hafi sýnt stefn­anda.  Stefnandi kveðst hafa verið heimavinnandi allan sambúðartímann utan tveggja ára tímabils frá september 1999 til nóvember 2001 er hún hafi unnið hálfan dag á leik­skóla þar sem eldri dæturnar voru í dagvistun.  Nú hafi hún uppi áform um að fara aftur út á vinnumarkaðinn, fyrst með endurhæfingu í Kvennasmiðjunni og síðar í kenn­aranám.

 

          Af hálfu stefnda er á því byggt að það sé börnunum fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra.  Hann hafi alla tíð tekið virkan þátt í uppeldi og umönnun barnanna og milli hans og þeirra séu sterk og góð tengsl.  Hann kveðst hafa séð um mikilvæga þætti í umönnun þeirra, m.a. að þær tækju þátt í heilbrigðu tómstundastarfi en á því hafi stefnandi engan áhuga haft og frekar latt börnin til þess en hvatt.  Þá kveður stefndi aðstæður sínar vera mjög góðar og við fjárskipti aðila muni hann leysa til sín íbúð­ina þar sem fjölskyldan hafi búið á sínum tíma.  Aðstæður stefnanda í þessum efn­um séu hins vegar mjög óljósar.  Hún dvelji hjá foreldrum sínum og hafi mun lakari tekjumöguleika en stefndi.  Algjörlega sé óljóst hvernig hún hyggist standa að rekstri fjölskyldunnar fjárhagslega.  Stefndi kveður stefnanda skorta metnað og áhuga fyrir hönd barnanna og uppeldisaðferðir hennar séu mjög vafasamar.    Með vísan til fram­angreinds kveður stefndi það þjóna best hagsmunum barnanna að honum verði falin forsjá þeirra til 18 ára aldurs.

IV

     Í maí sl. var Helgi Viborg, sálfræðingur, dómkvaddur til að athuga aðila máls­ins og börnin.  Þess var óskað að hann mæti eftirtalin atriði svo og annað það sem máli kunni  að skipta við úrlausn málsins.

  1. Hæfni foreldra til að fara með forsjá barnanna og hver skilningur þeirra á þörfum barnanna er.
  2. Hvernig er háttað tilfinningalegu sambandi og tengslum á milli hvors foreldris og barnanna?
  3. Félagslegar aðstæður foreldra með tilliti til heimilisaðstæðna, atvinnu og fram­tíð­aráforma.
  4. Andleg og líkamleg heilsa og persónulegir hagir foreldra.
  5. Hvernig er háttað uppeldisaðstæðum fyrir börnin hjá hvoru foreldri fyrir sig.
  6. Liðsinni vandamanna hvors foreldris um sig.
  7. Umgengni barna og forsjárlauss foreldris. Hvort foreldra er líklegra til að við­halda eðlilegri umgengni við hitt foreldri til frambúðar?
  8. Tengsl barnanna innbyrðis.

Í greinargerð matsmannsins kemur fram að hann hafi hafið athugunina í lok maí. Farið hafi verið í heimsóknir til beggja aðila, aðstæður skoðaðar, rætt við heimilisfólk og fylgst með samskiptum.  Jafnframt hafi verið rætt ítarlega við báða aðila og lögð fyrir þá sálfræðileg próf til að fá betri mynd af persónuleika þeirra og styrkleika­sviðum.  Viðtöl við börnin og tengslaprófun fór fram á sálfræðistofu matsmanns og á heim­ili þeirra.  Matsmaðurinn skilaði álitsgerð sinni um miðjan ágúst sl.   

Samantekt og mat matsmannsins á stefnanda er þetta:  "Samkvæmt prófunum er K meðalgreind og í persónuleikaprófi lýsir hún sér sem heilbrigðri.  Hún er oftast góð í samvinnu en stundum ber á taugaspennu, kvíða og vantrausti.  Svo virðist sem sjálfsmynd K sé ekki traust.  Algengt einkenni þeirra  einstaklinga sem eru með slaka sjálfsmynd er að tilfinningalíf, lífsskoðanir og hegðun sveiflast talsvert eftir líðan og aðstæðum. Svo virðist vera um K. Samkvæmt því er ekki ólíklegt að K eigi erfitt með að veita forystu í tengslum, stýra þeim.  Tengsl hennar við börnin eru þó náin, hún lifir fyrir börnin og er því mjög háð þeim. Uppeldisviðhorf hennar virðast mest byggð á hennar eigin reynslu og eru mikið mótuð af vilja barna fremur en langtíma markmiðum.  Vilji K til að sinna og annast börn sín er ein­lægur og góður og hæfni hennar til að fara með forsjá barnanna er ótvíræð.  K lýsir vilja til að virða almennar venjur um umgengni barnanna við föður ef hún fær for­sjá þeirra.  Elsta barn hennar hefur ekki verið í miklum tengslum við föður sinn og vegna harðrar deilu foreldra nú um forsjá og umgengni er erfitt að meta til fulls hvernig K muni sinna umgengnismálum í framtíðinni.  Sumt bendir til að hún eigi erfitt með að treysta barnsfeðrum sínum, að hún eigi erfitt með samskipti við þá, skorti hæfni til að leysa úr ágreiningi varðandi umgengni eða aðra samvinnu um upp­eldi barnanna.  Á sama hátt gæti hún átt erfitt með að sætta sig við eða svara mál­efna­lega áliti sérfæðinga og úrskurði yfirvalda."

Samantekt og mat matsmannsins á stefnda er þetta:  "Um er að ræða 36 ára mann, M, sem deilir um forsjá yfir þremur dætrum sínum.  Samkvæmt próf­unum er M vel greindur og persónuleikapróf sýnir að hann er heilbrigður.  Allt bendir til að M sé stjórnsamur og metnaðarmikill maður.  Hann gerir miklar kröfur til sjálfs sín og til annarra.  Kröfur hans til annarra setur hann á stundum fram af mikilli alvöru, festu og stjórnsemi og því ekki ólíklegt að aðrir geti upplifað fram­göngu hans sem frekju, yfirgang og andlegt ofríki.  M virðist ekki alltaf hafa gott inn­sæi í viðbrögð annarra við ofangreinda framkomu.  Þannig virðist hann vanmeta sinn þátt í þeim erfiðleikum sem komið hafa upp í sambúð hans og K.  Athug­un­in bendir ekki til þess að M sé ofbeldishneigður maður.  Ekkert bendir til að dætur hans séu þvingaðar eða hræddar í samskiptum við hann heldur sýnast þær eiga auð­velt með samveru við hann.  M er metnaðarfullur fyrir hönd dætra sinna og mun sjálfsagt ekkert til spara til að vegur þeirra verði sem mestur.  Viðhorf hans til dætranna og tengsla hans við þær eru jákvæð, sterk og gagnkvæm.  Hæfni M til að fara með forsjá þeirra er ótvíræð.  Viðhorf hans til tengsla og umgengni telpnanna við móður þeirra einkennast af skilningi og því líklegt að hann muni standa við um­gengn­issamninga ef hann fær forsjá dætranna."

Samantekt matsmanns eftir viðtöl og athuganir á dætrum aðila er þessi:  "Mats­maður telur að H, L og D séu allt myndarlegar og vel gerðar telpur sem bera þess skýr merki að hafa búið við gott atlæti og góða umönnun.  Við­horf H og L til foreldra sinna einkennast af jákvæðni, velvild og hlýju.  Þær eru báðar ósáttar við skilnað foreldranna og átta sig ekki að fullu á hvernig mál­efn­um er háttað né hvað bíður þeirra.  Þær gera ekki upp á milli foreldra sinna og segjast vilja vera jafnt hjá báðum.  Hvorug kveður því skýrt á um vilja til þess að lúta fremur forsjá annars aðila fremur en hins.  Ef fast er gengið á þær hallast þær nokkuð nær móður sinni, þó er nokkur áherslumunur eftir því hvort þær eru hjá föður eða hjá móður.

Matsmaður telur deilu foreldra um börnin mjög hatramma og fátt sparað í þeirri deilu. Þannig hafa báðir aðilar ítrekað reynt að blanda matsmanni inn í deilu um um­gengni.  Einnig tekur matsmaður undir álit sýslumanns dags. 8. maí sl. þar sem segir: “Af gögnum málsins er ljóst að mikil togstreita er milli foreldra og að börnunum er ekki haldið utan við þá togstreitu og að þau hafa orðið vitni að togstreitu og átökum foreldra.”

Matsmaður er sammála áliti Jóhanns Loftssonar, sálfræðings, sem vitnað er í sbr. úr­skurð sýslumanns dags. 9. maí sl.: “Samkvæmt yfirlýsingu sálfræðingsins kom ekkert fram í því viðtali sem gæfi tilefni til að ætla að vera hjá föður væri eldri systr­un­um erfiðari en sem svarar eðlilegu róti við að fara á milli heimila þar sem foreldrar eru ósáttir.  Stúlkan greindi frá þokkalegum samskiptum bæði við föður og móður, mundi vel eftir átökum milli foreldra, en ekki kom fram hjá henni að annað foreldri hefði verið gerandi og hitt þolandi, kvaðst muna eftir drykkju en kvaðst ekki óttast hana hjá föður.  Sagði hún þær systur rífast jafnt hvort sem þær eru hjá móður eða föður, væru þó ekki eins óþekkar hjá föður eins og hjá móður.”

Greinilegt er að telpurnar búa við talsvert ólík uppeldisviðhorf hjá föður annars vegar og móður hins vegar.  Uppeldisviðhorf móður virðast einkennast meira af því að hlusta á börnin og leyfa þeim að ráða miklu um athafnir sínar og hegðun fremur en vera mjög stýrandi eða leiðbeinandi.  Faðir aftur á móti virðist telja rétt að stýra og móta börnin með fræðslu, leiðbeiningum og kröfum um athafnir og hegðun.  Það er skoðun matsmanns að áherslur beggja hafi nokkuð til síns máls og að hófleg blanda þessara aðferða sé börnum farsælust.  Deila og ósætti foreldra virðist auka og magna nei­kvæðar hliðar þessara uppeldisviðhorfa og öfgar þeirra gerðir að umræðuefni.  Þannig er hvorugur aðili tilbúinn að horfa á sjónarmið hins eða sýna tillitssemi og um­burð­arlyndi.  Þannig tekur matsmaður ekki undir þá skoðun móður að börnin búi við of­beldi og uppeldishörku hjá  föður.  Á sama hátt tekur matsmaður ekki undir þá skoðun föður að móðir hafi ekki metnað fyrir hönd telpnanna eða vilji ekki veg þeirra sem bestan."

Matsmaður ræddi einnig við son stefnanda og foreldra aðila en það hefur ekki þýð­ingu fyrir úrlausn málsins að gera grein fyrir þeim samtölum.

Niðurstöður matsmannsins eru þessar og þar með svör hans við framangreindum spurn­ingum:

  1. Hæfni foreldra til að fara með forsjá barnanna og hver skilningur þeirra á þörfum barnanna er.

Að dómi matsmanns eru báðir foreldrar hæfir til að fara með forsjá barnanna. Skiln­ingur beggja á þörfum barnanna er ágætur. Faðir á auðveldara með að lýsa mati sínu á þörfum barnanna og virðist metnaðarfyllri fyrir þeirra hönd.

 

  1. Hvernig er háttað tilfinningalegu sambandi og tengslum á milli hvors foreldris og barnanna?

Tilfinningalegt samband móður og barnanna er náið og gagnkvæmt. Móðir er afar háð börnunum. Tengsl hennar byggja mikið á umönnunarþáttum enda börn­in enn ung. Tilfinningalegt samband föður og barnanna er einnig náið og gagn­kvæmt og lýsir sér annars vegar í hlýrri og innilegri framkomu og hins vegar í leiðbeiningum og stýringu.

 

  1. Félagslegar aðstæður foreldra með tilliti til heimilisaðstæðna, atvinnu og fram­tíðaráforma.

Aðstæður foreldra eru ólíkar. Enn ríkir óvissa um eignaskipti og hefur það áhrif á stöðu mála, sérstaklega hjá móður. Móðir býr inni á heimili foreldra sinna en hyggst leigja íbúð fljótlega í [Breiðholti]. Hún er ekki í vinnu en hyggst byrja að vinna á leikskóla í haust. Faðir er nýfluttur í rúmgott ein­býl­is­hús í [Grafarvogi], sem hann leigir. Þar hafa börnin hvert sitt herbergi, sem eru vel búin húsgögnum. Faðir hefur trygga atvinnu og hefur, að eigin sögn, mögu­leika á að haga vinnu sinni eftir þörfum barnanna. Tekjur hans eru góðar.

 

  1. Andleg og líkamleg heilsa og persónulegir hagir foreldra.

Andleg og líkamleg heilsa beggja foreldra er góð. Bæði búa ein og eru ekki í föstu sambandi við annan aðila. Bæði segjast ekki hafa hug á slíku á næstunni.

 

  1. Hvernig er háttað uppeldisaðstæðum fyrir börnin hjá hvoru foreldri fyrir sig.

Eins og er býr móðir hjá foreldrum sínum og ásamt því að hafa aðgang að öll­um þægindum heimilis þeirra hefur hún til umráða herbergi þar sem hún og dæt­urnar sofa. Dæturnar geta leikið sér á heimili afa þeirra og ömmu eins og um væri að ræða þeirra eigið heimili. Móðir hyggst flytja fljótlega og hefur hug á íbúð í [Breiðholti]. Þar yrði stutt í skóla fyrir börnin og vinnu hennar.

Faðir leigir einbýlishús í [Grafarvogi] og hafa dæturnar hvert sitt herbergi þar, sem eru vel búin húsgögnum. Allur aðbúnaður og aðstæður á heimilinu eru góðar og vel séð fyrir öllum þörfum barnanna. Stutt er í [...]skóla, þar sem H var í skóla.

 

  1. Liðsinni vandamanna hvors foreldris um sig.

Móðir býr hjá foreldrum sínum sem styðja hana af heilum hug bæði varðandi hús­næði og annað sem móðir og börn þarfnast. Faðir hefur dyggan stuðning for­eldra sinna og systkina.

 

  1. Umgengni barna og forsjárlauss foreldris. Hvort foreldra er líklegra til að við­halda eðlilegri umgengni við hitt foreldri til frambúðar?

Foreldrar voru ekki sammála hvernig umgengni skyldi háttað og gaf sýslu­maður út úrskurð til bráðabirgða þann 8. maí sl. Þrátt fyrir það hefur ekki ríkt full­komin sátt og kenna bæði hinu um að virða ekki rétt hins. Sérstaklega hefur móðir þó átt erfitt með að treysta föður. Hún segist þó ætla að virða hefð­bundnar reglur um umgengni fái hún forsjá barnanna en setur þó skilyrði. Sextán ára sonur hennar frá fyrra sambandi hennar, P, hefur ekki verið í reglubundnu sambandi við föður sinn. Faðir hefur lýst yfir vilja til að virða mikla og nána umgengni barnanna við móður ef hann fær forsjá þeirra.

Ekki er hægt að álykta annað en að báðir foreldrar séu jafn líklegir til að við­halda umgengni þegar deilu er lokið. 

 

  1. Tengsl barnanna innbyrðis.

Tengsl barnanna innbyrðis virðast góð. Sérstaklega eru H og L nánar og hafa mikinn stuðning hvor af annarri. D er svo ung enn­þá að erfitt er að átta sig á tengslum hennar við systurnar. Ljóst er þó að eldri syst­urnar eru mjög hændar að litlu systur sinni og ætla má að það sé gagn­kvæmt."

 

V

Eins og venja er í forsjármálum hefur verið lagður fram mikill fjöldi vottorða og bréfa frá fólki, er tengist aðilum.  Skýra gögn þessi frá ágæti þess aðila, er þau leggur  fram, og á stundum frá ávirðingum og ókostum hins.  Það er mat dómsins að það hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins að gera grein fyrir þessum gögnum.  Þá er og rétt að geta þess að lögð hafa verið fram mörg gögn varðandi samskipti aðila við opinbera aðila, skólayfirvöld, barnaverndaryfirvöld svo og læknisvottorð.  Þessi gögn varða aðal­lega tímabilið eftir að aðilar slitu sambúð.  Þau hafa heldur ekki þýðingu fyrir úr­lausn málsins.

Það var niðurstaða matsmannsins að báðir aðilar væru hæfir til að fara með forsjá dætra sinna.  Það er og álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að gögn málsins, þ.m.t. skýrslur aðila fyrir dómi, sýni að þeir séu báðir hæfir til að fara með forsjána.  Við úr­lausn málsins verður hins vegar að líta til þess að stefnandi hefur alla tíð verið heima­vinn­andi og þar af leiðandi tengst dætrunum meir en stefndi sem vann utan heimilis, aðal­lega á sjó, eins og rakið var.  Þá hafa dæturnar búið hjá stefnanda frá sam­búð­ar­slit­um og hefur ekki annað komið fram en að þar uni þær hag sínum vel og hafi þrosk­ast eðlilega.  Það hefði því minnsta röskun í för með sér fyrir þær að verða við kröf­um stefnanda og dæma henni forsjána.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að aðilar hafi virt umgengnisrétt eins og hann var ákveðinn í úrskurði sýslu­manns og telur dómurinn því ekki ástæðu til að ætla annað en að svo verði framvegis.  Ljóst er af gögnum málsins að allnokkur munur er á aðstöðu aðila fjárhagslega en hann getur ekki ráðið úrslitum, enda ekkert fram komið um að stefnandi hafi ekki séð sóma­samlega um dæturnar.  Á sama hátt hefur verið sýnt fram á að stefndi hefur ekki látið sinn hlut eftir liggja í þeim efnum. 

Með vísun til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að ekki séu heldur efni til að verða við varakröfu stefnda um að honum verði dæmd forsjá eldri dætranna, enda verður ekki annað séð en að hér sé um samheldinn systkinahóp að ræða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að það sé börnum aðila fyrir bestu að móður þeirra, stefnanda, verði falin forsjá þeirra til 18 ára aldurs.  Það verður því orðið við kröfu hennar og henni dæmd forsjáin.  Stefndi hefur ekki uppi máls­kostn­aðarkröfu á hendur stefnanda og skal því málskostnaður falla niður.  Gjaf­sókn­ar­kostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanna hennar, Þrastar Þórssonar hdl., er rak málið fyrir hana í fyrstu, samdi stefnu og lagði fram mats­beiðni, 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og Þorbjargar Ingu Jóns­dóttur hrl., er tók við rekstri málsins áður en matsgerð var lögð fram og flutti það, 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

 

Dóminn kváðu upp Arngrímur Ísberg héraðsdómari og sálfræðingarnir Þorgeir Magnús­son og Þórkatla Aðalsteinsdóttir.

 

Dómsorð

Stefnandi, K, skal fara með forsjá H, L og D til 18 ára aldurs þeirra.

Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkis­sjóði þar með talin þóknun lögmanna hennar, Þrastar Þórssonar hdl., 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.