Hæstiréttur íslands

Mál nr. 63/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 5

Fimmtudaginn 5. febrúar 2004.

Nr. 63/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti áfram gæsluvarðhaldi allt til þess að dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. mars 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2004.

          Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir, en lýkur í dag kl. 16.00, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til 30. mars 2004, kl. 16.00.

          Í greinargerð lögreglustjóra segir að þann 23. desember sl. hafi ákærði verið úrskurðaður af Héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16.00 í dag á grundvelli a- og c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík. Hafi úrskurðurinn verið kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi nr.  495/2003 frá 30. desember 2003 með þeirri athugasemd að einungis skyldi vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml en ekki jafnframt til a-liðar líkt og gert var í hinum kærða úrskurði.

          Ákæra hafi verið gefin út 23. desember sl. á hendur X þar sem ákært er fyrir 9 þjófnaði, 4 hylmingarbrot og 2 fjársvik, flest framin í ágúst 2003.  Þá hafi verið gefin út önnur ákæra á hendur ákærða þann 23. janúar sl. þar sem hann sé ákærður fyrir hylmingarbrot, 3 skjalafalsbrot, 4 fjársvik, 2 þjófnaði og tilraun til þjófnaðar. Ákærur þessar hafi verið þingfestar í Héraðsdómi Reykjavíkur og eru þar reknar sem mál [...].  Ákærurnar voru bornar undir ákærða í síðasta þinghaldi og neitaði hann sök varðandi alla ákæruliði. Fyrirhuguð sé aðalmeðferð mánudaginn 15. mars nk. og þar sem fyrirsjáanlegt sé að aðalmeðferðin verði tímafrek sé fyrirhuguð framhaldsaðalmeðferð þann 19. mars. Kröfu þessari sé því markaður tími til 30. mars nk. til að raunhæft sé að dómur geti gengið í málum ákærða á gæsluvarðhaldstímanum. 

          Þá sé einnig mikill fjöldi mála til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Lögregla muni kappkosta að ljúka rannsókn þessara mála á gæsluvarðhaldstímanum og gefa út ákæru.  Fyrirséð er þó að ekki muni fleiri ákærur koma inn í fyrrgreint mál [...].  Stutta reifun á flestum þeim málum sem til rannsóknar séu hjá lögreglu sé að finna í meðfylgjandi lögregluskýrslum:

[...]

          Ákærði, X hafi samkvæmt sakarvottorði langan sakarferil.  Hann hafi margsinnis verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og sérrefsilögum en ávallt verið gerð skilorðsbundin refsing.  Hann hlaut síðast dóm fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október 2003 og var þar dæmdur til 7 mánaða fangelsisrefsingar en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í 3 ár.  Mörg þeirra brota sem sé að finna í fyrrgreindum ákærum myndu því dæmast sem skilorðsrof, skv. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ef hann verður sekur fundinn.

          Samkvæmt framansöguðu telji lögreglan ljóst að ákærði hafi verið í mikilli brotastarfsemi á undanförnum mánuðum. Á gæsluvarðhaldstímanum hafi lögregla og ákæruvald náð að ljúka rannsókn og gefa út ákæru í mörgum af málum ákærða.  Unnið sé að rannsókn þeirra mála sem eftir standa. Miðað við framangreindan brotaferil ákærða verði að telja yfirgnæfandi líkur á að ákærði muni halda áfram í brotastarfsemi gangi hann laus.

          Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 23. desember sl., sem staðfestur hafi verið af Hæstarétti, var fallist á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml væru fyrir hendi og því verði að telja að enn séu lagaskilyrði til áframhaldandi gæsluvarðhalds.  Að mati lögreglunnar sé mikilvægt að orðið verði við kröfu hennar svo að unnt verði að ljúka rannsókn mála hans, ljúka meðferð mála hans fyrir dómi og jafnframt að koma í veg fyrir frekari afbrot hans.

          Ákærði sé grunaður um fjölda brota gegn 155. gr., 244. gr., 248. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

           Áærði á langan sakarferil að baki m.a. vegna þjófnaðar- og auðgunarbrota auk umferðalagabrota og áfengis- og fíkniefnabrota og hlaut síðast dóm 3. október sl., sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Síðan þá hefur lögreglan í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði unnið að rannsókn fjölda mála, sem ákærði er talinn tengjast. Gefnar hafa verið út tvær ákærur á hendur ákærða sem þingfestar hafa verið  í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í annarri ákærunni er ákært fyrir 9 þjófnaði, 4 hylmingarbrot og tvö fjársvikarbrot flest framin í ágúst 2003.  Í hinni ákærunni er ákært fyrir hylmingarbrot, 3 skjalafalsbrot, 4 fjársvikarbrot, tvo þjófnaði og tilraun til þjófnaðar.  Ákærði sætir enn fremur rannsókn vegna margra ætlaðra brota sem gætu varðað hann fangelsisrefsingu.  Af því sem fram er komið í málinu má ætla að ákærði haldi áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Nauðsyn ber því til að stöðva brotastarfsemi ákærða til að unnt sé að ljúka málum hans og þykja skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir hendi.

          Þá er krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

          Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

          Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þess að dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. mars 2004 kl. 16.00.