Hæstiréttur íslands
Mál nr. 192/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfulýsing
- Fjármálafyrirtæki
|
Þriðjudaginn 17. maí 2011. |
|
|
Nr. 192/2011. |
Rohan Stefan Nandkisore (Hilmar Gunnlaugsson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Herdís Hallmarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Kröfulýsing. Fjármálafyrirtæki.
R kærði úrskurð héraðsdóms þar sem varakröfum hans á hendur L hf. var vísað frá dómi en öðrum kröfum hans hafnað. Fyrir Hæstarétti krafðist R meðal annars þess að viðurkennt yrði að lánssamningur aðila og kaupsamningur um hlutdeildarskírteini fyrir andvirði lánsins í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK væru ógildir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að krafa L hf. á hendur R vegna fyrrgreinds láns hefði verið á meðal þeirra eigna sem fluttar hefðu verið yfir til NBI hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Hæstiréttur tók fyrst til umfjöllunar varakröfu R um að hrundið yrði frávísun héraðsdóms á varakröfum í endanlegri kröfugerð hans 22. október 2010. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að umræddar varakröfur R væru eðlisólíkar aðalkröfu hans. Þá skorti með öllu reifun á þeim þannig að séð yrði hvort og þá að hvaða marki þær væru í skiljanlegu samhengi við aðalkröfuna. Féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að varakröfum þessum skyldi vísað frá héraðsdómi. Um aðalkröfu R sagði í dómi Hæstaréttar að R ætti þess kost að fá úrlausn um þá hagsmuni með því að verjast kröfu NBI hf. um greiðslu umrædds láns. Þegar af þeirri ástæðu yrði að hafna þeirri kröfu hans, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hið sama ætti við um aðra og þriðju varakröfu R. Var þeim því hafnað með sömu röksemdum. Varðandi skaðabótakröfu R féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að R hefði ekki sýnt fram á í málinu að starfsmenn L hf. hefðu með saknæmum hætti þagað yfir upplýsingum eða veitt rangar upplýsingar sem valdið hefðu því að R hefði tekið umrætt lán til kaupa á hlutdeildarskírteinum. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2011, þar sem vísað var frá dómi varakröfum sóknaraðila í endanlegri kröfugerð hans 22. október 2010 í máli á hendur varnaraðila en öðrum kröfum hans hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og aðallega „að fallist verði á þá kröfu [hans] að 6.000.000 króna lánssamningur aðila“ 16. apríl 2007 og kaupsamningur um hlutdeildarskírteini í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK fyrir andvirði lánsins ,,séu ógildir löggerningar og því skuli aðilar verða eins settir og samningarnir hefðu ekki verið gerðir, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991.“ Til vara krefst sóknaraðili þess að hrundið verði frávísun héraðsdóms á varakröfum hans í endanlegri kröfugerð 22. október 2010 ,,og lagt fyrir héraðsdómara að taka þær til efnismeðferðar“. Önnur varakrafa sóknaraðila er sú, að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að tengja höfuðstól framangreinds láns ,,við gengi erlendrar myntar“. Þriðja varakrafa hans er, að viðurkennt verði að krafa varnaraðila samkvæmt framangreindum lánssamningi aðila skuli takmarkast við andvirði þeirra hlutdeildarskírteina í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK, sem keypt voru fyrir andvirði lánsins, og þeirra hlutdeildarskírteina í sjóðnum sem sett voru að handveði með yfirlýsingu nr. 0106-63-8441. Að öllu þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að varnaraðili beri ábyrgð á tjóni sóknaraðila sem hlotist hafi af ágöllum á ráðgjöf varnaraðila við gerð fyrrgreinds lánssamnings og ráðgjöf um ráðstöfun á andvirði lánsins. Sóknaraðili krefst í öllum tilvikum málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram átti sóknaraðili hlutdeildarskírteini í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK. Kveður hann nafnverð hlutdeildar sinnar í sjóðnum hafa verið 369.948,36 krónur. Sóknaraðili gerði samning við varnaraðila 16. apríl 2007 en samkvæmt honum veitti varnaraðili sóknaraðila lán, sem nefnt var fjölmyntalán, að ,,jafnvirði kr. 6.000.000“ í japönskum yenum. Lánið skyldi greiðast í einu lagi eftir tvö ár, 15. apríl 2009, en vexti skyldi þó greiða mánaðarlega í fyrsta sinn 15. maí 2007. Fram kemur í lánssamningi að sóknaraðili geti greitt afborganir, vexti og aðrar greiðslur í íslenskum krónum, en geri hann það skuli hann ,,greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Þá segir að sóknaraðili óski ,,eftir að reikningur hans ... verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.“ Sóknaraðili fékk greidda lánsfjárhæðina, að frádregnu lántökugjaldi og þóknun fyrir skjalagerð, 5.972.000 krónur inn á reikning, sem hann óskaði eftir. Á svonefndri kaupnótu kemur fram að sóknaraðili hafi fengið lánið greitt út í 10.974.134 japönskum yenum en svo selt þau varnaraðila og fengið framangreinda fjárhæð í íslenskum krónum. Fyrir lánsfjárhæðina keypti sóknaraðili 16. apríl 2007 hlutdeildarskírteini í áðurnefndum sjóði að nafnvirði 234.865,89 krónur. Gerður var samningur þar sem sóknaraðili setti varnaraðila að handveði hlutdeildarskírteini í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK að nafnverði 476.493,45 krónur. Var um að ræða þau hlutdeildarskírteini, sem keypt voru fyrir lánið, en einnig hluta af þeim skírteinum sem sóknaraðili átti fyrir.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008 tók stofnunin yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipaði bankanum skilanefnd. Tveimur dögum síðar tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila til nýs banka, NBI hf. Meðal eigna, sem fluttar voru frá varnaraðila til hins nýja banka, var krafan á hendur sóknaraðila samkvæmt lánssamningi þeim, sem að framan greinir. Ekki liggur annað fyrir en að afborgarnir af láninu hafi þá verið í skilum.
Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila 28. október 2008 að ákveðið hefði verið að slíta öllum peningamarkaðssjóðum í rekstri á hans vegum og skyldu þeir gerðir upp. Ætti þetta meðal annars við um Peningamarkaðssjóð Landsbankans ISK og lægi fyrir að útgreiðsluhlutfall úr þeim sjóði yrði 68,8% af skráðu gengi hlutdeildarskírteina í sjóðnum. Í tilkynningunni kom fram að af þessum sökum yrðu greiddar 9.133.568 krónur á tiltekinn innlánsreikning, sem stofnaður hefði verið í nafni sóknaraðila. Sóknaraðili fékk einnig greiddar 3.955.217 krónur á annan innlánsreikning, en þar var um að ræða andvirði annarra hlutdeildarskírteina, sem hann átti í sjóðnum.
Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008, sem síðar var framlengd. Héraðsdómur skipaði varnaraðila slitastjórn, sem gaf út innköllun til kröfuhafa 30. apríl 2009.
Við þessar aðstæður átti sóknaraðili þess kost að lýsa skaðabótakröfu við slit varnaraðila, sem nam tjóni hans vegna þess að einungis 68,8% af gengi hlutdeildarskírteina hans í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK hafði verið greitt út. Gat hann því lýst skaðabótakröfu ef hann taldi að starfsmenn varnaraðila hefðu með saknæmri og ólögmætri háttsemi orðið valdir að tjóni hans. Var honum ekkert að vanbúnaði að gera þessa kröfu tölulega. Hann gat um leið varist innheimtu NBI hf. á lánsfjárhæðinni með þeim röksemdum sem hann taldi að leiða ættu til þess að hann væri óbundinn af lánssamningnum. Þess í stað kýs sóknaraðili að haga málatilbúnaði sínum svo sem hann gerir í máli þessu.
II
Varakrafa sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar og heimvísun málsins vegna frávísunar héraðsdóms á varakröfum í endanlegri kröfugerð hans 22. október 2010 verður tekin til úrlausnar á undan öðrum kröfum hans, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. sömu laga.
Í dómi Hæstaréttar 26. janúar 2011 í máli sömu aðila nr. 673/2010 var úrskurður héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar. Í úrskurði héraðsdóms, sem var til endurskoðunar í hæstaréttarmálinu, var bæði varakröfum sóknaraðila í endanlegri kröfugerð 22. október 2010 vísað frá dómi og varakröfum í héraðsgreinargerð hans. Í dómi Hæstaréttar segir að ætla verði sóknaraðila í því máli nokkurt svigrúm til að koma að varakröfum í héraðsgreinargerð í máli eins og þar var til úrlausnar. Voru þær varakröfur taldar reistar á sama grundvelli og aðalkrafa hans og skyldu koma fyrst til úrlausnar að henni frágenginni. Var talið að varakröfur í héraðsgreinargerð sóknaraðila í því máli rúmuðust innan þeirra marka, sem 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 heimilaði, þótt þeirra hefði ekki verið getið í kröfulýsingu hans. Í þessum dómi Hæstaréttar er ekki sérstaklega vikið að frávísun héraðsdóms á varakröfum sóknaraðila í endanlegri kröfugerð hans. Eftir að úrskurður héraðsdóms í því máli hafði verið ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar tók héraðsdómur afstöðu til allra krafna sóknaraðila með þeim hætti að hann vísaði frá varakröfum í endanlegri kröfugerð 22. október 2010, en tók til efnismeðferðar aðalkröfu sóknaraðila og varakröfur í héraðsgreinargerð hans.
Fallist er á með héraðsdómi að varakröfur sóknaraðila í endanlegri kröfugerð 22. október 2010, að því marki sem unnt er að henda reiður á þessum hluta málatilbúnaðar hans, séu eðlisólíkar aðalkröfunni, sem lýtur að ógildingu samnings 16. apríl 2007 um lán til sóknaraðila að fjárhæð 6.000.000 krónur og kaupsamnings hans um hlutdeildarskírteini í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK. Þessar varakröfur lúta annars vegar að því að fá viðurkennda sem forgangskröfu við slit varnaraðila fjárhæð sem nemur skráðu gengi þeirra hlutdeildarskírteina, sem sóknaraðili átti í sjóðnum, áður en hann gerði lánssamninginn og keypti fleiri hlutdeildarskírteini, en sem almenna kröfu 31,2% af skráðu gengi sömu skírteina. Hins vegar lúta varakröfurnar að því að fá viðurkennda sem almenna kröfu fjárhæð, sem nemur mismun lánsfjárhæðarinnar og andvirðis hlutdeildarskírteina, sem keypt voru fyrir lánið, miðað við skráð gengi þeirra, en að viðbættu tjóni, sem sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir við að fá aðeins 68,8% af skráðu gengi þeirra hlutdeildarskírteina sem hann átti, áður en hann gerði lánssamninginn. Með varakröfum þessum tekur sóknaraðili ekki tillit til þess að 68,8% af skráðu gengi allra hlutdeildarskírteina hans hefur þegar verið greitt inn á reikninga í hans nafni, þótt hluti inneignar hans á reikningunum kunni að vera veðsettur. Að auki skortir með öllu reifun á kröfum þessum þannig að séð verði hvort og þá að hvaða marki þær séu í skiljanlegu samhengi við aðalkröfuna.
Er fallist á með héraðsdómi að varakröfum þessum skuli vísað frá héraðsdómi.
III
Aðalkrafa sóknaraðila um að fallist verði á, að lánssamningur hans og varnaraðila 16. apríl 2007 og samningur þeirra um kaup á hlutdeildarskírteinum séu ógildir löggerningar felur í sér að taka þarf afstöðu til lánssamnings, sem með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var fluttur til NBI hf., sem ekki á aðild að máli þessu. Sóknaraðili á þess kost að fá úrlausn um þá hagsmuni, sem hér um ræðir, með því að verjast kröfu NBI hf. um greiðslu lánsins. Verður kröfu hans hafnað þegar af þessum ástæðum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Hið sama á við um aðra varakröfu hans um að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að tengja höfuðstól lánsins, 6.000.000 krónur, við gengi erlendrar myntar, svo og þriðju varakröfuna um að krafa samkvæmt lánssamningnum skuli takmarkast við andvirði þeirra hlutdeildarskírteina, sem veðsett voru til tryggingar láninu. Verður þeim báðum hafnað með sömu röksemdum.
Loks krefst sóknaraðili viðurkenningar á skaðabótaábyrgð varnaraðila á því tjóni, sem hann kveður sig hafa orðið fyrir vegna ágalla sem hann telur hafa verið á ráðgjöf af hálfu starfsmanna varnaraðila við gerð lánssamningsins og við ráðstöfun á lánsfjárhæðinni. Fallist er á með héraðsdómi að sóknaraðili hafi í máli þessu ekki sýnt fram á að starfsmenn varnaraðila hafi með saknæmum hætti þagað yfir upplýsingum eða veitt rangar upplýsingar sem hafi valdið því að sóknaraðili tók framangreint lán og keypti hlutdeildarskírteini í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK fyrir andvirðið.
Þar sem kröfum sóknaraðila hefur verið hafnað vegna þess að þær lúta að hagsmunum NBI hf. en ekki varnaraðila og síðustu kröfunni á þeim grundvelli að ekki séu í máli þessu færðar sönnur á að til skaðabótaábyrgðar hafi stofnast þarf ekki í málinu að taka afstöðu til þess, hvort heimilt sé að lýsa slíkum viðurkenningarkröfum við slit fjármálafyrirtækis, sbr. 1. og 2. mgr. 99. gr., sbr. og 1. mgr. 117. gr., laga nr. 21/1991.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Rohan Stefan Nandkisore, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2011.
I.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 29. apríl 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun sem birtist í Lögbirtingablaði 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Sóknaraðili, Rohan Stefan Nandkisore, Lindarbraut 12, Seltjarnarnesi, lýsti kröfu við slit varnaraðila, og var kröfulýsing móttekin 30. október 2009. Kröfunni var lýst með þessum orðum:
„Gerð er sú krafa að lánasamningur dags. 16. apríl 2007 og handveðsetning, dagsett sama dag, á milli kröfuhafa og Landsbanka Íslands, gangi til baka svo aðilar verði eins settir og samningarnir hefðu ekki verið gerðir.“
Um rétthæð kröfunnar var vísað til 109. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili hafnaði kröfunni með þeim rökum að ekki fengist séð að sóknaraðili ætti lögvarða kröfu á hendur bankanum. Þar sem ekki reyndist unnt að jafna ágreining aðila um kröfuna ákvað varnaraðili á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og 120. gr. sömu laga, að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms. Var málið þingfest 31. mars sl.
Samkvæmt greinargerð sóknaraðila sem hann lagði fram 14. maí 2010 gerir hann svofelldar kröfur í málinu:
Aðallega að viðurkennt verði að 6.000.000 króna lánssamningur aðila, dagsettur 11. apríl 2007, og samningur um kaup á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK fyrir andvirði lánssamningsins, séu óskuldbindandi gerningar af hálfu sóknaraðila og að sóknaraðili skuli vera eins settur og samningarnir hefðu ekki verið gerðir.
Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að tengja höfuðstól 6.000.000 króna lánssamnings aðila, dagsettan 11. apríl 2007, við gengi erlendrar myntar.
Til þrautavara að viðurkennt verði að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila á grundvelli 6.000.000 kóna lánssamnings aðila, dagsettur 11. apríl 2007, skuli takmarkast við andvirði þeirra hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK sem keypt voru fyrir andvirði lánssamningsins og þeirra hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK sem sett voru að handveði með handveðsyfirlýsingu nr. 0106-63-8441.
Til þrautaþrautavara að viðurkennt verði að varnaraðili beri ábyrgð á tjóni sóknaraðila sem hlaust af skaðabótaskyldum skorti eða göllum á ráðgjöf varnaraðila við gerð 6.000.000 króna lánssamnings, dagsettur 11. apríl 2007, og ráðstöfunar á andvirði lánsins.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krafðist þess í greinargerð sinni að aðalkröfu sóknaraðila yrði hafnað og að vara-, þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu hans yrði vísað frá dómi. Til vara krafðist hann þess að öllum kröfum sóknaraðila yrði hafnað. Þá krafðist hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Málið var upphaflega tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 22. október 2010 og úrskurður kveðinn upp 19. nóvember sama ár. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar 26. janúar sl. í málinu nr. 673/2010 var hinn kærði úrskurður ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Frá fyrri málsmeðferð hafa aðilar lagt fyrir dóminn kæru og greinargerð til Hæstaréttar, ásamt endurritum af skýrslum tveggja vitna. Að loknum munnlegum málflutningi 22. febrúar sl. var málið tekið til úrskurðar á ný.
II.
Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þau að sóknaraðili tók svokallað fjölmyntalán hjá varnaraðila að jafnvirði 6.000.000 króna 11. apríl 2007. Í lánssamningi kemur fram að lánið sé að öllu leyti í japönskum yenum (JPY 100%). Fjárhæð hinnar erlendu myntar er ekki tilgreind, en tekið er fram að hún ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins og verði skuldin þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð hinnar erlendu myntar. Lánið átti að endurgreiðast í einni afborgun í lok lánstímans, 15. apríl 2009. Lántaka bar þó að greiða vexti á mánaðarfresti allan lánstímann, en þeir voru breytilegir, jafnháir LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2% vaxtaálags. Tekið er fram í lánssamningi að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins var bankanum, með handveðsyfirlýsingu nr. 0106-63-8441, sett að handveði peningabréf í eigu sóknaraðila, alls að nafnverði 476.493,45 krónur. Bæði lánssamningurinn og handveðsyfirlýsingin eru undirrituð af sóknaraðila. Með lánssamningunum fylgdi viðauki, þar sem þess var óskað að varnaraðili greiddi lánsfjárhæðina inn á tiltekinn reikning í eigu sóknaraðila 18. apríl 2007. Ekki er um það deilt að varnaraðila var kunnugt um að lánið var tekið í því skyni að fjármagna kaup sóknaraðila á hlutdeildarskírteinum í fjárfestingarsjóði sem nefndur var Peningabréf Landsbankans ISK. Meðal gagna málsins er einnig kaupnóta, dagsett 20. apríl 2007, gefin út af varnaraðila til sóknaraðila, og má þar sjá að varnaraðili keypti þann dag 11.007.155 japönsk yen og að sóknaraðili seldi þá erlendu mynt sama dag, að frádregnu lántökugjaldi, eða alls 10.974.134 japönsk yen, fyrir 5.982.000 krónur á genginu 0,54510. Var sú fjárhæð lögð inn á reikning sóknaraðila, að frádregnum 10.000 krónum vegna skjalagerðar, eða alls 5.972.000 krónur. Sjá má í gögnum málsins að fyrir þá fjárhæð voru keypt hlutdeildarskírteini að nafnverði 234.865,89 krónur.
Með bréfi 28. október 2008 tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að stjórn Landsvaka hf. hefði tekið ákvörðun um að öllum peningamarkaðssjóðum í rekstri félagsins yrði slitið. Í samvinnu við stjórnvöld, Fjármálaeftirlitið, framkvæmdastjórn og stjórn Landsbankans hefði starfsfólk Landsvaka hf. unnið að uppgjöri peningabréfa og lægi fyrir að útgreiðsluhlutfall þeirra væri 68,8%. Samkvæmt því var virði hlutar sóknaraðila við slit sjóðsins 5.082.733 krónur. Í gögnum málsins kemur fram að höfuðstóll lánsins samkvæmt umræddum lánssamningi var óbreyttur á gjalddaga 15. apríl 2009, eða 11.007.155 japönsk yen. Er lánið í vanskilum.
Í greinargerð sóknaraðila er aðdraganda samningsgerðarinnar lýst á þá lund að starfsmenn varnaraðila hafi kynnt sóknaraðila möguleika á áhættulausri fjárfestingu, þannig að tekið yrði lán í erlendri mynt, keypt hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði og gert út á vaxtamun. Hafi því verið lýst yfir að ekki yrði gengið að lántaka umfram eign hans í hlutdeildarskírteinunum. Sóknaraðili skilji íslensku illa, og er fullyrt að hann hafi hvorki fengið ráðgjöf um þá áhættu sem kynni að felast í samningunum, né hafi verið metin geta hans til að standa undir áhættunni sem í þeim fólst. Allt til 6. október 2008 hafi verið jákvæð ávöxtun á hverjum degi á hlutdeildarskírteinunum. Sú þróun hafi orðið til þess að sóknaraðili hafi síður haft ástæðu til að endurmeta stöðu sína, þótt gengi japansks yens hafi hækkað töluvert árið 2008. Nú hafi hins vegar komið í ljós að ástæða þess að gengi peningabréfanna lækkaði ekki var misnotkun varnaraðila á sjóðnum.
Af hálfu varnaraðila er ofangreindri frásögn sóknaraðila af samskiptum hans við starfsmenn Landsbanka Íslands hf. mótmælt sem ósannaðri, og bent á að engin gögn styðji hana.
Við fyrri aðalmeðferð málsins, 22. október 2010, gaf sóknaraðili skýrslu fyrir dóminum, auk Arnheiðar Clausen, starfsmanns Landsbanka Íslands hf. Vikið verður að framburði þeirra eftir því sem tilefni þykir til.
III.
Af hálfu sóknaraðila er almennt á því byggt að varnaraðili hafi blekkt hann til þeirra viðskipta sem málið snúist um og að varnaraðili hafi ekki sinnt skyldum sínum til ráðgjafar í málinu, en ráða hefði átt sóknaraðila frá þeim flókna fjármálagerningi sem málið snúist um í raun. Því til stuðnings kveðst sóknaraðili einkum byggja á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sérstaklega umfjöllun um Peningabréf Landsbankans ISK. Komi þar fram að reglur um óhæði hafi verið þverbrotnar og reglur um lán til tengdra aðila markvisst sniðgengnar með því að nýta peningamarkaðssjóði bankans til að fjárfesta í skuldabréfum þeirra. Einnig liggi fyrir að ástæða þess að verðmæti hlutdeildarskírteina Peningabréfa Landsbankans ISK hækkuðu á hverjum einasta degi frá upphafi hafi verið markaðsmisnotkun varnaraðila og dótturfélagsins, Landsvaka hf. Fullyrðir sóknaraðili að hann hefði ekki fjárfest fyrir lánsfé í hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK, ef legið hefði fyrir að töluverð hætta væri á að höfuðstóllinn lækkaði.
Sóknaraðili kveðst hafa upplýsingar um að varnaraðili hafi haldið andvirði hlutdeildarskírteina á sérgreindum reikningi á nafni sóknaraðila, en neiti að afhenda skilríki og yfirráð yfir bankareikningnum vegna ágreinings aðila í málinu. Því telur sóknaraðili að varnaraðili haldi eign eða réttindum frá honum, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991, og því snúist málið í raun um afhendingu þeirrar eignar eða réttinda. Sé fallist á ógildingarannmarka gerninganna í upphafi, leiði það af ákvæðum 109. gr. að sóknaraðili þurfi ekki að sæta því að eign eða réttindi hans séu notuð til að greiða öðrum kröfuhöfum.
Sóknaraðili byggir einnig á því að varnaraðili hafi ekki starfað í samræmi við þær reglur sem honum hafi borið að fara eftir. Vísar hann í því efni til II. kafla laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, sem hafi verið í gildi þegar lánssamningurinn var gerður, en einnig þau verðbréfaviðskipti sem fylgdu í kjölfarið. Einnig er vísað til ákvæða laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Á því er byggt að líta verði á fjármálagerninginn sem eina heild, þ.e. lánssamninginn, veðsamninginn og kaupin á hlutdeildarskírteinum, og að hann hafi í heild sinni verið ólögmætur ef einstakir þættir hans hafi ekki verið lögum samkvæmt, enda hafi það verið forsenda sóknaraðila að hans skilningur á efni þessa fjármálagernings hafi verið réttur. Þá byggir sóknaraðili á því að ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 eigi við í þessu tilviki, einkum 30., 31., 32., 33., 36. og 36. gr. a-d. Sé fallist á að samningur hafi verið ógildur á grundvelli einhvers þessara lagaákvæða sé afleiðingin sú að samningurinn sé óskuldbindandi fyrir sóknaraðila, og hann þá eins settur og enginn samningur hefði verið gerður.
Sóknaraðili byggir enn fremur á því að reglur Evrópusambandsins, sbr. t.d. MiFID tilskipunin, og áður ISD tilskipunin (Investment Services Directive /fjárfestingarþjónusta á sviði verðbréfaviðskipta), feli í sér skyldur sem séu eða eigi að vera lögfestar hér á landi. Þessar tilskipanir, og reglur sem byggi á þeim, skilgreini þá hagsmuni sem eigi að vera í forgrunni, svo og þær kröfur sem gerðar séu til ráðgjafar fjármálafyrirtækja. Þá vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 121/1994, um neytendalán, og þeirra sjónarmiða sem að baki þeim búa, og telur að varnaraðili þurfi að afsanna þau atriði sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis slái föstum og skipti hér máli. Telur hann að fallast eigi á kröfu sína, jafnvel þótt ekki takist að sanna nákvæmlega hvaða einstaklingur eða einstaklingar beri ábyrgð á saknæmri eða ólögmætri háttsemi varnaraðila, enda sé sýnt fram á að háttsemin hafi verið framin í starfsemi varnaraðila.
Sóknaraðili kveðst einnig byggja kröfugerð sína á ólögfestum meginreglum skaðabótaréttarins, innan sem utan samninga. Telur hann að styðjast eigi við skaðabótareglur þar sem sönnunarbyrði sé snúið við, eða slakað á sönnunarmati, vegna erfiðleika sóknaraðila við að leiða í ljós einstök atriði í starfsemi varnaraðila. Því beri að leggja almennar frásagnir rannsóknarnefndar Alþingis til grundvallar eftir því sem við eigi, og leggja þá skyldu á varnaraðila að hann afsanni þær ella. Þannig byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi með saknæmri og ólögmætri starfsemi sinni valdið sóknaraðila tjóni. Þar sem um gagnkvæman samning hafi verið að ræða, sé kröfugerð sóknaraðila stillt þannig upp að bótaábyrgð varnaraðila leiði til þess að samningar aðila séu annað hvort niður fallnir eða að bótaábyrgðin leiði til þess að krafa varnaraðila um greiðslu á grundvelli lánssamnings takmarkist, eins og nánar sé rakið í kröfugerð. Jafnframt kveðst sóknaraðili byggja á því að varnaraðili hafi valdið sér tjóni innan réttarsambands aðila, í formi engrar eða gallaðrar ráðgjafar. Loks byggi hann á því að varnaraðili hafi valdið sér tjóni utan samnings, með markaðsmisnotkun sinni, brotum á reglum um óhæði og öðrum atriðum sem ekki tengist beint samningi aðila.
Sóknaraðili telur að kröfur hans rúmist best innan 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, þegar komi að því að ákveða rétthæð þeirra samkvæmt sömu lögum.
Í umfjöllun sinni um aðalkröfu, þess efnis að samningar aðila verði ógiltir og aðilar eins settir og samningarnir hefðu ekki verið gerðir, vísar sóknaraðili til almennra málsástæðna og lagaraka hér að framan, einkum ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936. Að auki telur hann að á varnaraðila hafi hvílt rík skylda til að ráðleggja sóknaraðila frá því að gera umrædda samninga. Skylda þessi felist í raun í almennum skyldum varnaraðila til að gæta hagsmuna sóknaraðila í lánssamningum, veðsamningum og verðbréfaviðskiptum, þótt hún hafi ekki verið lögfest berum orðum líkt og t.d. í Noregi. Brot á þessari meginreglu, hvort sem hún er lögfest eða ekki, eigi að leiða til þess að samningurinn sé ógildur og að aðilar skuli vera eins settir og samningur hefði ekki verið gerður. Þá kveðst sóknaraðili einnig byggja á því að það hafi verið skilyrði af hans hálfu fyrir samningsgerðinni, eða í það minnsta þekkt ákvörðunarforsenda, að peningamarkaðssjóðnum, Peningabréfum Landsbankans ISK, yrði ekki slitið á samningstímanum nema lánssamningurinn yrði að sama skapi ógiltur. Varnaraðila hafi verið þetta ljóst. Heldur sóknaraðili því fram að líta beri á samningana sem eina heild og eðlilegast sé og sanngjarnast að þau óviðráðanlegu ytri atvik sem leiddu til hruns fjármálakerfis landsins, með dýrkeyptum afleiðingum fyrir sóknaraðila, eigi að leiða til þess að samningur aðila verði ógiltur í heild sinni.
Sem rökstuðning fyrir varakröfu sinni byggir sóknaraðili á því að lánssamningur aðila frá 11. apríl 2007 hafi verið ólögmætur að því leyti að ekki hafi verið heimilt að tengja þróun höfuðstóls lánsins í íslenskum krónum við gengi erlendrar myntar, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Því beri að líta svo á að höfuðstóll lánsins sé óverðtryggður. Sé fallist á þessa málsástæðu sé ljóst að lánsfjárhæðin sé lægri en nemi samtölu á verðmæti þeirra hlutdeildarskírteina sem keypt hafi verið fyrir andvirði lánsins, og þeirra hlutdeildarskírteina sem sett hafi verið sem handveð fyrir láninu. Að fenginni niðurstöðu dómara í þessa veru, þyrfti hins vegar að reikna nákvæmlega hvað sóknaraðili hefði átt að greiða í vexti á samningstímanum. Því skori sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram gögn um meinta stöðu skuldar sóknaraðila samkvæmt lánssamningum, hvað greitt hafi verið frá upphafi í vexti og kostnað vegna samningsins, hvaða tekjur sóknaraðili hafi haft af hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK, sem keypt hafi verið fyrir andvirðið og veðsett, og hver staða þeirrar eignar sé nú.
Til stuðnings þrautavarakröfu sinni kveðst sóknaraðili leggja til grundvallar að samningar aðila haldi, en þó þannig að loforð starfsmanna varnaraðila um verstu hugsanlegu niðurstöðu gildi. Það þýði að varnaraðili geti ekki krafið sóknaraðila um frekari greiðslu vegna lánssamningsins en sem nemi andvirði þeirra hlutdeildarskírteina sem keypt hafi verið fyrir andvirði lánsins, og andvirði þeirra hlutdeildarskírteina sem sett hafi verið að handveði með handveðsyfirlýsingu nr. 0106-63-8441.
Um þrautaþrautavarakröfu vísar sóknaraðili til fyrri umfjöllunar um skaðabótasjónarmið. Telur hann einsýnt að engin, eða mjög gölluð, ráðgjöf hafi verið innt af hendi af hálfu varnaraðila. Rík skylda hafi hins vegar hvílt á honum að veita faglega ráðgjöf. Sé ekki fallist á að þetta eigi að leiða til ógildingar að öllu leyti eða hluta á þeim fjármálagerningum sem málið snúist um, kveðst sóknaraðili byggja á því að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á tjóni sóknaraðila sem af þessu hafi hlotist. Telur sóknaraðili að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða, sem hafi með sannanlegum hætti valdið honum tjóni, sem hafi verið sennileg afleiðing hinnar gölluðu ráðgjafar. Einnig er byggt á því að saknæm háttsemi varnaraðila, eftir að samningurinn var gerður, hafi með sannanlegum hætti valdið sóknaraðila tjóni, sem varnaraðili hafi mátt sjá fyrir að gæti orðið afleiðing af háttsemi hans. Sé þar vísað til misnotkunar á peningamarkaðssjóðum, brota á reglum um óhæði og þess að varnaraðili hafi átt að veita sóknaraðila ráðgjöf allan samningstímann, en ekki einungis við gerð samningsins. Þannig hafi starfsmaður varnaraðila lofað sóknaraðila að benda honum á ef ástæða væri til að loka stöðunni. Telur sóknaraðili að leggja verði þá skyldu á fjármálafyrirtæki, líkt og varnaraðila, að þau bendi viðskiptavinum sínum á þá áhættu sem fylgi flóknum fjármálagerningum. Telur hann að góður og gegn bankamaður hefði átt að ráða sóknaraðila frá lántöku sem tengd væri þróun japansks yens. Hið sama gildi um veðsetningu á hlutdeildarskírteinum. Einnig hefði góður og gegn bankamaður, trúnaðarmaður sóknaraðila, átt að ráða honum frá því að áhætta, í formi eignarhalds á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK, yrði aukin, þar sem fyrir lá innan varnaraðila að eignir sjóðsins væru ofmetnar og rangt skráðar. Þessi skylda hafi verið enn ríkari í ljósi þess að kaupin voru fjármögnuð með lántöku. Áhættan hafi síðan verið komin í þriðja veldi, þegar fyrir lá að kaupin voru fjármögnuð með 100% láni, sem bundið var gengi einnar erlendrar myntar. Vart sé unnt að hugsa sér meiri áhættutöku.
Um málskostnað vísar sóknaraðili til XXI. kafla laga um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
IV.
Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila í heild, og tekur fram að hann hafni sérstaklega öllum staðhæfingum sóknaraðila um öfuga sönnunarbyrði, enda geti sóknaraðili ekki vikið sér hjá meginreglu 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þannig verði sóknaraðili að gjalda fyrir vanrækslu á því að færa fram sönnur fyrir fullyrðingum í greinargerð sinni. Telur varnaraðili að málsástæður sóknaraðila séu settar fram algjörlega án rökstuðnings eða með vísan til sönnunargagna.
Varnaraðili tekur fram að í greinargerð setji sóknaraðili kröfur sínar fram í fjórum liðum, þ.e. sem aðalkröfu, varakröfu, þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu. Í aðalkröfu krefjist hann þess að viðurkennt verði að lánssamningur aðila frá 11. apríl 2007 og samningur um kaup á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK séu óskuldbindandi gerningar af hálfu sóknaraðila, og að sóknaraðili skuli vera eins settur og samningarnir hefðu ekki verið gerðir. Krafa þessi svari til þeirrar kröfu sem sóknaraðili hafi gert í kröfulýsingu sinni til slitastjórnar, með þeirri breytingu þó að í kröfulýsingu hafi þess ekki verið krafist að samningur um kaup á hlutdeildarskírteinum gengi til baka. Þess í stað hafi þess verið krafist að handveðsetning frá 16. apríl 2007 gengi til baka. Varakröfum sóknaraðila hafi hins vegar ekki verið lýst í kröfulýsingu hans og því hafi ekki verið fjallað um þær kröfur á fundi til jöfnunar ágreinings, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Af þeirri ástæðu, en einnig með vísan til 117. gr. sömu laga, byggi varnaraðili á því að vísa beri frá dómi öllum varakröfum sóknaraðila, komi þær á annað borð til álita í málinu.
Varnaraðili bendir á að aðalkrafa sóknaraðila sé viðurkenningarkrafa í tilteknu horfi, sem geti vart komið til álita í slitameðferð varnaraðila, þar sem leysa þurfi úr því í eitt skipti fyrir öll hvert efnisinnihald kröfunnar sé, svo unnt sé að afhenda eign sóknaraðila, ef um slíkt sé að ræða samkvæmt 109. gr. gjaldþrotaskiptalaga, ellegar úthluta upp í kröfuna fjármunum að því marki sem hún kunni að vera viðurkennd sem fjárkrafa. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn aðalkröfu sinnar eins og hún sé sett fram, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Að mati varnaraðila leiði þetta þó ekki til frávísunar, eins og hér hátti til, þar sem málinu sé vísað til dómsins eftir reglum 171. gr. laga nr. 21/1991, og það rekið eftir reglum XXIV. kafla sömu laga. Því sé óhjákvæmilegt að hafna aðalkröfu sóknaraðila af þessum sökum.
Af hálfu varnaraðila er einnig á það bent að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., með síðari breytingum, hafi þeim lánssamningi sem málið fjalli um verið ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf. Af því leiði að kröfum er varði skuldbindingargildi, lögmæti eða túlkun framangreinds samnings, svo og meintum vörnum sóknaraðila gagnvart skuldbindingu sinni á grundvelli lánssamningsins, verði ekki með réttu beint að varnaraðila, heldur þurfi að beina þeim að NBI hf. Fyrir liggi að með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hafi sóknaraðili ekki misst neinn mótbárurétt við tilfærsluna yfir til NBI hf. Með vísan til 16. gr. laga um meðferð einkamála sé því óhjákvæmilegt að krefjast sýknu, og að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað með öllu.
Hvað sem öðru líður hafnar varnaraðili því alfarið að sóknaraðili hafi á einhvern hátt sýnt fram á blekkingar eða aðra vanrækslu starfsmanna varnaraðila við þá samningsgerð sem hér sé til skoðunar. Þá hafi sóknaraðili ekki fært sönnur á að varnaraðili hafi í starfsemi sinni brotið gegn lagaákvæðum, þannig að tjón hafi hlotist af. Sóknaraðili hafi því ekki sýnt fram á að starfsmenn varnaraðila hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið sóknaraðila tjóni. Að þessu leyti sé krafa sóknaraðila því vanreifuð. Um leið er bent á að gögn, sem geti rennt stoðum undir framangreindar málsástæður sóknaraðila, fylgi hvorki kröfulýsingu sóknaraðila né greinargerð hans. Sérstaklega er þó bent á að enga útlistun sé að finna á meintu tjóni sóknaraðila, t.d. hvernig tjónið sé fundið út. Áréttar varnaraðili að öllum staðhæfingum að baki aðalkröfu sóknaraðila, hvort sem þær lúti að lagaumhverfi varnaraðila eða ákvörðunarástæðum sóknaraðila, sé einnig mótmælt og vísað á bug. Þær séu enda settar fram án nokkurs viðhlítandi rökstuðnings af hálfu sóknaraðila.
Verði ekki fallist á frávísun allra varakrafna sóknaraðila, með vísan til þess að þeim hafi ekki verið lýst í kröfulýsingu, byggir varnaraðili á því að fyrrgreind sjónarmið um aðildarskort varnaraðila eigi við fullum fetum um þær kröfur. Verði hins vegar ekki fallist á röksemdir um aðildarskort, er á því byggt að ofangreind sjónarmið um lögvarða hagsmuni sóknaraðila eigi einnig við um þessar kröfur. Því beri að sýkna varnaraðila af þeim allt að einu. Fallist dómurinn hins vegar ekki á þessi rök, mótmælir varnaraðili öllum varakröfum sóknaraðila og málsástæðum að baki þeim. Þannig mótmælir hann því sem ósönnuðu að starfsmenn varnaraðila hafi lofað því að viðskiptin væru áhættulaus. Einnig er því mótmælt að lánssamningurinn sé ólögmætur, þótt samið hafi verið um að lánsfjárhæðin væri bundin gengi erlendrar myntar. Þvert á móti byggir varnaraðili á því að samningurinn sé fullkomlega löglegur. Loks ítrekar varnaraðili að engin gögn liggi fyrir í málinu sem staðfest geti fullyrðingar sóknaraðila um loforð starfsmanna varnaraðila um áhættulaus viðskipti aðila.
Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna fjármunaréttar um framsal löggerninga, hinnar almennu sakarreglu skaðabótaréttar, meginreglna samningaréttar og fjármunaréttar um skuldbindingargildi samninga, auk ákvæða laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samræmis vegna kveðst hann einnig vísa til þeirra laga og reglna sem sóknaraðili byggi á, og geti varðað úrlausn málsins að einhverju leyti. Málskostnaðarkrafa byggir á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Kröfur samkvæmt endanlegri kröfugerð sóknaraðila 22. október 2010.
Við upphaf fyrri aðalmeðferðar í máli þessu, 22. október 2010, lagði sóknaraðili fram skjal með yfirskriftinni „Endanleg kröfugerð, uppfærð m.v. 21. október 2010“, og fylgdi því tölulegur útreikningur á dómkröfum. Samkvæmt skjalinu hljóðuðu kröfurnar þannig:
„Þess er aðallega krafist [að] viðurkennt verði að lánasamningur dags. 11. apríl 2007 og kaup í Peningabréfum Landsbankans ISK fyrir andvirði samningsins, séu ógildir löggerningar og því skulu aðilar verða eins settir og samningarnir hefðu ekki verið gerðir, sbr. 109. gr. laga 21/1991.
Til vara er þess krafist að viðurkennd verði forgangskrafa sóknaraðila skv. 112. gr. laga 21/1991 að fjárhæð kr. 8.006.052 og almenn krafa skv. 113. gr. laga 21/1991 að fjárhæð 3.630.651 í bú varnaraðila, auk dráttarvaxta frá 6. október 2008.
Til þrautavara er þess krafist að viðurkennd verði almenn krafa sóknaraðila skv. 113. gr. laga 21/1991 að fjárhæð kr. 13.692.662 í bú varnaraðila, auk dráttarvaxta frá 22. október 2010.“
Tekið er fram í skjalinu að kröfur sem fram komu í greinargerð sóknaraðila skuli eftir sem áður standa sem málsástæður að baki hinum nýju kröfum.
Varnaraðili mótmælti nýrri kröfugerð sóknaraðila að því leyti sem kröfurnar væru frábrugðnar kröfulýsingu sóknaraðila við slit varnaraðila, svo og vegna þess að þær væru of seint fram komnar.
Við síðari aðalmeðferð málsins, 22. febrúar sl., krafðist sóknaraðili þess enn að ofangreindar kröfur kæmust að í málinu, og vísaði í því sambandi til ummæla í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 673/2010, sem hann taldi styðja heimild sína fyrir kröfunum. Yrði dómurinn hins vegar ekki við þeirri kröfu, kvaðst sóknaraðili halda til streitu öllum kröfum sínum sem hann hefði áður gert í greinargerð til dómsins. Við sama tækifæri ítrekaði varnaraðili mótmæli sín við því að kröfur þessar kæmust að, enda væru þær allt of seint fram komnar. Þar að auki væru þær reistar á allt öðrum grundvelli en aðalkrafa sóknaraðila og rúmuðust því ekki innan marka hennar. Um leið mótmælti hann skilningi sóknaraðila á fyrrnefndum dómi Hæstaréttar og taldi að með honum hefði rétturinn aðeins látið uppi það álit að varakröfur sóknaraðila í greinargerð hans væru í meginatriðum reistar á sama grundvelli og aðalkrafan, og rúmuðust því innan marka 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Krafðist hann þess að hinum nýjum kröfum sóknaraðila yrði vísað frá dómi, en til vara að þeim yrði hafnað.
Eins og fram hefur komið kvað héraðsdómur upp úrskurð í máli þessu 19. nóvember 2010. Var aðalkröfu sóknaraðila þar hafnað, en öllum varakröfum hans vísað frá dómi. Hæstiréttur ómerkti þann úrskurð með dómi réttarins 26. janúar sl. í málinu nr. 673/2010 og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Í forsendum dómsins segir m.a.: „Varakröfur sóknaraðila hafa að sönnu ekki sætt meðferð til jöfnunar ágreinings samkvæmt lögum nr. 21/1991 eins og aðalkrafa hans. Varakröfurnar eru í meginatriðum reistar á sama grundvelli og aðalkrafan, það er að sóknaraðili telur sig ekki bundinn af þeim löggerningum, sem um ræðir, og þess vegna eigi hann rétt á því að hafa upp til vara peningakröfur á hendur varnaraðila, sem koma eigi til úrlausnar verði aðalkröfu hans hafnað. Ætla verður sóknaraðila nokkurt svigrúm við að koma að varakröfum í héraðsgreinargerð í málum eins og hér er til úrlausnar. Eins og áður greinir eru varakröfur sóknaraðila reistar á sama grundvelli og aðalkrafa hans og koma fyrst til úrlausnar að henni frágenginni. Er fallist á með sóknaraðila að þær rúmist innan þeirra marka sem 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 heimilar.“
Aðalkrafa sóknaraðila, samkvæmt endanlegri kröfugerð hans í áðurnefndu skjali, er efnislega samhljóða aðalkröfu hans í greinargerð, en ekki að öllu leyti hin sama og sú krafa sem hann lýsti í kröfulýsingu sinni til varnaraðila. Með henni leitar sóknaraðili viðurkenningar dómsins fyrir því að tveir löggerningar séu óskuldbindandi fyrir hann, annars vegar lánssamningur frá 11. apríl 2007 en hins vegar kaup hans á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK fyrir andvirði lánsins, og að aðilar verði í kjölfarið eins settir og samningarnir hefðu ekki verið gerðir. Verði krafan viðurkennd telur sóknaraðili það leiða til þess að hann fái afhent tiltekin verðmæti, sem hann kveður vera í vörslum varnaraðila, og vísar í því efni til 109. gr. laga nr. 21/1991.
Fram kemur í gögnum málsins að sóknaraðili átti hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK áður en hann ákvað að taka lán hjá varnaraðila og auka með því eign sína í peningamarkaðssjóðnum. Ekki er upplýst um verðmæti eignarinnar á þeirri stundu, en af tölulegum útreikningi sem fylgdi endanlegri kröfugerð sóknaraðila, verður ráðið að við slit peningamarkaðssjóðsins hafi eignin svarað til 369.948,36 króna að nafnverði. Fyrir liggur hins vegar að fyrir andvirði lánsfjárins keypti sóknaraðili hlutdeildarskírteini að nafnverði 234.865,89 krónur. Við lántökuna lét sóknaraðili varnaraðila í té handveð í peningabréfum sínum, alls að nafnverði 476.493,45 krónur, og því ljóst að til tryggingar láninu stóð bæði andvirði hinna nýkeyptu hlutdeildarskírteina og hluti af eldri eign sóknaraðila í peningamarkaðssjóðnum.
Yrði dómurinn við aðalkröfu sóknaraðila yrði niðurstaðan sú að báðir aðilar yrðu eins settir og ef samningarnir hefðu aldrei verið gerðir. Í því fælist jafnframt að hvorugur aðila ætti þá kröfu á hendur hinum, varnaraðili ætti enga kröfu á grundvelli lánssamningsins og sóknaraðili ætti að sama skapi ekki þau hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK sem hann keypti fyrir andvirði lánsins, að nafnverði 234.865,89 krónur. Í gögnum málsins er engin grein gerð fyrir því hvaða sérgreindu verðmæti sóknaraðili telur sig eiga í vörslum varnaraðila, yrði fallist á aðalkröfu hans. Af áðurnefndu fylgiskjali með endanlegri kröfugerð hans verður hins vegar helst ráðið að verðmæti þessi séu andvirði þeirra hlutdeildarskírteina sem hann átti fyrir í peningamarkaðssjóðnum áður en hann jók þar hlut sinn í apríl 2007. Í varakröfunni eru þau verðmæti tilgreind í peningum og þess krafist að þær fjárhæðir verði viðurkenndar, annars vegar sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en hins vegar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Varakrafan felur þannig ekki í sér kröfu um afhendingu á verðmætum eins og gert er ráð fyrir í fyrri kröfum sóknaraðila fyrir dóminum.
Taka verður undir það með varnaraðila að varakrafa sóknaraðila er hér allt annars eðlis en aðalkrafa hans, bæði efnislega og að því er varðar viðurkenningu á rétthæð hennar. Þá verður að telja að krafan feli í sér verulega breytingu frá fyrri kröfugerð sóknaraðila, og án þess að varnaraðili hafi haft nokkur tök á að taka afstöðu til hennar eða málsástæðna að baki henni. Krafan er jafnframt reist á öðrum grundvelli en aðalkrafan, þar sem hún lýtur ekki að þeim ágreiningi sem er til úrlausnar í málinu, heldur fyrst og síðast að þeim verðmætum sem sóknaraðili átti í peningamarkaðssjóði áður en kom til þeirra lögskipta milli aðila sem hér er fjallað um. Reyndar verður ekki séð að deilt sé um þau verðmæti, a.m.k. ekki þann hluta fjárhæðarinnar sem sóknaraðili krefst að viðurkenndur verði sem forgangskrafa. Þannig virðist enginn ágreiningur um að sóknaraðili eigi rétt til þeirrar fjárhæðar, komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að ógilda beri umrædda löggerninga. Gögn málsins benda og til þess að umrædd fjárhæð hafi þegar verið lögð inn á tiltekinn reikning í vörslum NBI hf., sem andvirði þeirra hlutdeildarskírteina sem sóknaraðili átti við slit peningamarkaðssjóðsins. Verður því heldur ekki séð að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um tilvist eða efni kröfunnar, nema að því leyti sem varðar þá fjárhæð sem hann telur að viðurkenna beri sem almenna kröfu. Sú krafa er þó ekki hér til úrlausnar þar sem sóknaraðili hefur ekki fyrr gert neina kröfu á þeim grundvelli og því síður teflt fram rökum henni til stuðnings. Með ofanritað í huga er það álit dómsins að varakrafa sóknaraðila samkvæmt endanlegri kröfugerð hans rúmist engan veginn innan marka aðalkröfunnar. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 verður henni því vísað frá dómi. Hinu sama gegnir um þrautavarakröfuna. Raunar telur dómurinn þá kröfu svo óljósa að erfitt sé að sjá á hvaða grundvelli hún er reist. Þannig virðist sóknaraðili byggja á því að lánssamningur aðila sé gildur, en að varnaraðili beri ábyrgð á því að andvirði hlutdeildarskírteina sem hann keypti fyrir lánsfjárhæðina, og voru innleyst 28. október 2008, sé ekki hið sama og staða lánsins 21. október 2010. Verður ekki séð að nein rök standi til þess að taka skuli þá kröfu til greina.
Kröfur sóknaraðila samkvæmt greinargerð hans til dómsins.
Eins og áður greinir á mál þetta rætur að rekja til þess að sóknaraðili tók lán hjá varnaraðila 11. apríl 2007, að jafnvirði 6.000.000 íslenskra króna, og var lánið að öllu leyti í japönskum yenum. Lánið átti að endurgreiða í einu lagi, 15. apríl 2009, en lántaka bar þó að greiða vexti á mánaðarfresti allan lánstímann. Vextir voru breytilegir, jafnháir LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2% vaxtaálags. Tekið er fram í lánssamningi að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins var varnaraðila sett að handveði peningabréf í eigu sóknaraðila, að nafnverði 476.493,45 krónur. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst sóknaraðili sjálfur hafa ákveðið að lánið yrði í japönskum yenum, enda hefði hann fregnað að þróun yensins væri hagstæð gagnvart íslenskri krónu. Hann sagði að lánið hefði verið tekið til kaupa á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK, til ávöxtunar. Hefði hann áður fjárfest í peningabréfum og ætti þar hlutdeildarskírteini fyrir. Ávöxtun hefði verið mjög góð, allt fram að hruni. Sjálfur hefði hann fylgst með þróun peningamarkaðssjóðsins í fleiri ár og hefði hann talið peningabréfin mjög góða og örugga fjárfestingu. Tók hann fram að sér hefði ekki verið kynnt sú áhætta sem gæti falist í þessum viðskiptum. Í gögnum málsins kemur fram að höfuðstóll lánsins samkvæmt umræddum lánssamningi er óbreyttur, 11.007.155 japönsk yen, og er lánið í vanskilum. Fyrir liggur einnig bréf frá NBI hf., þar sem staðfest er að umrætt lán hafi samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins verið flutt frá varnaraðila til NBI hf. 9. október 2008. Samkvæmt tilkynningu frá varnaraðila til sóknaraðila 28. október 2008 var peningamarkaðssjóðum í rekstri Landsvaka hf. slitið, og nam útgreiðsluhlutfall fyrir Peningabréf Landsbankans ISK 68,8%. Var virði hlutar sóknaraðila greitt inn á tilgreindan reikning hjá NBI hf.
Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðila beri að beina kröfum sínum að NBI hf., þar sem lánssamningi aðila hafi verið ráðstafað til hins nýja banka með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2007. Dómurinn getur ekki fallist á þessi rök, og er þá sérstaklega til þess horft að lánssamningurinn er órjúfanlega tengdur þeim viðskiptum sem hér er um deilt og krafist er að verði ógilt. Byggir sóknaraðili m.a. á því að varnaraðili hafi átt frumkvæði að þeim viðskiptum, beitt hann blekkingum og ekki upplýst hann um þá áhættu sem í þeim fælist. Þar sem umrædd viðskipti áttu sér stað milli sóknaraðila og varnaraðila fær dómurinn ekki séð að sóknaraðila sé unnt að haga aðalkröfu sinni með öðrum hætti en hann gerir. Í því sambandi er minnt á að til tryggingar lánssamningnum setti sóknaraðili að handveði þau hlutdeildarskírteini sem hann keypti fyrir andvirði lánsins, en í málinu gerir hann einnig kröfu um að þau kaup verði ógilt.
Í máli þessu kveðst sóknaraðili einkum byggja kröfur sínar á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sérstaklega umfjöllun um Peningabréf Landsbankans ISK, en einnig á því að varnaraðili hafi ekki starfað í samræmi við þær reglur sem honum hafi borið að fara eftir. Í því sambandi vísar hann til II. kafla laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, og laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þá er á því byggt að ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 eigi við í þessu tilviki, einkum 30., 31., 32., 33., 36. gr. og 36. gr. a-d. Enn fremur vísar hann til reglna Evrópusambandsins, sbr. t.d. MiFID tilskipunarinnar, þar sem þær feli í sér skyldur sem séu eða eigi að vera lögfestar hér á landi. Loks kveðst hann vísa til ákvæða laga nr. 121/1994, um neytendalán, og þeirra sjónarmiða sem að baki þeim búi. Sérstaklega er á því byggt að reglur og sjónarmið um sönnunarbyrði og sönnunarmat í neytendalánum og öðrum slíkum viðskiptum eigi að leiða til þess að varnaraðili þurfi að afsanna þau atriði sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis slái föstum.
Málatilbúnaður sóknaraðila er nokkuð óljós, og á það bæði við um kröfur hans og málsástæður. Þannig er vandkvæðum bundið að tengja einstakar málsástæður við hverja kröfu um sig, en ekki er síður örðugt að henda reiður á til hvaða réttarreglu sóknaraðili er að vísa hverju sinni. Almennar tilvísanir til laga eða einstakra kafla þeirra gefa litla vísbendingu um hvaða háttsemi varnaraðila það er, sem sóknaraðili telur að leiða eigi til þess að taka skuli kröfur hans til greina. Rétt er hins vegar að taka fram að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ekki réttarheimild og hefur ekki sönnunargildi við úrlausn þessa máls, þótt niðurstöður hennar staðfesti að ýmsu hafi verið áfátt í rekstri Landsbanka Íslands hf. áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi bankans. Þá geyma hvorki lög nr. 33/2003 né lög nr. 30/2003 nein ákvæði um ógildi samninga vegna meintra brota starfsmanna varnaraðila á ótilgreindum ákvæðum þeirra laga. Ekki stoðar heldur sóknaraðila að vísa hér til MiFID tilskipunarinnar, þar eð ákvæði hennar voru fyrst innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 108/2007, sem tóku gildi 1. nóvember 2007. Í ljósi þessa verður ekki leitað stoðar fyrir kröfum sóknaraðila í öðrum réttarheimildum en ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, og eftir atvikum lögum um neytendalán nr. 121/1994. Byggir sóknaraðili á því að ákvæði þeirra laga eigi hér við.
Ekkert í gögnum málsins styður fullyrðingar sóknaraðila um að starfsmenn varnaraðila hafi átt frumkvæði að þeim viðskiptum sem hér er fjallað um, að þeir hafi beitt blekkingum við gerð samninganna, ekki sinnt skyldum sínum til ráðgjafar eða lofað því að engin áhætta væri þeim samfara. Þá verður ekki séð að varnaraðili eða starfsmenn hans hafi á neinn hátt átt þátt í þeirri ákvörðun að andvirði lánsins var varið til kaupa á Peningabréfum Landsbankans ISK. Þvert á móti liggur fyrir að sóknaraðili tók sjálfur ákvörðun um að leita eftir láni hjá varnaraðila, beinlínis í þeim tilgangi að kaupa Peningabréf Landsbankans ISK, til ávöxtunar lánsfjárins, og bendir ekkert til annars en að hann hafi einn og óstuddur tekið ákvörðun um þá ráðstöfun, enda hafði hann góða reynslu af slíkri ávöxtun. Með hliðsjón af reynslu sóknaraðila og eðlis viðskiptanna telur dómurinn ótrúverðuga þá skýringu sóknaraðila að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að töluverð áhætta fylgdi slíkum viðskiptum. Að því virtu eru engin efni til að fallast á þau rök sóknaraðila að meta skuli umrædda löggerninga óskuldbindandi á grundvelli ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936. Af sömu ástæðu verður krafa sóknaraðila um ógildingu löggerninganna ekki heldur reist á ákvæðum laga um neytendalán nr. 121/1994, sbr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936. Verður aðalkröfu sóknaraðila því hafnað.
Varnaraðili telur óhjákvæmilegt að öllum varakröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, enda hafi þeim kröfum ekki verið lýst í kröfulýsingu og slitastjórn varnaraðila því ekki fjallað um þær.
Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er mælt fyrir um efni kröfulýsingar. Kemur þar fram að í kröfulýsingu skuli tiltaka kröfur svo skýrt sem verða má. Einnig skal þar greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á. Samkvæmt 118. gr. sömu laga hefur vanlýsing kröfu að jafnaði þau áhrif að hún glatast gagnvart þrotabúi. Í 120. gr. laganna er mælt fyrir um með hvaða hætti kröfuhafi geti komið á framfæri mótmælum við afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sinnar, svo og um skyldur skiptastjóra til að reyna að jafna ágreining um lýsta kröfu. Takist ekki að jafna ágreining um lýsta kröfu, er mælt fyrir um að skiptastjóri skuli beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr. laganna.
Þrátt fyrir að 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 kveði á um að í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms skuli koma fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, telur dómurinn að skýra verði ákvæðið með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, og þá einkum þeim reglum sem gilda um kröfulýsingu og aðkomu skiptastjóra og annarra kröfuhafa að málefnum þrotabúsins. Í því ljósi álítur dómurinn að umrætt ákvæði 1. mgr. 177. gr. verði ekki skilið á þann hátt að með því sé sóknaraðila veitt heimild til að koma að algerlega nýjum kröfum og málsástæðum, eftir að málefninu hefur verið beint til héraðsdóms, nema með samþykki varnaraðila. Í ákvæðinu felist hins vegar heimild til að gera ítarlegri grein fyrir þeim kröfum sem áður hafi verið lýst í kröfulýsingu, svo og málsástæðum að baki þeim. Gagnstæð niðurstaða kynni að leiða til þess að sóknaraðili gæti komið nýjum kröfum að löngu eftir lok kröfulýsingarfrests, án þess að skiptastjóri hefði nokkur tök á að sannreyna kröfurnar, taka afstöðu til þeirra og eftir atvikum reyna að jafna ágreining um þær. Um leið væri augljós hætta á að hagsmunum annarra kröfuhafa yrði raskað, enda hefðu þeir þá engin tök á að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar hinna síðbúnu krafna. Ályktun þessi verður dregin af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 759/2009, sem upp var kveðinn 20. janúar 2010.
Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 673/2010 frá 26. janúar sl. var ekki fallist á rök héraðsdómara um að varakröfur sóknaraðila í greinargerð hans væru nýjar kröfur, og bæri því að vísa þeim frá dómi. Þvert á móti taldi rétturinn varakröfur sóknaraðila í meginatriðum reistar á sama grundvelli og aðalkrafa hans. Samkvæmt því verður hér tekin efnisleg afstaða til varakrafna sóknaraðila.
Með fyrstu varakröfu í greinargerð sinni leitar sóknaraðili viðurkenningar á því að óheimilt hafi verið að tengja höfuðstól umrædds lánssamnings við gengi erlendrar myntar, sbr. VI. kafli laga nr. 38/2001. Því beri að líta svo á að höfuðstóllinn sé óverðtryggður. Verði fallist á þessa málsástæðu telur sóknaraðili ljóst að lánsfjárhæðin sé lægri en nemi samtölu á verðmæti þeirra hlutdeildarskírteina sem keypt hafi verið fyrir andvirði lánsins og þeirra sem sett hafi verið sem handveð fyrir láninu.
Dómurinn hefur engin gögn undir höndum sem staðfest geta fullyrðingu sóknaraðila um fjárhæð lánsins, ef fallist yrði á þau rök hans að lánið bryti í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Hins vegar fær dómurinn ekki séð að varnaraðili gæti þá gengið að frekari tryggingum en samkvæmt handveðsyfirlýsingunni, en með henni var varnaraðila sett að handveði hlutdeildarskírteini sóknaraðila að nafnverði 476.493,45 krónur.
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu ákvæðum umrædds lánssamnings. Fram er einnig komið að sóknaraðili óskaði sérstaklega eftir því að lánsfjárhæðin yrði í japönskum yenum, enda hefði hann fregnað að þróun yensins væri hagstæð gagnvart íslenskri krónu. Ekki er um það deilt að varnaraðili keypti í þessu skyni 11.007.155 japönsk yen og að sóknaraðili seldi þá erlendu mynt sama dag fyrir íslenskar krónur, sem síðan voru notaðar til kaupa á hlutdeildarskírteinum að nafnverði 234.865,89 krónur. Meðal gagna málsins er einnig ódagsett yfirlit yfir stöðu lánsins á gjalddaga þess, 15. apríl 2009. Samkvæmt því eru eftirstöðvar lánsins hinar sömu og upphafleg lánsfjárhæð, þ.e. 11.007.155 japönsk yen. Á yfirlitinu má þó einnig sjá að eftirstöðvar lánsins eru 15.257.018 íslenskar krónur. Tekið er þar fram að lánið sé í vanskilum.
Þegar litið er til efnis lánssamningsins og ofantalinna atriða getur dómurinn ekki fallist á að skuldbinding sóknaraðila samkvæmt umræddum lánssamningi sé í íslenskum krónum, og því í andstöðu við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Þótt samningurinn kveði að sönnu á um að lánsfjárhæðin sé jafnvirði 6.000.000 króna í japönskum yenum, verður að hafa í huga að sóknaraðili óskaði eftir þeirri lánsfjárhæð til kaupa á hlutdeildarskírteinum, en jafnframt óskaði hann eftir því lánið yrði í japönskum yenum. Engin ákvæði eru þar um að lánið sé bundið gengi hinnar erlendu myntar. Ekki er þar heldur að finna ákvæði um að lántaki skuli endurgreiða lánsfjárhæðina, vexti eða afborganir í íslenskum krónum. Hins vegar er tekið fram að „greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Samningsákvæðin eru þannig verulega frábrugðin þeim samningsákvæðum, þar sem dómstólar hafa fallist á að skuldbinding sé í raun í íslenskum krónum, en bundin gengi erlendrar myntar, sbr. dóma Hæstaréttar nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010 og 604/2010. Eru því ekki skilyrði til að fallast á varakröfu sóknaraðila.
Þrautavarakrafa í greinargerð sóknaraðila er um viðurkenningu á því að krafa varnaraðila á hendur honum á grundvelli 6.000.000 króna lánssamnings skuli takmarkast við andvirði þeirra hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK, sem keypt voru fyrir andvirði lánssamningsins og þeirra hlutdeildarskírteina sem sett voru að handveði fyrir láninu. Í kröfunni virðist felast að varnaraðili láti nægja að andvirði allra innleystra hlutdeildarskírteina sóknaraðila, samtals 13.088.785 krónur, gangi til greiðslu upp í lánssamninginn, og að ekki verði krafist greiðslu á því sem eftir stendur. Kröfunni til stuðnings kveðst sóknaraðili leggja til grundvallar að samningar aðila haldi, en þó þannig að loforð starfsmanna varnaraðila um verstu hugsanlegu niðurstöðu gildi. Það þýði að varnaraðili geti ekki krafið sóknaraðila um frekari greiðslur vegna lánssamningsins en sem nemi andvirði hlutdeildarskírteinanna. Málsástæða þessi er á engan hátt studd gögnum og því með öllu haldlaus. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfunni hafnað.
Dómurinn hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi í engu fært sönnur á fullyrðingar sínar um að varnaraðili hafi að einhverju leyti sýnt af sér saknæman skort á upplýsingum og ráðgjöf gagnvart sóknaraðila í aðdraganda þeirra viðskipta sem hér er fjallað um. Eru því ekki skilyrði til að fella bótaábyrgð á varnaraðila samkvæmt þrautaþrautavarakröfu sóknaraðila. Bótakrafan er að auki vanreifuð, þar sem hún felur hvorki í sér nægilega afmörkun á meintu tjóni né hinni bótaskyldu háttsemi. Verður kröfunni því hafnað.
Samkvæmt öllu ofanrituðu er það niðurstaða dómsins að vísa beri frá dómi varakröfum sóknaraðila í endanlegri kröfugerð hans, en hafna öllum öðrum kröfum hans. Í ljósi þeirrar niðurstöðu, svo og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 250.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Vísað er frá dómi varakröfum sóknaraðila, Rohan Stefan Nandkisore, í endanlegri kröfugerð hans 22. október 2010 á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf.
Öllum öðrum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila í máli þessu er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.