Hæstiréttur íslands

Mál nr. 198/2015


Lykilorð

  • Fjármögnunarfyrirtæki
  • Lán
  • Innstæða
  • Fjármálaeftirlit
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Fordæmi


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015.

Nr. 198/2015.

Landsbanki Guernsey Ltd.

(Gunnar Jónsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Eyvindur Sólnes hrl.

Borgar Þór Einarsson hdl.)

Fjármálafyrirtæki. Lán. Innstæða. Fjármálaeftirlit. Stjórnvaldsákvörðun. Fordæmi.

Ágreiningur aðila laut í fyrsta lagi að því hvort það fé sem LG Ltd. átti hjá LÍ hf. í byrjun október 2008 hefði verið millibankalán til LÍ hf. eða ígildi almennrar innstæðu á hlaupa- eða sparireikningi. Í öðru lagi hvort það fé hefði með ákvörðunum F 9. október 2008 og 11. nóvember sama ár, á grundvelli heimilda í lögum nr. 125/2008, flust til L hf. og honum væri því skylt að standa LG Ltd. skil á endurgreiðslu fjárins, en krafa LG Ltd. á hendur L hf. var reist á því. Með hliðsjón af gögnum málsins um lögskipti LG Ltd. og LÍ hf. var talið ljóst að þegar LG Ltd. lagði fé inn hjá LÍ hf. á árunum 2006 til 2008 hefði verið um að ræða lánafyrirgreiðslu frá einni fjármálastofnun til annarrar á millibankamarkaði. Gæti engu breytt um þetta eðli lögskiptanna að LG Ltd. hefði verið dótturfélag LÍ hf. og lotið stjórn hans. Þá var að virtum dómi Hæstaréttar í máli nr. 169/2011 talið ljóst að skuldbindingar þær sem stofnuðust á grundvelli slíkra lánveitinga á millibankamarkaði hefðu ekki flust yfir til L hf. með áðurgreindum ákvörðunum F. Samkvæmt framansögðu var L hf. sýknað af kröfu LG Ltd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. mars 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 12.751.554 sterlingspund, 628.877 evrur og 3.081.179 bandaríkjadali með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2008 til 5. október 2012 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi sem er fjármálafyrirtæki í slitameðferð á eyjunni Guernsey í Ermasundi var á árunum 2006 til 2008 dótturfyrirtæki Landsbanka Íslands hf. og hafði  á þeim tíma með höndum bankaviðskipti og skylda fjármálaþjónustu. Landsbanki Íslands hf. mun hafa keypt áfrýjanda í ágúst 2006 og sátu bankastjórar fyrrnefnda bankans í stjórn hans. Fólst rekstur áfrýjanda í því að taka við innlánum til ávöxtunar sem að sögn áfrýjanda var álitleg. Butterfield Bank Guernsey Ltd. annaðist samkvæmt sérstöku samkomulagi við áfrýjanda daglegan rekstur hans. Ágreiningslaust er að þegar Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga  nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, átti áfrýjandi fé hjá hinum fyrrnefnda í þeim myntum sem fram koma í dómkröfu hans, sömu fjárhæðar. Aðila greinir á um hvort fé þetta hafi verið millibankalán til Landsbanka Íslands hf. eins og stefndi heldur fram eða það sem áfrýjandi nefnir í málatilbúnaði sínum ígildi almennrar innstæðu á hlaupa- eða sparireikningi. Landsbanki Íslands hf. var með lögum nr. 44/2009, sem breyttu nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, tekinn til slita og miðaðist upphaf þeirra við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Bankanum var skipuð slitastjórn sem annast meðferð krafna á hendur honum og gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna félagsins. Kröfulýsingarfresti lauk 30. október sama ár og var áfrýjandi eins og nánar greinir í héraðsdómi meðal þeirra sem lýstu kröfu á hendur Landsbanka Íslands hf. Slitastjórnin samþykkti kröfu áfrýjanda sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

II

Skriflegum gögnum um þau lögskipti áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. sem leiddu til þess að áfrýjandi átti fé hjá hinum síðarnefnda í byrjun október 2008 er ekki til að dreifa í málinu nema að takmörkuðu leyti. Af þeim verður þó ráðið að sú ávöxtun innlána sem áfrýjandi bauð viðskiptavinum sínum á Guernsey hafi verið fjármögnuð með því að áfrýjandi lagði að því er virðist daglega fé inn í sínu nafni hjá Landsbanka Íslands hf. í Reykjavík og í einhverjum tilvikum hjá Heritable Bank Plc í London sem var dótturfélag Landsbanka Íslands hf. Fóru þær millifærslur fram í gegnum hið svokallaða SWIFT-kerfi fjármálafyrirtækja og mun áfrýjandi í lok hvers dags hafa fengið sent yfirlit þar sem fram komu upplýsingar um fjárhæðir, hreyfingar og vexti. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 30. mars 2010 til áfrýjanda kom fram að allt fjárstreymi til og frá áfrýjanda hafi verið bókað hjá Landsbanka Íslands hf. í gegnum svokallað Murex kerfi og það síðan fært á ákveðna bókhaldslykla en ekki inn á hlaupa- og sparireikninga í bankanum.

Innlánsvextir áfrýjanda hjá Landsbanka Íslands hf. voru í upphafi ákvarðaðir með tilliti til vaxta sem áfrýjandi bauð innstæðueigendum að viðbættu 0,25% álagi til þess að standa straum af öðrum kostnaði. Sést það meðal annars af því að starfsmaður Butterfield Bank Ltd., Martin Gaudion, sendi 25. september 2006 rafbréf til Steinþórs Baldurssonar, starfsmanns Landsbanka Íslands hf., þar sem hann óskaði eftir greiðslufyrirmælum og  upplýsingum um hvaða starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. ætti að tilkynna um peningasendingar milli áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. Rafbréfi þessu svaraði Steinþór degi síðar og tilgreindi sem viðtakendur upplýsinga fimm starfsmenn Landsbanka Íslands hf., þeirra á meðal sjálfan sig og Guðna Einarsson, og tvo starfsmenn Heritable Bank Plc, þá Mark Sismey-Durrant og Ketan Malde. Sagði Steinþór í svarbréfinu að til að byrja með ættu greiðslur til Landsbanka Íslands hf. að fara í gegnum Lloyds TSB Bank Plc í London og gaf hann upp ákveðið reikningsnúmer ásamt SWIFT númeri. Tók Steinþór fram að innstæður á reikningnum skyldi endurgreiða áfrýjanda þegar hann krefðist þess og til að byrja með yrði fjármögnunarkostnaður að viðbættu álagi notaður sem vaxtastig vegna þessara innstæðna. Loks var viðtakandi bréfsins beðinn að senda staðfestingu á því hvert væri hið rétta vaxtastig. Í rafbréfi 1. september 2008 frá Ketan Malde sem meðal annarra var sent Guðna Einarssyni og Ellen Butler, starfsmanni Butterfield Bank Ltd., og bar fyrirsögnina „RE: landsbanki Monthly Rate Update“ var spurst fyrir um vexti á fjárhæðum í bandaríkjadölum og evrum. Því bréfi svaraði Ellen Butler samdægurs með rafbréfi sem meðal annarra var beint til Guðna Einarssonar og Ketan Malde og var þar tilgreint hvert vaxtastigið skyldi vera frá og með þeim degi í bandaríkjadölum, sterlingspundum og evrum.

III

Meðal gagna málsins er ársreikningur áfrýjanda fyrir 2007 sem áritaður var af endurskoðanda 18. mars 2008. Þar kom meðal annars fram að áfrýjandi stundaði bankaviðskipti og tengda fjármálaþjónustu. Meðal eigna hans væru lán til banka sem hefðu 31. desember 2007 numið 166.652.390 sterlingspundum en með lánum til banka væri átt við lánsviðskipti og aðrar kröfur. Þá sagði að móðurfélag áfrýjanda skuldaði honum 166.652.390 sterlingspund og væru innstæður áfrýjanda hjá móðurfélaginu sömu fjárhæðar. Tekið var fram að ekki hafi verið um að ræða nein lán til viðskiptavina á árinu. Um fjárhagslega áhættustjórnun sagði að öllu umframfé áfrýjanda ráðstafaði hann til fjárfestinga hjá Landsbanka Íslands hf. sem réði yfir fyrirtækinu.

Um lausafjáráhættu sagði meðal annars í ársreikningnum að til að tryggja að hægt væri að standa við skuldbindingar áfrýjanda væri nauðsynlegt fé haft tiltækt í bönkum samstæðunnar og öðrum fjármálastofnunum eins og við ætti. Þá sagði að daglega þyrfti áfrýjandi að svara skuldbindingum á hlaupareikningum, gjaldkræfum innstæðureikningum og vegna ábyrgða með því fé sem hann hefði til ráðstöfunar. Ekki væri handbært fé til þess að mæta öllum slíkum skuldbindingum þar sem reynslan sýndi að sjá mætti fyrir með mikilli vissu lágmarks endurfjármögnunarþörf gjaldkræfra fjárhæða. Stjórn áfrýjanda ákvarðaði lágmarks hlutfall handbærs fjár til að mæta slíkum skuldbindingum og lágmarks hlutfall millibankalána og annarra fjárhagslegra ráðstafana sem þyrftu að vera fyrir hendi til þess að mæta óvæntum kröfum um úttektir. Í töflu sem á eftir fór voru kröfur áfrýjanda á hendur öðrum fjármálafyrirtækjum flokkaðar með tilliti til þess hvenær þær yrðu gjaldkræfar samkvæmt samningi og kom þar fram að meðal krafna á hendur bönkum sem gjaldkræfar væru á skemmri tíma en þremur mánuðum væru 166.700.000 sterlingspund en það var sú fjárhæð sem áfrýjandi átti hjá Landsbanka Íslands hf. Sama fjárhæð kom einnig fram á lista yfir útistandandi skammtíma skuldbindingar.

Fjármálaeftirlitið á Guernsey sendi áfrýjanda bréf 31. mars 2008 þar sem fram kom að undanfarna mánuði hefði eftirlitið metið vandlega stöðu áfrýjanda vegna áhættu hans gagnvart móðurfélaginu á Íslandi en áfrýjandi væri fjármögnunartæki þess. Á fjármálamörkuðum væru verulegar áhyggjur af íslenska hagkerfinu og íslensku bönkunum og væru líkur til að þær myndu aukast á næstu mánuðum. Af þeirri ástæðu hefði eftirlitið ákveðið að setja fjögur skilyrði fyrir áframhaldandi starfsleyfi áfrýjanda sem ætlað væri til að styðja hann og vernda þar með innstæðueigendur. Í fyrsta lagi væri það gert að skilyrði að áfrýjandi setti sér viðbragðsáætlun vegna afturköllunar fjármögnunar móðurfélagsins. Í öðru lagi að áfrýjandi færi þess formlega á leit við móðurfélagið að það setti veðtryggingar fyrir áframhaldandi fjármögnun. Í þriðja lagi að lánveitingar áfrýjanda til móðurfélagsins væru ekki með lengri binditíma en til eins dags. Um þetta skilyrði sagði að síðasta greiðsla á gjalddaga sýndi að lánveiting til móðurfélagsins hefði verið með gjalddaga daginn eftir og gerði eftirlitið kröfu um að svo yrði áfram þar til annað yrði ákveðið. Í fjórða lagi væri þess krafist að áfrýjandi kæmi á auknu eftirliti.

Í apríl 2008 samþykkti stjórn áfrýjanda ályktun um stórar áhættuskuldbindingar. Í upphafi hennar sagði að ekki væri fyrirhugað að útlán til einstakra fjármálastofnana yrðu til lengri tíma en tólf mánaða. Ef slík skuldbinding væri til lengri tíma mætti hún ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni áfrýjanda, nema stjórn bankans og fármálaeftirlitið á Guernsey samþykktu slíkt, en eiginfjárgrunnur táknaði heildartölu samstæðuhlutafjár, víkjandi lána og varasjóða. Þann 1. apríl 2008 hafi staða stórra skuldbindinga eiginfjárgrunns verið 21.700.000 sterlingspund. Í fylgiskjali var listi yfir skammtíma fjárfestingar hjá lánastofnunum og sagði þar um Landsbanka Íslands hf. að fyrirgreiðsla til hans sætti takmörkunum af hálfu fjármálaeftirlitsins á Guernsey og í öðru fylgiskjali var Landsbanki Íslands hf. á lista yfir 10 stærstu lánþega markaðslána og bankatryggðra lána áfrýjanda.

IV

Af því sem áður er rakið er ljóst að þegar áfrýjandi lagði fé inn hjá Landsbanka Íslands hf. á árunum 2006 til 2008 með þeim hætti sem að framan er lýst var um að ræða lánafyrirgreiðslu frá einni fjármálastofnun til annarrar á millibankamarkaði. Leit enda áfrýjandi sjálfur svo á samkvæmt því sem fram kom í ársreikningi hans 2007 og samþykkt þeirri um stórar áhættuskuldbindingar sem stjórn hans gerði í apríl 2008. Fjármálaeftirlitið á Guernsey leit með sama hætti á lögskiptin. Getur engu breytt um þetta eðli lögskiptanna að áfrýjandi var dótturfélag Landsbanka Íslands hf. og laut stjórn hans. Er því hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda að fé það sem hann átti hjá Landsbanka Íslands hf. í október 2008 hafi verið ígildi almennrar innstæðu áfrýjanda á hlaupa- eða sparireikningi í bankanum.

Fjármálaeftirlitið tók þá ákvörðun 9. október 2008 að Nýi Landsbanki Íslands hf. sem nú ber nafn stefnda skyldi meðal annars taka yfir skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum, sbr. 7. tölulið ákvörðunarinnar. Ekki var þar skilgreint hvað átt var við með orðinu innlán.  Í 8. tölulið ákvörðunarinnar sagði meðal annars: „Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals skv. 5. tl.“ Í niðurlagi ákvörðunarinnar kom fram að hún væri byggð á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Reyndist hún byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða aðrar forsendur hennar brygðust verulega gæti Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á henni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta.

Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 169/2011 tilkynnti Fjármálaeftirlitið Landsbanka Íslands hf. með bréfi 11. nóvember 2008 að stjórn þess hefði tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. hefðu á tiltekna fjármögnun þessara fyrirtækja, nánar tiltekið þegar um væri að ræða „svokölluð peningamarkaðslán/innlán“ frá fjármálafyrirtækjum. Aflað hefði verið „ýmissa gagna frá bönkunum og endurskoðendum þeirra um meðferð þessarar fjármögnunar á starfsemi bankanna.“ Því næst sagði í bréfinu að stjórnin hefði „ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.) og Nýja Kaupþings banka hf. með þeim ákvörðunum sem um ræðir.“

Ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. sem áður getur og sú árétting stjórnarinnar sem fram kom í ofangreindu bréfi hennar 11. nóvember 2008 var tekin á grundvelli þeirra umfangsmiklu valdheimilda er Fjármálaeftirlitinu voru fengnar með lögum nr. 125/2008 en þau voru sett við aðstæður í fjármála- og efnahagslífi íslensku þjóðarinnar sem áttu sér enga hliðstæðu. Því bar löggjafanum eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 340/2011 ekki aðeins réttur heldur fyrst og fremst stjórnskipuleg skylda „til að gæta velferðar almennings og fjárhagslegt uppgjör vegna falls bankanna hlaut fyrst og fremst að verða innbyrðis á milli þeirra, sem áttu beinna hagsmuna að gæta gagnvart þeim“ eins og segir í dóminum. Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 169/2011 segir að í þessu ljósi verði að virða þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem um ræddi í því máli „og leggja til grundvallar að í þeim hafi falist að nýju bankarnir sem reistir voru á grunni þeirra föllnu tækju yfir innstæðuskuldbindingar gömlu bankanna gagnvart almenningi og almennar innstæður fjármálafyrirtækja á hlaupa- og sparireikningum í kerfum bankanna, en ekki inneign sem stafaði af slíkri lánveitingu á millibankamarkaði sem um ræðir í málinu.“

Í því máli sem hér er til úrlausnar reyndi á sömu ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins og um ræddi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 169/2011 og eins og í því máli lánveitingu frá einni fjármálastofnun til annarrar á millibankamarkaði. Af síðastgreindum dómi er ljóst að skuldbindingar sem stofnuðust á grundvelli slíkra lánveitinga á millibankamarkaði fluttust ekki yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 og kunni að hafa verið einhver vafi í þeim efnum í upphafi þá var honum í öllu falli eytt ekki síðar en með bréfi Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2008. Samkvæmt því sem hér var rakið verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.

Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Landsbanki Guernsey Ltd., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbankanum Guernsey Ltd., í slitameðferð, (kt. [...]), Regency Court – Glategny Port, Guernsey, gegn Landsbankanum hf. (kt. [...]), Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu, 5. október 2012. 

                Dómkröfur stefnanda eru, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda samtals 12.751.554 bresk sterlingspund, 628.877 evrur, og 3.081.179 Bandaríkjadali, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 10. gr. sömu laga, frá 9. október 2008 til stefnubirtingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Á dómþingi, þann 21. maí 2013, féll stefnandi að svo stöddu frá dómkröfum á hendur öðrum þeim sem upphaflega var stefnt í máli þessu, fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu, en engar kröfur liggja fyrir af þeirra hálfu í málinu.

                Ágreiningsefni og málsatvik

                Málavextir eru þeir, að stefnandi, sem er banki í slitameðferð á eyjunni Mön, var dótturfélag fyrrum Landsbanka Íslands hf. (hér eftir nefndur LBI hf.), á árunum 2006 til 2008. Á umræddum tíma lagði stefnandi hluta af fjármunum sínum inn til LBI hf., til ávöxtunar. Innstæða þessi bar vexti og kveðst stefnandi hafa haft viðlíka ráðstöfunar- og umráðaheimildir yfir henni eins og innstæðueigendur hjá LBI hf.

Íslenska bankakerfið féll í október 2008. Af því tilefni var meðal annars skipuð skilanefnd yfir nú LBI hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (hér eftir FME), frá 7. október 2008. Á þeim tíma, þegar skilanefnd var skipuð yfir LBI hf., var bankinn með samtals 12.751.554 bresk sterlingspund, 628.877 evrur, og 3.081.179 Bandaríkjadali í vörslum sínum frá stefnanda, og er þá ekki tekið tillit til áfallinna innlánsvaxta. Fjármunir þessir voru að mestu leyti lagðir inn hjá LBI hf. í ágúst og byrjun september 2008. Stefnandi kveðst hafa upplýsingar um að fjármunirnir hafi verið lagðir inn á reikning LBI hf. hjá „Lloyd Tsb Bank Plc“ í London, nr. 01040805, „Sort Code 30-96-34“ og að sá reikningur hafi verið nýttur af LBI hf. til að taka á móti innlánum frá viðskiptavinum bankans, sbr. tölvubréf Steinþórs Baldurssonar, þáverandi starfsmanns LBI hf., til Martin Gaudion, þáverandi starfsmanns stefnanda, dags 26. september 2006. Í bréfinu er rætt um innborganir stefnanda og þar segir m.a. orðrétt: „The deposit to Landsbanki should initally be made to Bank: Lloyds TSB Bank PLC, London...“

Í tilefni af slitameðferð stefnanda var óskað eftir gögnum frá skilanefnd LBI hf., um innstæður stefnanda, þar sem engin gögn fundust hjá félaginu um að LBI hf. hefði formlega staðfest innstæður stefnanda hjá bankanum. Eftir ítrekaðar beiðnir staðfesti Guðni Einarsson, starfsmaður skilanefndar LBI hf., að stefnandi ætti inni á reikningum hjá bankanum, miðað við 8. október 2008, 628.877,14 evrur, 3.081.179,34 Bandaríkjadali og 12.751.553 bresk sterlingspund. Áfallnir vextir frá lokun september til 8. október, eru ekki innifaldir, en dómkrafa stefnanda lýtur að þessari innstæðu.

Stefnandi lýsti kröfu í slitabú LBI hf., vegna framangreindrar innstæðu, sbr. kröfulýsingu stefnanda, dags 15. september 2009. Gerð varð krafa um forgangsrétt kröfunnar, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. lög nr. 125/2008. Stefnandi hefur þó lýst því svo, að kröfunni hafi einungis verið lýst þannig til öryggis, þar sem stefnandi hafi talið að stefndi, Landsbankinn hf., hefði yfirtekið skuldbindingu LBI hf., vegna innstæðunnar, til samræmis við ákvörðun FME, um ráðstöfun eigna og skulda LBI hf., til núverandi Landsbanka Íslands hf., dags. 9. október 2008. En slitastjórn LBI hf. samþykkti kröfu stefnanda, sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, við slitameðferð bankans, sbr. bréf slitastjórnar LBI hf., dags 19. nóvember 2010. Kröfu stefnanda um vexti frá og með 22. apríl 2009 var þá hins vegar hafnað.

Í framhaldi var ágreiningsmáli stefnanda við slitastjórn LBI hf., um forgang innstæðunnar, sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. mál nr. X-161/2010, fellt niður af stefnanda. En þrátt fyrir að stefnandi hafi fellt mál þetta niður, áskildi hann sér rétt til að hafa uppi kröfur í öðru dómsmáli, á móti öðrum aðilum, á þeim grundvelli að innstæður félagsins hefðu ekki verið fluttar frá LBI hf., og til stefnda, Landsbankans hf., til samræmis við ákvörðun FME, dags 9. október 2008.

Ágreiningur aðila í þessu máli byggir á því, að stefnandi telur sig hafa verið í góðri trú um að innstæða hans hjá LBI hf., hefði flust yfir til stefnda, Landsbankans hf., til samræmis við ákvörðun FME, dags 9. október 2008. Er af hálfu stefnanda vísað til þess, að með þeirri ákvörðun hafi „[ö]llum eignum Landsbanka Íslands hf. [nú LBI hf.] hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, [verið] ráðstafað til [stefnda, Landsbankans hf.] þegar í stað“. Eignir sem tilgreindar hafi verið í viðauka við ákvörðunina hafi þó verið undanskildar framsalinu, en í 7. tölulið ákvörðunar FME segi síðan, um innlán viðskiptavina Landsbanka Íslands hf.: „[Landsbankinn hf., þ.e. stefndi] yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum.“ Þá komi fram í 8. tölulið ákvörðunarinnar: „Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] flytjast yfir til [stefnda, Landsbankans hf.] miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals samkvæmt 5. tl. Ekki er þörf á innköllun eða auglýsingu vegna þeirrar færslu.“ Í þessum 5. tölulið segi síðan: „Nýi Landsbanki Íslands hf. [þ.e. stefndi] tekur frá og með 9. október 2008 kl. 9:00 við starfsemi sem Landsbanki Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] hefur haft með höndum og tengist hinum framseldu eignum ...“

Framangreind ákvörðun FME, um að láta stefnda, Landsbankann hf., yfirtaka skuldbindingar LBI hf. meðal annars vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, byggðist á lögum nr. 125/2008, til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um ábyrgð íslenska ríkisins á innstæðum í íslenskum viðskiptabönkum og sparisjóðum, dags 6. október 2008, sem var birt á vef forsætisráðuneytisins og vef tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Í þessum svonefndu neyðarlögum var mælt fyrir um heimild FME, til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis, í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til þess að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta, eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, þar á meðal með samruna þess við annað fyrirtæki. Þá var í 6. gr. laganna mælt fyrir um að kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nytu forgangs við skipti á búi fjármálafyrirtækis.

Framangreind ákvörðun var áréttuð í bréfi Jónasar Fr. Jónssonar, þáverandi forstjóra FME, til stjórnar FME, dags 14. október 2008, en endurskoðuð 19. október 2008. Í bréfinu var gerð grein fyrir forsendum skiptingar efnahagsreiknings LBI hf., Kaupþings banka hf. og Glitnis banka hf., í samræmi við lög nr. 125/2008. Í bréfinu komi meðal annars fram að með vísan í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi FME sett saman samræmt viðmið um framsetningu stofnefnahagsreiknings nýs banka. Markmið með þessu hafi verið að samræma vinnubrögð við yfirfærslu eigna og skulda í nýjan banka og koma með tillögu um áætlað mat, en formlegt verðmat eigna og skulda færi fram síðar. Við yfirfærslu eigna hafi verið haft til hliðsjónar að flytja allar eignir er tengdust innlendri starfsemi gamla bankans yfir í hinn nýja. Erlend dótturfélög og erlend útibú bankans áttu samkvæmt því að verða eftir í gamla bankanum, nema í þeim tilfellum þar sem meginstarfsemi þeirra færi fram á Íslandi. Þá komi fram að innlán, önnur en í erlendum útibúum gamla bankans, skuli færa á bókfærðu verði.

Að mati stefnanda staðfesti tilvitnað bréf fyrrum forstjóra FME, að öll innlán í LBI hf., óháð því frá hverjum þau stöfuðu, hafi átt að flytjast frá gamla bankanum, nú LBI hf., til stefnda, Landsbankans hf. FME hafi að minnsta kosti ekki séð ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni, dags 9. október 2008, um að öll innlán ættu að flytjast yfir til stefnda, Landsbankans hf., þrátt fyrir að ákvörðuninni hafi síðar verið breytt tvívegis, vegna breyttra forsendna, það er þann 12. og þann 19. október árið 2008.

Stefnandi sendi bréf til slitastjórnar og skilanefndar LBI hf., dags 17. febrúar 2010, til að spyrjast fyrir um hvort innstæða félagsins hefði verið flutt frá LBI hf., til stefnda, Landsbankans hf., til samræmis við ofangreinda ákvörðun FME, dags 9. október 2008. Þá var þar að auki óskað eftir upplýsingum og gögnum sem slitastjórnin hefði undir höndum um innstæðuna þar sem takmörkuð gögn hefðu fundist hjá stefnanda. Þá hafi verið óskað eftir skýringum á því að innstæður hefðu ekki verið fluttar, væri staðan sú, en stefnandi ítrekaði kröfuna í bréfi frá 1. mars 2010.

Slitastjórn LBI hf. svaraði erindi stefnanda með bréfi, dags. 4. mars 2010. Í bréfinu kemur m.a. fram sú skýring að „samkvæmt bestu vitund slitastjórnar og á grundvelli gagna sem [væru] tiltæk ... þá voru innlánsreikningar [stefnanda] ekki færðir yfir til [stefnda, Landsbankans hf.]“. Stefnandi lítur svo á, að framangreind afstaða slitastjórnar hafi komið stefnanda í opna skjöldu og félagið því óskað eftir afriti af þeim gögnum sem slitastjórnin vísaði til í bréfi sínu, sbr. bréf stefnanda, dags 8. mars 2010. Krafan hafi svo verið ítrekuð í bréfum, dags 16., 22., og 25. mars 2010. Stefndi, Landsbankinn hf., hafi jafnframt verið krafinn um skýringar á því hvers vegna innstæða stefnanda hefði ekki verið flutt yfir til bankans. Beiðni stefnanda hafi svo verið ítrekuð, 16. og 22. mars 2010, en því þá ekki verið svarað af hálfu stefnda.

Með bréfi, dags 8. mars 2010, krafðist stefnandi þess, að FME svaraði hvers vegna innstæða félagsins hefði ekki ekki verið flutt frá LBI hf., til stefnda, Landsbankans hf. Krafan var svo ítrekuð með bréfum, dags 16. og 22. mars 2010. FME svaraði loks erindi stefnanda með bréfi, dags 30. mars 2010. Í bréfinu hafi verið staðfest að „... öll innlán í kerfum Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] (innstæður á reikningum viðskiptamanna) fluttust yfir til NBI hf. [nú stefndi, Landsbankinn hf.] óháð því hvaða viðskiptamaður átti í hlut“.

 Í vafatilvikum hafi þó verið litið til eftirfarandi atriða: „... 1) eðlis þeirra samninga sem um ræddi, 2) hvernig viðkomandi innstæður voru færðar í bækur bankanna og 3) m.t.t. þess hvort greidd hafði verið iðgjöld í tryggingasjóð innstæðueigenda af peningamarkaðsinnlánunum þegar innlánseigandinn var ekki fjármálastofnun.“ Krafa stefnanda hafi ekki verið flokkuð sem „innlán“ í kerfum LBI hf., og því hafi hún ekki verið flutt yfir til stefnda, Landsbankans hf., í október 2008. Ákvörðunin hafi verið rökstudd nánar með eftirfarandi hætti: „Ástæða þess [að innstæða stefnanda var ekki flutt yfir til stefnda, Landsbankans hf.] var einkum sú að allt fjármagnsstreymi til og frá [stefnanda] var bókað og greitt í gegnum svokallað Murex kerfi. Færslur [stefnanda] voru því ekki færðar inn á hlaupa- og sparireikninga hjá Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] heldur voru bókaðar í gegnum Murex kerfið og síðan á ákveðna bókhaldslykla. Var því ekki um að ræða innlán í kerfum bankans. Samkvæmt skýringum frá starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] voru kröfur dótturfélagsins færðar sem slíkar í bækur bankans.“ Þá hafi enn fremur komið fram í sama bréfi að FME hefði ekki haft upplýsingar um innstæður stefnanda.

Stefnandi telur athyglivert, að FME hafi hér einungis litið til þess hvernig LBI hf. hafi fært innlán stefnanda í bókhaldi sínu, en eðli máls samkvæmt hafi stefnandi ekki getað haft nein áhrif á það hvernig bókhald bankans var fært. Enn fremur telur hann athyglivert að FME hafi ekki óskað eftir gögnum sem hafi verið til um innlán stefnanda hjá LBI hf., heldur látið nægja að óska eftir skýringum starfsmanna bankans. Stefnandi sætti sig ekki við þennan rökstuðning og því sé mál þetta höfðað. Af hálfu stefnda er hins vegar bent á það, að stefnandi hafi á umræddum tíma, árin 2006-2008, verið dótturfélag LBI hf., en að stefndi hafi ekki verið til mestan hluta þess tíma sem málsatvikalýsing taki til.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því, að stefndi hafi yfirtekið skuldbindingu LBI hf. gagnvart stefnanda, vegna þeirra innlána sem hafi verið í eigu stefnanda, en í vörslu bankans. Skylda stefnda til að yfirtaka skuldbindinguna hafi verið fortakslaus í ákvörðun FME, dags 9. október 2008, þar sem vísað sé til þess í 7. tölulið ákvörðunar FME, að stefndi yfirtaki „... skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum“. Stefnandi hafi verið fjármálafyrirtæki og átt innlán hjá LBI hf., þegar umrædd yfirlýsing hafi verið gefin út. Því hafi innlán stefnanda átt að færast frá LBI hf., og yfir til stefnda, Landsbankans hf.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi átt innlán hjá LBI hf., þann 9. október 2008, þegar FME hafi gefið út umrædda ákvörðun. Þá sé óumdeilt að stefnandi hafi átt innstæðu hjá LBI hf., í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sbr. 1. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um innlánatryggingakerfi, nr. 94/19/EB. Því til stuðnings vísist til eftirtalinna atriða:

Í fyrsta lagi staðfesti fyrirliggjandi tölvupóstssamskipti við starfsmann skilanefndar LBI hf., að stefnandi hafi átt innlánsreikning hjá bankanum, en starfsmaður skilanefndar LBI hf. hafi vísað til þess að stefnandi ætti fjármuni inn á „reikningum hjá Landsbanka Íslands“ [þ.e. LBI hf.]. Í öðru lagi staðfesti ársreikningur stefnanda að félagið hafi átt innstæðu hjá LBI hf., en í honum hafi innlán stefnanda hjá bankanum verið tilgreind sem innstæður hjá móðurfélagi bankans (e. „Deposits with parent undertaking“), en LBI hf. hafi verið móðurfélag stefnanda. Í þriðja lagi hafi stefnandi fengið almenna innlánsvexti hjá LBI hf. eins og aðrir innstæðueigendur hjá bankanum. Í fjórða lagi hafi engin gögn fundist hjá stefnda, Landsbanka Íslands hf., eða annars staðar, um ástæður þess að stefnandi hafi millifært fjármuni sína til LBI hf. Því verði að ganga út frá því að fjármunirnir hafi verið lagðir inn á innlánsreikning stefnanda hjá LBI hf., en sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á stefnda.

Hvort innlán stefnanda hafi notið tryggingarverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999, sbr. 6. mgr. 9. gr. laganna, hafi engin áhrif á skuldbindingu stefnda, Landsbankans hf., samkvæmt ákvörðun FME. Ákvörðun FME byggist á skýrri lagaheimild í neyðarlögunum, nr. 125/2008, og kveði skýrt á um að „innlán frá fjármálafyrirtækjum“ eigi að flytjast yfir til stefnda, Landsbankans hf., óháð því hvort þau njóti verndar eða ekki. FME hefði auðveldlega getað takmarkað skuldbindingu stefnda við innstæður sem nytu verndar samkvæmt lögum nr. 98/1999, eins og ríkisstjórn Íslands gerði í yfirlýsingu, um ábyrgð á innstæðum í íslenskum bönkum og sparisjóðum, dags 6. október 2008. FME hafi hins vegar kosið að orða yfirlýsingu sína svo að stefndi yfirtæki, „skuldbindingar [...] vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum“. Að því virtu, og með vísan til traustfangsreglna kröfuréttar, sjónarmiða að baki andskýringarreglu samningaréttar og meginreglna um réttmætar væntingar, sé byggt á að innstæða stefnanda hafi átt að flytjast til stefnda, samkvæmt ákvörðun FME.

Fjárhæð dómkröfu sé óumdeild, þar sem slitastjórn LBI hf. hafi samþykkt kröfu stefnanda, þar á meðal fjárhæð hennar, sem almenna kröfu við slitameðferð bankans. Krafa um vexti, samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 28/2001, byggist á því að innstæða stefnanda hafi átt að bera almenna innlánsvexti, og færast yfir til stefnda, frá og með 9. október 2008, sbr. 5. tölulið í ákvörðun FME, frá 8. október 2008.

Krafa stefnanda hafi þegar verið samþykkt sem almenn krafa í slitabú LBI hf. Að mati stefnanda hafi krafan þá þó verið ranglega samþykkt af slitastjórn LBI hf., þar sem innstæða stefnanda hafi átt að færst yfir til stefnda, Landsbankans hf. Stefnandi muni því falla frá kröfunni í slitabú LBI hf., verði fallist á kröfu hans í þessu máli.

Vísist til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um efndir samninga, og til einstakra lagaákvæða og meginreglna sem vísað hafi verið til hér að framansögðu. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Dráttarvaxtakrafa stefnanda á hendur stefnda byggist á 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Um aðild vísist til 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en málskostnaðarkrafa byggist á 130. gr. sömu laga.

                Málsástæður og lagrök stefnda

                Af hálfu stefnda, er byggt á því að stefndi hafi ekki verið til lengst af þess tímabils sem málsatvikalýsing í stefnu taki til. Stefndi sé fjármálafyrirtæki sem stofnað hafi verið með ákvörðun FME, dags 7. október 2008, á grundvelli heimilda í lögum nr. 125/2008. Sé stofnun stefnda nánar lýst í framlögðum stofngögnum, sbr. enn fremur tilkynningu til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra, dags 7. október 2008.

Stefndi fallist ekki á málsatvikalýsingu stefnanda í stefnu, enda hafi stefndi ekki verið til á þeim tíma sem atvik máls þessa hafi átt sér stað. Setji stefndi fyrirvara við lýsingu stefnanda á málsatvikum, sem og á þeim lögskiptum sem stefnandi leggi til grundvallar að hafi átt sér stað á milli hans og LBI hf., kt. 540291-2259. Ljóst sé þó að umrædd lánsviðskipti hafi átt sér stað á milli tveggja lánastofnana.

Eins og málsgögn beri með sér virðist stefnandi hafa átt í lánaviðskiptum við LBI hf., á árunum 2006 til 2008. Í stefnu og í framlögðum tölvupóstum sé því haldið fram að á árinu 2008 hafi stefnandi átt innstæðu hjá nú LBI hf., að fjárhæð 12.751.554 bresk sterlingspund, 628.877 evrur og 3.081.179 Bandaríkjadalir. Hins vegar komi fram í svarbréfi FME, dags 30. mars 2010, að þessi skuldbinding hafi ekki verið skráð sem venjulegt innlán í kerfum LBI hf., þar sem allt fjármagnsstreymi til og frá stefnanda hafi verið bókað og greitt í gegnum Murex-kerfi. Færslur stefnanda, samkvæmt þeim gögnum er stefnandi sjálfur hafi lagt fram, hafi því ekki verið færðar inn á hlaupa- og sparireikninga hjá LBI hf., heldur bókaðar í gegnum Murex-kerfið og síðan á ákveðna bókhaldslykla, eins og raunin sé með hefðbundin peningamarkaðslán.

Með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., samþykktum á Alþingi 6. október 2008, og sem m.a. fólu í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, hafi FME meðal annars verið fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þann 7. október 2008 hafi FME tekið þá ákvörðun, á grundvelli 100. gr. a í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, að taka yfir vald hluthafafundar, nú LBI hf., og víkja félagsstjórn frá störfum. Hafi FME síðan skipað LBI hf. skilanefnd sem tekið hafi við öllum heimildum stjórnar félagsins, samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995, í samræmi við 100. gr. a, í lögum um fjármálafyrirtæki.

Með ákvörðun FME, dags 9. október 2008, hafi stefndi, nú Landsbankinn hf., verið stofnaður og til hans ráðstafað eignum og skuldum LBI hf., eins og nánar greini í ákvörðun FME, með síðari breytingum. Stefndi mótmæli þeirri meginmálsástæðu stefnanda, að kröfur hans á LBI hf. hafi flust yfir á stefnda, frá og með 9. október 2008, samkvæmt ákvörðun FME sama dag. Þá sé því mótmælt að skylda hafi hvílt á stefnda að yfirtaka umræddar skuldbindingar. Á fundi, dags 11. nóvember 2008, hafi stjórn FME, í kjölfar ábendinga, fjallað um hvaða áhrif ákvarðanir FME um ráðstöfun eigna og skulda LBI hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf., hefðu á peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum. Hafi stjórn FME ákveðið á þeim fundi að árétta að allar skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum væru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Kaupþings banka hf. og Landsbankans hf. Þessi árétting hafi verið tilkynnt skilanefnd LBI hf., með bréfi sama dag.

FME hafi ekki breytt þessari afstöðu sinni, og kröfur stefnanda gagnvart LBI hf., sem vísað sé til í stefnu og í framlögðum tölvupóstum, hafi aldrei verið fluttar yfir til stefnda. Það sé því ekki á færi stefnda að efna þær skuldbindingar LBI hf. gagnvart stefnanda sem lýst sé í þeim málsgögnum og séu grundvöllur máls þessa. Þessu til stuðnings vísi stefndi til þess að stefnandi hafi þegar lýst kröfunum á hendur LBI hf.,  og þær verið samþykktar sem almennar kröfur í þrotabú LBI hf.

Í 7. tölulið ákvörðunar FME, dags 9. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda á milli gamla og nýja Landsbankans, hafi verið kveðið á um að stefndi tæki yfir skuldbindingar vegna „innlána frá fjármálafyrirtækjum“ og í 8. tölulið að innlendar „innstæður“ í gamla bankanum, nú LBI hf., flyttust yfir til hins nýja banka. Efni og orðalag þessara töluliða skeri þó ekki úr um hvort fé í formi millibankalána, eins og þeirra er stefnandi hafi veitt LBI hf., skyldi flytjast yfir til stefnda. Hins vegar hafi í framlögðu bréfi FME til LBI hf., dags 11. nóvember 2008, verið fjallað um svokölluð peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum og þar áréttað með afdráttarlausum hætti að „skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar yfir til ... Nýja Landsbanka Íslands hf. ... með þeim ákvörðunum sem um ræðir“.

Er lagt sé mat á það er felist í framangreindum ákvörðunum FME, verði að líta til þess að lög nr. 125/2008 hafi verið sett við aðstæður í fjármála- og efnahagslífi þjóðarinnar sem eigi sér ekki hliðstæðu. Með setningu laganna hafi verið gerðar veigamiklar lagabreytingar og stjórnvöldum, einkum FME, veittar umfangsmiklar valdheimildir, sem ekki séu dæmi um að íslensku stjórnvaldi hafi áður verið fengnar. Markmiðið hafi einkum verið að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu með því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því og koma í veg fyrir að bankar lokuðu og greiðslukerfið yrði óvirkt, en með þeim víðtæku heimildum sem FME hafi verið veittar hafi átt að tryggja hagsmuni almennings og endurreisa fjármálalegan stöðugleika. Löggjafinn hafi haft ríkt svigrúm við mat á því hvaða leiðir skyldu farnar til að bregðast við þessu flókna og hættulega ástandi er hafi getað ógnað tilvist alls samfélagsins vegna keðjuverkandi áhrifa falls stærstu viðskiptabankanna er endað hafi getað með hruni efnahagslífs í landinu. Við þær aðstæður hafi löggjafanum borið, ekki aðeins réttur heldur, stjórnskipuleg skylda til að gæta velferðar almennings og fjárhagslegt uppgjör vegna falls bankanna fyrst og fremst hlotið að verða innbyrðis á milli þeirra, sem hafi átt beinna hagsmuna að gæta gagnvart þeim. Því verði að virða þessar ákvarðanir FME og leggja til grundvallar að í þeim hafi falist að nýju bankarnir, sem reistir hafi verið á grunni þeirra föllnu, hafi tekið yfir innstæðuskuldbindingar gömlu bankanna gagnvart almenningi og almennar innstæður fjármálafyrirtækja á hlaupa- og sparireikningum í kerfum bankanna, en ekki inneign sem hafi stafað af slíkri lánveitingu á millibankamarkaði sem um ræðir í þessu máli.

Að þessu virtu hafi það ekki þýðingu í málinu, hvort varsla fjármuna stefnanda hjá LBI hf. hafi verið innstæða í skilningi laga nr. 98/1999, en því sé haldið fram af stefnanda, að það leiði til þess að innstæðan hafi átt að færast yfir til stefnda. Mótmæli stefndi því engu að síður að svo sé. Krafa stefnanda á hendur LBI hf. falli undir þær skuldbindingar sem fjallað hafi verið um í bréfi FME, dags 11. nóvember 2008, og ekki hafi verið talin nauðsyn á að færa yfir til stefnda vegna þeirra sjónarmiða sem að framan greini. Sé þetta sérstaklega áréttað af hálfu FME í svarbréfi, dags 30. mars 2010, við fyrirspurnum af hálfu stefnanda, þar sem fram komi jafnframt að kröfur stefnanda á hendur LBI hf. hafi ekki verið fluttar yfir til stefnda.

Í niðurlagi ákvörðunar FME, dags 9. október 2008, hafi sá fyrirvari verið gerður, að hún væri tekin á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og gagna. Jafnframt hafi þar komið fram, að reyndist ákvörðunin byggð á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, eða aðrar forsendur hennar brygðust verulega, gæti FME gert hvers konar breytingar á henni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta. Það hafi samkvæmt 100. gr. a, í lögum nr. 161/2002, eins og ákvæðið hljóðaði á þeim tíma, verið á valdi FME að taka ákvarðanir eins og þær sem um ræði í málinu, svo bindandi yrði fyrir eldri bankana, þá yngri og viðsemjendur þeirra, svo og að breyta slíkum ákvörðunum. Hafi að mati stefnanda einhver vafi verið í upphafi um hvort umrædd krafa hans hafi færst yfir til hins nýja banka, eða átt að flytjast þangað, þá hafi þeim vafa í öllu falli verið eytt, ekki síðar en í bréfi FME, dags 11. nóvember 2008.

Sýknukrafa stefnda byggi aðallega á því að dómkröfu stefnanda sé ranglega beint að stefnda. Þær skuldbindingar sem dómkrafan byggi á hafi ekki verið fluttar frá LBI hf., til stefnda, samkvæmt ákvörðun FME um ráðstöfun á eignum og skuldum LBI hf., og sérstakri áréttingu stjórnar FME þar að lútandi, dags 11. nóvember 2008. Sé stefndi því ekki sá aðili sem beri þá skyldu við stefnanda sem sé grundvöllur máls þessa, og beri af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Af sömu ástæðum geti stefndi ekki orðið við áskorunum stefnanda um framlagningu gagna og eða upplýsinga um innstæðu stefnanda sem hafi orðið eftir í búi LBI hf. Það sé ekki á færi stefnda að afla slíkra upplýsinga þar sem hann búi eðli máls samkvæmt ekki yfir þeim. Þá sé vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt með vísan til ákvæða laga nr. 38/2001 og áskilinn allur réttur er varði þær. Krafa um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti úr hendi stefnanda. 

                Niðurstaða

Í málinu er ekki gerður ágreiningur um tilvist kröfu stefnanda, sem þegar hefur verið lýst í slitabú LBI hf., og hún þar verið samþykkt af slitastjórn LBI hf., við slitameðferð, með þeim hætti sem greinir í fyrirliggjandi bréfi frá slitastjórn LBI hf., til stefnanda, dags 19. nóvember 2010. Afmarkast ágreiningur málsaðila í þessu máli alfarið við það álitaefni, hvort ofanlýstum dómkröfum stefnanda, sé hér réttilega beint að stefnda, Landsbankanum hf., með hliðsjón af 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991.

Í málinu liggur óumdeilt fyrir að krafa stefnanda á rót sína að rekja til þess að stefnandi, sem var dótturfyrirtæki LBI hf., lagði fjármuni til móðurfélagsins á árunum 2006-2008, eins og lýst hefur verið að framansögðu, en þær skuldbindingar voru ekki bókfærðar hjá stefnda, Landsbankanum hf., í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins (FME) þann 9. október 2008, þar sem segir m.a. í 1. málslið 7. töluliðs: „Nýi Landsbanki Íslands hf. [þ.e. stefndi] yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Ísland hf. [þ.e. nú LBI hf.] á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum.“ Þá segir enn fremur í 8. tölulið sömu ákvörðunar, að „innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] flytjast yfir til nýja Landsbanka Íslands hf.“, [þ.e. stefnda], eins og því er þar nánar lýst.

Af hálfu stefnanda er greiðslukrafa hans á hendur stefnda einkum byggð á því að stefnandi hafi óumdeilt verið fjármálafyrirtæki, sem hafi átt umrætt innlán hjá LBI hf., þann 9. október 2008, þegar FME hafi gefið út ofangreinda ákvörðun, sem að mati stefnanda feli það í sér að skuldbindingar vegna innstæðunnar hafi átt að færast til stefnda. Þá byggir stefnandi á því, að hér hafi verið um að ræða innlán sem hafi verið innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, og að staðreynt sé að stefnandi hafi átt innlánsreikning hjá LBI hf., og hann notið almennra innlánsvaxta af umræddu innláni sínu hjá LBI hf.

Af hálfu stefnda er einkum byggt á því, að hann hafi enga aðkomu haft að lögskiptum stefnanda og LBI hf., né heldur að ákvörðunum FME um ráðstöfun þeirra fjármuna sem stefnandi hafi átt hjá LBI hf., vegna lánsviðskipta þeirra. Enn fremur byggir stefndi á því, að eins og lýst hafi verið í svarbréfi FME til stefnanda, dags 30. mars 2010, hafi umrædd skuldbinding ekki verið skráð sem venjulegt innlán í kerfum LBI hf., þar sem fjárstreymið hafi ekki runnið inn á hlaupa- og sparireikninga, heldur verið skráð í svonefnt Murex-kerfi, eins og tíðkist með peningamarkaðslán í millibankaviðskiptum. Þá vísar stefndi enn fremur til þess, að þann 11. nóvember 2008 hafi FME áréttað afdráttarlaust, að allar skuldbindingar vegna slíkra peningamarkaðslána/innlána frá fjármálafyrirtækjum yrðu ekki fluttar til stefnda, og því hafi það aldrei verið gert. Mótmælir stefndi því að umræddar kröfur stefnanda hafi flust yfir á stefnda, frá og með 9. október 2008, með ákvörðun FME sama dag, eða að skylda hafi hvílt á stefnda að taka yfir umræddar skuldbindingar í ljósi ákvarðana FME, og sé kröfum stefnanda því hér ranglega beint að stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991.

Fallist er á með stefnda, að það hafi hér ekki þýðingu við úrlausn, hvort krafa stefnanda sé innstæða, í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðu- tryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sbr. umfjöllun í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 169/2011, frá 17. janúar 2013, en þar er einnig fjallað um þær einstöku valdheimildir sem FME voru fengnar með lögum nr. 125/2008, í kjölfar falls íslensku bankanna það ár, og um tilurð stefnda, og um þýðingu ofangreindra ákvarðana FME, dags 9. október 2008, og 11. nóvember sama ár. Liggur fyrir að í ákvörðun FME, dags 9. október 2008, sem ekki er deilt um að hafi þýðingu í þessu máli, komi m.a. fram í niðurlagi, að ákvörðunin hafi byggt á þá fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum, og enn fremur, að ef hún reyndist byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða aðrar forsendur hennar brygðust verulega, gæti FME gert hvers konar breytingar á henni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta. Þá liggur fyrir að FME hefur síðar, í ljósi þessa, og með gildum hætti, útfært umrædda ákvörðun sínar frekar, m.a. í ákvörðun FME, dags 11. nóvember 2008, sem stefndi vísar til, og þar sem því er meðal annars lýst, að skuldbindingar vegna svonefndra peningamarkaðslána/innlána frá fjármálafyrirtækjum falli ekki undir þær skuldbindingar sem flytjast eigi til hinna nýju banka, á borð við stefnda. Verður að skilja dóm Hæstaréttar Íslands í ofangreindu máli, nr. 169/2011, frá 17. janúar 2013, svo, að framangreindar ákvarðanir FME beri að leggja þannig til grundvallar.

Í fyrirliggjandi svarbréfi FME til stefnanda, dags 30. mars 2010, er því meðal annars lýst, að við gerð stofnefnahags stefnda, „hafi verið miðað við að öll innlán í kerfum Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI] (innstæður á reikningum viðskiptamanna) fluttust til NBI hf. [þ.e. nú stefnda, Landsbankans hf.] óháð því hvaða viðskiptamaður átti í hlut. Ef einhver álitamál voru uppi varðandi aðgreiningu innlána og annarra krafna á hendur bankanum var litið til 1) eðli þeirra samninga sem um ræddi, 2) hvernig viðkomandi innstæður voru færðar í bækur bankanna og 3) m.t.t. þess hvort greitt hafði verið iðgjald í tryggingasjóð innstæðueigenda af peningamarkaðsinnlánum þegar innlánseigandinn var ekki fjármálastofnun. Var unnið eftir þessum viðmiðunum í öllum bönkunum enda mikilvægt að um samræmi væri að ræða við framkvæmd málsins. Nánari framkvæmd á yfirfærslu skuldbindinga var í höndum endurskoðenda- fyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið réð til verkefnisins auk skilanefnda sem sáu í upphafi um að framkvæmda ákvarðanir eftirlitsins. Allt var þetta gert undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Rétt er að taka fram að almennar innstæður fjármálafyrirtækja á hlaupa- og sparireikningum fluttust yfir til NBI hf. [þ.e. stefnda Landsbankans hf.] líkt og aðrar innstæður.“ 

Segir svo í ofangreindu bréfi FME vegna fyrirspurnar um innstæðu stefnanda:

„Hvað varðar umbjóðanda yðar hefur Fjármálaeftirlitið aflað upplýsinga um atvik málsins. Við þá athugun hefur komið í ljós að kröfur umbjóðanda yðar voru ekki flokkaðar sem innlán í kerfum Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] og voru því ekki fluttar yfir til NBI hf. [þ.e. stefnda, Landsbanka Íslands hf.] á sínum tíma. Ástæða þess var einkum sú að allt fjármagnsstreymi til og frá umbjóðanda yðar var bókað og greitt í gegnum svokallað Murex kerfi. Færslur umbjóðanda yðar voru því ekki færðar inn á hlaupa- og sparireikninga hjá Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] heldur bókaðar í gegnum Murex kerfið og síðan á ákveðna bókhaldslykla. Var því ekki um að ræða innlán í kerfum bankans. Samkvæmt skýringum frá starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. [þ.e. LBI hf.] voru kröfur dótturfélagsins færðar sem slíkar í bækur bankans.“

Sé tekið mið af framansögðu, þykir liggja nægilega ljóst fyrir, að innlán það sem stefnandi lagði inn til LBI hf., og sem hann krefur nú stefnda Landsbankann hf. um greiðslu á, var, samkvæmt ofangreindum skýringum frá FME, ekki flokkað sem skuldbinding sem flytja bar frá LBI hf., og til Landsbankans hf., sbr. fyrrgreindar ákvarðanir FME, dags 9. október og 11. nóvember 2008, og var það því aldrei gert. Þykir þegar af þeim ástæðum ljóst, að dómkröfu stefnanda verður við svo búið ekki að réttu lagi beint að stefnda, sem hafði enga aðkomu að þeim ákvörðunum er liggja hér til grundvallar, né heldur tók í reynd við fjármunum eða skuldbindingum er um ræðir.

Ber því, með hliðsjón af öllu ofangreindu, að fallast á sýknukröfu stefnda í málinu, sem byggir á aðildarskorti hans, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991.

Með hliðsjón af þessum úrslitum þykir rétt að stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Málið flutti Gunnar Jónsson hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd stefnanda, en Borgar Þór Einarsson hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd stefnda.

                Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndi, Landsbankinn hf., skal vera sýkn af dómkröfum stefnanda, Landsbankans í Guernsey Ltd., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.