Hæstiréttur íslands

Mál nr. 452/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Miðvikudaginn 27. júní 2012.

Nr. 452/2012.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

T

(enginn)

X

(Ingi Freyr Ágústsson hdl.)

Z

Y

W

S

R

Q

P

U

O

N og

M

(enginn)

Kærumál. Hæfi dómara.

Úrskurður héraðsdóms, þar sem héraðsdómari vék sæti í máli X o.fl., var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Garðar Gíslason hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júní 2012, þar sem Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari vék sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum að kröfu varnaraðilans X. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnisúrlausnar.

Varnaraðilinn X krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, en aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var höfðað sakamál á hendur varnaraðilanum X með ákæru 1. júní 2012 fyrir ærumeiðingar og brot gegn valdstjórninni með því að hafa með nánar tilgreindum hætti veist að héraðsdómara við sama dómstól og sá dómari, sem kvað upp hinn kærða úrskurð, starfar við. Sakargiftir í því máli gátu ekki valdið því að héraðsdómari væri vanhæfur til að fara með og dæma það mál, sem hér er til meðferðar, en það er alls óskylt hinu fyrrnefnda. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

            Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júní 2012.

Mál þetta er höfðað með tveimur ákærum ríkissaksóknara, hinni fyrri dagsettri 16. apríl 2012 (mál nr. S-314/2012) á hendur Z, kennitala [...], [...], [...], Y, kennitala [...],[...], [...], W, kennitala[...], [...], [...], V, kennitala[...], [...], [...], og U, kennitala[...], [...], [...],

                fyrir eftirfarandi hegningarlagabrot: 

1. Á hendur ákærðu öllum fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa föstudaginn 3. september 2010, innandyra á verkstæðinu [...] að [...] í Hafnarfirði, í félagi veist að A, elt hann upp á aðra hæð húsnæðisins, slegið hann með kylfu í höfuð og líkama og hrint honum á glervasa sem brotnaði, allt með þeim afleiðingum að A hlaut skurð á hvirfli, sem sauma þurfti með 6 sporum, mar og bólgu á vinstri framhandlegg og löngutöng.

                Telst háttsemi ákærðu varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. Á hendur ákærða Y fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 5. mars 2011, á skemmtistaðnum [...]við [...] í Reykjavík, kastað bjórglasi í vinstri vanga B, með þeim afleiðingum að bjórglasið brotnaði, ýtt honum upp að vegg og tekið hann kverkataki, allt með þeim afleiðingum að B hlaut sár og skurði á andliti og hálsi sem sauma þurfti með samtals 38 sporum, yfirborðsáverka í hársverði, tognun á hálsvöðvum, varanlega sköddun á taugum til vinstri raddbands og lömun á vinstra raddbandi.

                Telst háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Síðari ákæran er frá  31. maí 2012 (mál nr.S-406/20129 á hendur T, kennitala [...], [...], [...], X kennitala [...], [...], [...], W, kennitala[...], [...], [...], S, kennitala[...], [...]. [...], R, kennitala[...], [...],[...], Q, kennitala [...], [...], [...], P, kennitala[...], [...] [...], O, kennitala[...],[...],[...], N, kennitala[...],[...],[...], og M, kennitala [...], [...][...], fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:

I.                   

                Á hendur ákærðu T, X, W, S, R, Q, P, O og  N fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 4. janúar 2012, í íbúð að [...], heimili C, í félagi veist að C, kennitala[...], D, kennitala [...], E, kennitala [...], og F, kennitala[...], sem hér greinir:

                Í kjölfar sameiginlegrar ákvörðunar fóru ákærðu akandi saman og vopnum búnir að [...], sem þeir höfðu ákveðið fyrirfram, og er þangað var komið fóru ákærðu T og X fyrstir inn í íbúðina, en þeim var boðið inn af C. Á meðan biðu ákærðu W, S, R, Q, P, O og N fyrir utan, uns ákærði T gaf þeim merki um inngöngu með því að hringja í síma eins þeirra, og hleypti þeim síðan öllum í heimildarleysi inn í íbúðina. Ákærðu veittust þá þegar að C, D, E og F, með því að slá þá ítrekað víðs vegar um líkama og í höfuð með hættulegum vopnum og bareflum, þ. á m. golfkylfum, sleggju með haus úr harðplasti, kylfum, handlóðum og tréprikum, og með þeim hætti að brotaþolarnir áttu hvorki kost á því að komast undan ákærðu né verjast.

                Afleiðingar af árásinni urðu eftirfarandi:

                C hlaut þverbrot í gegnum nærhluta sköflungsbeins hægri fótleggs og 6 cm opinn skurð á framanverðum sköflungnum, brot á hægri hnéskel og bólgu í kringum hnéð, fjölda yfirborðsáverka á fótlegg og fjölda yfirborðsáverka á úlnliðum og handleggjum.

                D hlaut stjörnulaga sár á hnakka, sem var allt að 3 cm í þvermál, skrapsár á báðar axlir, stórt mar á vinstri upphandlegg, stórt mar á miðjan  framhandlegg, mar á báða framhandleggi, brotinn beinnabba fremst á vinstri öln, og sprungu á húð á vísifingri hægri handar.

                E hlaut flipalaga skurð á enni.

                F hlaut höggáverka á fætur og höfuð og sár á hægri fót.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

M. 007-2012-665

II.

                Á hendur ákærðu T og X fyrir hegningarlagabrot, framin í félagi aðfaranótt fimmtudagsins 15. desember 2011 í íbúð að [...], en ákærðu höfðu fyrirfram skipulagt verknaðina og fóru þangað ásamt ákærðu W og R og óþekktum mönnum, og vopnum búnir, sem hér greinir:

1.       Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að G, kennitala[...], aftan frá en ákærði X sló hann með trébarefli á hnakka þannig að hann féll á gólfið, með þeim afleiðingum að G hlaut skurð hliðlægt vinstra megin á höfuð sem sauma þurfti með 7 sporum.

2.       Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung með því að hafa veist að H, kennitala[...], neytt hann til að leggjast á magann á gólfið, staðið á höndum hans og haldið honum þannig á meðan kastað var yfir hann þvagi, auk þess sem ákærði X sló H með trébarefli nokkrum höggum á hnakkann og reif í vinstra eyra hans, með þeim afleiðingum hann hlaut höggáverka á hnakka og rifu á vinstra eyra sem úr blæddi.

3.       Fyrir ólögmæta nauðung með því að hafa neytt I, kennitala[...], með hótunum um ofbeldi til þess að kasta af sér þvagi yfir vin hans, H, þar sem hann lá á gólfinu, eins og lýst er í ákærulið II.2.

4.       Fyrir frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgana með því að hafa krafist þess að G greiddi þeim 500.000 krónur daginn eftir og að H greiddi þeim 200.000 krónur á mánuði um ótiltekinn tíma og hótað þeim frekara ofbeldi ef þeir yrðu ekki við kröfum þeirra. I, G og H voru sviptir frelsi sínu og áttu þess ekki kost að komast út úr íbúðinni á meðan ákærðu voru þar, eða allt að klukkustund, vegna hótana, ógnana, nauðungar og ofbeldis af þeirra hálfu, og yfirgáfu ákærðu ekki íbúðina fyrr en G og H höfðu samþykkt að verða við kröfum ákærðu um greiðslu fjárins.

                Telst háttsemin sem lýst er í ákæruliðum II.1 og II.2 varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í ákærulið II.2 auk þess við 225. gr., í ákærulið II.3 við 225. gr. sömu laga, og í ákærulið II.4 við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. sömu laga.

M. 007-2012-13402

III.

                Á hendur ákærðu W og R fyrir hlutdeild í þeim brotum sem lýst er í kafla II með því að hafa farið með ákærðu T og X, ásamt óþekktum mönnum, í íbúðina að [...], vitandi hvað til stóð, og er í íbúðina var komið, haft það hlutverk að vera liðsauki og ógnun gagnvart I, G og H á meðan brotum ákærðu T og X  gegn þeim stóð, og þannig veitt þeim liðsinni í verki.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 225. gr., 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, allt sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

M. 007-2012-13402

IV.

                Á hendur ákærða T fyrir hegningarlagabrot, framin miðvikudaginn 12. október 2011 í húsnæði [...] að [...] í Hafnarfirði, sem hér greinir:

1.       Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa veist að J, kennitala [...], slegið hann nokkrum höggum í andlit og líkama, tekið um háls hans með kverkataki, haldið honum í takinu uppi við vegg og ekki sleppt takinu fyrr en J missti meðvitund, og að hafa þá látið hann falla á gólfið og slegið hann ítrekað í andlit þar sem hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að J hlaut glóðarauga og höggáverka í andlit.

2.       Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að K, kennitala [...], slegið hann nokkrum höggum í andlit og líkama, skipað honum að leggjast á gólfið, sparkað í líkama hans og höfuð og staðið á höfði hans þar sem hann lá, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og nokkra bólgu í kringum hægra auga og yfirborðssár á bæði eyru.

3.       Fyrir frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgana með því að hafa krafist þess að J og K greiddu honum 500.000 krónur hvor um sig, með hótunum um frekara ofbeldi ef þeir yrðu ekki við kröfum hans. J og K voru sviptir frelsi sínu og áttu þess ekki kost að komast út úr húsnæðinu vegna framangreindra hótana, ógnana og ofbeldis af hálfu ákærða T, fyrr en þeir höfðu samþykkt að verða við kröfu ákærða um greiðslu fjárins.

4.       Fyrir hótanir með því að hafa hótað J og K frekara ofbeldi og fjárkúgunum ef þeir segðu frá brotum ákærða gagnvart þeim, með þeim orðum að þeir færu þá í áskrift hjá honum, sem væri ævilöng skuld við hann.

                Telst háttsemin sem lýst er í ákæruliðum IV.1 og IV.2 varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í ákærulið IV.3 við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. sömu laga og í ákærulið IV.4 við 233. gr. sömu laga.

M. 007-2012-14588

V.

                Á hendur ákærðu S og M fyrir hlutdeild í þeim brotum sem lýst er í kafla IV með því að hafa farið með J og K, sem þeir töldu sig eiga sökótt við, að [...] í þeim tilgangi að leiða þá fyrir ákærða T, verið með honum í húsnæðinu á meðan brotum hans gegn piltunum stóð og á þann hátt verið liðsauki og ógnun við þá, og þannig veitt ákærða T liðsinni í verki.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr., 251. gr., sbr. 20. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, allt sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

M. 007-2012-14588

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Í þinghaldi þann 1. júní sl.voru mál þessi sameinuð undir málanúmeri þess máls sem hér er til meðferðar ásamt máli sem höfðað er með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsettri 23. maí 2012 (mál nr.S-444/2012), á hendur R, kt.[...], fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 17. október 2011, á dvalarstað sínum að [...] haft í vörslum sínum 23 kannabisplöntur, 0,8 g af amfetamíni, 5 ml. af anabólískum sterum af gerðinni Trenbolon sem lögreglumenn fundu við leit.

Í þinghaldi þann 19. þ.m.kom fram krafa X, eins af  ákærðu í málinu, um að Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari viki sæti vegna vanhæfis. Færði verjandi hans fram þau rök að í ljósi þess að annað mál sé rekið fyrir dómstólnum gegn ákærða vegna ætlaðs brots gegn starfsmanni dómstólsins þá geri hann kröfu um að dómari víki sæti í máli þessu. Sækjandi hafði ekki uppi andmæli gegn þessari kröfu. Við umfjöllun kröfunnar hefur dómari einnig í huga skyldu sína til þess að gæta að hæfi sínu sbr. 1. mgr. 7. gr. sakamálalaga nr. 88/2008.

Með ákæru 1. júní 2012 höfðar ríkissaksóknari á hendur X fyrir  Héraðsdómi Reykjaness „fyrir ærumeiðingar og brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 27. apríl 2012, í dómsal 1 í Héraðsdómi Reykjaness við Fjarðargötu 9 í Hafnarfirði, þar sem tekin var fyrir krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að ákærði skyldi hefja afplánun eftirstöðva fyrri dóma vegna rofs á reynslulausn, í tvígang kallað Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara „tussu“ er hún kvað upp úrskurðarorð um afplánun eftirstöðva og í kjölfar úrskurðarins hrækt á sama héraðsdómara inni í dómsalnum, en hrákinn hafnaði á skikkju og hægra handarbaki dómarans.“ Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 234., sbr. b. lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þann 14. þ.m. mánaðar kvað dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness upp úrsskurð þess efnis að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjaness skyldu víkja sæti í málinu vegna þess að sakargiftir á hendur ákærða taki til þess að hann hafi gerst brotlegur gagnvart starfsmanni dómstólsins og niðurstaðan rökstudd með vísan til g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga 88/2008. sbr. ennfremur 1. mgr. 19. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

Fyrir liggur að þann 19. þ.m. var ofangreint mál þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur X, [...]. Dómarinn sem fer með það mál er starfandi dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Það liggur einnig fyrir að aðalmeðferð í því máli, sem eins og áður segir, snýr að ærumeiðingum og broti gegn valdstjórninni, fer fram á næstu dögum og því fyrirsjáanlegt að komi til sakfellingar í máli því sem hér er til meðferðar yrði refsing ákveðinn sem hegningarauki og því óhjákvæmilegt að dómari þurfi að meta hugsanlega þyngingu á refsingu X eins og dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þar af leiðandi leggja heildarmat á refsingu vegna beggja málanna.

Dómari leggur þó megináherslu á það að eins og áður er rakið liggur fyrir úrskurður dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness um að allir dómarar dómstólsins víki sæti í máli því sem höfðað var með ákæru 1. júní 2012 sem byggir á því að sakargiftir á hendur ákærða taki til þess að hann hafi gerst brotlegur gagnvart samstarfsmanni dómarans í þessu máli. Ljóst er að samhliða rekstri þess máls sem hér er til umfjöllunar er rekið annað mál fyrir dómstólnum gegn ákærða vegna ætlaðs brots gegn starfsmanni dómstólsins. Af þessum sökum þykir dómara sýnt að fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að ákærði X megi með réttu draga óhlutdrægni dómarans í efa. Að öllu virtu og með vísan til g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála telur dómari að fallast beri á kröfu ákærða X  um að dómarinn víki sæti í máli þessu.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari víkur sæti í máli þessu.