Hæstiréttur íslands

Mál nr. 122/2005


Lykilorð

  • Samningur
  • Skaðabætur
  • Höfundarréttur
  • Málsástæða
  • Auðgunarkrafa
  • Tómlæti
  • Skipting sakarefnis


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. október 2005.

Nr. 122/2005.

Sverrir Kjartansson

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

gegn

Landssíma Íslands hf.

(Andri Árnason hrl.)

 

Samningur. Skaðabætur. Höfundaréttur. Málsástæður. Auðgunarkrafa. Tómlæti. Skipting sakarefnis.

 

S krafðist bóta fyrir tjón sem hann taldi L hafa bakað sér á árinu 1993 í tengslum við lok á samningi aðila um söfnun S á auglýsingum í símaskrá. Var krafa S um heimvísun málsins ekki tekin til greina. S reisti kröfu sína meðal annars á því, að eftir slit samningsins hafi L hagnýtt sér eignarréttindi hans og hugverk á þann hátt að í bága hafi farið við ákvæði höfundalaga. S var ekki talinn hafa sýnt fram á að L hafi hagnýtt sér eignarréttindi hans né nein þau verk, sem kynnu að njóta verndar höfundalaga. Þurfti þá ekki að leysa frekar úr því, að hvaða marki slík verk kynnu að hafa orðið til í hans hendi í tengslum við starf hans í þágu L meðan samningur var í gildi milli þeirra. Fékk S því ekki byggt kröfu sína á þessari málsástæðu. Aðrar málsástæður S lutu að því að hann hafi eignast fjárkröfu á hendur L við lok samningssambands aðilanna árið 1993. Var S ekki talinn hafa haldið kröfu sinni, sem sprottin væri beint af samningssambandi málsaðila, fram innan hæfilegs tíma frá því samningssambandi lauk. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu L.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. desember 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 23. febrúar 2005 og áfrýjaði hann á ný 22. mars sama ár með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju, en til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 48.548.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. apríl 1999 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið hefði ekki verið gjafsóknarmál í héraði. Að því frágengnu krefst hann þess að staðfest verði ákvörðun héraðsdóms um málskostnað og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. Þá krefst áfrýjandi þess að gjafsóknarkostnaður verði ákveðinn með hærri fjárhæð en gert var í héraðsdómi.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Kröfu sína um að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju byggir áfrýjandi í fyrsta lagi á því, að héraðsdómara hafi verið skylt að verða við kröfu hans um skiptingu sakarefnis samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Lagaákvæðið felur í sér heimild fyrir héraðsdómara til að verða við ósk málsaðila um slíkt en ekki skyldu. Eru ekki efni til að Hæstiréttur breyti þeirri ákvörðun. Verður því ekki fallist á þessa ástæðu áfrýjanda.

Í annan stað reisir áfrýjandi þessa kröfu á því, að héraðsdómari hafi ekki tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu, að stefnda beri að skila til hans þeirri auðgun, sem hann telur stefnda hafa öðlast við slit á samningssambandi aðila. Telur hann málsástæðu hér að lútandi hafa komið fram þegar í stefnu og hún síðan verið áréttuð og sett fram með skýrari hætti með bókun í þinghaldi 18. september 2003, eftir að gengið hafði dómur Hæstaréttar 19. júní 2003 í máli nr. 39/2003. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þá dómkröfu, sem áfrýjun tekur til, byggðist á tómlæti áfrýjanda við að hefjast handa við málsókn sína. Þurfti héraðsdómari því ekki að taka afstöðu til þeirra málsástæðna sem áfrýjandi hafði uppi og snertu efnisleg skilyrði fyrir kröfu hans. Verður af þessum sökum heldur ekki fallist á aðalkröfu áfrýjanda.

II.

 Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi krefst áfrýjandi bóta fyrir tjón sem hann telur stefnda hafa bakað sér á árinu 1993 í tengslum við lok á samningi aðila um söfnun áfrýjanda á auglýsingum í símaskrá. Byggir hann kröfu sína meðal annars á því, að eftir slit samningsins hafi stefndi hagnýtt sér eignarréttindi hans og hugverk á þann hátt að í bága hafi farið við ákvæði höfundalaga nr. 73/1972. Þá byggir hann á ýmsum öðrum ástæðum sem grein er gerð fyrir í héraðsdómi og loks einnig á fyrrgreindum sjónarmiðum um auðgun stefnda á hans kostnað.

Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi hafi hagnýtt sér eignarréttindi hans né nein þau verk, sem kunna að njóta verndar höfundalaga. Þarf þá ekki að leysa frekar úr því, að hvaða marki slík verk kunni að hafa orðið til í hans hendi í tengslum við starf hans í þágu stefnda meðan samningur var í gildi milli þeirra. Hann fær því ekki byggt kröfu sína á þessari málsástæðu.

Aðrar málsástæður áfrýjanda lúta að því að hann hafi eignast fjárkröfu á hendur stefnda við lok á samningssambandi aðilanna á árinu 1993. Þau kröfuréttindi sem áfrýjandi telur sig þannig eiga eru sprottin beint af samningssambandi málsaðila. Þeim sem vill gera slíka kröfu á hendur samningsaðila sínum vegna slita á gagnkvæmum samningi ber að halda fram kröfunni innan hæfilegs tíma frá því samningssambandi lýkur. Það gerði áfrýjandi ekki.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2004.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 9. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sverri Kjartanssyni, kt. 080524-4129, Hrísateigi 47, Reykjavík, með stefnu birtri 22. apríl 2003 á hendur Landssíma Íslands hf., Reykjavík, kt. 500269-6779, og til vara íslenzka ríkinu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði gert að greiða stefnanda kr. 57.726.789, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. september 1995 til l. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.  Til vara er þess krafizt, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.  Gerð er krafa um, að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

Dómkröfur varastefnda eru þær  aðallega, að hann verði verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.  Til vara er krafizt stórkostlegrar lækkunar stefnukrafnanna, og að máls­kostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

II.

Málavextir:

Með samningi stefnanda við Póst og síma, dags. 5. október 1978, tók stefnandi að sér að skipuleggja og vinna að auglýsingasöfnun fyrir símaskrá, sem áætlað var, að kæmi út í marz/apríl 1979.  Þá skyldi hann skrifa alla reikninga til auglýsenda og afhenda Pósti og síma, sem annaðist innheimtuna.  Kostnað vegna þessa skyldi stefnandi bera, og skyldi hann skila auglýsingum tilbúnum til prentunar fyrir 1. febrúar 1979.  Þóknun stefnanda var ákveðin 10% af andvirði auglýsinga.

Stefnandi kveðst hafa fundið upp á að raða auglýsingum í stafrófsröð, þannig að þær væru nærri skráningu auglýsanda í símaskránni, og við það hafi auglýsingatekjur stóraukizt, svo hagnaður hafi orðið af útgáfu símaskrárinnar, þar sem áður hafi verið hallarekstur.  Síðar hafi starfsemi stefnanda verið tölvuvædd, og hafi hann látið gera, eftir sinni fyrirsögn, hugbúnað, sem haldið hafi utan um gagnagrunn, og hafi hann verið stöðugt endurbættur fram til þess, að skiptum aðila lauk.

Viðskiptasamband aðila hélzt með óbreyttum skilmálum til ársins 1992, þegar Póst- og símamálastofnun sagði því upp með bréfi, dags. 15. maí það ár, en í því bréfi segir m.a., að stofnunin telji eðlilegt, að gerður verði nýr samningur, verði framhald á auglýsingasöfnun stefnanda fyrir símaskrána.  Í framhaldi af því var þann 17. september 1992 gerður nýr samningur milli aðila um símaskrá fyrir árið 1993.

Þann 3. júní 1993 skilaði stefnandi skýrslu til P&S (Póst- og símamálastofnun) um auglýsingar í Símaskrá 1993.  Í skýrslunni segir m. a.:

 “Samkvæmt samningi okkar frá síðast liðnu hausti er starfi mínu við sölu auglýsinga í Símaskrána nú lokið.  Skrifstofa mín mun þó verða opin, til þess að sinna fyrirspurnum viðskiptavina okkar varðandi auglýsingar í Símaskránni, þar til ákvörðun um framhald þessa starfs liggur fyrir. Ég vek athygli á því, að sumarið er af ýmsum ástæðum fremur ódrjúgt til vinnu, það hefur því verið venja okkar að hefja strax undirbúning fyrir næsta sölutímabil.  Ef vel á að vera þurfa sölugögn vegna næstu Símaskrár að vera tilbúin í ágúst­-september.”

Með bréfi, Póst- og símamálastofnunar til stefnanda, dags. 24. ágúst 1993, var stefnanda boðið að taka þátt í lokuðu útboði um auglýsingasöfnun í símaskrá 1994.  Stefnandi bauð í verkið þann 17. september s.á.  Með bréfi, dags. 1. október s.á., var stefnanda tilkynnt, að ekki yrði samið við hann, og að gengið hefði verið til samninga við Íslenzku auglýsingastofuna, þar sem það tilboð hefði verið hagstæðast.

Stefnandi kveðst hafa vísað erindum til Póst- og símamálastofnunar frá 1. október 1993, en hafa þó sinnt verki sínu fram í miðjan október.

Í bréfi stefnanda til Póst- og símamálastofnunar, dags. 5. október 1993, segir m.a., að allt skipulag á sölu auglýsinga í símaskrá sé hugverk stefnanda.  Fundið er að því, að sölugögn vegna símaskrár 1993 hafi verið notuð til viðmiðunar og send útboðsaðilum, vitnað í höfundalög og bent á, að símaskrá 1993 sé þægilegt vinnuáhald fyrir nýjan auglýsingasafnara.

Stefnandi kveðst hafa verið nýbúinn að taka á leigu skrifstofuhúsnæði í Austurstræti og búa það tækjum, þegar samningssambandi aðila lauk.  Reksturinn hafi hrunið til grunna með tilheyrandi vandkvæðum og fjárhagsörðugleikum, og fjárhagur stefnanda hafi verið í molum, og honum hafi verið ofviða að greiða skuldir, sem söfnuðust á því tímabili, sem leið frá því að vinnu við símaskrá 1993 lauk og þar til stefnandi hætti störfum í þágu Póst- og símamálastofnunar.

Þann 21. október 1993 sendi stefnandi Póst- og símamálastofnun reikning fyrir ýmsa þjónustu og störf unnin frá 1. júlí 1993.

Í bréfi Póst- og símamálastofnunar til stefnanda, dags. 25. október 1993, segir m.a.:

 “Það er varla umdeilanlegt, að Póst- og símamálastofnun hefur greitt fyrir alla vinnu, sem lögð hefur verið í umrædd hugverk og hlýtur þess vegna að hafa rétt til notkunar þeirra.”

Í svarbréfi stefnda, dags. 3. nóvember 1993, segir svo m.a.:

 “... það er í raun ekki Póstur & Sími sem hefur greitt mér fyrir sölu á auglýsingum í Símaskrána.  Það hafa auglýsendur gert.  Þóknunin fyrir að selja auglýsingar í Símaskrána er innifalin í verði auglýsinganna.  Póstur & Sími hefur annazt innheimtu reikninganna og skilað söluþóknun til mín í samræmi við samkomulag þar um.”

Þann 21. október 1993 ritaði stefnandi prentsmiðjunni Odda bréf, þar sem hann gerði ljóst, að hann vænti þess, að auglýsingar á tölvudiski yrðu aðgengilegar fyrir sig og bannaði óheimiluð afnot annarra.  Þá krafðist hann afrits af diskinum, en var synjað. 

Í bréfi lögmanns Póst- og símamálastofnunar, dags. 22 desember 1993, segir, að eftir að verktöku samkvæmt samningi 17. september 1992 lauk, hafi ekki verið um samningssamband að ræða milli aðila, og rekstur Sverris eftir það alfarið á hans ábyrgð; skrifstofu Sverris hafi ekki verið haldið opinni að beiðni Póst- og símamálastofnunar.

Þann 10. marz 1994 afgreiddi stefnandi til Póst- og símamálastofnunar síðustu eftirritin úr gagnaskrám af auglýsingapöntunum.  Samtals voru afgreiddar 183 pantanir ásamt fskj., 482 síður.  Stefnandi gerði Póst- og símamálastofnun reikning fyrir vinnu við þetta verk, en greiðslu var synjað.

Frá 8. september 1993 til og með 5, september 1995 kveðst stefnandi hafa unnið að því, samkvæmt skriflegnum beiðnum Póst- og símamálastofnunar og lögmanna hennar, að leita að staðfestum pöntunum úr gagnaskrám og senda starfsmönnum stefnda þær ásamt fskj.  Hann hafi sent reikning með hverri afgreiðslu, og sé samanlögð fjárhæð þeirra kr. 1.129.464.

Með lögum nr. 103/1996 var ríkisstjórninni heimilað að stofna hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar, sem nefnast skyldi Póstur og sími hf., sem tæki yfir réttindi og skyldur Póst- og símamálastofnunar, sbr. 1. gr. laganna.  Samkvæmt 15. gr. laganna miðaðist yfirtaka við 1. janúar 1997.  Á árinu 2000 tók Landssími Íslands hf. við símaþættinum. 

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að Póst- og símamálastofnun hafi brotið gegn samningsskyldum við hann með því að tileinka sér fyrirtæki hans, verkfæri og hugverk, og gera honum önnur ónýt, sinna ekki skyldu um gagnkvæmt tillit og valda honum með því tjóni, og með því að greiða honum ekki fyrir umsamin verk og verk, sem unnin hafi verið í réttmætu trausti þess, að samningssamband héldist.  Þá hafi stofnunin bakað stefnanda tjón vitandi vits með ólögmætri háttsemi, sem hafi haft verulega hættu í för með sér fyrir lögverndaða hagsmuni stefnanda og farið í bága við ákvæði höfundalaga um höfundarétt og vernd skyldra hugverkaréttinda, sbr. höfundalög nr. 73/1972, l. gr., 6. gr. og 50. gr., ákvæði samkeppnislaga og óskráðar reglur um óréttmæta viðskiptahætti, atvinnuleyndarmál og "know how", sbr. 20. gr. og 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, einkum 3. mgr., og óskráðar reglur íslenzks réttar um viðskiptavild, hugmyndarétt og sjálfstæð trúnaðarbrot, óháð samningum og brotið þannig á honum gegn almennu skaðabótareglunni, haft með rangindum af honum eignir hans, einkum viðskiptamannaskrár og gagnagrunn en gert önnur rekstraráhöld hans verðlaus og skert þannig eignarrétt hans að þessum verðmætum, neytt réttar síns til samningsrofa og/eða samvinnuslita á þann hátt, sem komið hafi stefnanda verst vitandi vits og brotið þannig gegn almennri reglu íslenzks réttar um réttarníðslu og loks - sem stjórnvald brotið á honum gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um hlutlæga málsmeðferð, góða stjórnsýsluhætti, málshraða, lögmæt og málefnaleg sjónarmið, meðalhóf, valdníðslu, og rétt til upplýsinga, andmæla og tilkynninga, misbeitt valdi sínu við val á leiðum og sýnt stefnanda rangsleitni, sbr. 9. gr., 1l.-15. gr. og 20. gr. stjórnsýslulaga.

Stefnandi heldur því fram aðallega, að Landssími Íslands hf. beri nú ábyrgð gagnvart honum samkvæmt framansögðu bæði einkaréttarlega og stjórnsýslulega.

Til vara er því haldið fram, að varastefndi beri hina stjórnsýslulegu ábyrgð.

Samningar

Stefnandi byggir á því, að frá 1979 hafi komizt á varanlegt samningssamband, sam­vinna og viðskiptavenjur milli hans og P&S, sem hafi verið sagt upp 1992, m.a. venjur um að stefnandi hæfi störf við símaskrá næsta árs um mánaðamót maí/júní, án þess að samningssambandið væri sérstaklega endurnýjað.  Þessi skilningur muni vera óumdeildur, sbr. bréf P&S til stefnanda, dags. 15. maí 1992, og eiga stoð í því, að áður en samningar tókust í upphafi, hafi P&S óskað eftir því, að stefnandi tæki að sér að stýra auglýsingadeild Landssímans sem deildarstjóri.  Stefnandi hafi haft eigin skoðanir á því, hvernig ætti að standa að því að selja auglýsingar í símaskrá og hafi orðið að ráði, að hann tæki það að sér sem verktaki, en að mörgu leyti hafi fyrirtæki hans verið einskonar auglýsingadeild Símans/Símaskrárinnar, sem hann hafi borið fulla ábyrgð á.  Þegar samið var að nýju um símaskrá 1993, hafi stefnandi eðlilega og réttilega litið svo á, að hið fyrra samningssamband hefði verið endurnýjað.  Þar sem því hafi ekki verið sagt upp og ekkert hafi komið fram af hálfu P&S, sem hafi gefið annað til kynna en að ætlazt væri til, að stefnandi ynni að auglýsingasölu í símaskrá 1994, hafi hann hafið vinnu við þá símaskrá, þegar tími var til á fyrri hluta árs 1993.  Þegar þessa sé gætt, sem og þess, að stefnandi hafi ekki mátt vinna fyrir aðra og með hliðsjón af venju um sjálfkrafa endurnýjun samvinnusambands aðila, telji hann, að hann hafi átt rétt á sanngjörnum uppsagnarfresti.  Auk þess telji stefnandi, að sú skylda hafi hvílt á P&S samkvæmt samningi um símaskrá 1993 að láta hann vita eins fljótt og unnt hafi verið, ef ekki hafi verið ætlunin, að hann ynni að símaskrá 1994.  Þessi skoðun sé m.a. byggð á óskráðri reglu samningaréttar, um að samningsaðilum beri að sýna hvor öðrum tillit og gera það, sem með sanngirni megi krefjast af þeim til að takmarka tjón viðsemjandans.  Sérstaklega telji stefnandi, að rík skylda hafi fallið á P&S við viðtöku bréfs hans 3. júní 1993, um að gera stefnanda ljóst, að hann hafnaði þjónustu hans við símaskrá 1994, ef stofnunin ætlaði ekki að halda samningssambandinu áfram.  Þá telji stefnandi, að sérstaklega rík skylda hafi, samkvæmt framansögðu, hvílt á P&S að haga samningsslitum á þann veg og velja til þeirra tíma þannig, að stefndi biði sem minnstan skaða af; yfirstjórn P&S hafi vitað, að undirbúningur auglýsingasöfnunar hafi venjulega hafizt í marz/apríl; hún hafi valið tímann, þegar ½ árs vinnu hafði verið eytt í undirbúning; stefnandi hafi verið grandalaus og sinnt venjubundnum störfum allt til 24. ágúst 1993, þegar honum var tilkynnt um útboð og raunar lengur, til að samningsaðilar hlytu ekki skaða af skyndilegri lokun.  Í trausti þess, að sambandið héldist, hafi stefnandi lagt í mikinn kostnað, sem hann hafi ekki getað fengið uppiborinn vegna hinna skyndilegu samningsslita.  Auk þess hafi P&S, andstætt skyldum sínum, svipt stefnanda verkfærum hans og í reynd blómlegu fyrirtæki hans og fengið það öðrum.

Stefnandi telji það m.a. leiða af samningssambandi aðila, að P&S hafi borið að greiða fyrir verk hans við símaskrá 1994 eftir 1. júní 1993 í samræmi við samning aðila um símaskrá 1993.  Með því að P&S hafi þegið athugasemdalaust og vitandi vits þjónustu stefnanda vegna Símaskrár 1994, hafi samningssambandið framlengzt og í reynd komizt á samningur eða samningsígildi um, að hann ynni að skránni, þar til útboði væri lokið og nýtt fyrirtæki gæti tekið við.

Stefnandi telji, að samningur hafi orðið til um umbeðin verkefni við það, að hann hafi fallizt á einstakar beiðnir, og greiðsluskyldu við að hann hafi orðið við þessum beiðnum og gert P&S reikninga.

Stefnandi telji, að umsömdum verkum samkvæmt samningi um Símaskrá 1993 hafi lokið vorið 1993.  Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi skrifa reikninga til auglýsenda og afhenda P&S, sem annaðist innheimtu.  Stefnandi telji fráleitt, að samningar aðila verði túlkaðir þannig, að honum bæri að sinna svo stórum verkefnum án sérstakrar greiðslu, löngu eftir að verki hans lauk; aðilar hafi verið skildir að skiptum og annað fyrirtæki komið í hans stað.  Greiðslur til stefnanda hafi verið sölulaun, en hvorki laun fyrir hvers konar störf, sem P&S hafi getað hugkvæmzt að fela stefnanda vegna innheimtu, sem P&S annaðist fyrir eigin reikning né fyrir hugverk.

Loks telji stefnandi stefnda í raun hafa tileinkað sér og öðrum fyrirtæki hans, eins og nánar greini hér að framan og aftan og brotið þannig gegn samningsskyldum sínum.

Bótaábyrgð utan samninga

Stefnandi telji, að P&S hafi, burt séð frá samningssambandi aðila og óháð því, bakað honum tjón með ólögmætum og saknæmum hætti - skaðað hann vitandi vits - haft af honum eignir hans samkvæmt framansögðu og verðmæt hugverk hans samkvæmt því, sem nánar greini hér á eftir - gert sumar verðlausar, en haldið öðrum fyrir honum og afhent án heimildar - viðskiptaleyndarmál hans, sérþekkingu og starfsreynslu, viðskipta­mannalista, höfundarrétt - og/eða skyld hugverkaréttindi - að tilhögun auglýsinga í símaskrá og viðskiptavild fyrirtækis hans.

Stefnandi telji P&S hafa stefnt ofangreindum réttarhagsmunum hans í voða og brotið gegn framangreindum lagafyrirmælum í samkeppnislögum og höfundalögum.

Stefnandi leggi áherzlu á, að heimild P&S til að nota hugverk hans og önnur atvinnutæki hafi verið stranglega bundin við samvinnu aðila; óheimil notkun, eftir að henni lauk, sé ólögmæt.

Stefnandi telji sig hafa mátt treysta því, að sér væri rétt að halda áfram störfum, eftir að vinnu við Símaskrá 1993 lauk eða var að mestu lokið og hefja vinnu við Símaskrá 1994.  Yfirmönnum P&S hafi verið þetta ljóst að áliti stefnda; a. m. k. hafi þeim hlotið eða mátti vera þetta ljóst.  Jafnframt hafi þeim verið ljóst, að stefnandi hafi verið að vinna við Símaskrá 1994 ekki síðar en í júní 1993, og það hafi þeim hlotið eða mátti vera ljóst fyrr.  Þrátt fyrir það hafi þeir ekki gert stefnanda ljóst, að þjónustu hans væri ekki óskað, fyrr en undirbúningur símaskrárinnar hafi verið langt kominn.  Með þessu háttarlagi hafi P&S bakað stefnanda tjón, sem ekki sjái fyrir endann á.  Þetta telji stefnandi vera sjálfstætt réttarbrot, sem varði við almennu skaðabótaregluna.

Eignarréttur

Meðal verðmætustu verkfæranna, sem stefnandi notaði við fullnustu samnings­skyldna sinna við P&S, hafi verið sérsniðinn hugbúnaður hans fyrir sölu auglýsinga í símaskrá - frumhönnun - og nýendurunninn gagnagrunnur, ­tölvugrunnur - viðskiptamannalisti.  Þessi verkfæri hafi verið eign hans.  Hann hafi og notið viðskiptavildar auglýsenda.  Reynslu sína og sérþekkingu hafi hann virkjað í þágu stefnda og byggt upp blómlegt fyrirtæki, sem hann hafi helgað P&S óskipt.  Stefnandi telji P&S hafa svipt hann þessum eignum og fengið þau að meira og minna leyti samkeppnisaðila hans, sem hafi getað undirboðið hann með von í þessum verðmætum; þeir rekstrarfjármunir, sem hann hafi haldið, hafi orðið nánast verðlausir í hans höndum sökum þess hve sérhæfðir þeir hafi verið.

Auglýsingar hafi verið búnar til prentunar í náinni samvinnu við prentsmiðjuna Odda.  Þær hafi farið frá stefnanda til prentsmiðjunnar, sem hafi sett skrána.  P&S hafi notað þessi gögn fyrir Símaskrá 1994 heimildarlaust og meinað stefnanda aðgang að þeim og þannig haldið fyrir honum réttmætum eignum hans.

Heimildarlausa ráðstöfun rekstrarfjármuna sinna, telji stefnandi óháða samningssambandi aðila.

Höfundarréttur

Allt skipulag á sölu auglýsinga í Símaskrá sé hugverk stefnanda, sem njóti verndar höfundalaga og samkeppnislaga.

Þegar stefnandi hóf störf fyrir P&S, hafi hann fengið því framgengt, að auglýsingum hafi verið raðað á hvítu síðurnar í símaskránni innan um skráningar símnotenda, þannig að auglýsing hafi verið við skráningu auglýsanda.  Þessa tilhögun hafi hann kynnt auglýsendum fyrir fram og hafi þetta orðið til þess að auka auglýsingatekjur, svo að taprekstri símaskrár hafi verið breytt í hagnað.

Almennt hafi verið talið, að efni símaskráa væri nærri þeim mörkum, sem sett séu höfundarétti vegna krafna um sjálfstæða, persónulega sköpun og frumleika.  Sérstaklega hafi verið talið, að hvítu síðurnar skorti þessi skilyrði.  Að mati stefnanda gegni öðru máli um ofangreinda tilhögun.  Hún beri vitni hugkvæmni stefnanda og frumleika og njóti, að mati stefnanda, verndar l. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 6. gr. s.l.  P&S hafi notað þessa tilhögun heimildarlaust til að gera símaskrár, eftir að samvinnu aðila lauk og án þess að greiða stefnanda hæfilegt verð fyrir þá notkun.

Þegar stefnandi hóf störf fyrir P&S, hafi honum fyrst orðið fyrir að semja skrá yfir væntanlega og vænlega auglýsendur og skrá gagnlegar upplýsingar um þá á skipulegan hátt.  Fljótlega hafi hann tekið tölvur í þjónustu sína, en á þeim tíma hafi ekki verið til að dreifa heppilegum forritum, sem hentuðu til verksins.  Hann hafi því látið smíða forrit að sinni fyrirsögn og á sinn kostnað, og hafi þau verið þróuð í takt við almenna þróun tölvutækni og forritagerðar allan tímann, sem stefnandi starfaði fyrir P&S.  Vegna náinnar samvinnu aðila hafi P&S haft aðgang að forritinu og frumkóða - frummáli – þess, en stefndi hafi ekki framselt rétt sinn.

Forrit stefnanda beri vitni hugkvæmni hans og frumleika og njóti, að mati stefnanda, verndar l. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 4. mgr. 1. gr., sbr. l. gr. laga nr. 57/1992, sbr. og 6. gr. s.l.  Stefnandi telji, að P&S hafi tileinkað sér forritið og notað það heimildarlaust til að gera símaskrár, eftir að samvinnu aðila lauk og án þess að greiða honum hæfilegt verð fyrir þá notkun. 

Stefnandi hafi gert gagnagrunn í forriti sínu.

Viðskiptamannalisti stefnanda byggist á langri reynslu stefnanda af samskiptum við auglýsendur, og myndi margur, sem starfi að auglýsingasölu, vilja greiða stórfé fyrir hann.  Hann hafi jafnframt búið yfir neikvæðum upplýsingum um þá, sem ekki hafi verið líklegir til að auglýsa í símaskrá og hafi viðhaft árangursríkar viðskiptaaðferðir, byggðar á markaðsgreiningu.

Viðskiptamannalisti stefnanda beri vitni hugkvæmni hans og frumleika og njóti, að mati stefnanda, verndar l. mgr. l. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 50. gr. s.l.

P&S hafi tileinkað sér sölugögn stefnanda, einkum viðskiptamannalistann, notað þau heimildarlaust og afhent öðrum til að selja auglýsingar í símaskrár, eftir að samvinnu aðila lauk og án þess að greiða stefnanda hæfilegt verð fyrir þá notkun.

Af gögnum málsins verði ekki betur séð, en að aðilar séu sammála um, að skipulag á sölu auglýsinga í Símaskrá sé hugverk stefnanda, sbr. bréf póst- og símamálastjóra til stefnanda, dags. 25. október 1993, s. 2, þar sem segi, að það sé varla umdeilanlegt, að stofnunin hafi greitt fyrir alla vinnu, sem lögð hafi verið í "umrætt hugverk".

Stefnandi telji, að aðalstefndi og/eða varastefndi beri bótaábyrgð gagnvart honum og að honum beri bætur bæði fyrir fjártjón og miska samkvæmt því, sem að ofan greini og 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

Skyld hugverkaréttindi

Verði ekki fallizt á, að stefnandi njóti höfundaréttarverndar vegna viðskiptamanna­listans, sé því haldið fram, að hann njóti verndar 50. gr. höfundalaga, sbr. nú 10. gr. laga nr. 60/2000, sem stefnandi telji fela í sér staðfestingu og nánari útfærslu eldri réttar um vernd kataloga o. fl.

Viðskiptavild

Þegar aðilar skildu að skiptum, hafi stefnandi haft upplýsingar um 2100 fyrirtæki, sem væru væntanlegir og vænlegir kaupendur auglýsinga.  Þetta hafi verið viðskiptamenn stefnanda, sem hafi tekið tryggð við fyrirtæki hans undir merkjum auglýsingadeildar Símaskrárinnar.  Með því að halda fyrir stefnanda tölvugögnum og nýta viðskiptatengsl hans án endurgjalds, telji stefnandi P&S hafa nýtt vísvitandi, á ólögmætan hátt, þá réttarhagsmuni sína, sem tengdust viðskiptavild fyrirtækis hans.

Viðskiptaleyndarmál

Vegna náinnar samvinnu aðila, hafi P&S fengið fullan aðgang að öllum atvinnu-, viðskipta- og rekstrarleyndarmálum stefnanda, svo sem viðskiptamannaskrá, sérþekkingu og reynslu -know-how-, sem stefnandi hafi komið með inn í samvinnu aðila og áunnið sér í samstarfinu, viðskiptaaðferðum og markaðsgreiningum.  P&S hafi fengið aðgang að þessum réttarhagsmunum í trúnaði, og leyndarmál stefnanda hafi ekki farið víðar, fyrr en aðilar skildu að skiptum, og P&S hafi nýtt þá, að mati stefnanda, heimildarlaust og án endurgjalds.  Heimild P&S til að njóta þessara hagsmuna hafi ekki náð lengra en til loka samvinnu aðila.  P&S hafi þá enga heimild haft til að veita öðrum aðgang að þeim.  Með þessu telji stefnandi stefnda hafa brotið gegn fyrirmælum 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Stefnandi telji P&S hafa rofið trúnað við sig og skaðað sig með því að ekki hefði verið hægt að afla þeirra upplýsinga, sem stefnandi bjó yfir, nema annaðhvort með þeim hætti, sem P&S hafði á, eða með ærnum kostnaði og fyrirhöfn.  Stefnandi telji P&S hafa brotið gegn sér varðandi viðskiptaleyndarmál, án tillits til samningssambands og óháð því.

Know how

Stefnandi telji, að sér hafi tekizt, áður en samvinna aðila hófst og meðan hún varði, að tileinka sér sérstök hagnýt vinnubrögð, sölutækni og aðferðir, skipulag á sölu auglýsinga, sem að hluta til hafi verið leyndarmál, en notið, að öðru leyti og jafnframt, sjálfstæðrar lögverndar sem sérstök tegund hugverka á sviði viðskipta, þar sem ávinningur hafi verið að því fyrir aðra, einkum P&S, Íslenzku auglýsingastofuna og aðra keppinauta, að fá raunhæfar og nákvæmar upplýsingar um þessi verðmæti.

Stefnandi telji, að P&S hafi tileinkað sér og öðrum "know how" hans og gert það að öðru leyti honum verðlaust, óháð því að það hafi verið viðskiptaleyndarmál, með því einkum að færa Íslenzku auglýsingastofunni það "á silfurfati," án þess að greiða fullt verð fyrir og án heimildar, sbr. 3. mgr., sbr. 4. mgr. 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Óréttmætir viðskiptahættir

Stefnandi telji, að P&S hafi afhent samkeppnisaðila hans viðskipta­leyndarmál hans með óréttmætum hætti, rofið trúnað við hann, látið hann vinna án endurgjalds verulegan hluta Símaskrár 1994 í þeirri góðu trú, að laun kæmu fyrir, skaðað hann og svipt hann verðmætum, sem hann hafði aflað sér með ærinni fyrirhöfn, verkkunnáttu, hyggindum og kostnaði og þannig að fari í bága við 20. gr. samkeppnis­laga nr. 8/1993.

Yfirstjórn P&S hafi vitað, að stefnandi hafi verið nýbúinn að byggja upp aðstöðu fyrir auglýsingadeild stofnunarinnar, endurnýja 4 tölvur auk móðurtölvu, endurvinna allan gagnagrunn og ráða starfsfólk.

Réttarníðsla

Stefnandi viðurkenni rétt P&S til að binda enda á samningssamband og samvinnu aðila, en véfengi rétt hans til að gera það á þann hátt, sem gert var.  Yfirstjórn P&S hafi verið fullljóst, að venja hafi myndazt um, að stefnandi hæfi störf við næstu símaskrá, þegar störfum við símaskrá ársins var að ljúka, og að þannig hafi aldrei orðið lát á starfsemi auglýsingadeildarinnar, sem stefnandi veitti forstöðu.  Yfirstjórninni hafi jafnframt verið kunnugt um fjárfestingar stefnanda, sem gert hafi verið ráð fyrir, að yrðu borgaðar á nokkrum árum.  Loks hafi P&S látið hjá líða að segja stefnanda til, þegar hann vakti athygli yfirstjórnar hennar sérstaklega 3. júní 1993 (sic í stefnu).  Rétt hefði verið af P&S að gera stefnanda það ljóst við samningsgerð 1992, og ekki síðar en ákvörðun um að hætta samvinnu við stefnanda var tekin, að ekki væri ætlazt til, að hann ynni að Símaskrá 1994.  Stefnandi telji, að tjón sitt hefði orðið minnst, ef honum hefði verið tilkynnt, að ekki yrði samið við hann að nýju á fyrri hluta árs; honum hefði verið gefinn kostur á að reka fyrirtækið út árið en nýr aðili tekið við um áramót.  P&S hafi ekki aðeins framið samningsbrot með þessum hætti, heldur hafi stofnunin vitandi vits neytt réttar síns á þann hátt, sem stefnanda kom verst, og brotið þannig gegn óskráðri grunnreglu um réttarníðslu þess efnis, að rétthafa leyfist ekki að neyta réttar síns í þeim tilgangi að skaða.  Í þessu sambandi verði að leggja vitneskju um skaðleg áhrif réttarníðslu að jöfnu við tilgang. Stefnandi telji réttarníðslu sjálfstæðan bótagrundvöll, óháðan samningssambandi.

Stjórnsýsluréttur

Þegar atvik málsins urðu, hafi fjarskiptamál, þ.á m. símamál, verið eðlilegur og venjulegur þáttur í stjórnsýslu ríkisins.  Um þessa starfsemi hafi gilt sömu reglur og um aðra þætti í stafsemi ríkisvaldsins.  P&S hafi verið ríkisstofnun.  Um hana hafi gilt almennar stjórnsýslureglur, skráðar og óskráðar.  Um samninga hennar hafi gilt reglur um samninga hins opinbera.  Ákvarðanir, sem teknar voru í nafni P&S, hafi verið stjórnsýsluákvarðanir.

Stjórnsýslulög nr. 37/1993, sem tóku gildi 1. janúar 1994, hafi að verulegu leyti verið staðfesting eldri óskráðra reglna og að því leyti, sem atvik málsins urðu eftir gildistöku þeirra, hafi þau beinlínis gilt um skipti aðila.

Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar um góða stjórnsýsluhætti hafi P&S borið að láta vita um þá fyrirætlun sína að binda enda á rekstur stefnanda á auglýsingadeild Símaskrár fyrr og gera ljóst, að stofnunin óskaði ekki eftir þjónustu stefnanda við Símaskrá 1994.  Í þessu sambandi hafi, að mati stefnanda, borið að gæta sambærilegra sjónarmiða og við lausn ríkisstarfsmanna.  Í rauninni hafi stefnandi rekið auglýsingadeild Símaskrárinnar fyrir eigin reikning frá 1978 til 1993.

Jafnframt telji stefnandi, að P&S hafi borið að gæta meðalhófs við ákvarðanir sínar varðandi sambandsslit við stefnanda, einkum þannig að gera honum ljóst við fyrsta tækifæri, að þjónustu hans yrði ekki óskað og að ekki væri ætlunin að semja við hann eftirleiðis, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga; haga þannig til, að stefnandi hefði sem minnst tjón og baga af sambandsslitunum.

Rétt hefði verið að gefa stefnanda kost á að neyta andmælaréttar, sbr. 13. gr. stjsl.  Þá hefðu komið fram sjónarmið hans, sem rakin séu í málinu, m.a. að aðrir gætu boðið betur í von um að geta nýtt þann grundvöll, sem hann hafði lagt.  Stefnandi telji sig engan vinningsmöguleika hafa haft gagnvart Íslenzku auglýsingastofunni, sem hafi getað reiknað með að njóta góðs af þeim grundvelli, sem hann hafði lagt, án endurgjalds. Stefnandi telji, að þeirri hugsun verði ekki varizt, að útboðið hafi verið notað til að slíta sambandinu við sig og fá öðrum þá hagsmuni, sem stefnandi hafi átt; þannig hafi verið brotið gegn meginreglu íslenzks stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið, misbeitingu valds við val á leiðum og valdníðslu.  Varðandi þetta atriði sé vísað til þess, sem greini um réttarníðslu hér að framan.

Stefnandi telji, að P&S hafi borið að taka ákvörðun um að framlengja ekki samningssamband við stefnanda og tilkynna honum það svo snemma, að sem minnstur skaði yrði af, og brotið þannig gegn málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Stefnandi telji, að réttur sinn til upplýsinga og tilkynninga hafi verið borinn fyrir borð með því, að P&S hafi ekki gert honum grein fyrir fyrirætlunum sínum fyrr en raun varð á, þannig að hann hefði svigrúm til að takmarka tjón sitt, sbr. 14. gr. og 15. og 20. gr. stjórnsýslulaga.

Loks telji stefnandi, að meginreglan um réttlæti, sem liggi 11. gr. stjórnsýslulaga til grundvallar, hafi verið brotin á sér með málsmeðferð P&S.

Með þeim frávikum frá réttum stjórnsýslureglum, sem hér hafi verið lýst, telji stefnandi, að P&S hafi bakað sér bótaskyldu við stefnanda samkvæmt reglum um bótaábyrgð hins opinbera utan samninga, þar á meðal með athafnaleysi, sem leitt hafi til þess, að hann orðið af réttmætum verkalaunum.

Kröfur á hendur báðum hinum stefndu byggist á þeim stjórnsýslu­sjónarmiðum, sem hér hafi verið rakin.

Röð málsástæðna

Stefnandi telji allar málsástæður sínar samþýðanlegar og leiða til sömu meginniðurstöðu varðandi greiðsluskyldu.

Aðalmálsástæður stefnanda séu þær, að aðalstefnda beri að greiða stefnanda stefnufjárhæðina samkvæmt bótareglum á sviði borgararéttar en utan samninga, og að bótagæft tjón hans sé ekki aðeins samkvæmt 3. kröfulið heldur einnig það, sem hann hafi hlotið við að verða af verkalaunum, sbr. 1. og 2. kröfulið.  Sama gegni um bótaskyldu á sviði stjórnsýsluréttar.  Verði talið, að málsástæður varðandi bætur utan samninga og á sviði stjórnsýsluréttar fái ekki samrýmzt, ætlist stefnandi til, að litið verði á þær síðarnefndu sem varamálsástæður og málsástæður byggðar á samningum, sem varamálsástæður þar á eftir.

Sundurliðun kröfugerðar og útreikningar

Stefnandi telji kröfur sínar þríþættar:

 

Rekstur auglýsingadeildar Símaskrárinnar síðari hluta árs 1993 kr. 8.048.925

umbeðin verkefni 1.129.464

Bætur fyrir yfirtöku á fyrirtæki (fjártjón og miski) 48.548.400

Samtals kr. 57.726.789

Fyrsti kröfuliður sundurliðist í höfuðstól, kr. 6.465.000,00 og VSK kr. 1.583.925 og sé fyrir vinnu við Símskrá 1994 frá 1. júlí 1993.

Annar kröfuliður sé samtala 21 reiknings fyrir umbeðin aukaverk utan samningsbundinnar vinnu á tímabilinu 12. janúar 1994 til 5. september 1995 og sundurliðist þannig:

Dags.reikn nr.Fjárhæð kr.

1994

12 010010535.856,00

01 02001753.784,00

07 0300121125.496,00

07 0300122101.592,00

07 030012489.640,00

07 030012459.760,00

08 030012535.856,00

09 030012647.808,00

09 030012735.856,00

09 030012871.712,00

09 030012941.832,00

09 030013141.832,00

09 030013265.736,00

09 030013335.856,00

09 030013453.784,00

10 030013547.808,00

10 030013659.760,00

10 030013735.856,00

10 030013853.784,00

1995

24 050014529.880,00

05 09001515.976,00

Samtals upphæð innlagðra reikninga1.129.464,00

Þessi kröfuliður sé þannig til kominn, að stefnandi telji sig hafa unnið, að beiðni starfsmanna P&S, umboðsmanna og lögmanna stofnunarinnar, störf, sem falli utan samningsbundinnar vinnu.  Erindi þau, sem stefnandi sinnti, hafi hann fengið í formi skriflegra beiðna um leit að staðfestum pöntunum úr gagnaskrám ásamt fylgigögnum vegna andvirðis auglýsinga í vanskilum.  Störfin hafi verið unnin frá 8. desember 1993 til og með 5. september 1995.

Stefnandi hafi krafizt greiðslu með reikningum, sem fylgdu hverju svari og síðan samanlagðrar reikningsfjárhæðar 5. september 1995 og 22. desember 1995.

Bótakröfur

Stefnandi telji tjón sitt fyrst og fremst vera það, sem greini í 3. lið í sundurliðun kröfugerðar, en jafnframt og aðallega, að það sé einnig fólgið í því að hafa orðið af réttmætum verkalaunum, sbr. l. og 2. kröfulið.  P&S hafi, með því að láta viðgangast, að hann ynni að símaskrá 1994 og með því að beina til hans fyrirspurnum, vitandi vits um að hann vænti verkalauna og án þess að gera honum ljóst, að honum væru engin laun ætluð, bakað honum tjón, sem samsvari hæfilegum launum.  Til vara sé því haldið fram, að tjón stefnanda nemi kr. 48.548.400.

Stefnandi hafi, svo hann gæti uppfyllt samningsskyldur sínar, orðið að leggja í kostnað, sem samsvaraði því að byggja upp auglýsingadeild Símaskrárinnar, sem engin hafi verið, þegar skipti aðila hófust.  Hann hafi þannig orðið að fjárfesta í sérhæfðum búnaði, sem ekki hafi verið unnt að nýta til annars.  Stofnkostnaður fyrirtækisins hafi ekki verið afskrifaður nema á löngum tíma, og honum hafi orðið að halda við í takt við tækniþróun; tæki hafi orðið að endurnýja.  Umfangsmikilli endurnýjun hafi verið nýlokið, þegar aðilar skildu að skiptum.  Þá hafi þurft að segja upp launþegum og leigusamningi með fyrirvara.  Stefnandi hafi ekki getað lokað skrifstofu sinni og hætt að sinna erindum viðskiptavina og viðsemjenda, fyrr en annar aðili hafi verið tilbúinn að taka við.

Þriðji kröfuliður sé miðaður við veltu fyrirtækis stefnanda árið 1992 og byggður á rekstrarreikningi þess árs.  Velta ársins hafi numið kr. 14.274.200.  Stefnandi telji tap sitt nema tvöfaldri ársveltu og fáist þannig kr. 28.548.400.  Hér sé höfð hliðsjón af verðlagningarvenju fyrirtækjasala.  Þá sé krafizt kr. 20.000.000 í bætur vegna endurnýjunar tækjabúnaðar og hugbúnaðar að gagnagrunni, eða samtals kr. 48.548.400.  Hér sé vísað til þess, að fyrirtæki stefnanda hafi verið, að beiðni P&S, sérhæft til reksturs auglýsingadeildar Símans, og að með fullri vitund P&S hafði verið komið upp starfsaðstöðu deildarinnar, hún búin tækjum og til hennar ráðið starfsfólk með framtíðarþarfir hennar í huga.  Hugbúnaður hafi nýlega verið endurskoðaður og aðhæfður gagnagrunninum Navigator frá Streng hf.

Teljist fjárhagstjón minna að mati dómsins, sé miðað við, að heildarfjárhæð bóta verði þó ekki lægri, þar sem stefnandi eigi rétt til miskabóta að álitum samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga, allt að kr. 1.000.000.

Miski stefnanda sé fólginn í því, að fjölskyldufyrirtæki hans hafi verið að engu gert í einni svipan, um það leyti sem kynslóðaskipti voru í aðsigi.  Allur hans fjárhagur hafi hrunið.  Hann hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar og hafi orðið að standa í stöðugu stríði síðan við að gera kröfuhöfum skil, sjá heimili sínu farborða og verjast aðförum og áföllum á þeim tíma, sem hann hefði átt að njóta ævikvöldsins og ávaxta ævistarfs síns. Óhjákvæmileg vanskil hafi valdið stefnanda álitsspjöllum, og samstarfsslitin hafi haft snögg og alvarleg áhrif á heilsu hans.  Heilsubrest stefnanda, skömmu eftir að aðilar skildu að skiptum, megi að nokkru rekja til áfalls, sem það hafi valdið honum.

Stefnandi geri sér grein fyrir, að vandkvæðum sé bundið að ákvarða nákvæmlega fjárhæð bóta, sem hann álíti, að ákveða beri samkvæmt fáanlegum upplýsingum um tjón sitt við að blómlegur rekstur fyrirtækis hans stöðvaðist svo snögglega.  Krafa vegna fjárfestinga, sem hafi orðið stefnanda ónýtar, sé miðuð við kaupverð muna og verðmæti þeirra við samningslok og húsaleigu og laun í uppsagnarfresti.

Með þeirri aðferð, sem stefnandi hafi á ákvörðun heildartjónsins, sé vandkvæðum bundið að verðleggja sérstaklega einstakar eignir, svo sem viðskiptamannalista og önnur sölugögn, forrit, viðskiptavild og viðskiptaleyndarmál.  Sömuleiðis séu ekki efni til að draga spöruð útgjöld frá.

Stefnandi muni sætta sig við sæmilegar bætur, sem honum kunni að verða dæmdar að álitum og vænti þess, að við ákvörðun þeirra verði litið á alla málavexti, sennilegt tjón hans, og að bætur verði ákvarðaðar heldur hærri en lægri, þannig að víst sé, að hann verði ekki vanhaldinn.  Hann telji, að rétt sé, samkvæmt meginreglum samkeppnisréttar og höfundaréttar, sbr. 2. mgr. 52. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og 3. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, ef ekki vilji betur til, að líta til þess hagnaðar, sem stefndu og Íslenzka auglýsingastofan hafi haft af því að nýta verðmæti úr fyrirtæki hans og miða bætur við samanlagða auðgun.  Í því sambandi vísi hann m.a. til mismunar á tilboði Íslenzku auglýsingastofunnar og tilboða sinna.

Stefnandi telji, að Íslenzka auglýsingastofan hafi getað undirboðið hann í trausti þess að fá í hendur fyrirtæki hans endurgjaldslaust, og að hún og P&S hafi skipt milli sín hagnaði með því að setja auglýsingastofuna í hans stað og auðgast þannig á óréttmætan hátt á hans kostnað.

Gjalddagar – eindagar

Samkvæmt samningi stefnanda og P&S 17. september 1992, 3. gr., almennri venju í verksamningum og venju í viðskiptum aðila, hafi stefnandi átt að fá greitt fyrir verk sín, þegar þeim hefði verið skilað.  Viðskipti aðila hafi staðið óslitið til 5. september 1995, þegar stefnandi vann sitt síðasta verk fyrir P&S.

Krafa vegna reksturs Auglýsingadeildar Símaskrárinnar síðari hluta árs 1993 sé samkvæmt reikningi, útgefnum 21. október 1993, fyrir ýmsa þjónustu og störf, unnin fyrir Póst og Síma og Símaskrána frá l. júlí 1993, kr. 8.048.925.  Samkvæmt áritun á reikninginn sé gjalddagi skuldarinnar 20 dögum eftir útgáfudag.  Samkvæmt bréfi stefnanda til P&S, dags. 20. desember 1993, hafi eindagi skuldarinnar verið 30. desember 1993.

Gjalddagi 21 reiknings vegna umbeðinna verkefna, samtals kr. 1.129.464, sé samkvæmt áritun á þá 20. dagur næsta mánaðar eftir útgáfu, þ. e. 20. febrúar 1994-­20. október 1995.

Þann 3. júní 1993 hafi stefnandi lokið verki sínu við Símaskrá 1993 og tilkynnt P&S það og jafnframt, að skrifstofa sín yrði opin áfram til að svara fyrirspurnum í samræmi við venju.  Þann 24. ágúst 1993 hafi stefnanda verið tilkynnt um fyrirhugað útboð og þann 28. september 1993, að ekki yrði samið við hann að nýju.  Þann l. október 1993 hafi stefnanda verið formlega tilkynnt, að gengið yrði til samninga við Íslenzku auglýsingastofuna.  Það sé svo ekki fyrr en eftir þann tíma, sem stefnanda verði ljós þau atvik, sem hann telji grundvöll bótakröfu sinnar, og að hann geti gert kröfur á hendur P&S og varnaraðilum þessa máls.

Með bréfi, dags. 21. október 1993, kalli stefnandi eftir aðgangi að auglýsingum í prentsmiðju og banni heimildarlaus afnot annarra af þeim, og í bréfi, dags. 21. desember 1993, komi fram, að honum hafi verið synjað um afrit af tölvudiski af auglýsingum, sem hafi verið birtar í símaskrá 1993.

Í bréfi póst- og símamálastjóra, dags. 25. október 1993, komi fram sú afstaða stofnunarinnar, að hún hafi greitt fyrir alla vinnu, sem lögð hafi verið í hugverk stefnanda, og með bréfi lögmanns P&S, dags. 22. desember 1993, sé kröfum stefnanda vísað á bug.

Réttarfar

Gjafsókn

Stefnanda hafi verið veitt gjafsóknarleyfi vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar á hendur aðalstefnda 8. janúar 2002 og á hendur varastefnda 24. marz 2003.  Bent sé á, að í leyfisbréfinu frá 2002 sé greint ártalið 2001.

Varnaraðild

Þegar atvik málsins gerðust, hafi Póst- og símamálastofnun farið með rekstur Landssíma Íslands.  Samkvæmt 15. gr. laga nr. 103/1996 hafi Póstur og sími hf. tekið við réttindum og skyldum Póst- og símamálastofnunar, en Landssími Íslands hf. hafi síðan tekið við síma­þættinum, sbr. lög nr. 19/2000.

Stefnandi sé þeirrar skoðunar, að ákvæði 15. gr. laga nr. 103/1996 sé svo fortakslaust að telja verði, að á aðalstefnda hvíli ekki aðeins einkaréttarlegar skuldbindingar Póst- og símamálastofnunar, heldur einnig þær skuldbindingar á sviði stjórnsýsluréttar, sem stofnunin hafði tekið á sig, meðan hún rak Landssímann.  Á þessari skoðun sé aðalsök byggð að þessu leyti.

Samgönguráðherra sé stefnt til vara með það í huga, að svo kunni að verða litið á, að hvorki stefnandi né Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. lög nr. 47/1996, hafi tekið við stjórnsýsluskuldbindingum Pósts og síma.  Svo langt sé nú um liðið frá því að atvik málsins gerðust, að ekki þyki á annað hættandi en að beina málinu þegar í upphafi að varastefnda, heldur en að hætta á að bíða þess, að í ljós komi, hvort fallizt verði á skilning stefnanda.

Varasökin sé byggð á því sjónarmiði, að verði ekki talið, að aðalstefndi beri nú ábyrgð á stjórnsýsluyfirsjónum Póst- og símamálastofnunar, hvíli þær á ríkinu, en samgönguráðherra sé í fyrirsvari fyrir þá opinberu hagsmuni, sem málið varði, sbr. 4. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu A nr. 96/1969, 9. tl. 11. gr., sbr. 4. gr. augl. A nr. 27/1993, og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður aðalstefnda:

Dómkröfur stefnanda séu þríþættar og verði fjallað um málatilbúnað stefnanda í samræmi við röð dómkrafna, eftir því sem kostur sé.

Almennt um tómlæti

Af hálfu stefnda sé á því byggt, að stefnandi hafi glatað hvers konar kröfum á hendur stefnda vegna tómlætis.  Stefnandi virðist ekki hafa að öllu leyti unað við lok verksamnings síns við stefnda og hafi í kjölfarið haft uppi kröfur, sem hafi átt það sammerkt að tengjast verklokunum með einum eða öðrum hætti.  Stefndi hafi alfarið hafnað þessum kröfum stefnanda og leitazt jafnframt við að gera stefnanda grein fyrir ástæðum þess, eftir því sem frekast hafi verið kostur og ástæða verið til, sbr. t.d. bréf lögmanns stefnda til stefnanda, dags. 22. desember 1993, dskj. nr. 34, bréf lögmanns stefnda til stefnanda, dags. 14. febrúar 1994, dskj. nr. 36, og bréf lögmanns stefnda til þáverandi lögmanns stefnanda, dags. 15. janúar 1996, dskj. nr. 64.  Þannig hafi stefnanda, þá þegar á árinu 1993, mátt vera ljóst, og ekki seinna en í febrúar 1994, og ekki seinna en í janúar 1996 varðandi síðar tilkomnar kröfur, að stefndi hafnaði kröfum hans alfarið, og að stefnandi fengi engar greiðslur umfram það, sem hann hafði þegar fengið greitt í samræmi við verksamning aðila frá 17. desember 1992.  Mál þetta sé hins vegar ekki þingfest fyrr en 8. maí 2003.  Ljóst sé, að upplýsingaöflun varðandi samskipti aðila á árinu 1993 sé nú torsótt og mikilvægar upplýsingar glataðar.  Telja verði, að með þessu hafi stefnandi sýnt af sér slíkt tómlæti, að meintar kröfur verði að teljast niður fallnar.

Rekstur auglýsingadeildar Símaskrárinnar síðari hluta árs 1993

Af hálfu stefnda sé byggt á því, að hvers konar kröfur stefnanda samkvæmt þessum kröfulið, þ.e. krafa um endurgjald vegna reksturs stefnanda síðari hluta árs 1993, séu fyrndar.  Samkvæmt 1. tölul. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist kröfur út af vinnu og hvers konar starfa, sem í té sé látinn, á fjórum árum og kröfur stefnanda þ.a.l. fallnar úr gildi, sbr. 1. gr. laganna.  Meint krafa samkvæmt þessum lið hafi verið sett fram með reikningi, dags. 21. okt. 1993, sbr. dskj. nr. 5, sbr. bréf dags. sama dag, dskj. nr. 26.

Af hálfu stefnda sé á því byggt, verði ekki fallizt á fyrningu krafnanna, að eins og fram hafi komið, hafi stefnandi, á grundvelli verksamnings aðila, tekið að sér að skipuleggja og vinna að auglýsingasöfnun fyrir símaskrá, sem ætlað var að kæmi út í apríl-maí 1993.  Samningur þessi hafi verið gerður í kjölfar verktöku stefnanda á sama sviði allt frá 1978, en þeim samningi hafi verið sagt upp skriflega 15. maí 1992.  Hafi stefnanda verið tilkynnt á fundi, sem haldinn var árið 1992, að fyrirhugað væri framvegis að bjóða út söfnun auglýsinga í símaskrána, og að samningur við hann yrði þannig eingöngu gerður til eins árs, þ.e. vegna símaskrár 1993, sbr. samningur, dags. 17. september 1992.  Árið 1993 hafi svo verið ráðizt í að bjóða söfnun auglýsinga út í lokuðu útboði í samræmi við það, sem stefnanda hafi áður sérstaklega verið tilkynnt um, en þetta hafi verið ítrekað við stefnanda símleiðis sumarið 1993 og stefnanda í framhaldinu gefinn kostur á að gera tilboð í verkið.  Hafi fyrirhuguð breyting á fyrirkomulagi við söfnun auglýsinga því ekki getað leynzt stefnanda þegar árið 1992, og eftir það hafi stefnandi ekki getað gengið út frá því sem vísu, að samið yrði við hann um áframhaldandi verktöku.

Af hálfu stefnda sé einnig byggt á því, að rekstur stefnanda á auglýsingastofu í samræmi við verksamning aðila hafi ætíð verið á hans ábyrgð og kostnað, en stefnandi hafi annazt framkvæmd verksins sem sjálfstæður verktaki.  Eðli slíkra starfa sé, að verktaki fái ákveðna þóknun fyrir verkið, í þessu tilviki 10% af andvirði seldra auglýsinga, en verktaki annist sjálfur alla framkvæmd og greiði af þóknun sinni allan tilfallandi rekstrarkostnað.  Af því leiði, að ekki sé unnt að krefja stefnda um kostnað vegna reksturs stefnanda umfram það, sem stefnandi hafi átt rétt á samkvæmt verksamningi aðila frá 17. desember 1992.

Jafnframt sé á því byggt af hálfu stefnda, að það hafi ekki verið samkvæmt beiðni stefnda, að stefnandi hafi kosið að halda skrifstofu sinni opinni, eftir að verkefnum samkvæmt verksamningi, dags. 17. sept. 1992, lauk á árinu 1993.  Sé því einnig mótmælt, að stefndi hafi falið stefnanda einhver þau verkefni, sem kröfðust þess, að hann héldi áfram starfsemi sinni, eftir að ákveðið var að bjóða verkefnið út.  Breyti ráðagerðir stefnanda um að halda starfsstöð sinni opinni, eftir að verksamningi aðila lauk, hér engu um, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á eða gert líklegt, að hann hafi, að beiðni stefnda, sinnt neinum sérstökum verkefnum á þeim tíma, sem um ræði.

Á hinn bóginn megi ætla, að stefnandi hafi ákveðið, á grundvelli eigin forsendna, að halda starfsstöð sinni opinni, ef til þess kæmi, að samið yrði við hann um verkið, en þá hafi stefnandi verið búinn að ákveða að taka þátt í útboðinu.  Jafnframt megi ætla, að stefnandi hafi ráðgert að taka sér fyrir hendur önnur verkefni á starfsstöð sinni, sbr. t.d. dskj. nr. 66, og megi ætla, að starfstöð hafi verið nauðsynleg í því sambandi.

Stefndi mótmæli sérstaklega fjárhæð kröfuliðar samkvæmt reikningi, dags. 21. okt. 1993, sem nái til ýmissar þjónustu og starfa, sem unnin séu fyrir Póst og síma og Símaskrána frá l. júlí 1993.  Ekki hafi verið sýnt fram á með rökum, að stefnandi hafi átt rétt á, að stefndi greiði stefnanda þóknun, sem nemi rekstrarkostnaði á tímabilinu. Fjárhæð reikningsins miðist við heildarrekstrarkostnað á síðari hluta árs 1993, miðað við heildarrekstrarkostnað ársins, en ekki liggi fyrir, að stefnandi hafi í reynd borið þann kostnað á síðari hluta ársins, sem telja verði ólíklegt.  Ekkert liggi því fyrir um raunverulegan kostnað stefnanda vegna þessa tímabils.

Krafa vegna "umbeðinna verkefna".

Af hálfu stefnda sé byggt á því, að hvers konar kröfur stefnanda samkvæmt þessum kröfulið, þ.e. krafa um greiðslu fyrir "umbeðin aukaverk" utan samningsbundinnar vinnu á tímabilinu 12. janúar 1994 - 5. september 1995, séu fyrndar.  Samkvæmt 1. tölul. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist kröfur út af vinnu og hvers konar starfa, sem í té sé látinn, á fjórum árum og kröfur stefnanda þ.a.l. fallnar úr gildi, sbr. 1. gr. laganna.  Meint krafa samkvæmt þessum lið hafi verið sett fram með reikningum á ofangreindu tímabili, síðast 5. sept. 1995.  Engin rök séu til þess að líta svo á, að umræddar reikningskröfur, sem aldrei hafi verið viðurkenndar, séu ekki fyrndar.

Af hálfu stefnda sé á því byggt, verði ekki fallizt á fyrningu, að mótmælt sé, að stefnandi hafi átt rétt til sérstakrar þóknunar fyrir að leggja fram staðfestar pantanir frá auglýsendum, sem augljóslega hafi verið lagðar til grundvallar reikningsgerð gagnvart þeim. Í fyrsta lagi sé til þess að líta, að þar sem pantanir auglýsenda voru grundvöllur þóknunar stefnanda, hafi verið nærtækast, að hann skilaði af sér þessum gögnum samhliða því sem hann skilaði af sér auglýsingareikningum hvers árs, eða í síðasta lagi, er verksamningi aðila lauk.  Þar sem það hafi ekki verið gert, hafi verið óskað eftir gögnum frá stefnanda um einstök mál.  Ekki verði séð, að stefnandi hafi átt rétt til sérstakrar þóknunar fyrir að leggja fram gögn til staðfestingar því, að auglýsingapöntun hafi átt sér stað.  Í öðru lagi sé til þess að líta, að stefndi hafi litið svo á, að pantanirnar væru hluti reikninga þeirra, sem stefnandi hafði framvísað til innheimtu og fengið greidda þóknun fyrir.  Augljóst sé, að stefndi hafi t.a.m. þurft að hafa staðfesta pöntun til stuðnings reikningum, þegar reikningi eða pöntun var mótmælt.  Afhending viðeigandi gagna hafi þannig eðli máls samkvæmt verið innifalin í þóknun stefnanda fyrir söfnun auglýsinga.  Í þriðja lagi sé þess að geta, að stefnandi hafi ætíð, athugasemdalaust og án sérstakrar þóknunar, lagt fram viðeigandi gögn um auglýsingapantanir auglýsenda í símaskrá. Verði því ekki séð, að rök standi til þess, að sambærileg afhending gagna hafi síðar átt að leiða til sérstakrar greiðslu stefnanda til handa.

Stefndi leyfi sér jafnframt að mómæla sérstaklega fjárhæð kröfuliðar þessa.  Sé því mótmælt, að stefnandi eigi rétt á þeirri þóknun, sem reikningar kveði á um, sbr. t.d. dskj. nr. 42, enda þóknun í engu samræmi við það framlag, sem afhending viðkomandi gagna útheimti.

Bætur fyrir "yfirtöku á fyrirtæki (fjártjón og miski)"

Af hálfu stefnanda séu málsástæður, sem ætla megi, að sérstaklega lúti að þessum kröfulið, raktar á bls. 3-4 í stefnu.

Af hálfu stefnda sé því alfarið hafnað, að stefndi hafi tileinkað sér fyrirtæki stefnanda, verkfæri hans og hugverk, og gert sér önnur ónýt og brotið þannig gegn samningsskyldum sínum við stefnanda.

Þá sé því alfarið mótmælt, að stefndi "hafi bakað [stefnanda] tjón vitandi vits með ólögmætri háttsemi, sem hafi haft verulega hættu í för með sér fyrir lögverndaða hagsmuni hans og farið í bága við ákvæði höfundalaga um höfundarétt og vernd skyldra hugverkaréttinda, sbr. 1. gr., 6. gr. og 50. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

Jafnframt hafni stefndi algjörlega ásökunum stefnanda um, að háttsemi hans hafi farið í bága við "ákvæði samkeppnislaga og óskráðar reglur um óréttmæta viðskiptahætti, atvinnuleyndarmál og "know how"", sbr. ákvæði samkeppnislaga.”  Þá hafni stefndi því alfarið, að háttsemi hans hafi farið í bága við "óskráðar reglur íslenzks réttar um viðskiptavild, hugmyndarétt og sjálfstæð trúnaðarbrot, óháð samningum," eins og stefnandi haldi fram.

Af hálfu stefnda sé því alfarið hafnað, að stefndi hafi með rangindum haft af stefnanda eignir hans, einkum viðskiptamannaskrár og gagnagrunn, og gert önnur rekstraráhöld hans verðlaus og skert þannig eignarrétt hans að þessum verðmætum.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að stefndi hafi neytt réttar síns til samningsrofa og/eða samvinnuslita á þann hátt, sem hafi komið stefnanda verst, vitandi vits, og brotið þannig gegn almennri reglu íslenzks réttar um réttarníðslu.  Af hálfu stefnda sé þessari málsástæðu hafnað sem algjörlega órökstuddri.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að stefndi hafi sem stjórnvald brotið á honum gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um hlutlæga málsmeðferð, góða stjórnsýsluhætti, málshraða, lögmæt og málefnaleg sjónarmið, meðalhóf, valdníðslu, og rétt til upplýsinga, andmæla og tilkynninga, misbeitt valdi sínu við val á leiðum og sýnt stefnanda rangsleitni, sbr. 9. gr., 1l. gr. - 15. gr. og 20. gr. stjórnsýslulaga.  Þessum rökum sé alfarið hafnað.

Af hálfu stefnda sé framangreindum málsástæðum mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum.  Þá sé því almennt mótmælt, að stefndi hafi á einhvern hátt brotið gegn lögvernduðum hagsmunum stefnanda, hvort sem litið sé til samningssambands aðila, lögverndaðra réttinda stefnanda eða til annarra slíkra réttinda hans.

Nánar um einstakar málsástæður, sem lúti að höfundarétti, hugverkarétti, og öðrum skyldum réttindum

Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að "allt skipulag á sölu auglýsinga í Símaskrá" sé hugverk stefnanda, og að stefndi hafi með þeirri ákvörðun sinni í kjölfar lokaðs útboðs að semja við annan aðila um söfnun auglýsinga í símaskrá stefnanda, "svipt stefnanda verkfærum hans og í reynd blómlegu fyrirtæki hans og fengið það öðrum".  Stefndi mótmæli harðlega málatilbúnaði þessum og telji, að hann eigi almennt séð ekki við nokkur rök að styðjast.  Stefndi telji þvert á móti, að hann hafi, í samræmi við samning aðila og viðteknar venjur í verktakarétti, staðið með eðlilegum og sanngjörnum hætti að lokum verksamnings við stefnanda og í samræmi við það, sem ætlast hafi mátt til varðandi útgáfu símaskrár stefnda.

Af hálfu stefnda sé á því byggt, að uppsetning auglýsinga, röðun þeirra og útlit símaskrár stefnda hafi byggzt á óskum auglýsenda sjálfra á hverjum tíma, og því verði ekki séð, að líta megi á það sem hugverk stefnanda.  Í þessu sambandi sé rétt að benda á, að algild röðun auglýsinga, svo sem í stafrófsröð, teljist vart geta fullnægt almennum skilyrðum fyrir höfundarréttarlegri vernd.  Stefndi byggi á því, að fyrirkomulag auglýsinga í símaskrá, þ.m.t. nafnröðun auglýsinga, hafi m.a. komið til vegna tækniþróunar og tekið mið af algengri röðun slíkra auglýsinga í erlendum símaskrám, en telji ósannað, að sú ákvörðun sem slík hafi verið hugverk stefnanda, svo sem á sé byggt.  Þá telji stefndi, að ekkert í uppsetningu auglýsinga í símaskrá sé þess eðlis, að fallið geti undir höfundarréttarlega vernd í skilningi 6. gr. höfundalaga, sbr. 3. mgr. 1. gr. s.l.  Stefndi mótmæli því alfarið, að "allt skipulag" stefnanda á sölu auglýsinga í símaskrá stefnda hafi verið hugverk stefnanda.  Í þessu sambandi sé ítrekað, að stefndi hafi ekki hagnýtt sér sérstaklega neitt "skipulag" stefnanda í þessu sambandi við útgáfu síðari símaskráa, enda hafi nýir aðilar tekið upp nýjar vinnuaðferðir við sölu og vinnslu auglýsinganna.

Þá sé mótælt staðhæfingum stefnanda um, að stefndi hafi tileinkað sér hugbúnað stefnanda eða önnur forrit, eftir að samvinnu aðila lauk, og brotið þannig gegn meintum rétti stefnanda, en af hálfu stefnanda sé á því byggt, að stefndi hafi hagnýtt sér forrit eða hugbúnað, sem stefnandi telji sig hafa komið sér upp í sambandi við sölu auglýsinga í símaskrá.  Sé til þess að líta, að eftir að samningssambandi aðila lauk, hafi stefndi ráðgert að setja upp sérstakt hugbúnaðarkerfi, sem auglýsingar í Símaskrá 1994 og síðar yrðu skráðar í.  Úr því hafi reyndar ekki orðið.  Svo sem fram komi í bréfi stefnda til Prentsmiðjunnar Odda hf., dags. 30. des. 1993, hafi þess hins vegar verið farið á leit við prentsmiðjuna, að hún hannaði til bráðabirgða skráningarforrit, sem nýtast myndi við innslátt á gögnum varðandi auglýsingar í símaskrá, sbr. dskj. nr. 68.  Hafi verið ráðizt í það verk, og hafi auglýsingar í símaskrá 1994 (og síðar) verið skráðar í nýtt kerfi, sem ekki hafi byggt á því kerfi, sem stefnandi hafði hannað fyrir sig, sem hafi verið sérstakt ógagnvirkt númerakerfi.  Hafi því ekki verið stuðzt við skráningarkerfi það, sem stefnandi muni hafa notað við skráningu auglýsinga þeirra, sem hann seldi í símaskrá stefnda.  Hugbúnaður og forrit stefnanda hafi því hvorki verið notuð sérstaklega við söfnun auglýsinga í símaskrána 1994 né síðar, eins og fram komi raunar í bréfi lögmanns stefnda til stefnanda frá 22. desember 1993 annars vegar og bréfi lögmanns stefnda til þáverandi lögmanns stefnanda frá 15. janúar 1996 hins vegar, dskj. nr. 65.  Þá hafi stefndi ekki mælt fyrir um, eða ráðgert, að hugbúnaður eða önnur forrit, sem kynnu að lúta höfundarrétti eða öðrum rétti stefnanda, yrðu hagnýtt við vinnslu Símaskrár.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt (dskj. 1, bls. 6), að auglýsingar hafi verið búnar til prentunar í náinni samvinnu við Prentsmiðjuna Odda hf., auglýsingar hafi farið frá stefnanda til prentsmiðjunnar, sem hafi sett skrána, stefndi hafi notað þessi gögn fyrir Símaskrá 1994 heimildarlaust og meinað stefnanda aðgang að þeim og þannig haldið frá honum réttmætum eignum hans.  Á þetta sé ekki fallizt.  Af hálfu stefnda sé á því byggt, að auglýsingar í Prentsmiðjunni Odda hf. hafi verið háðar eignarréttindum stefnda sem útgefanda símaskrár og/eða einstakra auglýsenda, en ekki stefnanda, ef því hafi verið að skipta.  Samskipti stefnanda annars vegar og Prentsmiðjunnar Odda hf. hins vegar hafi verið stefnda óviðkomandi.

Þá sé mótmælt staðhæfingum stefnanda um, að stefndi hafi tileinkað sér sölugögn stefnanda, eftir að samvinnu aðila lauk, og brotið þannig gegn meintum höfundarétti stefnanda eða öðrum lögvernduðum rétti hans, en af hálfu stefnanda sé á því byggt, að stefndi hafi hagnýtt sér sölugögn, einkum viðskiptamannalista, sem stefnandi segi, að hann hafi komið sér upp í sambandi við sölu auglýsinga í símaskrá.

Meintur viðskiptamannalisti stefnanda, þar sem ætla megi, að fram hafi komið sérstakar upplýsingar um auglýsendur, þ.m.t. neikvæðar upplýsingar, eða aðrar sértækar upplýsingar um tengiliði o.s.frv., svo sem venja sé, hafi aldrei verið hagnýttur, eða önnur sölugögn, svo sem svokölluð "útsendingarskrá" stefnanda, eða gagnagrunnar, sem hann byggði sölustarf sitt á.

Svo sem fram komi á dskj. nr. 18, hafi þeir, sem tóku þátt í útboðinu, fengið upplýsingar um verð auglýsinga í síðustu útgáfu símaskrár stefnda, ásamt upplýsingum um fjölda auglýsenda.  Þá hafi bjóðendum eingöngu verið afhentur einfaldur listi yfir aðila, sem auglýst höfðu í símaskrá stefnda 1993, og hafi listinn verið byggður á viðskiptamannabókhaldi stefnda sjálfs, sem honum hafi verið fullheimilt að nýta í þessu sambandi.  Líta verði svo á, að stefnandi hafi talizt framleiðandi viðskiptamanna­bókhalds síns í skilningi 50. gr. höfundalaga.

Þá sé á því byggt af hálfu stefnda, að Íslenzka auglýsingastofan hf., sem tók að sér söfnun auglýsinga í símaskrá stefnda 1994, hafi hannað eigin gagnagrunn, sem hafi byggt á eigin forsendum viðkomandi aðila, og að sá gagnagrunnur hafi verið skráður í sérhannað hugbúnaðarkerfi, þróað upp úr Stólpa, viðskiptamannaforriti, á þeirra eigin vegum.  Þannig sé því alfarið mótmælt, að stefndi hafi mælt fyrir um eða ráðgert, að hugbúnaður eða önnur forrit, sem kynnu að lúta höfundarétti eða öðrum rétti stefnanda, yrðu hagnýtt við vinnslu símaskrár stefnda.

Þá sé á það að líta, að þó svo að rekstraráhöld stefnanda hafi hugsanlega ekki komið honum að sömu notum og áður, eftir lok verksamnings aðila og í kjölfar þess, að samið var við annan aðila, verði ekki séð, að styðja megi það eignarréttarlegum rökum, að stefndi hafi þar með gerzt brotlegur gegn stefnanda.  Í þessu sambandi sé ítrekað, að eðli verksamnings sé, að verktaki leggi til öll rekstraráhöld, sem nauðsynleg séu við framkvæmd verksins, og fái raunvirði þeirra ekki bætt við verklok, nema að um slíkt sé samið sérstaklega.  Þá sé af hálfu stefnda vakin athygli á þeirri ákvörðun stefnanda að ráðast í útgáfu á svonefndum Silfursíðum, sbr. dskj. nr. 65, en stefnandi muni hafa hagnýtt sér, eða ætlað að hagnýta sér, framangreind rekstraráhöld.

Sjónarmið um viðskiptavild, viðskiptaleyndarmál, "know how" og brot gegn samkeppnislögum

Stefnandi hafi á hverjum tíma fengið greidda umsamda þóknun fyrir auglýsingasöfnun og störf því tengd, og geti því ekki áskilið sér frekari þóknun eða bætur við lok samningstímans, nema samningur eða lagaboð standi til slíks.  Verktaki, sem fái greidda þóknun fyrir verkframkvæmd samkvæmt verksamningi, geti ekki jafnframt, og hvað þá eftir á, áskilið sér frekari þóknun með vísan til "viðskiptavildar," sem hann telji, að störf hans hafi skapað verkkaupa.  Verkkaupi megi með réttu njóta afraksturs verks þess, sem fyrir hann hafi verið unnið, enda séu ekki sérstakar takmarkanir á notkun þess afraksturs í samningi aðila eða að lögum.

Stefndi mótmæli sérstaklega, að stefndi hafi á ólögmætan hátt notfært sér viðskiptaleyndarmál stefnanda, eða "know-how" hans, sbr. hér að framan.

Með sömu rökum og hér að framan sé rakið sé því alfarið hafnað, að stefndi hafi með ótilhlýðilegum hætti aflað sér upplýsinga um atvinnuleyndarmál stefnanda, sbr. 27. gr. samkeppnislaga, eða hagnýtt sér slíkar upplýsingar í andstöðu við tilgreint ákvæði, eða á annan hátt brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga, svo sem á er byggt af hálfu stefnanda.

Sjónarmið um samningsrof og réttarníðslu

Það sé fráleitt að ætla, og jafnframt algerlega ósannað, að stefndi hafi á nokkurn hátt neytt réttar síns vitandi vits til samningsrofa og/eða samvinnuslita á þann hátt, sem hafi komið stefnanda verst, og brotið þannig gegn almennri reglu íslenzks réttar um "réttarníðslu", eins og stefnandi haldi fram.  Eins og rakið hafi verið, hafi stefnandi tekið að sér, samkvæmt samningi aðila, að skipuleggja og vinna að auglýsingasöfnun fyrir símaskrá, sem ætlað hafi verið, að kæmi út í apríl-maí 1993.  Samningur þessi, eins og áður greini, hafi verið gerður í kjölfar verktöku stefnanda á sama sviði allt frá 1978, en þeim samningi hafi verið sagt upp skriflega 15. maí 1992.  Hafi stefnanda verið tilkynnt á fundi, sem haldinn hafi verið með honum 1992, að framvegis væri fyrirhugað að bjóða út söfnun auglýsinga í símaskrána, og að samningur við hann yrði þannig eingöngu gerður til eins árs, þ.e. vegna símaskrár 1993, sbr. og samningur dagsettur 17. september 1992.  Árið 1993 hafi svo verið ráðizt í að bjóða söfnunina út í lokuðu útboði í samræmi við það, sem stefnanda hafi áður sérstaklega verið tilkynnt um, en þetta hafi verið ítrekað við stefnanda símleiðis sumarið 1993 og stefnanda í framhaldinu gefinn kostur á að gera tilboð í verkið, eins og áður hafi verið rakið.  Hafi því verið augljóst, þegar árið 1992, að stefnandi hafi ekki getað gengið út frá því sem vísu, að samið yrði við hann um áframhaldandi verktöku.

Sjónarmið um stjórnsýslureglur

Af hálfu stefnda sé á því byggt, að reglur stjórnsýslulaga og -réttar eigi ekki við um réttarsamband aðila.  Í fyrsta lagi verði að líta til þess, að reglum stjórnsýsluréttar sé aðeins ætlað að ná til stjórnvaldsákvarðana, sem beint sé að borgurunum, en slíkt eigi greinilega ekki við í máli þessu.  Í öðru lagi sé ljóst, að reglur stjórnsýsluréttar taki ekki til samninga, sem stjórnvöld geri á einkaréttarlegum grunni, t.d. um kaup á þjónustu, eins og í þessu tilviki.  Í þriðja lagi verði að telja, að fyrirtæki í eigu hins opinbera, sem stundi fyrst og fremst almennan atvinnurekstur, falli utan gildissviðs laganna.  Um sjónarmið um ástæður útboðs vísist til bréfs póst- og símamálastjóra til stefnanda, dags. 21. okt. 1993, dskj. nr. 28.  Yrði fallizt á með stefnanda, að reglur stjórnsýsluréttar ættu við um réttarsamband aðila, væri engu að síður fráleitt að ætla, með sömu rökum og fram komi hér að framan, að stefndi hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar í samskiptum sínum við stefnanda, enda engum stoðum undir það skotið.

Um kröfugerð stefnanda

Af hálfu stefnda sé jafnframt byggt á því, að umræddur kröfuliður í kröfugerð stefnanda sé órökstuddur, og að stefnandi hafi ekki skotið neinum stoðum undir tilvist hans.  Stefndi telji, að stefnandi hafi, eftir uppsögn verksamnings aðila, sbr. dskj. nr. 10, og eftir ákvörðun um útboð verksins, sem stefnandi tók þátt í, ekki getað vænzt frekari þóknana fyrir störf í þágu stefnda.  Stefndi mótmæli sérstaklega kröfugerð stefnanda um greiðslu bóta, sem miðist við tvöfalda ársveltu.  Stefnandi vísi í því sambandi til "verðlagningarvenju fyrirtækjasala."  Stefndi mótmæli því alfarið, að hann beri ábyrgð á tjóni, sem taki mið af meintu söluverðmæti fyrirtækisins.  Samningur aðila, þ.m.t. samningur um tímabundið verkefni á árunum 1992-1993, hafi ekki gefið tilefni til að ætla, að stefnda bæri að kaupa fyrirtæki stefnanda að samningstíma loknum, enda slíkt í andstöðu við allar viðskiptavenjur.  Þá sé alfarið mótmælt kröfu um greiðslu á kr. 20.000.000 vegna endurnýjunar tækjabúnaðar og hugbúnaðar að gagnagrunni.  Sú kröfugerð eigi sér enga stoð í samningi aðila eða réttarreglum.  Þá verði ekki séð, að fjárhæð kröfugerðar þessarar eigi sér nokkra stoð í framlögðum gögnum málsins, s.s. í ársreikningum stefnanda.  Þá sé bent á, að endurnýjunarþörf á sviði tölvu- og kerfisbúnaðar sé svo hröð, að líta verði á kaup á slíkum búnaði sem hluta rekstrarkostnaðar.  Forsendum stefnanda varðandi miskabótakröfu og fjárhæð hennar sé alfarið mótmælt.  Stefndi telji, að miskabótakrafa verði ekki reist á ákvæðum höfundalaga, enda engin brot framin gegn rétti stefnanda samkvæmt þeim lögum.  Ekki verði því séð, að miskabætur eigi sér nokkurn lagagrundvöll.

Um málsástæður stefnda

Stefndi telji allar málsástæður sínar, sem lýst sé í kafla um “bætur fyrir yfirtöku á fyrirtæki” hér að framan og undirköflum hans, geti einnig að breyttu breytanda náð til þeirra dómkrafna stefnanda, sem vikið sé að í köflum með yfirskriftinni “Rekstur auglýsingadeildar Símaskrárinnar síðari hluta árs 1993” og “Krafa vegna umbeðinna verkefna” og undirkafla þeirra og vica versa.

Um dráttarvaxtakröfu stefnanda

Stefndi mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda.  Líta beri svo á, að dráttarvextir, ef til kæmu, eldri en 4 ára, teldust fyrndir.  Þá sé mótmælt upphafstíma vaxtakröfu stefnanda samkvæmt kafla um “bætur fyrir yfirtöku á fyrirtæki” hér að framan, en telja verði, að upplýsingar, sem nauðsynlegar séu til að leggja mat á kröfugerð stefnanda, hafi fyrst komið fram við þingfestingu málsins, 2003.

Málskostnaður

Um kröfu stefnda um málskostnað vísist til laga nr. XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Lagarök

Stefndi vísi m.a. til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. fyrningar- og tómlætisreglna, svo og til höfundalaga nr. 73/1972.  Þá sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður varastefnda:

Varastefndi byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að hann eigi enga aðild að málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með lögum nr. 103/1996 um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamála­stofnunar hafi ríkisstjórninni verið heimilað að stofna hlutafélag um rekstur Póst- og síma­málastofnunar, er nefndist Póstur og sími hf., og leggja til hlutafélagsins allar eignir og skuldir Póst- og símamálastofnunar, réttindi, skuldbindingar og viðskiptavild, sbr. l. gr.  Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. hafi hlutafélaginu verið heimilt að stofna nýtt félag eða félög, sem alfarið yrðu í eigu þess, til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi þess eða í sama tilgangi ákveða skiptingu þess.  Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skyldi Póstur og sími hf. taka til starfa 1. janúar 1997.  Ákvæði 15. gr. laganna sé svohljóðandi:

"Póstur og sími hf. yfirtekur í samræmi við l. gr. allar eignir, réttindi og skuldbindingar Póst- og símamálastofnunar frá og með l. janúar 1997.  Yfirtakan veitir samningsaðilum stofnunarinnar ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samnings­sambanda."

Samkvæmt heimild í 2. mgr. 2. gr. hafi hlutafélaginu verið skipt milli tveggja félaga, þar sem annað hafi annazt póstþjónustu en hitt fjarskiptaþjónustu.  Hafi tvö ný hlutafélög tekið til starfa á grundvelli þeirrar heimildar á árinu 1998, Íslandspóstur hf. og Landsími Íslands hf.

Samkvæmt framangreindu hafi ríkissjóður lagt allar eignir, réttindi, skuldir og skuld­bindingar Póst- og símamálastofnunar til hlutafélagsins Pósts og síma hf. hinn 1. janúar 1997, sbr. 1. gr. laga nr. 103/1996.  Póstur og sími hf. hafi samkvæmt því tekið yfir allar skuldbindingar, er hvíldu á Póst- og símamálastofnun, ekki aðeins samkvæmt samningum, heldur einnig allar skuldir og skuldbindingar, er hvíldu á stofnuninni og stofnazt hafði til að lögum, þar á meðal vegna stofnunar skaðabótakrafna utan samninga, hvort heldur þær risu að einkarétti eða stjórnsýslurétti.  Samkvæmt því hafi Póstur og sími hf., nú Landsími Íslands hf., yfirtekið þau réttindi og skyldur, sem leiddu af viðskiptum Póst-og símamálastofnunar við stefnanda.  Beri þegar af þeim ástæðum að sýkna varastefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu á grundvelli aðildarskorts.

Fari svo, að þeim sjónarmiðum yrði hafnað, sé á því byggt, að engum saknæmum eða ólögmætum athöfnum eða athafnaleysi sé til að dreifa, sem bakað gætu ríkinu bóta­ábyrgð gagnvart stefnanda.  Þá séu allar hugsanlegar kröfur stefnanda á hendur vara­stefnda nú löngu fallnar niður fyrir fyrningu eða tómlæti.

Því sé eindregið vísað á bug, að meginreglur stjórnsýsluréttar hafi átt við um réttarsamband stefnanda og Póst- og símamálastofnunar.  Reglum stjórnsýsluréttar sé aðeins ætlað að ná til stjórnvaldsákvarðana, sem beint sé að borgurunum, en slíkt eigi ekki við í máli þessu.  Þá taki reglur stjórnsýsluréttar ekki til samninga, sem stjórnvöld geri á einkaréttarlegum grunni, til dæmis um kaup á þjónustu, eins og hafi verið í þessu tilviki.  Þá verði að telja, að fyrirtæki í eigu hins opinbera, sem stundi fyrst og fremst almennan atvinnurekstur, falli utan gildissviðs laganna.

Jafnvel þótt talið yrði, að reglur stjórnsýsluréttar ættu við um réttarsamband aðila, sé með öllu ósannað, að meginreglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar í viðskiptum við stefnanda.  Sé kröfum á þeim grundvelli alfarið vísað á bug.

Stefnandi dragi ekki í efa rétt Póst- og símamálastofnunar til að binda enda á samningssamband aðila, en haldi því fram, að með þeim hætti, sem það hafi verið gert, hafi verið brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar og misbeitt valdi við val á leiðum og honum sýnd rangsleitni.  Þessu sé eindregið vísað á bug.

Sú ákvörðun Póst- og símamálastofnunar að bjóða út söfnun auglýsinga í símaskrá hafi í einu og öllu verið að lögum og í samræmi við þau fyrirmæli 8. gr. reglugerðar nr. 189/1988 um opinber innkaup og starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins, þar sem kveðið hafi verið á um, að þeirri meginreglu skyldi fylgt að bjóða út kaup á vörum og þjónustu til reksturs og fjárfestinga.  Ekki fái heldur staðizt staðhæfingar stefnanda um ónógan fyrir­vara gagnvart honum í því efni.  Fyrir liggi, að hinn 15. maí 1992 hafi verksamningi við stefnanda verið sagt upp og honum gert kunnugt um, að til stæði að bjóða auglýsingasöfnunina út.  Af hálfu stofnunarinnar hafi þá verið ákveðið að gera verksamning við stefnanda til eins árs um söfnun auglýsinga í símaskrána 1993 og honum þannig gefinn góður fyrirvari til að aðlaga rekstur sinn, áður en til útboðs kæmi á árinu 1993.  Af stefnanda hálfu hafi engar athugasemdir verið gerðar við, að útboð færi fram haustið 1992 eða á árinu 1993.  Hafi þannig legið skýrlega fyrir strax haustið 1992, að útboð myndi fara fram á árinu 1993 vegna söfnunar auglýsinga í símaskrána 1994.  Allar hugsanlegar kröfur stefnanda byggðar á bótaskyldu utan samninga vegna þeirrar ákvörðunar séu því löngu fallnar niður fyrir fyrningu eða tómlæti.

Samkvæmt verksamningi hafi stefnandi annazt framkvæmd verksins sem sjálfstæður verktaki, og hafi rekstur hans á auglýsingastofu verið á hans ábyrgð og kostnað.

Stefnandi hafi ákveðið fjárfestingar og rekstur starfsstöðvar sinnar á grundvelli eigin forsendna, þar á meðal að halda starfsstöð sinni opinni, eftir að samningi lauk.  Ætla verði, að sú ákvörðun hafi tengzt þeirri ákvörðun stefnanda að taka þátt í útboðinu og ráða­gerðir hans um að taka sér fyrir hendur önnur verkefni á starfsstöð sinni, sbr. til dæmis dómskjal nr. 66.  Staðhæfingum stefnanda um fjárfestingu í sérhæfðum búnaði, sem ekki yrði nýttur til annars og að umfangsmikilli endurnýjun hans upp á 20 milljónir hafi verið nýlokið, þegar aðilar skildu skiptum, sé eindregið mótmælt.  Þær staðhæfingar eigi enga stoð í framlögðum ársreikningum.  Í því sambandi sé vakin athygli á því, að bókfærðir fastafjármunir hafi, samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 1990, verið kr. 1.374.116, en hafi verið kr. 1.538.968 samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 1993.  Sé ákaflega vandséð, að ýmiss vélbúnaður, sem notaður sé almennt á skrifstofum, geti talizt sérhæfðir rekstrarfjármunir, er ekki verði til annars nýttir, hvað þá bifreið.  Af rekstrarreikningunum verði jafnframt ráðið, að stefnandi og eiginkona hans hafi verið einu launþegarnir, og aðrir, sem þar hafi komið við sögu í starfsemi stefnanda, hafi verið verktakar.  Úr þeim megi einnig lesa, að það hafi verið, eftir að stefnanda var gert það ljóst haustið 1992, að útboð myndi fara fram á árinu 1993, að hann taki á leigu húsnæði.

Stefnandi hafi fengið greidda umsamda þóknun fyrir auglýsingasöfnun og störf því tengd og hafi ekki átt lögvarinn rétt til frekari þóknunar vegna afhendingar viðeigandi gagna til staðfestingar pöntun til stuðnings reikningum, sem hafi verið mótmælt, enda sú afhending innifalin í þóknun hans.  Stefnandi hafi heldur engan rétt átt samkvæmt verksamningi eða lögum til þess að fá greiddan rekstrarkostnað, eftir að verksamningi lauk, eða að honum yrði bættur kostnaður við að leggja niður fyrirtækið.  Þaðan af síður, að fyrirtæki hans yrði keypt.  Kröfur stefnanda, byggðar á reikningum og meintri yfirtöku á fyrirtæki, sem engum gögnum sé stutt, bresti því lagastoð.  Staðhæfingar stefnanda um yfirtöku á fyrirtæki hans fái ekki á nokkurn hátt staðizt og séu vanreifaðir, sbr. ítarlega umfjöllun í greinargerð aðalstefnda á dskj. nr. 63.

Þá sé ljóst, að allar kröfur stefnanda samkvæmt liðum 1-3 séu í eðli sínu kröfur, sem rísi af samningi um vinnu, enda ýmist reistar við það, að samningur eða samningsígildi hafi verið fyrir hendi, er eigi að veita honum rétt til að fá greidd verklaun, eða að ekki hafi verið staðið rétt að samningsslitum aðila.  Allar kröfur, sem rísi af samningi um vinnu, þar á meðal skaðabótakröfur vegna samningsrofa, fyrnist á 4 árum samkvæmt 1. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 og séu samkvæmt því löngu fallnar niður fyrir fyrningu.

Kröfur stefnanda, byggðar á því, að brotið hafi verið gegn höfundarrétti hans, fái ekki staðizt og séu vanreifaðar.  Ekki fái staðizt, að skipulag auglýsinga í símaskrá í stafrófsröð njóti höfundarréttarverndar samkvæmt höfundarlögum.  Stefnandi sé ekki höfundur stafrófsins, og það hafi ekki verið á hans valdi að taka ákvarðanir um fyrirkomulag á auglýsingum í símaskrá, en þær ákvarðanir hafi verið teknar af Póst- og símamálastofnun, sem gaf símaskrána út.  Uppsetning og staðsetning auglýsinga sé gerð samkvæmt óskum auglýsenda.  Engar auglýsingar séu birtar, nema þær, sem auglýsandi óski eftir, og ábyrgist auglýsandi sjálfur rétt sinn til birtingar þeirra.  Þá hafi nýir aðilar tekið upp nýjar vinnuaðferðir við sölu og vinnslu auglýsinga.

Staðhæfingar stefnanda um, að forrit, sem hann hafi látið gera og þróa, njóti höfundaréttarverndar samkvæmt höfundalögum, sé engum gögnum stutt.  Engin gögn liggi fyrir í málinu um meint forrit og því ókleift að tjá sig neitt frekar um það, hvort það uppfylli þau skilyrði, sem gerð séu að lögum, til að tölvuforrit geti notið höfundar­réttarverndar samkvæmt l. gr. höfundalaga.  Þá liggi engin gögn fyrir um, að stefnandi geti talizt handhafi höfundaréttar að þeim.

Engum gögnum sé heldur stutt, að Póstur og sími hafi á nokkurn hátt nýtt þau forrit við gerð auglýsinga í símaskrá 1994.  Sömu sjónarmið eigi við um svokallaðan viðskipta­mannalista stefnanda og meinta óheimila hagnýtingu hans.  Stofnunin sjálf hafi búið yfir tæmandi upplýsingum um skráða símnotendur, er höfðu með höndum atvinnu­starfsemi og lista yfir auglýsendur samkvæmt viðskiptamannabókhaldi sínu.  Meðal þess, sem verktaki átti að taka að sér samkvæmt 5. gr. útboðslýsingar á dómskjali nr. 15, hafi verið tölvuskráning allra aðila, sem senda ætti kynningarefni.  Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar á dómskjali nr. 44, bls. 8, og dómskjali nr. 68, hafi auglýsingar í símaskrá 1994 og síðar verið skráðar í nýtt kerfi, sem ekki byggði á því kerfi, sem stefnandi hafði notazt við og því ekki stuðzt við hugbúnað eða skráningarkerfi, sem stefnandi hafði notað.  Íslenzka auglýsingastofan hf., sem tók við söfnun auglýsinga í símaskrá 1994, hafi hannað eigin gagnagrunn, sem byggt hafi á eigin forsendum viðkomandi aðila, og sá gagnagrunnur hafi verið skráður í sérhannað hugbúnaðarkerfi, þróað upp úr Stólpa, viðskiptamannaforriti á þeirra vegum, sbr. dómskjal nr. 67, 69 og 70.

Kröfur stefnanda að því leyti, sem þær byggi á höfundarétti, hugverkaréttindi og skyldum réttindum, fái þannig ekki á nokkurn hátt staðizt, sbr. framangreint og ítarlega umfjöllun í greinargerð aðalstefnda á dómskjali nr. 63.  Af hálfu varastefnda sé tekið undir þau sjónarmið og vísað til þeirra.

Um kröfugerð stefnanda.

Ekki fái staðizt sú kröfugerð stefnanda að krefjast bæði greiðslu rekstrarkostnaðar og kostnaðar við að leggja niður fyrirtækið, eins og felist í reikningsgerð hans samkvæmt fyrsta kröfulið, og jafnframt bóta fyrir yfirtöku á fyrirtæki, eins og gert sé í þriðja lið.

Kröfulið eitt sé mótmælt.  Ekkert liggi fyrir um raunverulegan rekstrarkostnað fyrirtækis stefnanda á því tímabili, sem reikningurinn miðist við, og sé sá kröfuliður vanreifaður og ósannaður.  Til vara sé honum mótmælt sem allt of háum.  Öðrum kröfu­lið sé mótmælt sem vanreifuðum, en til vara sem allt of háum, enda áskilin þóknun samkvæmt reikningunum í engu samræmi við það framlag, sem afhending pöntunar­gagna útheimti.  Þriðja kröfulið stefnanda  "Bætur fyrir yfirtöku á fyrirtæki (fjártjón og miski)" sé mótmælt.  Sá kröfuliður sé algjörlega órökstuddur, og hafi stefnandi ekki skotið neinum stoðum undir tilvist hans.  Sérstaklega sé mótmælt, að bætur miðist við tvöfalda ársveltu og kröfum vegna endurnýjaðs tækja- og hugbúnaðar sem van­reifuðum og ósönnuðum.  Til vara sé þeim mótmælt sem allt of háum og krafizt stórkostlegrar lækkunar þeirra.

Miskabótakröfu stefnanda sé mótmælt sem án lagastoðar.  Sú krafa eigi enga stoð í höfundalögum, enda engin brot framin gegn rétti stefnanda samkvæmt þeim. Miskabótakröfu stefnanda sé til vara mótmælt sem allt of hárri og krafizt stórkostlegrar lækkunar hennar.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt.  Af stefnanda hálfu hafi aldrei verið hafðar uppi kröfur á hendur varastefnda fyrr en með stefnu í máli þessu, og sé því mótmælt, að dráttarvextir miðist við fyrri tíma en þingfestingu málsins.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Stefnandi fór fram á, að sakarefni málsins yrði skipt, þannig að fyrst yrði fjallað um bótaskyldu, en úrslausn um bótafjárhæð biði dóms.  Þeirri málaleitan var hafnað með ákvörðun dómara.

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar, auk stefnanda, vitnin, Gústaf Oscar Arnar, fyrrverandi forstjóri markaðs- og alþjóðadeildar Póst- og símamálastofnunar, Magnús Guðfinnsson, verkstjóri hjá Prentsmiðjunni Odda, Davíð Sverrisson sölumaður, sonur stefnanda, og Ævar Andri Rafnsson, sölustjóri hjá Íslenzku auglýsingastofunni.

Sýknukröfu sína byggir aðalstefndi í fyrsta lagi á tómlæti stefnanda við að halda kröfum sínum uppi, en stefnandi hafi í síðasta lagi í janúar 1996 mátt gera sér grein fyrir kröfum sínum, en málið sé fyrst þingfest í maí 2003.  Enn fremur byggir aðalstefndi á því, að kröfur stefnanda vegna reksturs auglýsingadeildar Símaskrárinnar síðari hluta árs 1993, samkvæmt reikning á dskj. nr. 25, dags. 21. október 1993, og umbeðin aukaverk séu fyrndar. 

Svo sem fram kemur í greinargerð stefnda og stutt er af gögnum málsins hefur stefnandi ekki gert reka að því, svo séð verði, að halda kröfum sínum upp á stefnda eða þá aðila, sem tóku yfir skuldbindingar viðsemjanda stefnanda, frá því á árinu 1996 og allt þar til 9. apríl 2003, sem síðan var fylgt eftir með stefnu, sem þingfest var 8. maí 2003.  Með vísan til 1. tl. 3. gr. l. nr. 14/1905 er krafa stefnanda, kr. 8.048.925, sem byggir á verkalaunum samkvæmt reikningi frá 21. október 1993 fyrnd.  Hið sama gildir um meint umbeðin aukaverk vegna tímabilsins 12. janúar 1994 til 5. september 1995.  Í hvorugu tilvikinu hefur stefnandi gert ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru til að slíta fyrningu.  Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af þessum kröfuliðum. 

Þriðji kröfuliðurinn í kröfugerð stefnanda er skaðabótakrafa vegna meintrar yfirtöku stefnda á fyrirtæki stefnanda, fjártjón og miski, kr. 48.548.400.  Fallast verður á með aðalstefnda, að stefnanda hafi mátt vera ljóst, eigi síðar en í janúar 1996, að stefndi hafnaði kröfum hans alfarið.  Frá árinu 1996 er ekki að finna nein samskipti aðila við stefnda vegna þessarar kröfu, fyrr en í apríl 2003, svo sem að framan greinir.  Liðu rúm 7 ár frá þessum síðustu samskiptum, þar til stefnandi setur kröfu sína fram, án þess að nokkur skýring hafi komið fram hjá honum á þessum drætti.  Verður ekki hjá því horft, að þessi langi tími, sem líður, án þess að málinu sé fylgt eftir, að því er gögn bera með sér, og þar til það er vakið á ný, geti haft afgerandi áhrif á möguleika stefnda til upplýsingaöflunar og sönnunarfærslu.  Þykir stefnandi hafa sýnt slíkt tómlæti við að halda uppi kröfum sínum, að sýkna ber aðalstefnda af bótakröfu hans, þegar af þeim sökum.

Í málinu er íslenzka ríkinu stefnt til vara, og byggir stefnandi kröfur sínar á hendur þessum stefnda á því, að hann beri ábyrgð, verði litið svo á, að hvorki stefnandi (sic í stefnu) né Póst- og fjarskiptastofnun hafi tekið við stjórnsýsluskuldbindingum Pósts og síma, eða að aðalstefndi beri nú ábyrgð á þeim skuldbindingum. 

Aðalstefndi hefur mótmælt því, að reglur stjórnsýsluréttar eigi við um réttarsamband aðila.  En með því að aðalstefndi er sýknaður af kröfum stefnanda á grundvelli fyrningar og tómlætis, reynir ekki á þessa málsástæðu stefnanda.  Verður því þegar af sömu sökum að sýkna varastefnda einnig af öllum kröfum stefnanda. 

Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.

Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu samkvæmt bréfi dómsmálaráðherra, dags. 24. marz 2003.  Þykir gjafsóknarkostnaður hæfilega ákveðinn kr. 800.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Aðalstefndi, Landsími Íslands hf., og varastefndi, íslenzka ríkið, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda, Sverris Kjartanssonar, í máli þessu. 

Aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 800.000, greiðist úr ríkissjóði.