Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-33
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Fyrning
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 15. mars 2023 leitar Arev NII slhf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. febrúar sama ár í máli nr. 510/2021: Arev verðbréfafyrirtæki hf., Jón Scheving Thorsteinsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn Arev NII slhf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna tjóns sem hann telur að gagnaðilarnir Arev verðbréfafyrirtæki hf. og Jón Scheving Thorsteinsson hafi valdið sér í tengslum við kaup sín á bresku fyrirtæki en krafan á hendur gagnaðilanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er reist á ábyrgðartryggingu. Sakarefni málsins var skipt í héraði, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 og lýtur ágreiningur í þessum þætti málsins aðeins að því hvort krafa leyfisbeiðanda sé fyrnd.
4. Með dómi Landsréttar 11. febrúar 2022 í máli nr. 510/2021 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að krafa leyfisbeiðanda væri ekki fallin niður fyrir fyrningu. Með ákvörðun Hæstaréttar 1. apríl 2022 nr. 2022-26 var leyfisbeiðanda veitt áfrýjunarleyfi vegna dóms Landsréttar. Með dómi Hæstaréttar 2. nóvember 2022 í máli nr. 22/2022 var dómur Landsréttar ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
5. Eftir endurtekna meðferð málsins fyrir Landsrétti var niðurstaðan sú að krafa leyfisbeiðanda væri fallin niður fyrir fyrningu. Landsréttur lagði til grundvallar niðurstöðu sinni að um kröfuna færi eftir reglum um skaðabætur innan samninga og um fyrningu hennar gilti 2. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Vanefndir í málinu hefðu í síðasta lagi orðið þegar lánasamningar voru undirritaðir 28. maí og 10. nóvember 2015 og því hafi krafan verið fyrnd þegar málið var höfðað á hendur gagnaðilum 14. desember 2019.
6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um hvort fyrning skaðabótakrafna á grundvelli reglna um sérfræðiábyrgð fari eftir 2. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 eða 1. málslið 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Skera þurfi úr um hvort upphaf fyrningarfrests eigi að miðast við þann dag sem samningur er vanefndur eða þegar tjónþoli fær nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Þá byggir hann á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og vísar í því samhengi til kröfufjárhæðarinnar. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Dómurinn byggi á norskri réttarframkvæmd en grundvallarforsenda þess að krafa vegna ábyrgðar á sérfræðiráðgjöf geti átt rót að rekja til samnings samkvæmt þeirri framkvæmd sé að samningur um ráðgjöf sé eiginlegur grundvöllur kröfunnar. Svo sé hins vegar ekki í þessu máli.
7. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skýringu laga nr. 150/2007 þegar um sérfræðiábyrgð er að ræða. Beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.