Hæstiréttur íslands

Mál nr. 57/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skóli
  • Fasteign
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. október 2001.

Nr. 57/2001.

Reykjavíkurborg

(Ólafur Axelsson hrl.)

gegn

Eygló Héðinsdóttur

(Atli Gíslason hrl.)

og

Eygló Héðinsdóttir

gegn

Reykjavíkurborg og

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Vinnuslys. Skóli. Fasteign. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

G vann við ræstingar og gangavörslu í skóla í eigu R. G varð fyrir slysi er hún gekk inn í eina af ræstingargeymslum skólans og steig með öðrum fæti í opna lúgu sem var í gólfi geymslunnar, með þeim afleiðingum að hún hrasaði og hlaut áverka á vinstra hné og bak. Hafði yfirmaður G gengið á undan inn í geymsluna og stigið til hliðar við lúguna án þess að aðvara G um að lúgan væri opin. Í máli sem G höfðaði á hendur R og íslenska ríkinu krafðist hún bóta fyrir líkamstjón sem hún hlaut af þessum sökum. Hæstiréttur taldi ósannað að umbúnaðar lúgunnar hefði verið óforsvaranlegur þannig að slysið mætti rekja til vanbúnaðar á skólahúsnæðinu. Aftur á móti hefði yfirmaður G, sem hefði séð að lúgan væri opin, hlotið að vita að G gengi fast á hæla hennar inn í geymsluna. Hefði yfirmanninum borið að vara G við þeirri hættu sem af því stafaði að lúgan var opin. Taldi Hæstiréttur að R bæri skaðabótaábyrgð á þessu gáleysi starfsmanns síns og að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að aðstæður hefði verið með þeim hætti að G hefði mátt verjast því að stíga í opna lúguna. Íslenska ríkið var hins vegar sýknað af kröfu G þar sem störf hennar voru ekki talin tengjast stjórn eða daglegri umsjón skólastjóra samkvæmt 21. gr., 30. gr. og 34. gr. þágildandi grunnskólalaga nr. 49/1991sem voru í gildi er slysið varð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 7. mars 2001. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda og gagnstefnda verði í sameiningu gert að greiða sér 1.887.855 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 14. september 1993 til 6. desember 1998, frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 11. febrúar 1999 að fjárhæð 236.970 krónur. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnstefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I.

Gagnáfrýjandi vann við ræstingar og gangavörslu við Selásskóla, sem er í eigu aðaláfrýjanda, er hún varð fyrir slysi 14. september 1993. Steig hún með öðrum fæti í lúgu, sem er í gólfi í einni ræstingargeymslu skólans, með þeim afleiðingum að hún hrasaði. Við fallið lenti hún með vinstra hnéð á kanti gatsins og hlaut áverka á hnéð og bak.

Fyrir dómi skýrðu gagnáfrýjandi og Aðalheiður Katrín Hafliðadóttir, sem var ræstingarstjóri og umsjónarmaður skólans, svo frá að þær hafi farið inn í geymsluna til að kanna birgðir ræstingarvara, sem geymdar voru þar í hillum. Gekk Aðalheiður á undan en gagnáfrýjandi á eftir henni. Ber gagnáfrýjandi að hún hafi ekki séð opið og því stigið niður um það.

Þegar rannsókn á slysinu hófst í febrúar 1997 tók lögregla ljósmyndir af geymslunni og mældi lúguna. Stærð geymslunnar var ekki mæld en ljóst er að hún er lítil og þröng. Kristín H. Tryggvadóttir, þáverandi skólastjóri, kom á vettvang í kjölfar slyssins. Bar hún fyrir dómi að geymslan væri um 1½ m á breidd og um 2½ m á lengd. Sagði hún að lýsing hafi verið í geymslunni, sem væri gluggalaus. Gögn málsins bera með sér að einn til tveir metrar séu frá inngöngudyrum að lúgunni. Þegar komið er inn um dyrnar eru hillur til beggja handa. Ágreiningslaust er að lúgan og frágangur hennar var með sama hætti er slysið varð. Opið er 50 cm á breidd og 110 cm á lengd, en tæplega tveir metrar eru frá gólfi geymslunnar og niður í svokallaðan lagnakjallara, sem liggur þar undir. Farið er niður í kjallarann um lúguna á lausum stiga. Er lúgunni lokað með hlera, sem lyft er upp frá þeirri hlið sem snýr að dyrunum og hallað að vegg sem er gegnt þeim. Óumdeilt er í málinu að gagnáfrýjandi sá ekki lúguna og vissi ekki að hún var opin. Þá ber aðilum málsins einnig saman um að óupplýst sé hver hafi skilið lúguna eftir opna.

II.

Geymslan, sem slysið varð í, heyrir til fjórða og síðasta áfanga skólabyggingarinnar. Er óumdeilt að þeir verktakar, sem önnuðust byggingu áfangans, luku honum nokkrum vikum áður en slysið bar að höndum og var starfsemi þar hafin. Var frágangi lúgunnar í geymslunni því lokið á þeim tíma sem slysið varð. Ljósrit af ljósmyndum af vettvangi eru óskýrar og verður hvorki berlega séð af þeim né öðrum gögnum hvernig umbúnaði lúgunnar og umgjörð var háttað. Þannig verður til dæmis ekki greint hvort litur gólfs og veggja fellur að umgjörðinni. Ekkert er þannig fram komið í málinu, sem styður þá fullyrðingu gagnáfrýjanda að endanlegur umbúnaður lúgunnar hafi verið óforsvaranlegur af hálfu verktakanna eða aðaláfrýjanda sem húseiganda. Gegn þessari niðurstöðu standa hvorki ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með síðari breytingum né reglugerða samkvæmt þeim lögum, sem gagnáfrýjandi vísar til í málatilbúnaði sínum. Samkvæmt þessu er ósannað að slys gagnáfrýjanda verði rakið til vanbúnaðar á skólahúsinu.

III.

 Svo sem fyrr greinir voru gagnáfrýjandi og ræstingarstjórinn í þann mund að kanna vörubirgðir í geymslunni er slysið varð. Fyrir dómi lýsti gagnáfrýjandi aðdraganda þess nánar á þann veg að þær hafi farið saman inn í geymsluna og hafi Aðalheiður farið á undan sér, en gagnáfrýjandi gengið fast á eftir henni. Aðalheiður hafi stigið óhikað yfir gatið á gólfinu, en hún stigið beint ofan í gatið og náð að grípa í Aðalheiði, sem hafi náð að stöðva hana og hjálpa henni „upp“. Aðspurð um það hvort Aðalheiður hafi stigið yfir lúguna sagði gagnáfrýjandi: „Ja gatið er um leið og maður kemur inn og hún fer skáhallt yfir en ég sem sagt sá ekki og steig ofan í.“ Hún kvaðst ekki hafa séð að lúgan var opin. Gagnáfrýjandi ræsti í öðrum hluta skólabyggingarinnar og minntist þess ekki að hafa komið áður inn í geymsluna. Aðalheiður bar á sama veg og gagnáfrýjandi um komu þeirra í geymsluna. Sagðist hún hafa séð að lúgan var opin þegar hún kom inn í geymsluna „og ég var ekki að loka neitt, fór bara, sneiddi framhjá.“ Kvað hún gagnáfrýjanda, sem ekki hafi séð að lúgan var opin, hafa komið „eiginlega á eftir mér um leið“. Hún hafi talið að verktakarnir, sem önnuðust byggingu þessa áfanga, hefðu verið þarna niðri og því hafi hún ekki lokað lúgunni.

Fyrrnefndur ræstingarstjóri var yfirmaður ræstingarfólks skólans og starfsmaður aðaláfrýjanda eins og gagnáfrýjandi. Hún gekk á undan gagnáfrýjanda inn í þrönga geymslu. Sá hún að lúgan var opin og hlaut að vita að gagnáfrýjandi gekk fast á hæla hennar. Bar henni við þessar aðstæður að vara gagnáfrýjandi við þeirri hættu sem af því stafaði að lúgan var opin. Á þessu gáleysi starfsmanns síns ber aðaláfrýjandi skaðabótaábyrgð, enda var hún við störf er lúta að verkefnum hennar sem starfsmanns aðaláfrýjanda þegar slysið varð.

Skólastjóri var á þessum tíma forstöðumaður grunnskóla, stjórnaði og bar ábyrgð á starfi hans undir yfirstjórn menntamálaráðuneytis, sbr. 21. gr. þágildandi laga um grunnskóla nr. 49/1991. Í 30. gr. laganna kom fram að dagleg umsjón og umráð skólamannvirkja í eigu sveitarfélaga skyldi vera í höndum skólanefnda í umboði sveitarstjórnar og skólastjóra í umboði menntamálaráðuneytis. Samkvæmt 34. gr. laganna réði sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar þá starfsmenn skólans er teldust starfsmenn sveitarfélaga í samráði við skólastjóra og lutu starfsmenn þessir stjórn skólastjóra við dagleg störf í skólanum. Þau störf, sem gagnáfrýjandi og yfirmaður hennar voru að sinna umrætt sinn, vörðuðu ekki atriði er lutu að ofangreindri stjórn skólastjóra í umboði menntamálaráðuneytis. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnstefnda af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnað þeirra á milli, en rétt er að málskostnaður milli þeirra falli niður fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi telur að slysið verði rakið til gáleysis gagnáfrýjanda, sem ekki hafi sýnt þá aðgát sem af henni mátti krefjast við þessar aðstæður. Eins og lýst er að framan og aðilar málsins eru sammála um byrgði Aðalheiður gagnáfrýjanda sýn á lúguna í þann mund er gagnáfrýjandi steig í hana og féll á hnéð. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að aðstæður hafi verið með þeim hætti að gagnáfrýjandi hafi mátt verjast því að ganga í opið á gólfinu. Verður hún því ekki látin bera hluta tjóns síns sjálf.

IV.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er ekki ágreiningur um örorkumat það sem gagnáfrýjandi byggir kröfu sína á. Aðaláfrýjandi hefur ekki mótmælt kröfu gagnáfrýjanda að öðru leyti en því að hann telur að hún eigi ekki rétt á bótum vegna tímabundins atvinnutjóns. Í niðurstöðu örorkumatsins kemur fram að tímabundið atvinnutjón gagnáfrýjanda hafi verið 100% í einn mánuð. Er þar frá því greint að gagnáfrýjandi hafi leitað til heilsugæslunnar í Grafarvogi og síðan verið frá vinnu í nokkra daga. Henni hafi svo verið vísað til nafngreinds bæklunarskurðlæknis og hún komið til hans á stofu 26. október 1993. Í vottorði þess læknis frá 23. október 1997 kemur fram að gagnáfrýjandi hafi fyrst leitað til hans ofangreindan dag og þrívegis eftir það, en þar er þess ekki getið hvort hún var frá vinnu vegna slyssins. Hún mun hafa leitað til heimilislæknis síns í kjölfar þess, en um það nýtur engra gagna í málinu. Í örorkumatinu var eftirfarandi haft eftir gagnáfrýjanda um tímabundið atvinnutjón hennar: „Hún missti úr vinnu nokkra daga en hóf síðan starf að nýju þótt hún hefði talsverð óþægindi. Hún var þá gengin með barn sjö mánuði og hætti hún síðan starfi einum mánuði áður en til stóð vegna afleiðinga slyssins. Hún hafði hugsað sér að vinna til nóvemberloka. Hún eignaðist barnið síðan 2. desember 1993. Þannig missti Eygló einn mánuð úr vinnu vegna slyssins.” Virðist örorkumatið að þessu leyti ekki byggt á öðrum gögnum en viðtölum við gagnáfrýjanda. Hún bar fyrir dómi að hún hafi verið frá vinnu í nokkra daga eftir slysið. Kvaðst hún hafa hætt störfum mánuði fyrir áætlað upphaf barnsburðarleyfis vegna afleiðinga slyssins. Um þessa staðhæfingu nýtur hvorki framburðar yfirmanna hennar né annarra gagna. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að gagnáfrýjandi byggir kröfu sína um tímabundið atvinnutjón á því að hún hafi misst laun í þennan mánuð. Eins og að framan greinir skortir gögn um þessa fullyrðingu gagnáfrýjanda. Hefur hún því ekki sýnt fram á að hún eigi rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns fyrir þetta tímabil og verður kröfu hennar um þær því hafnað.

Að öðru leyti en að framan greinir verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um þá fjárhæð, sem aðaláfrýjanda ber að greiða gagnáfrýjanda, svo og um vexti.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu gagnstefnda, íslenska ríkisins, af kröfu gagnáfrýjanda, Eyglóar Héðinsdóttur. Málskostnaður milli þeirra í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Aðaláfrýjandi, Reykjavíkurborg, greiði gagnáfrýjanda 1.760.679 krónur með 2% ársvöxtum frá 21. október 1995 til 6. desember 1998, frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 11. febrúar 1999 að fjárhæð 236.970 krónur.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2000.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 27. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eygló Héðinsdóttur verkakonu, kt. 260265-5719, Blöndubakka 6, Reykjavík, með stefnu birtri 21. október 1999 á hendur Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsinu, Reykjavík, og íslenzka ríkinu, kt. 540269-6459, Arnarhváli, Reykjavík, og til réttargæzlu Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1738, Kringlunni 5, Reykjavík, sem ábyrgðartryggjanda stefnda, Reykjavíkurborgar.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu, Reykjavíkurborg og íslenzka ríkinu, verði in solidum gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 5.000.000 með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 14. september 1993 til 6. desember 1998, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.  Til vara er þess krafizt, að stefndu, Reykjavíkurborg og íslenzka ríkinu, verði in solidum gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 1.887.855 með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 14. september 1993 til 6. desember 1998, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun hinn 11. febrúar 1999, að fjárhæð kr. 236.970, sem gangi fyrst til greiðslu áfallins kostnaðar á innborgunardegi, því næst til greiðslu vaxta og dráttarvaxta og loks til innborgunar á höfuðstól, eftir því sem til hrekkur.  Þá er krafizt málskostnaðar, hver sem úrslit málsins verða, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags.

Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæzlustefnda.

Dómkröfur stefnda, Reykjavíkurborgar, eru þær aðallega, að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða henni málskostnað að skaðlausu.  Til vara er gerð sú krafa, að stefnukröfur verði lækkaðar, og hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Dómkröfur stefnda, íslenzka ríkisins, eru þær, að það verði sýknað af kröfum stefnanda í málinu.  Jafnframt er gerð krafa um málskostnað að mati réttarins.

Af hálfu réttargæzlustefnda eru engar kröfur gerðar í málinu, enda engar kröfur gerðar á hendur honum.

II.

Málavextir:

Málsatvik eru þau, að hinn 14. september 1993 slasaðist stefnandi við störf sín sem gangavörður og ræstingakona við Selásskóla í Reykjavík.  Var stefnandi starfsmaður stefnda, Reykjavíkurborgar.  Stefnandi lýsir tildrögum slyssins svo, að hún hafi farið, ásamt samstarfskonu sinni, Aðalheiði Hafliðadóttur, að sækja áhöld og efni í svonefnt ræstingaherbergi í kjallara skólahúsnæðisins.  Gekk Aðalheiður á undan stefnanda inn í herbergið.  Skyndilega vék Aðalheiður til hliðar til að komast hjá og yfir opna og óvarða lúgu í gólfinu, en varaði stefnanda ekki við henni.  Stefnandi kveðst ekki hafa séð lúguna, sem Aðalheiður hafi skyggt á, og ekki vitað til þess, að hún stæði opin og óvarin.  Hafi engum togum skipt, að stefnandi steig með öðrum fæti ofan í gatið og féll við en tókst að koma í veg fyrir að hrapa tæpa tvo metra niður í lagnakjallara, undir aðalkjallaranum með því að grípa í lúgukantinn og annan fót Aðalheiðar.  Við fallið kveðst stefnandi hafa lent með vinstra hnéð á lúgukantinum og hlotið við það áverka á hné og bak, sem reynzt hafi varanlegir.  Stefnandi var þunguð og gengin með sjö mánuði, þegar slysið átti sér stað.  Ástæðu þess, að lúgan var opin, kveður stefnandi hafa verið þá, að iðnaðarmenn hefðu verið að vinna við lagnir í skriðkjallaranum, en hefðu brugðið sér frá og skilið lúguna eftir opna og óvarða.

Hvorki fulltrúar lögreglu né vinnueftirlits voru kallaðir á slysstað í kjölfar slyssins.

Stefnandi kveðst hafa leitað til Margrétar Gunnarsdóttur, hjúkrunarfræðings skólans, þegar eftir slysið.  Hafi hún skoðað áverka stefnanda og ráðlagt henni að leita sér læknisaðstoðar.  Leitað hún til heimilislæknis síns, Jens Magnússonar, sem vísaði henni til Brynjólfs Jónssonar, bæklunarlæknis. 

Í vottorði Brynjólfs Jónssonar, dags. 23. október 1997, kemur fram, að stefnandi leitaði til hans fjórum sinnum á tímabilinu 26. október 1993 til 21. maí 1997.  Segir í lokakafla vottorðsins, að stefnandi hafi höggáverka víða á líkama sínum, en þó aðallega á vinstra hné, sem virðist hafa leitt til langvarandi einkenna með verkjum, sársauka og viðkvæmni í hné og ekki séu horfur á fullum bata og líklegt, að til frekari meðferðar þurfi að koma. 

Jónas Hallgrímsson læknir mat tjón stefnanda vegna slyssins á grundvelli skaðabótalaga, og er matsgerð hans dags. 18. október 1998.  Tímabundið atvinnutjón stefnanda metur hann 100% í einn mánuð; tímabil þjáninga eitt ár frá slysdegi; varanlegan miska 10%; og varanlega örorku 10%.

Rannsókn fór fram á slysstað að tilhlutan stefnanda, og voru lögregluskýrslur teknar af vitnum í febrúar 1997.

Stefnandi kveður sundurliðaðar kröfur á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum, hf., ábyrgðartryggjanda Reykjavíkurborgar, hafa verið settar fram með bréfi dags. 6. nóvember 1998.  Bréfinu hafi fylgt öll nauðsynleg málsgögn til að félagið gæti tekið afstöðu til skaðabótakröfu stefnanda, svo sem tjónsútreikningur, umboð, matsgerð, skýrslur lögreglu og vinnueftirlits, læknisvottorð, launaseðlar, kostnaðarreikningar og gjaldskrá LAG. Kröfubréfið hafi verið ítrekað 3. febrúar 1999. 

Hinn 11. febrúar 1999 greiddi tryggingafélagið stefnanda bætur, að fjárhæð kr. 236.970, auk vaxta, að fjárhæð kr. 9.479, vegna skyldutryggingar launamanna samkvæmt kjarasamningi, er stefnandi vann eftir.  Jafnframt leitaði félagið umsagnar Reykjavíkurborgar um slysið.  Í svari borgarverkfræðings, dags. 22. marz 1999, segir, að ekki sé kunnugt um, að starfsmenn byggingadeildar, eða menn á hennar vegum, hafi verið við störf á þessum tíma í skólanum, og að deildin hafi, á árinu 1993, aðeins haft með höndum meiriháttar viðgerðarverkefni í nokkrum skólum, og Selásskóli hafi ekki verið á meðal þeirra.

Með bréfi borgarlögmanns til tryggingafélagsins, dags. 23. marz 1999, sem umsögn borgarverkfræðings fylgdi, segir, að skólastjóri fari með daglega umsjón og umráð skólamannvirkja samkvæmt 1. mgr. 29. gr. grunnskólalaga nr. 63/1974, sem gilt hafi, þegar slysið varð. Segir þar jafnframt, að skólastjórinn hafi, á þessum tíma, verið ríkisstarfsmaður og sé það álit borgarlögmanns, að slysið verði ekki rakið til sakar starfsmanna Reykjavíkurborgar. 

Með bréfi, dags. 13. apríl 1999, hafnar tryggingafélagið skaðabótakröfu stefnanda með vísan til umsagnar borgarverkfræðings og álits borgarlögmanns.  Kröfur stefnanda voru ítrekaðar í bréfi stefnanda, dags. 8. júní 1999, til tryggingafélagsins og þess krafizt, að Reykjavíkurborg upplýsti, hvaða iðnaðarmenn hefðu verið að verki í skólanum á slysdegi.  Stefnandi kveður bréfinu ekki hafa verið svarað.  Stefnandi kveður skólastjóra Selásskóla hafa, aðspurðan, upplýst um fornöfn iðnaðarmanna, sem verið hafi við vinnu á slysdeginum, en engin skipuleg skráning um viðhald hafi verið á þessum tíma, en hún hafi hins vegar verið tekin upp árið 1995. 

Með bréfi, dags. 24. september 1999, hafi ríkislögmanni, að gefnu tilefni í áliti borgarlögmanns, verið gefinn kostur á að taka afstöðu til bótaskyldu ríkisins og öll málsgögn og kröfugerð send hjálagt.  Með bréfi ríkislögmanns telji hann, að ekki eigi að beina kröfu að ríkinu og verði ekki betur séð, en að viðkomandi skóli hafi verið á ábyrgð Reykjavíkurborgar, sem hafi byggt skólann, annazt viðhald hans og greitt laun annarra starfsmanna en skólastjóra.  Telji ríkislögmaður, að hlutverk skólastjóra sem umsjónar- og umráðamanns skólamannvirkja hljóti að hafa verið í einhvers konar umboði eiganda fasteignarinnar, Reykjavíkurborgar.  Sé bótaskyldu hafnað.

Aðila greinir á um bótaskyldu vegna tjóns stefnanda, en ekki er ágreiningur um niðurstöðu örorkumats.

III.

Málsástæður stefnanda:

Skaðabótakrafa stefnanda byggir á því, að um hafi verið að ræða skaðabótaskylt vinnuslys. Að öllu leyti megi rekja orsakir slyssins til vanbúnaðar á húsnæði Selásskóla, ófullnægjandi vinnuaðstöðu og gáleysis starfsmanna og eða verktaka á vegum og í þágu skólans og skólahúsnæðisins, skorts á leiðbeiningum stefndu til þeirra, eftirlitsleysis og annarrar vanrækslu, svo sem skráningu viðhalds.  Enn fremur er á því byggt, að stefndu beri hallann af því, að slysið hafi ekki verið tilkynnt, eins og lögskylt sé, með þeim afleiðingum, að ekki hafi farið fram rannsókn lögreglu og vinnueftirlits á aðstæðum á slysstað og á tildrögum og orsökum slyssins.  Þessi vanræksla ein sér baki stefndu skaðabótaábyrgð.

Stefnandi byggir sérstaklega á umsögn í bréfi Vinnueftirlits ríkisins, dags. 25. marz 1997 varðandi málið.  Þar sé upplýst, að ekki hafi verið tilkynnt um slysið, eins og skylt sé.  Í reglum um húsnæði vinnustaða nr. 493/1987, sem hafi verið í gildi, er slysið átti sér stað, sé ekkert að finna um göt í gólfum, enda sé ekki reiknað með slíkum götum nema með fallvörnum í kring.  Í umsögninni sé einnig vísað til reglna nr. 204/1972 um öryggisráðstafanir við byggingarvinnu, þar sem fram komi, að öll göt á gólfum og vinnupöllum skuli vera umgirt handriði, og á meðan gat sé opið og óvarið vegna flutnings og umferðar, sem annars sé lokað eða með hlífðargrindum, skuli vörður vera um það til þess að aðvara þá, sem kunni að eiga leið þar um, sem gatið sé.  Er slysið varð, hafði lúgan verið opnuð vegna framkvæmda, vinnu við byggingu skólans, en vanrækt hafi verið að setja upp handrið, hafa vörð við lúguna eða aðvara þá, sem leið áttu um, með öðrum tryggilegum hætti.

Byggt sé á því, að stefndu, Reykjavíkurborg og ríkið, beri solidariska ábyrgð á tjóni stefnanda.  Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi stefnanda og eigandi húsnæðisins og ríkið sem atvinnurekandi skólastjóra, húsbónda stefnanda, og meints umsjónar- og umráðamanns skólahúsnæðisins.  Stefndu séu báðir ábyrgir fyrir vanbúnaði húsnæðisins, ófullnægjandi vinnuaðstæðum á slysdegi og gáleysi þeirra, sem skildu lúguna eftir opna.  Einnig séu stefndu báðir ábyrgir fyrir að gefa viðkomandi ekki fyrirmæli um varúðarráðstafanir, eða hafa tiltækan tryggan búnað, fallgrindur eða handrið, eða sjá til þess, að vörður væri við lúguna, eða gera aðrar ráðstafanir, sem hafi verið til þess fallnar að koma í veg fyrir slysahættu samfara notkun lúgunnar í tengslum við viðhald eða endurbætur á skólahúsnæðinu.  Stefnandi hafi lotið verkstjórn og hafi farið í einu og öllu eftir ríkjandi starfsvenjum, ráðningarsamningi og fyrirmælum yfirmanna sinna, jafnt skólastjóra og yfirkennara sem umsjónarmanns skólans.  Stefndu hafi vísað hvor á annan um skaðabótaábyrgð, án þess að leitast við að reyna að upplýsa málið og leggja fram gögn af sinni hálfu.  Um skaðabótaábyrgð og sönnun sé sérstaklega byggt á því, að það standi stefndu næst, sem bókhaldsskyldum aðilum og sameiginlegum stjórnendum, eigendum, umsjónar- og umráðamönnum skólans og skólahúsnæðisins, að upplýsa um það, hverjir hafi verið við viðhaldsvinnu í skólanum á slysdegi, á vegum hverra þeir voru, hver greiddi fyrir vinnuna og hvaða fyrirmæli þeir hafi fengið, og hvernig innbyrðis ábyrgð stefndu sé háttað.  Afstaða stefndu, sem vísi ábyrgð hvor á annan, hafi knúið stefnanda til að draga báða stefndu fyrir dóm og gera solidariska kröfu á þá.  Byggt sé á því, að dæma eigi stefndu sameiginlega ábyrga fyrir tjóni stefnanda, nema stefndu sanni með ótvíræðum, skjalfestum hætti, að aðeins annar þeirra beri ábyrgð.

Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, sérstaklega til reglna um ábyrgð atvinnurekenda á skaðaverkum starfsmanna sinna, þ.e. reglum um húsbóndaábyrgð, og um ábyrgð eigenda, umsjónar- og umráðamanna fasteigna á skipulagi og búnaði þeirra og vinnuaðstæðum og á göllum þar að lútandi. Enn fremur er vísað til reglna skaðabótaréttarins, sem lúti að aukinni, og allt að hlutlægri, ábyrgð atvinnurekenda og eigenda, eða umráðamanna húsnæðis, sbr. einnig ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 13. gr., 17. gr., 19. gr., 23. gr. 36. gr., 37. gr., c. lið 38. gr., 42. gr. og 81. gr. sbr., rgl. nr. 612/1989.  Um bótakröfu stefnanda fari að skaðabótalögum nr. 50/1993 og vísist einkum til 1. gr., 2. gr., 3. gr. og 4. gr., sbr. 26. gr.

Krafa um vexti byggi á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og um dráttarvexti á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 10. gr. og 14. gr.  Upphafstími vaxta miðist við slysdag, og upphafstími dráttarvaxta við þann dag, þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að stefndi fékk í hendur útreikning skaðabótakröfu stefnanda og fullnægjandi gögn til að taka afstöðu til hennar.  Krafa um vexti og dráttarvexti feli í sér, að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, fyrst 14. september 1994.

Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130 gr.  Krafa um virðisaukaskatt sé gerð á grundvelli laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta og skila virðisaukaskatti af tekjum.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld, og beri henni nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum hluta kröfu sinnar úr hendi stefndu. Málskostnaðarkrafan sé sérstaklega rökstudd með hliðsjón af þeirri staðreynd, að hvorugur stefndi hafi leitazt við að upplýsa um það, hverjir voru við vinnu í skólanum á slysdegi og um ábyrgð stefndu á rekstri skólans og skólahúsnæðisins.  Það hafi staðið stefndu næst.  Í þessu sambandi sé áréttað, að sérstaklega hafi verið skorað á stefndu, áður en til málshöfðunar kom, að upplýsa málið með gögnum úr bókhaldi sínu eða með öðrum hætti.  Þessi tilmæli hafi verið virt að vettugi, og í stað þess bendi stefndu hvor á annan um ábyrgð og byggi afstöðu sína á órökstuddum fullyrðingum.

Stefnandi kveður aðalkröfuna vera áætlaða með það fyrir augum, að hugsanlegur varanlegur miski og varanleg örorka hækki frá því, sem nú liggi fyrir vegna viðbótarafleiðinga slyssins.  Sé krafan sett fram með áskilnaði um framlagningu nýs örorkumats á síðari stigum málsins, þar með talið fyrir Hæstarétti, komi til áfrýjunar.

Stefnandi sundurliðar varakröfu sína þannig:

Tímabundið atvinnutjón   kr.    127.176

Bætur fyrir þjáningar í eitt ár, 365 X 770          kr.    281.050

Varanlegur miski, 10% af kr. 4.399.000           kr.    439.900

Varanleg örorka 7.5 X 1.429.181 X 10%          kr. 1.071.886

3% lækkun á sama vegna aldurs                kr.    (32.157)

Alls       kr. 1.887.855

Útlagðan kostnað, samtals kr. 57.800, þ.e. vegna læknisvottorðs kr. 21.000, vegna matsgerðar kr. 33.800 og vegna endurrita o.fl. kr. 3.000, hafi Sjóvá-Almennar tryggingar greitt 14. október 1999 án vaxta, og sé gerð krafa til, að tekið sé tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

Stefnufjárhæð varakröfu byggi á matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, dags. 18. október 1998, og sé hún reiknuð út frá ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. einnig laun stefnanda síðustu 12 mánuði fyrir slysdags og laun í slysaforföllum.  Stefnandi hafi orðið af launum í einn mánuð vegna slyssins.

Stefndu hafa ekki gert athugasemdir við fjárhæð og sundurliðun varakröfunnar. Krafa um ráðstöfun innborgunar Sjóvár-Almennra trygginga hinn 11. febrúar 1999, að fjárhæð kr. 236.970, sé sett þannig fram, til þess að stefnandi verði eins sett (sic í stefnu).

Málsástæður stefnda, Reykjavíkurborgar:

Aðalkrafa stefnda um sýknu byggir á eftirfarandi rökum:

Stefnandi hafi alla sönnunarbyrði um það, að umræddar aðstæður verði raktar til saknæms verknaðar stefnda eða einhverra starfsmanna hans, sem hann beri ábyrgð á.  Að mati stefnda sé það óupplýst, hver hafi skilið lúguna eftir opna.  Enginn á vegum stefnda hafi verið að störfum í kjallaranum, þegar slysið átti sér stað, sbr. dskj. nr. 22.

Af gögnum málsins verði heldur ekki séð, að stefnandi hafi gefið tilefni til að óska eftir komu vinnueftirlitsins strax við slysið.

Sérstök ástæða sé til að mótmæla því, að "allt að" hlutlægar ábyrgðarreglur eigi við í málinu.

Að gefnu tilefni sé bent á, að samkvæmt þágildandi rétti, hafi starfsmaður meðstefnda, þ.e. ríkisins, skólastjóri Selásskóla, farið með daglega umsjón og umráð skólans, sbr. grunnskólalög nr. 63/1974, 1. mgr. 29 gr.  Verði talið, að aðstæður hafi verið óviðunandi og þar með bótaskyldar gagnvart stefnanda, hafi það ekki verið í verkahring og á ábyrgð stefnda að tryggja, að svo væri ekki, heldur yfirmanns skólans, þ.e. skólastjórans.  Hljóti því öll ábyrgð vegna þess að vera á ábyrgð ríkisins.

Varakrafa stefnda byggi á því, að ef talið verði, að hann beri ábyrgð á slysinu, verði að telja, eins og atvikum hafi háttað, að það verði að verulegu leyti rakið til gáleysis stefnanda sjálfrar.

Vöxtum sé mótmælt sem fyrndum að hluta.  Einnig upphafstíma dráttarvaxta, sem ættu að miðast við dómsuppsögu, eins og atvikum hátti.

Taka verði tillit til launa og annarra greiðslna, sem stefnandi hafi fengið greitt eftir slysið og ganga eigi upp í tímabundið atvinnutjón.

Málsástæður stefnda, íslenzka ríkisins:

Stefndi vekur athygli á, að viðkomandi iðnaðarmönnum hafi hvorki verið stefnt til ábyrgðar í málinu, né reynt að grafast fyrir um, á hvers vegum þeir hafi verið við vinnu í skólanum.  Nöfn þeirra komi fram á dskj. nr. 24, þar sem skólastjóri Selásskóla segi þá vera Ásmund og Hall, byggingaverktaka, sem reki samnefnt byggingafélag.  Samkvæmt fyrirtækjaskrá sé til byggingafélagið, Ásmundur og Hallur ehf., kt. 441093-3069, Laxakvísl 10, Reykjavík.

Á árinu 1993 hafi verið í gildi lög nr. 49/1991 um grunnskóla.  Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. þeirra laga hafi skólastjóri verið forstöðumaður grunnskóla, hann hafi stjórnað og borið ábyrgð á starfi skólans undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins, sem samkvæmt 31. gr. hafi annazt ráðningu hans.  Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna hafi gerð skólamannvirkja verið undirbúin heima í héraði af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd, og samkvæmt 29. gr. hafi sveitarfélagi borið að annast viðhald skólahúsa og búnaðar á fullnægjandi hátt og hafi viðhaldskostnaður verið greiddur af sveitafélögum.  Fjármálum grunnskólanna séu gerð skil í sérstökum kafla laganna, XIV. kafla.  Sá kostnaður, er á ríkissjóð leggist samkvæmt lögunum, sé ýmiss konar launakostnaður tengdur kennslu, námsráðgjöf og stjórnun grunnskóla.  Sveitafélögum hafi borið að greiða allan annan rekstrarkostnað grunnskóla.  Af þessum ákvæðum þágildandi grunnskólalaga að dæma sé ljóst, að meginskyldur ríkisins gagnvart grunnskólunum, á þeim tíma, er fyrrgreint vinnuslys stefnanda átti sér stað, hafi lotið að kennslustarfinu, en gerð og viðhald þeirra fasteigna, sem skólastarfið fór fram í, hafi verið í verkahring viðkomandi sveitarfélags.  Ekki sé deilt um það í málinu, að stefnandi hafi verið starfsmaður Reykjavíkurborgar, þegar framangreindir atburðir áttu sér stað á árinu 1993, og muni ekki ágreiningur um það, að Reykjavík eigi Selásskóla í Reykjavík.

Af málatilbúnaði stefnanda verði að draga þær ályktanir, að orsök slyss stefnanda hafi verið sú, að lúga í ræstingarherbergi hafi verið skilin eftir opin í kjallara Selásskóla af iðnaðarmönnum, sem þar unnu að viðhaldi byggingarinnar.  Ekki sýnist stefnandi rökstyðja, að frágangur lúgunnar hafi verið óviðunandi, og að öðru leyti sé vandséð, að um vanbúnað eða ófullnægjandi vinnuaðstæður hafi verið að ræða.  Samkvæmt þessu verði að rekja tjón stefnanda til þeirrar gleymsku viðkomandi iðnaðarmanna að loka gati á eftir sér.  Hér að framan hafi verið gerð grein fyrir verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélags um rekstur grunnskóla.  Vinna iðnaðarmanna við Selásskóla á umræddum tíma hljóti að hafa verið á vegum Reykjavíkurborgar á einhvern hátt.  Líklegast sé, að iðnaðarmennirnir hafi verið sjálfstæðir verktakar, en þó sé ekki hægt að útiloka þann möguleika, að þeir hafi verið starfsmenn borgarinnar.  Íslenzka ríkið beri hvorki ábyrgð á fasteignum Reykjavíkurborgar né viðhaldi á fasteignum þeirra.  Þaðan af síður beri íslenzka ríkið ábyrgð á starfsmönnum Reykjavíkurborgar, eða eftir atvikum á sjálfstæðum verktökum, sem Reykjavíkurborg semji við um viðhald á fasteignum borgarinnar.  Samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins sé vinnuveitandi ekki bótaskyldur vegna tjóns af völdum sjálfstæðs verktaka eða starfsmanna hans.  Þetta séu megin málsástæður stefnda fyrir sýknukröfu sinni.

Skólastjóri grunnskóla, samkvæmt þágildandi grunnskólalögum nr. 49/1991, hafi vissulega verið ríkisstarfsmaður undir yfirstjórn menntamálaráðuneytis.  Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laganna hafi dagleg umsjón og umráð skólamannvirkja átt að "vera í höndum skólanefndar í umboði sveitastjórnar og skólastjóra í umboði menntmálaráðuneytisins."  Lagaákvæði þetta verði að skýra með hliðsjón af þeirri verkaskiptingu, sem tekin hafi verið upp með lögum nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.  Í athugasemdum með frumvarpi laganna sé lýst þeim tilgangi þeirra, að því er varði grunnskóla, að verkefni ríkisins yrði að sjá að mestu um hinn uppeldisfræðilega þátt skólastarfsins, en hlutur sveitarfélaga yrði sá að standa straum af kostnaði við umgjörð þessa starfs, aðbúnað og aðstöðu.  Þetta sama fyrirkomulag hafi verið lagt óbreytt til grundvallar lögum nr. 49/1991 um grunnskóla.  Af þessu verði einungis dregin sú ályktun, að hið eiginlega skólastarf skuli vera áfram í umsjá ríkisins, en annað, sem því tengdist, þ.m.t. rekstur skólamannvirkja, komi í hlut sveitarfélaganna einna.  Samkvæmt þessu beri sveitarfélögin ein ábyrgð á viðhaldi mannvirkja.  Komi skólastjóri fram fyrir hönd skólans vegna fasteigna og viðhalds, hljóti hann að gera það í umboði eigenda, þ.e. sveitafélaganna.  Með öðrum orðum, vinnuveitandi skólastjórans, stefndi, íslenska ríkið, hafi enga ábyrgð borið lögum samkvæmt á viðhaldi fasteigna skólabygginga og beri því að sýkna hann af kröfum í þessu máli.  Enn fremur sé útilokað, á sömu forsendum, að stefndu beri óskipta ábyrgð á meintu tjóni stefnanda.

Ekki sé hjá því komizt að krefjast sýknu á grundvelli eigin sakar stefnanda í málinu.  Engar upplýsingar liggi fyrir um vitneskju stefnanda um viðkomandi iðnaðarmenn í því herbergi, þar sem vinna þeirra fór fram.  Hugsanlegt sé, að hún hafi vitað af opinu eða mátt vita um það.  Enn fremur sé á því byggt, að hún hafi ekki sýnt eðlilega aðgæzlu í kjallaraherberginu.

Um lagarök vísist aðallega til ákvæða þágildandi l. nr. 87/1989 og l. nr. 49/1991, þar sem m.a. sé fjallað um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga við rekstur grunnskóla.  Vísað sé til reglna skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð og tengdra sviða.  Málskostnaðarkrafa byggi á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Um dómafordæmi vísist til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 1996:1697:  Skólanefnd Þelamerkurskóla og íslenska ríkið gegn Skúla Skúlasyni.  Stefndi líti svo á, að niðurstaða þess máls hafi fordæmisgildi í því máli, sem hér sé fjallað um.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Auk stefnanda gáfu skýrslu fyrir dómi Kristín Hólmfríður Tryggvadóttir, þáverandi skólastjóri Selásskóla, Aðalheiður Katrín Hafliðadóttir, umsjónarmaður í Selásskóla, Margrét Skagfjörð Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, og verktakarnir, Hallur Arnarson og Ásmundur Kristinsson.

Samkvæmt framburði stefnanda og vitnisins, Aðalheiðar Katrínar, voru þær á leið inn í ræstiherbergi, þar sem ræstivörur voru geymdar, en vitnið Aðalheiður ætlaði að fara að panta ræstivörur og hafði hún beðið stefnanda um að aðstoða sig við að yfirfara vörurnar.  Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við, að stefnandi hefði fylgt eftir henni inn í ræstiherbergið.  Vitnið fullyrti, að verktakarnir, Hallur og Ásmundur, hefðu verið að vinna í skólanum þennan dag, og kvaðst hafa talið, að þeir væru í vinnu í kjallaranum, þegar hún sá að lúgan var opin, og því hefði hún ekki lokað henni, heldur stigið yfir hana. 

Samkvæmt framburði Kristínar Hólmfríðar Tryggvadóttur, þáverandi skólastjóra Selásskóla, var þetta eina ræstiherbergið, þar sem var lúga á gólfinu.  Herbergi þetta heyrir til 4. áfanga skólabyggingarinnar, sem verktakarnir, Hallur og Ásmundur, höfðu skilað af sér um mánuði fyrr.Stefnandi starfaði við ræstingar og gangavörzlu á öðrum stað í skólanum, þar sem var sérstakt ræstiherbergi.  Stefnandi bar fyrir dómi, að hún teldi, að hún hefði komið áður í herbergið, þegar hún fór í skoðunarferð um skólann eftir afhendingu áfangans, en hún kvaðst ekki muna, hvort hún hefði tekið eftir umræddri lúgu í gólfinu.

Telja verður, eins og aðstæðum var háttað á slysstað, að það hafi verið stórfellt gáleysi að skilja lúguna eftir opna og óvarða á gólfinu, en herbergið er þröngt og töluvert dót geymt á gólfinu, sem þrengir enn gönguleiðina.  Hlerinn er langsum eftir miðju gólfinu og lítið gólfpláss til hliðar við hann.  Ekki verður fullyrt, að húsvörðurinn hafi mátt vita af stefnanda fast á hælum sér, en með því að stíga snöggt yfir vinstra horn opsins, til vinstri, án þess að gefa frá sér viðvörun, mátti stefnandi ekki varast opið.  Verður því ekki kennt um, að stefnandi hafi sýnt af sér óvarkárni. 

Stefndu deila um, hvor þeirra beri ábyrgð á tjóni stefnanda. 

Ekki liggur fyrir af hvers völdum margnefnd lúga var skilin eftir opin og óvarin, án þess að nokkur væri að vinna við hana.  Það liggur fyrir, að verktakar höfðu skilað af sér áfanga þeim, sem ræstiherbergið var í, um mánuði áður en slysið varð, en hins vegar kom fram hjá umsjónarmanni skólans, Aðalheiði Katrínu, að þeir kæmu af og til, þar sem alltaf væri að koma eitthvað upp, sem þyrfti að líta eftir, og jafnframt fullyrti hún, að þeir hefðu verið við vinnu þarna þennan sama dag.  Þá kom fram í framburði hennar, sem og fyrrverandi skólastjóra, að eingöngu hefðu verið lagnir í kjallaranum, en önnur nýting ekki verið á honum á þeim tíma, þannig að enginn af starfsmönnum skólans hefði átt erindi í hann.  Verktakarnir komu fyrir dóminn, en kváðust ekkert geta fullyrt um það, hvort þeir hefðu verið að vinna í kjallaranum umræddan dag, þar sem svo langt væri um liðið og þeir hefðu frétt af slysinu mörgum árum seinna.  Þeir töldu það þó ólíklegt, þar sem þeir hefðu verið búnir að skila áfanganum af sér nokkru fyrr. 

Þar sem svo langt er um liðið frá slysinu, hefur ekki tekizt að upplýsa, hver átti þátt í því, að kjallaralúgan skyldi vera opin og óvarin umrætt sinn.  Vinnueftirlit eða lögregla voru ekki kvödd á staðinn, en alls er ósannað, að stefnandi hafi gert svo lítið úr áverkum sínum, að yfirmenn hennar hafi mátt álíta það óþarfa, en fyrir liggur, að stefnandi var frá vinnu um tíma vegna slyssins.  Það liggur fyrir, að umsjónarmaður skólans og skólastjóri tóku um það ákvörðun í sameiningu, að ekki skyldi kallað á þessa aðila.  Bera þessir aðilar ábyrgð á réttarspjöllum, sem kunna að hafa orðið vegna þessa. 

Þegar slysið varð, giltu um grunnskóla l. nr. 49/1991.  Samkvæmt 30. gr. þeirra laga, sem er efnislega samhljóða 29. gr. l. nr. 63/1974, eins og henni var breytt með 38. gr. l. nr. 87/1989, fara skólanefnd í umboði sveitarstjórnar og skólastjóri í umboði menntamálaráðuneytisins með daglega umsjón og umráð skólamannvirkja.  Í dómi Hæstaréttar frá 1996, bls. 1697, sem stefndi, íslenzka ríkið, vísar til sýknukröfu sinni til stuðnings, segir svo:  “Með lögum nr. 87/1989 voru dregin mörk milli verksviðs ríkis og sveitarfélaga og í VI. kafla þeirra um rekstur skóla sérstaklega.  Er í athugasemdum með frumvarpi til laganna lýst þeim tilgangi þessa kafla, að verkefni ríkisins verði að sjá að mestu um hinn uppeldisfræðilega þátt skólastarfsins, en hlutur sveitarfélaga að standa straum af kostnaði við umgjörð þessa starfs, aðbúnað og aðstöðu.  Slysið varð ekki í tengslum við skólastarf.  Ber áfrýjandinn, íslenzka ríkið, því ekki skaðabótaábyrgð, og verður það sýknað af kröfum áfrýjanda.”   Í máli því sem hér um ræðir varð slysið í beinum tengslum við skólastarf, en snerti á hinn bóginn ekki beint hinn uppeldislega þátt þess, sem fellur undir verkefni ríkisins. 

Það liggur fyrir, að stefnandi var starfsmaður Reykjavíkurborgar, sem greiddi henni laun.  Hins vegar var hún ráðin til starfans af skólastjóra, sem var starfsmaður íslenzka ríkisins.  Í 4. mgr. 34. gr. l. nr. 49/1991 um grunnskóla segir, að sveitarstjórn, eða skólanefnd í umboði hennar, ráði þá starfsmenn skóla, er teljist starfsmenn sveitarfélaga, í samráði við skólastjóra.  Starfsmenn þessir lúti stjórn skólastjóra um dagleg störf í skólanum á starfstíma skóla.  Verður þannig að líta svo á, að skólastjórinn hafi ráðið stefnanda til starfans í lögboðnu umboði Reykjavíkurborgar, sem einnig náði til boðvalds yfir henni á starfstíma skólans.  Þá er ágreiningslaust, að næsti yfirmaður stefnanda var húsvörður skólans, sem var ráðin á sömu forsendum og stefnandi. 

Svo sem fyrr er rakið var það hlutverk sveitarfélagsins að standa straum af kostnaði við umgjörð skólastarfsins, aðbúnað og aðstöðu.  Var starf stefnanda í þágu þess hluta skólastarfsins.  Reykjavíkurborg var þannig húsbóndi stefnanda og bar ábyrgð á umhverfi því, sem hún starfaði í.  Frágangur kjallaraopsins var á ábyrgð sveitarfélagsins, og ber það því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.  Hins vegar er ekki fallizt á, að íslenzka ríkið beri bótaábyrgð samkvæmt því sem að framan er rakið og verður það sýknað af bótakröfum stefnanda.

Ekki er ágreiningur um örorkumat stefnanda. 

Aðalkrafa stefnanda er órökstudd og byggir ekki á gögnum málsins, enda hefur stefnandi lýst því yfir, að hún sé fremur sett fram vegna hugsanlegrar hækkunar á örorku og miska.  Varakröfunni hefur ekki verið mótmælt tölulega, og verður hún því tekin til greina, eins og hún er fram sett.

Stefndi hefur krafizt lækkunar á kröfum stefnanda, vegna eigin gáleysis.  Samkvæmt því sem að framan er rakið er ekki fallizt á eigin sök stefnanda.

Tímabundið atvinnutjón stefnanda er, samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar læknis, metið 100% í einn mánuð.  Ekki er upplýst, hversu langan tíma stefnandi var fjarverandi frá vinnu fyrst eftir slysið og fékk laun frá sínum vinnuveitanda, en hún hefur haldið því fram, að það hafi verið nokkrir dagar.  Má skilja af framburði stefnanda og yfirmanna hennar við skólann, að ekki hafi verið um lengri tíma að ræða en eina viku.  Bera stefnanda því einungis bætur vegna tímabundins atvinnutjóns í 3 vikur, eða kr. 84.789.  Að öðru leyti verða kröfur hennar teknar til greina.  Fallast má á, að vextir séu fyrndir að hluta, og dæmast vextir frá 21. október 1995, eins og nánar greinir í dómsorði. 

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda, Reykjavíkurborg, til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 435.000, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, íslenzka ríkisins, fellur niður.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenzka ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður milli þessa stefnda og stefnanda fellur niður.

Stefndi, Reykjavíkurborg, greiði stefnanda, Eygló Héðinsdóttur, kr. 1.845.463, ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 21. október 1995 til 6. desember 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá þeim degi til 11. febrúar 1999, en með sömu vöxtum af kr. 1.608.493 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 435.000 í málskostnað.