Hæstiréttur íslands
Mál nr. 430/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Viðbótarkrafa
- Fullnaðarkvittun
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
- Stjórnarskrá
- Afturvirkni
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2013. |
|
Nr. 430/2013. |
Landsbankinn hf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Flugastraumi ehf. (Freyr Ófeigsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Endurgreiðsla ofgreidds fjár. Stjórnarskrá. Afturvirkni.
F ehf. krafði L hf. um endurgreiðslu fjár sem félagið taldi sig hafa ofgreitt á grundvelli samnings félagsins og S hf. um fjármögnun kaupa á dráttarvél. Laut deila aðila í fyrsta lagi að því hvort umræddur samningur hefði verið lánssamningur með ólögmætri tengingu lánsfjárhæðarinnar við gengi erlendra gjaldmiðla eða leigusamningur þar sem slík tenging væri heimil. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að samningurinn hefði samkvæmt efni sínu og framkvæmd samningsaðila öll helstu einkenni lánssamnings og var því litið svo á að S hf., sem síðar sameinaðist L hf., hefði veitt F ehf. lán sem S hf. hefði kosið að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að um lánssamning hefði verið að ræða í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 en ekki leigusamning. Í öðru lagi deildur aðilar um fjárhæð þess sem F ehf. endurkrafði L hf. um vegna ólögmætrar gengisviðmiðunar. L hf. andmælti ekki skyldu sinni til endurgreiðslu en taldi sér heimilt að krefja F ehf. um vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 á lánstímanum í stað samningsvaxta. Við það myndaðist viðbótarkrafa um vexti fyrir liðna tíð sem nam muninum á samningsvöxtum og vöxtum Seðlabanka Íslands. F ehf. andmælti þessu og taldi ekki skilyrði að lögum til að krefja sig um viðbótarvexti fyrir liðna tíð. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og laga nr. 151/2010 var fallist á með L hf. að hann ætti, ef ekki kæmi annað til, rétt til þess að lánsfjárhæðin bæri vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Hæstiréttur vísaði í framhaldinu til þeirrar meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétti til, ætti kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt væri. Sú regla sætti þó undantekningum sem leiddu til þess að við sérstakar aðstæður væri tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslu hafnað. Styddust undantekningarnar meðal annars við sjónarmið um öryggi í viðskiptum og að það gæti haft í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum fjárhæðum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar. Þá rakti Hæstiréttur til hvaða sjónarmiða skyldi litið þegar metið væri hvort skilyrði væru til að víkja frá meginreglunni og tók fram að í þeim efnum réði heildarmat. Þegar öll þessi sjónarmið væru virt í heild í ljósi atvika málsins yrði að líta svo á að L hf. gæti ekki krafið F ehf. um vaxtagreiðslur til viðbótar þegar greiddum vöxtum fyrir liðna tíð. Lög nr. 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001 gætu ekki hróflað svo að íþyngjandi væri með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Af þessu leiddi að skilyrði væru í málinu til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu og hafna þar með tilkalli L hf. til viðbótarvaxta fyrir liðna tíð. Var endurgreiðslukrafa F ehf., eins og hún var fram sett, því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu SP-Fjármögnun hf. og stefndi samning 11. júlí 2006 með fyrirsögninni „Fjármögnunarleigusamningur“. Aðdragandi þess var sá að sumarið 2006 vantaði stefnda dráttarvél vegna landbúnaðarstarfsemi sinnar að Fremri-Fitjum í Húnaþingi vestra. Mun forsvarsmaður félagsins hafa séð auglýsingu um að til sölu væri hjá Sturlaugi Jónssyni og Co ehf. dráttarvél af gerðinni Landini Legend DT130 og náð samkomulagi símleiðis við sölumann um verð og kaup á vélinni með fyrirvara um skoðun. Í framhaldinu mun forsvarsmaður stefnda hafa farið til Reykjavíkur og prófað vélina, greitt fyrri hluta útborgunar kaupverðs til seljandans 7. júlí 2006, og farið við svo búið norður með vélina. Í millitíðinni mun hafa fengist munnleg staðfesting á að SP-Fjármögnun hf. myndi fjármagna kaupin. Kaupsamningur var gerður milli Sturlaugs Jónssonar og Co ehf. og SP-Fjármögnunar hf. og vélin skráð eign hins síðarnefnda í ökutækjaskrá. SP-Fjármögnun hf. afsalaði dráttarvélinni til stefnda 2. nóvember 2011, þegar öllum greiðslum samkvæmt samningnum 11. júlí 2006 var lokið, og var dráttarvélin í framhaldinu skráð á nafn stefnda í ökutækjaskrá á grundvelli tilkynningar til Umferðarstofu sem móttekin var 9. sama mánaðar. SP-Fjármögnun hf. og fjármögnunarfyrirtækið Avant hf. sameinuðust á árinu 2011 undir merkjum áfrýjanda.
II
Efni samningsins 11. júlí 2006 og þeirra almennu skilmála SP-Fjármögnunar hf. sem voru hluti hans er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er og lýst efni þess skjals sem fulltrúar stefnda og SP-Fjármögnunar hf. undirrituðu samtímis samningnum og bar fyrirsögnina „Yfirlýsing um bindandi kauptilboð“. Ágreiningur í málinu er í aðalatriðum tvíþættur. Í fyrsta lagi er um það deilt hvert hafi verið eðli samningsins 11. júlí 2006. Áfrýjandi telur samninginn leigusamning sem hafi fallið utan sviðs laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi verið heimilt að binda fjárhæðir í honum við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefndi telur á hinn bóginn að um lánssamning hafi verið að ræða sem átt hafi undir reglur framangreindra laga og þar á meðal óundanþægt bann þeirra við því að binda fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Verði samningurinn 11. júlí 2006 talinn lánssamningur greinir málsaðila í öðru lagi á um fjárhæð þess sem stefndi endurkrefur áfrýjanda um vegna ólögmætrar gengisviðmiðunar í samningnum. Áfrýjandi heldur því fram að hann eigi rétt til þess að krefja stefnda um vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af lánsfjárhæðinni í stað þeirra samningsvaxta sem stefndi greiddi af láninu. Við það myndast krafa á hendur stefnda um viðbótarvexti fyrir liðna tíð sem nemur muninum á vöxtum Seðlabanka Íslands og greiddum samningsvöxtum. Þessu andmælir stefndi og telur að ekki séu að lögum skilyrði til að krefja hann um greiðslu viðbótarvaxta fyrir liðna tíð. Málsástæður aðila sem að framangreindu lúta eru raktar í hinum áfrýjaða dómi.
III
Eins og áður greinir bar samningurinn 11. júlí 2006 fyrirsögnina „Fjármögnunarleigusamningur“ og í formála hans sagði að sönnu að þar væri fjallað um framsal á afnotarétti. Í samningnum var einnig vísað til leigumunar, leigutíma og leigugjalds og í almennum skilmálum sem honum fylgdu var vísað til leigusala og leigutaka. Á hinn bóginn voru í samningnum ákvæði um vexti er greiða skyldi samhliða mánaðarlegu leigugjaldi, sem í 4. gr. almennu skilmálanna var nefnt afborgun, og í yfirliti áfrýjanda um stöðu samningsins var greiðslum samkvæmt honum skipt í afborganir og vexti. Skipting greiðslna í afborganir og vexti tíðkast og á vel við í lánssamningum þar sem lánsfjárhæðin er endurgreidd á lengri tíma og skipt niður í fleiri greiðslur, en hún á engan veginn við í leigusamningum. Í skilmálabreytingu þeirri sem stefndi og SP-Fjármögnun hf. gerðu 14. nóvember 2008 var samningstíminn lengdur og þar rætt um breytingar á skilmálum leigusamnings, en á hinn bóginn var tekið fram að á næstu fimm gjalddögum skyldu eingöngu greiðast vextir og höfuðstólsgreiðslur hefjast að nýju 1. maí 200[9]. Jafnframt var skilmálabreytingin í skjalinu nefnd skuldbreyting. Skipting samningsgreiðslna í vexti og höfuðstól á eðli máls samkvæmt vel við í lánssamningum en engan veginn í leigusamningum og hinu sama gegnir um notkun orðsins skuldbreyting.
Í 1. gr. samningsins 11. júlí 2006 sagði að seljandi væri Sturlaugur Jónsson og Co ehf. og að samningsverð væri 2.700.000 krónur, en það mun hafa verið umsamið kaupverð dráttarvélarinnar. Tilgreining seljanda og samningsverðs verður að teljast harla óvenjuleg í leigusamningi en getur eftir atvikum átt við í lánssamningi sem fjármagnar kaup lántaka. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. almennu skilmálanna skyldi leigutaki áður en leigutími hæfist velja „muni og eftir atvikum framleiðanda, innflytjanda, seljanda og farmflytjanda“ og semja „um framleiðslu- og söluskilmála, ábyrgðarskilmála og annað er máli skiptir varðandi sölu, afhendingu og ástand muna.“ Slíkt ákvæði á ekki við í leigusamningi en getur eftir atvikum átt við í lánssamningi sem fjármagnar kaup. Í 20. gr. almennu skilmálanna ræddi um hvernig uppgjör skyldi fara fram ef samningnum væri slitið eða honum rift samkvæmt 19. gr. eða öðrum heimildum í samningnum eða lögum. Við þær aðstæður skyldi leigutaki „greiða leigusala til viðbótar gjaldfallinni en ógreiddri leigu ... alla áður ógjaldfallna leigu fyrir tímabilið sem eftir var af leigutímanum áður en riftun eða samningsslit voru tilkynnt ... frá tilkynningardegi til greiðsludags.“ Samningsákvæði sem þetta ber öll einkenni heimildar kröfuhafa til að eindaga ógjaldfallnar eftirstöðvar kröfu sinnar og er tíðkanlegt í lánssamningum en fjarri fer að það geti átt við í leigusamningum eðli þeirra samkvæmt. Er þá haft í huga að við riftun leigusamnings fellur niður skylda leigutaka til áframhaldandi greiðslu á leigu þótt leigusali geti eftir atvikum krafið leigutaka um bætur vegna missis leigutekna að því afstöðnu.
Samkvæmt íslenskum rétti hefur sá lengi verið talinn helsti skilsmunur kaupleigusamninga annars vegar og fjármögnunarleigusamninga hins vegar að með kaupleigusamningi eignist leigutaki þann hlut, sem er andlag samnings, við lok samningstíma eða eigi kauprétt að honum, en við lok lágmarksleigutíma fjármögnunarleigusamnings verði leigutaki ekki eigandi hlutarins án þess að til frekari samninga komi. Samhliða gerð samningsins 11. júlí 2006 undirrituðu fyrirsvarsmenn stefnda og SP-Fjármögnunar hf. svokallaða yfirlýsingu um bindandi kauptilboð og er efni hennar rakið í hinum áfrýjaða dómi. Yfirlýsing þessi er afar ruglingsleg og rekur þar sig hvað á annars horn. Af efni hennar og tengslum við samninginn 11. júlí 2006 verður þó helst sú ályktun dregin að stefndi skyldi sjálfkrafa og án þess að til frekari greiðslna kæmi verða í lok samningstímans eigandi dráttarvélarinnar eða í það minnsta eiga rétt til kaupa kysi hann svo. Þessi virðist og hafa verið skilningur bæði stefnda og SP-Fjármögnunar hf. á efni yfirlýsingarinnar því í tölvubréfi starfsmanns hins síðarnefnda til forsvarsmanns stefnda 1. nóvember 2011 sagði að staða samningsins þann dag væri 931.517 krónur og að búið væri að greiða nóvember gjalddaga eins og yfirlit bæri með sér. Tekið var fram í tölvubréfinu að stefndi gæti greitt inn á tiltekinn bankareikning og síðan sagði: „Sendu mér kvittun í tölvupósti, ég mun í kjölfarið láta útbúa eigendaskipti yfir á Flugastraum og senda þér í pósti.“ Þessu svaraði fyrirsvarsmaður stefnda samdægurs í tölvubréfi þar sem tilkynnt var að umrædd greiðsla hefði verið innt af hendi með fyrirvara um rétt til endurkröfu vegna ólögmætrar gengistryggingar. Þá sagði í svarbréfinu: „Vinsamlegast sendið gögn vegna eigendaskipta yfir á Flugastraum með hraði (á lögheimili Flugastraums ehf. ...“ Það mun starfsmaður SP-Fjármögnunar hf. hafa gert og er tilkynning um eigendaskipti eins og fyrr segir dagsett 2. nóvember 2011. Af þessu verður eins og stefndi heldur fram sú ályktun dregin að skráning dráttarvélarinnar á nafn SP-Fjármögnunar hf. hafi í reynd aðeins þjónað hlutverki tryggingar fyrir því að stefndi stæði við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum 11. júlí 2006.
Þegar framangreind atriði eru virt í heild verður lagt til grundvallar að þótt samningurinn 11. júlí 2006 sé nefndur fjármögnunarleigusamningur sé það orðið tómt. Samningurinn hafði samkvæmt efni sínu og framkvæmd samningsaðila öll helstu einkenni lánssamnings og verður samkvæmt því litið svo á að SP-Fjármögnun hf. hafi umrætt sinn veitt stefnda lán sem bankinn kaus að klæða í búning leigusamnings samkvæmt stöðluðum samningsskilmálum sínum. Er því lagt til grundvallar úrlausn málsins að hér hafi verið um að ræða lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 en ekki leigusamning.
IV
Málatilbúnaður stefnda er á því reistur að þar sem ákvæði samningsins 11. júlí 2006 um bindingu lánsfjárhæðarinnar við gengi erlendra gjaldmiðla hafi verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001 skuldbindi þau hann ekki. Vísar hann í því sambandi til dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Þar komi fram að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um annan grundvöll verðtryggingar en þann sem stoð sé fyrir í lögunum. Þar sem ákvæði í samningnum 11. júlí 2006 um tengingu lánsfjárhæðarinnar við gengi erlendra gjaldmiðla hafi verið í andstöðu við fyrirmæli laganna eigi stefndi rétt til endurgreiðslu þess sem ofgreitt var vegna hinnar ólögmætu gengisviðmiðunar. Samkvæmt framlögðum endurútreikningi á láni stefnda er heildarfjárhæð þess sem hann greiddi í afborganir og vexti af láninu 3.762.161 króna. Frá þeirri fjárhæð dregur stefndi höfuðstól lánsins, 2.160.000 krónur, og greidda samningsvexti, 478.973 krónur, og fæst þá fjárhæð endurkröfu hans, 1.123.188 krónur, og sætir hún ekki tölulegum ágreiningi. Í kröfunni þannig fram settri felst að stefndi telur sér einungis skylt að greiða samningsvexti af höfuðstól lánsins. Áfrýjandi andmælir því ekki að sér beri að endurgreiða stefnda fjárhæð sem svarar til þess sem lánið hækkaði vegna gengistryggingar en telur sig hins vegar eiga rétt til þess að draga frá þeirri fjárhæð muninn á umsömdum vöxtum, sem stefndi hafði þegar greitt af láni í íslenskum krónum með ólögmætri gengisviðmiðun, og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur áfrýjandi í varakröfu sinni ekki gert kröfu um að tiltekin fjárhæð, er nemi vangoldnum viðbótarvöxtum fyrir liðna tíð, verði dregin frá endurgreiðslukröfu stefnda en áfrýjanda var í lófa lagið að haga kröfugerð sinni á þann veg. Ágreiningslaust er hins vegar að endurútreikningur áfrýjanda felur í sér viðbótarkröfu hans um vexti fyrir liðna tíð og að fjárhæð hennar nemi 568.053 krónum.
V
Í forsendum dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 kom meðal annars fram að umsamin vaxtakjör af gengisbundnu láni hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess sem fyrir lægi að óheimilt hefði verið að kveða á um. Þegar virt væri að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak. Lægi enda fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti. Var komist að þeirri niðurstöðu að um þá skyldi fara eftir 4. gr. laga nr. 38/2001. Í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010 og nr. 471/2010 voru sett lög nr. 151/2010 þar sem meðal annars 18. gr. þeirra var breytt og með almennum hætti mælt fyrir um hvernig standa skyldi að uppgjöri lána með ólögmætri gengisviðmiðun. Voru ákvæði laganna efnislega í samræmi við síðastnefndan dóm og er samkvæmt því fallist á með áfrýjanda að hann eigi, ef ekki kemur annað til, rétt til þess að lánsfjárhæðin beri vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 á samningstímanum.
Eins og rakið hefur verið í nokkrum dómum Hæstaréttar, til dæmis dómi réttarins 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, er það meginregla kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó, eins og nánar er rakið í síðastgreindum dómi, undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans til viðbótargreiðslu verði af þeim sökum þó einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Að baki undantekningunum búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum og um að það geti haft í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum fjárhæðum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar.
Þau atriði, sem samkvæmt dómafordæmum verður að líta til við mat á því hvort svo standi á, eru í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að það réttlæti að viðbótarkröfu sé hafnað. Í þriðja lagi hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til þess að vangreitt var. Í því sambandi skiptir einkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími leið frá því mistök komu fram þar til krafa var höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök urðu, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Ekkert eitt þessara atriða ræður úrslitum um hvort vikið verði frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu, heldur ræður þar heildarmat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari eru rökin fyrir því að víkja frá meginreglunni.
VI
Þegar metið er hvort skilyrði séu í máli þessu til að víkja frá framangreindri meginreglu um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu er fyrst til þess að líta að fyrir hvern gjalddaga lánsins sendi SP-Fjármögnun hf. stefnda greiðslutilkynningu þar sem fram kom heildargreiðsla á hverjum gjalddaga og sundurliðun hennar. Áfrýjandi greiddi á réttum tíma fjárhæð samkvæmt hverri greiðslutilkynningu með millifærslu í heimabanka og liggur meðal gagna málsins því til staðfestingar yfirlit áfrýjanda um allar greiðslurnar. Verður þessum greiðsluhætti jafnað til þess að fyrir liggi fullnaðarkvittun vegna hverrar greiðslu. Í öðru lagi gengu aðilar lánssamningsins út frá því við hverja greiðslu að útreikningur kröfuhafans á fjárhæð sem til greiðslu kom hverju sinni tæki mið af því að ákvæði um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Var stefndi því í góðri trú um lögmæti skuldbindingarinnar og þar með að umræddar greiðslur fælu í sér réttar og fullar efndir af hans hálfu. Í þriðja lagi er ljóst að aðstöðumunur var með samningsaðilum þar sem SP-Fjármögnun hf. var fjármálafyrirtæki sem starfaði á lánamarkaði og bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin lán með gengistryggingu sem reyndust ólögmæt. Í fjórða lagi er til þess að líta við mat á hvorum standi nær að bera áhættu af þeim vaxtamun, sem myndaðist við endurútreikning á skuldbindingu stefnda, að hann greiddi allar 60 afborganir lánsins í samræmi við greiðslutilkynningar kröfuhafa og lauk þannig skuldbindingu sinni í samræmi við þá festu sem var á framkvæmd samningsins. Í fimmta lagi þykir það hafa staðið SP-Fjármögnun hf. sem fjármálafyrirtæki nær að gæta að því að samningurinn við stefnda væri í samræmi við heimildir laga nr. 38/2001. Fyrir fjármálafyrirtækið hefði það ekki átt að vera flókið að gæta að lögmæti samningsákvæða en það sama á ekki við um stefnda. Í sjötta lagi er hvað umfang viðbótarkröfunnar varðar til þess að líta að hún nemur sem fyrr segir 568.053 krónum og er sú fjárhæð umtalsverð hvort heldur tekið er mið af upphaflegri fjárhæð lánsins eða litið er til hennar sem hlutfalls af greiddum vöxtum.
Þótt ekkert eitt framangreindra atriði geti ráðið úrslitum við úrlausn um framangreindan ágreining málsaðila verður að líta svo á, þegar þau eru öll virt í heild, að áfrýjandi geti ekki krafið stefnda um vaxtagreiðslur til viðbótar þegar greiddum vöxtum fyrir liðna tíð. Ákvæði laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, hagga ekki þessari niðurstöðu enda er ekki með almennum lögum unnt að hrófla svo að íþyngjandi sé með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. dóm Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og dóm réttarins 18. október 2012 í máli nr. 464/2012. Af framangreindu leiðir að skilyrði eru í máli þessu til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu og hafna þar með varakröfu áfrýjanda um lækkun endurgreiðslukröfu stefnda. Verður samkvæmt þessu staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.
Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Landsbankinn hf., greiði stefnda, Flugastraumi ehf., 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2013.
Mál þetta var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Flugastraumi ehf., Klettagerði 4, Akureyri, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 13. mars 2012.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.123.188 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. nóvember 2011 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 555.135 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. nóvember 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefndi krafðist þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með heimild í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þeirri kröfu stefnda var hafnað með úrskurði í málinu, dags. 19. desember 2012. Stefndi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti úrskurð héraðsdómara með dómi, dags. 24. janúar 2013, í máli nr. 10/2013.
II
Helstu málavextir eru þeir, að stefnandi samdi um kaup á dráttarvél hjá fyrirtækinu Sturlaugi Jónssyni & Co sumarið 2006. Umsamið kaupverð var 2.700.000 krónur, án virðisaukaskatts. Til að fjármagna kaupin leitaði stefnandi til SP-Fjármögnunar hf. um lán til kaupanna. Hinn 11. júlí 2006 undirrituðu SP-Fjármögnun hf. og stefnandi samning, sem ber yfirskriftina „fjármögnunarleigusamningur“. Í yfirskrift samningsins nefnist SP-Fjármögnun hf. eigandi en stefnandi notandi. Segir enn fremur að samkomulagið sé um framsal afnotaréttar hlutar, þ.e. dráttarvélar, sem nánar er tilgreint í skjalinu.
Samningurinn skiptist í átta aðalgreinar, sem sumar skiptast í undirgreinar. Í 1. gr. samningsins segir, að samningurinn nái til nánar tilgreindrar dráttarvélar, samkvæmt reikningi, sem vísað er til og er talinn fylgiskjal samningsins. Þá segir að seljandi/umboðsmaður sé Sturlaugur Jónsson & Co ehf. Að lokum segir í greininni að samningsverð án virðisaukaskatts sé 2.700.000 krónur.
Í 2. gr. samningsins segir að leigutíminn sé 60 mánuðir. Greinin skiptist síðan í A-, B-, C- og D-liði. A-liður kveður á um að áætlaður/umsaminn afhendingartími sé júlí 2006. Í B-lið segir síðan að frumleigutími, sbr. 1. mgr. 2. gr. sé frá afhendingu muna, sbr. 1. mgr. 3. gr. til og með 1. september 2011. C-liður kveður á um að frumleigutími hefjist eigi síðar en 1. september 2006. Í D-lið segir að framlengingartímabil, sbr. 4. mgr. 2. gr., sé 12 mánuðir.
Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að notkunarstaður sé hvar sem er á Íslandi.
Í 4. gr. samningsins er fjallað um leigugjald. Í A-lið greinarinnar segir að leiga greidd við undirskrift sé 540.000 krónur, án virðisaukaskatts. B-liður greinarinnar kveður á um að leigugjaldið sé gengistryggt miðað við breytingar erlends gjaldmiðils eða á samsettum gjaldmiðlum gagnvart íslenskri krónu. Í C-lið greinarinnar eru viðmiðunargjaldmiðlar tilgreindir. Þar eru taldir upp fjórir gjaldmiðlar sem mynda myntkörfu og hlutföll þeirra, 20% svissneskir frankar, 40% evrur, 15% japönsk jen og 25% Bandaríkjadalir. Í G-lið greinarinnar segir að LIBOR-vextir myntkörfunnar séu, við gildistöku samningsins, 2,82%. H-liður kveður á um að verði samningurinn framlengdur að loknum frumleigutíma sé framlengingargjaldið fyrir hverja 12 mánuði 10% af árlegri leigu. Að lokum segir í I-lið greinarinnar að við hverja greiðslu bætist innheimtugjald, 450 krónur. Með fyrstu greiðslu sé innheimt þóknun vegna láns á virðisaukaskatti. Þá segir að ef kaupverð muna sé greitt út fyrir fyrsta reglulega vaxtatímabil, innheimtist aukalega fyrir það tímabil með fyrstu greiðslu.
Í 5. gr. samningsins er kveðið á um gjalddaga greiðslna samkvæmt samningnum. Fram kemur að fyrsti gjalddagi leigugreiðslu sé 1. september 2006 og síðasti gjalddagi 1. ágúst 2011. Þá kemur fram að fjöldi gjalddaga sé 60. Sérstaklega er tiltekið að gjalddagi fyrstu framlengingar á samningnum sé 1. október 2011.
Í 6. gr. er kveðið á um greiðslustað. Í 7. gr. er kveðið á um að vélin skuli vátryggð hjá VÍS, bæði ábyrgðar- og kaskótryggð. Í 8. gr. er kveðið á um baktryggingar. Fram kemur að stofngjald sé 21.600 krónur og að ábyrgðarmaður sé Andri Teitsson.
Jafnframt því að undirrita samninginn fyrir hönd stefnanda, Flugastraums ehf., undirritaði Andri Teitsson yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á samningnum.
Í almennum skilmálum, sem teljast hluti samningsins eftir því sem við getur átt og fylgja samningnum, eru aðilar nefndir leigusali og leigutaki. Skilmálarnir eru í 25 greinum. Í 2. gr. almennra skilmála er leigutími samningsandlagsins nánar skilgreindur. Í 4. mgr. segir að hafi leigutaki í einu og öllu staðið við skuldbindingar sínar á frumleigutímanum eða á meðan á framlengingu stendur eigi hann rétt á að framlengja samninginn, einu sinni eða oftar, í hvert sinn um þann tíma sem greinir í grein 2-D í sérstökum samningsákvæðum. Í 5. mgr. kemur fram að framlenging sé reiknuð frá lokum frumleigutíma eða lokum framlengingar. Þá segir í 6. mgr. að beiðni um framlengingu skuli vera skrifleg og berast leigusala eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok frumleigutíma eða framlengingar. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. virðist gert ráð fyrir að leigutaki skoði hlut og prófi við afhendingu seljanda tækis. Í 4. mgr. 3. gr. segir að leigutaki beri áhættuna af því ef munir skemmast eða eyðileggjast af tilviljun eða öðrum ástæðum frá því að ábyrgð seljanda lýkur, samkvæmt söluskilmálum eða almennum eða sérstökum reglum. Þá beri hann jafnframt áhættuna af tjóni sem munirnir kunni að valda þriðja manni áður en afhending samkvæmt framangreindu hefur farið fram. Í 5. mgr. 3. gr. segir að ef leigusali telji nauðsynlegt, og ekki sé um annað samið, muni leigusali vátryggja muni í flutningi frá vörugeymslu, eða starfsstöð seljanda eða öðrum stað þar sem ábyrgð seljanda ljúki, til afhendingarstaðar, samkvæmt 3. gr. samningsins. Í 4. mgr. 4. gr. almennu skilmálanna segir: „Ef framleiðandi, innflytjandi og/eða seljandi muna hafi gert fyrirvara um breytingu á söluverði muna, eða söluverð breytist af öðrum ástæðum, t.d. vegna breytinga á gengisskráningu eða opinberum gjöldum, þ.m.t. aðflutningsgjöldum, breytast leigugjöld samkvæmt samningi þessum til samræmis við þá breytingu.“ Í 7. mgr. greinarinnar kemur fram að leigugreiðslur skuli taka breytingum í samræmi við breytingar á LIBOR-vöxtum. Í 9. mgr. greinarinnar segir að leigusala sé heimilt að breyta vaxtaálagi samnings til hækkunar eða lækkunar einu sinni á ári út leigutímann. Það skuli gert að undangenginni sérstakri tilkynningu á gjalddaga „afborgana“ og/eða vaxta. Vilji leigutaki ekki sæta breytingu vaxtaálags sé honum heimilt að greiða samning upp með því álagi sem hafi verið í gildi fram að breytingunni enda hafi hann gert hann upp að fullu innan 10 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar. Uppgreiðsluþóknun komi ekki til greiðslu samkvæmt þessu ákvæði. Í 12 mgr. greinarinnar segir að leigutaki greiði, nema um annað sé samið, allan kostnað og útgjöld vegna pökkunar, hleðslu og flutnings muna frá seljanda til umsamins notkunarstaðar. Samkvæmt 14. og 15. mgr. greinarinnar virðist leigutaka skylt að endurgreiða leigusala hverja þá fjárhæð sem leigusali hefur vegna lagaskyldu orðið að greiða þriðja aðila, þar á meðal hinu opinbera, vegna notkunar muna.
Í 9. gr. skilmálanna er fjallað um eignarrétt á andlagi samningsins. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að leigusali eigi beinan eignarrétt á munum og leigutaki geti hvorki gegn né án endurgjalds orðið leigusali muna á leigutímanum. Í 10. grein kemur fram að samningurinn veiti leigutaka afnotarétt af munum í atvinnustarfsemi sinni í samræmi við eiginleika og tilgang muna, ákvæði samningsins og leiðbeiningar og fyrirmæli seljanda. Fram kemur að leigutaka sé með öllu óheimilt að veita þriðja aðila afnot af hinu leigða eða afhenda það með einhverjum hætti án samþykkis leigusala. Samkvæmt 13. gr. virðist gert ráð fyrir að leigutaki annist kaup tækis hjá seljanda og uppfylli allar venjulegar skyldur kaupanda, svo sem skoðun og prófun tækis. Í 18. gr. segir að samningurinn sé óuppsegjanlegur af hálfu leigusala eða leigutaka frá afhendingu muna þar til samningstíma lýkur, að framlengingu meðtalinni. Í 19. gr. er síðan fjallað um ástæður sem réttlæta uppsögn eða riftun samnings af hálfu leigusala.
Í 20. gr. hinna almennu skilmála er fjallað um uppgjör. Þar er þess meðal annars getið að við vanefndir leigutaka geti leigusali rift samningi en jafnframt krafið leigutaka um ógjaldfallna leigu út samningstímann.
Í 21. gr. kemur fram að þegar samningi ljúki vegna ógildingar, riftunar eða af öðrum ástæðum, skuli leigutaki, krefjist leigusali þess, skila munum í hendur leigusala eða umboðsmanna hans á þeim stað sem leigusali tiltaki.
Í samningnum er jafnframt yfirlýsing um að notandi lofi að afla, eigi síðar en þremur mánuðum fyrir frumleigutíma, bindandi kauptilboðs í leigumun og verði tilboðsgjafi að vera reiðubúinn að greiða 3% af kaupverði muna að frádreginni leigu greiddri við undirskrift, ef einhver er, og sé kaupverðið gengistryggt á sama hátt og leigugreiðslur samningsins. Kaupverðið skuli staðgreiða eigi síðar en 1. október 2011. Takist notanda ekki að afla eiganda tilboðs skuldbindur notandi sig, samkvæmt yfirlýsingunni, til að framlengja leigusamninginn í að minnsta kosti 12 mánuði frá lokum frumleigutíma. Leigugjald fyrir hverja 12 mánuði skal vera 1/10 af árlegu leigugjaldi frumleigutíma.
Hinn 14. nóvember 2008 undirrituðu aðilar samkomulag um skilmálabreytingu sem svo er nefnd í yfirskrift skjalsins. Samkomulagið kveður á um að fella skuli niður nánar tilgreindar leigugreiðslur gegn samsvarandi lengingu leigutímans. Þó var gert ráð fyrir að leigutaki greiddi vexti fyrir það tímabil. Þá segir: „Höfuðstólsgreiðslur hefjast aftur að nýju 01.05.2008.“ Fram kemur í stefnu málsins að stefnandi telji að hér hafi væntanlega verið átt við 2009. Í samkomulaginu eru aðilar nefndir leigusali og leigutaki og upphaflegi samningurinn nefndur leigusamningur. Þá segir í samkomulaginu: „Kostnaður við skuldbreytingu þessa er kr. 0.“
Stefnandi kveður Andra Teitsson, stjórnarmann stefnanda, hafi samið fyrir hönd félagsins við Sturlaug Jónsson & Co um kaup á dráttarvélinni, án aðkomu SP-Fjármögnunar hf. Samið hafi verið um kaupverð, 2.700.000 krónur, auk virðisaukaskatts, það er, sömu fjárhæð og samnings, og að greidd yrði útborgun, 672.300 krónur. Andri hafi greitt fjárhæðina í tvennu lagi, 300.000 krónur 7. júlí 2006 og 372.300 krónur 19. júlí 2006, auk 100 króna tilfærslugjalds og 180 króna póstburðargjalds. Andri hafi greitt fjárhæðirnar beint til Sturlaugs Jónssonar & Co, seljanda vélarinnar, án aðkomu SP-Fjármögnunar hf. Þetta sé sama fjárhæð og er í samningi aðila sögð „leiga greidd við undirskrift“. Þá kveði Andri Teitsson, stjórnarmaður stefnanda, að gert hafi verið ráð fyrir því að dráttarvélin yrði eign stefnanda við samningslok.
Stefnandi greiddi skuldina upp 1. nóvember 2011, með fyrirvara um lögmæti lánsins, og fékk dráttarvélina til eignar án frekari greiðslu. Þetta voru 8. og 9. gjalddagi, það er, síðustu gjalddagarnir.
Hinn 28. febrúar 2011 ritaði lögmaður stefnanda SP-Fjármögnun hf. bréf í tilefni af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010. Óskað var eftir því að lánið yrði endurreiknað í samræmi við dóminn og gert upp á þeim grundvelli. Í framhaldi bréfsins fóru fram bréfaskipti milli lögmannsins og starfsmanna SP-Fjármögnunar hf. með tölvuskeytum og síðar starfsmanns stefnda. Lengst af var beðið dóms í máli Íslandsbanka hf. gegn þrotabúi AB 258, sem álitið var að hefði fordæmisgildi í þessu máli. Dómur í því máli var kveðinn upp í Hæstarétti Íslands 20. október 2011.
SP-Fjármögnun hf. sameinaðist stefnda 6. nóvember 2011 og var SP-Fjármögnun hf. tekin út af fyrirtækjaskrá 21. nóvember 2011 vegna samrunans.
III
Stefnandi byggir á því að samningur aðila hafi að efni til verið samningur um peningalán í íslenskum krónum, sem taka hafi átt breytingum í samræmi við breytingar á gengi tiltekinna fjögurra gjaldmiðla, sem tilgreindir séu í samningnum. Gengistryggingin brjóti í bága við 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og sé því ógild, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 92/2010. Stefnda beri því að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann hafi ofgreitt.
Stefnandi telur að hann hafi í raun keypt dráttarvélina og orðið raunverulegur eigandi hennar. Vélin hafi hins vegar verið skráð eign SP-Fjármögnunar hf. sem eins konar trygging í lánsviðskiptum þess fyrirtækis og stefnanda. Enda hafi verið gert ráð fyrir að stefnandi yrði formlegur eigandi vélarinnar þegar skuldin yrði að fullu greidd. Þessu til stuðnings megi nefna að stefnandi hafi annast val og kaup á vélinni og samið við seljanda um verð og skilmála, allt án aðkomu SP-Fjármögnunar hf. Þetta virðist vera í samræmi við hina almennu skilmála sem teljist hluti samningsins. Mörg ákvæði almennu skilmálanna styðji þessa niðurstöðu sem og ákvæði samningsins sem mörg virðist kveða á um réttarsamband stefnanda og seljanda dráttarvélarinnar. Vísist um þau til skilmálanna. Nærtækasta sönnunin fyrir þessari niðurstöðu sé þó sú staðreynd að með því að greiða upp skuldina 1. nóvember 2010 hafi stefnandi formlega fengið eignarrétt að vélinni í sínar hendur án frekari greiðslu.
Til stuðnings þeirri staðhæfingu stefnanda að samningur hans við SP- Fjármögnun hf. hafi í raun verið samningur um peningalán en ekki leigu á téðri dráttarvél megi benda á að samningurinn að efni til og atvik öll beri þess glögg merki að samningurinn hafi verið um peningalán. Megi meðal annars vísa til eftirtalinna atriða, auk þeirra sem að framan séu talin.
Stefnandi hafi samið um kaup á dráttarvélinni, verð og greiðsluskilmála, við þáverandi eiganda vélarinnar, Sturlaug Jónsson & Co, án aðkomu SP-Fjármögnunar hf. og hafi greitt seljanda inn á kaupverðið 672.300 krónur, með virðisaukaskatti. Ef SP-Fjármögnun hf. hefði ætlað að kaupa vélina til útleigu hefði legið beinna við að það fyrirtæki annaðist framangreint, ef til vill í samráði við væntanlegan leigutaka.
Óvenjulegt sé að tala um „framsal á afnotarétti“ í samningi um leigu hlutar, svo sem gert sé í upphafi samningsins.
Í 1. gr. samningsins sé getið um seljanda dráttarvélarinnar og samningsverð þótt seljandi eigi enga aðild að samningnum.
Tilgreint „samningsverð“, höfuðstóll, sé það sama og kaupverð það sem stefnandi hafi samið um. Útborgun Andra Teitssonar sé þar innifalin þótt hún hafi ekki verið greidd „leigusala“. Útborgun stefnanda til seljanda geti ekki talist leigugreiðsla til SP-Fjármögnunar hf. og upphæð lánsins hafi því frá upphafi verið lægri en nemi kaupverði dráttarvélarinnar.
Í samningi aðila sé ákvæði um að leigutaki skuli greiða vexti af leigunni sem sé óþekkt vegna leigugreiðslna en hins vegar eðlilegt í tengslum við peningalán. Auk þess sé ákvæðið í hinum almennu skilmálum um heimild „leigusala“ til að breyta vaxtaálagi eftir leið, sem þar sé nánar lýst, sbr. 7. mgr. og 9. mgr. 4. gr. skilmálanna, sem að framan sé lýst.
Gengið sé út frá því að vanefndir af hálfu leigutaka veiti leigusala rétt til riftunar en jafnframt rétt til greiðslu leigunnar til loka samningsins, sbr. 20. gr. almennu skilmálanna. Þetta geti varla átt við um leigusamning en sé hins vegar eðlilegt vegna peningalána, það er, að lánið eigi að greiðast að fullu. Í ákvæðinu sé einnig kveðið á um að neyti leigusali réttar síns til að taka munina úr vörslu leigutaka skuli, samkvæmt nánar tilgreindum reglum, draga verðmæti munanna frá fjárkröfu leigusala. Þetta ákvæði fari gegn þeim skilningi að munirnir séu eign leigusala og réttur leigjanda sé aðeins leiguréttur.
Gert hafi verið ráð fyrir að dráttarvélin yrði eign stefnanda að leigutíma loknum, án sérstakrar leigugreiðslu.
Stefnandi hafi ekki leitað eftir því að taka vélina á leigu hjá SP-Fjármögnun hf., heldur hafi hann leitað eftir fjarmagni til kaupanna.
Í viðauka við samninginn, Samkomulag um skilmálabreytingu, hafi verið felldar niður greiðslur afborgana gegn lengingu „leigutímans“. Með viðaukanum hafi í raun verið samið um greiðslufrest á afborgunum láns en ekki eftirgjöf á leigu, þannig að leigutaki hefði tækið frítt í umsaminn tíma. Þá segi að „höfuðstólsgreiðslur“ hefjist aftur og að kostnaður við „skuldbreytinguna“ sé 0 kr. Orðin „höfuðstólsgreiðslur“ og „skuldbreyting“ séu ekki notuð um leigugreiðslur heldur peningalánsgreiðslur. Þótt „leigugreiðslur“ féllu niður hafi leigutaka borið að greiða vexti samkvæmt samkomulaginu.
Í samningnum sé gert ráð fyrir baktryggingu stjórnarmanns leigutaka og hann hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð með undirskrift sinni, eins og um skuldabréf væri að ræða. Þá sé í samningnum ákvæði um að greidd skuli sérstök þóknun vegna „láns á virðisaukaskatti“. Framangreint eigi tvímælalaust frekar við um peningalán en leigu.
Gert hafi verið ráð fyrir greiðslu innheimtugjalds með hverri greiðslu leigunnar. Slíkt hafi tíðkast frekar við afborganir láns en við greiðslu leigu.
Stefnandi hafi greitt upp eftirstöðvar „leigunnar“ hinn 1. nóvember 2011 sem bendi til þess að lán hafi þá verið gert upp. Hafi þá lokið hinni svonefndu leigu og stefnandi fengið vélina til formlegrar eignar.
Að því virtu sem að framan hafi verið greint, um efni samningsins og viðskipti stefnanda við SP-Fjármögnun hf. að öðru leyti, telji stefnandi ljóst að samningur þeirra á milli hafi ekki verið leigusamningur, heldur hafi SP-Fjármögnun hf. í raun veitt stefnanda lán til kaupa á dráttarvél, sem lánveitandi hafi kosið að klæða í búning leigusamnings. Stefnandi telur því samninginn þeirra á milli lánssamning samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ákvæði samningsins um gengistryggingu séu því í andstöðu við fyrirmæli þeirra laga og ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Um þetta vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010 og nr. 282/2011.
Stefnandi kveðst hafa endurgreitt að fullu umsamið lán ásamt samningsvöxtum og gengismun og fengið fyrirvaralausar fullnaðarkvittanir, eða ígildi þeirra. Vanskilum af hans hálfu hafi ekki verið til að dreifa. Verði stefnanda því ekki gert að greiða aðra vexti en um hafi verið samið, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, sem virðist hafa fordæmisgildi í þessu máli.
Samkvæmt samningi aðila hafi stefnanda borið að endurgreiða lánið með 60 mánaðarlegum greiðslum, 40.895 krónur, í hvert sinn, án virðisaukaskatts, eins og segi í samningnum. Fjárhæð þessi samanstandi af afborgunum höfuðstóls og gjaldföllnum vöxtum í hvert sinn. Samkvæmt þessu hafi lánsfjárhæðin í raun numið 2.453.700 krónum og hafi samningsvextir verið þar meðtaldir. Eins og áður greini hafi stefnandi greitt seljanda vélarinnar hluta kaupverðsins með eigin fé. Samið hafi verið um smávægilega lengingu lánstímans 14. nóvember 2008 og það hafi hugsanlega áhrif á endanlega fjárhæð vaxta.
Stefnandi kveður, að samkvæmt sínum gögnum hafi greiðsla hans í afborganir og vexti numið 3.826.961 krónu, eða 1.373.261 krónu umfram samningsfjárhæðina, og sé það upphafleg stefnufjárhæð. Kveðst stefnandi hafa greitt fjárhæðina í góðri trú um að sér væri það skylt. Með framangreindum dómum Hæstaréttar Íslands hafi komið í ljós að stefndi hafi ekki átt rétt á þessari greiðslu. Reglur kröfuréttar, um rétt til endurgreiðslu ofgreidds fjár, leiði til þess að stefnda beri að endurgreiða fjárhæðina.
Auk greiðslu höfuðstóls og vaxta lánsins hafi stefnandi verið krafinn um greiðslu greiðslugjalds að fjárhæð 28.350 krónur, samkvæmt samningnum, og 34.292 krónur fyrir „annað“ ótilgreint. Hann hafi greitt þessar fjárhæðir og séu ekki gerðar athugsemdir við þessa liði. Þá hafi stefnandi greitt virðisaukaskatt á allar afborganir en þar sem hann hafi fengið þann skatt endurgreiddan hjá skattayfirvöldum sé ekki krafist endurgreiðslu á honum.
Hinn 1. nóvember 2011 hafi stefnandi greitt samninginn upp og sé upphafsdagur dráttarvaxtakröfu miðaður við þá dagsetningu. Krafa um endurreikning lánsins hafi verið sett fram í bréfi lögmanns stefnanda, 28. febrúar 2011.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og annarra ákvæða XXI. kafla þeirra laga.
Við munnlegan málflutning í þinghaldi 8. maí 2013 lækkaði stefnandi aðalkröfu sína úr 1.373.261 kr. í 1.123.188 kr. og lagði fram varakröfu að fjárhæð 555.135 kr., í samræmi við framlagðan endurútreikning stefnda, báðar kröfur með sömu dráttarvaxtakröfu og upphafleg aðalkrafa stefnanda.
IV
Stefndi byggir á því að umþrættur samningur hafi verið leigusamningur, í samræmi við heiti samningsins, skilmála hans, framkvæmd og lög og reglur.
Fjármögnunarleiga sé ein tegund eignaleigusamninga en eignaleiga feli í sér leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma.
Í fjármögnunarleigu felist að leigugjald og lágmarksleigutími sé ákvarðað með hliðsjón af því að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, en eftir þann tíma hafi leigutaki að jafnaði rétt til áframhaldandi leigu munar gegn lækkuðu leigugjaldi.
Stefndi kveðst byggja á því að samningurinn frá 11. júlí 2006 sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Samningurinn sé gagnkvæmur og SP-Fjármögnun hf. hafi, samkvæmt honum, heimilað stefnanda tiltekin afnot af dráttarvél gegn greiðslu endurgjalds. Þessi eðliseinkenni samningsins séu í grundvallaratriðum ólík einkennum lánssamnings. Samkvæmt lánssamningum veiti annar aðilinn, lánveitandi, eða lofi að veita öðrum aðila, lántaka, lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka samkvæmt ákvæðum lánssamningsins.
Stefndi kveðst telja einsýnt af skilmálum samningsins, hvort sem er almennum eða sérstökum, að samningurinn kveði á um leigu. Í því samhengi megi nefna nokkur atriði sem séu þó engan veginn tæmandi. Heiti samningsins sé „fjármögnunarleigusamningur“ og í honum sé ætíð talað um „leigutaka“ og „leigusala“. Enn fremur sé rætt um leigumun, leigugjald, leigutíma o.fl. Orðnotkun í samningnum bendi þannig til þess að hann sé leigusamningur. Í samningnum sé frumleigutími sérstaklega tiltekinn og einungis gert ráð fyrir framlengingu að þeim tíma liðnum. Virðisaukaskattur sé lagður ofan á einstakar greiðslur leigusamningsins og slíkt tíðkist ekki í lánssamningum. Eignarréttur skyldi haldast hjá leigusala allan leigutímann, það er, grunnleigutíma og framlengingarleigutíma, sbr. meðal annars 9. gr. almennra skilmála samningsins. Þá sé ekki gert ráð fyrir því í samningnum að eignarréttur skipti um hendur að loknum leigutíma. Þvert á móti sé, í 9. gr. samningsins, fjallað um skil munar þegar leigutíma ljúki. Jafnframt styðji svokölluð „Yfirlýsing um bindandi kauptilboð“ enn fremur málatilbúnað stefnda enda hafi stefnanda einungis verið veitt val undir lok leigutímans um að kaupa hið leigða eða framlengja leigusamninginn. Með öðrum orðum hafi ekki verið gengið út frá því við undirritun fjármögnunarleigusamningsins að stefnandi keypti tækið undir lok leigutímans heldur hafi honum aðeins verið veittur sá kostur. Þetta skipti að mati stefnda grundvallarmáli enda geti kaupréttur undir lok leigutíma, sem leigutaka sjálfum eða öðrum sé frjálst að nýta, aldrei gert það að verkum að samningur, sem beri öll einkenni leigusamnings, teljist skyndilega vera lánssamningur. Stefndi leggi ríka áherslu á að líta verði til ákvæða samningsins í heild sinni og túlka þau eftir orðanna hljóðan þegar leyst sé úr ágreiningsefni aðila. Sú niðurstaða muni aldrei leiða annað í ljós en að samningurinn sé leigusamningur og vísar stefndi í því samhengi meðal annars til nýlegs dóms Hæstaréttar Íslands frá 24. maí 2012 í máli nr. 652/2012.
Gildissvið laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sé skilgreint með víðtækum hætti í 1. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu nái lögin yfir vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við geti átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið sé eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar. Samkvæmt 2. gr. laganna gildi þau einnig um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í VI. kafla laganna, sem fjalli um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sé gildissvið kaflans skilgreint með þrengri hætti en fram komi í 1. gr. laganna. Öfugt við önnur ákvæði laganna, sem taki til vaxta af peningakröfum á sviði fjármunaréttar, takmarkist verðtryggingarákvæði laganna við sparifé og lánsfé í íslenskum krónum. Ákvæði 13. og 14. gr., sem banni gengistryggingu, taki því samkvæmt orðalagi sínu einungis til sparifjár og lánsfjár í íslenskum krónum en ekki til annars konar samninga eins og leigusamninga. Fjármögnunarleigusamningur, eins og samningur sá sem fjallað sé um í þessu máli, sé leigusamningur, það er, gagnkvæmur samningur, og sé annars eðlis en hefðbundið peningalán.
Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimilt að gengistryggja samning aðila þar sem samningurinn sé leigusamningur og leigusamningar falli ekki undir ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 þar sem kveðið sé á um að gengistrygging lánssamninga sé bönnuð. Meginregla leiguréttar sé að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Meginregla þessi komi meðal annars fram í 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Þessi skilningur stefnda eigi sér stoð í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011. Í dóminum hafi verið talið að ákvæði laga nr. 38/2001 hafi ekki girt fyrir að aðilum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.
Hinn 20. október 2011 hafi Hæstiréttur kveðið upp dóm í máli nr. 282/2011, Íslandsbanki hf. gegn AB 258 ehf. Í því máli hafi verið deilt um hvort samningur um fjármögnun á vinnuvél, svokallaðri búkollu, væri leigusamningur eða lánssamningur. Í málinu hafi samningurinn sjálfur verið tvíþættur, annars vegar sérstakir skilmálar og hins vegar almennir skilmálar. Í dóminum hafi verið talið að hin sérstöku ákvæði samningsins væru ákaflega óskýr og ruglingsleg, þar sem annars vegar væri talað um leigutaka og hins vegar seljanda, þótt samningurinn væri ekki um kaup samkvæmt fyrirsögn. Leigusala hafi hvergi verið getið eða honum berum orðum fengin réttindi eða á hann lagðar skyldur. Í dóminum komi einnig fram að í almennum ákvæðum samningsins hafi jafnt verið fjallað um fjármögnunarleigu og kaupleigu. Hafi það verið mat dómsins að efni skilmálanna væri fyrst og fremst sniðið að kaupleigusamningum og að mörg atriði samrýmdust því illa að samningurinn væri fjármögnunarleigusamningur. Þá hafi rétturinn vísað í málsskjöl þar sem fram hafi komið að áætlað verðmæti leigumunar í lok samningstíma hafi verið 2% af uppfærðri samningsfjárhæð. Hafi Hæstiréttur Íslands talið, meðal annars með hliðsjón af framangreindum atriðum, að sönnur hefðu tekist fyrir því að um hafi verið samið að fjármögnunarleigutaki eignaðist tækið, gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu, í lok samningstíma.
Að mati stefnda sé grundvallarmunur á framangreindum dómi og því máli sem hér sé til umfjöllunar. Í fyrsta lagi séu sérstakir skilmálar samningsins í þessu máli afar skýrir og ætíð sé rætt um leigutaka, leigusala, leigufjárhæð, leigutíma og þar fram eftir götunum. Sérstaklega komi fram í samningnum að framlengingin standi leigutaka til boða að samningstíma loknum. Þá séu almennu skilmálarnir afar skýrir og gildi einungis um fjármögnunarleigu, ólíkt því sem hafi verið í framangreindum dómi. Í ofanálag liggi fyrir í þessu máli að stefnandi hafi aðeins átt val um hvort tækið væri keypt undir lok leigutíma. Með öðrum orðum hafi ekki verið samið um að stefnandi keypti tækið heldur einungis samið um að hann, eða þriðji maður, ætti þess kost í lok leigutímans. Hinn valmöguleikinn hafi síðan verið sá að stefndi leigði tækið áfram gegn mun lægri greiðslu. Þessar staðreyndir málsins geri það að verkum að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 282/2011 geti ekki haft fordæmisgildi í máli þessu.
Hæstiréttur Íslands hafi kveðið upp annan dóm 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, Lýsing hf. gegn Smákrönum ehf. sem einnig hafi varðað fjármögnunarleigusamning. Í dóminum hafi sérstaklega verið tiltekið að ákvæði þess fjármögnunarleigusamnings væru í ýmsum atriðum frábrugðin þeim samningi sem deilt hafi verið um í fyrrgreindu máli nr. 282/2011. Í forsendum dómsins komi fram að stöðluð ákvæði samningsins hafi verið skýr og hafi eingöngu átt við um fjármögnunarleigusamninga. Hæstiréttur Íslands hafi talið ósannað að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða tæki gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu. Ekki hefði annað legið fyrir en að undir lok leigutímans myndi stofnast ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi sem Smákrönum ehf. hafi verið heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara. Í ljósi þessa hafi rétturinn talið ósannað að samningurinn væri lánssamningur og af þeim sökum girtu ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 ekki fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.
Stefndi telur að atvik þessa máls séu um margt sambærileg þeim atvikum sem lýst sé í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011. Í þessu máli liggi fyrir að skilmálar samningsins, bæði sérstakir og almennir, séu afar skýrir um að samningurinn sé leigusamningur. Helsti munurinn á málunum tveimur sé sú staðreynd að í þessu máli liggi fyrir að stefnandi hafi getað keypt tækið að leigutíma loknum gegn ákveðnu gjaldi. Stefndi leggi þó áherslu á að það hafi verið valkvætt en ekki skylda og af þeim sökum sé með engu móti hægt að fullyrða að samningur aðila hafi verið lánssamningur í upphafi. Stefnandi hefði enda rétt eins getað ákveðið að leigja tækið áfram að leigutíma loknum. Ekki sé því sannað í þessu máli að samningur aðila hafi verið lánssamningur. Aðilum hafi þar af leiðandi verið heimilt að semja um að leigugreiðslur tækju mið af breytingum erlendra gjaldmiðla.
Stefndi telur ljóst að EES-réttur sé hluti af íslenskum rétti. Tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 fjalli um stofnun og rekstur lánastofnana eins og SP-Fjármögnunar hf. og Landsbankans hf. Hana sé að finna í viðauka IX við EES-samninginn sem fjalli um fjármálaþjónustu. Hluti af leyfisskyldri starfsemi beggja þessara fjármálastofnana, á grundvelli tilskipunarinnar eins og hún hafi verið innleidd hér á landi, sé heimild til að gera eignaleigusamninga (e. financial leasing), sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hugtaksskilgreining á því hvað séu „fjármögnunarleigusamningar“ tilheyri þannig EES-réttinum. Auk tilskipunar 2006/48/EB sé fjallað um „fjármögnunarleigusamninga“ í tilskipun nr. 88/361/EBE, sem eigi fullum fetum við um fjármögnunarleigusamning eins og þann sem mál þetta snúist um. Síðarnefnda tilskipunin gangi jafnan undir nafninu „fjármagnsflutningatilskipunin“ og sé að finna í XII. viðauka við EES-samninginn. Samkvæmt skýringum við tilskipunina falli undir peningalán og lánsfrest, samkvæmt tilskipuninni, hvers konar fjármögnun af hálfu fjármálastofnana, þar með talin fjármögnun tengd verslun eða veittri þjónustu sem enginn aðili búsettur innanlands eigi hlut að. Jafnframt sé kveðið á um það í skýringunum að þessi flokkur nái einnig til veðlána, neytendalána og fjármögnunarleigu, sem og viðbúnaðarsamninga og annarrar útgáfu á skuldaviðurkenningu. Tilgangur tilskipunarinnar komi fram í 1. gr. þar sem segi orðrétt: „Aðildarríkin skulu, í samræmi við eftirfarandi ákvæði, aflétta hömlum á fjármagnsflutningum milli þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjunum. Til að auðvelda beitingu þessarar tilskipunar skulu fjármagnsflutningar flokkaðir í samræmi við skrá í I. viðauka.“ Tilskipunin feli í sér efnisákvæði sem séu nánari útfærsla á grundvallarreglunni um frjálsa fjármagnsflutninga í 40. gr. EES-samningsins.
Stefndi kveður hugtökin fjármögnunarleigusamningur og leigusamningur geta átt við um margs konar samningsgerðir. Sameiginlega skilgreiningu á þessum hugtökum sé að finna í alþjóðlega reikningsskilastaðlinum IAS-staðli 17 sem tekinn hafi verið inn í XXII. viðauka EES-samningsins, sbr. reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1725/2003, sbr. reglugerð nr. 180/2006 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Skilgreiningin í 3. gr. staðalsins sé á þann veg að fjármögnunarleiga sé leigusamningur sem yfirfærir svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgir eignarhaldi á eign. Eignaréttur kunni eða kunni ekki að færast á milli aðila að lokum. Samningur aðila í þessu máli falli fullkomlega undir þessa skilgreiningu enda hafi stefnandi haft val um það hvort hann gerði bindandi kauptilboð í lok leigutíma eða framlengdi leigutímann. Stefndi haldi því fram að samningur sá sem stefnandi og SP-Fjármögnun hf. hafi gert sé „fjármögnunarleigusamningur“ samkvæmt tilgreindum tilskipunum og samkvæmt réttri skilgreiningu EES-réttar. Því eigi ákvæði 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, um bann við gengistryggingu, ekki við um samninginn.
Með vísan til framangreinds taldi stefndi tilefni til þess að aflað yrði álits EFTA-dómstólsins á því hvort samningur aðila teldist fjármögnunarleigusamningur samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1725/2003, tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2006/48/EB og tilskipun ráðsins nr. 88/361/EBE.
Fram kemur í greinargerð stefnda að verði það niðurstaða dómsins, að fjármögnunarleigusamningur aðila sé í raun lánssamningur og heyri þar af leiðandi undir lög um vexti og verðtryggingu, sé einnig byggt á því að ákvæði laga nr. 38/2001, einkum 13. gr. og 14. gr. um bann við gengistryggingu lána, eins og þau ákvæði hafi verið túlkuð af Hæstarétti Íslands, stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins, samkvæmt EES-samningnum, sbr. lög nr. 2/1993. Stefndi byggi þessa málsástæðu á því að bannið við gengistryggingunni sé andstætt 40. gr. EES-samningsins, sbr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 2/1993 og tilskipun ráðsins nr. 88/361/EBE, sem sé nánari útfærsla á frelsinu til fjármagnsflutninga sem grunnregla 40. gr. EES-samningsins kveði á um. Í 40. gr. EES-samningsins sé kveðið á um að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir séu í aðildarríkjum EB og EFTA né nokkur mismunun byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð sé notað til fjárfestingar. Gengistryggingarbannið feli í sér höft eða takmörkun (e. restriction) í samræmi við 40. gr. EES-samningsins og tilskipun 88/361/EBE. Bæði EFTA-dómstóllinn og Evrópudómstóllinn hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að reglur landsréttarins, sem séu til þess fallnar að hindra frjálst flæði fjármagns, og reglur, sem letji fjárfesta í öðrum aðildarríkjum til þess að notfæra sér þetta frelsi, feli í sér höft eða takmörkun í samræmi við 63. gr. samningsins um Evrópusambandið og 40. gr. EES-samningsins. Um þetta megi til dæmis vísa til dóma í málum nr. C-367/98, Framkvæmdastjórnin gegn Portúgal, nr. C-483/99, Framkvæmdastjórnin gegn Frakklandi, nr. C-98/01, Framkvæmdastjórnin gegn Bretlandi, og nr. C-463/00, Framkvæmdastjórnin gegn Spáni.
Ljóst sé að algert bann við lánum í íslenskum krónum sem séu verðtryggð þannig að þau fylgi gengissveiflum tiltekinna erlendra gjaldmiðla, eins og lög nr. 38/2001 kveði á um, letji íslenskar lánastofnanir eins og stefnda til að fjármagna lán sín í öðrum gjaldmiðlum en íslenskri krónu og feli þess vegna í sér höft eða takmörkun á því frelsi sem 40. gr. EES-samningsins kveði á um og nánar sé útfært í tilskipun nr. 88/361/EBE. Þessi sjónarmið komi öll fram í formlegu erindi Eftirlitsstofnunar EFTA, dagsettu 19. apríl sl. Eftirlitsstofnun EFTA sé þeirrar skoðunar að íslenska ríkið hafi brotið ákvæði 40. gr. EES-samningsins með gengistryggingarbanninu, meðal annars með þeim rökum sem getið sé hér að framan. Stefndi taki undir og geri þau lagasjónarmið, sem fram koma í erindi ESA, að sínum. Frelsi til fjármagnsflutninga sé einnig lántakendum til hagsbóta, eins og komið hafi fram hjá EFTA-dómstólnum. Það auki samkeppni og gefi þeim kost á auknu vali og lægri kostnaði. Það sýni þversögn í löggjöf að banna gengistryggingu lána en heimila að lán séu miðuð við einstaka erlenda hlutabréfavísitölu eða safn af erlendum hlutabréfavísitölum, sbr. heimild í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001. Slík tenging feli í sér gengis- og markaðsáhættu. Jafnvel þótt lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum séu ekki bannaðar á Íslandi séu líkur á að bann laga nr. 38/2001 við gengistryggingu lána í íslenskum krónum feli í sér höft eða takmörkun á flæði fjármagns milli Íslands og annarra EES-ríkja. Þannig geti slíkt fyrirkomulag augljóslega takmarkað áhuga á lánveitingum frá aðilum sem staðsettir séu í öðrum aðildarríkjum EES.
Svipuð sjónarmið megi finna í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli nr. E-1/00, Lánasýsla ríkisins gegn Íslandsbanka-FBA. Í álitinu komi fram að innlendar lagareglur sem letji einstaklinga og lögaðila til að eiga lánsviðskipti við erlenda aðila teljist hindrun á frjálsu flæði fjármagns og almennt þurfi ekki að sýna fram á að tiltekin hindrun hafi merkjanleg áhrif. Nægjanlegt sé að sýna fram á að hún geti hugsanlega haft slík áhrif. Stefndi vísar um þetta, meðal annars, til þeirra sjónarmiða sem komi fram í dómafordæmum Evrópudómstólsins og sérstaklega til dómsins í máli nr. C-222/97, Trummer and Mayer. Einnig vísar stefndi til viðauka og skýringa við tilskipun 88/361/EBE.
Stefndi heldur því jafnframt fram að bann við gengistryggingu lánssamninga, sbr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001, feli í sér hindrun á frjálsri þjónustustarfsemi samkvæmt 36. gr. EES-samningsins. Augljóst sé að gengistryggingarbannið feli í sér höft eða takmörkun samkvæmt 36. gr. EES-samningsins. Bannið geri fjármálafyrirtæki eins og stefnda erfiðara fyrir en ella að stunda fjármálastarfsemi, þar með talið útlánastarfsemi, hvort sem er hér á landi eða á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá hafi bannið letjandi áhrif á stefnda til að leita eftir þjónustu sem felist í því að fjármagna rekstur sinn í erlendum gjaldmiðlum, enda sé lánastarfsemi stefnda sjálfs háð þeim takmörkunum að ekki sé hægt að tryggja raunvirði útlána með tengingu við erlenda gjaldmiðla. Bannið virki því þannig að það feli í sér hindrun fyrir fjármálastofnanir við að veita útlánaþjónustu auk þess að hindra fjármálastofnanir í að þiggja fjármögnunarþjónustu aðila á Evrópska efnahagssvæðinu.
Stefndi gerði kröfu um að aflað yrði álits EFTA-dómstólsins til að réttur og nákvæmur skilningur fengist á tilgreindum ákvæðum EES-samningsins. Eins og fram hefur komið var þeirri kröfu stefnda hafnað með úrskurði dómara, 19. desember 2012. Sú niðurstaða var staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013.
Stefndi telji það vafa undirorpið að samningur milli fjármálafyrirtækis og viðskiptamanns um afnot af tiltekinni eign í afmarkaðan tíma gegn fyrir fram ákveðnum greiðslum viðskiptamannsins til fjármálafyrirtækisins verði ekki talinn fela í sér fjármögnunarleigu eingöngu af þeirri ástæðu að viðskiptamaður hafi í lok leigutíma val um það hvort hann kaupi hið leigða, leigi það áfram eða afli skuldbindandi tilboðs þriðja aðila um kaup á hinu leigða. Vísar stefndi um þetta í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1725/2003, tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2006/48/EB og tilskipun ráðsins nr. 88/361/EBE.
Stefndi telur einnig að það geti verið andstætt 40. gr. EES-samningsins og tilskipun nr. 88/361/EBE að banna íslenskum fjármálafyrirtækjum að tryggja lán sem veitt eru í íslenskum krónum við gengi gjaldmiðla annarra EES-ríkja, eins og gert sé með lögum nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna.
Þá telur stefndi að það geti verið andstætt 36. gr. EES-samningsins að banna íslenskum fjármálafyrirtækjum að tryggja lán sem séu veitt í íslenskum krónum við gegni erlendra gjaldmiðla eins og gert sé með lögum nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna.
Jafnframt telur stefndi að það geti leitt af bókun 35 við EES-samninginn að dómstólum í EFTA-ríkjum beri að veita ákvæði í landsrétti, sem innleiði ákvæði 36. gr. og 40. gr. EES-samningsins um frjálsa þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga, forgang gagnvart öðru lagaákvæði, sé árekstur á milli þessara ákvæða. Stefndi haldi því fram að skýra beri bókun 35 þannig að sé slíkur árekstur fyrir hendi þá hafi íslenska ríkið undirgengist þá skuldbindingu að veita EES-reglum „sem komnar eru til framkvæmdar“, eins og 36. gr. og 40. gr. samningsins, sem komi til framkvæmdar samkvæmt orðalagi bókunar 35 með gildistöku laga nr. 2/1993, forgang fram yfir önnur ákvæði íslenskra laga.
Varakröfu sína, um lækkun dómkröfu stefnanda, byggir stefndi á því að aðferð stefnanda við útreikning á stefnukröfunni sé rangur. Komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að gengistryggingarákvæði umþrætts samnings sé óheimilt, mótmælir stefndi því að samningurinn og málsatvik önnur, sem um hafi verið deilt í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 600/2011, séu sambærileg þeim sem um ræði í þessu máli. Sá dómur fjalli um húsnæðislán sem sé til mun lengri tíma en í máli þessu. Í öðru lagi sé höfuðstólsfjárhæð lánsins í dóminum verulega hærri en fjárhæð samningsins í þessu máli. Í þriðja lagi hafi skuldarar að láninu sem dómur Hæstaréttar Íslands fjalli um verið einstaklingar en ekki lögaðilar og aðstöðumunur samningsaðila ekki sambærilegur. Í fjórða lagi sé í þessu máli ekki um að ræða sambærilega röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Í fimmta lagi hafi reikningar þeir sem gefnir hafi verið út til stefnanda ekki verið sambærilegir þeim fullnaðarkvittunum sem fjallað sé um í dómi Hæstaréttar Íslands. Ekki verði til dæmis ráðið af reikningunum að stefnandi hafi greitt tiltekna fjárhæð í vexti eða afborganir. Í sjötta lagi byggi stefnandi ekki á því að miða beri við raunverulega greidda vexti, samkvæmt útgefnum og greiddum reikningum, heldur áætlaða umsamda vexti samkvæmt upphaflegum samningi. Stefndi telji því engar forsendur vera fyrir því að undantekningin um fullnaðarkvittun eigi við í þessu máli. Að þessu virtu og fari svo að héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að gengistrygging umþrætts samnings sé óheimil telur stefndi að endurreikna beri eftirstöðvar samningsins og miða þar við vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá stofndegi, sem skulu á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna. Stefndi leggur fram útreikning á eftirstöðvum samningsins miðað við þessar forsendur. Eins og þar komi fram nemi hin endurreiknaða fjárhæð 534.221 kr. miðað við 1. nóvember 2011 og miðist varakrafa stefnda um lækkun á stefnufjárhæð við þá fjárhæð, sem nemi, framreiknuð miðað við 26. júní 2012, 574.846 kr. Stefndi mótmælir sérstaklega vaxtakröfu stefnanda og byggir á því að ekki séu forsendur til að dæma neina vexti frá fyrra tímamarki en dómsuppsögu.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, meginmáls samningsins, einkum 36. gr. og 40. gr. auk viðauka samningsins með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1725/2003, tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2006/48/EB og tilskipunar ráðsins nr. 88/361/EBE og bókunar 35 við samninginn. Þá er vísað til reglugerðar nr. 180/2006 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Stefnandi þessa máls gerði samning við SP-Fjármögnun hf., dagsettan 11. júlí 2006, um dráttarvél sem var keypt af Sturlaugi Jónssyni & Co. Samningurinn ber fyrirsögnina „Fjármögnunarleigusamningur“ og númerið 0607071. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort heimilt hafi verið að binda fjárhæðir í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eins og í samningnum greinir. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að þessi samningur sé samkvæmt efni sínu í raun lánssamningur. Þar af leiðandi hafi verið óheimilt að binda fjárhæð greiðslna samkvæmt samningnum við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og gerir stefnandi kröfu um þá fjárhæð sem hann telur sig hafa ofgreitt stefnda á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar. Stefndi ber það hins vegar aðallega fyrir sig að samningurinn sé fjármögnunarleigusamningur, í samræmi við fyrirsögn og skilmála hans, og því hafi ekki verið óheimilt að binda fjárhæð greiðslnanna við gengi erlendra gjaldmiðla.
Samningurinn, sem mál þetta varðar, er í átta greinum og er undirritaður fyrir hönd beggja aðila. Jafnframt því að undirrita samninginn fyrir hönd stefnanda undirritaði Andri Teitsson, stjórnarmaður stefnanda, sjálfskuldarábyrgð á samningnum. Í aðfararorðum samningsins segir að SP-Fjármögnun hf. sé í samningnum nefndur eigandi og stefnandi nefndur notandi og að samkomulag aðila sé um framsal á afnotarétti eiganda að tilgreindum leigumun í hendur notanda á því tímabili og samkvæmt þeim skilmálum sem í samningnum greini. Með samningnum fylgja almennir skilmálar í 25 greinum sem teljast hluti samningsins eftir því sem við getur átt. Jafnframt var undirritað, fyrir hönd aðila og af sjálfskuldarábyrgðaraðila, samkomulag um skilmálabreytingu, dags. 14. nóvember 2008, sem einnig telst hluti samningsins. Í almennu skilmálunum og viðaukanum er vísað til aðila sem leigusala og leigutaka.
Í 1. gr. samningsins er leigumunur, dráttarvélin, nánar tilgreindur og er þar tekið fram að seljandi sé Sturlaugur Jónsson & Co ehf. Einnig kemur þar fram að samningsverð án virðisaukaskatts sé 2.700.000 kr. Samkvæmt framlögðum reikningi frá Sturlaugi Jónssyni & Co ehf., dagsettum 13. júlí 2006, er SP-Fjármögnun hf. gert að greiða fyrir dráttarvélina kaupverð, 2.700.000 kr., ásamt virðisaukaskatti, 661.500 kr., samtals 3.361.500 kr. Hins vegar er einnig lögð fram útprentun úr heimabankasviði Andra Teitssonar, stjórnarmanns stefnanda, hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, dags. 7. júlí 2006, þar sem fram kemur að hann millifærði þann sama dag 300.000 kr. á Sturlaug Jónsson & Co ehf. Jafnframt er lögð fram kvittun um útborgun frá sparisjóðasviði Sparisjóðsins, dags. 19. júlí 2006, þar sem fram kemur að 372.300 kr. hafi verið teknar út af reikningi Andra Teitssonar og lagðar inn á reikning Sturlaugs Jónssonar & Co ehf. Samfara þessari útborgun hafi verið skuldfærðar af reikningi Andra 100 kr. í millifærslugjald og 180 kr. í skuldfærslugjald, samtals 372.580 kr. Enn fremur er lögð fram fullnaðarkvittun, dags. 1. ágúst 2006, fyrir þessum greiðslum Andra til Sturlaugs Jónssonar & Co ehf., útgefin af SP-Fjármögnun hf. Stefnandi málsins er tilgreindur greiðandi á þeirri kvittun og fjárhæð greiðslu 672.300 kr., þar af 132.300 kr. í virðisaukaskatt. Í a-lið 4. gr. samningsins segir að leiga greidd við undirskrift sé, ásamt virðisaukaskatti, 672.300 kr. Stefnandi kveður þessa greiðslu hafa komið til lækkunar á láninu frá SP-Fjármögnun hf. og styður framlagt yfirlit úr tölvukerfi stefnda þá fullyrðingu. Bendir þetta til þess að stefnandi hafi í raun komið fram sem kaupandi dráttarvélarinnar gagnvart seljanda og að hann hafi með þessum viðskiptum ætlað sér að kaupa vélina. Stefndi hefur enda ekki haldið því fram að stefnandi hafi fengið lán fyrir þessum greiðslum hjá SP-Fjármögnun hf. eða að SP-Fjármögnun hf. hafi á annan hátt komið að þessum greiðslum að öðru leyti en því að gefa út kvittun fyrir þeim.
Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi leigutíminn vera 60 mánuðir, frá afhendingu í júlí 2006 til og með 1. september 2011. Fram kemur í 5. gr. samningsins að fyrsti gjalddagi skyldi vera 1. september 2006 og síðasti gjalddagi 1. ágúst 2011. Í 4. gr. samningsins er kveðið á um leigugjald sem skyldi vera 40.895 kr. á mánuði, án virðisaukaskatts, en 50.914 kr. með virðisaukaskatti. Leigugjaldið skyldi gengistryggt miðað við breytingar erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Erlendur gjaldmiðill er tilgreindur SP5 myntkarfa samsett úr fjórum gjaldmiðlum, 20% svissneskir frankar, 40% evrur, 15% japönsk jen og 25% Bandaríkjadalir. Fram kemur að LIBOR-vextir myntkörfunnar hafi verið 2,82% við gildistöku samningsins. Í 4. gr. almennu skilmálanna kemur fram að sé leigugjaldið gengistryggt taki einstakar leigugreiðslur breytingum til hækkunar eða lækkunar miðað við sölugengi erlendu gjaldmiðlanna. Sömuleiðis verði breytingar á gjaldinu við breytingar á LIBOR-vöxtum. Orðalag samnings aðila ber þannig með sér að fjallað sé um leigugreiðslur en ekki afborganir af höfuðstól láns. Hins vegar undirrituðu aðilar fyrrgreint samkomulag um skilmálabreytingu, dags. 14. nóvember 2008, og varð það, samkvæmt orðalagi sínu, viðauki við fyrri samning aðila. Samkvæmt skilmálabreytingunni skyldi samningstími leigusamningsins lengjast þannig að næsti gjalddagi eftir dagsetningu viðaukans varð 1. desember 2008. Þann gjalddaga og fjóra næstu gjalddaga á eftir skyldu eingöngu greiðast vextir af samningnum. Höfuðstólsgreiðslur skyldu hefjast aftur 1. maí 2009. Almennir skilmálar SP-Fjármögnunar hf., sem í þessu skjali er nefnt leigusali, skyldu gilda um leigusamninginn og vera hluti viðaukans. Fram kemur að kostnaður við „skuldbreytingu þessa“ sé 0 kr. Tilvísun þessa viðauka til höfuðstólsgreiðslna og skuldbreytingar gefur til kynna að samningur aðila hafi í raun verið um lán en ekki leigu. Þá má sjá af framlögðu yfirliti, útprentuðu af starfsmanni stefnda 1. nóvember 2011, að heildarstaða samningsins er sundurliðuð í höfuðstól og virðisaukaskatt og að fyrri greiðslur eru sundurliðaðar í afborganir, vexti og virðisaukaskatt. Jafnframt er þar greint frá upphaflegu kaupverði, 2.700.000 kr., og fyrirframgreiðslu að fjárhæð 540.000 kr., sem er sú fjárhæð sem stefnandi greiddi seljanda dráttarvélarinnar, Sturlaugi Jónssyni & Co ehf., við upphaf samningstímans, og að samningsfjárhæð sé mismunurinn þar á milli, það er, 2.160.000 kr. Gefur þetta orðalag, í skjali sem kemur úr tölvukerfi stefnda, enn frekar til kynna að samningur aðila hafi verið um lán en ekki leigu.
Stefndi telur að það að virðisaukaskattur hafi verið lagður á einstakar greiðslur leigusamningsins bendi til þess að samningurinn hafi verið um leigu en ekki lán því slíkt tíðkist ekki í lánssamningum. Stefnandi kveðst hafa greitt virðisaukaskatt af öllum afborgunum en fengið skattinn endurgreiddan hjá skattayfirvöldum. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. október 2011, í máli nr. 282/2011, var komist að þeirri niðurstöðu að samningur aðila væri lánssamningur þrátt fyrir að lántakandi hefði greitt virðisaukaskatt á afborganir af láninu en sérstaklega tekið fram að þar sem samningurinn væri um lán en ekki leigu ættu greiðslur samkvæmt honum ekki að bera virðisaukaskatt og því yrði að taka tillit til þess við útreikning kröfu lánveitanda. Því verður ekki séð að það að stefndi hafi rukkað stefnanda um virðisaukaskatt ráði úrslitum um það hvort samningur aðila hafi verið um lán eða leigu.
Í 4. mgr. 2. gr. almennu skilmálanna segir að eftir leigutíma samningsins skuli stefnandi eiga rétt á að framlengja samninginn einu sinni eða oftar, um 12 mánuði í senn, hafi hann staðið í einu og öllu við skuldbindingar sínar á frumleigutímanum. Í h-lið 4. gr. samningsins segir svo að sé samningurinn framlengdur að loknum frumleigutíma sé framlengingargjald fyrir hvert 12 mánaða tímabil 10% af árlegri leigu. Upphæð leigu eftir lok frumleigutíma er ekki tilgreind með öðrum hætti í samningsskilmálunum. Sama dag og samningur aðila var undirritaður, 11. júlí 2006, var undirrituð, fyrir hönd beggja aðila, yfirlýsing um bindandi kauptilboð með tilvísun í fjármögnunarleigusamning nr. 0607071. Samkvæmt yfirlýsingunni eru aðilar sammála um að notandi, stefnandi, lofi eiganda, SP-Fjármögnun hf., að afla, eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok frumleigutíma, bindandi kauptilboðs í leigumun og verði tilboðsgjafi að vera reiðubúinn að greiða 3% af kaupverði munar samkvæmt leigusamningi, að frádreginni leigu greiddri við undirskrift og skyldi kaupverðið gengistryggt á sama hátt og leigugreiðslur samningsins. Kaupverðið skyldi staðgreiða eigi síðar en 1. október 2011. Tækist notanda ekki að afla eiganda tilboðs skuldbatt notandi sig til að framlengja leigusamninginn í að minnsta kosti 12 mánuði frá lokum frumleigutíma. Leigugjaldið skyldi vera 1/10 af árlegu leigugjaldi á frumleigutíma. Framangreindir samningsskilmálar eru ekki afdráttarlausir um það hvort vilji samningsaðila hafi frá upphafi staðið til þess að stefnandi eignaðist dráttarvélina sem um var samið.
Stefndi kveður að samkvæmt framangreindri yfirlýsingu um bindandi kauptilboð hafi stefnanda einungis verið veitt val undir lok leigutímans um að kaupa hið leigða eða framlengja leigusamninginn. Ekki verður fallist á það með stefnda að stefnanda hafi einungis verið veitt val enda lofar hann, samkvæmt yfirlýsingunni, að afla bindandi kauptilboðs í dráttarvélina fyrir lok samningstímans og skyldi aðeins koma til leigu ef það tækist ekki. Hins vegar ber orðalag yfirlýsingarinnar með sér að stefnandi hafi ekki sjálfur þurft að gera kauptilboð í dráttarvélina heldur gæti hann aflað þess frá þriðja aðila. Yfirlýsingin ber það þó jafnframt með sér að ekki hafi staðið til hjá stefnda að fá vélina í sínar vörslur að leigutíma loknum eða að finna annan kaupanda eða leigjanda. Þá er ekki að sjá af gögnum málsins að ótímabundin leiga með tilteknum uppsagnarfresti hafi verið valkostur að loknum frumleigutíma. Ekki er heldur fjallað um skil á dráttarvélinni til stefnda í sérstökum skilmálum samningsins, framangreindri yfirlýsingu eða viðauka við samninginn frá 14. nóvember 2008, heldur er einungis kveðið á um það í almennum skilmálum samningsins að ljúki samningnum vegna ógildingar, riftunar eða af öðrum ástæðum skuli leigutaki, krefjist leigusali þess, þegar í stað skila munum í hendur leigusala eða umboðsmanns hans. Jafnframt skuli afhending í lok leigutíma fara fram á kostnað leigutaka.
Andri Teitsson, stjórnarmaður stefnanda, kveður að gert hafi verið ráð fyrir því að dráttarvélin yrði eign stefnanda við samningslok og að þegar stefnandi hafi greitt upp skuldina við stefnda 1. nóvember 2011 hafi stefnandi fengið dráttarvélina til eignar án frekari greiðslu. Framlögð gögn styðja þær fullyrðingar. Samkvæmt framlögðum útprentuðum tölvupóstsamskiptum milli Andra og starfsmanns hjá bíla- og tækjafjármögnun stefnda, frá 1. nóvember 2011, tilkynnti sá starfsmaður Andra að staðan þann daginn væri 931.517 kr. og að búið væri að greiða nóvember-gjalddaga. Andri gæti greitt inn á reikning nr. 111-26-22500, kt. 471008-0280, og sent kvittun í tölvupósti. Starfsmaðurinn myndi þá í kjölfarið láta útbúa eigendaskipti yfir á stefnanda og senda Andra í pósti. Seinna sama dag sendi Andri póst á starfsmanninn og lét vita að stefnandi hefði greitt stefnda tilgreinda fjárhæð, með fyrirvara um endurkröfu vegna ólögmætrar gengistryggingar eða einhvers annars, og bað um að gögn vegna eigendaskipta yrðu send með hraði. Samkvæmt reikningi stefnda frá sama degi, 1. nóvember 2011, var greiðsla þann dag frá stefnanda sundurliðuð í kaupverð og virðisaukaskatt, samtals 931.516 kr. Samkvæmt kvittun stefnda, einnig dagsettri 1. nóvember 2011, voru honum greiddar 931.517 kr. Af framlögðu yfirliti, prentuðu út af starfsmanni stefnda 1. nóvember 2011, er heildarstaða samningsins á þeim degi sundurliðuð í höfuðstól, 742.244 kr., og virðisaukaskatt, 189.273 kr., samtals 931.517 kr. Verður því ekki annað séð af þessum gögnum en að sú fjárhæð sem stefnandi greiddi stefnda 1. nóvember 2011 hafi verið eftirstöðvar skuldar ásamt virðisaukaskatti. Í kjölfarið var tilkynning til Umferðarstofu um eigendaskipti að dráttarvélinni undirrituð fyrir hönd aðila. Fram kemur á tilkynningunni að dagsetning kaupsamnings sé 2. nóvember 2011. Einnig er lögð fram kvittun fyrir greiðslu til Umferðarstofu vegna eigendaskiptanna, dags. 8. nóvember 2011.
Af framangreindum samskiptum aðila og framkvæmd eignaskipta á dráttarvélinni verður ekki annað séð en að dráttarvélin hafi orðið eign stefnanda við það að hann greiddi upp fyrir fram umsamda gjalddaga, án þess að til sérstakrar samningsgerðar eða viðbótargreiðslu hafi komið. Framlögð gögn bera með sér að stefnandi hafi einungis innt stefnda eftir því hvað hann ætti eftir að greiða og þegar hann hafi fengið upplýsingar um það hafi verið gengið frá kaupunum án frekari viðræðna milli aðila. Að því virtu, ásamt því að stefnandi hafi við upphaf samningstíma sjálfur greitt seljanda útborgun vegna dráttarvélarinnar að fjárhæð 672.300 kr., með virðisaukaskatti, án aðkomu stefnda, auk þess sem stefnandi átti þess kost að greiða upp eftirstöðvar samningsins, eins og um lán hafi verið að ræða, og að því virtu að samningsskilmálar eru ekki afdráttarlausir um annað, verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt stefnanda lán til kaupa á dráttarvél sem stefndi kaus að klæða í búning leigusamnings til tryggingar réttindum sínum.
Varðandi málsástæður stefnda, sem lúta að skýringu á hugtökunum fjármögnunarleiga og fjármögnunarleigusamningur samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1725/2003/EB, tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2006/48/EB og tilskipun ráðsins nr. 88/361/EBE, þá verður litið svo á að Hæstiréttur Íslands hafi í nýlegum dómum þegar tekið afstöðu til þess hvernig markalínan milli fjármögnunarleigusamninga og lánssamninga verði dregin samkvæmt íslenskum rétti, sbr. dóma réttarins frá 16. júní 2010 í máli nr. 92/2010, 20. október 2011 í máli nr. 282/2011 og 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og til framangreindra dóma Hæstaréttar Íslands verður lagt til grundvallar að samningur aðila hafi verið lánssamningur samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001. Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Ákvæði 13. gr. og 14. gr. laganna eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. þeirra, og því verður ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki er stoð fyrir í íslenskum lögum. Ekki verður litið fram hjá þessu afdráttarlausa banni og ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 því ekki hliðrað til með skýringu samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar Íslands.
Stefnandi hefur að fullu greitt umsamið lán ásamt samningsvöxtum og gengismun og kveðst hafa fengið fyrirvaralausar fullnaðarkvittanir, eða ígildi þeirra, fyrir greiðslunum. Stefnandi byggir endurkröfu sína á hendur stefnda á mismuninum á því sem hann greiddi og því sem honum hafi borið að greiða, sé lánið endurreiknað í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands. Honum verði því ekki gert að greiða aðra vexti en um hafi verið samið í samræmi við dóm Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012, í máli nr. 600/2011. Við munnlegan málflutning lækkaði stefnandi fjárkröfu sína í 1.123.188 kr. og krafðist áfram dráttarvaxta samkvæmt 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. nóvember 2011 til greiðsludags. Samkvæmt framlögðum endurútreikningi stefnda er heildarfjárhæð þess sem stefnandi greiddi í afborganir og vexti 3.762.161 kr. Sé dregið frá þeirri fjárhæð höfuðstóll lánsins, 2.160.000 kr., og greiddir vextir, 478.973 kr., fæst framangreind fjárhæð endanlegrar dómkröfu stefnanda, 1.123.188 kr.
Varakrafa stefnda lýtur að því að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega á þeim grundvelli að aðferð stefnanda við útreikning á stefnukröfunni sé röng. Stefndi kveður samninginn, sem mál þetta varðar, og málsatvik önnur ekki sambærileg þeim sem fjallað sé um í dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012, í máli nr. 600/2011, og því eigi forsendur um fullnaðarkvittun ekki við. Þar af leiðandi þurfi við útreikning endurkröfu stefnanda að miða við að honum hafi borið að greiða vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og leggur stefndi fram endurútreikning á eftirstöðvum samningsins miðað við þær forsendur.
Samkvæmt meginreglu kröfuréttarins á kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann hefur átt rétt til, kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá þeirri meginreglu eru hins vegar undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun geti, að vissum skilyrðum fullnægðum, valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu. Áherslan hvílir þá á því að skuldari hafi, við móttöku kvittunar, fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið. Skuldari hafi þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann hafi gert upp að fullu á viðkomandi gjalddaga og að hann geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar. Að baki búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum. Því geti fylgt mikil röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem hafi um lengri tíma hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, verði kröfuréttarsambandið tekið upp vegna liðins tíma og skuldara gert að standa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar hans um hið gagnstæða.
Eins og fram hefur komið byggir stefnandi á því að hann hafi greitt vexti af láninu samkvæmt samningi aðila og fengið fyrirvaralausar fullnaðarkvittanir, eða ígildi þeirra, fyrir. Í málinu eru lagðir fram greiðsluseðlar vegna mánaðarlegra greiðslna stefnanda, máli hans til stuðnings. Stefndi telur reikningana ekki sambærilega þeim fullnaðarkvittunum sem hafi verið fjallað um í dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars verði ekki ráðið af þeim að stefnandi hafi greitt tiltekna fjárhæð í vexti eða afborganir. Stefndi mótmælir því hins vegar ekki að tekið hafi verið við greiðslunum án fyrirvara. Verður sú framkvæmd talin jafngilda fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni. Allt undir lok samningstímans gengu aðilar samningsins út frá því að útreikningur stefnda á fjárhæð vaxta tæki mið af því að ákvæði um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Stefnandi var því framan af í góðri trú um lögmæti skuldbindingarinnar og þar með um að vaxtagreiðslur fælu í sér fullar og réttar efndir af hans hálfu. Það var fyrst 1. nóvember 2011 að stefnandi greiddi með fyrirvara um endurkröfu á hendur stefnda vegna ólögmætrar gengistryggingar. Stefndi tók þó fyrirvaralaust við þeirri greiðslu eins og þeim sem áður féllu til.
Stefndi gerir ekki kröfu um að tiltekin fjárhæð, sem nemi vangoldnum vöxtum, verði dregin frá endanlegri aðalkröfu stefnanda, sem honum hefði þó átt að vera í lófa lagið, heldur leggur fram endurútreikning kröfunnar án þess að aðgreina mánaðarlegar greiðslur samkvæmt samningnum í afborganir og vexti. Sé hins vegar gengið út frá því að endurútreikningur stefnda feli í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð þá eru þeir vextir mismunur milli aðalkröfu stefnanda og endurútreiknings stefnda, eða 568.053 kr. Er sú fjárhæð umtalsverð þegar litið er til upphaflegrar lánsfjárhæðar sem var 2.160.000 kr. Skal þá litið til þess að töluverður aðstöðumunur er á aðilum málsins. Þrátt fyrir að stefnandi sé lögaðili var SP-Fjármögnun hf., sem og stefndi þessa máls, fjármálafyrirtæki á lánamarkaði sem bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin gengistryggð lán, sem síðar reyndust ólögmæt og voru skilmálar samnings aðila staðlaðir skilmálar lagðir til af lánveitanda, SP-Fjármögnun hf. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi búið yfir slíkri þekkingu um fjármálastarfsemi og peningamál á fjölþjóðlegum vettvangi að jafnað verði við þá þekkingu sem fjármálafyrirtæki búa að öðru jöfnu yfir. Augljós aðstöðumunur var því á lánveitanda og lántaka í þeim viðskiptum sem hér eru til umfjöllunar.
Þegar allt framangreint er virt í heild sinni verður litið svo á að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu lánsins á samningstíma. Lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, hagga ekki þeirri niðurstöðu, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012. Með almennum lögum er ekki, með svo íþyngjandi hætti, unnt að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda, frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þykir þar af leiðandi rétt að fallast á útreikning endanlegrar aðalkröfu stefnanda sem gerir ráð fyrir því að vaxtagreiðslur hafi verið fullnaðargreiðslur og komi ekki til endurútreiknings lánsins. Endanleg aðalkrafa stefnanda er því tekin til greina og stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.123.188 kr.
Stefnandi krefst einnig dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni, samkvæmt 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. nóvember 2011 til greiðsludags. Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt og telur stefndi ekki forsendur til að dæma neina vexti fyrr en frá dómsuppsögu. Fallist verður á það með stefnanda að hann eigi rétt til dráttarvaxta af tildæmdri fjárhæð. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi krafði skuldara sannanlega og með réttu um greiðslu. Samkvæmt framlögðum gögnum var stefndi fyrst krafinn um endurgreiðslu á grundvelli þess samnings, sem hér er til umfjöllunar, með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 20. febrúar 2012. Samkvæmt því er unnt að krefja stefnda um dráttarvexti frá og með 20. mars 2012. Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 5. gr. er ætíð heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi er dómsmál er höfðað um kröfu, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 13. mars 2012. Rétt þykir að miða upphafsdag dráttarvaxta við þann dag. Stefndi verður því dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 13. mars 2012 til greiðsludags.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 700.000 kr.
Dóminn kveður upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Flugastraumi ehf., 1.123.188 krónur, ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 13. mars 2012 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.