Hæstiréttur íslands

Mál nr. 430/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 9

 

Miðvikudaginn 9. ágúst 2006.

Nr. 430/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X  skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. ágúst 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þykja skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera uppfyllt og verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2006.

          Ár 2006, föstudaginn 4. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

          Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, litháískur ríkisborgari, fæddur 18. september 1970, sæti áfram gæsluvarðhaldi en þó eigi lengur en til föstudagsins 25. ágúst nk. kl. 16.00.

          Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki meint fíkniefnalagabrot X og félaga hans A sem varðar innflutning á fíkniefnum til landsins. Þeir hafi komið þann 6. júlí sl. til landsins með ferjunni Norrænu frá Danmörku.Við tollskoðun á bifreið sem þeir komu á til landsins kom í ljós að í henni var falið mikið magn af fíkniefnum. Í kjölfarið hafi þeir verið handteknir vegna málsins og fíkniefnin haldlögð. X hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 7. júlí sl.

          Við rannsókn málsins greindi A frá því að hann sé búsettur í Englandi en þar hafi hann hitt par sem hafi beðið hann um að flytja efnin til landsins, annast skipulagningu ferðarinnar og veitt honum upplýsingar um hvað ætti að gera. Kvaðst A hafa átt að hringja í parið þegar hann kæmi til Íslands og fá nánari leiðbeiningar um afhendingu efnanna. A kveðst ekki hafa vitað að efnin í bifreiðinni væru ólögleg. Í fyrstu kvaðst X hafa verið að koma frá Englandi þar sem efninu hafi verið komið fyrir í bifreiðinni, en svo breytti hann framburði sínum og kvaðst hafa verið að koma frá Litháen. Í upphafi málsins greindi A frá því að upphaflega hafi skráður eigandi bifreiðarinnar, B, átt að koma með í ferðina en hann hafi slasað sig og því hafi A boðið X að koma með. X hefur neitað að greina frá við hverja hann átti samskipti í Litháen en hann kveðst óttast um öryggi fjölskyldu sinnar og neitar meðal annars að upplýsa um hvar hann nálgaðist farmiðana til Íslands. A heldur því einnig fram að B og X eigi enga aðild að brotinu. Við yfirheyrslur á X hefur komið fram að hann kveðst ekki hafa vitað af efnunum í bifreiðinni. Kveðst hann hafa þegið boð frá A um að fara í ferðina sér að kostnaðarlausu tveimur dögum áður en lagt hafi verið af stað. Fyrst greindi X frá því að ferðalagið hafi byrjað í Englandi en breytti síðan framburði sínum og kvaðst hafa verið að koma frá Litháen. Samkvæmt upplýsingum frá skipafélaginu Smyril Line sem rekur Norrænu var farmiðabókun A og X með ferðjunni gerð á nafni B en hann hafi ekki verið á meðal farþega í ferjunni. Samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofunni Jetis í Litháen voru miðarnir keyptir þar af óþekktum manni á nafni B.

          Við handtöku A og X lagði lögregla hald á tvo farsíma sem þeir höfðu í fórum sér. Lögregla hafi aflað sér símaupplýsinga úr og í símtækjunum og miðast rannsókn nú að því að upplýsa um meint samskipti hinna grunuðu við ætlaða móttakendur fíkniefnanna hér á landi eða aðra vitorðsmenn sem tengjast hinu meinta broti. Upplýsinga hafi verið aflað frá alþjóðalögreglunni Interpol þar sem staðfest sé að X og A hafi báðir sætt rannsókn hjá lögreglu vegna ýmissa brota. Einnig sé beðið upplýsinga frá erlendum lögregluyfirvöldum, en þann 26. júlí 2006 hafi verið send út beiðni um réttaraðstoð til lögregluyfirvalda í Litháen þar sem óskað sé eftir aðstoð við rannsókn málsins hvað varðar þátt meintra samverkamanna í Litháen.

          Rannsókn málsins miðast nú að því að upplýsa nánar um sendingu fíkniefnanna til Íslands og aðdraganda þess að A og X héldu af stað til Íslands með fíkniefnin í bifreiðinni. Upplýsa þarf um möguleg tengsl þeirra innbyrðis vegna hins meinta brots og möguleg tengsl við B. Einnig þarf að rannsaka aðra mögulega vitorsmenn í Litháen. Upplýsa þarf hvar, hvenær og hvernig fíkniefnunum var komið fyrir í bifreiðinni og hverjir komu þeim fyrir. Þá miðast rannsóknin að því að upplýsa um hvort A og X vissu af fíkniefnunum og hvort þeir hafi átt að fá þóknun fyrir að flytja þau til landsins. Jafnframt þarf að upplýsa um hverjir hafi átt að taka á móti fíkniefnunum á Íslandi og hvernig afhending hafi átt að fara fram. Þá þarf að afla upplýsinga um bankaviðskipti þeirra og fyrir liggja skrifleg leyfi frá A og X um heimild lögreglu til að kalla eftir þessum upplýsingum.

          Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins þykir fyrir hendi rökstuddur grunur um aðild X að stórfelldu fíkniefnalagabroti sem kann að varða fangelsisrefsingu ef sök sannast. Gangi X laus á hann þess kost á að koma frá sér upplýsingum eða móttaka upplýsingar sem skaðað geta rannsókn málsins. Þykir þannig brýnt að vernda áfram rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með áframhaldandi gæsluvarðhandi X.

          Þá liggi fyrir að X sé erlendur ríkisborgari með takmörkuð tengsl við Ísland. Þykir þannig brýnt á þessu stigi málsins að vernda rannsóknar­hagmuni og tryggja nærveru hans hér á landi, en gera má ráð fyrir því að kærði fari af landi brott verði hann látinn laus.  

          Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

          Ber með vísan til a- og b-liðar 1. mgr. 103. gr. oml. að taka kröfu lögreglustjórans til greina og ákveða að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og að ofan greinir en þó eigi lengur en til föstudagsins 25. ágúst 2006 kl. 16.00.

Úrskurðarorð

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi en þó eigi lengur en til föstudagsins 25. ágúst 2006 kl. 16.00.