Hæstiréttur íslands

Mál nr. 158/2016

Elís Árnason (Jónas Örn Jónasson hdl.)
gegn
Arnari Gústafssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli E á hendur A var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að upphafleg tilvísun E og G ehf. til 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafi verið í samræmi við málatilbúnað þeirra. Þar sem G ehf. ætti ekki lengur aðild að málinu var því vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. febrúar 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði höfðuðu sóknaraðili og Grand ehf. mál þetta á hendur varnaraðila með þeirri dómkröfu að „stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 3.000.000“ með tilgreindum dráttarvöxtum. Í héraðsdómsstefnu er það rakið að sóknaraðili og Grand ehf. hafi 1. júní 2015 gert kaupsamning við varnaraðila um „fasteignina Brekkugötu 5 ... Akureyri, nánar tiltekið, Brekka Hrísey fastanr: 215-6263, íbúð kr. 14.000.000 og Brekka Hrísey, fastanr: 215-6264, veitingahús.“ Í umræddum kaupsamningi, sem gerður var 1. maí 2015, voru seljendur báðir tilgreindir 100% eigendur beggja hluta fasteignarinnar. Þá er því jafnframt lýst í stefnunni að fasteignin hafi verið afhent á kaupsamningsdegi og hafi varnaraðili „þegar greitt umsamda greiðslu utan stefnufjárhæðar þessa máls kr. 3.000.000“. Varnaraðili hafi ekki greitt stefnendum síðastgreinda fjárhæð, þrátt fyrir innheimtutilraunir þeirra beggja og af þeim sökum hafi þeim verið nauðsynlegt að höfða málið. Er um þetta vísað til áðurnefnds kaupsamnings og innheimtubréfs, þar sem stefnendur voru sameiginlega tilgreindir kröfuhafar. Samkvæmt þessu var upphafleg tilvísun sóknaraðila og Grands ehf. til 18. gr. laga nr. 91/1991 í samræmi við framangreindan málatilbúnað þeirra, þótt sóknaraðili haldi því nú fram að aðild þeirra hafi frá upphafi verið reist á 19. gr. laganna. Með þessari athugasemd og að virtum e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 er fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Elís Árnason, greiði varnaraðila, Arnari Gústafssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. febrúar 2016.

Mál þetta var höfðað 9. október 2015.  Stefnendur eru Grand ehf., Jörfabyggð 10, Akureyri og Elís Árnason, Ólafsgeisla 59, Reykjavík.  Stefndi er Arnar Gústafsson, Brimnesi, Dalvíkurbyggð. 

Dómkröfur stefnenda samkvæmt stefnu hljóða um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda [svo!] 3.000.000 króna ásamt nánar greindum dráttarvöxtum og málskostnað. Er málið höfðað til heimtu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi sem stefnendur sem seljendur og stefndi sem kaupandi gerðu þann 1. júní 2015 um íbúð að fjárhæð 14.000.000 króna og veitingahús að fjárhæð 14.000.000 króna, hvort tveggja að Brekku, Hrísey.  Vísa stefnendur hvað aðild varðar til 18. gr. laga nr. 91/1991.  Krafa stefnda um frávísun málsins var meðal annars reist á því að aðildin væri vanreifuð, þar sem ekki yrði ráðið af stefnu hvort um samaðild samkvæmt því ákvæði væri að ræða eða aðilasamlag samkvæmt 19. gr. sömu laga.  Í kröfugerð væri ekki krafist óskiptrar greiðslu og þess krafist að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda, (í eintölu) 3.000.000 króna þótt stefnendur væru tveir.  Þó væri ekki gerð sjálfstæð krafa um greiðslu af hálfu hvors stefnanda um sig líkt og nauðsyn beri til sé um aðilasamlag að ræða.

Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu var því lýst yfir að stefnandinn Grand ehf. félli frá málsókn.  Þá var því einnig lýst yfir að sá aðili hefði fengið greitt að fullu en ógreiddar væru 3.000.000 króna til stefnandans Elísar.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 verður mál fellt niður ef stefnandi krefst þess.  Ber því að fella málið niður hvað varðar kröfu stefnanda Grands ehf.  Að svo komnu máli er brostinn sá grundvöllur sem stefnandi Elís Árnason lagði að málatilbúnaði sínum, nefnilega að stefnendur eigi sameiginlega aðild til sóknar.  Þegar af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi. 

Stefnendum verður gert að greiða stefnanda óskipt 500.000 krónur í máls­kostnað.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Mál þetta fellur niður hvað varðar kröfur stefnanda Grands ehf.

Kröfum stefnanda Elísar Árnasonar er vísað frá dómi.

Stefnendur greiði stefnda, Arnari Gústafssyni, óskipt 500.000 krónur í máls­kostnað.