Hæstiréttur íslands

Mál nr. 303/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. júlí 2005.

Nr. 303/2005.

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Jón Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 1. júlí 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. september 2005 kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði bönnuð för frá Íslandi. Að því frágengnu er þess krafist að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi, en hins vegar verður því ekki markaður lengri tími en til föstudagsins 12. ágúst kl. 16.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. ágúst kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 1. júlí 2005.

                Lögreglustjórinn á Seyðisfirði hefur með beiðni dagsettri 1. júlí 2005 krafist þess að X fæddur [...]. árið 1950, litháískum ríkisborgara verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. september, 2005, kl. 15.00,  þ.e. í  tvo mánuði.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að um kl. 10:00 í gærmorgun, fimmtudaginn 30. júní 2005, er afgreiðsla farþegaferjunnar Norrænu hafi staðið yfir á Seyðisfirði, hafi komið til afgreiðslu á “grænt tollhlið” ofannefndur lithái og Y fæddur [...]. árið 1978 einnig litháenskur ríkisborgari, á bifreiðinni [...], tegund Citroen. Við leit í bifreið þeirra hafi fundust 4042,8 grömm af hvítu dufti, sem pakkað var í 26 litla plastpoka, og gefi efnið jákvæða svörun sem amfetamin. Efnið hafi verið sent til Reykjavíkur til nákvæmari rannsóknar og mælingar, en ákveðinn grunur sé um að hugsanlega sé hluti efnisins kókaín. Kærðu neiti að hafa vitað um tilvist efnanna, en hafi engar líklegar skýringar getað gefið á ferðum sínum aðrar en þær að þeir hafi verið að flytja bílinn fyrir ónefndan aðila til Íslands, og síðan hafi þeir átt að flytja bílinn út aftur til Litháen. Fyrir þetta hafi þeir átt að fá greitt. Það sé því ljóst að kærðu vissu eða máttu vita um tilvist fíkniefnanna í bílnum.

                Kærðu séu grunaðir um að hafa brotið gegn 2. mgr. 173. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940,  og 123. gr. sbr. 124. gr. tollalaga nr. 55/1987.

                Lögregla krefst gæsluvarðhalds yfir kærða með vísan til 103. gr. 1. mgr. a- og b- liðar laga 19/1991, til þess að takast megi að fullrannsaka málið, án þess að sakborningar eigi þess kost að hafa áhrif á möguleg vitni eða samseka, og einnig til þess að tryggja það að kærðu muni ekki reyna að komast úr landi eða leynast eða  koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. 

          Fyrir liggur að gríðarlegt magn ætlaðra fíkniefna fannst í bifreið þeirri sem kærði kom á til landsins í gær og er rannsókn málsins á frumstigi. Telja verður að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðar allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 173. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá liggur fyrir að kærði er litháenskur ríkisborgari og því þykir mega ætla að hann mumi reyna að komast úr landi. Er því fullnægt ákvæðum a- og b- liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að úrskurða kærða í gæsluvarðhald. Verður því krafa sýslumannsins á Seyðisfirði tekin til greina eins og hún er fram sett.

Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X fæddur [...] 1950, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. september 2005, kl. 15.00.

 

                                                                .