Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/2009


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sjúkrakostnaður
  • Örorka


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. október 2009.

Nr. 35/2009.

Hulda Margrét Baldursdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og

Ómari Hekim Sunal

(Kristín Edwald hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Sjúkrakostnaður. Örorka.

H krafði S hf. og Ó um bætur vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir 20. desember 2003. Deildu aðilar í málinu um uppgjör bótanna. Talið var að S hf. og Ó hefðu nú þegar bætt H að fullu þann varanlega miska sem henni hafði verið metinn vegna slyssins. Þá var ekki fallist á það með H að uppreikna ætti lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miðað við launavísitölu, þar sem ótvírætt væri samkvæmt 15. gr. laganna að bætur skyldu hækka samkvæmt lánskjaravísitölu. Þá var þess jafnframt hafnað að dæma H bætur fyrir varanlega örorku miðað við hvort tveggja fullt starf á almennum vinnumarkaði og heimilisstörf. H hafði nú þegar fengið greiddar þær þjáningabætur sem hún krafði S hf. og Ó um og ekki gert fyrirvara vegna þessa þáttar uppgjörsins og var kröfu hennar um greiðslu frekari þjáningabóta því hafnað. Þá var talið að H hefði fengið sjúkrakostnað og annað fjártjón sitt bætt að fullu fyrir utan aksturskostnað að fjárhæð 65.637 krónur og var S hf. og Ó gert að greiða H þá fjárhæð. Í málinu gerði H jafnframt kröfu um bætur vegna framtíðar sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. Var þeirri kröfu skipt í tvennt, annars vegar kröfu um bætur vegna sjúkraþjálfunar, vitjana til heimilislæknis, taugalæknis og lyfjakostnaðar í framtíðinni og hins vegar metnu vinnutekjutapi hennar vegna dvalar við endurhæfingu í sex vikur á ári. Hvað varðaði fyrri kostnaðarliðinn var talið að þrátt fyrir að í útreikningi matsmanna væri ekki tekið tillit til hagræðis við eingreiðslu og óvissuþátta sem þessu tengdust þóttu gögn málsins nægileg til þess að unnt væri að dæma bætur vegna þessa að álitum og voru S hf. og Ó því dæmd til að greiða henni 150.000 krónur vegna þessa liðar. Hvað varðaði seinni kröfuliðinn sem laut að metnu vinnutekjutapi hennar vegna dvalar við endurhæfingu var talið að þar sem H hefði verið metin 35% varanleg örorka vegna líkamstjóns þess sem hún hlaut í slysinu, hefði hún fengið tjón vegna fjarvista frá vinnu bætt. Voru S hf. og Ó samkvæmt þessu dæmd til að greiða H samtals 215.637 krónur. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2009. Hún krefst þess nú  aðallega að gagnáfrýjendur verði dæmd til að greiða henni óskipt 13.694.441 krónu með 4,5% ársvöxtum af 1.394.100 krónum frá 20. desember 2003 til 20. mars 2004,  af 13.694.441 krónu frá þeim degi til 13. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.784.873 krónum 19. desember 2005 og 6.771.030 krónum 30. október 2007. Til vara krefst hún staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 31. mars 2009. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

I

Fyrir Hæstarétti greinir aðaláfrýjandi kröfu sína í fimm hluta. Í fyrsta lagi krefst hún miskabóta að fjárhæð 1.331.700 krónur. Í öðru lagi krefst hún bóta fyrir varanlega örorku, en sá kröfuliður er tvíþættur, annars vegar 5.902.500 krónur vegna tekjutaps sem hún verði fyrir vegna skerðingar á getu til vinnu utan heimilis, en hins vegar 4.216.000 krónur vegna tjóns sem hún telur sig verða fyrir vegna skerðingar á getu til að sinna heimilisstörfum. Í þriðja lagi krefst hún þjáningabóta að fjárhæð 62.400 krónur. Í fjórða lagi krefst hún bóta vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, sem hún telur að þegar sé orðið, 1.771.222 krónur og í fimmta lagi bóta fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón til framtíðar, 410.619 krónur.

II

Fallist er á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um að aðaláfrýjandi hafi að fullu fengið bættan þann varanlega miska sem henni var metinn vegna slyssins 20. desember 2003.

Krafa áfrýjanda um bætur vegna varanlegrar skerðingar á getu til að afla vinnutekna var metin 35% í yfirmati 1. október 2007. Gagnáfrýjendur greiddu í sama mánuði 4.216.621 krónu í bætur vegna þessa þáttar samkvæmt 5. - 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Miðaði greiðsla gagnáfrýjenda við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna eftir að þau höfðu verið hækkuð til samræmis við lánskjaravísitölu, sbr. 1. mgr. 15. gr. sömu laga. Aðaláfrýjandi miðar kröfuna við að lágmarksfjárhæðin eigi fremur að hækka til samræmis við hækkun launavísitölu, eins og laun geri almennt, ella sé um að ræða brot gagnvart henni á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á niðurstöðu hans um sýknu gagnáfrýjenda af þessum þætti kröfunnar.

Krafa aðaláfrýjanda um bætur vegna varanlegrar skerðingar á getu til að vinna heimilisstörf, sem metin var 25% í yfirmatsgerð, er gerð til viðbótar kröfu um bætur fyrir varanlega örorku. Ekki verður viðurkenndur réttur hennar til bóta fyrir varanlega örorku miðað við hvort tveggja fullt starf á almennum vinnumarkaði og heimilisstörf. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu af þessum þætti kröfunnar.

Þá gerir aðaláfrýjandi kröfu um þjáningabætur, 62.400 krónur. Þessa fjárhæð fékk hún greidda í desember 2005. Gerði hún þá ekki fyrirvara vegna þessa þáttar. Verða gagnáfrýjendur þegar af þessari ástæðu sýknaðir af kröfunni.

III

Þá gerir aðaláfrýjandi kröfu um 1.771.222 krónur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, sem þegar er til fallið. Kröfuliður þessi er reistur á fyrri hluta matsgerðar endurhæfingarlæknis og tryggingastærðfræðings 6. júní 2008. Voru þau dómkvödd að ósk áfrýjanda til að meta eftirfarandi: ,,Hver er sjúkrakostnaður og annað fjártjón matsbeiðanda fram að stöðugleikamarki, vegna afleiðinga slyssins. Hver hefur sjúkrakostnaður hans og annað fjártjón verið til dagsins í dag, vegna afleiðinga slyssins.“

Matsmenn svara þessari spurningu með því að telja saman ýmsan kostnað samkvæmt reikningum sem fram eru lagðir í málinu samtals 1.705.585 krónur. Til viðbótar meta þeir aksturskostnað 65.637 krónur, sem aðaláfrýjandi hafi orðið fyrir fram til ársloka 2007 vegna ferða til lækna, sjúkraþjálfara, sjúkrahúsa og á matsfundi, allt vegna afleiðinga slyssins. Miða matsmenn útreikning sinn á aksturskostnaði við auglýsingu nr. 4/2007 um akstursgjöld ríkisstarfsmanna. Í héraðsdómi er tekið fram, að þessi þáttur matsins hafi ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu gagnáfrýjenda. Af gögnum málsins verður ekki séð að slík andmæli hafi komið fram. Er fallist niðurstöðu héraðsdóms um að gagnáfrýjendum beri samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að bæta aðaláfrýjanda þennan aksturskostnað. 

Gagnáfrýjendur hafna því að aðaláfrýjandi eigi ógreidda kröfu á hendur sér vegna framangreindra 1.705.585 króna. Þeir hafi samkvæmt gögnum málsins greitt 1.370.463 krónur í sjúkrakostnað og annað fjártjón þar af 45.000 krónur 19. desember 2005 vegna annars fjártjóns og hafi sú greiðsla verið innt af hendi, án þess að aðaláfrýjandi hafi lagt fram reikninga henni til stuðnings. Þeir kröfuliðir, sem ekki hafi verið greiddir og séu hluti af þeirri fjárhæð, er síðast greinir, séu reikningur 7. mars 2007 vegna myndatöku á Landspítala háskólasjúkrahúsi 10.680 krónur, reikningur 17. ágúst 2007 vegna lækniskostnaðar 20.500 krónur, reikningur 12. september 2007 vegna endurrita skattframtala 2.350 krónur og reikningur Heilsugæslunnar Sólvangs 2. október 2007, 700 krónur.

Gagnáfrýjendur halda því fram að þar sem samalögð fjárhæð þessara kröfuliða, 34.230 krónur, sé lægri en sú greiðsla, 45.000 krónur, sem innt var hendi, og getið er að framan, hafi aðaláfrýjandi þegar fengið greiðslur sem nemur framangreindum reikningum. Fallist er á með gagnáfrýjendum að tjón aðaláfrýjanda vegna þessara kröfuliða sé að fullu bætt. Þá telur aðaláfrýjandi að ógreiddir séu tveir reikningar vegna læknisþjónustu, sem matsmenn töldu með í þessum þætti matsgerðarinnar, samtals að fjárhæð 11.030 krónur. Samkvæmt reikningunum sjálfum, sem eru meðal gagna málsins, er hér um að ræða hluta sjúkratrygginga í viðkomandi lækniskostnaði, en gagnáfrýjendur hafa greitt hluta sjúklings samkvæmt þessum reikningum. Á þessi krafa því ekki rétt á sér.

Þá hafna gagnáfrýjendur því að þeim beri skylda til að greiða matskostnað undirmatsmanna, 404.100 krónur, enda hafi mat þetta ekki gagnast aðaláfrýjanda og hann óskað yfirmats í kjölfar undirmatsgerðarinnar. Í gögnum málsins kemur fram að kröfuliður þessi var hluti af málskostnaðarkröfu aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi, en þar naut hún gjafsóknar. Í héraðsdómi er mælt fyrir um að allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, en auk málflutningsþóknunar lögmanns hennar sé um að ræða útlagðan kostnað vegna tveggja matsgerða samtals að fjárhæð 897.100 krónur. Fyrir Hæstarétti voru aðilar sammála um að hluti af þessari fjárhæð væri matskostnaður sá er hér um ræðir. Eins og kröfugerð aðila er háttað kemur málskostnaðarákvörðun héraðsdóms og ákvörðun um gjafsóknarkostnað ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hafnað kröfu aðaláfrýjanda um að hún eigi rétt til frekari greiðslu samkvæmt þessum þætti matsgerðarinnar en gagnáfrýjendur hafa þegar innt af hendi.

IV

Krafa aðaláfrýjanda um sjúkrakostnað og annað fjártjón til framtíðar 410.619 krónur er reist á síðari hluta matsgerðar 6. júní 2008. Þar var óskað mats á: ,,Hver verður framtíðar sjúkrakostnaður matsbeiðanda frá ársbyrjun 2008 til 67 ára aldurs matsbeiðanda, vegna afleiðinga slyssins, þann 20. des. 2003.“  

Kröfuliður þessi er tvíþættur. Annars vegar er krafist 219.484 króna, sem er metin kostnaðarhlutdeild aðaláfrýjanda í sjúkraþjálfun, vitjunum til heimilislæknis, taugalæknis og lyfjakostnaði í framtíðinni. Kostnaður þessi er núvirtur miðað við stöðugleikatímamark 20. mars 2004 og er við þann útreikning miðað við 4.5% ársvexti og tilgreindar lífslíkur. Ekki hefur við þennan útreikning verið tekið tillit til þess hagræðis sem aðaláfrýjandi hefur af því að fá kostnað þennan greiddan í einu lagi fyrirfram. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni greiða sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst. Kostnaður þessi er ekki bundinn við að hann falli til fyrir stöðugleikatímamark, þótt málum oftast svo háttað. Aðaláfrýjandi hefur sannað með læknisfræðilegum gögnum að henni sé nauðsynlegt að stunda endurhæfingu til þess að heilsufar hennar versni ekki. Hún hefur lagt fram matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, þar sem metin er endurhæfingarþörf hennar, þörf fyrir læknisaðstoð og lyf og hlutdeild hennar í kostnaði við þetta metin til núvirðis. Í mati á varanlegum afleiðingum líkamstjóns þess, sem aðaláfrýjandi hlaut, er miðað við 35% varanlega örorku. Verður að skilja matsgerðina svo, að þörf hennar fyrir endurhæfingu, læknisaðstoð og lyf í framtíðinni miðist við að hún geti með því móti haldið 65% atvinnuþátttöku. Einnig verður að taka tillit til þess, að með því að bæta 20 stiga varanlegan miska hennar vegna slyssins, hefur hún að því marki meðal annars fengið bætur vegna varanlegra þjáninga og óþæginda, sem af slysinu leiða í framtíðinni. Þótt ekki sé í útreikningi matsmanna tekið tillit til hagræðis af eingreiðslu og óvissuþátta, sem þessu tengjast, þykja gögn málsins nægileg til að unnt sé að dæma bætur vegna þessa kröfuliðar að álitum. Verða gagnáfrýjendur dæmdir til að greiða henni 150.000 krónur í bætur vegna þessa liðar.

Hins vegar er krafa aðaláfrýjanda um annað fjártjón í framtíðinni reist á metnu vinnutekjutapi vegna dvalar við endurhæfingu í sex vikur á ári, 191.135 krónur miðað við uppfærð lágmarkslaun reiknað til núvirðis 20. mars 2004. Aðaláfrýjanda var metin 35% varanleg örorka vegna líkamstjóns þess sem hún hlaut í slysinu 20. desember 2003. Hún hefur fengið það tjón sitt bætt en í því felst að henni eru að framangreindu marki bættar fjarvistir frá vinnu sem hún verður fyrir. Verður þessum kröfulið því hafnað.

Samkvæmt framansögðu verða gagnáfrýjendur dæmdir óskipt til að greiða aðaláfrýjanda 215.637 krónur (150.000 + 65.637) með vöxtum eins og greinir í dómsorði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Það athugast að dráttarvextir eru tilgreindir á ófullnægjandi hátt í dómsorði héraðsdóms.

Dómsorð:

Gagnáfrýjendur Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Ómar Hekim Sunal greiði óskipt aðaláfrýjanda, Huldu Margréti Baldursdóttur, 215.637 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2008 til greiðsludags.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er óraskað.

Gagnáfrýjendur greiði óskipt aðaláfrýjanda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008.

                Mál þetta, sem var dómtekið 20. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Huldu Baldursdóttur, Kirkjuvöllum 3, Hafnarfirði, á hendur Sjóvá Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík og Ómari Hekim Sunal, Skógarhæð 8, Garðabæ,  með stefnu birtri  19. nóvember 2007.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða 17.256.606 krónur með 4,5 % ársvöxtum af 1.394.100 krónum frá 20. desember 2003 til 20. mars 2004, en af 17.256.606 kr. frá þeim degi til 13. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 2.784.873 krónum hinn 19. desember 2005, 5.810.345 krónum hinn 30. október 2007 og 960.685 hinn 5. nóvember 2007.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 13.694.441 krónur með sama vaxtafæti og í aðalkröfu að frádregnum sömu innágreiðslum. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndu krefjast þess aðallega að vera sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað.              

                Stefndu gera þá kröfu til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Málavextir.

                Hinn 20. desember 2003 lenti stefnandi í umferðarslysi þegar bifreiðinni AL-760 var ekið aftan á bifreið hennar. Ökumaður bifreiðarinnar AL-760 var stefndi, Ómar, og var bifreiðin tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Sjóvá.

                Hinn 4. nóvember 2005 skiluðu læknarnir Guðmundur Björnsson og Gísli Ólafsson matsgerð vegna tímabundinna og varanlegra afleiðinga slyssins. Matsmenn mátu tímabil tímabundins atvinnutjóns vera einn mánuð, þjáningatímabil vera tvo mánuði, varanlegan miska 10% og varanlega örorku 10%. Matsmenn töldu að stefnandi hefði ekki mátt vænta frekari bata eftir 20. júní 2004.

                Hinn 19. desember 2005 fékk stefnandi greiddar skaðabætur á grundvelli matsins að fjárhæð 2.588.072 kr. sem sundurliðuðust með eftirfarandi hætti:

 

Þjáningabætur

kr. 62.400,-

Bætur vegna varanl. miska                            

kr. 596.850,-

Bætur v/ varanl. örorku

kr. 1.707.580,-

Annað fjártjón

kr. 45.000.-

Vextir

kr. 176.242,-

Samtals                                                             

kr. 2.588.072,-

 

                Auk þess fékk stefnandi greiddar vegna lögmannsþóknunar 196.801 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Nam greiðsla stefnda, Sjóvár, til stefnanda því samtals 2.784.873 kr. Stefnandi tók við bótum með fyrirvara um mat á miska og varanlegri örorku.

                Hinn 12. apríl 2007 skiluðu Birgir G. Magnússon hdl. og Grétar Guðmundsson læknir nýju mati, sbr. matsbeiðni frá október 2006. Samkvæmt matsgerðinni var tímabil tímabundins atvinnutjóns einn mánuður, þjáningatímabil var einnig einn mánuður, varanlegur miski 20% og varanleg örorka 20%. Stöðugleikapunkt stefnanda töldu matsmenn vera 20. júní 2004.

                Hinn 13. júní 2007 sendi stefnandi kröfubréf þar sem settar voru fram kröfur í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar en tekið fram að beðið yrði um yfirmat. Ekkert uppgjör fór fram á grundvelli þeirrar matsgerðar.

                Hinn 15. júní 2007 voru dómkvaddir yfirmatsmennirnir Páll Sigurðsson, lögfræðingur, Áslaug Björgvinsdóttir, lögfræðingur, og Torfi Magnússon, læknir, til þess að endurmeta tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins. Samkvæmt niðurstöðum yfirmatsgerðar, dags. 1. október 2007, var stöðugleikapunktur stefnanda talinn vera 20. mars 2004, tímabil tímabundins atvinnutjóns var metið ekkert, þjáningatímabil sjö dagar án rúmlegu, varanlegur miski 20% og varanleg örorka 35% til starfa á almennum markaði en 25% til heimilisstarfa.

                Í kjölfar niðurstöðu yfirmatsgerðar sendi stefnandi stefnda, Sjóvá, kröfubréf þar sem krafist var bóta með hliðsjón af niðurstöðum yfirmatsgerðarinnar. Stefnandi  krafðist bóta að fjárhæð 16.720.423 kr. að frádreginni innborgun stefnda, Sjóvár, hinn 19. desember 2005 að fjárhæð 2.784.873 kr. Með tölvubréfi stefnda, Sjóvár, til lögmanns stefnanda, dags. 18. október 2007, var fallist á greiðslu bóta samkvæmt niðurstöðu yfirmatsgerðar en þó ekki samkvæmt kröfubréfi stefnanda og lá uppgjörstillaga stefnda, Sjóvár, að fullnaðaruppgjöri fyrir sama dag. Námu skaðabætur til stefnanda samkvæmt tillögunni samtals fjárhæð 5.810.345 kr. að teknu tilliti til greiðslunnar hinn 19. desember 2005. Þá féllst stefndi, Sjóvá, á að greiða samtals 251.022 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti í lögmannsþóknun auk 910.413 kr. vegna útlagðs lækniskostnaðar og kostnaðar vegna gagnaöflunar. Samtals nam bótagreiðsla stefnda, Sjóvár, til stefnanda hinn 30. október 2007 því 6.720.758 kr. sem sundurliðaðist með eftirfarandi hætti:

 

Bætur v/ varanl. miska                                   

kr.  665.850,-

Bætur v/ varanl. örorku

kr. 4.216.621,-

Vextir

kr. 841.437,-

Útlagður lækniskostn.

kr.  86.437,-

Útlagður kostn. v/ vottorða

kr. 910.413,-

 

Samtals                                                             

kr. 6.720.758,-

 

               

                Til viðbótar greiddi stefndi, Sjóvá, 251.022 kr. vegna lögmannskostnaðar að meðtöldum virðisaukaskatti og greiddi stefndi því samtals 6.971.780 kr. Lögmaður stefnanda tók við greiðslunni með fyrirvara en stefndu telja að um fullnaðaruppgjör sé ræða. Stefnandi höfðar mál þetta síðan í nóvember 2007 þar sem hún telur sig ekki hafa fengið fullnaðarbætur.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir kröfu sína á 88. gr. umferðarlaga og 3. mgr. 90. gr. sömu laga, samanber 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. sömu laga, samanber og 97. gr. Einnig byggir stefnandi kröfur sínar á reglugerð nr. 392/2003. Stefnandi rökstyður fjárhæð aðalkröfu sinnar tölulega með neðangreindum hætti:

 

a.   Töluleg útlistun aðalkröfu.

1.   Miskabætur:  4.000.000x5463/3282=6.658.500x20%

kr.1.331.700

2.   Bætur f. varanlega örorku.

      2.239.500x10.181x35%, utan heimilis                                           

      2.239.500x10.181x25% v. heimilisstarfa

 

kr.7.980.122 kr.5.700.000

3.   Þjáningabætur

kr. 62.400

4.   Annað fjártjón og sjúkrakostnaður

kr.1.771.222

5.   Framtíðar sjúkrakostnaður og annað fjártjón

kr. 410.619

      Samtals aðalkrafa:

kr. 17.256.606

 

 

1.                    Stefnandi kveður miskabætur vera byggðar á 4. gr. skbl. Stuðst er við sama miskahöfuðstól og hið stefnda tryggingafélag miðar greiðslu sína á viðbótarmiska við.  Byggir stefnandi á að þessi útreikningur sé í samræmi við 2. mgr. 15. greinar skbl. og niðurstöðu yfirmatsins frá 1. október 2007. Byggir stefnandi á að heildarmiskann, 20%, beri að reikna frá ofangreindum miskahöfuðstól, en ekki aðeins 10% hans, eins og hið stefnda tryggingafélag miðar við. Samtals greiðir hið stefnda félag í miskabætur 596.850 krónur + 665.850 eða 1.262.700, í stað 1.331.700, en mismunurinn er 69.000 krónur.  Stefnandi bendir á að hinn 16. desember 2005 og 18. október 2007 var tekið við miskabótum með fyrirvara.

2.                    Bætur fyrir varanlega örorku eru byggðar á yfirmatinu og lágmarkslaunum skv. 3. mgr. 7. gr. skbl. Eru lágmarkslaun hækkuð skv. launavísitölu, þannig eru lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skbl. 1.200.000 kr. margfölduð launavísitölu í mars 2004, 5356, og deilt með launavísitölu í júlí 1993, 2870, sem gerir 2.239.500 kr.  Byggt er á stuðli 6. gr. skaðabótalaga, miðað við aldur stefnanda á stöðugleikapunkti, 10.181, eins og hið stefnda félag gerir í uppgjöri sínu 18. október 2007.  Byggir stefnandi á að það brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár að hækka laun þeirra sem falla undir 1. mgr. 7. gr., og fá laun sín hækkuð samkvæmt launavísitölu, þegar þeir, sem vegna aðstæðna eru ekki með tekjureynslu, vegna fullrar atvinnuþátttöku þrjú ár fyrir slys, eins og stefnandi var, eru metnir samkvæmt lánskjaravísitölu sem er töluvert lægri mælikvarði, eins og samanburður aðalkröfu og varakröfu sýnir. Byggir stefnandi á að með þeim hætti sé tjónþolum skipt í tvær fylkingar, þar sem önnur fylkingin, sem stefnandi tilheyrir, fá tjón sitt bætt með öðrum og lakari hætti en sú fylking sem fellur undir 1. mgr. 7. gr. Bætur fyrir heimilisstörf byggir stefnandi á, að hefði slysið ekki orðið, hefði hún bæði unnið úti og hugsað um heimilið, en hún eigi 4 börn á ungum aldri. Það sé þekkt í íslensku þjóðfélagi, að þannig hagi til, en vinna á heimili með 4 börn sé nánast full vinna. Þá vinni konur hér á landi sem eru útivinnandi við þannig aðstæður og vitanlega eigi að miða bæturnar við það. Til vara byggir stefnandi á að taka verði tillit til skerðingar á vinnu við heimilisstörf að einhverju leyti, þegar má1 þetta verður tekið til úrlausnar, til viðbótar við bætur vegna vinnu utan heimilis, verði þessi bótaþáttur ekki viðurkenndur í heild sinni. Byggir stefnandi á, að samkvæmt 2. mgr. 1. gr.  skaðabótalaga jafngildi vinna á heimili, vinnu úti á hinum almenna vinnumarkaði og hafi það verið staðfest með nokkrum dómum Hæstaréttar Íslands. Vísar stefnandi til þeirra dómfordæma kröfu sinni til grundvallar.

3.                    Þjáningabætur eru þær sömu og í fyrra uppgjöri frá 19. desember 2005 eða 62.400.  Byggir stefnandi þessa kröfu sína á grunnreglu þeirri sem kemur fram í greinargerð með 11. gr. skaðabótalaga á þessa leið: „Hinn bótaskyldi á ekki rétt á að krefjast þess að máli sé tekið upp til nýrrar ákvörðunar.  Þess vegna er ekki heimilt að taka mál upp aftur að kröfu tjónvalds þótt síðar komi í ljós að heilsa tjónþola reynist betri en gert var ráð fyrir þegar máli var endanlega lokið.“

4.                    Annað fjártjón og sjúkrakostnaður.  Fyrir liggur matsgerð um sjúkrakostnað stefnanda, unnin af Vigfúsi Ásgeirssyni tryggingastærðfræðingi og Ólöfu H. Bjarnadóttur, endurhæfingar- og taugalækni, dags. 6. júní 2008.  Þar kemur fram að kostnaður stefnanda vegna læknisvottorða og annars kostnaðar vegna læknisskoðana og rannsókna, ásamt matskostnaði og lögmannskostnaði, sé samtals 1.705.585 krónur. Hluti þessa kostnaðar hefur verið greiddur af hinu stefnda félagi eða 767.800 kr. Eftir standi 709.810 kr. sem er lögmannskostnaður 251.023 kr.,  reikningar samtals að fjárhæð 5.136+5.894 kr., + 10.680 kr.  og vegna undirmatsgerðar  404.100 kr. Reikningar að fjárhæð 20.500 kr., 2.350 kr., 700 kr. og 9.427 kr.  Byggir stefnandi á að þessar eftirstöðvar falli undir 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, sem sjúkrakostnaður og annað fjártjón.  Einnig byggir stefnandi á, að mat hinna dómkvöddu matsmanna á aksturskostnaði hennar komi ofangreindum kostnaði til viðbótar, eða 65.637 kr.  Samtals er því ógreitt samkvæmt ofangreindum útreikningum fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað 709.810+65.637 eða 775.447 kr.

                Krafa stefnanda er hins vegar að fjárhæð 1.705.585 krónur + aksturskostnaður 65.637 krónur eða 1.771.222.  Frá er dregið í dómkröfum 960.685 krónur þann 5. nóvember 2007. Stefnandi telur misræmi í þessum útreikningum mv. greinargerð hins stefnda félags. Einnig, ef ekki er fallist á að um sé að ræða sjúkrakostnað og annað fjártjón, að færa þennan þátt kröfunnar undir málskostnað, allavega varðandi ógreiddan kostnað stefnanda vegna undirmatsins. 

5.                    Kröfu um framtíðar sjúkrakostnað og annað fjártjón byggir stefnandi á sömu matsgerðinni frá 6. júní 2008. Kostnaður þessi er miðaður við stöðugleikapunkt 219.484 kr., þ.e. læknis- og lyfjakostnað. Þá er framtíðartekjutjón vegna sjúkrahúslegu metið á 191.135 kr. miðað við stöðugleikapunkt. Samtals er krafan að fjárhæð 410.619 kr.  Stefnandi byggir þessa kröfu sín á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og 2. mgr. 264. gr. þágildandi almennra hegningalaga um röskun á stöðu og högum.

6.                    Ársvaxtakrafa er byggð á 16. gr. skaðabótalaga.  Dráttarvaxtakrafan er byggð á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Einnig er vísað til 9. gr. laganna og til kröfubréfs frá 13. júní 2007. 

7.                    Varðandi málskostnað stefnanda þá hefur hið stefnda félag greitt stefnanda 201.624 krónur í málskostnað, vegna þeirrar kröfu sem stefnandi gerir í þessu máli.  Stefnandi hefur talið þessa greiðslu of lága miðað við þá vinnu sem farið hefur í málið, með vísan til viðamikillar gagnaöflunar og tveggja matsbeiðna fyrir héraðsdómi, auk vinnu við matsmálið, sem báru vissulega árangur.  Þar að auki er til þess vísað að hið stefnda félag hefur greitt stefnanda vegna þessa máls 5.810.345 kr. í skaðabætur, auk útlagðs kostnaðar. Hefur hið stefnda félag einungis greitt málskostnað miðað við innheimtumál og tekið með í reikning sinn þann kostnað sem greiddur var í fyrra uppgjöri málsins. 

 

Töluleg útlistun varakröfu stefnanda:

1. Miskabætur: 6.658.500x20%

kr. 1.331.700

2. Bætur f. varanlega örorku

     1.656.500x10.181x35%, utan heimilis                            

      1.656.500x10.181x25%, v. heimilisstarfa

 

kr. 5.902.500

kr. 4.216.000

3. Þjáningabætur 

kr. 62.400

               4. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður

kr. 1.771.22

5. Framtíðar sjúkrakostnaður og annað fjártjón

kr. 410.619

   Samtals aðalkrafa             

kr. 13.694.441

                               

Varakrafa stefnanda er grundvölluð með sama hætti og aðalkrafa að því frátöldu að bætur fyrir varanlega örorku eru miðaðar við 1.656.500 kr. í árslaun.

                Kröfum sínum til grundvallar vísar stefnandi einnig til 48. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 30/2004 og til kröfubréfs stefnanda frá 4. október 2007. Og til skyldu vátryggingafélaga til jákvæðrar og efnislegrar afgreiðslu slíkra mála, sem þessa máls.

                Kröfu sína um dráttarvexti, frá 13. júlí 2007 af 6.116.647 kr., byggir stefnandi á að hinn 13. júní hafi stefnandi gert kröfu á grundvelli undirmatsins til hins stefnda félags, sem í engu hafi svarað bréfinu og haldið að sér höndum með greiðslur til stefnanda. Fyrir hafi legið mat dómkvaddra matsmanna sem hinu stefnda félagi hafi borið að líta á sem grundvöll greiðsluskyldu félagsins.

                Um lagarök er vísað til umferðarlaga og reglugerðar nr. 392/2003 og til meginreglna skaðabótaréttar um fullar bætur. Einnig skírskotar stefnandi til skaðabótalaga 1. gr. til og með 7. gr., sem og til 26. gr. Stefnandi vísar og til laga nr. 60/1994, 12. gr. og til 5. tl. 1. mgr. 21. gr., sem og til ákvæða laganna um aðild íslenskra tryggingafélaga að markmiðum þeim sem sett hafa verið með ökutækjatilskipunum EBE. Þá skírskotar stefnandi til lagaáskilnaðar-reglunnar (lögmætisreglunnar) og tilgangs- og lagasamræmisskýringa EBE-réttar og til fordæma Mannréttindadómstóla Evrópu í því sambandi. Einnig er vísað til ökutækjatilskipana EBE.

Málsástæður og lagarök stefndu

                Stefndu mótmæla öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi að öllu leyti fengið tjón sitt bætt og eigi því ekki rétt á frekari bótum úr hendi stefndu. Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar ber tjónþoli sönnunarbyrði fyrir tjóni sínu og umfangi þess. Stefnandi hefur ekki fært sönnur fyrir því að tjón hennar hafi verið annað og meira en hún hefur þegar fengið greitt fyrir.

                Stefnandi hefur samtals fengið greiddar 10.085.156 kr. í skaðabætur vegna slyssins að meðtöldum lögmannskostnaði að fjárhæð samtals 447.823 kr. Byggja stefndu á því að stefnandi geti ekki átt rétt á frekari bótum. Stefndu reisa kröfu sína á eftirfarandi atriðum:

                Í fyrsta lagi liggur fyrir að stefnandi varð ekki fyrir neinu tímabundnu atvinnutjóni, sbr. niðurstöður yfirmatsgerðarinnar. Krafa stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns er því úr lausu lofti gripin og ekki studd neinum gögnum. Þvert á móti meta yfirmatsmenn tímabundið atvinnutjón ekkert. Er kröfunni því alfarið mótmælt.

                Í öðru lagi liggur fyrir að stefnandi hefur þegar fengið greiddar bætur vegna þjáningatímabils síns, sem yfirmatsmenn mátu í sjö daga án rúmlegu. Hinn 19. desember 2005 fékk stefnandi greiddar þjáningabætur að fjárhæð 62.400 kr. vegna 60 daga þjáningatímabils samkvæmt matsgerð, dags. 4. nóvember 2005. Er því ljóst að stefnandi hefur fengið greiddar þjáningabætur að fullu, og meira til, og nemur ofgreiðslan 55.120 kr. sé miðað við lánskjaravísitölu þess tíma þegar uppgjör vegna bótanna fór fram. Kröfu stefnanda um greiðslu þjáningabóta vegna 30 daga tímabils samkvæmt niðurstöðu undirmats er því hafnað auk þess sem henni er almennt sérstaklega mótmælt. Eins og áður segir hefur stefnandi nú þegar fengið ofgreiddar þjáningabætur vegna 60 daga tímabils, auk þess sem ósannað er með öllu að þjáningatímabil stefnanda hafi verið lengra en sjö dagar.

                Í þriðja lagi hefur stefnandi fengið greiddar fullnaðarbætur vegna varanlegs miska. Yfirmatsmenn mátu miskastig stefnanda 20% og fékk stefnandi greiddar 665.850 kr. vegna 10% miska hinn 30. október 2007. Hinn 19. desember 2005 hafði stefnandi einnig fengið greiddar bætur vegna 10% varanlegs miska að fjárhæð 596.850 kr. Hafa henni því verið greiddar fullnaðarbætur að fjárhæð 1.262.700 kr. vegna 20% varanlegs miska. Öðrum kröfum stefnanda vegna varanlegs miska er því mótmælt.

                Í fjórða lagi mótmæla stefndu kröfu stefnanda um greiðslu bóta vegna varanlegrar örorku. Stefnandi hefur þegar fengið greiddar 5.924.201 kr. í bætur vegna varanlegrar örorku (1.707.580 kr. hinn 19. desember 2005 vegna 10% varanlegrar örorku og 4.216.621 kr. hinn 30. október 2007 vegna 25% varanlegrar örorku). Samtals hefur stefnandi því fengið greiddar bætur vegna 35% varanlegrar örorku í fullu samræmi við niðurstöðu yfirmatsgerðar.

                Stefndu mótmæla því alfarið að stefnandi eigi rétt á sérstökum bótum vegna 25% varanlegrar örorku til heimilisstarfa samhliða bótum vegna varanlegrar örorku til vinnu á almennum markaði. Engin lagaheimild er til þess að stefnandi eigi rétt á greiðslu bóta vegna heimilisstarfa samhliða bótum vegna tekjuskerðingar á almennum vinnumarkaði, jafnvel þótt geta stefnanda til heimilisstarfa skerðist samhliða skerðingu á almennri vinnugetu. Er stefnandi þannig í raun að krefjast tvöfaldra bóta vegna varanlegrar örorku. Stefndu benda á að hin metna 35% varanlega örorka til starfa á vinnumarkaði miðast við almenna 100% vinnugetu og vinnuframlag stefnanda og eru því engin rök til þess að dæma henni sérstakar bætur vegna skerðingar á getu til heimilisstarfa. Kröfu stefnanda er því alfarið mótmælt.

                Þá mótmæla stefndu harðlega útreikningi kröfu stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku í aðal- og varakröfu. Í fyrsta lagi mótmæla stefndu því að lágmarkslaunaviðmið samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli framreiknað með hliðsjón af launavísitölu, líkt og stefnandi gerir í aðalkröfu sinni. Engin lagaheimild er til þess heldur hafa skaðabótalögin þvert á móti að geyma skýlaus fyrirmæli þess efnis að launaviðmið samkvæmt 3. mgr. skuli taka breytingum með hliðsjón af breytingum á lánskjaravísitölu, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Er því útilokað að fallast á útreikning stefnanda í aðalkröfu hvað þetta varðar.

                Í fimmta lagi mótmæla stefndu kröfu stefnanda um bætur vegna framtíðarsjúkrakostnaðar. Krafa þessi er ekki studd neinum gögnum heldur byggist alfarið á huglægu og órökstuddu mati stefnanda sjálfs. Er því útilokað að taka hana til greina og ber að sýkna stefndu af henni.

                Í sjötta lagi mótmæla stefndu kröfu stefnanda um greiðslu bóta vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar. Stefndi, Sjóvá, hefur þegar greitt stefnanda bætur vegna alls sannanlegs fjártjóns sem rekja má til slyss stefnanda. Hinn 19. desember 2005 fékk stefnandi greiddar 45.000 kr. vegna annars fjártjóns, og hinn 30. október 2007 fékk stefnandi til viðbótar greiddar 996.850 kr. vegna útlagðs kostnaðar stefnanda og lögmanns hennar í tengslum við læknisaðstoð eða öflun læknisvottorða og yfirmatsgerðar. Þá fékk stefnandi einnig greiddar 328.503 kr. vegna útlagðs kostnaðar á tímabilinu 1. september 2004 til og með 22. nóvember 2005. Hefur stefnandi því samtals fengið greiddar 1.370.353 kr. vegna annars fjártjóns og útlagðs kostnaðar. Stefndi, Sjóvá, greiddi framangreindar 996.850 kr. og 328.503 kr. gegn framvísun frumrita reikninga frá stefnanda en öðrum reikningum hafði stefnandi ekki framvísað og þar með ekki sannað tjón sitt vegna. Annað fjártjón að fjárhæð 45.000 kr. greiddi stefndi, Sjóvá, hinn 19. desember 2005 án þess að reikningum væri framvísað og má því leiða líkur að því að stefndi, Sjóvá, hafi ofgreitt stefnanda vegna annars fjártjóns. Stefndu hafna því að þeim beri að greiða fyrir kostnað vegna öflunar undirmatsgerðar þar sem matsgerðarinnar var aflað af hálfu stefnanda án þess að á henni sé byggt í málinu. Þá er kröfu stefnanda um greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt reikningi að fjárhæð 249.000 kr. mótmælt enda útilokað að sjá á hverju sú krafa byggist. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda vegna þessa kröfuliðar.

            Í sjöunda og síðasta lagi benda stefndu á að stefnandi hefur fengið ofgreiddar þjáningabætur að fjárhæð 55.120 kr. sem krafist er að komi til frádráttar frá tildæmdum bótum ef ekki verður að öllu leyti fallist á sýknukröfu stefndu. Ef tildæmdar bætur nema sömu eða lægri fjárhæð og ofgreiðslan nemur, leiðir það einnig til sýknu á öllum kröfum stefnanda.

Ef ekki verður fallist á sýknukröfu stefndu er gerð varakrafa um að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Er varakrafa stefndu byggð á eftirfarandi atriðum:

                Í fyrsta lagi byggja stefndu á því að kröfu stefnanda beri að lækka með hliðsjón af sömu málsástæðum og aðalkrafa stefndu byggist á að breyttu breytanda. Hafa röksemdir þessu til stuðnings verið raktar hér að framan og vísast til þeirra.

                Í öðru lagi er dráttarvaxtakröfu stefnanda í aðal- og varakröfu mótmælt frá fyrra tímamarki en 4. desember 2007 þegar mánuður var liðinn frá því að yfirmatsgerð og kröfubréf stefnanda barst stefnda, Sjóvá. Stefndu mótmæla því að krafa stefnanda geti borið dráttarvexti frá því tímamarki sem stefnandi krefst þar sem fyrir lá yfirlýsing lögmanns stefnanda, dags. 13. júní 2007, um að stefnandi hygðist ekki ætla að una niðurstöðum undirmatsgerðar og því gæti endanlegt uppgjör ekki farið fram fyrr en yfirmatsgerð lægi fyrir. Þá er vaxtakröfu stefnanda í aðal- og varakröfu, eins og hún er sett fram í stefnu, jafnframt mótmælt þar sem bætur vegna varanlegrar örorku byrja ekki að bera vexti fyrr en við upphafsdag varanlegrar örorku, sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

                Í þriðja lagi er þess krafist að innborganir stefnda, Sjóvár, komi til frádráttar kröfum stefnanda frá því tímamarki sem þær voru inntar af hendi og taki þá vaxtaútreikningur mið af nýjum höfuðstól kröfunnar á innborgunardögum.

                Um lagarök vísa stefndu einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þá vísa stefndu til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstaða

                Ágreiningur málsins lýtur að tölulegu uppgjöri vegna slyss er stefnandi varð fyrir 20. desember 2003. Ekki er ágreiningur um læknisfræðilegar afleiðingar slyssins. Ágreiningur málsins nær til uppgjörs vegna fjögurra atriða, þ.e. vegna varanlegs miska, varanlegrar örorku, annars fjárhags tjóns og sjúkrakostnaðar og loks framtíðar-sjúkrakostnaðar.

                Í fyrsta lagi lýtur ágreiningurinn varðandi uppgjör á varanlegum miska að því, að stefnandi telur að vangreiddar séu 69.000 kr. Stefnandi fékk greiddar bætur vegna 10% varanlegs miska, eða 596.850 kr., hinn 19. desember 2005.  Samkvæmt matsgerð dags 12. apríl 2007 var varanlegi miskinn metinn 20% og stefnandi fékk greiddar 665.850 kr. hinn 18. október 2007. Samtals hefur því stefnandi fengið greiddar 1.262.700 kr. en krefst þess að fá 1.331.700 kr. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaganna skulu fjárhæðir bóta vegna varanlegs miska breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu.  Eins og að framan greinir fékk stefnandi greiddar bætur vegna 10% varanlegs miska í desember 2005. Hún getur ekki bæði sleppt og haldið, þ.e. móttekið bætur og síðan einnig haldið vísitölutryggingu á þeim. Í þessu tilviki er haldlaus sú málsástæða að stefnandi hafi móttekið bætur þessar með fyrirvara. Eru stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda í þessum þætti málsins.

                Í annan stað er ágreiningur um uppgjör vegna varanlegrar örorku stefnanda. Kröfur hennar í þessum lið eru tvíþættar. Annars vegar að lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna eigi að hækka miðað við launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Hins vegar eigi hún rétt til bóta vegna heimilisstarfa, en stefnanda var metin 35% varanleg örorka vegna starfa utan heimilis. Dómurinn hafnar báðum þessum atriðum. Ótvírætt er að bætur skuli samkvæmt skaðabótalögunum hækka samkvæmt lánskjaravísitölu sbr. 15. gr. laganna. Skortir því kröfu stefnanda um launavísitölu lagastoð.  Þá er ekki lagaheimild fyrir því að stefnandi eigi rétt á greiðslu bóta vegna heimilisstarfa samhliða bótum vegna tekjuskerðingar á almennum markaði. Því er skortir lagaheimild fyrir þessari kröfu stefnanda.

                Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að stefndu greiði henni annað fjártjón samtals að fjárhæð 1.771.222 kr. og vísar til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga svo og til matsgerðar dags. 6. júní 2008. Annars vegar er um að ræða niðurstöðu matsmanna sem telja sjúkrakostnað vera 1.705.585 kr. og hins vegar aksturskostnað að fjárhæð 65.637 kr.  Stefnandi viðurkennir að hluti þessa kostnaðar sé þegar greiddur og telur að eftir standi ógreiddar 709.810 kr. (af 1.705.585 kr.) og 65.637 kr. vegna aksturskostnaðar eða samtals 775.447. Stefndu halda því fram að framlagðar uppgjörskvittanir frá tryggingafélaginu sýni að félagið hafi vegna annars fjártjóns greitt 45.000 kr. hinn 19. desember 2005, 996.960  kr. hinn 30. október 2007 og 328.503 kr., þ.e. vegna útlagðs kostnaðar á tímabilinu 9. janúar 2004 til 22. nóvember 2005.  Þetta geri samtals 1.370.463 kr. Með því hafi stefndu greitt þetta fjártjón stefnanda.

                Eins og að framan greinir telur stefnandi að 709.810 kr. séu ógreiddar. Hluti þeirra upphæðar er lögmannskostnaður að fjárhæð 251.023 kr. Fyrir liggur í málinu að kostnaður þessi var greiddar 30. október 2007. Þá er hluti þessa ætlaða ógreidda kostnaðar þóknun til matsmanna vegna undirmatsins að fjárhæð 404.100 kr. Stefnandi vildi ekki una mati þessu og krafðist yfirmats. Þar af leiðandi er hér um kostnað að ræða sem stefnandi á að bera. Reikningar er stefnandi telur vera að fjárhæð 5.136+5.894 kr. eru að fjárhæð 1.290+1.806 kr. og voru greiddir 30. október 2007. Eftir standa því 43.657 kr.

                Málatilbúnaðar, hvað þennan lið varðar, er langt frá því að vera skýr og glöggur. Þegar á allt er litið þykir þó ekki næg ástæða til að taka ekki afstöðu til hans í dómi. Miðað við gögn málsins, og þess sem að framan greinir, krefst stefnandi 1.290.455 kr., (1.705.585 - 404.100 - 5.136 - 5.894 kr.), en stefndi hefur þegar greitt  1.370.463 kr.  samkvæmt framlögðum kvittunum. Í ljósi þessa telur dómurinn að líkur séu fyrir því að stefndu hafi þegar greitt þann kostnað sem stefnandi krefst í þessum þætti málsins.

                Eins og að framan greinir gerir stefnandi kröfu um greiðslu að fjárhæð 65.637 kr. vegna aksturs. Byggir hún kröfuna á matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 6. júní 2008. Þar kemur fram að stefnandi hafi lagt fram lista yfir akstur sinn til lækna, sjúkraþjálfara, á sjúkrahús og á matsfundi og nemi þessi akstur 918 km. Þá hafi matsmenn borið þennan akstur saman við framlagða reikninga og telja hann réttan. Verð per. ekinn kílómetra er 71,50 kr. á verðlagi í árslok 2007. Samtals eru 65.637 kr. Framlagðar kvittanir frá stefndu um greiðslur til stefnanda bera það ekki með sér að þessi aksturskostnaður hafi verið greiddur. Þá hefur þessi liður matsins ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu stefndu við aðalmeðferð málsins. Dómurinn lítur svo á að hér sé um kostnað að ræða sem stefndu beri að standa straum af með vísan til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Því beri stefndu að greiða stefnanda 65.637 kr.

                Í fjórða og síðasta lagi krefst stefnandi þess að henni verði bætt framtíðartekju-tjón að fjárhæð samtals 410.619 kr. Stefnandi byggir kröfu þessa á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga og telur að um röskun á stöðu og högum hafi verið að ræða.  Krafa stefnanda er byggð á matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 6. júní 2008. Þar kemur fram kostnaður stefnanda í framtíðinni vegna sjúkraþjálfunar, heimilislæknis, taugalæknis og lyfja sé að núvirði hinn 20. mars 2004 219.484 kr.  Þá sé vinnutap stefnanda vegna dvalar í endurhæfingu 191.135 kr. á verði 20. mars 2004. Samtals eru þetta 410.619 kr. Þótt fjárhæð þessi komi fram í matsgerð dómkvaddra matsmanna þá breytir það því ekki að um áætlun er að ræða. Í áætlun þessari er ekkert tekið tillit til þess að íslenska ríkið stendur straum af ýmiskonar félagslegri aðstoð við borgara landsins. Í ýmsum tilfellum fá sjúklingar svokölluð afsláttarkort, lyfjaskírteini og fleira. Í matinu er ekki heldur tillit tekið til þess hagræðis fyrir stefnanda að fá greidda fjárhæðina út strax, þ.e. kostnað sem kæmi til greiðslu eftir e.t.v. nokkur ár. Hún hefur því augljóst hagræði af því að fá þessar greiðslur strax. Þá er einnig í mati á hinni varanlegri örorku metin varanleg örorka til framtíðar og hvaða áhrif hún hefur á aflahæfi stefnanda. Þegar á framangreint er litið telur dómurinn kröfu stefnanda ósannaða og hafnar henni.

                Þegar á allt framangreint er litið ber stefndu in solidum að greiða stefnanda 65.637 kr. Stefndu hafa gert kröfu um skuldajöfnuð að fjárhæð 55.120 kr. vegna ofgreiddra þjáningarbóta. Stefnandi fékk greiddar þjáningarbætur hinn 19. desember 2005 á grundvelli matsgerðar frá 4. nóvember 2005. Samkvæmt yfirmatsgerðinni var tímabil vegna þjáningarinnar stytt úr 2 mánuðum í 7 daga. Því telja stefndu að ofgreiddar séu 55.120 kr. Stefnandi hefur hafnað kröfu þessari. Fyrir liggur loka- og fullnaðaruppgjör frá hinu stefnda félagi dags 19. desember 2005 vegna tjóns stefnanda.  Engir fyrirvarar eru gerðir varðandi uppgjör þetta af hálfu félagsins og eru stefndu bundnir af því. Kröfu stefndu um skuldajöfnuð er því hafnað. Fjárhæð kröfu vegna aksturskostnaður kom fyrst fram 2. september sl.  Með vísan til 2. mgr. 9. gr. i.f. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknast dráttarvextir frá dómsuppkvaðningu.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Steingríms Þormóðssonar  hrl., sem er hæfilega ákveðin 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Útlagður kostnaður vegna tveggja matsgerða er samtals að fjárhæð 897.100 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Guðjón Ármannsson hdl. 

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Ómar Hkim Sunal, greiði in solidum stefnanda, Huldu Margréti Baldursdóttur, 65.637 kr. með dráttarvöxtum frá uppkvaðningu dómsins.  Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 kr., að viðbættum virðisaukaskatti.