Hæstiréttur íslands

Mál nr. 665/2009


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 4. nóvember 2010.

Nr. 665/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

Einari Geir Einarssyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur. Sératkvæði.

E var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa slegið A hnefahöggi í andlitið fyrir utan Fáksheimilið í Víðidal svo að hann hlaut af nefbrot. Var héraðsdómur staðfestur um annað en refsingu E og hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu skaðabóta til handa A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. nóvember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á héraðsdómi um sakfellingu ákærða, en þyngingar á refsingu hans.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara sýknu af kröfum ákæruvalds, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu á hendur honum verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu lækkunar á henni.

A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Er litið svo á að hann krefjist staðfestingar á ákvæðum héraðsdóms um skaðabætur og málskostnað sér til handa.

Ekkert er fram komið í málinu um að héraðsdómur sé haldinn slíkum annmörkum að heimvísun varði. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem ákveðst fangelsi í þrjá mánuði bundið skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

            Ákærði, Einar Geir Einarsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

            Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 239.072 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Allmargir menn voru viðstaddir fyrir utan Fáksheimilið í Víðidal að kvöldi 8. febrúar 2008, þegar ákærði á að hafa slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði. Aðeins ætlaður brotaþoli A og vinur hans, vitnið B, báru um að hafa séð ákærða slá A í andlitið. Áfellisdómur í héraði er byggður á framburði þessara vitna um þetta sem sagður er fá stuðning í framburði C, vinnufélaga A.

Brotaþoli A kærði atburðinn til lögreglu 12. febrúar 2008. Í lögregluskýrslu sem þá var tekin af honum benti hann á ákærða sem þann mann sem hefði slegið sig. Ekki var tekin lögregluskýrsla af vitninu B fyrr en 13. nóvember 2008 og skýrslu fyrir dómi gaf hann við aðalmeðferð málsins 29. september 2009. Þó að ekki hafi verið spurt sérstaklega um það fyrir dómi verður að gera ráð fyrir að þetta vitni hafi verið búið að ræða við ætlaðan brotaþola um atburðinn áður en vitnið var kvatt til vitnisburðar. Hið sama má segja um vitnið C, sem reyndar kvaðst ekki hafa séð ákærða slá A, en sagði hann strax á eftir hafa sagt „að það væri gæinn sem fór í sjómann við uppistandarann fyrr um kvöldið.“

Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekki að finna setta lagareglu um hvað koma þurfi til svo unnt sé að byggja áfellisdóm yfir sökuðum manni á framburði vitna. Í lögum nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, sem felld voru úr gildi með lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, var að finna svofellt ákvæði í 2. mgr. 129. gr.: „Nú gefa tvö eða fleiri óaðfinnanleg vitni samhljóða skýrslu í öllu verulegu um sömu staðreynd, er þau hafa samtímis skynjað, og skal þá að jafnaði telja fram komna fulla sönnun um þá staðreynd, enda komi ekkert fram í málinu, er verulega veiki skýrsluna.“ Þó að þetta ákvæði hafi verið fellt úr lögum tel ég það lýsa meginviðhorfi til sönnunarfærslu með vitnaframburðum sem enn sé í gildi auk þess sem hafa verður í huga að strangari kröfur hljóta að gilda um sönnun sektar í sakamáli heldur en um sönnun umdeilds atviks í einkamáli.

Til þess að vitni geti talist óaðfinnanlegt má það ekki sjálft hafa hagsmuni af sönnun um það atvik sem um ræðir. Jafnframt skiptir máli að vitni sé óvilhallt og gefi skýrslu áður en það á þess kost að „bera saman bækur sínar“ við aðila sem hagsmuni hefur af máli, ef svo má að orði komast. Þá er einnig nauðsynlegt að vitnisburður sé gefinn strax eftir að atburður verður en ekki svo löngu síðar sem hér er raunin. Hafni dómstóll vitnisburði af þeim sökum að hann uppfylli ekki þær kröfur sem hér um ræðir felst ekki í því staðhæfing um að vitnisburður sé rangur. Í því felst aðeins að hann dugi ekki til sakfellingar í sakamáli, þar sem ströng sönnunarkrafa hvílir á ákæruvaldinu.

Það er skoðun mín að sá vitnisburður sem niðurstaða hins áfrýjaða dóms byggir á uppfylli ekki þá kröfu sem gera verði til sönnunar sakar í refsimáli, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, og tel ég því að sýkna beri ákærða af ákærunni í málinu.

                                                            

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 13. október2009.

I

Málið, sem dómtekið var 29. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 2. júní 2009 á hendur „Einari Geir Einarssyni, kennitala 000000-0000, Hraunbæ 154, Reykjavík fyrir líkamsárás með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 8. febrúar 2008, við Fáksheimilið í Víðidal, veist að A, kt. [...], og slegið hann hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur samtals að fjárhæð kr. 1.837.200,- með fyrirvara um hækkun eða lækkun þegar endanlegt tjón hans liggur fyrir auk vaxta og alls kostnaðar við að halda frammi kröfu þessari.  Krafist er vaxta frá slysdegi til greiðsludags.“

Brotaþoli lækkaði kröfu sína í 945.752 krónur auk vaxta og málskostnaðar en krafan verður reifuð í IV. kafla.

Ákærði neitar sök og krefst sýknu.  Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.  Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.

II

Málavextir eru þeir að lögreglan var kvödd að Félagsheimili Fáks í Víðidal í Reykjavík laust fyrir miðnættið föstudaginn 8. febrúar 2008.  Segir í frumskýrslu að brotaþoli hafi verið sleginn af tveimur mönnum.  Var hann fluttur á slysadeild og þar kom í ljós að hann var nefbrotinn.  Brotaþoli kærði síðar ákærða fyrir líkamsárás, en ákærði neitaði sök.

III

                Ákærði bar að hafa verið að skemmta sér þetta kvöld í Fáksheimilinu.  Þar hafi verið mikil gleði og hefði hann meðal annars verið kallaður upp til að fara í sjómann.  Síðar hafi D, vinnuveitandi sinn, komið til sín og sagt sér að þeir væru að fara og hefði fylgt sér út.  E, vinur sinn, hefði einnig komið með.  Þegar út var komið var stormur og fljúgandi hálka og einhver ýtti við D þannig að hann datt utan í ákærða sem flaug á höfuðið.  Í framhaldinu hófust upp slagsmál og kvaðst ákærða hafa farið að skilja menn að þegar hann hafði staðið upp.  Ekki gat hann nafngreint aðra menn þarna en D og E.  Ákærði neitaði að hafa slegið brotaþola í andlitið og kvaðst ekki hafa komið við hann. 

                Brotaþoli kvað vin sinn, F, hafa verið „tekinn niður“ og hafi hann þá spurt vinnufélaga ákærða af hverju þetta hafi verið gert, en maðurinn hafi orðið eitthvað pirraður og spurt sig hvort hann vildi líka vera „tekinn niður“.  Eitthvað hafi þeir þrasað um þetta, en það hafi endað með að maðurinn fór inn.  Skömmu síðar komu ákærði og vinir hans út og kvaðst brotaþoli hafa gengið í veg fyrir þá og beðið þá um að slappa af en í því hafi ákærði slegið hann í andlitið og hann fallið í jörðina og vankast.  Eftir þetta kvaðst hann hafa skreiðst inn í húsið.  Hann kvaðst ekki þekkja ákærða og aldrei hafa talað við hann.  Brotaþoli kvaðst hafa verið fluttur á slysadeild og þar komið í ljós að hann var nefbrotinn.  Hann kvaðst hafa verið með spelku í viku en nefið væri samt sem áður smáskakkt.  Þá hefði sér liðið illa vegna þessa og hann hefði beyg af ákærða.

                F bar að hann hefði ekki séð átök milli ákærða og brotaþola.  Hann kvað sig og félaga sína, þar á meðal brotaþola, hafa verið fyrir utan húsið og voru þeir að ræða við ákærða og félaga hans.  F kvaðst hafa haldið að allir væru sáttir en svo hafi einhver komið út úr húsinu og þá hafi brotaþoli verið kýldur en hann hafi ekki séð það.  Hann  hafi orðið hræddur og hlaupið burt.  Hann kvað félaga sinn, B, hafa sagt sér að ákærði hefði slegið brotaþola.  Áður en þetta gerðist kvaðst F hafa farið í sjómann við ákærða og eins hefði ákærði snúið sig niður en hvorttveggja hafi verið í gamni. 

                  B kvaðst hafa komið að Fáksheimilinu til að sækja félaga sína, brotaþola og F.  Þegar hann kom að húsinu var brotaþoli að ræða við æstan eldri mann og segja honum að allt væri í lagi, en maðurinn svaraði einhverju og strunsaði svo inn í húsið.  B kvaðst svo hafa verið að ræða við brotaþola og F þegar þrír menn hafi komið út úr húsinu og einn þeirra farið að slá frá sér og meðal annars hefði hann slegið sig.  B kvaðst hafa séð ákærða kýla brotaþola í andlitið og hefði hann fallið við og skriðið í burtu.  Eftir þetta var brotaþoli fluttur á brott með sjúkrabíl.

                D, vinnuveitandi ákærða, bar að hafa orðið vitni að tuski í umrætt sinn.  Þarna hefði verið skemmtun og þegar henni var að verða lokið hefði komið til ryskinga.  Hann kvaðst hafa fengið högg en ekki geta borið um hver eða hverjir veittu honum þau.  D kvaðst ekki hafa séð ákærða slá brotaþola og ekki hafa séð hann leggja hendur á nokkurn mann. 

                C, félagi brotaþola, bar að hafa verið þarna og fengið högg frá ákærða.  Hann kvaðst hafa verið inni í húsinu og verið á leiðinni út þegar brotaþoli kom á móti honum alblóðugur í andlitinu og datt í fangið á honum.  C sagði að brotaþoli hefði sagt að sá sem fór í sjómann við uppistandarann fyrr um kvöldið hefði slegið sig og átti þá við ákærða.  C kvaðst hafa farið út og fengið við það högg á hægri vangann frá ákærða og síðan hafi D gefið sér hnéspark í andlitið og hafi hann vankast við þetta. 

                E var vinnufélagi ákærða.  Hann kvaðst ekkert muna eftir atburðum kvöldsins, enda kvaðst hann glíma við minnisvandamál.  Hann las yfir skýrslu sína, sem hann gaf hjá lögreglu, og staðfesti hana rétta.  Í skýrslunni kemur fram að D, sem var úti að reykja, hafi komið skyndilega inn og sagt það væru strákar fyrir utan og hefðu þeir abbast upp á sig.  E kvaðst þá hafa farið út með D og ákærða.  „Tilgangurinn var að komast að því hvað piltarnir vildu „uppá teppið.“  E bjóst við orðaskaki en ekki áflogum.  D gekk fyrstur, Einar  á eftir honum og E síðastur.  Þegar að dyrunum kom þá fuku þær upp sökum veðragangs.  D hrasaði til en féll ekki í jörðina, en Einar féll hins vegar í jörðina og rann að strákunum.  Allir féllu í jörðina, líkt og í keilukasti.  Þarna upphófust ryskingar.  E segist ekki hafa séð hver sló hvern.  E segist hafa séð að einn piltanna var reistur á fætur með blóðnasir og einhverjir tveir kunningjar hans studdu hann.  Þegar þessi piltur með blóðnasirnar sá færi á þá sló hann D hnefahögg á hægri augabrúnina, en D svaraði fyrir sig með bölvi.  Ekki árás.  E segist ekki hafa séð Einar kýla piltinn, sem fékk blóðnasirnar.“

                Læknarnir Steinunn G. H. Jónsdóttir og Hannes Petersen staðfestu vottorð sín sem eru meðal gagna málsins og staðfestu að ákærði hefði nefbrotnað.  Enn fremur að áverki brotaþola samrýmdist því að hann hefði fengið högg á andlitið.

                Einnig komu fyrir dóm G, sem var í Fáksheimilinu, en gat ekki borið um ákæruefnið.  Hann greindi þó frá ryskingum manna á milli.  Þá staðfesti Unnar Már Ástþórsson varðstjóri skýrslu sína.

IV

Með framburði brotaþola og vitnisins B, sem fær stuðning í framburði vitnisins C, er sannað, gegn neitun ákærða, að ákærði sló brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni og nefbraut hann.  Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.  Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar.  Refsing ákærða er hæfilega ákveðin 60 daga fangelsi.  Forsendur eru til að skilorðsbinda hana og eins og nánar greinir í dómsorði.

Brotaþoli krefst skaðabóta úr hendi ákærða og er endanleg krafa hans að ákærði verði dæmdur til „að greiða honum 945.752 krónur í skaðabætur með 4,5% ársvöxtum af kr. 272.000 frá 8. febrúar 2008 til 21. nóvember 2008 en frá þeim degi af kr. 945.392 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags“.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Bótakrafan sundurliðast sem hér segir:

1.

Bætur fyrir varanlegan miska

kr.  272.400

2.

Bætur fyrir þjáningar í 14 daga x 1.190 kr.     

kr.   16.660

3.

Bætur fyrir fataskemmdir                            

kr.   30.000

4.

Sjúkrakostnaður

kr.   13.092

5.

Miskabætur skv. 26. gr. laga nr. 50/1993

kr. 350.000

6.

Kostnaður við örorkumat                             

kr. 106.800

7.

Lögfræðikostnaður

kr. 156.800

Samtals                                                            

kr. 945.752

Að beiðni lögmanns brotaþola mat læknir líkamstjón hans og eru tveir fyrstu liðirnir í kröfugerðinni byggðir á því mati.  Í matinu kemur fram að varanlegur miski brotaþola er 4% og honum beri þjáningabætur í tvær vikur sem hann hafi verið batnandi, eins og segir í vottorðinu, án þess að vera rúmliggjandi. 

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa nefbrotið brotaþola og er hann skaðabótaskyldur gagnvart honum.  Verður nú farið yfir einstaka liði í bótakröfu ákærða og afstaða tekin til þeirra.  Tekið skal fram að ákærði hefur frá upphafi mótmælt bótakröfunni og hér fyrir dómi krefst hann sýknu af refsikröfunni og þar með að bótakröfunni verði vísað frá dómi. 

Kröfuliðir 1 og 2 eru byggðir á mati sem brotaþoli aflaði einhliða og án þess að ákærði ætti þess nokkurn kost að koma að sjónarmiðum sínum.  Gegn mótmælum hans er ekki hægt að taka þá til greina og er þeim vísað frá dómi.  Kröfuliður 3 styðst ekki við gögn og er honum einnig vísað frá dómi.  Kröfuliður 4 styðst við gögn og verður tekinn til greina.  Miskabætur til brotaþola samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga eru hæfilega ákveðnar 250.000 krónur.  Kröfulið 6 verður vísað frá dómi með sömu rökum og kröfuliðum 1 og 2.  Samkvæmt þessu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 263.092 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.  Það athugast að bótakrafan var birt ákærða 9. desember 2008 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar mánuður er liðinn frá þeim degi.  Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 111.552 krónur í lögmannskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða 33.592 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Jóns Þórs Ólasonar hdl., 167.328 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

                Ákærði, Einar Geir Einarsson, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði A 263.092 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga frá 8. febrúar 2008 til 9. janúar 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 111.552 krónur í lögmannskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði 33.592 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns Jóns Þórs Ólasonar hdl., 167.328 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.