Hæstiréttur íslands

Mál nr. 612/2014

A (Jónas Þór Jónasson hrl.)
gegn
Skeljungi hf. og til réttargæslu Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Fasteign
  • Líkamstjón


Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón.

A krafðist þess að viðurkennd yrði skaðbótaskylda S hf. vegna líkamstjóns sem hann hlaut við bensínstöð félagsins við Hörgárbraut á Akureyri þegar honum skrikaði fótur á brún upphækkunar við eldsneytisdælu stöðvarinnar og féll til jarðar. Talið var að umbúnaður pallsins, sem bensíndælum hafði verið komið fyrir á, hefði verið forsvaranlegur og að starfsmönnum S hf. hefði, með hliðsjón af veðurfarslegum aðstæðum á svæðinu, ekki verið unnt að grípa til neinna aðgerða sem komið gátu í veg fyrir mögulega slysahættu. Í ljósi veðurfars hefði A, sem var reyndur atvinnubílstjóri, borið að sýna sérstaka aðgæslu. Var S hf. því sýknað af kröfum A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 2014. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda Skeljungs hf. á líkamstjóni sem hann hlaut 1. nóvember 2010 við bensínstöð stefnda við Hörgárbraut á Akureyri. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að umbúnaður palls sem bensíndælum var komið fyrir á hafi verið forsvaranlegur sem og að slys áfrýjanda verði ekki rakið til óforsvaranlegrar staðsetningar ruslafötu sem staðsett var á pallinum. Svo sem nánar er rakið í dóminum átti bylta sú sem leiddi til tjóns áfrýjanda sér stað í eftirmiðdaginn 1. nóvember 2010 en samkvæmt gögnum málsins höfðu snjó- og slydduél gengið samfellt yfir á slysstað frá hádegi þess dags. Við þær aðstæður bar áfrýjanda, sem var reyndur atvinnubílstjóri er margoft hafði verslað á umræddri bensínstöð, að sýna sérstaka aðgæslu við för sína frá bifreiðinni og inn á bensínstöðina sjálfa. Verður ekki talið með hliðsjón af þeim veðurfarslegu aðstæðum sem voru fyrir hendi að starfsmönnum stefnda hafi verið tækt að grípa til neinna þeirra aðgerða sem afstýrt gátu mögulegri slysahættu. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.     

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014.

Mál þetta var höfðað 4. mars 2013, þingfest 7. sama mánaðar og tekið til dóms 22. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.

                Stefnandi er A, kt. […], […].

                Stefndi er Skeljungur hf., kt. […], Borgartúni 26, 105 Reykjavík. Til réttargæslu hefur verið stefnt Tryggingamiðstöðinni hf., kt. […], Síðumúla 24, 108 Reykjavík.

                Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Skeljungs hf. vegna líkamstjóns, sem stefnandi hlaut þann 1. nóvember 2010 við bensínstöð Skeljungs hf. við Hörgárbraut, Akureyri. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati héraðsdóms og að við þá ákvörðun verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

                Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og gerir tryggingafélagið heldur engar sjálfstæðar kröfur í málinu.

I.

Málavextir

Stefnandi þessa máls varð fyrir líkamstjóni 1. nóvember 2010 í starfi sínu sem bifreiðarstjóri hjá fólksflutningafyrirtækinu B ehf. Nefndan dag mun stefnandi hafa verið í áætlunarferð milli Reykjavíkur og Akureyrar. Samkvæmt gögnum málsins kom stefnandi síðdegis þennan dag við á bensínafgreiðslu stefnda við Hörgárbraut á Akureyri til að dæla eldsneyti á bifreið þá er hann stjórnaði. Aðstæðum er lýst þannig að snjómugga hafi verið í lofti og snjóföl á jörðu. Eftir að hafa hafið bensíndælingu steig stefnandi upp á þar til gerða upphækkun, sem eldsneytisdælur stöðvarinnar standa á, og gekk með fram ökutækinu í átt að bensínafgreiðsluhúsinu. Á myndskeiði sem lagt hefur verið fram og sýnir stefnanda við bensíndæluna í umrætt sinn má sjá hvernig stefnanda skrikaði fótur á brún upphækkunarinnar með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum sem lögð hafa verið fram hlaut stefnandi við fallið beinbrot á vinstri lærlegg.

                Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Greindi hann meðal annars frá því að hann hefði margoft komið á þessa bensínstöð áður en slysið varð, bæði að sumarlagi og að vetri. Kvaðst hann ekki hafa munað eftir kanti á þessum stað í þeirri andrá sem hann datt. Aðspurður kvaðst stefnandi hafa starfað með hléum sem atvinnubílstjóri síðan árið 1998 og hefði tekið meiraprófið árið 1993.

                Fyrir liggur að lögmaður stefnanda ritaði Vinnueftirliti ríkisins bréf vegna málsins 10. desember 2010. Í svarbréfi Vinnueftirlitsins 2. febrúar 2011 kemur fram að af gögnum málsins verði ekki séð að gerðar hafi verið ráðstafanir til hálkuvarna, en að engar athugasemdir séu gerðar við upphækkunina eða járnvinkil á brún hennar. Meðal gagna málsins er einnig afrit af bréfi sömu stofnunar 11. apríl 2011, sem virðist hafa verið ritað í kjölfar bréfs lögmanns stefnanda 4. mars s.á. Í þessu seinna bréfi Vinnueftirlitsins kemur fram að stofnunin hafi skoðað upphækkun við umræddar bensíndælur að fyrra erindi lögmannsins mótteknu, en ítrekað er að engar athugasemdir hafi verið gerðar við upphækkunina eða járnvinkilinn. Þá segir að þar sem slysið hafi átt sér stað 11. nóvember 2010 sé of langur tími liðinn til að unnt sé að rannsaka orsakir slyssins frekar en gert var í fyrri skoðun Vinnueftirlitsins á málinu.

                Lögð hafa verið fram í málinu skjöl er varða áverka stefnda og þá læknismeðferð sem hann hefur fengið vegna þeirra. Í matsgerð Sveinbjörns Brandssonar læknis, 18. mars 2013, kemur meðal annars fram að stefnandi finni fyrir verkjum og stirðleika í vinstri mjaðmarlið. Vátryggingafélag Íslands hf. hefur viðurkennt að slys stefnanda sé bótaskylt úr slysatryggingu launþega, sbr. bréf félagsins 10. maí 2011, en vinnuveitandi stefnanda var með launþegatryggingu þar. Með tölvubréfi 9. nóvember 2011 fór lögmaður stefnanda fram á það við réttargæslustefnda að viðurkennd yrði bótaskylda stefnda úr frjálsri ábyrgðartryggingu. Þessari málaleitan var hafnað af hálfu réttargæslustefnda með bréfi 8. mars 2012. Um rökstuðning fyrir þeirri afstöðu var vísað til þess af hálfu réttargæslustefnda að starfsmenn stefnda hefðu ekki sýnt af sér saknæma háttsemi, auk þess sem ekki væri sýnt að slysið mætti rekja til vanbúnaðar af hálfu stefnda. Með málshöfðun þessari freistar stefnandi þess að fá þessari afstöðu hnekkt.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Viðurkenningarkrafa stefnanda á hendur stefnda byggist á því að stefndi beri ábyrgð á og eigi sök á slysinu, sem stefnandi varð fyrir á bensínafgreiðslustöð stefnda við Hörgárbraut á Akureyri.

                Stefnandi rekur slysið til þess að snjór hafi hulið járnkant á brún upphækkunar við bensíndælur og því hafi stefnandi ekki vitað af kantinum. Hafi hann neyðst til að ganga eftir brúninni þar sem einhver starfsmaður stefnda hafi látið ruslastamp fyrir „eðlilegan gangveg frá bensíndælunni“. Á framlögðum myndum og myndskeiði sjáist móta fyrir sporum annarra sem gengið hafi í snjónum á brún upphækkunarinnar, án þess að hafa fallið þar eins og stefnandi. Af hálfu stefnanda er gerð athugasemd við að járnin hafi ekki verið krossriffluð til hálkuvarnar.

                Stefnandi telur að staðsetning ruslafötunnar sem áður var nefnd hafi valdið óþarfri slysahættu því viðskiptavinir hafi þurft að þræða fyrir stampinn á leið sinni í bensínafgreiðsluna. Af hálfu stefnanda er gagnrýnt að skort hafi á ráðstafanir af hálfu stefnda til að reyna að koma í veg fyrir hálkuslys svo sem með því að sanda eða salta svæðið. Ekki hafi heldur verið sett upp aðvörunarskilti. Aðstæður hafi verið óforsvaranlegar svo að saknæmt verði að teljast. Þá leggur stefnandi áherslu á það að stefndi reki þjónustustarfsemi fyrir almenning og verði því að krefjast þess af félaginu að það tryggi öryggi viðskiptamanna sinna. Telur stefnandi að með því að stilla ruslastampinum upp í gangvegi viðskiptavina bensínstöðvarinnar hafi skapast hætta og í raun verið búin til slysagildra. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi einnig til þess að stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins, eins og félaginu hafi borið skylda til að lögum.

                Af framangreindum ástæðum telur stefnandi að slys það sem hann varð fyrir verði eingöngu rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda og ófullnægjandi fyrirkomulags við bensíndælurnar. Aðstæður hafi verið óviðunandi og beinlínis hættulegar fyrir viðskiptavini stefnda. Með vísan til þessa telur stefnandi að stefndi beri einn ábyrgð á slysinu samkvæmt „almennu sakarreglunni og húsbóndaábyrgð“. Stefnandi hafnar því að slysið verði rakið til óhappatilviks eða gáleysis stefnanda.

                Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga. Auk þess skírskotar hann til sakarreglunnar og reglna um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum og aðgæsluleysi þeirra sem undir hann heyra. Einnig er byggt á skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum og á sama hátt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Um málskostnað vísar stefnandi til XXI kafla laga um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls er vísað til 25. gr. eml. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er mótmælt þeirri staðhæfingu stefnanda að staðsetning ruslastamps við bensíndælu hafi verið varasöm. Af fyrirliggjandi gögnum verði ekki séð að staðsetning ruslafötunnar hafi eitthvað haft með slysið að gera. Hvorki í lögregluskýrslu né í umsögn Vinnueftirlitsins sé minnst á það að eitthvað sé athugavert við staðsetningu stampsins eða að staðsetning hans sé eitthvað verri eða hættulegri en hver önnur.

                Viðvíkjandi hálku og hálkuvörnum vísar stefndi til þess að yfir vetrarmánuðina geti aðstæður breyst mjög skyndilega og í því tilviki sem hér er til skoðunar hafi snjóað á Akureyri frá hádegi þennan dag, sbr. framlagt vottorð Veðurstofu, en slysið hafi verið tilkynnt lögreglu um kl. 17.00. Stefndi byggir á því að kröfur til þjónustuaðila verði að vera raunhæfar og í því tilviki sem hér um ræðir hafi verið algerlega útilokað að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir sem hefðu komið í veg fyrir að hálka gæti myndast, enda hafi snjónum kyngt niður. Upphækkun af þeirri tegund sem finna mátti á staðnum samræmist því hefðbundna fyrirkomulagi sem fyrir hendi sé við bensínstöðvar um allt land og allir þekki, ekki síst atvinnubílstjórar eins og stefnandi.

                Stefnandi leggur áherslu á að Vinnueftirlitið hafi engar athugasemdir gert, hvorki við upphækkunina sem slíka né járnkantinn sem þarna var, enda sé með þessu verið að fullnægja lagaskyldu um varnir gegn olíumengun sbr. t.d. 1. mgr. 66. gr. reglugerðar nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun vegna starfsemi í landi. Því hafi búnaðurinn í kringum bensíndæluna ekki verið óforsvaranlegur, heldur beinlínis í samræmi við opinber fyrirmæli um fyrirkomulag slíkra mannvirkja. Að sama skapi verði ekki séð á hvern hátt hefði verið hægt að vara sérstaklega við hættu á hálku í umrætt sinn. Hún hafi blasað við öllum sem þarna voru á ferð, þ.á m. stefnanda.

                Stefndi leggur áherslu á að það hafi hingað til verið talin gildandi regla í íslenskum rétti að menn skuli almennt kunna fótum sínum forráð og geti ekki, ef illa fer í þeim efnum, komið ábyrgðinni yfir á aðra. Hálka yfir vetrarmánuðina sé staðreynd á Íslandi og þurfi engum að koma á óvart sem hér býr. Mönnum beri að haga ferðum sínum samkvæmt því. Með vísan til þessa telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi gerst sekur um saknæmt gáleysi eða vanrækslu vegna slyss stefnanda. Því beri að hafna kröfum hans.

                Varakrafa stefnda um lækkun byggist fyrst og fremst á því að verði ekki fallist á sýknukröfuna þá hljóti stefnandi að þurfa að bera meginhluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Stefnandi sé reyndur atvinnubílstjóri og sé því þaulkunnugur þeim aðstæðum sem hér um ræðir. Óhappið hafði orðið í nóvember á Akureyri þegar alltaf megi búast við snjókomu og hálku. Stefnandi hafi vitað mætavel, eða mátt vita, að hálku kynni að gæta við bensíndæluna eins og aðstæðum var háttað. Með eðlilegri aðgæslu hefði stefndi auðveldlega getað komið í veg fyrir slysið sem hér er til skoðunar. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda telur stefndi ljóst að eigin sök stefnanda sé ljós og eigi að leiða til þess að stefnandi beri meginhluta sakarinnar.

IV.

Niðurstaða

Mál þetta hefur stefnandi höfðað sem viðurkenningarmál á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og með hliðsjón af atvikum öllum eru ekki efni til annars en að líta svo á að uppfylltur sé hér áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni eins og það lagaatriði hefur verið skýrt í dómum Hæstaréttar Íslands.

                Svo sem áður greinir hefur undir rekstri málsins verið lögð fram upptaka úr öryggismyndavél sem sýnir meðal annars fall stefnanda sem leiddi til líkamsmeiðsla hans. Samkvæmt upptökunni átti slysið sér stað klukkan rúmlega 16.30 1. nóvember 2010. Á myndbandinu sést hvar stefnandi ekur bifreið sinni að bensíndælu og stígur út úr bílnum. Myndskeiðið sýnir að bifreiðinni var í umrætt sinn lagt svo nálægt dælunni að stór baksýnisspegill, bílstjóramegin, þrengdi töluvert gangveginn milli bílsins og upphækkunarinnar sem bensíndælan stendur á. Ekki verður annað séð en að þrengslin sem við þetta sköpuðust hafi leitt til þess að stefndi kaus að stíga upp á stallinn á leið sinni að bensínafgreiðsluhúsinu. Gekk hann svo með fram dælunni eftir stallbrúninni í átt að afgreiðslustöðinni. Vel má á upptökunni sjá hvar stefnandi stingur höndum í vasa sína eftir að hafa hafið dælingu og jafnframt hvernig hann gengur með hendur í vösum eftir brún upphækkunarinnar. Þegar honum svo skrikar fótur á stallinum hefur hann af þessum sökum ekki fullt ráðrúm til að bera hendurnar fyrir sig og skellur fyrir vikið af meiri þunga á horn upphækkunarinnar en ella, með þeim afleiðingum sem áður hefur verið gerð grein fyrir.

                Í stefnu eru gerðar athugasemdir við það að stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Fyrir liggur þó, að Vinnueftirlitið fór yfir ofannefnda myndbandsupptöku og skoðaði upphækkun við bensíndælurnar. Niðurstaða þeirrar skoðunar var, sbr. bréf stofnunarinnar 11. apríl 2011, að engar athugasemdir voru gerðar við upphækkunina eða járnvinkil á brún hennar. Eins og mál þetta er vaxið verður ekki fullyrt að atvikin sem snerta tjónsatburðinn sjálfan séu óljós. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að máli skipti fyrir úrlausn málsins hvernig tilkynningum til Vinnueftirlits ríkisins kunni að hafa verið háttað.   

                Við sakarmat er til þess að taka að umbúnaður á bensínstöðvum hefur verið samræmdur hér á landi með ákvæðum reglugerðar nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi. Fyrir sakarefni þessa máls skiptir ekki síst máli ákvæði 1. mgr. 66. gr. reglugerðar þessarar, en þar er mælt fyrir um að afgreiðslutæki skuli staðsetja á upphækkun til að verja þau fyrir hnjaski. Við skýrslugjöf hér fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi margoft hafa tekið olíu og bensín á þessari tilteknu bensínstöð áður en umrætt slys varð. Fram kom jafnframt í máli stefnanda að hann hafi ekki munað eftir kanti á þessum stað í þeirri andrá sem hann datt. Stefnandi hefur, að eigin sögn starfað atvinnubílstjóri með hléum síðan 1998. Ganga má út frá því að stöðu sinnar vegna þekki stefnandi vel þann aðbúnað við bensíndælur sem hér var lýst og almennt er viðhafður hér á landi, þótt útfærslur geti verið með ýmsum hætti frá einni bensínstöð til annarrar. Stallurinn sem bensíndælurnar standa á við títtnefnda bensínstöð er augljóslega allþröngur, raunar svo að stefnanda mátti vera ljóst að stallur þessi væri ekki hannaður sem göngubraut. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum meðal annars gert athugasemdir við staðsetningu ruslafötu sem á stallinum var, en með vísan til framburðar stefnanda sjálfs getur dómurinn ekki fallist á að staðsetning fötunnar geti með einhverjum hætti talist hafa átt þátt í slysi stefnanda.

                Samkvæmt framlagðri lögregluskýrslu 7. desember 2010 var blaut snjókoma þegar slysið varð „og nokkurt slabb komið á yfirborð vettvangsins sem gerði stallinn mjög hálan“. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands, sem stefndi hefur aflað og lét fylgja með bréfi til stefnda 8. mars 2012 voru snjó- og slydduél á Akureyri frá hádegi 1. nóvember 2010. Við slíkar aðstæður má öllum vera ljóst, án þess að við því sé sérstaklega varað, að meiri hætta er á hálku en þegar þurrt er í veðri og jörð auð.

                Svo sem áður greinir komst Vinnueftirlitið að þeirri niðurstöðu, að lokinni skoðun á málinu, að ekki væru efni til að gera athugasemdir við nefnda upphækkun eða járnvinkil á brún hennar. Af hálfu stefnanda hefur ekkert verið lagt fram sem rýrir gildi þeirrar ályktunar.

                Samkvæmt öllu ofangreindu verður ekki á það fallist að slys stefnanda verði rakið til umbúnaðar við oftnefndar bensíndælur eða vanrækslu af hálfu stefnda að öðru leyti. Ber því að hafna kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna þess líkamstjóns sem stefnandi hlaut 1. nóvember 2010 við bensínstöð Skeljungs hf. við Hörgárbraut, Akureyri.

                Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Dóm þennan kveður upp Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndi, Skeljungur hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.