Hæstiréttur íslands
Mál nr. 149/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Félagsslit
- Verðbréfafyrirtæki
- Ógilding samnings
- Skaðabætur
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Miðvikudaginn 30. apríl 2003. |
|
Nr. 149/2003. |
Árni Stefán Björnsson(Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn Burnham International á Íslandi hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Kærumál. Félagsslit. Verðbréfafyrirtæki. Ógilding samnings. Skaðabætur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu Á við félagsslit B. Samkvæmt gögnum málsins virtist B hafa í mars 2000 sent dreifibréf, meðal annars til Á, þar sem honum var boðið að kaupa takmarkað magn hlutabréfa í erlendu félagi, A. Í dreifibréfinu sagði meðal annars, að A hafi ákveðið að stofan nýtt félag, D, og hafi gengi hlutabréfa í A hækkað mikið vegna þessara ráðagerða. Þá var tekið fram að um áhættufjárfestingu væri að ræða. Gekk Á að tilboði B. B var svipt starfsleyfi til verðbréfaviðskipta í nóvember 2001 og tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Á kröfulýsingarfresti kom m.a. fram krafa frá Á, aðallega um endurgreiðslu vegna viðskiptanna, en til vara um greiðslu skaðabóta. Skiptastjóri B hafnaði kröfum Á. Meðal gagna, sem skiptastjóri sendi héraðsdómi með kröfu um úrlausn ágreinings vegna skiptanna, voru ýmis erlend gögn sem virtist óumdeilt að vörðuðu hin umdeildu hlutabréfakaup. Í ýmsum atriðum var ósamræmi milli þessara erlendu gagna og fyrrnefnds dreifibréfs. Var talið, að mjög skorti á að nægilega lægi fyrir hvaða gögn B hafi haft undir höndum þegar félagið sendi út dreifibréf sitt í mars 2000, hvort og þá hvaða gögn önnur eða munnlegar upplýsingar Á kynni að hafa fengið áður en hann gekk til kaupanna og hvert hann hefði sjálfur getað leitað frekari upplýsinga. Vegna þessara atriða, auk annarra, var málið svo vanreifað að ófært var að fella efnisdóm á það.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2003, þar sem hafnað var að viðurkenna við félagsslit varnaraðila kröfu sóknaraðila að fjárhæð 4.415.400 krónur með nánar tilteknum vöxtum. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og áðurgildandi 59. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila og honum dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 15. apríl 2003. Hann krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða sér ásamt kærumálskostnaði. Til vara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins virðist varnaraðili hafa snemma í mars 2000 sent meðal annars til sóknaraðila dreifibréf, þar sem kynnt var að bandaríska félagið Arthur Treacher´s Inc. hafi ákveðið að stofna nýtt félag, Digital Creative Development Corporation, sem væri ætlað „að hanna vefi á Internetinu, veita ráðgjöf og þjónustu við uppsetningu fyrirtækjavefja.“ Þetta nýja félag myndi „kaupa, fjárfesta í og vinna með fyrirtækjum sem þegar hafa haslað sér völl á þessu sviði.“ Væri ráðgert að þetta yrði meginstarfsemi Arthur Treacher´s Inc. á komandi árum, en hún myndi þó ekki breyta neinu um rekstur samnefndra veitingahúsa félagsins. Tekið var fram að gengi hlutabréfa í Arthur Treacher´s Inc. hafi hækkað mikið vegna þessara ráðagerða, eða úr um 0,50 bandaríkjadali í ársbyrjun 2000 í um 4,00 bandaríkjadali í byrjun mars sama árs. Sagði að varnaraðila hafi „boðist takmarkað magn hlutabréfa í Arthur Treacher´s sem seld verða á genginu $1,5 ($4,5/$1,5-1=200% undirverð) auk þóknunar. Hlutabréf þessi verða háð þeim takmörkunum að ekki má versla með þau í eitt ár eftir útgáfu þeirra („lock up period“). Ef þú hefur áhuga á að vera með í kaupum á þessum bréfum þá hafðu endilega samband, en hér gildir „fyrstur kemur, fyrstur fær“. Við gerum ráð fyrir að þú vitir að hér er um áhættufjárfestingu að ræða, áhættu sem þú meðvitað tekur ef þú ákveður að kaupa hlutafé í fyrirtækinu. Kaup í þessu fyrirtæki er háð mikilli óvissu og brugðið getur til beggja vona með afkomu þess í framtíðinni.“
Sóknaraðili brást við framangreindu dreifibréfi með því að kaupa hjá varnaraðila 40.000 hluti í félaginu fyrir 1,50 bandaríkjadali hvern, en samkvæmt kvittun frá varnaraðila 20. mars 2000 greiddi sóknaraðili fyrir þá samtals 4.415.400 krónur auk þóknunar að fjárhæð 22.077 krónur. Um nánari aðdraganda að kaupunum liggur ekkert fyrir í málinu. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila sóttist hann í framhaldi af þessu ítrekað eftir því við varnaraðila að selja hlutabréfin, en honum hafi þá verið sagt að það væri ekki unnt. Hafi hlutabréfin lækkað mjög í verði á þessu tímabili og farið svo að gengi þeirra í byrjun október 2002 var komið í 0,13 bandaríkjadali á hlut.
Varnaraðili mun hafa verið sviptur starfsleyfi til verðbréfaviðskipta 27. nóvember 2001. Sama dag mun hafa gengið úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um að félagið væri tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sbr. áðurnefnda 59. gr. laga nr. 13/1996, eins og þeim hafði verið breytt með 7. gr. laga nr. 163/2000. Skiptastjóri, sem skipaður var til að fara með félagsslitin, gaf út innköllun vegna þeirra. Á kröfulýsingarfresti kom meðal annars fram krafa frá sóknaraðila í bréfi 14. febrúar 2002, aðallega um endurgreiðslu á fyrrgreindum 4.415.400 krónum ásamt 2.502.479 krónum í dráttarvexti og lögmannskostnað, en til vara um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.471.800 krónur ásamt 1.068.863 krónum í vexti og kostnað, enda yrðu hlutabréfin, sem áður er getið, þá skráð á nafn sóknaraðila í hlutaskrá Digital Creative Development Corporation. Aðalkrafa sóknaraðila var reist á því að hann teldi samning um kaup á hlutabréfunum ógildan af nánar tilteknum ástæðum og bæri honum því að fá kaupverðið greitt sem vangildisbætur. Varakrafa hans var á hinn bóginn reist á því að uppvíst hafi orðið að varnaraðili hafi keypt í eigin nafni hlutabréfin fyrir 1,00 bandaríkjadal á hlut, en með því að selja þau síðan sóknaraðila fyrir 1,50 bandaríkjadali á hlut hafi varnaraðili með saknæmri háttsemi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart sóknaraðila fyrir verðmismuninum, sem næmi fjárhæð varakröfunnar. Til þrautavara krafðist sóknaraðili loks þess að varnaraðili tryggði að hann yrði skráður fyrir hlutabréfunum í hlutaskrá félagsins, auk þess sem varnaraðila yrði gert að greiða lögmannskostnað að fjárhæð 352.055 krónur.
Í skrá um lýstar kröfur á hendur varnaraðila, sem skiptastjóri gerði 14. mars 2002, greindi hann frá þeirri afstöðu að hafna ætti framangreindum kröfum sóknaraðila. Á skiptafundi, sem skiptastjóri hélt 22. sama mánaðar, komu fram mótmæli sóknaraðila gegn þessari afstöðu. Skiptafundur var haldinn á ný 2. maí 2002 til að leitast við að jafna ágreining um lýstar kröfur, þar á meðal kröfu sóknaraðila, og enn 30. sama mánaðar. Sú viðleitni bar ekki árangur og beindi skiptastjóri ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2002. Af því tilefni var mál þetta þingfest þar fyrir dómi 20. september sama árs. Fyrir héraðsdómi gerði sóknaraðili sömu dómkröfur og fram komu í áðurgreindri kröfulýsingu hans til skiptastjóra að öðru leyti en því að hann féll frá kröfu um að varnaraðili tryggði að hann yrði skráður í hlutaskrá fyrir hlutabréfunum, sem málið varðar.
Með bréfi 4. desember 2002 tilkynnti skiptastjóri Héraðsdómi Reykjavíkur að farið yrði með slit á varnaraðila eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, þar sem eignir félagsins muni ekki nægja til að efna viðurkenndar kröfur.
II.
Meðal gagna, sem skiptastjóri varnaraðila sendi Héraðsdómi Reykjavíkur með áðurnefndri kröfu um úrlausn þessa ágreiningsmáls, voru óútfyllt form á átta blaðsíðum fyrir samning um áskrift að hlutabréfum í Digital Creative Development Corporation, sjö blaðsíðna greinargerð um áhættuþætti í viðskiptunum, sem boðið var upp á, fimm blaðsíðna samantekt um skilmála fyrir kaupum á hlutabréfum í félaginu, merkt sem trúnaðarmál, og loks óútfyllt form á tíu blaðsíðum fyrir samning milli Digital Creative Development Corporation, Arthur Treacher´s Inc. og væntanlegs kaupanda hlutafjár í fyrstnefnda félaginu, þar sem meðal annars var fjallað um heimild til að skipta á hlutabréfum í því félagi og í Arthur Treacher´s Inc. Af málatilbúnaði aðilanna verður ekki annað ráðið en að óumdeilt sé að þessi gögn, sem öll eru erlend, varði kaup á hlutabréfunum, sem þá greinir á um, þótt varnaraðili hafi í fyrrnefndu dreifibréf frá mars 2000 kynnt viðskiptin sem kaup á hlutabréfum í Arthur Treacher´s Inc.
Í ýmsum atriðum öðrum en að framan er getið var ósamræmi milli þessara erlendu gagna og dreifibréfsins, sem sóknaraðili fékk frá varnaraðila. Þannig var í erlendu gögnunum boðið upp á áskrift að hlutabréfum fyrir 1,00 bandaríkjadal á hlut, þar sem lágmarkskaup yrðu á 100.000 hlutum, en í dreifibréfinu var sem áður segir rætt um að varnaraðila hafi boðist hlutabréfin fyrir 1,50 bandaríkjadal og ekki getið um lágmarkskaup. Þá sagði í dreifibréfinu að viðskiptin yrðu háð þeim skilmála að ekki mætti „versla með þau“ í eitt ár, en í erlendu gögnunum sagði að óheimilt yrði að ráðstafa þeim fyrr en félagið hefði sjálft ákveðið að svo mætti gera. Kom einnig fram í þessum gögnum að kaupandi hlutabréfanna yrði að gangast undir það að kaupin væru gerð eingöngu í fjárfestingarskyni og ekki til að endurselja þau, dreifa þeim eða skipta í minni hluti, en með undirritun áskriftarsamnings myndi kaupandi staðfesta að hann hafi engan samning gert um slíka ráðstöfun hlutabréfanna og hefði það heldur ekki í hyggju. Sú stuttorða og almenna ábending, sem fram kom í dreifibréfi varnaraðila um áhættu af viðskiptum með þessi hlutabréf, gaf engan veginn raunhæfa mynd af þeim margháttuðu og alvarlegu aðvörunum og fyrirvörum, sem fram komu í erlendu gögnunum um það efni.
Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst sóknaraðili ekki hafa fengið í hendur nein önnur gögn frá varnaraðila en dreifibréf hans frá mars 2000 varðandi viðskipti með fyrrnefnd hlutabréf áður en hann hafi gengið til kaupa á þeim. Að öðru leyti kom ekkert fram í skýrslu sóknaraðila um aðdragandann að hlutabréfakaupunum eða hvað kunni að hafa farið á milli hans og starfsmanna varnaraðila um þau og er slíkt heldur ekki að sjá í málatilbúnaði hans að öðru leyti. Varnaraðili staðhæfir á hinn bóginn í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti að sóknaraðili „hafi fengið öll nauðsynleg gögn um það hlutafjárútboð sem hér er verið að fjalla um“. Fyrir héraðsdómi var tekin skýrsla af einum fyrrverandi starfsmanni varnaraðila, sem kvaðst ekki minnast þess að nein gögn hafi fylgt áðurnefndu dreifibréfi og heldur ekki hvort skilmálar fyrir áskrift að hlutabréfunum hafi borist varnaraðila áður en dreifibréfið var sent, en hann héldi þó að svo hafi ekki verið. Sagðist maður þessi ekki hafa átt nein samskipti við sóknaraðila um þau viðskipti, sem málið fjallar um. Í málatilbúnaði varnaraðila er byggt á því að hvað sem öðru líði skipti ekki máli hvaða upplýsingar sóknaraðili kunni að hafa fengið frá varnaraðila, því sóknaraðili sé svokallaður fagfjárfestir, sem hafi átt að afla sér upplýsinga um viðskiptin sjálfur. Þrátt fyrir þetta hefur varnaraðili ekki skýrt út hvert sóknaraðili hefði getað leitað slíkra upplýsinga, en þess verður að gæta, sem áður greinir, að hluti fyrirliggjandi gagna í málinu um skilmála fyrir viðskiptunum er merktur sem trúnaðarmál. Að þessu öllu athuguðu skortir mjög á að nægilega liggi fyrir hvaða gögn varnaraðili hafi haft undir höndum þegar hann sendi út dreifibréf sitt í mars 2000, hvort og þá hvaða gögn önnur eða munnlegar upplýsingar sóknaraðili kann að hafa fengið áður en hann gekk til kaupanna og hvert hann hefði sjálfur getað leitað frekari upplýsinga.
Auk þess, sem að framan greinir, liggja ekki fyrir í málinu nein gögn um hvernig varnaraðili gerði úr garði áskrift að hlutabréfunum, sem sóknaraðili hafði lýst sig reiðubúinn til að kaupa, hvort sú áskrift hafi verið gerð í nafni varnaraðila eða sóknaraðila og eftir atvikum hvenær þau hafi verið skráð á nafn þess síðastnefnda. Þá hefur heldur ekki komið skýrlega fram hvort og þá hvenær aflétt kunni að hafa verið takmörkunum á heimild hluthafa til að ráðstafa hlutabréfunum.
Vegna þeirra atriða, sem hér hefur verið getið, er málið svo vanreifað að ófært er að fella efnisdóm á það. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2003:
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 20. september 2002 og tekið til úrskurðar 3. mars sl.
Sóknaraðili er Árni Stefán Björnsson, kt. 170162-3319, Nesbala 32, Seltjarnarnesi, en varnaraðili þrotabú Burnham International á Íslandi hf., kt. 550191-1729, Vegmúla 2, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru aðallega „að krafa hans í bú varnaraðil nr. 93 á kröfuskrá að fjárhæð kr. 4.415.400,00 ásamt dráttarvöxtum frá 20. mars 2000 til 27.11.2001 auk málskostnaðar verði viðurkennd sem almenn krafa í búið í samræmi við kröfulýsingu." Til vara er þess krafist að viðurkennd verði sem almenn krafa í búið „varakrafa sóknaraðila nr. 93 á kröfuskrá að fjárhæð kr. 1.471.800,00 auk dráttarvaxta frá 20.3.2000 til 27.11.2001". Þá krefst sóknaraðili að sér verði dæmdur málskostnaður auk virðisaukaskatts úr hendi varnaraðila vegna rekstur þessa ágreiningsmáls að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þess er jafnframt krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að fjárhæð skaðbótakröfu sóknaraðila verði lækkuð en málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Helstu málavextir eru að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001 var bú Burnham International á Íslandi hf. tekið til opinberra skipta en félagið var svipt starfsleyfi sama dag, sbr. 62. gr. laga nr. 13/1996, sbr. 7. gr. laga nr. 163/2000. Sigurmar K. Albertsson hrl. var skipaður skiptastjóri.
Með bréfi 14. febrúar 2002 lýsti Ragnar Baldursson hdl. kröfu f.h. sóknaraðila að höfuðstól 4.415.400 kr. Í kröfulýsingunni var því haldi fram að Burnham International á Íslandi hf. hefði sýnt af sér saknæma háttsemi og bakað sér bótaskyldu. Skiptastjóri hafnaði kröfunni og var sú afstaða hans áréttuð á skiptafundi 22. mars 2002. Af hálfu sóknaraðila var þessari afstöðu skiptastjóra mótmælt. Á fundi 2. maí 2002 var þess freistað af skiptastjóra að jafna ágreininginn, en sú viðleitni bar ekki árangur. Ákveðinn var annar fundur 30 sama mánaðar til að freista þess að ná samkomulagi og afla frekari gagna um kröfuna. Á þeim fundi var hins vegar talið ljóst að ekki tækist að jafna ágreininginn. Með bréfi 27. ágúst 2002 til héraðsdóms var síðan af hálfu skiptastjóra krafist úrlausnar dómsins um ágreininginn.
Upphaf máls þessa mun hafa verið það, að forsvarsmenn Burnham International á Íslandi hf. bentu forsvarsmanni sóknaraðila á að kaupa hlutabréf eða taka þátt í útboði á hlutabréfum í fyrirtækinu Digital Creative Development Corporation.
Af hálfu varnaraðila segir að hér hafi verið um nýtt fyrirtæki að ræða sem stofnað hafi verið af bandarísku veitingahúsakeðjunni Arthur Treacher´s. Þessu nýja fyrirtæki hafi verið ætlað að hanna vefi á „internetinu", og veita ráðgjöf og þjónustu við uppsetningu á fyrirtækjavefum. Um svokallað „e-commerce" fyrirtæki hafi verið að ræða, en mikill uppgangur hafði verið á gengi hlutabréfa slíkra fyrirtækja á árinu 1999. Forsvarsmaður sóknaraðila hafi haft áhuga á að taka þátt í þessu útboði og hafi hann ákveðið að kaupa 40.000 hluti á genginu 1,5 fyrir samtals 4.415.400 kr. þann 20. mars 2000.
Af hálfu varnaraðila er tekið fram að þeim aðilum, sem sýnt hafi áhuga á að taka þátt í þessu útboði hafi verið send öll skráningargögn til skoðunar, en í þeim komi fram upplýsingar um áhættuþætti og takmarkanir á viðskiptum með þessi bréf. Í skráningargögnum komi m.a. fram að bréf þessi voru bundin við svokallað „lock up period", sem feli í sér að ekki var hægt að eiga viðskipti með bréfin í eitt ár eftir útgáfu þeirra. Þá segir að stofnun þessa fyrirtækis hafi átt sér stað á tímapunkti sem síðar hafi komið í ljós að var upphaf hruns á hlutabréfamörkuðum um allan heim, sérstaklega að því er varðar fyrirtæki á því sviði sem DCDC hafi ætlað að hasla sér völl á.
Í kjölfar kaupa sóknaraðila, segir af hálfu varnaraðila, að gengi bréfa í DCDC hafi lækkað verulega eins og í öðrum sambærilegum fyrirtækjum. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn því til sönnunar að hann hafi óskað eftir sölu bréfanna á meðan svokallað sölubannstímabilið stóð yfir eða síðar, en aldrei hafi verið vefengt að sóknaraðili væri eigandi að 40.000 hlutum í DCDC. Þessi hlutabréf hafa verið sérstaklega skráð í bókum varnaraðila á nafn sóknaraðila og haldið sérstaklega aðgreindum í bókhaldi félagsins. Eftir að aflétt var sölubannstímabili, sem stóð í eitt ár frá útgáfu bréfanna, hafi því ekkert verið því til fyrirstöðu að sóknaraðili ætti viðskipti með umrædd bréf hefði hann óskaði eftir því og fundið kaupanda.
Af hálfu sóknaraðila er aðdraganda þessa máls lýst þannig að í mars árið 2000 hafi verðbréfamiðlarar og ráðgjafar hjá Burnham International á Íslandi hf. bent forsvarsmanni sóknaraðila á að kaupa hlutabréf í DCDC á genginu 1,5 USD á hlut. Á sama tíma hafi verð bréfanna á markaði verið á bilinu 2,5 til 4 USD á hlut. Hafi verið gengið frá kaupunum 20. mars 2000 og 40.000 hlutar keyptir fyrir 4.415.400 kr. Á þessum tíma hafi verið mikill uppgangstími í viðskiptum með hlutabréf í tæknifyrirtækjum og hagnaður oft skjótfenginn. Hafi sóknaraðili viljað selja bréf sín á hærra gengi en hann hefði keypt þau á en verið tjáð af verðbréfamiðlurum hjá Burnham International á Íslandi hf. að ekki væri mögulegt að selja bréfin. Svo hafi farið að verð bréfanna hefðu fallið í verði og sóknaraðili staðið uppi með hlutabréf sem nánast séu verðlaus.
Þegar bú Burnham International á Íslandi hf. var tekið til skipta hafi lögmaður sóknaraðila komist að því að sóknaraðili var ekki skráður fyrir hlutum í DCDC. Í tilkynningu 11. febrúar 2002 hafi sóknaraðila hins vegar verið tjáð að hann væri samkvæmt gögnum Burnham International á Íslandi hf. skráður fyrir 40.000 hlutum í DCDC, en þá var gengi hlutabréfanna um 0,1 USD á hlut. Þann 3. október 2002 hafi gengi bréfanna svo verið 0,13 USD á hlut. Ekki hefur fengist staðfest hvort sóknaraðili hafi verið skráður eigandi hlutabréfanna í hlutaskrá DCDC, en hafi það verið gert, þá sé ljóst að svo var ekki fyrr en bréfin voru nánast verðlaus og séu þau það enn í dag.
Þegar kannað var hvernig staðið var að viðskiptum sóknaraðila og varnaraðila á kaupum í DCDC, segir af hálfu sóknaraðila, hafi komið í ljós að Burnham International á Íslandi hf. hafði tekið þátt í útboði á hlutabréfum í DCDC í mars árið 2000. Hafi útboðsgengið þá verið 1,0 USD á hlut. Útboðið hafi verið háð ýmsum takmörkunum fyrir þá sem þátt tóku í því og hafi meðal annars verið bannað að selja hlutabréf keypt í útboðinu í 6 mánuði. Útboðsskilmálar þessir hafi ekki verið kynntir sóknaraðila, hlutabréfin ekki verið keypt í nafni sóknaraðila og hafi því aldrei verið skráð eign sóknaraðila í hlutaskrá DCDC. Forsvarsmenn Burnham International á Íslandi hf. hafi talið forsvarsmanni sóknaraðila trú um að hann væri að kaupa hluti í DCDC á genginu 1,5, þegar hið rétta hafi verið að verðbréfafyrirtækið sjálft var að kaupa í útboði bréf á genginu 1,0. Verðbréfafyrirtækið hafi þannig tekið við fé sóknaraðila til að fjármagna eigin kaup á hlutabréfunum og hafi síðan selt þau sóknaraðila - þó það væri óheimilt samkvæmt útboðsskilmálum - á 50% hærra verði.
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að hafa greitt Burnham International á Íslandi hf. 4.415.400 kr. 20. mars 2000 vegna þess sem hann taldi vera kaup á 40.000 hlutum í Digital Creative Development Corporation. Löggerningurinn, sem fólst í viðskiptunum, sé ógildur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, samkvæmt útboðslýsingu og útboðsgögnum DCDC, og samkvæmt ákvæðum samningalaga nr. 7/1936, einkum 30., 33. og 36. gr laganna.
Fyrir það fyrsta er á því byggt að á þeim tíma sem kaup gerðust stóð yfir útboð á hlutum í félaginu í Bandaríkjunum sem ekki hafi verið lokið. Síðar hafi komið í ljós að það voru bréf, sem seld voru í því útboði, sem Burnham International á Íslandi hf. hafði samið um að selja sóknaraðila. Sóknaraðila hafi ekki verið kynnt nein útboðsgögn enda hafi það verið Burnham International á Íslandi hf., sem keypt hafi hlutafé í útboðinu og verið skráð fyrir því í hlutaskrá. Burnham International á Íslandi hf. hafi þannig notað greiðslu sóknaraðila til að fjármagna kaup sín á hlutum í DCDC og sóknaraðili hafi ekki verið skráður fyrir hlutum sem hann taldi sig vera að kaupa. Og þar sem sóknaraðili var ekki skráður eigandi hlutanna, hafi hann enga möguleika haft til að selja þá. Þessi háttsemi starfsmanna og fyrirsvarsmanna Burnham International á Íslandi hf. sé saknæm enda um misnotkun á fjármunum viðskiptamanns er að ræða.
Í öðru lagi er á því byggt að Burnham International á Íslandi hf. hafi verið óheimilt að framselja hluti í DCDC, sem það keypti í útboðinu, þar sem þátttakendum í útboðinu var bannað að framselja hlutina enda hafi sérstaklega verið áréttað í útboðsgögnum að ekki var um markaðshæf hlutabréf að ræða. Þá hafi sérstaklega verið gerð grein fyrir í útboðsgögnum að mikil áhætta fælist í að taka þátt í útboðinu. Öllum þessum upplýsingum hafi hins vegar verið haldið leyndum fyrir sóknaraðila. Sala hluta, sem Burnham International á Íslandi hf. hafi keypt í útboðinu, hafi verið ólögmæt og ógild svo sem starfsmönnum og stjórnendum Burnham International á Íslandi hf. hafi verið kunnugt um af útboðslýsingu og öðrum gögnum sem þeim voru tiltæk, sbr. og 10. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.
Í þriðja lagi er á því byggt að Burnham International á Íslandi hf. hafi selt sóknaraðila hluti í DCDC á genginu USD 1,5 sem í útboðinu voru seld á genginu USD 1. Hafi Burnham International á Íslandi hf., starfsmenn félagsins og fyrirsvarsmenn, þannig haft fé af sóknaraðila sem nemi 50% álagi á það verð sem bréfin voru keypt á í útboðinu. Þetta hafi þeir gert þrátt fyrir að viðskiptin fóru fram á sama tíma og Burnham International á Íslandi hf. hafi keypt sömu hluti í útboðinu. Starfsmönnum verbréfafyrirtækisins og fyrirsvarsmönnum hafi verið ljóst eða mátti vera ljóst, að verið var með grófum hætti að brjóta gegn gildandi lögum um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996, einkum 15., 16., 18., 21., 26 og 27. gr. laganna, þar sem um augljósa og alvarlega hagsmunaárekstra var að ræða sem leiddi til þess að Burnham International á Íslandi hf. hagnaðist verulega á kostnað sóknaraðila.
Varakröfu sína byggir sóknaraðili á sömu ástæðum og færðar voru fram til rökstuðnings aðalkröfunni um rétt til að fá bætt það tjón sem hann varð fyrir vegna ólögmætrar auðgunar Burnham International á Íslandi hf. með því að kaupa í eigin nafni hluti í félaginu DCDC í útboði á genginu 1,0 USD á hlut og selja sóknaraðila sömu bréf á sama tíma á genginu 1,5 USD. Þessi háttsemi sé andstæð útboðsreglunum í hlutafjárútboði DCDC og andstæð fjölda ákvæða laga um verðbréfaviðskipti og þá einnig ógildingarreglu 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Varnaraðili telur að sóknaraðili geti ekki byggt kröfur sínar á hendur honum á ógildingarreglum samningalaga nr. 7/1936. Burnham International á Íslandi hf. hafi eingöngu annast milligöngu um þau verðbréfaviðskipti sem hér um ræðir. Félagið hafi hvorki verið seljandi né útgefandi þessara bréfa. Sóknaraðili ásamt nokkrum öðrum hafi haft samband við félagið og óskað eftir því að taka þátt í umræddu hlutafjárútboði. Eftir að hafa móttekið greiðslur frá þessum aðilum hafi félagið skráð sig fyrir þessum hlutum í eigin nafni, en fyrir þeirra reikning. Hlutir hafi síðan verið skráðir á nafn sóknaraðila eins og sóknaraðili hafði lagt fé til. Af þessum sökum sé ljóst að sóknaraðili geti ekki byggt kröfur sínar á hendur þrotabúinu á ógildingarreglum samningalaga nr. 7/1936. Málsástæðum sóknaraðila, sem byggja á þessum lagarökum, ber því að hafna þegar af þeirri ástæðu að varnaraðili átti ekki aðild að þeim kaupum. Sóknaraðili getur einungis beint kröfum að varnaraðila á þeirri málsástæðu að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni vegna meintrar saknæmrar háttsemi starfsmanna Burnham International á Íslandi hf. Taki því eftirfarandi röksemdir varnaraðila mið af því.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að starfsmenn varnaraðila hafi ekki á neinn hátt brotið gegn ákvæðum þágildandi verðbréfaviðskiptalaga nr. 13/1996 í tengslum við undirbúning eða framkvæmd umræddra viðskipta og er því sérstaklega mótmælt að sóknaraðili hafi orðið fyrir nokkru tjóni sem rekja megi til saknæmrar hegðunar starfsmanna varnaraðila eða annarra aðila á þess vegum. Varnaraðili reisir þessa málsástæðu annars sérstaklega á eftirfarandi sjónarmiðum:
Í fyrsta lagi sé óumdeilanlegt að varnaraðila var heimilt að hafa milligöngu um sölu umræddra verðbréfa til sóknaraðila, sbr. 8 - 9. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.
Í öðru lagi hafi engar takmarkanir gilt samkvæmt þágildandi lögum um sölu þessara bréfa í lokuðu útboði á þann hátt sem gert var. Verðbréfin hafi einungis verið boðin afmörkuðum hópi aðila til kaups og hafi fallið innan marka undanþágu b-liðar 1. mgr. 2. gr. þágildandi reglugerðar nr. 505/1993 um almennt útboð, sbr. nú c. liður 1. mgr. 29. gr. laga nr. 13/1996 eftir að þeim var breytt þann 1. janúar 2001. Bréfin hafi eingöngu verið seld aðilum sem höfðu reynslu af verðbréfaviðskiptum og áttu að fenginni reynslu að vera hæfir til þess að meta sjálfir þá áhættu sem fólgin væri í viðskiptum með bréf af þessum toga. Að jafnaði hafi eingöngu verið seldir 100.000 hlutir í umræddu útboði, en undanþága hafi verið gerð í tilviki sóknaraðila og honum seldir 40.000 hlutir. Hér var um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða þó fjárhæðin hafi ekki náð 5.000.000 króna, sbr. undanþága d. liðar 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 505/1993. Af hálfu félagsins hafi verð litið á sóknaraðila sem fagfjárfesti, en hugtakið fagfjárfestir hafi ekki verið skilgreint samkvæmt þágildandi lögum og því háð mati í hvert og eitt skipti. Allt um það hafi verið litið svo á að sóknaraðili hefði þekkingu og reynslu til að meta sjálfur þá áhættu sem fólgin var í umræddum viðskiptum og hafa sjálfur burði til að afla sér þeirra upplýsinga sem hann teldi þörf á áður en hann gekk að þessum viðskiptum, sbr. f. liður 1. mgr. 29. gr. laga nr. 13/1996 eftir breytingu 1. janúar 2001. Starfsmönnum Burnham International á Íslandi hf. hafi verið heimilt að treysta því að sóknaraðili hefði á fullnægjandi hátt gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólgin var í þessum viðskiptum. Sóknaraðili hafi fengið öll nauðsynleg gögn um það hlutafjárútboð er hér um ræðir. En raunar skipti það ekki máli því hér sé um mann að ræða sem búi yfir faglegri reynslu og þekkingu til að meta sjálfur fjárfestingarkosti með tilliti til áhættu og búi yfir verulegum fjárhagslegum styrk. Af því leiðir að hann sé bundinn við allar þá fyrirvara og takmarkanir sem koma fram í útboðsgögnum um þessi verðbréf.
Í þriðja lagi byggir varnaraðili á því að hann verði ekki gerður ábyrgur fyrir því að sóknaraðila reyndist ekki unnt að selja umrædd hlutabréf á þeim tíma sem af hálfu sóknaraðila er fullyrt að hann hafi viljað selja, enda hafi engin gögn verið lögð fram því til stuðnings að sóknaraðili hafi óskað eftir því að selja umrædd bréf, hvorki á því tímabilið er sölubannið var né síðar. Starfsmenn Burnham International á Íslandi hf. hafi getað treyst því að sóknaraðili vissi um skilmála útboðsins og mátt ætla að hann væri að taka þátt í útboðinu af fullum hug og honum væri ljóst að hann gæti jafnvel ekki átt viðskipti með bréfin um langan tíma og jafnvel aldrei. Ytri aðstæður hefðu hins vegar leitt til þess að umrædd hlutabréf lækkuðu verulega í verði, en hrun varð á hlutabréfamörkuðum alls staðar í heiminum einmitt á þeim tíma sem umrædd viðskipti áttu sér stað. Tjón sóknaraðila sé þannig að rekja til ytri aðstæðna sem varnaraðili verði ekki gerður ábyrgur fyrir.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að starfsmönnum Burnham International á Íslandi hf. hafi verið heimilt að koma fram við sóknaraðila sem sérfræðing (fagfjárfesti). Í verðbréfaviðskiptum verði að gera mjög ríkar kröfur til hans um aðgæslu og rétt sé því að hann beri meint tjón sitt að öllu leyti. Taka megi mið af reglum skaðabótaréttar um eigin sök í þessu sambandi sem og reglum um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt. Ekki komi til álita að beita ógildingarreglum samningalaga nr. 7/1936, sbr. 30., 33. og 36. gr. laganna. Fráleitt sé að halda því fram að svikum hafi verið beitt eða að óheiðarlegt eða ósanngjarnt sé að bera fyrir sig umræddan löggerning. Sóknaraðili sé bundinn við þann samnings sem hann gerði og því komi ekki til greina að greiða vangildisbætur eða skaðabætur í öðru formi.
Af hálfu varnaraðila er mótmælt samkvæmt framansögðu að ekki hafi verið unnið að umræddum viðskiptum í samræmi við eðlilega viðskiptahætti eða að brotið hafi verið á einhvern hátt gegn ákvæðum 10. gr., sbr. 8-9. gr., 15., 16., 18., 21., 26. eða 27. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti eins og þau ákvæði voru á þeim tíma sem þessi viðskipti fóru fram. Þá er því mótmælt að Burnham International á Íslandi hf. hafi verið óheimilt að taka sér þá þóknun sem samið var um í þessum viðskiptum. Sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita um skilmála útboðsins og hafi því þekkt hvaða þóknun félagið áskildi sér. Varakrafa sóknaraðila eigi því ekki við nein rök að styðjast.
Af hálfu varnaraðili er byggt á því að ekki sé hægt að leggja til grundvallar í máli þessu að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni þar sem hann hafi enn ekki selt umrædd hlutabréf. Vel sé hugsanlegt að gengi bréfa í Digital Creative Development Corporation eigi eftir að hækka á skömmum tíma með þeim afleiðingum að sóknaraðili hagnist á umræddum viðskiptum. Ekki sé bæði sleppt og haldið. Verði ekki fallist á að hafna beri kröfum sóknaraðila alfarið sé á því byggt að í öllu falli beri að hafna kröfum hans að svo stöddu vegna þessa. Þá er upphafstíma dráttarvaxtakröfu sóknaraðila mótmælt sem röngum sem og viðmiðunargengi á Bandaríkjadal.
Niðurstaða: Af hálfu varnaraðila var skorað á sóknaraðila á dómþingi 4. nóvember sl. að leggja fram skattframtöl sín fyrir árin 1999, 2000 og 2001, svo sem fram kemur í greinargerð varnaraðila. Gæfu skattframtöl þessi ekki upplýsingar um verðbréfa-viðskipti hans, var skorað á sóknaraðila að leggja fram yfirlit yfir verðbréfaviðskipti sín í öðru formi fyrir sömu ár. Á dómþingi 16. desember sl. lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að umjóðandi hans hefði reynslu af verðbréfaviðskiptum en hafnaði að leggja fram skattframtöl hans. Þá bar sóknaraðili fyrir rétti að hafa átt nokkur viðskipti með verðbréf á undanförnum árum.
Samkvæmt framlögðu viðskiptayfirliti frá varnaraðila keypti sóknaraðili á tímabilinu 1. janúar 1997 til 31. desember 2001 verðbréf samtals að fjárhæð 124.566.933 kr. en seldi á sama tímabili verðbréf fyrir 186.907.038 kr.
Sóknaraðili viðurkenndi að hafa fengið í hendur frá Burnham International á Íslandi hf. bréf þar sem m.a. segir frá því að félaginu hafi boðist takmarkað magn hlutabréfa í Arthur Treacher´s sem seld verði eins og orðrétt segir „á genginu $1,5 ($4,5 / $1,5 - 1 = 200% undirverð) auk þóknunar. Hlutabréf þessi verða háð þeim takmörkunum að ekki má versla með þau í eitt ár eftir útgáfu þeirra („lock up period"). Ef þú hefur áhuga á að vera með í kaupum á þessum bréfum þá hafðu endilega samband, en hér gildir „fyrstur kemur, fyrstur fær". Við gerum ráð fyrir að þú vitir að hér er um áhættufjárfestingu að ræða, áhætta sem þú meðvitað tekur ef þú ákveður að kaupa hlutafé í fyrirtækinu. Kaup í þessu fyrirtæki er háð mikilli óvissu og brugðið getur til beggja vona með afkomu þess í framtíðinni. Þess má geta að meðalviðskipti á dag með bréf Arthur Treacher´s, Inc. frá byrjun febrúar 2000 eru 45.726.726 kr. Hæst 201.367.171 kr. og lægst 953.497 kr." Upplýst er að á þessum tíma var útboðsgengi á hlutabréfunum einn Bandaríkjadalur á hlut, þannig að Burnham International á Íslandi hf. lagði aukalega 50 sent á hlut sem svokallað findersfee án þess að geta þess sérstaklega í bréfi sínu. Þó má ætla að sóknaraðili hafi vitað um þetta, eða a.m.k. mátt vera það kunnugt, þar sem í bréfinu er jafnframt gefin upp slóð á veraldarvefnum þar sem leita mátti frekari upplýsinga.
Samkvæmt framangreindu verður að álykta að forsvarsmenn Burnham International á Íslandi hf. hafi ekki af ásetningi blekkt sóknaraðila til að kaupa hlutabréf eða taka þátt í útboði á hlutabréfum í fyrirtækinu Digital Creative Development Corporation - en sóknaraðili hafði eins og áður sagði reynslu á verðbréfamarkaði - heldur hafi þeir talið sig vera bjóða honum einstakt tækifæri til að hagnast verulega ef vel tækist til, sem engan vegin væri þó tryggt, enda um áhættufjárfestingu að ræða.
Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með vísun til rökstuðnings varnaraðila verður kröfum sóknaraðila hafnað.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn málskostnað af máli þessu
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Dregist hefur að kveða upp úrskurðinn vegna embættisanna dómarans.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Árna Stefáns Björnssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.