Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-30

Hagtak hf. (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
Íslenskum aðalverktökum hf. (Jóna Björk Helgadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Verktakasamningur
  • Samningsgerð
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 16. janúar 2020 leitar Hagtak hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. desember 2019 í málinu nr. 222/2019: Hagtak hf. gegn Íslenskum aðalverktökum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenskir aðalverktakar hf. leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur í fyrsta lagi að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að komist hafi á bindandi samningur milli hans og gagnaðila vegna hluta verkefnisins „Stækkun Búrfellsvirkjunar“ fyrir opnun tilboða í heildarverkið 28. janúar 2016. Í öðru lagi gerir leyfisbeiðandi þá kröfu að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnaðila gagnvart sér vegna kostnaðar og missis hagnaðar af því að gagnaðili hafi vanefnt samning aðila um hluta fyrrnefnds verks eftir opnun tilboða í það með því að semja við Ístak hf. í stað hans. Leyfisbeiðandi er félag sem starfar við dýpkunarframkvæmdir við hafnir og aðrennslisskurði. Gagnaðili er stórt verktakafyrirtæki sem gerði tilboð í verkefni hjá Landsvirkjun ohf. sem fól í sér stækkun Búrfellsvirkjunar. Ágreiningslaust er í málinu að þáverandi verkstjóri hjá gagnaðila hafði samband við framkvæmdastjóra leyfisbeiðanda vegna fyrrnefnds verkefnis og að leyfisbeiðandi hafi sent gagnaðila tilboðsverð í nokkra verkþætti þess. Í málinu er aðallega deilt um hvort framkvæmdastjóri leyfisbeiðanda hafi gert það að skilyrði í upphafi viðræðna aðila að ekki yrði gert tilboð af hálfu leyfisbeiðanda nema gagnaðilinn samþykkti fyrirfram að einungis yrði unnið með honum að umræddum verkþáttum og þá hvort gagnaðili hafi samþykkt það skilyrði. Þá er deilt um hvort almennir útboðs- og samningsskilmálar, staðalinn ÍST30, eigi við um samskipti aðila.

Með fyrrnefndum dómi staðfesti Landsréttur héraðsdóm með vísan til forsendna hans þar sem gagnaðili var sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í héraðsdómi var vísað til þess að ekki lægi fyrir fullnægjandi sönnun þess efnis að leyfisbeiðandi hefði sett fortakslaust skilyrði í samningaviðræðunum um framangreinda tilhögun. Einnig kom fram að þótt gagnaðili hefði haft frumkvæðið að því að kalla eftir tilboði frá leyfisbeiðanda teldist það ekki sönnun fyrir því að samningur hefði í kjölfarið komist á milli aðila. Þá var talið að ekki væri hægt að leggja til grundvallar að staðallinn ÍST 30 ætti við um lögskipti þeirra þar sem meðal annars hefði komið fram í skilmálum Landsvirkjunar ohf. vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar að um útboðið gilti staðallinn FIDIC.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu í verktakarétti og þá sérstaklega varðandi sambandið milli aðal- og undirverktaka. Vísar hann til þess að á fjölmörg atriði reyni í málinu um það samband. Meðal annars reyni á hvenær munnlegt tilboð telst samþykkt og bindandi fyrir samningsaðila. Þá sé mikilvægt að fá úr því skorið hvaða gildi FIDIC skilmálar hafi að íslenskum rétti. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga hagsmuni sína enda hafi hann orðið af hagnaði um og yfir 50 milljón krónum. Telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng.

 Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni, sbr. 4. málsliður sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.