Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 13. september 2006. |
|
Nr. 490/2006. |
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði(Lára Huld Guðjónsdóttir fulltrúi) gegn X (Jón Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 1. september 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 29. september 2006 kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 1. september 2006.
Lögreglustjórinn á Seyðisfirði hefur með beiðni dagsettri í dag krafist þess, með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að X, [kt.], litháískum ríkisborgara, til heimilis að [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 29. september 2006 kl. 15.00.
Í kröfu sýslumanns segir að um kl. 9.30 í gærmorgun, fimmtudaginn 31. ágúst 2006, er afgreiðsla farþegaferjunnar Norrænu hafi staðið yfir á Seyðisfirði, hafi komið til afgreiðslu á “grænt tollhlið” ofannefndur kærði á bifreið sinni af gerðinni Audi A4 525 með skráningarnúmerinu [...]. Við leit í bifreiðinni síðar um daginn hafi fundist 6.950 gr af hvítu dufti, vigtað með umbúðum, sem pakkað hafi verið í 26 pakka og þeir faldir víðs vegar í bifreiðinni, m.a. á bak við mælaborð, hvalbak, ofan á gírkassa og undir teppum í hófum, sem skorin hafi verið í einangrun bifreiðarinnar. Efnið hafi verið prófað með fíkniefnaprófum og það gefið jákvæða svörun sem amfetamín. Jafnframt segir að efnið verði sent síðar í dag til tæknideildar í Reykjavík til nákvæmari rannsóknar og mælingar.
Þá segir í kröfu lögreglustjóra að kærði hafi neitað því að hafa haft vitneskju um tilvist efnanna í bifreiðinni. Um sé að ræða eigin bifreið kærða, er hann hafi flutt með sér frá Íslandi 29. júní s.l. með Norrænu til Danmerkur og ekið síðan áfram til Litháen, þar sem kærði segist hafa dvalið allt þar til hann hafi komið til baka með Norrænu í gærmorgun. Kærði hafi borið um það að bifreiðin hafi ávallt verið í hans umsjá á meðan hann dvaldi í Litháen og enginn fengið hana að láni. Jafnframt hafi kærði borið að hann hefði ekki orðið þess var að eitthvað hefði verið átt við bifreiðina á meðan hann dvaldi í Litháen. Að mati lögreglu verði því að teljast afar ótrúverðug sú skýring kærða á tilvist fíkniefnanna í bifreiðinni, að einhverjum öðrum hafi e.t.v. reynst unnt að koma því mikla magni fíkniefna sem hér um ræðir fyrir víðs vegar í bifreiðinni, án þess að kærði hafi tekið eftir því eða verið kunnugt um það. Eins og fíkniefnunum hafi verið fyrir komið í bifreiðinni megi ætla að mikil vinna hafi farið í að koma fíkniefnunum fyrir og ganga þannig frá bifreiðinni aftur sem gert hafi verið og sú vinna hafi tekið talsverðan tíma. Að mati lögreglu verður því að telja mjög líklegt að kærði hljóti að hafa verið kunnugt um tilvist fíkniefnanna í bifreiðinni og að það hafi verið ætlun hans að flytja þau hingað til lands..
Krafist sé gæsluvarðhalds á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Um sé að ræða mikið magn af hættulegum fíkniefnum og rannsókn lögreglu á frumstigi. Afar ríkir rannsóknarhagsmunir séu í húfi og hætta á því að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi, svo sem með því að hafa áhrif á möguleg vitni eða samseka aðila.
Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands sé innflutningur á svo miklu magni af amfetamíni sem hér um ræði talinn varða við 173. gr. a., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Megi hér m.a. nefna dóm Hæstaréttar frá árinu 1997, bls. 337 þar sem innflutningur á 955 grömm af amfetamíni hafi verið heimfærður undir 173. gr. a almennra hegningarlaga. Af nýlegri dómum megi nefna dóm Hæstaréttar í máli nr. 16/2006, þar sem um hafi verið að ræða 3.986 gr. af metamfetamíni.
Niðurstaða:
Mikið magn hættulegra fíkniefna fannst í bifreið þeirri sem kærði kom á hingað til lands með farþegaferjunni Norrænu í gær. Bifreiðin er skráð eign kærða og samkvæmt gögnum málsins flutti hann bifreiðina með sér til Litháen í lok júní sl. Þar kveðst kærði hafa dvalist allt þar til hann kom til baka með Norrænu í gær. Jafnframt hefur kærði borið um það að bifreiðin hafi verið í hans vörslum á meðan hann dvaldi Litháen og enginn fengið hana að láni. Þá hafi hann ekki orðið var við að átt hefði verið við bifreiðina á meðan hann dvaldi í Litháen. Með hliðsjón af því að fíkniefnin, sem voru í 26 pakkningum, voru falin víðs vegar í bifreiðinni og komið þar fyrir með ærinni fyrirhöfn, þykir framburður kærða um að honum hafi ekki verið kunnugt um tilvist þeirra í bifreiðinni ótrúverðugur. Þykir því allt þykir þetta benda til þess að kærða hafi vitað eða hlotið að vera ljóst að umrædd fíkniefni voru falin í bifreiðinni. Með vísan til framangreinds þykir kærði vera undir rökstuddum grun um brot gegn fíkniefnalöggjöfinni.
Brot kærða getur varðað hann fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi. Hætta þykir á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna, t.d. með því að hafa áhrif á vitni eða samseka. Vegna rannsóknarhagsmuna þykir því rétt með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála að fallast á kröfu lögreglustjórans á Seyðisfirði um það að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 29. september 2006, kl. 15.00.
Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 29. september 2006 kl. 15.00.