Hæstiréttur íslands

Mál nr. 412/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. ágúst 2007.

Nr. 412/2007.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. ágúst 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 28. september 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með dómi Hæstaréttar 26. júní 2007 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 3. ágúst sama árs á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Frá þeim tíma hafa engin gögn komið fram sem verulega þýðingu hafa við rannsókn málsins, en varnaraðili hafði þá þegar viðurkennt þá háttsemi sem honum var gefin að sök og var málið talið upplýst. Eigi að síður var ákæra ekki gefin út á hendur honum fyrr en 25. júlí 2007, en sérstaklega rík skylda er til að hraða málsmeðferð þegar grunaður maður sætir gæsluvarðhaldi. Fallist er á með héraðsdómara að varnaraðili skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi, sem verður að teknu tilliti til framanritaðs markaður sá tími sem í dómsorði greinir, en telja verður að unnt sé að leggja dóm á málið innan þess tíma.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 12. september 2007 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. ágúst 2007.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 28. september nk. kl. 16:00.

                Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru dagsettri 25. júlí 2007 hafi ríkissaksóknari höfðað opinbert mál á hendur ákærða fyrir rán, þjófnað og umferðarlagabrot. Séu brot ákærða talin varða við 252. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 244. gr. sömu laga og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Mál ákærða bíði úthlutunar í Héraðsdómi Reykjaness.

                Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 26. júní sl. á grundvelli almannahagsmuna sbr. 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

                Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis, en tilgreind brot ákærða geti varðað allt að 10 ára fangelsi, þyki nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar fyrir héraðsdómi sbr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ríkissaksóknari vísar að öðru leyti til dóms Hæstaréttar nr. 333/2007 um gæsluvarðahald ákærða.

                Hinn 25. júlí sl. höfðaði ríkissaksóknari mál á hendur ákærða og er honum gefin að sök tilraun til vopnaðs ráns en það brot getur að lögum varðað 10 ára fangelsi. Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og er krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

             Ákærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 28. september nk. kl. 16.00.