Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 23

Föstudaginn 23. apríl 1999.

Nr. 165/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Hjalti Pálmason fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðahaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 27. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 1999.

Með kröfu lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri í dag er þess krafist að X verði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 allt til þriðjudagsins 27. apríl nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglu segir að lögregla hafi að undanförnu haft til rannsóknar kærur vegna margra innbrotsþjófnaða sem framdir hafi verði í Reykjavík frá því í janúar sl. [...] Lögreglan kveðst hafa rökstuddan grun um að kærði tengist með refsiverðum hætti ofannefndum innbrotsþjófnuðum að [...].  Rannsókn málanna sé enn skammt á veg komin. Ætla megi því að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að koma undan þýfi og/eða sönnunargögnum og hafa áhrif á vitni eða samseka gangi hann laus. Ætluð brot kærða geta varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt 26. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.

Fram kemur í rannsóknargögnum að á heimili kærða fannst [...] sem nafngreindur aðili kvað eign sína og að hafði verið stolið úr íbúð að [...] hér í borg. Þá kemur fram í gögnum þessum að ummerki á hurðarkörmum á nokkrum stöðum þar sem hafa verið framin innbrot að undanförnu séu eins, þ.á.m. að [...] og er það vísbending um að sami eða sömu aðilar hafi verið að verki á þessum stöðum. Verkfæri, þ.á.m. skrúfjárn eru nú til rannsóknar hjá lögreglu og verið að kanna hvort þau hafi verið notuð við nefnd innbrot en þau fundust í tveimur töskum eins og lýst er hér að framan.

Þegar litið er til þess að þýfi fannst hjá kærða og þess að tengsl virðast vera með þeim innbrotum sem framin hafa verið í ofangreindum tilvikum þykir mega fallast á það með lögreglu að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot sem geti varðað hann refsingu skv. 26. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ef sakir sannast. Brot þessi geta varðað kærða fangelsisrefsingu og er því fullnægt skilyrði 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995 og a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt þessu verður krafa lögreglunnar í Reykjavík um að kærði X sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina og standi gæsluvarðhaldið til 27. apríl nk. kl. 16:00.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til 27. apríl nk. kl. 16:00