Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2004
Lykilorð
- Þjófnaður
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 11. nóvember 2004. |
|
Nr. 252/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Þjófnaður. Sýkna.
X var ákærður fyrir þjófnað með því hafa brotist inn í verslun í Mjódd og stolið skiptimynt að fjárhæð um 3.000 krónur úr sjóðvél. Á vettvangi fannst eitt skófar á flísum nærri afgreiðsluborði verslunarinnar. Var niðurstaða rannsóknar lögreglu sú að það væri ekki mögulegt að farið væri eftir annan skó en skó X. Fyrir lögreglu viðurkenndi X að hafa verið á ferð í Mjódd nóttina sem innbrotið átti sér stað, en neitaði að hafa brotist inn í verslunina. Fyrir dómi kvaðst X hafa verið í Mjódd daginn fyrir innbrotið og fram á kvöld ásamt ónafngreindri vinkonu sinni. Kvað hann þau hafa farið inn í umrædda verslun og átt þar viðskipti. X var ekki spurður frekar um vinkonu sína og ekki var hún leidd fyrir dóm til skýrslugjafar. Talið var sannað að skófarið sem fannst á vettvangi væri eftir skó X. Að virtum framburði X fyrir dómi og því að ekki yrði séð af gögnum málsins að slóð frá dyrum verslunarinnar að sjóðvél eða önnur för eftir skó hafi verið á gólfi þegar vettvangsrannsókn fór fram, var á hinn bóginn talið að vefengja mætti með skynsamlegum rökum að umrætt einstakt far eftir skó X væri frá því brotist var inn í verslunina. Hafi því ekki verið færð fram í málinu fullnægjandi sönnun um sekt X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvalds.
I.
Eins og nánar er lýst í héraðsdómi eru málavextir þeir að brotist var inn í verslunina Breiðholtsblóm í verslunarmiðstöðinni Mjódd í Reykjavík að kvöldi 1. október 2003 eða aðfaranótt 2. sama mánaðar. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu tilkynnti vegfarandi um innbrotið klukkan 7:21 að morgni 2. október 2003. Hafði rúða í útihurð verslunarinnar verið brotin með gangstéttarhellu og lágu nokkrir smápeningar á gangstéttinni framan við verslunina. Eigandi verslunarinnar, sem kom á vettvang, kvaðst einskis sakna nema skiptimyntar úr sjóðvél, um 3.000 króna. Gerð var rannsókn á vettvangi og eru ljósmyndir, sem þar voru teknar, meðal gagna málsins. Af þeim sést að gólf verslunarinnar er að hluta til lagt parketi en að hluta dökkum flísum. Glerbrot sjást á dreif um gólfið sem og brot úr gangstéttarhellu. Þá sést að skúffa í sjóðvél verslunarinnar var opin. Á myndunum sést eitt skófar á flísum nærri afgreiðsluborði verslunarinnar. Hvorki verður ráðið af þessum myndum né öðrum gögnum málsins að á gólfinu hafi verið fleiri skóför eða slóð frá dyrum að afgreiðsluborði. Grunur beindist strax að ákærða og var hann handtekinn samdægurs um hádegisbil. Var hann í skóm með grófum sóla, sem teknir voru til rannsóknar. Við yfirheyrslur hjá lögreglu síðdegis sama dag kvaðst ákærði hafa verið hjá kunningja sínum í grenndinni að kvöldi 1. október 2003 en hjólað eftir miðnættið í Mjóddina og tekið þar „nokkra hringi“. Hann neitaði því að hafa brotist inn í Breiðholtsblóm.
Rannsókn var gerð hjá tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjóra á umræddu skófari af vettvangi og skóm ákærða. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að umrætt skófar væri eftir skó ákærða. B aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem rannsakaði skófarið, kom fyrir dóm. Bar hann að á skóm ákærða væri nokkur fjöldi sérkenna sem komið hefðu með tilviljunarkenndum hætti á skóinn við notkun og hefðu þessi sérkenni fundist á skófarinu úr versluninni. Taldi hann ekki mögulegt að farið væri eftir annan skó.
Við aðalmeðferð fyrir héraðsdómi 9. mars 2004 kvaðst ákærði hafa verið í Mjóddinni frá hádegi 1. nóvember 2003 og fram á kvöld ásamt vinkonu sinni. Hafi hann þá farið inn í Breiðholtsblóm og keypt sprittkerti. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa munað eftir þessu við skýrslugjöf hjá lögreglu. Að öðru leyti bar ákærði með svipuðum hætti og hjá lögreglu um ferðir sínar þá um kvöldið og aðfaranótt 2. nóvember 2003. Ákærði var ekki spurður frekar um vinkonu sína og ekki var hún leidd fyrir dóm til skýrslugjafar enda þótt aðalmeðferð málsins hafi verið frestað til 17. mars 2004 og þá leidd fleiri vitni.
Vitnið H kvaðst hafa verið við vinnu í versluninni kvöldið 1. október 2003. Kvað hún versluninni vera lokað klukkan níu og annist starfsmaður á kvöldvakt um þrif eftir það. Hún kvaðst ekki muna sérstaklega eftir frágangi sínum umrætt kvöld en telja sig þó geta sagt með nokkurri vissu að hún hafi skúrað vegna þess að það geri hún alltaf og væru „eiginlega engin frávik frá því“.
II.
Ákærði hefur frá upphafi viðurkennt að hafa verið á ferð í Mjódd aðfaranótt 2. nóvember 2003. Þá verður að telja að með framangreindri rannsókn tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjóra sé í ljós leitt að skófar það sem fannst á vettvangi í umræddri verslun sé eftir skó ákærða. Önnur atriði hafa ekki verið færð fram til sönnunar því að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem hann er ákærður fyrir. Þegar litið er til framburðar ákærða um að hann hafi átt viðskiptaerindi í verslunina 1. október 2003 og þess að ekki verður séð af gögnum málsins að slóð frá dyrum að sjóðvél eða önnur för eftir skó hafi verið á gólfi verslunarinnar þegar vettvangsrannsókn fór fram, má vefengja með skynsamlegum rökum að umrætt einstakt far eftir skó ákærða sé frá því brotist var inn í verslunina. Hefur því ekki verið færð fram í málinu fullnægjandi sönnun um sekt ákærða, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður ákærði því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2004.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 10. febrúar sl. á hendur ákærða, X, kt. [...],[...], “fyrir þjófnað með því að hafa fimmtudaginn 2. október 2003 brotist inn í Breiðholtsblóm, Álfabakka 14b, með því að brjóta rúðu og stolið skiptimynt að fjárhæð um kr. 3.000 úr sjóðsvél.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Málavextir
Fyrir liggur að brotist var inn í verslunina Breiðholtsblóm í Mjóddinni á tímabilinu frá því að versluninni var lokað, kl. 21 miðvikudagskvöldið 1. október sl. þar til um morguninn, kl. 7.21 eða þar um bil, að vegfarandi sá að brotin hafði verið rúða í útihurð þar og tilkynnti um það. Samkvæmt staðfestri skýrslu S lögreglumanns, lágu nokkrir smápeningar á gangstéttinni fyrir framan verslunina og sást að gangstéttarhella hafði verið notuð til þess að brjótast inn. Þá var haft eftir verslunareigandanum sem kom á staðinn að ekki væri saknað annars en skiptimyntar úr afgreiðslukassa, u.þ.b. þrjú þúsund króna. Þá segir í skýrslunni að á vettvangi hafi fundist skófar sem frumathugun benti til að væri eftir skó ákærða, en hann hefði sést í öryggismyndavél Gardínubúðarinnar í Mjóddinni sem einnig hefði verið brotist inn í. Gerð var rannsókn á vettvangi, ljósmyndir teknar þar og leitað ummerkja. Hefur T rannsóknarlögreglumaður, gert um þetta skýrslu sem hann hefur staðfest. Þar kemur fram að lögreglumaðurinn skoðaði upptöku úr eftirlitsmyndavél verslunarmiðstöðvarinnar í Mjódd. Segir hann í skýrslunni að einhverjum hafi sést bregða fyrir á hlaupum frá Landsbankanum í áttina að Reykjanesbraut um hálf sjöleytið, en ekki hefði verið hægt að greina hver þar var á ferð. Af ljósmyndum sem teknar voru í versluninni eftir innbrotið má sjá að gólfið er að hluta til flísalagt og að hluta til lagt parketi. Á því sjást glerbrot á víð og dreif og einnig getur þar að sjá brotna gangstéttarhellu liggja á gólfinu með rúðubrotunum. Myndir eru af fótspori á flísalögðu gólfinu og ennfremur af opinni skúffu í peningakassa þar sem er að sjá talsvert af skiptimynt. Vegna þess að grunur féll á ákærða var farið heim til hans á [...] og hann handtekinn. Skór sem hann var í voru teknir til rannsóknar og gerður samanburður á ljósmyndum af skófari á gólfi blómaverslunarinnar og fari af hægri skó ákærða sem tekið var í sérstakri “skófaralyftu” í tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjóraembættisins. Að sögn B aðstoðaryfirlögregluþjóns, sem þá rannsókn gerði er mikill fjöldi sérkenna sameiginlegur með farinu úr búðinni og farinu eftir skó ákærða, en hann dregur fram sex atriði í því sambandi. Fullyrðir hann að farið í búðinni sé eftir skó ákærða. Í fyrri lögregluskýrslunni sem tekin var af ákærða, sbr. hér á eftir, kemur það fram hjá þeim sem þær skráði, að komið hefði fram í rannsókninni að sá sem brotist hefði inn í Gardínubúðina hefði verið á reiðhjóli. Kæmi lýsingin á innbrotsmanninum og reiðhjóli hans heim við ákærða og hjól hans. Þessari fullyrðingu er þó ekki unnt að finna stað í rannsóknargögnum málsins.
Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Hann kannaðist við það í skýrslu hjá lögreglu 2. október sl. að hafa verið á ferðinni á reiðhjóli í Mjóddinni þessa umræddu nótt eða morgun og tekið “þar nokkra hringi.” Að því er varðaði skófarið sagði hann í skýrslu 7. nóvember sl. að skór eins og hans væru algengir og gæti farið í búðinni ekki verið eftir hans skó.
Verður nú rakið það sem fram er komið í meðferð málsins fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Segist hann hafa verið allan daginn áður í Mjóddinni og farið þaðan yfir í Kópavog að heimsækja vin sinn. Þaðan hefði hann svo hjólað aftur yfir í Mjódd og hafi það verið eftir miðnætti, eftir að strætisvagnar hættu að ganga. Að því er skófarið umrædda varðar segist hann hafa komið í búðina um daginn og keypt þar vöru sem hann tiltekur. Hann segist hafa verið búinn að gleyma þessu atriði þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglunni og því ekki getið þess þá. Hann segir að skófarið í málinu sé eftir hans skó og til komið þegar hann kom í búðina í verslunarerindum þennan dag. Vegna þess sem hann sagði um þetta í yfirheyrslunni 7. nóvember segir hann að hann hafi verið í vondu skapi í það sinn.
Eigandi Breiðholtsblóma, N, hefur skýrt frá því að ekki hafi verið annars saknað úr versluninni en skiptimyntar, um þrjú þúsund króna. Sé það sú fjárhæð sem höfð sé í kassanum yfir nótt. Eitthvað af mynt hafi þó legið á búðargólfinu, um 250 krónur. Þá muni eitthvað af mynt hafa legið fyrir utan búðina. Úr kassanum hefði verið tekin 100 kr. og 50 kr. myntin, en smámynt skilin eftir. Ekki hafi verið talið hversu mikið var eftir í kassanum. Hún segir vera skúrað daglega í versluninni, eftir lokun, enda mikill umgangur þar um daginn. Sjái afgreiðslufólkið um það verk.
S lögreglumaður, hefur skýrt frá því að þegar hann kom snemma morguns til þess að sinna innbrotinu í blómabúðina hafi hann einnig verið kvaddur að Gardínubúðinni vegna innbrots í hana. Þar hefðu þeir lögreglumennirnir séð í eftirlitsmyndavél mann á reiðhjóli sem þeir töldu sig kannast mjög vel við sem ákærða. Skömmu seinna hefði verið hringt frá heimili ákærða og beðið um að hann yrði fjarlægður. Þegar þeir hefðu komið þangað hefði lýsingin passað “alveg við hann, reiðhjólið og fötin og allt saman.” Skór sem ákærði var í hafi ennfremur komið heim og saman við skófar í blómabúðinni. Vitnið segir að ekki hafist fundist skiptimynt á ákærða. Hafi ákærði neitað því að eiga nokkurn hlut að innbrotinu.
T rannsóknarlögreglumaður, hefur staðfest skýrslu sína. Hann segist álíta að skófarið hafi verið nýlegt en treystir sér ekki til þess að segja hversu gamalt. Hann segir sjálft farið hafa verið þurrt en úti hafi verið blautt á. Gólfið hafi verið hreint fyrir að hans áliti. Hann segist ekki vita hversu mikil mynt hafi legið utandyra en það hafi verið lítið.
B aðstoðaryfirlögregluþjónn, hefur komið fyrir dóminn og staðfest skýrslu um rannsókn sína á skófarinu og skóm ákærða. Hann segir útilokað að farið sé eftir annan skó en skó ákærða. Á skósólanum sé fjöldi sérkenna sem komið hafi á hann með tilviljanakenndum hætti við notkun. Þessi sérkenni hafi bæði fundist í vettvangsfarinu og í samanburðarfarinu.
H, sem gekk frá í búðinni kvöldið fyrir innbrotið, hefur skýrt frá því að hún muni ekki sérstaklega eftir þessu kvöldi. Aftur á móti sé hún viss um að hafa skúrað gólfið áður en hún fór, enda geri hún það alltaf. Hún kveður skiptimynt vera skilda eftir í kassanum, um 3000 krónur, en það sé ekki talið heldur áætlað. Hún hefur séð myndir af búðargólfinu og segir þær bera með sér að það hafi verið þvegið fyrir innbrotið. Hún kveður gólfflísarnar vera með gljáa og séu þær útsporaðar eftir hvern afgreiðsludag, sérstaklega á haustin.
Niðurstaða
Ákærði hefur kannast við að hafa komið í Mjóddina þessa umræddu nótt eða morgun. Annars er nokkur losara- og ótrúleikablær á framburði ákærða í málinu. Starfsmaður blómabúðarinnar hefur fullyrt að hún hafi skúrað gólfið þar eftir að búðinni var lokað um kvöldið. Þykja myndir af vettvangi renna stoðum undir þá fullyrðingu og er óhætt að slá því föstu að skófarið sem fannst á gólfinu um morguninn sé til komið eftir að starfsmaðurinn fór úr búðinni. Samanburður á skófari sem fannst á búðargólfinu við far eftir skó ákærða leiðir í ljós allmörg samsvarandi einkenni eða skurfur sem hljóta að hafa komið á skósólann við það að ganga á honum. Hefur dómarinn athugað ljósmyndir af rannsóknargögnunum og fellst á þá niðurstöðu B aðstoðaryfirlögregluþjóns, að farið á búðargólfinu hljóti að vera eftir skó ákærða. Þegar þetta er allt metið telst ákærði vera sannur að því að hafa brotist inn í búðina og stolið úr afgreiðslukassa hennar smáfúlgu af skiptimynt. Telst hann hafa brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði á að baki langan sakaferil. Hann hefur frá árinu 1980 verið dæmdur 16 sinnum fyrir hegningarlagabrot, oftast fyrir þjófnað og skjalafals. Síðast var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi í nóvember 2001. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hrl., 55.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hrl, 55.000 krónur.