Hæstiréttur íslands
Mál nr. 421/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2003. |
|
Nr. 421/2003. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X(Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. október 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. desember 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2003 var varnaraðila gert að sæta fangelsi í sex ár fyrir fíkniefnalagabrot, en frá refsivistinni skyldi dragast gæsluvarðhald hans frá 20. júní til 6. júlí 1998, frá 22. desember 1998 til 26. janúar 1999 og frá 14. febrúar 2002 til dómsuppsögu. Ákærði óskaði áfrýjunar dómsins með yfirlýsingu 23. júlí 2003 og var áfrýjunarstefna gefin út 14. ágúst sama árs. Verður málflutningur fyrir Hæstarétti 10. nóvember nk. Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili þýskur ríkisborgari. Fram er komið að hann fór af landi brott til Þýskalands áður en tókst að birta honum ákæru vegna hluta þeirra sakargifta, sem komu til úrlausnar í fyrrnefndum dómi. Reyndist fyrst unnt að fá hann framseldan hingað til lands eftir að hann hafði verið handtekinn í Hollandi á síðasta ári. Með vísan til þessa er fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 til áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir varnaraðila, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 14. júlí 2003 í máli nr. 270/2003. Þegar af þessum sökum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. október 2003.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með skírskotun til b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr., sbr. 106 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, nú gæslufanga á Litla-Hrauni, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan dómsmáli á hendur honum fyrir Hæstarétti er ólokið, þó ekki lengur en til föstudagsins 12. desember 2003 kl. 16:00.
X, sem er ákærður í hæstaréttarmáli nr. 333/2003, mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hrundið.
Ákærði bíður nú dóms í ofangreindu hæstaréttarmáli, en hann var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness 8. júlí 2003 fyrir stórfelld brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og dæmdur í 6 ára fangelsisvist. Hámarksrefsing fyrir brot á téðri lagagrein getur varðað fangelsi allt að 12 árum.
Ákærði óskaði áfrýjunar á nefndum héraðsdómi og er málið á dagskrá Hæstaréttar 10. nóvember nk. Þar verða til meðferðar fjórar ákærur á hendur honum, dagsettar 25., 26. og 27. janúar 2000 og 12. maí 2003. Ekki mun hafa tekist að birta fyrstu þrjár ákærurnar á árinu 2000 sökum þess að ákærði var farinn af landi brott. Hann mun síðan hafa dvalist í Þýskalandi fram til 14. febrúar 2002, en þann dag var hann handtekinn við komu til Hollands og hnepptur í gæsluvarðhald á grundvelli fyrirliggjandi framsalsbeiðni frá Íslandi. Áður höfðu þýsk dómsmálayfirvöld synjað um framsal ákærða, en hann er bæði þýskur og íslenskur ríkisborgari. Ákærði var síðan framseldur frá Hollandi til Íslands 3. janúar 2003 og hefur sætt hér gæsluvarðhaldi síðan.
Með hliðsjón af framansögðu er fallist á þær röksemdir ákæruvalds að hætt sé við því að ákærði muni reyna að komast úr landi áður en dómsniðurstaða fæst í Hæstarétti í máli hans og þannig verði eftir atvikum ekki unnt að fullnusta dæmda refsingu, svo sem í því tilviki að hann færi til Þýskalands. Komi til sakfellingar í Hæstarétti geta afbrot ákærða að lögum varðað allt að 12 ára fangelsi, en brot sem þessi þykja almennt þess eðlis að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að hinn brotlegi gangi ekki laus á meðan mál er til meðferðar fyrir dómstólum. Að þessu virtu þykir rétt að verða við framkominni gæsluvarðhaldskröfu, með vísan til b-liðar 1 mgr. og 2. mgr. 103 gr., sbr. 106 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til dómsmeðferðar í Hæstarétti, þó ekki lengur en til kl. 16:00 föstudaginn 12. desember 2003.