Hæstiréttur íslands
Mál nr. 351/2009
Lykilorð
- Læknir
- Sjúkrahús
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 25. febrúar 2010. |
|
Nr. 351/2009. |
A (Örn Höskuldsson hrl. Bergþóra Ingólfsdóttir hdl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Læknar. Sjúkrahús, Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.
A höfðaði mál á hendur Í til greiðslu bóta vegna líkamstjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir við fæðingu barns síns í mars 1995. A byggði á því að meta yrði starfsmönnum spítalans ýmis atriði til sakar er lutu að undirbúningi fæðingar, fæðingunni sjálfri, lagfæringu á skaða er hún hlaut við fæðinguna, eftirliti og eftirmeðferð. Í héraðsdómi var farið ítarlega í gegnum málsástæður A og ekki fallist á að Í væri bótaskylt vegna tjóns A. Undir rekstri málsins í héraði hafði verið aflað yfirmatsgerðar þriggja manna, þar sem tekin var afstaða til sérfræðilegra atriða varðandi læknismeðferð A. Í þeim efnum var komist að sömu niðurstöðum og gert var síðan í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp með sérfróðum meðdómsmönnum. Með því að þessu mati hafði ekki verið hnekkt var talið að staðfesta bæri héraðsdóm með vísan til forsendna hans. Var Í því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2009 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 15.218.999 krónur með 2% ársvöxtum frá 22. mars 1995 til 3. nóvember 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var undir rekstri málsins í héraði aflað yfirmatsgerðar þriggja manna 13. nóvember 2006. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón áfrýjanda hafi ekkert verið, þjáningatímabil hafi verið frá 22. mars 1995 til 16. júní 1999 þegar heilsufar hennar hafi orðið stöðugt, varanlegur miski áfrýjanda sé 15 stig og varanleg örorka 50%. Þar var einnig tekin afstaða til sérfræðilegra atriða varðandi læknismeðferð áfrýjanda, sem hún hefur talið að metin verði starfsmönnum stefnda til sakar. Í þeim efnum var komist að sömu niðurstöðum og gert var síðan í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp með sérfróðum meðdómsmönnum. Með því að þessu mati hefur ekki verið hnekkt verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, [...], [...], gegn íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu 26. nóvember 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda kr. 15.218.999,- ásamt vöxtum samkvæmt skaðabótalögum, 2% frá 22.03.1995 til 03.11.2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2002 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðherra dags. 13. júlí 2001.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að verða algerlega sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Til vara er þess krafist að stefnufjárhæð verði lækkuð stórkostlega og að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Hinn 22. mars 1995 fæddi stefnandi dóttur á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Barn þetta var þriðja barn stefnanda. Ljósmóðir og aðstoðarlæknir voru viðstödd fæðinguna. Í fæðingunni kom upp axlarklemma og hlaut stefnandi IV. gráðu áverka á spangarsvæðið í kjölfar fæðingar. Stefnandi var saumuð af sérfræðingi, sem var til staðar. Stefnandi var útskrifuð af kvennadeild 27. mars 1995. Hún fór í eftirskoðun til sérfræðings 6 vikum eftir fæðingu og síðan aftur til sama sérfræðings í mars 1997. Þá var gengið frá beiðni um aðgerð og gekkst stefnandi undir aðgerð á Sjúkrahúsi Suðurnesja í júní 1998, sem ekki bar tilætlaðan árangur.
Í málinu liggja fyrir margvísleg læknisfræðileg gögn um stefnanda og sjúkrasögu hennar. Þá liggur fyrir álitsgerð Landlæknisembættisins, dags. 9. desember 1999, matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 12. júlí 2004, yfirmatsgerð, dags. 13. nóvember 2006 og úrskurður læknaráðs frá 15 ágúst 2008.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur stefnda til greiðslu bóta vegna þess líkamstjóns sem hún hafi orðið fyrir við fæðingu barns síns 22. mars 1995 og byggir á því að sé vegna atvika sem stefndi beri bótaábyrgð á. Fjárkrafa stefnanda í málinu er byggð á mati dómkvaddra matsmanna, dags. 12. júlí 2004, en samkvæmt niðurstöðu þess er varanlegur miski stefnanda talinn vera 35% en varanleg örorka 75%.
Stefndi hafnar bótaskyldu í málinu.
Meðferð máls þessa hefur dregist mjög á langinn einkum vegna þeirra mörgu álits- og matsgerða, sem aflað hefur verið undir rekstri málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að hún hafi orðið fyrir tjóni á líkama sínum er hún fæddi sitt þriðja barn á fæðingardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss hinn 22. mars 1995. Telur stefnandi að stefndi beri húsbóndaábyrgð á því tjóni sem henni hafi verið valdið með saknæmum hætti
Þyngd tveggja fyrri barnanna hafi við fæðingu verið 3820 g og 3570 g. Vitað var að barn það sem stefnandi gekk með var stórt. Enginn sérfræðingur hafi verið viðstaddur fæðinguna, einungis ljósmóðir og aðstoðarlæknir. Var barnið við fæðingu 4270 g eða mun stærra en fyrri börn stefnanda. Fæðingin hafi gengið þannig fyrir sig að 1. stig var 5 klst. og 20 mínútur, 2. stig var 1 klst. og 10 mínútur, 3. stig fæðingarinnar var 10 mínútur. Fæðingin hafi gengið illa og var um að ræða svokallaða axlarklemmufæðingu. Er axlarklemman kom upp tók annaðhvort ljósmóðirin eða læknirinn undir hönd barnsins og togaði það út. Ekki hafi verið beitt svokölluðum spangarskurði er axlarklemman kom upp og varð við fæðinguna tjón á líkama stefnanda er spöng milli fæðingarops og endaþarms rifnaði illa. Reyndist vera um 4º spangartætingu að ræða. Er tjónið hafði orðið á líkama stefnanda var sérfræðingur loks kallaður til þess að sauma saman rifuna. Stefnandi var send heim og hafi ekkert eftirlit verið haft með henni eftir fæðinguna.
Stefnandi fór til Arnars Haukssonar sérfræðings í kvensjúkdómum í mars 1997. Taldi hann stefnanda vera með 3. gráðu spangarrifu. Samkvæmt greinargerð hans voru sárabarmarnir misvísandi og telur stefnandi að burðarbarmur hafi verið saumaður við endaþarm. Ástæða þess að stefnandi leitaði til sérfræðingsins var sú að hún hafði orðið vör við þvagleka og átti erfitt með stjórnun á hægðum. Þá hafi kynlíf hennar og eiginmanns hennar verið í molum. Gerð var aðgerð á stefnanda í Sjúkrahúsi Suðurnesja í júní 1998 þar sem reynt var að laga skemmdirnar en sú aðgerð var án árangurs. Við þá aðgerð og endurteknar ómskoðanir á endaþarmi hafi komið í ljós að bæði innri og ytri hringvöðva vantar.
Í athugasemdum Konráðs Lúðvíkssonar læknis, sem gerði aðgerðina á Sjúkrahúsi Suðurnesja, segi að stefnandi sé illa farin eftir síðustu fæðingu þegar hún rifnaði totalt og ekki verið saumuð sem skyldi. Í bréfi Björns Guðmundssonar, heimilislæknis stefnanda, til Reynis Tómasar Geirssonar, prófessors og forstöðulæknis á kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, segi að viðgerð hafi tekist mjög illa. Sé vísað til tilvitnaðra skjala um nánari lýsingar á áverkum stefnanda. Auk þess sem að framan sé rakið séu afleiðingar auk þess þær að stefnandi hafi fengið þunglyndi.
Skrifstofu Landspítala - háskólasjúkrahúss hafi verið skrifað bréf, dags. 8. mars 2001, þar sem óskað var eftir því að tekin yrði afstaða til bótaskyldu og gengið til samninga um bætur til handa stefnanda en ef bótaskyldu væri hafnað yrði lögmanni stefnanda tilkynnt um það skriflega. Bréfi þessu hafi ekki verið svarað.
Með beiðni, dags. 25. júlí 2001, var óskað eftir því að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til þess að meta nánar tiltekin atriði um undirbúning fæðingarinnar, fæðinguna sjálfa, viðgerðina á líkama stefnanda, eftirmeðferð og eftirlit. Þá var óskað eftir því að matsmenn mætu tímabundna og varanlega örorku stefnanda, varanlegan miska og þjáningatímabil. Eins og rakið er í stefnu lauk því matsferli þannig að annar matsmanna, Valur Þór Marteinsson, sendi frá sér álitsgerð 19. september 2003. Hafi álitsgerð þessi verið ófullnægjandi og sé ekki svarað öllum þeim spurningum sem lagt hafi verið fyrir matsmenn að svara. Niðurstaða matsmannsins sé þó sú að varanleg örorka stefnanda sé 75%. Að þessari niðurstöðu fenginni hafi Ríkislögmanni verið skrifað bréf og krafist bóta f.h. stefnanda og óskað eftir að tekin yrði afstaða til kröfunnar sem fyrst. Bréfi þessu hafi heldur ekki verið svarað. Í viðræðum við fulltrúa Ríkislögmanns hafi þó komið fram að æskilegt væri að gert yrði almennilegt örorkumat á stefnanda. Hafi þess vegna verið send beiðni um dómkvaðningu matsmanna til Héraðsdóms Reykjavíkur. Voru dómkvaddir þeir Gunnar Herbertsson kvensjúkdómalæknir og Guðmundur Björnsson læknir til þess að framkvæma matið og svara tilteknum spurningum sem fram koma í matsbeiðni. Þeir skiluðu matinu 12. júlí 2004. Í VII. kafla matsins segir í niðurstöðu að skoðun grindarlíffæra og legganga sé eðlileg. Spöng og endaþarmsvöðvar, ekki eðlilegt ástand, útlit samrýmist 4° rofi og ófullnægjandi viðgerð á því. Endaþarmsvöðvar í sundur á milli kl. 10-14. Niðurstaða þeirra sé sú að stefnandi hafi orðið fyrir vinnutapi í 12 mánuði, þjáningatími sé 12 mánuðir án rúmlegu. Þá sé varanlegur miski 35% og varanleg örorka 75%.
Kröfur stefnanda á hendur stefnda í máli þessu byggðar á niðurstöðum mats hinna dómkvöddu matsmanna og sundurliðast svo:
|
Vinnutap 4 mánuðir á kr. 138.890,- |
Kr. 555.560,- |
|
Þjáningabætur án rúmlegu hámarksbætur |
“ 275.544,- |
|
Varanlegur miski kr. 5.511.000, x 35% |
“ 1.928.850,- |
|
Varanleg örorka 833.344,- x 2 = 1.666.688,- ÷ 3402 x 4687 x 6% = 1.766.689,x 7,5 x 75% |
“ 13.691.258,- |
|
Til frádráttar vegna aldurs 9% |
“ 1.232.213,- |
|
Alls |
“ 15.218.999,- |
Í kröfugerð þessari sé miðað við laun stefnanda árið 1994 en þá var stefnandi í hálfu starfi. Árslaun hennar séu því tvöfölduð. Við launin sé bætt 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og sú fjárhæð sem þannig fæst sé verðbætt til nóvember 2004 samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. A var [...] ára þegar tjónsatburðurinn varð og séu bætur til hennar því skertar um 9% samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga. Dráttarvaxta sé krafist frá því einum mánuði eftir að krafa var gerð á hendur stefnda hinn 3. október 2003.
Málsástæður þær sem stefnandi byggir á eru eftirfarandi:
Undirbúningur: Stefnandi telur að undirbúningur fæðingarinnar hafi verið ófullnægjandi. Ekki hafi verið gerð nein grindarmæling á stefnanda. Starfsmenn stefnda hafi mátt gera ráð fyrir að axlarklemma gæti komið upp þar sem barn það sem stefnandi gekk með var stórt. Talið sé að þegar barn sé 4000 g stóraukist líkurnar á að axlarklemma komi upp. Ennfremur þegar 2. stig fæðingar dragist á langinn svo sem var raunin í umrætt sinn. Reynslan af fyrri fæðingum stefnanda hafi átt að vera starfsfólki stefnda tilefni til aukinnar varkárni við fæðinguna
Fæðingin: Ekki hafi átt að láta stefnanda fæða um fæðingarveg þar sem vitað var að barnið var stórt og hún hafði áður orðið fyrir skaða við fæðingu. Er erfiðleikar komu upp í fæðingunni hefði átt að beita spangarskurði strax til þess að koma í veg fyrir tjón. Enginn sérfræðingur hafi verið viðstaddur fæðinguna og hafi ekki verið kvaddur til þegar axlarklemman kom upp. Telur stefnandi að ekki hafi verið brugðist rétt við er axlarklemman kom upp og beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að vinnubrögð hafi verið rétt.
Viðgerð: Lagfæring á skaða þeim sem stefnandi hlaut við fæðinguna hafi verið illa gerð og saumaskapur þannig að burðarbarmar voru saumaðir við endaþarm.
Eftirmeðferð: Ekkert eftirlit og engin eftirmeðferð hafi verið af hálfu starfsmanna stefnda eftir fæðinguna. Ekki hafi tekist að bæta úr skaða þessum og kveðst stefnandi búa við afleiðingar þessa það sem eftir sé ævinnar. Telur stefnandi að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að ekki hafi skipt máli að sérfræðingur var ekki viðstaddur. Stefnandi hafi orðið fyrir verulegum miska. Haldi stefnandi hvorki þvagi né hægðum og hafi stefnandi ekki getað stundað kynlíf vegna skaðans. Búi stefnandi því við skert lífsgæði eftir líkamstjón þetta. Um útreikning skaðabótakröfu vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993.
Um málskostnað vísar stefnandi til 129. gr. og 130. gr. eml. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggist á því að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og beri henni nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Á því er byggt af hálfu stefnda að eðlilega hafi verið að staðið að allri læknismeðferð og læknisþjónustu sem stefnandi fékk hjá starfsmönnum Landspítala fyrir og eftir fæðingu barns hennar 22. mars 1995, m.a. meðgöngueftirliti, fæðingu, fæðingarhjálp, viðgerð á spangarrifu eftir fæðingu og eftirfylgd vegna stefnanda. Öðru er mótmælt sem röngu og ósönnuðu.
Stefnandi virðist byggja mál sitt upp með þeim hætti að telja allt starf í þágu stefnanda á sjúkrahúsinu ein allsherjar mistök sem leiða eigi til bótaskyldu. Af hálfu stefnda sé þessum málatilbúnaði harðlega mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá sé einnig að finna rangfærslur í stefnu sem mótmælt sé sem röngum.
Í stefnu komi fram í málsástæðukafla að stefnandi telur að undirbúningur fæðingarinnar hafi verið ófullnægjandi. Ekki hafi verið gerð grindarmæling á stefnanda. Starfsmenn stefnda hafi mátt gera ráð fyrir að axlarklemma gæti komið upp þar sem barn það sem stefnandi gekk með hafi verið stórt og talið sé að þegar barn sé 4000 g stóraukist líkurnar á að axlarklemma komi upp. Ennfremur þegar 2. stig fæðingar dragist á langinn svo sem hafi orðið raunin í umrætt sinn. Reynslan af fyrri fæðingum stefnanda hafi átt að vera starfsfólki stefnda tilefni til aukinnar varkárni við fæðinguna. Framangreindum málsástæðum stefnanda sé mótmælt.
Undirbúningur fæðingar hafi verið með venjulegum hætti að mati stefnda og ekkert tilefni hafi verið til þess að gera grindarmælingu hjá stefnanda frá fæðingarfræðilegu sjónarmiði. Engin gögn í málinu styðji fullyrðingar stefnanda um að undirbúningur fæðingar hafi verið ófullnægjandi að mati stefnda.
Því sé mótmælt sem röngu að vitað hafi verið að barn það sem stefnandi gekk með hafi verið stórt. Vísast í þessu sambandi m.a. til greinargerðar Reynis T. Geirssonar til Landlæknisembættisins, dags. 9. apríl 1999 og til framlagðrar mæðraskrár. Hvergi í mæðraeftirlitinu var getið um að barnið væri stórt. Þyngdaraukning stefnanda hafi verið rétt yfir meðalþyngdaraukningu íslenskra kvenna eða um 15 kg. Stefnandi sé sjálf meðalmanneskja á hæð og legbotnsmál voru neðan við meðallag. Í færslum úr mæðraeftirliti sé ekki getið um að barnið hafi verið óvanalega stórt og ekkert sérstakt tilefni var til að ætla að svo myndi vera. Stefnandi hafi ekki tilgreint neina heimild að baki málsástæðu sinni um að þegar barn sé 4000 g stóraukist líkurnar á að axlarklemma komi upp og verði ekki séð að svo sé. Barnið hafi sennilega verið um 1½ meðalfráviki ofan við meðalþyngd íslenskra barna á þeim tíma og þó það hafi verið nokkuð stórt, þá hafi það ekki verið í hópi þeirra barna sem talin séu óeðlilega stór. Því sé það rangt og því mótmælt að starfsmenn stefnda hafi mátt gera ráð fyrir að axlarklemma gæti komið upp þar sem barn það sem stefnandi gekk með hafi verið stórt.
Þá skuli þess getið að stefnandi reykti, sem gerði líklegra en ella að barnið yrði ekki mjög stórt, þar sem börn mæðra sem reykja séu að meðaltali um 200300 grömmum léttari við fæðinguna. Engir sérstakir áhættuþættir voru skráðir. Ekkert hafi bent til meðgöngusykursýki hjá stefnanda (sem gæti tengst stærra barni). Allt framangreint hafi verið vel innan eðlilegra marka og gat einungis gefið vísbendingu um að búast mætti við að barnið yrði meðalstórt eða svipað og tvö fyrri lifandi börn konunnar. Hvergi var getið um það í mæðraskránni að barnið hafi verið talið óeðlilega stórt, hvorki á meðgöngu né fyrir fæðinguna.
Þess sé getið í sama lið í málsástæðukafla í stefnu að þegar annað stig fæðingar dragist á langinn aukist líkur á axlarklemmu. Þetta sé rétt, en þess skuli þá getið að annað stig fæðingar var ekki tiltakanlega langt (1 klst. og 10 mínútur) og ekki mikið yfir meðaltíma hjá fjölbyrjum samkvæmt rannsóknum á lengd annars stigs fæðingar. Ljósmóðir með ágæta reynslu var með konuna í fæðingunni og mátti fyllilega treysta henni til að höndla fæðinguna vel og kalla á hjálp þegar til þurfti að taka, eins og hún reyndar gerði.
Ekki sé hægt að sjá á hverju sú málsástæða sé byggð að reynslan af fyrri fæðingum stefnanda hafi átt að vera starfsfólki stefnda tilefni til aukinnar varkárni við fæðinguna og sé þessu mótmælt. Matsmenn hafi engar athugasemdir gert við undirbúning fæðingar að mati stefnda. Engin athugasemd hafi verið gerð vegna undirbúnings fæðingar samkvæmt álitsgerð Landlæknisembættisins, dags. 9. desember 1999.
Í stefnu kemur fram að ekki hefði átt að láta stefnanda fæða um fæðingarveg þar sem vitað hafi verið að barnið hafi verið stórt og hún hafði áður orðið fyrir skaða við fæðingu. Er erfiðleikar komu upp í fæðingunni hefði átt að beita spangarskurði strax til þess að koma í veg fyrir tjón. Enginn sérfræðingur hafi verið viðstaddur fæðinguna og hafi ekki verið kvaddur til þegar axlarklemman kom upp. Telur stefnandi að ekki hafi verið brugðist rétt við er axlarklemman kom upp og beri stefndi sönnunarbyrði fyrir því að vinnubrögð hafi verið rétt. Framangreindum málsástæðum stefnanda sé mótmælt sem röngum.
Fyrr sé að því vikið að barnið hafi ekki verið óeðlilega stórt og engin rök voru gegn því að láta stefnanda fæða um fæðingarveg og sé öðru mótmælt sem röngu, enda ekki stutt neinum rökum úr gögnum málsins eða fæðingarfræðilegum rökum. Sérfræðilæknir leit til konunnar nokkru fyrir fæðinguna, vissi af henni og var tiltækur. Aðstoðarlæknir í sérnámi í fæðingahjálp var viðstaddur fæðinguna.
Erfiðleikar hafi komið í ljós þegar höfuð barnsins var fætt. Þá geti verið erfitt að beita spangarskurði og þess sé heldur ekki alltaf þörf. Óvíst sé með öllu hvort spangarskurður hefði komið í veg fyrir rifnun spangarinnar til viðbótar eða hvort viðgerð hefði verið auðveldari eftir þá aðgerð. Það var meiri nauðsyn á að ná barninu sem fyrst niður og það var gert með réttri aðferð að mati stefnda.
Með vísan í greinargerð Reynis T. Geirssonar til Landlæknisembættisins, dags. 9. apríl 1999 hnígi að mati stefnda auk þess líkur til þess að spöngin hafi ekki verið þannig eftir fyrri fæðingarnar að nein veruleg fyrirstaða hafi verið þar og því með öllu óvíst að spangarskurður hefði komið að nokkru sérstöku gagni til að varna skaða í þessu tilviki. Fyrir því sé almenn reynsla og þekking úr fæðingafræði. Ekki hafi því verið bein ábending fyrir hendi um spangarskurð og óvíst að sú aðgerð hefði breytt neinu.
Bent sé á að matsmenn töldu að ekki hefði verið ástæða til eða rétt að taka barnið með keisaraskurði. Að mati stefnda hafi engin læknisfræðileg ábending verið til þess að gera keisaraskurð eða ráðleggja stefnanda slíkt. Ekkert bendi til að það hafi verið rætt í meðgöngunni eða fyrir fæðingu.
Stefnandi haldi því fram að enginn sérfræðingur hafi verið viðstaddur fæðinguna og hafi ekki verið kvaddur til þegar axlarklemman kom upp. Vísað sé til ofanskráðs. Stefnandi var á sérhæfðri fæðingardeild með fulla vaktþjónustu. Sérfræðilæknirinn vissi af konunni í fæðingu, unnt var að ná til læknisins innan mjög skamms tíma með sérstöku kalltæki og þar sem sérfræðilæknir sé stöðugt á vakt inni á deildinni. Aðstoðarlæknir í sérnámi og því með ákveðna fagþekkingu hafi einnig verið á vakt og viðstaddur fæðinguna. Sá læknir hafi strax gripið til réttra handbragða til að ná barninu fram ósködduðu sem sé megin tilgangur fæðingaaðgerða ef axlaklemma virðist geta verið komin til í fæðingu. Bent sé á að ljósmóðirin sé einnig fagaðili með þekkingu og reynslu af fæðingarhjálp, þ.m.t. í því hvað gera eigi við axlarklemmu. Allar aðstæður hafi því verið eins og venjulega sé að gert ef ekki sé búist við sérstökum vandkvæðum í fæðingu.
Stefnandi byggi á því að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að vinnubrögð hafi verið rétt þegar axlarklemman kom upp. Því sé mótmælt sem röngu að sönnunarbyrði verði snúið við með þessum hætti. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem hún haldi fram. Engin rök séu fyrir því að snúa sönnunarbyrði við eða að slaka á sönnunarkröfum. Engin gögn styðji hins vegar fullyrðingar stefnanda að mati stefnda.
Í stefnu sé á því byggt að lagfæring á skaða þeim sem stefnandi hlaut við fæðinguna hafi verið illa gerð og saumaskapur þannig að burðarbarmar hafi verið saumaðir við endaþarm. Framangreindum málsástæðum stefnanda og fullyrðingum sé mótmælt sem röngum og ósönnum. Slíkur saumaskapur sé tæknilega vart mögulegur og kæmi alls ekki til greina hjá þjálfuðum sérfræðilækni. Stefnandi rugli hér saman útliti spangarinnar við aðgerð löngu seinna og heimfæri það á fæðingaraðgerðina, þegar hið rétta sé að spöngin hafi verið saumuð með eðlilegum („anatómískum“) hætti, en hafi síðan brotnað smám saman niður á allöngum tíma af ástæðum sem ekki tengist upprunalegu aðgerðinni.
Þegar stefnandi kom til fæðingar 22. mars 1995 var um að ræða [...] ára gamla komu sem var að eiga sitt þriðja barn. Fyrsta barnið var fætt 15 árum áður, þ.e. árið 1980 og vó 3820 g og var 54 sm. á lengd, fætt við 40 viku. Þyngd þessa barns hjá frumbyrju var yfir meðallagi á þeim tíma. Þá var gerð hægri mediolateral episiotomy (hægri hliðlægur spangarskurður úr miðlínu) af reyndri ljósmóður, Soffíu K. Valdimarsdóttur, en þá sást einnig að rifnað hafði niður í spangarskurðinn. Ljósmóðirin saumaði rifuna og spangarskurðinn með venjulegum hætti á þeim tíma. Óvíst er hvort skemmd á hringvöðva var saumuð, ef hún varð við þessa fæðingu. Vakin er athygli á að aðstoðarlæknir færðist undan að sauma, en ljósmóðirin gerði það þá. Við eftirskoðun, 5-6 vikum eftir fæðinguna virtist allt vera eðlilega gróið.
Önnur fæðing konunnar var [...] á Landspítalanum, [...] árum fyrir þriðju fæðinguna sem stefnt er út af. Þá fæddi stefnandi stúlkubarn sem vó 3570 g og var 52 cm á lengd, fætt á tíma. Sú fæðing virðist hafa gengið vel en í ljós kom eftir fæðingu að konan hafði rifnað í miðlínu niður að endaþarmsopi. Samkvæmt skoðun fæðingalæknis þá, Guðmundar Steinssonar, var ekki hægt að sjá að neinir vöðvaþræðir hefðu farið í sundur og hún var saumuð á venjulegan hátt. Eftirskoðun fór ekki fram á Landspítala.
Vakin sé athygli á því að á forsíðu mæðraskrár stefnanda [...] er skráð:
„Partus cum rupt perinei 2°“.
Þetta þýði að talið var að hringvöðvi hafi ekki rifnað, en útilokar ekki eldri skemmd að hluta til í hringvöðvanum sem hefði getað verið kominn áður. Í lýsingu á rifnuninni (spangartætingu) þá segir að rifnað hafi „í miðlínu niður að endaþarmsopi“, sem ekki hefði gerst í fullkomlega heilli spöng án þess að rifnun í ósködduðum vöðvanum hefði sést.
Stefnandi rifnaði eins og að framan sé lýst við fæðingu 22. mars 1995. Ragnheiður I. Bjarnadóttir, sérfræðilæknir lýsir þá fjórðu gráðu tætingu á spöng þannig að sphincter ani externus, ytri hringvöðvinn, hafi farið í sundur. Hún segir í athugasemd sinni að konan hafi viljað forðast svæfingu, en verið mjög samvinnuþýð. Ragnheiður hafi deyft hana á venjulegan hátt. Hún hafi saumað eins og vani sé fyrst vaginal slímhúðina fram að leggangaopinu (introitus vaginae), síðan hafi verið saumuð rifa í endaþarms slímhúðinni og síðan settir 3 stakir átta-tölu saumar í hringvöðvann (sphincter vöðvann) og bandvefinn utan við hann (fasciuna). Ekki sé þess getið hvaða saumur var notaður í þetta en 2/0 og 3/0 Polysorb® saumar (polyglycol þráður með endingu í um þrjár vikur) voru notaðir í saumana í spönginni (perineum) og leggangahúðina. Fram komi í greinargerð Reynis T. Geirssonar prófessors til Landlæknisembættisins að Ragnheiður hafi tjáð Reyni T. Geirssyni prófessor sem ritaði þá umsögn að hún hafi venjulega notað chrome catgut í hringvöðvasvæðið. Sá þráður hafi verið viðurkenndur, eins og polyglycol til þessara sauma á þeim tíma og hafi verið það besta sem þá var tiltækt. Eftir aðgerðina hafi Ragnheiður þreifað um endaþarm (rektalt) og um leggöng (vaginalt) eins og vani sé og staðfesti að góð bryggja hafi verið á milli legganga og endaþarms eftir sauminn. Stefnandi hafi fengið til öryggis paraffin-olíu eftir fæðinguna til að mýkja hægðirnar og sýklalyf í forvarnaskyni. Það hafi verið í samræmi við bestu þá- og núgildandi venjur. Jafnframt hafi Ragnheiður fylgst með konunni á útskriftartímanum og allt virtist ganga vel. Hún hafi sjálf útskrifað konuna 27. mars 1995 og þá virtist spöngin (perineum) vera að gróa vel og góð spenna (tónus) í hringvöðvanum.
Stefndi bendir á að stefnandi hafði rifnað tvisvar sinnum áður í fyrri fæðingum sínum, þannig að viss skaði á hringvöðvanum gæti hafa verið kominn til áður og þó einkum eftir fæðinguna [...] eins og að ofan sé rakið. Reyndur sérfræðingur, Guðmundur Steinsson, hafi saumað hana þá, en mjög erfitt geti verið að sjá þynningu á hringvöðvanum vegna hlutatætingar hans svo löngu seinna.
Í síðustu fæðingunni, árið 1995, hafi stefnandi verið saumuð vandlega af ungum en vel reyndum sérfræðingi, sem þá hafði nýverið lokið sérfræðinámi. Sérfræðingurinn hafði eytt 2 árum á virtu háskólasjúkrahúsi erlendis og fengið einnig góða reynslu á Landspítalanum, bæði fyrir og eftir dvöl sína á hinu erlenda háskólasjúkrahúsi. Alls hafði Ragnheiður á þessum tíma 6 ára reynslu eftir kandídatsár, þar af 5 ár í sérnámi og 1 á skurðdeild Borgarspítalans. Hún hafi því verið vel reynd og dómbær á þessar aðstæður og að mati stefnda ekki unnt að gera betur við þennan áverka en þarna hafi verið gert.
Það sé álit Reynis Tómasar Geirssonar prófessors í fyrrgreindri greinargerð að þarna hafi fyrri skaði á hringvöðva endaþarmsins hugsanlega verið fyrir hendi (með tilvísun í lýsingu á skaða [...] og viðgerð á honum) og það hafi leitt til þess að þegar konan rifnaði aftur og vöðvamassi sem eftir var rifnaði alveg, þá hafi í reynd verið erfitt að ná fullum styrk á vöðvann og spangarvefina á ný, þar sem aðeins hafi verið unnt að sjá nýjan skaða og ekki eldri skaða þar sem vöðvahlutar höfðu dregist inn í örvef til hliðar við miðju spangarinnar. Stefnandi hafi verið saumuð vel, en það sé hinsvegar vel þekkt að perineum geti smám saman brotnað niður þegar hluti spangarvefjanna sé fyrst og fremst örvefur. Það gerist einmitt með þeim hætti að saumasvæðið opnast á yfirborðinu í sköpunum og niður í átt að endaþarmi og nýtt húðyfirborð (epithelialisering) myndist með vaginal húð sem nær niður í átt að endaþarminum. Innan við það hafi vefirnir ekki gróið nægilega vel því þar hafi verið bandvefur sem hafi teygst á, þannig að hald fyrir vöðvann hafi verið lítið framan til í spönginni, enda lýsi Konráð Lúðvíksson því í aðgerðarlýsingu sinni að erfitt hafi verið að sjá nokkra vöðvafasa á þessu svæði.
Annað vinnulag hafi verið viðhaft á árunum 1980 og 1985 en árið 1995. Ekkert bendir til að viðgerðin 1995 hafi ekki verið eins vel gerð og unnt var og góð upphafsbrú í spönginni myndast þegar sárið greri (per primam). Gamall örvefur og gömul skemmd með öðrum þáttum sem hafa áhrif á gróanda í sárum (s.s. reykingar) hafi hins vegar smám saman leitt til þess að örið gliðnaði og greri á ný (per secundam) með þeirri skemmd á hringvöðva sem ekki sé á móti mælt að kona hafi. Þar hafi hinsvegar ekki verið um að kenna slökum vinnubrögðum við viðgerð eftir fæðinguna 1995.
Ekki hafi verið gerð athugasemd við viðgerð í álitsgerð landlæknis, dags. 9. desember 1999. Vísast jafnframt til greinargerðar Reynis T. Geirssonar og til bréfs Arnars Haukssonar læknis til landlæknis, dags. 24. ágúst 1999. Þar sé ástandi spangarinnar lýst sem nokkuð vel gróinni um sjö vikum eftir fæðinguna. Dómkvaddir matsmenn styðja þessi sjónarmið stefnda.
Gert hafi verið við rifuna með venjulegum vönduðum og eðlilegum hætti. Viðgerðin verði að gróa í fyrstu atrennu (per primam). Verði svo ekki komi það í ljós nokkru eftir fæðinguna (yfirleitt nokkrum vikum síðar). Þá verði að bíða og gera viðbótaraðgerð síðar. Saum í spangarrifu af þessu tagi sé ekki hægt að endurtaka strax, heldur þurfi nýja viðgerð eftir talsvert hlé á algerlega óbólgnum vef til að betur takist til. Viðgerð fyrr hefði verið hættuleg. Á það sé líka bent á ný að skoðun Arnars Haukssonar, sérfræðilæknis, bendi ekki til að slíks hefði gerst þörf. Engu hefði breytt að hafa eftirfylgd nánari en hér var gert og ráðgert, enda spöngin að því er virtist að gróa vel við heimferð konunnar af fæðingastofnuninni. Eftir aðgerð hafi stefnandi fengið sýklalyf og hægðalyf (paraffín) til forvarnar. Við útskrift virtist lækninum sem saumaði hana sem viðgerðin hefði tekist vel og hafi þá ekki verið annað að gera en bíða þess að hún greri vel. Ekkert benti til þess við útskrift af deildinni að svo yrði ekki.
Því miður sé megin fylgikvillinn, sem stefnandi hlaut, þ.e. að geta ekki haldið hægðum nægilega vel, ekki óalgengur eftir rifnun af þessu tagi. Um það sé vísað í nýlegar klínískar leiðbeiningar frá Royal College of Obstetricians and Gynaecologists (Management of third and fourth degree perineal tears, following vaginal delivery), sérstaklega til greinar 3.2. og meðfylgjandi nýlega grein frá Stokkhólmi (Zetterström, J. et al.: Obstetric sphincter tears and anal incontinence, an observational follow-up study. Acta Obstet Gynecol Scand 2003;822-3, 921-928). Þar komi fram að í allt að helmingi tilfella takist viðgerð ekki nægilega vel. Þar geti verið um að kenna ófullnægjandi viðgerð, en því hafi ekki verið til að dreifa í þessu tilviki. Fyrri skaði á endaþarms-hringvöðvanum geti einnig átt þátt í að einkenni, sem áður voru ekki áberandi, komi fram eftir næstu fæðingu. Það sé ekki hægt að útiloka að hluti af vandamálinu kunni að hafa tengst fyrri fæðingum stefnanda, eins og fram komi í gögnum málsins (sjá greinargerð Vals Þ. Marteinssonar læknis, bls. 1, 3. mgr., og bls. 2, 5. mgr., liður 2). Þá megi geta þess að hér var verið að sauma á mjög bakteríumenguðu svæði. Það auki, ásamt reykingum stefnanda, áhættu fyrir því að saumar í hringvöðvanum haldi ekki. Eins og fram komi í fyrrnefndri greinargerð Reynis T. Geirssonar til Landlæknisembættisins hafi verið vani að konum væri vísað til frekara eftirlits og eftirskoðunar eftir fæðingu til þess sérfræðilæknis eða heimilislæknis sem þær sjálfar kusu að fara til. Stefnandi hafi leitað til læknis utan deildarinnar eftir fæðingu og hafi ekki komið til meðferðar síðar þar.
Stefnandi byggi á því að ekkert eftirlit og engin eftirmeðferð hafi verið af hálfu starfsmanna stefnda eftir fæðinguna. Ekki hafi tekist að bæta úr skaða þessum. Fram kemur að stefnandi telji að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að ekki hafi skipt máli að sérfræðingur hafi ekki verið viðstaddur. Framangreindum málsástæðum stefnanda og fullyrðingum er mótmælt sem röngum.
Ragnheiður I. Bjarnadóttir, læknir, hafi fylgt stefnanda eftir fram að heimferð. Á þeim tíma hafi verið vanalegt að vísa konum til eftirmeðferðar til þess kvensjúkdómalæknis sem þær kusu sjálfar eða til heimilislæknis og var það iðulega nefnt af/við lækni eða ljósmóður við útskrift. Konur voru sér almennt meðvitaðar um nauðsyn eftirskoðunar. Ekki sé ástæða til að ætla að þessu hafi verið öðruvísi farið í þessu tilviki. Stefnandi hafi farið til Arnars Haukssonar, sérfræðilæknis, á venjulegum eftirskoðunartíma, þ.e. þann 9. maí 1995. Því sé alvarleg rangfærsla í stefnu, sem sé mótmælt sem rangri, þar sem fram komi að stefnandi hafi fyrst hitt Arnar í mars 1997. Þann 9. maí 1995 hafi virst sem gróandi í sárinu væri ekki óeðlilegur að mati læknisins. Hér megi bæta við að hefði konan verið boðuð t.d. 1-2 vikum eftir heimferð til skoðunar og í ljós hefði komið þá að sárið hefði ekki verið að gróa nægilega vel, hefði ekkert sérstakt verið hægt að gera annað en að varna sýkingu og bíða þess hvernig sárið myndi gróa endanlega, eins og nefnt sé að ofan. Fullnaðarviðgerð verði þá að fara fram með nýrri aðgerð síðar, þegar bólga sé farin úr sárinu.
Í stefnu segi varðandi umfjöllun um eftirmeðferð að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að ekki hafi skipt máli að sérfræðingur hafi ekki verið viðstaddur. Augljóst sé á mæðraskrá að sérfræðingurinn Ragnheiður I. Bjarnadóttir hafi saumað spangarrifuna og sé málsástæðu þessari mótmælt.
Það hafi ekki verið í verkahring Kvennadeildar að sjá um eftirmeðferð og hugsanlega endurhæfingu nema við sérstakar aðstæður, enda ekkert í gögnum deildarinnar sem hafi bent til að eftir slíku hafi verið leitað þegar vandkvæði konunnar urðu ljós. Konunni hafi þannig ekki verið vísað aftur til deildarinnar úr eftirskoðuninni hjá Arnari Haukssyni lækni.
Matsmenn telji í framlagðri matsgerð að eftirlit eftir áverka í fæðingu hafi verið nauðsynlegt u.þ.b. 6 mánuðum eftir fæðingu og að nánara eftirlit af hálfu Kvennadeildar hefði verið til mikilla bóta og stuðnings fyrir sjúkling, með tilliti til markvissrar meðferðar eftir að ljóst var að viðgerð hafði ekki tekist eftir fæðinguna. Stefndi vísar til framanritaðra málsástæðna sinna. Á því sé byggt að eftirmeðferð hafi verið fullnægjandi af hálfu Kvennadeildar. Tjónið varð við fæðingu 22. mars 1995 að mati stefnda og hafi engri sök verið til að dreifa hjá starfsmönnum sem stefndi beri ábyrgð og stefndi telur ekki að önnur eftirmeðferð hefði breytt hlutunum. Stefnandi hitti sérfræðing 6 vikum eftir fæðingu og var því komin úr umsjá Kvennadeildar. Á það sé bent að stefnanda hafi ekki verið vísað aftur til Kvennadeildarinnar, heldur vísað annað í aðgerð sem framkvæmd var 3 árum eftir fæðingu. Þá hafi stefnandi ekki heldur sjálf leitað til Kvennadeildar. Eftirlit 6 mánuðum eftir fæðingu, þar sem allt virtist vera að gróa eðlilega, hefði verið mjög óvanaleg ráðstöfun.
Stefndi bendi á framlagt bréf Arnars Haukssonar. Þess skuli getið til skýringar að hann tali þar um III° spangarrifu, sem er það sama og nú er kallað IV° spangarrifa, þegar spöngin rifnar aftur í endaþarm. Arnar segir: „... voru sárabarmar nokkuð misvísandi ...“ og bendir á að konan hafði tvær eldri rifur í spöng. Þá segir hann „... nú hafði einnig orðið smágliðnun í spangarörinu, sem var að gróa per secundam“. Hann segir að konan hafi ekki haft teljandi óþægindi frá örinu og vonir hafi staðið til að þessi litla gliðnun við skoðun um sjö vikum eftir fæðinguna, á eðlilegum eftirskoðunartíma mundi ekki valda henni óþægindum. Engin sýkingarmerki voru sjáanleg að hans mati. Arnar Hauksson geti ekki um nein sérstök óþægindi stefnanda í greinargerð sinni og ekki um þvagleka og erfiðleika með stjórnun á hægðum, sem talað sé um í stefnu. Hið sama eigi við um kynlíf, sem í stefnunni sé í þessari sömu málsgrein sagt „í molum“. Arnar Hauksson taki fram að hún hafi ekki haft teljandi óþægindi frá örinu og ekki hafi verið farið að láta reyna á kynlíf þegar eftirskoðunin fór fram á læknastofu hans. Hér sé því ekki farið rétt með í stefnu.
Þá sé bent á að í bréfi Arnars komi fram að stefnandi hafi fengið fyrirmæli um að hún léti vita af sér ef svo færi að hún fengi óþægindi svo gera mætti ráðstafanir til að bæta úr. Hún hafi fengið ráðleggingar um grindarbotnsæfingar. Af stefnu megi ráða að næsta koma stefnanda til Arnars hafi verið í mars árið 1997. Skorað sé á stefnanda að leggja fram læknisfræðileg gögn um skoðanir hjá Arnari Haukssyni og öðrum læknum sem stefnandi hafi leitað til og ekki sé að finna í gögnum málsins.
Þvaglekavandamál stefnanda tengist ekki viðgerð á spönginni eftir fæðinguna með neinum beinum hætti. Líklegra sé að fæðingin sjálf geti hafa haft slík áhrif á grindarbotn og taugar (innervation). Þar verði þó líka að líta til fyrri fæðinga konunnar. Þessi fæðing sem hér um ræðir hófst eðlilega, gangur hennar hafi verið eðlilegur allt fram að axlarklemmunni, sem ekki hafi verið alvarleg heldur.
Á því sé byggt af hálfu stefnda að eftirmeðferð stefnanda hafi verið vönduð og tilhlýðileg að öllu leyti og að öll viðbrögð starfsmanna stefnda hafi verið rétt. Því sé mótmælt að starfsmenn stefnda hafi gert mistök. Á því sé byggt að túlkun lækna á ástandi stefnanda á hverjum tíma hafi verið rétt og að viðbrögð starfsmanna stefnda leiði ekki til bótaskyldu stefnda. Á því sé byggt að stefnandi hafi fengið góða læknismeðferð og starfshættir lækna verið í fullu samræmi við ákvæði laga og annarra reglna um skyldur þeirra.
Vakin sé athygli á því að umsagnir um ástand stefnanda frá mismunandi aðilum séu ekki alveg samhljóða, m.a. m.t.t. vandkvæða hennar varðandi hægða- og þvaglát.
Á því sé byggt að stefnandi hafi fengið vandaða og góða læknismeðferð af hálfu starfsmanna sem stefndi beri ábyrgð á.
Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem kröfu hans viðkomi og að einhver annar eigi að bera meint tjón hans en hann sjálfur, þ.m.t. um orsakatengsl milli athafna eftir atvikum athafnaleysis starfsmanna sem stefndi beri ábyrgð á og meints tjóns stefnanda en einnig að meint tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af athöfnum eftir atvikum athafnaleysi þeirra.
Á því sé byggt af hálfu stefnda að ekki sé fullnægt skilyrðum skaðabótaréttar fyrir bótaskyldu stefnda, m.a. að ekki sé fyrir að fara orsakasambandi milli athafna, eftir atvikum athafnaleysi, starfsmanna sem stefndi beri ábyrgð á og meints tjóns stefnanda og ekki heldur að meint tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af athöfnum eða eftir atvikum athafnaleysi starfsmanna sem stefndi ber ábyrgð á, en einnig að ekki sé fullnægt skilyrðum sakarreglunnar eða annarra bótareglna um sök og ólögmæti. Ekki sé fullnægt skilyrðum skaðabótareglna að nokkru leyti.
Á því sé byggt af hálfu stefnda að orsakir tjóns tengist ekki læknisverkum, athöfnum eða meintu athafnaleysi starfsmanna stefnda. Orsök tjóns stefnanda var að mati stefnda ófyrirséð axlarklemma og undirliggjandi veikleiki svæðisins en hugsanlegt sé að vöðvinn hafi verið rifinn að hluta (skemmdur, en starfhæfur) vegna fyrri fæðinga stefnanda. Einnig sé vísað til annarra skýringa um orsakir til greinargerðar þessarar. Að mati stefnda hefði ekki verið hægt að gera betur við eftir að stefnandi rifnar í fæðingu 1995. Því sé tjón stefnanda ekki vegna vanrækslu starfsmanna stefnda. Því sé alfarið hafnað að orsakir tjóns séu vegna skorts á eftirmeðferð.
Þá bendi stefndi á að mál þetta sé höfðað rétt áður en 10 ára fyrningarfrestur líði og verði stefnandi að bera hallann af þeim vandkvæðum sem skapast kunni af þeim drætti á málshöfðun.
Stefnandi fékk dómkvadda matsmenn þann 27. ágúst 2001. Hafi þeir engan matsfund haldið og skiluðu matsmenn ekki sameiginlegri matsgerð af sér. Skilaði þó annar matsmanna álitsgerð, dags. 19. september 2003. Í beiðni lögmanns stefnanda um endurdómkvaðningu, dags. 17. mars 2004, komi fram að sú álitsgerð hafi verið ófullnægjandi. Stefndi telur að ekki verði byggt á henni í málinu og sé henni mótmælt þar sem hún sé ekki í samræmi við dómkvaðningu dómara. Að mati stefnda fullnægi hún ekki skilyrðum matsgerðar samkvæmt lögum nr. 91/1991. Niðurstöðu hennar sé mótmælt að því leyti sem hún fari í bága við það sem stefndi haldi fram í málinu. Því sé mótmælt að misbrestur hafi orðið á eftirliti af hálfu Kvennadeildar. Stefndi sé einnig ósammála álitsgerð um að hið sama gildi um eftirmeðferð og hugsanlega endurhæfingu eftir áverkann. Vísar stefndi til fyrri rökstuðning síns framar í greinargerð þessari. Þjáningartímabili frá 22.3.199519.9.2003 sé mótmælt sem fráleitu. Áliti um miskastig 75% auk 75% varanlegrar örorku sé mótmælt sem allt of háu. Hins vegar bendi stefndi á að í lið 1 komi fram hjá álitsgefanda að óvíst sé hvort eftirlit af hálfu Kvennadeildar hefði haft breytingar í för með sér hvað varðar horfur stefnanda eftir fæðingu. Undir lið 2 bendi hann á að ljóst sé að ákveðinn vefja- og taugaskaði hafi orðið við fyrri tvær fæðingar. Undir lið 3 bendi hann á að í dag hafi stefnandi mjög óverulegan þvagleka. Stefndi telur eins og áður segir að fráleitt sé að stefndi geti borið ábyrgð á þvagleka stefnanda.
Í málinu liggi fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna. Í upphafi hennar sé þess ranglega getið að matsbeiðnin sé sameiginleg af hálfu aðila. Þessa atriðis sé einnig ranglega getið í matsbeiðni. Hið rétta sé að lögmenn aðila töldu fyrri álitsgerð algerlega ófullnægjandi og að fram þyrfti að fara annað mat. Matsbeiðnin stafi hins vegar alfarið frá stefnanda og spurningar séu einhliða samdar af honum og matsbeiðni og allt henni tengt sé alfarið á ábyrgð stefnanda, enda stefndi matsþoli. Stefndi tók engan þátt í að útbúa spurningar til matsmanna og í þeim felist engin afstaða af hálfu stefnda.
Stefndi mótmælir matsgerðinni frá 12. júlí 2004 sem rangri að því leyti sem hún fari í bága við það sem stefndi haldi fram í þessu máli. Fyrr í greinargerð þessari sé fjallað um svör við liðum 1, 2, 3 og 4 og sé vísað til efnislegrar umfjöllunar um þau atriði, en matsmenn geri engar athugasemdir við störf starfsmanna stefnda vegna þeirra liða. Vegna liðar 5a og 5b vill stefndi taka fram að matsmenn telji eftirlit á fæðingardeild fullnægjandi fram að útskrift. Vakin sé athygli á því að matsmenn telja ekkert gefa til kynna að viðgerð hafi verið slæm. Stefndi sé hins vegar ósammála matsmönnum ef hann skilur matsgerð rétt að betra hefði verið að ákveða eftirlit u.þ.b. 6 mánuðum eftir fæðingu. Telji þeir nauðsynlegt eftirlit u.þ.b. 6 mánuðum eftir fæðingu. Vísað sé til fyrri athugasemda hér að framan varðandi álit matsmanna en að mati stefnda liggi ekki fyrir að hve miklu leyti þeir telji eftirmeðferð hafi skipt máli fyrir stefnanda. Þá greini þeir ekki sundur tjón vegna fæðingar og vegna þess sem þeir telji að hafi vantað upp á við eftirmeðferð. Stefndi mótmælir mati matsmanna varðandi meintan skort á eftirliti og eftirmeðferð af hálfu stefnda. Þá sé því mótmælt að dregið sé inn í mat þeirra þvagvandamál stefnda og vandamál tengt samlífi. Örorkumati sé mótmælt sem allt of háu í öllum liðum. Sérstaklega sé miskastigi og varanlegri örorku mótmælt sem allt of háum. Bent sé á í þessu sambandi að víða í gögnum málsins sé fjallað um að stefnandi hafi í raun ekki hægðaleka heldur óöryggistilfinningu og bráðaþörf og haldi ekki lofti en hvort tveggja sé algengt eftir áverka á hringvöðva í fæðingu. Auk þess sé hún með þvagleka, sem tengist ekki áverkum á spöng. Stefnda sýnist af gögnum málsins að hún hafi ekki misst hægðir. Þá telur stefndi að ekki komi nægilega fram um möguleika hennar til að afla sér tekna. Áskilinn sé réttur til að óska eftir og leggja fram yfirmat eða að óska eftir við dómara að kallað verði eftir áliti læknaráðs eða hvort tveggja.
Stefndi vill taka fram að mótmælt sé á bls. 9 í matsgerð: „... ófullnægjandi viðgerð á því ...“. Þetta sé í ósamræmi við niðurstöðu matsmanna og sé vísað til rökstuðnings stefnda hér að framan.
Skorað sé á stefnanda að upplýsa nánar um umferðarslys sem getið sé á bls. 4 í matsgerð og leggja fram öll gögn varðandi mat og bætur fyrir það slys.
Þá bendir stefndi á að fram komi í gögnum málsins, þ.m.t. matsgerð, að hugsanlega sé hægt að framkvæma aðgerð til að freista þess að laga vandamál stefnanda. Ekki hafi enn orðið af þeirri aðgerð. Fram komi hjá matsmönnum að þeir telji að með nýrri aðgerð séu u.þ.b. helmingslíkur á að hægt sé að bæta ástand með tilliti til saurheldni á formaðar og lausar hægðir. Væntingar með loftheldni séu heldur minni. Þar virðist koma fram að tekist hafi að stöðva þvagleka.
Engin gögn liggi að mati stefnda fyrir um þunglyndi stefnanda eða orsakatengsl við atburð þann sem fjallað sé um í máli þessu og sé því mótmælt að þetta atriði sé tekið með í mat á ástandi stefnanda í þessu máli.
Þá séu einnig ósönnuð tengsl atburðar sem fjallað sé um í máli þessu við samlíf stefnanda.
Stefndi vísar til álits landlæknis frá 9. desember 1999. Þar segir á bls. 1:
„Ekki kemur fram í sjúkraskrá að A hafi verið boðuð í endurkomu á kvennadeild eða vísað bréflega til annars kvensjúkdómalæknis til eftirlits þrátt fyrir þennan alvarlega skaða. Þar má segja að hafi orðið viss misbrestur í meðferðinni “
Stefndi sé ósammála þessu og vísar til fyrri rökstuðnings í greinargerð þessari. Stefndi tekur hins vegar undir álit landlæknis að öðru leyti, m.a. að ekki verði séð að rangri meðferð eða alvarlegri vanrækslu sé um að kenna. Að mati stefnda var engri vanrækslu um að kenna.
Að mati stefnda hafi engin mistök verið gerð af hálfu starfsmanna sem stefndi beri ábyrgð á og sé öðru mótmælt sem röngu og ósönnuðu.
Því sé mótmælt að sönnunarbyrði verði snúið við varðandi einhverja þætti í þessu máli. Til þess séu ekki skilyrði að mati stefnda og ekki séu að hans mati heldur skilyrði til að slakað sé á sönnunarkröfum í málinu. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem tjóni hans viðkomi. Vakin sé athygli á að ekki sé byggt á að snúa eigi sönnunarbyrði við eða að slaka eigi á sönnunarkröfum vegna eftirlits og eftirmeðferðar stefnanda.
Stefndi mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda.
Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Til vara gerir stefndi þá kröfu að stefnukrafa verði lækkuð stórkostlega og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi mótmælir matsgerð/örorkumati því sem fyrir liggi í málinu sem allt of háu í öllum liðum þess. Áskilinn sé réttur til yfirmats og/eða að fengið verði álit læknaráðs. Vísað sé til rökstuðnings fyrir aðalkröfu hér að framan og þeirra atriða sem þar komi fram að öðru leyti. Telur stefndi að matsmenn hafi ekki litið nægilega til 5. gr. skaðabótalaga um að líta beri til þeirra kosta sem tjónþoli eigi til að afla sér tekna. Þá sé á matsgerð sá verulegi galli að ekki sé gerður neinn greinarmunur á óumflýjanlegu tjóni vegna áverka í fæðingu og annarra atriða annars vegar og meintrar sakar stefnda hins vegar eins og nauðsynlegt hefði verið að gera.
Öllum liðum og fjárhæðum vegna kröfugerðar stefnanda sé mótmælt sem of háum.
Þess sé krafist að tekið verði tillit til greiðslna sem stefnandi hafi fengið úr umferðarslysi því sem lýst sé í matsgerð. Sett hafi verið fram áskorun um að leggja fram gögn um það.
Krafa um vinnutap í 4 mánuði og fjárhæð þá sem gerð sé krafa um sé að mati stefnda algerlega vanreifuð og sé mótmælt.
Þá sé mótmælt þeirri aðferð stefnanda að tvöfalda laun sín sem tekjuviðmiðun. Engin heimild sé fyrir því í lögum, heldur eigi að miða við heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð, sbr. 1. mgr. 7. gr. þágildandi ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Tekjur stefnanda þann tíma voru 833.344 krónur. Engin sönnun liggi auk þess fyrir því að stefnandi hafi aðeins verið í ½ dags vinnu. Engir launaseðlar hafi verið lagðir fram og engir ráðningarsamningar.
Þá sé á því byggt að vextir eldri en 4 ára frá birtingardegi stefnu séu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Mótmælt sé upphafstíma dráttarvaxta og á því byggt að þeir eigi ekki að reiknast fyrr en í fyrsta lagi frá höfðun málsins.
Stefndi vísar til sömu raka, sjónarmiða og málsástæðna til stuðnings varakröfu og gert sé varðandi aðalkröfu.
Niðurstaða
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að hún hafi orðið fyrir tjóni á líkama sínum er hún fæddi sitt þriðja barn á fæðingardeild Landspítala háskólasjúkrahúss hinn 22. mars 1995. Telur stefnandi að stefndi beri húsbóndaábyrgð á því tjóni og afleiðingum þess sem henni hafi verið valdið með saknæmum hætti.
Málsástæður stefnanda, sem bótakröfur eru byggðar á, lúta að undirbúningi fæðingar, fæðingunni sjálfri, lagfæringu á skaða er hún hlaut við fæðinguna, eftirliti og eftirmeðferð.
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda.
Stefnandi byggir á því að undirbúningur fæðingarinnar hafi verið ófullnægjandi. Ekki hafi verið gerð grindarmæling á stefnanda. Þá hafi starfsmenn stefnda mátt gera ráð fyrir að axlarklemma gæti komið upp þar sem barn það sem stefnandi gekk með var stórt. Talið sé að þegar barn sé 4000 g stóraukist líkurnar á að axlarklemma komi upp. Ennfremur þegar II stig fæðingar dragist á langinn sem hafi orðið raunin í umrætt sinn. Reynslan af fyrri fæðingum stefnanda hafi átt að vera starfsfólki stefnda tilefni til aukinnar varkárni við fæðinguna. Að áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna mun grindarmæling stundum hafa verið gerð á þessum árum ef grunur var um mjög stórt barn, en í dag sé grindarmæling talin hafa lítið spágildi um hvernig fæðing gangi hjá konum þar sem barn sé í höfuðstöðu. Grindarmæling sé þó enn notuð við undirbúning sitjandi fæðinga. Það var því ekki ástæða til þess að gera grindarmælingu á stefnanda. Þess beri einnig að geta að konan hafði fætt tvö börn áður sem voru af eðlilegri stærð.
Legbotnsvaxtarrit í mæðraskrá er neðan við meðallag og því er ekkert í mæðraskrá sem benti til að konan gengi með óeðlilega stórt barn. Stefnandi bar fyrir dómi að ljósmóðir hefði rætt við hana að barnið væri líklega 15 merkur, sem enn frekar bendir til þess að ekki hafi verið búist við að barnið væri óeðlilega stórt. Þess beri einnig að geta að íslenskt barn sem er 4,2 kg við fæðingu telst ekki tiltakanlega stórt. Þó svo að tíðni axlarklemma aukist með vaxandi fæðingarþyngd verður helmingur axlarklemma hjá börnum sem vega minna en 4 kg. Þá sé það ekki rétt að II stig fæðingar hafi verið óvenjulega langt, því þegar tímasetningar í fæðingarlýsingu eru skoðaðar kemur í ljós að rangt var reiknað og 2. stig var í raun 45 mín. sem er eðlileg lengd 2. stigs hjá fjölbyrju. Fyrri fæðingar gengu vel ef marka má mæðraskrár. Þannig voru engir þættir til staðar sem bentu til að það væru auknar líkur á axlarklemmu.
Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að undirbúningur fæðingarinnar hafi verið ófullnægjandi.
Stefnandi byggir á því að ekki hefði átt að láta hana fæða um fæðingarveg þar sem vitað var að barnið var stórt og hún hafði áður orðið fyrir skaða við fæðingu.
Eins og fyrr greinir var ekki ástæða til að ætla að barnið væri mjög stórt, enda reyndist svo ekki vera. Samkvæmt mæðraskrám gengu fyrri fæðingar vel, en meðdómsmenn telja þó að hugsanlegt sé að það hafi orðið djúpur skaði á spönginni eftir aðra fæðingu. Sérfræðingurinn sem saumaði hana þá staðhæfir þó að ekki hafi sést í þræði endaþarmshringvöðvans og á mæðraskrá var skráð að um 2. gráðu rifu hefði verið að ræða og ekki væri saga um að stefnandi hefði átt vandræði með hægðastjórnun eftir þá fæðingu. Samkvæmt leiðbeiningum (t.d. Royal College of Obstetricians and Gynaecologists) í dag sé talið eðlilegt að kona stefni að fæðingu um leggöng þó hún hafi haft rifu á endaþarmshringvöðva áður, svo fremi að hún hafi ekki haft vandamál á eftir. Það var því ekki ástæða til að gera keisaraskurð, heldur var eðlilegt að stefna að fæðingu um leggöng.
Við fæðinguna hlaut stefnandi IV. gráðu skaða á spöng og endaþarmshringvöðva, sem sérfræðingur saumaði saman. Stefnandi byggir á því að þegar erfiðleikar komu upp í fæðingunni hefði átt að beita spangarskurði strax til þess að koma í veg fyrir tjón. Að áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna getur spangarskurður komið til greina við meðferð á axlarklemmu, en hann sé ekki alltaf nauðsynlegur (sjá t.d. Royal College of Obstetricians and Gynaecologists). Þá hafi rannsóknir sýnt að spangarskurður sé ekki verndandi fyrir III. IV. gráðu rifu og auki jafnvel líkur á slíkum rifum. Það telst því ekki rangt þótt ekki hafi verið gerður spangarskurður.
Stefnandi byggir á því að enginn sérfræðingur hafi verið viðstaddur fæðinguna og hafi ekki verið kvaddur til þegar axlarklemman kom upp.
Af fæðingarlýsingu verður ráðið að aðstoðarlæknir hafi verið viðstaddur fæðinguna og er það stutt með vitnisburði aðstoðarlæknis og ljósmóður. Sérfræðingur var ekki viðstaddur fæðinguna, en vissi af konunni í fæðingu því hann hafði litið til hennar um morguninn og talið allt vera í eðlilegum gangi. Ekki var talin sérstök hætta á axlarklemmu og því ekki ástæða til að sérfræðingur væri viðstaddur fæðinguna. Hér ber að hafa í huga að sérfræðingurinn er á vakt og tiltækur með mjög stuttum fyrirvara.
Stefnandi telur að ekki hafi verið brugðist rétt við er axlarklemman kom upp og beri stefndi sönnunarbyrði fyrir því að vinnubrögð hafi verið rétt.
Af fæðingaskrá og vitnisburði er það ljóst að aðstoðarlæknirinn losaði barnið úr axlarklemmunni sem kom upp við fæðinguna. Samkvæmt fæðingarlýsingu var beitt réttum handtökum að mati hinna sérfróðu meðdómsmanna, aðstoðarlæknir þrýsti fyrst ofan lífbeins og tók síðan við af ljósmóður og losaði barnið með því að toga í holhönd og þannig fæddist barnið. Samkvæmt fæðingarlýsingu og barnaskrá tók 2 mín. að losa axlirnar, þ.e.a.s. barnið fæddist 2 mín. eftir að það stóð á öxlum. Barnið jafnaði sig fljótt en var með merki um hálstaugafléttu lömun, sem mun síðar hafa jafnað sig. Hér verður að hafa í huga að axlarklemma er lífshættulegt ástand fyrir barnið sem skaðast vegna súrefnisskorts eða deyr ef ekki tekst að losa klemmuna innan nokkurra mínútna.
Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að nokkuð sé við það að athuga að stefnandi var látin fæða barn sitt um fæðingarveg, viðbúnaður vegna fæðingar var eðlilegur svo og viðbrögð aðstoðarlæknis og ljósmóður er axlarklemma kom upp í fæðingunni.
Stefnandi byggir á því að lagfæring á skaða þeim sem hún hlaut við fæðinguna hafi verið illa gerð og saumaskapur þannig að burðarbarmar hafi verið saumaðir við endaþarm.
Hinir sérfróðu meðdómsmenn eru ósammála þessu og telja ekkert í gögnum málsins sem bendi til að illa hafi verið staðið að saumaskap við fæðinguna. Sérfræðingur sá sem saumaði IV. gráðu skaða á spöng og endaþarmshringvöðva lýsir því vel hvernig staðið var að viðgerðinni. Af þeirri lýsingu að dæma var staðið að saumaskapnum á þann veg sem talið var best á þeim tíma. Í dag væri notað annað saumaefni vegna þess að nú er talið að meiri hætta sé á niðurbroti ef saumað er með krómcatgut saum, en þetta var ekki vitað 1995. Sérfræðingur lýsir því að í lok aðgerðar hafi verið góð uppbygging á spönginni og endaþarmshringvöðvinn með góðum tonus og var svipuð lýsing við útskrift af sjúkrahúsinu 5 dögum síðar. Eftir viðgerðina var stefnandi sett á sýklalyf og hægðamýkjandi efni sem í dag sé talið rétt að gera, en á þessum tíma, 1995, var það alls ekki alltaf gert að setja konur á sýklalyf eftir skaða á endaþarmshringvöðva. Skoðun Arnars Haukssonar læknis við 6 vikur benti ekki heldur til þess að endaþarmshringvöðvinn væri rofinn eða spöngin fallin niður, þó svo enn væri sár í leggangaopinu sem þyrfti að gróa. Þeir sérfræðingar sem komu fyrir dóminn voru sammála um að þó allt sé rétt saumað þá geti viðgerðin smám saman brotnað niður. Þótt endaþarmsvöðvinn væri í sundur 2 árum síðar sé það ekki sönnun fyrir því að illa hafi verið saumað. Hér er átt við að örvefur sem myndast þegar vefir eru saumaðir geti gliðnað með tímanum. Í gögnum máls sé ekki að finna stoð fyrir þeirri staðhæfingu að burðarbarmur hafi verið saumaður við endaþarm er viðgerð var framkvæmd. Telja meðdómendur að ályktanir um það megi rekja til þess að horft sé á niðurstöðuna eftir að vöðvar spangarinnar og hringvöðvi endaþarmsins hafa brotnað niður og þá virðist sem minni barmar tengist niður að endaþarmi.
Samkvæmt framansögðu verður að telja ósannað að illa hafi verið staðið að saumaskap við fæðinguna eða viðgerð hafi að öðru leyti verið ábótavant.
Stefnandi byggir á því að ekkert eftirlit og engin eftirmeðferð hafi verið af hálfu starfsmanna stefnda eftir fæðinguna.
Samkvæmt gögnum máls lá stefnandi á sjúkrahúsi í 5 daga eftir fæðinguna og var þá útskrifuð af sérfræðingi eins og vera ber eftir IV. gráðu rifu. Stefnanda var síðan vísað í eftirskoðun til síns sérfræðings, 6 vikum eftir fæðingu, sem er mjög reyndur á þessu sviði og var þetta samkvæmt viðteknum vinnureglum á þeim tíma. Það var ekki venja á þessum tíma að konur kæmu í eftirlit á kvennadeild LSH eftir III.-IV. gráðu viðgerðir, sbr. framburð Gunnars Herbertssonar læknis fyrir dómi. Það eftirlit sem fyrir var lagt eftir útskrift stefnanda af sjúkrahúsinu var því samkvæmt venju. Stefnandi fékk fyrirmæli að láta vita af sér ef svo færi að hún fengi óþægindi svo gera mætti ráðstafanir til að bæta úr. Fékk einnig ráðleggingar um grindarbotnsæfingar. Stefnandi kom ekki í skoðun aftur fyrr en árið 1997.
Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram að eftirmeðferð og eftirlit eftir fæðingu af hálfu stefnda hafi verið ábótavant.
Stefnandi byggir á því að afleiðing spangarskaðans sem hún hlaut við fæðinguna sé þvagleki, hægðaleki og vandamál við kynlíf. Með því að ekki er fallist á, eins og að framan er rakið, að mistök hafi átt sér stað er viðgerð var framkvæmd eða eftirmeðferð hafi verið ábótavant af hálfu starfsmanna stefnda eru ekki efni til að fjalla sérstaklega um þessi atriði.
Þegar allt framangreint er virt er ekki fallist á að stefndi sé bótaskyldur vegna tjóns stefnanda og ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður, en allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Arnar Höskuldssonar hrl. 747.000 kr. með virðisaukaskatti.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Alexander Smárasyni og Önnu M. Helgadóttur sérfræðingum í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Arnar Höskuldssonar hrl. 747.000 kr. með virðisaukaskatti.