Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-1
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Þrotabú
- Riftun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 6. janúar 2022 leitar þrotabú Pressunnar ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. desember 2021 í máli nr. 560/2020: Þrotabú Pressunnar ehf. gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur þó vafa leika á að skilyrði nefnds lagaákvæðis um veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um riftun á tveimur greiðslum, annars vegar 1.599.049 krónur og hins vegar 69.188.500 krónur, á grundvelli 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bú Pressunnar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 13. desember 2017 og var frestdagur 19. september sama ár.
4. Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af seinni kröfu leyfisbeiðanda en hins vegar fallist á að fyrri greiðslan væri riftanleg samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991. Um seinni greiðsluna vísaði Landsréttur til þess að hún hefði verið innt af hendi af hálfu þriðja aðila og hefði aldrei borist félaginu eða verið því á annan hátt aðgengileg eða til ráðstöfunar. Greiðslan hefði því ekki skert greiðslugetu félagsins verulega samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991. Af sömu ástæðu væri ekki unnt að leggja til grundvallar að um ótilhlýðilega ráðstöfun hefði verið að ræða samkvæmt 141. gr. sömu laga.
5. Leyfisbeiðandi afmarkar beiðni sína um áfrýjunarleyfi við síðarnefnda greiðslu. Hann byggir á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skýringu riftunarreglna laga nr. 21/1991 og varði sérstaklega mikla fjárhagslega hagsmuni sína. Það sé mikilvægt að fá fordæmi Hæstaréttar um hvort það hafi þýðingu að greiðandi skuldar sé tengdur þrotamanni og hvaða kröfur sé eðlilegt að gera til þess að sýnt sé fram á að fjármunir hafi í reynd tilheyrt honum. Með dómi Landsréttar hafi verið litið framhjá því að um var að ræða greiðslu á skuld Pressunnar ehf. sem hafi verið greidd með vitund og vilja eigenda og stjórnenda þess félags. Standi dómur Landsréttar óhaggaður leiði það til þess að hægt sé að fara framhjá riftunarreglum gjaldþrotaskiptaréttar með því að þriðji aðili greiði skuldir þrotamanns. Dómur Landsréttar sé því jafnframt bersýnilega rangur að efni til.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin er reist á, einkum um almenn skilyrði riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.