Hæstiréttur íslands
Mál nr. 277/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 23. maí 2006. |
|
Nr. 277/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. júní 2006, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglunnar segir að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint stórfellt fíkniefnabrot. Lagt hafi verið hald á 15.227,90 g af amfetamíni og 10.283,05 g af hassi sem falin hafi verið í bifreiðinni [...] sem flutt hafi verið til landsins frá Rotterdam í Hollandi. Fíkniefnin hafi fundist við leit tollgæslu þann 3. f.m. Kærði hafi verið skráður innflytjandi bifreiðarinnar. Kærði hafi sætt eftirliti lögreglu frá því fíkniefnin hafi fundist og hafi hljóðupptökubúnaði og gerviefnum verið komið fyrir í bifreiðinni og sími kærða hlustaður. Kærði hafi leyst bifreiðina úr tolli og flutt hana á bifreiðastæði við heimili sitt. Þann 12. f.m. hafi lögregla hljóðritað samtal kærða við annan mann þar sem greinilega hafi komið fram að kærði hafi haft vitneskju um fíkniefni í bifreiðinni og kærði hafi tekið þátt í fíkniefnainnflutningnum. A, B og C, hafi sótt bifreiðina á umrætt bifreiðastæði að kvöldi 13. f.m. Hafi þeir flutt bifreiðina í verkstæðishúsnæði við Y en þeir verið handteknir skömmu síðar. Aðkoma á vettvangi og hljóðritað samtal við bifreiðina í húsnæðinu bendi eindregið til þess að umræddir þremenningar hafi verið að móttaka efnin með því að fjarlægja þau úr bifreiðinni. Um þátt þremenninganna og afstöðu þeirra til sakarefnisins sé nánar vísað til fyrirliggjandi framburðarskýrslna þeirra.
Kærði hafi viðurkennt aðild að innflutningi fíkniefna með því að hafa, að beiðni D, flutt inn bifreið á sínu nafni sem hafi átt að vera hlaðin kannabisefnum. Kærði hafi lýst nánar meintri aðkomu sinni að málinu og greint frá tveimur utanlandsferðum í því sambandi og samskiptum hans við vitorðsmenn erlendis, og flutningi bifreiðarinnar í vöruafgreiðslu Eimskip í Rotterdam. Kærði kveðist hafa verið í góðri trú að einungis kannabisefni yrðu falin í bifreiðinni en honum hafi hins vegar verið greint frá því undir lok síðari ferðarinnar, í Belgíu, að eitthvað meira yrði í bifreiðinni. Kærði kveðist hafa gert athugasemd vegna þessa við D þegar heim var komið en D hafi gert lítið úr þessu og sagt honum að hann fengi aukalega greitt fyrir þetta. Þegar kærði hafi verið búinn að fá tilkynningu um að bifreiðin væri komin til landsins hafi hann sett sig í samband við einn af vitorðsmönnunum erlendis og í framhaldinu hafi D afhent honum peninga í reiðufé til að fá bifreiðina afgreidda úr tolli og kærði í framhaldinu fengið bifreiðina afgreidda og skráða. Kærði kveðst ekki hafa séð fíkniefnin sem verið hafi í bifreiðinni, hann hafi ekki komið að pökkun þeirra í bifreiðinni né hafi hann lagt til fjármuni til kaupa á fíkniefnunum. Sé nánar vísað til framburðarskýrslna kærða frá 25. og 27. f.m. og 10. þ.m.
Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti en framburður hans þyki vera í nokkru samræmi við rannsóknargögn málsins. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 14. f.m. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 19. f.m. í máli nr. 206/2006 og úrskurð héraðsdóms frá 5. þ.m. í máli nr. R-253/2006. Rannsókninni miði áfram en nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu, tengsl þeirra innbyrðis og tengsl við aðra vitorðsmenn sem tengist málinu en ekki sé vitað um á þessu stigi hverjir séu en kunni að tengjast fjármögnun og kaupum á fíkniefnunum, ætlaðri móttöku og dreifingu þeirra hér á landi sé að gagnaöflun og gagnaúrvinnslu fjármála- og fjarskiptaupplýsinga í þessu skyni. Tafir hafa orðið á afgreiðslu gagna frá tilteknum fjármálastofnunum en útlit sé fyrir að úr rætist á næstu dögum. Sé nánar vísað til tveggja upplýsingaskýrslna Þorbjörns Vals Jóhannssonar, rannsóknarlögreglumanns, dags. 17. þ.m. Framundan séu frekari yfirheyrslur af vitnum og sakborningum, þ.m.t. kærða. Nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda áfram rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Samkvæmt því sem að framan segir svo og rannsóknargögnum sem liggja fyrir dóminum liggur rökstuddur grunur á því að kærði eigi aðild að stórfelldu fíkniefnabroti sem getur varðað fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 með áorðnum breytingum. Rannsókn er enn ekki lokið og telur dómarinn að skilyrði a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa lögregreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. júní 2006, kl. 16.00.